Hæstiréttur íslands
Mál nr. 87/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Skuldabréf
|
|
Föstudaginn 31. mars 2000. |
|
Nr. 87/2000. |
Ingólfur Karl Sigurðsson(Jón Einar Jakobsson hdl.) gegn Helga Jóhannssyni(Ásgeir Thoroddsen hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf.
I krafðist þess að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem gert var að kröfu H á grundvelli skuldabréfs samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Vísaði hann til þess að skuldabréfið hefði verið greiðsla í kaupum, sem hann hefði rift með lögmætum hætti og gæti H því ekki krafist fullnustu á bréfinu. Talið var að varnir I sættu ekki takmörkunum 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með hliðsjón af því að H hefði fengið skuldabréfið úr hendi útgefanda þess, sem greiðslu samkvæmt kaupsamningi þeirra, þótti hann verða sæta því að I kæmi að mótbárum, sem lytu að lögskiptum þeirra að baki bréfinu. Hins vegar þótti I ekki hafa sýnt nægilega fram á að H ætti ekki þann rétt, sem skuldabréfið bar með sér. Ekki var á það fallist með I að annmarkar hefðu verið á greiðsluáskorun H eða beiðni hans um aðför, sem valdið gætu ógildingu fjárnámsins. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum I um ógildingu fjárnámsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson,
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 15. júlí 1999. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með þeirri breytingu að málskostnaður, sem honum var dæmdur, verði hækkaður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara var fyrrnefnt fjárnám gert með stoð í skuldabréfi að fjárhæð 900.000 krónur, sem sóknaraðili gaf út 1. apríl 1998 til handhafa. Meðal gagna málsins er bréf lögmanns sóknaraðila til varnaraðila 14. júlí 1999, þar sem vísað var til samnings, sem sóknaraðili hafi ásamt fleirum gert 1. apríl 1998 við varnaraðila um kaup á nafngreindu veitingahúsi á Benidorm á Spáni. Var staðhæft í bréfinu að kaupsamningnum hafi verið rift um sumarið 1998 vegna nánar tiltekinna vanefnda varnaraðila og jafnframt skorað á hann að afhenda umrætt skuldabréf og endurgreiða kaupverðið að öðru leyti ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Í málinu reisir sóknaraðili kröfu sína meðal annars á því að skuldabréfið hafi verið greiðsla í kaupum, sem hann hafi rift með lögmætum hætti vegna vanefnda varnaraðila. Sé varnaraðila af þessum sökum skylt að endurgreiða kaupverðið, meðal annars með afhendingu skuldabréfsins, sem hann geti því ekki krafist fullnustu á. Varnaraðili hefur ekki vefengt að skuldabréfið hafi verið greiðsla í áðurnefndum kaupum, en mótmælir hins vegar fullyrðingum sóknaraðila um vanefndir samningsins, auk þess að varnir á þeim grunni fái ekki komist að í málinu.
Ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður ekki beitt þegar leitað er fullnustu án undangenginnar málsóknar á kröfu samkvæmt skuldabréfi með fjárnámi í skjóli heimildar í 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Sæta varnir, sem sóknaraðila er heimilt að hafa uppi gegn kröfu varnaraðila, því ekki takmörkunum samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991. Í ljósi áðurnefnds málatilbúnaðar varnaraðila verður að leggja til grundvallar að hann hafi fengið skuldabréfið, sem um ræðir í málinu, úr hendi útgefanda þess sem greiðslu samkvæmt kaupsamningi þeirra. Af þeim sökum verður varnaraðili að sæta því að sóknaraðili fái að koma að í málinu mótbárum, sem lúta að lögskiptum þeirra að baki skuldabréfinu. Til þess verður hins vegar að líta að sóknaraðili hefur ekki lagt fram kaupsamninginn, sem hann kveður aðilana hafa gert 1. apríl 1998. Hann hefur heldur ekki gert viðhlítandi grein fyrir þeim atvikum, sem hann kveður hafa valdið riftun kaupanna. Þá kemur lítið sem ekkert fram í málinu um hvenær og hvernig hinu selda var skilað til varnaraðila. Að þessu gættu hefur sóknaraðili ekki sýnt nægilega fram á að varnaraðili eigi ekki þann rétt, sem skuldabréfið ber með sér.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki fallist á að annmarkar hafi verið á greiðsluáskorun varnaraðila eða beiðni hans um aðför, sem valdið geta ógildingu fjárnámsins.
Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ingólfur Karl Sigurðsson, greiði varnaraðila, Helga Jóhannssyni, 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 1999.
Málsaðilar eru:
Sóknaraðili er Ingólfur Karl Sigurðsson, kt. 310347-2139, Hólmgarði 62, Reykjavík.
Varnaraðili er Helgi Jóhannsson, kt. 230451-2069, Kleifarseli 49, Reykjavík.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 11. ágúst 1999 með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er 10. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 24. janúar sl. að afloknum munnlegum málflutningi.
Varnaraðili gerði kröfu til þess við þingfestingu málsins hinn 10. september 1999, að sóknaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 70.000 krónur.
Með úrskurði uppkveðnum 1. október s.á. var kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu hafnað. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem felldi dóm um kröfuna hinn 5. nóvember s.á. og gerði sóknaraðila að setja málskostnaðartryggingu í samræmi við kröfur varnaraðila. Sóknaraðili afhenti Héraðsdómi tryggingu fyrir málskostnaði að fjárhæð 70.000 krónur hinn 19. nóvember s.á.
Málið var síðan flutt munnlega hinn 24. janúar sl. og tekið til úrskurðar að því búnu.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-1999-08123 verði felld úr gildi og honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti. Þá krefst sóknaraðili þess, að málskot til Hæstaréttar fresti frekari fullnustuaðgerðum, verði niðurstaða dómsins sú, að hafnað verði ógildingu framangreindrar aðfarargerðar.
Varnaraðili gerir þær dómkröfur, að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði aðfarargerð nr. 011-1999-08123, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Reykjavík 15. júlí 1999. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda að mati réttarins.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Málavextir eru í stuttu máli þeir, að varnaraðili gerði fjárnám hjá sóknaraðila hinn 15. júlí 1999. Fjárnámið var gert á grundvelli skuldabréfs að fjárhæð 900.000 krónur, sem útgefið var af sóknaraðila 1. apríl 1998 með gjalddaga 1. ágúst. s.á. María Svandís Guðnadóttir, Þorkell Snorri Sigurðsson og Guðný Ingólfsdóttir voru sjálfskuldarábyrgðarmenn að skuldabréfinu. Sóknaraðili mætti við gerðina, ásamt Jóni Einari Jakobssyni hdl., lögmanni sínum. Við framkvæmd fjárnámsins, sem fram fór hjá Sýslumanninum í Reykjavík að Skógarhlíð 6 er eftirfarandi fært til bókar:
,,Gerðarþoli mótmælir kröfunni á þeim forsendum að hann hafi verið beittur misneytingu og sviksamlegum blekkingum við kaup á veitingahúsi á Spáni, en aðfararheimildin sé sprottin frá þeim viðskiptum. Jafnframt gerir gerðarþoli athugasemdir við lýsingu á aðfararheimild og sundurliðun kröfunnar. Hann telur hana ekki vera í samræmi við 10. gr. aðfl. Sömuleiðis er því haldið fram að greiðsluáskorun sé ekki í samræmi við 7. gr. aðfl. Lögmaður gerðarbeiðanda krefst þess að gerðinni verði fram haldið. Fulltrúi sýslumanns tilkynnir þá ákvörðun sína að gerðinni skuli fram haldið. Skorað er á gerðarþola að benda á eignir til tryggingar kröfunni. Lögmaður gerðarþola leggur fram ljósrit af bréfum sínum dags. 14. júlí sl. til gerðarbeiðanda og ríkislögreglustjóra merkt nr. 11 og 12. Lögmaður gerðarbeiðanda mótmælir þeim fullyrðingum sem fram koma í bréfum lögmanns gerðarþola sem röngum. Fulltrúi sýslumanns ákveður að gerðinni skuli fram haldið. Gerðarþoli kveðst benda á bifreiðina GU269, af gerðinni Saab árgerð 1982, sem er eign Fantasíu ehf., en gerðarþoli er einn eigandi félagsins. Lögmaður gerðarbeiðanda hafnar ábendingunni þar sem hún tryggi hvergi kröfuna. Fulltrúi sýslumanns metur bifreiðina að fjárhæð kr. 250.000,00. Gerðarþoli dregur aftur ábendinguna. Gerðarþoli kveður félagið Fantasíu ehf. engar aðrar eignir eiga. Gerðarþoli segist engar eignir eiga sem tryggt geti kröfu þessa. Gerðarbeiðandi krefst að fjárnámi verði lokið án árangurs og er svo gert með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989. Mættum er kynnt efni þessarar bókunar, sem engar athugasemdir eru gerðar við. Lögmaður gerðarþola lýsir því yfir að hann muni skjóta ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms.”
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili lýsir málavöxtum svo, eins og fram kemur í bókun sýslumanns, að hann, ásamt fleirum hafi keypt fyrirtækið Saga bar á Spáni af varnaraðila. Kaupverðið hafi numið 2.100.000 króna og hafi það verið greitt í peningum og með skuldabréfi að fjárhæð 900.000 krónur, en skuldabréfið sé tilefni þessa máls. Sóknaraðili heldur því fram, að varnaraðili hafi vanefnt samninginn. Hann hafi ekki verið eigandi að umræddum bar, fyrirtækið óskráð og varnaraðili hafi engin leyfi haft fyrir rekstri hans. Því hafi kaupunum verið rift með sérstakri yfirlýsingu og varnaraðili tekið aftur við rekstri fyrirtækisins nokkrum mánuðum eftir kaupin. Hann hafi hvorki fengist til að endurgreiða kaupverðið né skila aftur skuldabréfinu. Sóknaraðili telur því, að óeðlilegt og ósanngjarnt sé, að honum verði gert að greiða skuldabréfið og hafi lýst þessu yfir við aðfarargerðina og mótmælt því. Verði ekki fallist á riftun og um leið skilaskyldu varnaraðila á þeim fjármunum, sem hann greiddi beinlínis fyrir Sagabar, telur sóknaraðili, að hann eigi rétt á að benda á þessar eignir við fjárnámið og sé fyrirtækið þá a.m.k. kaupverðsins virði, þ.e. 2.100.000 krónur. Sóknaraðili kveðst á hinn bóginn hafa litið svo á við fjárnámsgerðina, að hann gæti vart talist lengur eigandi, eftir að hann hafði sjálfur lýst yfir riftun og varnaraðili tekið aftur við eigninni. Hann geti aftur á móti vart talist eignalaus með þær kröfur í höndum, sem hann eigi á varnaraðila um endurgreiðslu og meðan hann fái ekki kröfur sínar greiddar hjá varnaraðila, eigi hann að a.m.k. óbeinan eignarrétt að veitingastaðnum, þar sem sjálfsögð forsenda riftunar sé skil á greiddu kaupverði. Sóknaraðili telur sig hafa verið beittan misneytingu og sviksamlegum blekkingum í viðskiptum sínum við varnaraðila, og m.a. á þann hátt verið fenginn til að undirrita og afhenda umrætt skuldabréf og sé krafa varnaraðila óréttmæt. Sóknaraðili kveðst hafa leitað réttar síns með ósk um opinbera rannsókn á viðskiptunum og höfðun máls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til staðfestingar á riftun og kröfu um skil á skuldabréfinu. Því lítur sóknaraðili svo á, að sýslumanni hafi borið að synja um gerðina af þeim ástæðum eða a.m.k. fresta henni.
Sóknaraðili byggir ennfremur á því, að greiðsluáskorun og aðfararheimild varnaraðila sé svo verulega áfátt, að sýslumanni hafi borið að synja um gerðina ex officio og í síðasta lagi að kröfu sóknaraðila við gerðina, sbr. 7. og 10. gr. aðfl. nr. 90/1989. Þar sé m.a. um að ræða ranga lýsingu á höfuðstól bréfsins og vanlýsingu, ásamt óskiljanlegu orðafari í texta þessara skjala.
Loks telur sóknaraðili, að ekki hafi verið farið að lögum við gerðina sjálfa. Hann hafi bent á bifreið til tryggingar kröfu varnaraðila. Fulltrúi sýslumanns hafi metið bifreiðina þá þegar á skrifstofu sinni án virðingar og að óséðu á sitt eindæmi á aðeins 250.000 krónur. Gerðarbeiðandi hafi hafnað ábendingunni. Slík málsmeðferð fari m.a. í bága við 38. gr. og 63. gr. aðfl.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um meintar vanefndir, svik og misneytingu, sem röngum og algjörlega ósönnuðum.
Þá mótmælir varnaraðili því, að sóknaraðili fái að koma að vörnum, sem varði þau viðskipti, sem lágu til grundvallar útgáfu skuldabréfsins með vísan til 17. kafla laga nr. 91/1991 (eml.). Í 94 gr. aðfl. segi, að ákvæði eml. skuli gilda eftir því sem við geti átt um málsmeðferð sem þessa. Í greinargerð með 94. gr. aðfl. sé vísað til skýringa í greinargerð við 84. gr. sömu laga, en þar komi fram, að ákvæði 17. kafla skuli gilda, sé aðfarar krafist á grundvelli skuldabréfs.
Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila, að greiðsluáskorun sú, sem sóknaraðila var send áður en til fjárnámsins kom, hafi verið í ósamræmi við 7. gr. aðfl. Nægilegt sé samkvæmt lagaákvæði þessu, að tilgreina að aðfarar verði krafist fyrir skuld, ef áskoruninni verði ekki sinnt. Í lagaákvæðinu sé ekki að finna ítarleg fyrirmæli um það, hvernig hún skuli úr garði gerð. Fram komi í greinargerð við tilvitnað lagaákvæði, að lýsing kröfu verði að vera nægjanlega glögg, svo að gerðarþola megi vera ljóst, hvaða kröfu sé um að ræða. Komið hafi fram í kröfulýsingu þeirri, sem send var sóknaraðila, að um væri að ræða skuldabréf, útgefið af sóknaraðila 1. apríl 1998, upphaflega að fjárhæð 900.000 krónur, með gjalddaga 1. ágúst 1998. Ennfremur hafi sjálfskuldarábyrgðarmanna verið getið og vanskil tilgreind og aðfararheimild. Þá hafi einnig verið skorað á sóknaraðila að greiða skuldina að liðnum 15 dögum frá birtingu greiðsluáskorunarinnar. Sóknaraðila hafi því mátt vera ljóst, hver skuldin væri. Því sé greiðsluáskorunin í samræmi við 7. gr. aðfl. Útreikningur kröfu í greiðsluáskorun breyti engu, svo framarlega sem viðkomandi skuldara megi vera ljóst um hvaða skuld sé að ræða.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila, að aðfararbeiðni hans fari í bága við 10. gr. aðfl. Í umfjöllun í greinargerð við 1. mgr. 10. gr. komi fram, að aðfararbeiðni skuli gefa nægjanlega til kynna, hvaða kröfu sé um að ræða og enn- fremur að sundurliða þurfi fjárkröfu og reikna út miðað við þann tíma sem beiðnin sé gerð. Þessum skilyrðum hafi verið fullnægt í aðfararbeiðni þeirri, sem hér sé til umfjöllunar. Einnig komi fram hverjir séu aðilar hennar, við hvaða heimild hún styðjist og greinargóð lýsing á aðfararheimildinni. Þar segi að höfuðstóll sé nemi 939.895 krónum, en þess jafnframt getið, að upphafleg fjárhæð skuldabréfsins nemi 900.000 krónum. Dráttarvextir séu sundurliðaðir og áföllnum kostnaði lýst miðað við þann dag, sem aðfararbeiðnin var gerð. Hins vegar hafi verið slegið saman höfuðstól og áföllnum samningsvöxtum á gjalddaga og áföllnum bankakostnaði, samtals 39.895 krónur, enda hafi verið heimilt samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins að reikna dráttarvexti af allri skuldinni frá gjalddaga hennar og því hafi varnaraðili hækkað dráttarvaxtastofninn til samræmis, eins og tíðkist, sbr. og 2. mgr. 1. gr. aðfl.
Verði niðurstaða dómsins á þann veg að krafan hafi verið of há, þá leiði það aðeins til breytinga á fjárnámsgerðinni, sbr. 1. mgr. 95. gr. aðfl., sbr. til hliðsjónar Hrd.1996, bls. 445. Engin rök hnígi hins vegar til þess að fella fjárnámsgerðina úr gildi.
Varnaraðili mótmælir ennfremur þeirri málsástæðu sóknaraðila að meðferð sýslumanns hafi farið í bága við 38. gr. og 63. gr. aðfl. Sóknaraðili hafi engar athugasemdir gert við virðingu sýslumanns, hvorki aðferð né fjárhæð. Mótbárur hans nú séu því of seint fram komnar.
Varnaraðili heldur því einnig fram, að aðfl. byggi almennt á því, að aðfarargerð verði ekki frestað og að sýslumanni beri að taka ákvarðanir þegar í stað, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 27. gr. aðfl. Í 38. gr. aðfl. sé ekki gert ráð fyrir því, að aðfarargerð sé frestað í því skyni að virða hugsanlegt fjárnámsandlag. Krafa um sérstaka virðingu verði að koma frá málsaðilum, sem beri kostnað þar af. Sóknaraðili hafi átt þess kost að gera slíka kröfu hafi hann talið mat sýslumanns á verðmæti Saabbifreiðar þeirrar sem bent var á til fjárnáms, rangt eða vandasamt. Auk þess hafi ábendingin ekki dugað til tryggingar kröfunni. Því hafi varnaraðili mátt hafna ábendingu sóknaraðila og krefjast þess, að gerðinni yrði lokið án árangurs, eins og reyndin hafi orðið.
Varnaraðili mótmælir jafnframt því, að sóknaraðili geti tryggt umrædda kröfu með því að benda á veitingahús á Spáni. Engin gögn liggi fyrir til sönnunar þessarar síðbúnu eignaábendingu, né heldur hafi sóknaraðili getað tilgreint hana með fullnægjandi hætti eða upplýst um eignarhlut sinn. Í héraðsdómsmáli Y-6/1999 haldi María S. Guðnadóttir fram eignarétti í sömu eign. Sóknaraðili byggi á því, að hann hafi rift kaupsamningi við varnaraðila og því falli sú eignaábending um sjálfa sig.
Varnaraðili staðhæfir ennfremur, að endurgreiðslukrafa sóknaraðila geti ekki heldur verið andlag fjárnáms, sbr. 40. gr. aðfl. enda sé henni mótmælt sem rangri og ósannaðri. Auk þess sé augljóst að hugsanlegt fjárnám varnaraðila í meintri eign sóknaraðila á erlendri grundu geti ekki leitt til fullnustu og sé því tilgangslaust.
Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, sbr. 130. og 131. gr. eml., sbr. 94 gr. aðfl. enda sé málskot sóknaraðila með öllu tilefnislaust og tilgangslaust.
Forsendur og niðurstaða:
Skuldabréfi því, sem var aðfararheimild við aðfarargerð þá, sem um er deilt, er lýst hér að framan. Sóknaraðili hefur haldið því fram að ógilda beri aðfarargerðina vegna viðskipta þeirra sem að baki bréfinu liggja. Þau viðskipti sóknaraðila og varnaraðila sem lýst er í greinargerð sóknaraðila og hann vísaði til í málflutningi sínum geta ekki komið til álita við úrlausn máls þessa gegn mótmælum varnaraðila. Fyrir liggur að sóknaraðili gaf út handhafaskuldabréf það, sem hér er til umfjöllunar. Hann hefur ekki sýnt fram á neitt það, sem gæti leitt til þess, að skuldabréfi þessu skuli ekki fylgja öll þau réttindi sem það ber með sér, þ.m.t. heimild fyrir handhafa þess til að krefjast aðfarar til fullnustu kröfu samkvæmt því, skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-1999-08123 verður því ekki ógilt af framangreindum ástæðum.
Sóknaraðili byggir einnig kröfu sína um ógildingu aðfarargerðarinnar á þeirri forsendu, að greiðsluáskorun og aðfararbeiðni hafi verið svo áfátt, að sýslumanni hafi borið að synja um gerðina af sjálfsdáðum, m.a. hvað varði ranga lýsingu á höfuðstól skuldabréfsins og vanlýsingu, ásamt óskiljanlegu orðafari í texta þessara skjala. Um kröfu sína vísar sóknaraðili til 7. og 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Í 7. gr. aðfl. segir, að tekið skuli fram í greiðsluáskorun gerðarbeiðanda til gerðarþola, að aðfarar verði krafist fyrir skuldinni, sé áskorun ekki sinnt. Í skýringum við ákvæðið er tekið fram, að til þess sé ætlast, að í áskorun komi fram nægilega glögg lýsing á viðkomandi kröfu, svo að gerðarþola megi vera ljóst um hvaða kröfu sé að ræða. Greiðsluáskorun varnaraðila til sóknaraðila þykir hafa uppfyllt þetta lagaskilyrði. Skuld sóknaraðila er þar sundurliðuð með fullnægjandi hætti, kröfuhafi tilgreindur og lýsing á heimildarskjalinu sem byggt er á.
Í 10. gr. aðfl. eru fyrirmæli um, hvað fram skuli koma í aðfararbeiðni. Þar segir m.a. að þar skuli lýst, svo ekki verði um villst, hverjir gerðarbeiðandi og gerðarþoli séu og við hverja heimild beiðnin styðst. Í athugasemdum við ákvæðið er tekið fram, að meginatriðið sé, að efni beiðninnar sem slíkt gefi nægjanlega til kynna, hver sú krafa sé sem um er að ræða. Með vísan til þess sem sagt var um efni greiðsluáskorunar þeirrar er beint var til sóknaraðila, en aðfararbeiðnin er sama efnis, þykir hún hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í nefndu ákvæði 10. gr. aðfl., hvað lýsingu á aðfararheimild varðar.
Um orðafar í texta aðfararbeiðni og greiðsluáskorunar, sem sóknaraðili telur vera óskiljanlegt, er það að segja að í lok þessara skjala virðast hafa slæðst inn orð sem ekki eru í neinu sambandi við efni skjalanna. Um greinileg mistök er að ræða, sem valda þó engum misskilningi varðandi þau atriði sem máli skipta, þannig að valdið geti ógildi gerðarinnar af þeim sökum.
Sóknaraðili heldur því jafnframt fram að aðfararbeiðni uppfylli ekki skilyrði áðurnefndrar 10. gr aðfararlaga um nákvæma sundurliðun þeirrar fjárhæðar, sem krafist er fullnustu á.. Vísar sóknaraðili þar til þess að í sundurliðun á kröfunni er höfuðstóll tilgreindur sem kr. 939.895 í stað kr. 900.000. Varnaraðili hefur skýrt þennan mismun svo að þarna sé áföllnum samningsvöxtum á gjalddaga skuldarinnar bætt við upphaflega fjárhæð skuldabréfsins. Upphafleg fjárhæð bréfsins er hins vegar tilgreind í texta aftan við sundurliðunina í aðfararbeiðni, ásamt nánari lýsingu á bréfinu, þannig að sóknaraðila mátti vera fullljóst um, hvaða kröfu var að ræða, þrátt fyrir að nokkuð hafi skort á nákvæmni í sundurliðun kröfufjárhæðar af hálfu varnaraðila. Þetta atriði þykir því ekki eiga að valda ógildingu aðfarargerðar þeirrar sem beiðnin kvað á um, enda var sóknaraðili sjálfur viðstaddur gerðina, ásamt lögmanni sínum og var honum því innan handar að leita allra upplýsinga um kröfuna hjá lögmanni varnaraðila, sem einnig var þar staddur.
Sóknaraðili byggir ennfremur á því, að hann verði fráleitt talin eignalaus, þar sem hann sé eigandi að veitingastaðnum Sagabar á Spáni. Ekkert er bókað um það í gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík, að sóknaraðili hafi bent á þessa eign sína á Spáni né heldur þær greiðslur, sem varnaraðili veitti viðtöku við sölu eignarinnar til sóknaraðila. Sóknaraðili hefur engin gögn lagt fram, sem rennt geta stoðum undir þá fullyrðingu hans, að varnaraðili hafi selt honum einum umræddan veitingastað eða í félagi við aðra, sbr. mál nr. Y-6/1999, sem rekið er samhliða þessu máli. Sóknaraðili lagði fram riftunaryfirlýsingu við aðfarargerð sýslumanns, en hefur engin önnur gögn lagt fram til sönnunar þeim viðskiptum, sem hann kveðst hafa átt við varnaraðila. Varnaraðili hefur, eins og áður er getið, mótmælt riftun.
Það er álit dómsins, að varnaraðili þurfi ekki að sæta því, að sóknaraðili bendi á umrædda eign á Spáni, jafnvel þótt fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um eignarrétt hans að eigninni. Varnaraðili á þess engan kost að knýja fram fullnustu úr hendi sóknaraðila að íslenskum lögum með aðfararveði í fasteign eða lausafé, sem staðsett er á Spáni. Þessari málsástæðu sóknaraðila er því hafnað.
Að lokum telur sóknaraðili að ekki hafi verið farið að lögum við gerðina sjálfa og vísar þar til ákvæða 38. og 63. gr laga nr. 90/1989. Telur sóknaraðili að fulltrúa sýslumanns hafi ekki verið heimilt að virða upp á sitt eindæmi bifreið þá, er sóknaraðili benti á til tryggingar kröfunni, eins og lýst var í málavaxtalýsingu hér á undan.
Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skal sýslumaður, eftir nánar tilgreindum reglum, virða eign, sem taka má fjárnámi, ef málsaðili telur óvíst um verðmæti hennar. Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. getur sýslumaður kvatt til einn eða tvo menn, er sérþekkingu hafa, til að virða eign sem fjárnámi má taka, sé þess krafist við gerðina. Sóknaraðili var mættur við aðfarargerðina og gætti þar hagsmuna sinna. Hann gat, samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, krafist þess að bifreið sú, er hann benti á yrði virt af þar til kvöddum mönnum, ef hann sætti sig ekki við mat fulltrúa sýslumanns á verðmæti bifreiðarinnar, sem nam 250.000 krónum. Sóknaraðili gerði þetta ekki, en dró þess í stað ábendinguna til baka, þegar lögmaður varnaraðila hafði hafnað ábendingunni. Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist, að fulltrúi sýslumanns hafi ekki farið að fyrirmælum 38. gr. við mat á bifreið þeirri, er sóknaraðili benti á til tryggingar kröfunni.
Í 63. gr. segir að ekki sé rétt að ljúka fjárnámi án árangurs, sé bent á eign, sem að nokkru gæti nægt til tryggingar kröfunni, nema staðreynt hafi verið með virðingu skv. 2. eða 3. mgr. 38. gr. að hún nægi ekki til fullrar tryggingar. Ljóst þykir með vísan til þess sem áður sagði um virðingu fulltrúa sýslumanns á Saab-bifreið þeirri sem bent var á við aðfarargerðina, að skilyrðum tilvitnaðs ákvæðis var fullnægt til að fjárnámi yrði lokið án árangurs hjá sóknaraðila.
Samkvæmt framanrituðu verður því niðurstaða málsins sú, að hafnað er kröfu sóknaraðila máls þessa um að aðfarargerð nr. 011-1999-08123, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Reykjavík hinn 15. júlí 1999, verði felld úr gildi og ber því að staðfesta hana.
Málskot til Hæstaréttar skal fresta fullnustuaðgerðum.
Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem telst hæfilegur vera 30.000 kr.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, að aðfarargerð nr. 011-1999-08123, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Reykjavík hinn 15. júlí 1999, verði felld úr gildi og ber því að staðfesta hana.
Sóknaraðili, Ingólfur Karl Sigurðsson, greiði varnaraðila, Helga Jóhannssyni, 30.000 kr. í málskostnað.
Málskot til Hæstaréttar skal fresta fullnustuaðgerðum.