Hæstiréttur íslands

Mál nr. 287/2015


Lykilorð

  • Ærumeiðingar
  • Málshöfðunarfrestur
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 287/2015.

A

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

gegn

B

(Þórhallur H. Þorvaldsson hrl.)

Ærumeiðingar. Málshöfðunarfrestur. Skaðabætur. Gjafsókn.

Í málinu krafðist A þess að B yrði dæmd til refsingar fyrir að hafa viðhaft nánar tilgreind ummæli um sig í skýrslutökum hjá lögreglu og að B yrði gert að greiða sér miskabætur. Í forsendum héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að vísa bæri refsikröfum A frá dómi þar sem sá sex mánaða frestur sem kveðið er á um í 1. mgr. 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til höfðunar einkarefsimáls hafði verið liðinn er málið var höfðað. Talið var að þótt þessa hefði ekki verið getið í dómsorði, eins og rétt hefði verið samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, yrði að líta svo á að héraðsdómur hefði vísað kröfunum frá dómi. Þar sem A hafði ekki leitað endurskoðunar á þessu ákvæði með kæru var talið að umræddar refsikröfur kæmu ekki til úrslausnar fyrir Hæstarétti. Um miskabótakröfu A sagði Hæstiréttur að höfði sá, sem sakaður hefði verið um kynferðisbrot en það mál verið fellt niður, meiðyrðamál á grundvelli þeirra ummæla einna, sem kærandi hefði látið falla hjá lögreglu, væri ótækt að sönnunarbyrðin yrði lögð á stefnda í slíku máli þar sem staðhæfing stæði gegn staðhæfingu um hvað raunverulega hefði gerst. Þess í stað yrði þegar svo stæði á að gera þá kröfu til stefnanda að hann leiddi líkur að því að ekki hefði verið tilefni til að setja fram ásakanirnar, auk þess sem stefndi hefði gert það gegn betri vitund. Talið var að A hefði ekki leitt líkur að slíku í máli þessu og var B því sýknuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 6. febrúar 2015. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. mars sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 20. apríl 2015. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði dæmd til refsingar, aðallega samkvæmt 235. gr. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara samkvæmt 234. gr. sömu laga, fyrir að hafa viðhaft nánar tilgreind ummæli um sig í skýrslutöku hjá lögreglu 24. janúar 2011, 17. ágúst sama ár og 21. september 2012. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði gert að greiða sér 5.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2011 til 20. apríl 2013, en dráttarvöxtum eftir 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst þess aðallega að refsikröfu áfrýjanda verði vísað frá Hæstarétti og hinn áfrýjaði dómur staðfestur að öðru leyti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar hér fyrir dómi án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms er komist að þeirri niðurstöðu að vísa beri kröfum áfrýjanda um refsingu frá héraðsdómi þar sem frestur til að höfða mál til refsingar vegna áðurgreindra ummæla stefndu hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað, sbr. 29. gr. almennra hegningarlaga. Þótt þessa sé ekki getið í dómsorði, eins og rétt hefði verið samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður litið svo á að með þessu hafi héraðsdómur vísað kröfunum frá dómi, svo sem lög stóðu til. Þar sem áfrýjandi leitaði ekki endurskoðunar á þessu ákvæði með kæru, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. síðastgreindra laga, koma umræddar kröfur ekki til úrlausnar hér fyrir dómi.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir bar stefnda fram kæru á hendur áfrýjanda þar sem hún sakaði hann um að hafa nauðgað sér þrisvar í desember 2010 og janúar 2011 á veitingastað sem hann átti og rak og þar sem hún starfaði á þeim tíma. Við skýrslutöku hjá lögreglu í tilefni af þeirri kæru og kæru áfrýjanda á hendur henni vegna rangra sakargifta í hans garð viðhafði stefnda þau ummæli sem krafist er miskabóta fyrir. Síðar afhenti áfrýjandi lögreglu hljóðupptöku af samtali sínu við stefndu sem mun hafa átt sér stað í bifreið hans og hann taldi að fæli í sér sönnun um að hún hefði gegn betri vitund borið hann röngum sökum. Í kjölfar þess að áfrýjandi kom upptökunni á framfæri við lögreglu var tekin skýrsla af stefndu 22. ágúst 2013 þar sem hún ítrekaði að áfrýjandi hefði nokkrum sinnum haft kynferðismök við sig án samþykkis síns. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð þessa máls kvaðst stefnda hafa verið hrædd við áfrýjanda og óttast um líf sitt þegar samtal þeirra hafi farið fram að hans frumkvæði. Að þessu virtu verður að líta framhjá því, sem fram kemur á framangreindri hljóðupptöku, þegar leyst er úr málinu.

Höfði sá, sem sakaður hefur verið um kynferðisbrot en það mál verið fellt niður, meiðyrðamál á grundvelli þeirra ummæla einna, sem kærandi hefur látið falla hjá lögreglu, er ótækt að sönnunarbyrðin verði lögð á stefnda í slíku máli þar sem staðhæfing stendur gegn staðhæfingu um hvað raunverulega gerðist. Þess í stað verður þegar svo stendur á að gera þá kröfu til stefnanda að hann leiði líkur að því að ekki hafi verið tilefni til að setja fram ásakanirnar, auk þess sem stefndi hafi gert það gegn betri vitund. Samkvæmt því, sem áður er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms hefur áfrýjandi ekki leitt líkur að slíku í máli því sem hér um ræðir. Verður héraðsdómur af þeim sökum staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.

Gjafsóknarkostnaður stefndu hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði, svo sem fram kemur í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, A, greiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2014.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. október sl., er höfðað af A, [...], [...], á hendur B, [...], [...], með stefnu birtri 20. mars 2013.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir að hafa gegn betri vitund viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir um stefnanda, sem fólust í að stefnandi hefði þrívegis nauðgað henni og beitt konur ítrekað kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi, í skýrslutökum hjá lögreglu þann 24. janúar 2011, 17. ágúst 2011 og 21. september 2012 og þannig brotið gegn 234. gr., 235. gr. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna „með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2011 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr. til greiðsludags“. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Stefnda krefst þess að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og ekki væri um gjafsóknarmál að ræða.

II.

Hinn 24. janúar 2011 kærði stefnda stefnanda til lögreglunnar í Reykjavík fyrir að hafa þrisvar nauðgað sér á tímabilinu desember 2010 til janúar 2011 á veitingastaðnum [...] í [...]. Stefnandi var á þeim tíma eigandi veitingastaðarins [...], sem rak umræddan veitingastað, og var hann jafnframt framkvæmdastjóri staðarins. Stefnda mun á þeim tíma hafa starfað á veitingastaðnum en stefnandi skýrði svo frá í lögregluskýrslu að hún hefði þann starfa að „drekka áfengi með kúnnum“. Á grundvelli kæru stefndu féllst Héraðsdómur Reykjavíkur hinn 16. febrúar 2011 á beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að heimila húsleit á heimili stefnanda og á veitingastaðnum [...]. Fór húsleitin fram hinn 24. sama mánaðar auk þess sem stefnandi var handtekinn kl. 09.14 þann dag. Hald var lagt á tölvugögn við leitina meðal annars til athugunar á því hvort þar væri klámefni að finna, en fyrir liggur að ekkert slíkt fannst við þá skoðun. Að lokinni yfirheyrslu kl. 16.22 sama dag var stefnda sleppt úr haldi lögreglu.

Eftir frekari skýrslutökur lögreglu og rannsókn málsins, meðal annars athugun á upptökum úr öryggismyndavélum veitingastaðarins, tilkynnti lögreglustjóri stefnanda, með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, að ekki þætti lengur grundvöllur fyrir frekari rannsókn málsins og að henni hefði því verið hætt. Í framhaldi af því, eða með bréfi, dags. 2. desember sama ár, lagði stefnandi fram kæru hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur stefndu og eiginmanni hennar fyrir rangar sakargiftir skv. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ærumeiðingar skv. 236. gr. sömu laga. Var kæru þessari upphaflega vísað frá hinn 30. apríl 2012, með vísan til þess að það væri mat lögreglustjóra að ekki væru efni til að hefja lögreglurannsókn á hinum meintu brotum. Stefnandi kærði hins vegar þessa ákvörðun lögreglustjórans til ríkissaksóknara, sem felldi hana úr gildi með bréfi dags. 15. júní sama ár. Var þar lagt fyrir lögreglustjóra að taka skýrslur af kærðu í málinu og bera undir þau sakarefnið.

Skýrsla var tekin hjá lögreglu af stefnanda sem kæranda þess máls hinn 14. september sama ár, þar sem hann áréttaði kæruna. Jafnframt lagði hann fram til sönnunar á sakleysi sínu vegna nauðgunarkærunnar skýrslu af manni, sem skýrt hefði frá því hjá lögreglu að eiginmaður stefndu hefði ætlað að kúga fimm milljónir króna út úr honum vegna málsins. Við skýrslutökur af stefndu 21. og 22. sama mánaðar neitaði hún sök og sagðist standa við sinn framburð sem hún hefði áður gefið hjá lögreglu um að stefnandi hefði nauðgað sér í þrígang á skrifstofu hans á umræddum veitingastað. Hefði hvorki eiginmaður hennar né nokkur annar haft áhrif á þann framburð. Með bréfi lögreglustjóra, dags. 2. nóvember 2012, tilkynnti hann aðilum á ný, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að frekari rannsókn málsins hefði verið hætt. Kærði stefnandi þá ákvörðun til ríkissaksóknara með bréfi, dags. 16. sama mánaðar, en ríkissaksóknari staðfesti þá ákvörðun lögreglustjórans hinn 17. desember sama ár.

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af báðum aðilum málsins og jafnframt vitnunum C, D, E, F og G.

III.

Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á því að stefnda hafi í samráði við eiginmann sinn reynt að setja á svið atburðarás í því skyni að valda stefnanda fjárhagslegu og persónulegu tjóni. Hafi hún með ummælum sínum hjá lögreglu gróflega vegið að stefnanda. Hún hafi borið stefnanda alvarlegum sökum, virðingu hans og æru til hnekkis. Sé því haldið fram að ummæli stefndu í heild eða í einstökum atriðum hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda og brotið gegn friðhelgi hans. Ummælin séu röng, sett fram gegn betri vitund og feli í sér brot gegn 235. gr. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga. Með ummælum sínum hafi stefnda komið því til leiðar að stefnandi hafi þurft að sæta frelsissviptingu og sitja undir ásökunum um að hafa framið brot sem varðað geti allt að 16 ára fangelsisvist. Misræmi, sem komið hafi fram í framburði stefndu hjá lögreglu, afhending fatnaðar til lögreglu sem hún hafi ekki klæðst þegar meint brot hafi átt að vera framin og lýsingar á áverkum sem ekki geti staðist bendi til þess að annarlegar hvatir hafi legið að baki þessum ásökunum hennar. Sé því hafnað að það leysi stefndu undan ábyrgð vegna ærumeiðinga að um sé að ræða ummæli sem höfð hafi verið uppi við skýrslutöku hjá lögreglu vegna nauðgunarkæru hennar, enda hefði hún og viðhaft þar ummæli um að stefnandi hefði ítrekað beitt aðrar konur kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Þá breyti heldur engu í þessu sambandi að ríkissaksóknari hafi ekki viljað ákæra stefndu fyrir rangar sakargiftir.

Á því sé og byggt að með ummælum sínum hafi stefnda brotið freklega gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, sem njóti verndar skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Feli brotin í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og því hafi stefnda fellt á sig miskabótaábyrgð, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

IV.

Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að framburður hennar við skýrslutökur hjá lögreglu hafi verið sannleikanum samkvæmur. Kveðst hún hafa átt mjög erfitt með að segja frá þessum atburðum og kæra þá til lögreglu, einkum vegna þess að eiginmaður hennar og stefnandi hafi verið góðir vinir á umræddum tíma og hafi hún því ekki viljað særa eiginmann sinn með frásögn sinni. Eiginmaðurinn hafi hins vegar séð að henni leið mjög illa og hafi hann því farið með hana á bráðamóttöku Landspítalans þar sem hún hafi verið lögð inn. Í kjölfarið hafi hann farið með hana til Stígamóta þar sem hún hafi verið hvött til að kæra. Stefndu hafi hvorki verið ljúft né létt að segja frá þessum atburðum og beri skýrslur hennar hjá lögreglu því vitni, ásamt því að túlkunarerfiðleikar hafi leitt til talsverðs misskilnings og rangfærslna í skýrslunum.

Staðfest sé með fyrirliggjandi vottorði frá yfirlækni geðdeildar Landspítalans, dags. 14. maí 2013, að stefnda hafi í þrígang legið inni á móttökugeðdeild spítalans. Hafi hún fyrst verið lögð þar inn [...] janúar 2011 og þá vegna sjálfsvígshættu og alvarlegra streituviðbragða í kjölfar nauðgana. Staðfesti læknirinn að stefnda hafi þá verið með veruleg einkenni um áfallastreituröskum. Fram komi og að stefnda hafi áfram verið með mikil einkenni og verið lögð þar inn á ný og verið inniliggjandi [...]-[...] febrúar það ár, auk þess að sækja sálfræðiviðtöl á geðdeildinni vegna þessara einkenna. Stefnda hafi loks verið inniliggjandi í þriðja sinn á móttökugeðdeild [...]-[...] september sama ár og þá verið í miklu uppnámi og alvarlegri sjálfsvígshættu. Bendi stefnda á að þá hafi henni nýlega verið tilkynnt um niðurfellingu málsins, sem hafi fengið verulega á hana.

Ljóst sé að stefnda sé enn í mikilli vanlíðan vegna brota stefnanda gegn henni, sérstaklega þegar hún þurfi að rifja upp frásögn sína af þessum atburðum. Hafi komið fram hjá lækninum að slíkt sé dæmigert einkenni fyrir konur sem verði fyrir slíkum brotum og verði síðan að þola að frásögn þeirra sé ekki trúað. Við það bætist síðan í þessu máli að fullyrt sé að stefnda hafi skáldað frásagnir þessar, sagt ósatt til að sverta mannorð stefnanda og að þetta hafi verið samantekin ráð stefndu og eiginmanns hennar, trúlega í ávinningsskyni.

Málsatvikalýsingum og málsástæðum stefnanda sé því alfarið mótmælt sem röngum, svo og orðalagi í stefnu, sem allt sé stefndu í óhag, auk þess að vera bæði rangt og villandi. Sérstaklega sé hafnað fullyrðingum stefnanda um að stefnda hafi gegn betri vitund viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir um stefnanda í skýrslutökum hjá lögreglu er hún greindi frá nauðgunum og ofbeldi hans gagnvart sér og jafnframt kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi hans gagnvart öðrum konum.

V.

Niðurstöður

Stefnandi gerir í fyrsta lagi þá dómkröfu að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir að hafa þrívegis í skýrslutökum hjá lögreglu, gegn betri vitund, viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir um stefnanda um að hann hefði þrívegis nauðgað henni og jafnframt beitt konur ítrekað kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Hafi stefnda með þessu brotið gegn 234., 235. og 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 242. gr. sömu laga getur sá einn sem misgert er við höfðað mál út af öðrum brotum skv. XXV. kafla almennra hegningarlaga en þeim sem sérstaklega eru tilgreind í 1. og 2. tl. ákvæðisins. Þar sem brot gegn framangreindum lagaákvæðum eru þar ekki tilgreind var stefnanda heimilt að höfða mál þetta sem einkarefsimál. Hins vegar kemur fram í 29. gr. sömu laga að heimild til að höfða einkamál til refsingar falli niður sé mál ekki höfðað áður en sex mánuðir eru liðnir frá því sá sem heimildina hefur fékk vitneskju um hinn seka. Eins og áður er fram komið var rannsókn lögreglu, sem hófst með kæru stefndu í janúar 2011 vegna meintrar nauðgunar stefnanda, felld niður hinn 31. ágúst það ár. Verður að telja að eigi síðar en þá teljist stefnanda hafa fengið „vitneskju um hinn seka“ í skilningi tilvitnaðs ákv. 29. gr. Var tilgreindur sex mánaða málshöfðunarfrestur því liðinn er mál þetta var höfðað hinn 20. mars 2013 og heimild stefnanda til að hafa uppi refsikröfu í einkamáli því niður fallin. Leiðir það til þess að vísa ber þessum kröfulið sjálfkrafa frá dómi.

Stefnandi krefst þess í öðru lagi að stefndu verði gert að greiða honum miskabætur. Vísar hann hvað það varðar til þess að ummæli stefndu í skýrslum hennar hjá lögreglu hafi verið ósönn, óviðurkvæmileg og til þess fallin að varpa rýrð á stefnanda. Hafi hún með ummælum sínum brotið freklega gegn friðhelgi einkalífs hans, sem njóti verndar skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Feli brot þessi í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og hafi stefnda með því fellt á sig miskabótaábyrgð, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Eins og áður segir voru ummæli stefndu sem kröfur stefnanda lúta að sett fram við skýrslutökur hjá lögreglu. Fyrst vegna kæru hennar sjálfrar á hendur stefnanda fyrir nauðgun og síðan einnig vegna kæru stefnanda á hendur henni og eiginmanni hennar fyrir rangar sakargiftir og ærumeiðandi aðdróttanir. Eftir hefðbundna rannsókn lögreglu á atburðum, þar á meðal ítrekaðar skýrslutökur af aðilum, komust lögregluyfirvöld að þeirri niðurstöðu, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að hætta bæri frekari rannsókn málanna. Staðfesti ríkissaksóknari þá niðurstöðu vegna síðarnefndu kærunnar og er í niðurstöðu hans vísað til þess að stefnandi og stefnda, sem hafi haldið fast við sinn framburð um hvað gerst hafi á skrifstofunni umrætt sinn, væru ein til frásagnar um það hvað þar hefði gerst og standi því í raun orð gegn orði hvað það varði. Þá hafi stefnda fyrir sitt leyti gefið skýringar á hegðan sinni á þeim myndbandsupptökum sem liggi fyrir í málinu og sagt að stefnandi hefði skipað henni að haga sér eðlilega svo ekki vöknuðu grunsemdir hjá öðru starfsfólki.

Stefnandi hefur lagt fram í máli þessu hljóðritun hans af samtali sem hann kveðst hafa átt við stefndu í bifreið hans, en þar komi fram staðfesting hennar á því að hún hafi ranglega sakað stefnanda um nauðgun. Óumdeilt er að upptaka þessi var gerð án vitneskju stefndu. Var upptakan afhent lögreglu og var stefnda í framhaldi yfirheyrð um innihald hennar án þess að það leiddi til neinnar breytingar á framburði hennar um málsatvik. Hefur hún og ítrekað hér fyrir dómi fyrri staðhæfingar sínar, er í upphafi leiddu til þess að hún kærði málið til lögreglu, og neitað staðhæfingum stefnanda um að þær væru tilefnislausar og gefnar gegn betri vitund.

Í skýrslu vitnisins C við aðalmeðferð málsins kom fram að stefnda hefði oftar en einu sinni skýrt vitninu frá því að ásakanir stefndu á hendur stefnanda um nauðgun væru upplognar. Við mat á sönnunargildi þessa framburðar verður að horfa til þess að vitnið upplýsti við upphaf skýrslutökunnar að hún væri vinur stefnanda. Að virtu framangreindu, og þar sem frekari gögn til stuðnings staðhæfingum stefnanda eru ekki komin fram í málinu, verður ekki talið að fram sé komin sönnun um að umræddar staðhæfingar stefndu um stefnanda í skýrslum hennar hjá lögreglu hafi verið algjörlega að tilefnislausu og settar fram gegn betri vitund. Samkvæmt því getur tilgreindur framburður stefndu í lögregluskýrslum ekki orðið grundvöllur fyrir miskabótakröfu stefnanda og verður stefnda því sýknuð af henni.

Stefnandi greiði í ríkissjóð 800.000 krónur í málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, sem ákveðst 800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefnda, B, er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Stefnandi greiði í ríkissjóð 800.000 krónur í málskostnað. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 800.000 krónur.