Hæstiréttur íslands

Mál nr. 251/2009


Lykilorð

  • Frelsissvipting
  • Líkamsárás
  • Sakartæming
  • Skilorð
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. desember 2009.

Nr. 251/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Frelsissvipting. Líkamsárás. Sakartæming. Skilorð. Sératkvæði.

X var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung með því að hafa inn á baðherbergi slegið A, þáverandi eiginkonu sína, margsinnis með krepptum hnefa og flötum lófa í andlitið, tekið hana kverkataki með báðum höndum og svo hálstaki og í bæði skiptin þrengt svo að hálsi hennar þannig að hún náði ekki andanum og tekið í hár hennar og skellt höfði hennar fjórum sinnum í vegg baðherbergisins. Þá var X einnig gefið að sök að hafa á meðan á árásinni stóð, varnað því að A gæti yfirgefið baðherbergið. X játaði háttsemi sína að hluta. Talið var sannað að X hefði veitt A fleiri en eitt hnefahögg þótt ekki yrði fullyrt um fjölda þeirra. Þá hafði X viðurkennt fyrir dómi að hafa hrint A eða hent henni frá sér þrisvar til fjórum sinnum í vegg baðherbergisins og kvað hann ekki ólíklegt að við það hefði höfuð hennar farið í vegginn. Var þetta talið jafngilda því ákæruatriði að hafa skellt höfði hennar í vegginn. X hafði viðurkennt að hafa tekið A kverkataki og sannað þótti að hann hefði jafnframt tekið hana hálstaki en ekki þótti sýnt fram á í málinu að X hefði með háttseminni valdið A andnauð. Var líkamsárás X sérlega vítaverð, harkaleg og margþætt og stóð yfir í um 30 mínútur. Bar A talsverða áverka eftir hana, sem þó reyndust ekki varanlegir eða lífshættulegir. Var því ekki fallist á það með héraðsdómi að heimfæra ætti líkamsárás X undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 heldur þótti brotið varða við 217. gr. sömu laga. Árásin átti sér stað inni á litlu baðherbergi, var ofsafengin og varði í alllangan tíma og þótti ljóst að A átti þess ekki kost að komast út og að ákærði hefði reynt að koma í veg fyrir að hún kallaði á hjálp. Hefði X með þessari háttsemi gerst brotlegur við 225. gr. almennra hegningarlaga en það ákvæði var talið tæma sök gagnvart 217. gr. sömu laga. Var refsing X ákveðin fangelsi í níu mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið í fjögur ár. Þá var niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi greiða A skaðabætur að fjárhæð 500.000 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum staðfest. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, og að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af þeim verkþáttum ákæru „sem hann neitaði sök í“ og að refsing verði milduð.

Brotaþoli, A, skilaði greinargerð í málinu, en þar er ekki að finna kröfu um breytingu á bótaákvörðun héraðsdóms og ekki var mætt af hennar hálfu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Litið er svo á að hún krefjist staðfestingar héraðsdóms um bótaþátt málsins.

Ákærða er gefin að sök ólögmæt nauðung og sérstaklega hættuleg líkamsárás með háttsemi sem nánar er lýst í ákæru. Hann neitar nokkrum verknaðarþáttum en játar aðra. Nánar tiltekið neitar hann að hafa slegið brotaþola margsinnis með krepptum hnefa í andlitið, að hafa tekið hana hálstaki og að hafa valdið henni andnauð, að hafa tekið í hár hennar og skellt höfði hennar fjórum sinnum í vegg. Þá neitar hann að hafa meinað henni að fara út úr baðherberginu þar sem árásin átti sér stað.

Læknir sem skoðaði brotaþola á slysadeild og ritaði áverkavottorð gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Bar hann að vissir áverkar hennar hefðu bent til hnefahögga og gætu vart stafað af venjulegum löðrungum. Sendi hann brotaþola í varúðarskyni í sneiðmyndatöku. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að ákærði hafi gerst sekur um þá verknaðarþætti líkamsárásarinnar sem hann er þar sakfelldur fyrir, þó þannig að sannað er að ákærði veitti brotaþola fleiri en eitt hnefahögg þó ekki verði fullyrt um fjölda þeirra. Að auki hefur ákærði viðurkennt fyrir dómi að hafa hrint brotaþola eða hent henni frá sér þrisvar til fjórum sinnum í vegg baðherbergisins og kvað hann ekki ólíklegt að við það hafi höfuð hennar farið í vegginn. Þykir hann með þessum hætti einnig hafa sýnt af sér háttsemi sem rúmast innan þeirrar verknaðarlýsingar ákæru að hafa skellt höfði hennar í vegginn og verður hann sakfelldur fyrir það.

Líkamsárás sú sem ákærði er hér sakfelldur fyrir verður að teljast sérstaklega vítaverð. Hún var harkaleg, margþætt og stóð yfir í um 30 mínútur. Bar brotaþoli talsverða áverka eftir hana, sem þó reyndust ekki varanlegir eða lífshættulegir. Þegar afleiðingar árásarinnar eru metnar og þær ályktanir sem af þeim verða dregnar, verður á hinn bóginn ekki fallist á með héraðsdómi að brotið verði heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 heldur þykir það varða við 217. gr. þeirra laga.

Árásin átti sér stað inni á litlu baðherbergi, var ofsafengin og varði í alllangan tíma. Er ljóst að brotaþoli átti þess ekki kost að komast út og að ákærði reyndi að koma í veg fyrir að hún kallaði á hjálp. Var það ekki fyrr en þegar ákærði opnaði baðherbergið til að svara syni þeirra, að brotaþola gafst tækifæri til að losna og hljóp hún þá út skólaus og kápulaus. Upplýst er að nágranni hafði heyrt hróp hennar. Sagði ákærði fyrir dómi að hún hefði getað komist út með því einfaldlega að svara tilgreindri spurningu hans. Þykir enginn vafi að ákærði hafi gerst brotlegur við 225. gr. almennra hegningarlaga með því að hindra með barsmíðum og líkamsstöðu sinni að brotaþoli kæmist út úr herberginu og verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu vegna þessa þáttar ákæru með vísan til forsendna hans að öðru leyti. Ákvæði 225. gr. almennra hegningarlaga tæmir sök gagnvart 217. gr. sömu laga.

Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu fyrir ofbeldisbrot. Með vísan til framangreindra atriða um hversu harkalegt brot ákærða var þykir mega staðfesta ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða, þó þannig að rétt þykir að lengja skilorðstíma eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu skaðabóta til brotaþola og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til þess að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum fjórum árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 304.049 krónur, að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda hans, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Í verknaðarlýsingu ákæru er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa slegið þáverandi eiginkonu sína „margsinnis með krepptum hnefa og flötum lófa í andlitið“. Ákærði játaði fyrir dómi að hafa „hugsanlega“ slegið brotaþola einu sinni með krepptum hnefa í andlit. Læknir sá sem ritaði áverkavottorð um brotaþola og kom fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar var ekki spurður beinlínis um hvort draga mætti ályktun um fjölda hnefahögga af áverkunum á andliti konunnar. Af svörum hans má ráða að ekki sé útilokað að höggin hafi einungis verið með flötum lófa, þó að hann hafi hallast mjög ákveðið að því að meira hafi komið til. Tel ég samkvæmt þessu eitt hnefahögg sannað og því ekki sannað að ákærði hafi slegið brotaþola margsinnis með krepptum hnefa í andlitið svo sem lagt er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi.

Með þessari athugasemd tel ég að staðfesta beri með vísan til forsendna úrlausn héraðsdóms um þá háttsemi sem ákærði er þar sakfelldur fyrir. Ég er sammála meirihluta Hæstaréttar um heimfærslu brots ákærða til refsiákvæða og niðurstöðu meirihlutans um refsiákvörðun, skaðabætur og sakarkostnað.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2009.

I

    Málið, sem dómtekið var 27. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 21. nóvember 2008 á hendur „X, kennitala og heimilisfang [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 4. febrúar 2008, á baðherbergi í íbúð að [...] í Reykjavík, slegið A, þáverandi eiginkonu sína, margsinnis með krepptum hnefa og flötum lófa í andlitið, tekið hana kverkataki með báðum höndum og svo hálstaki og í bæði skiptin þrengt að hálsi hennar þannig að hún náði ekki andanum, tekið í hár hennar og skellt höfði hennar fjórum sinnum í vegg baðherbergisins. Á meðan á árásinni stóð varnaði ákærði því að A gæti yfirgefið baðherbergið. A hlaut af þessu mikla bólgu yfir báðum kinnbeinum, verulegt mar í kringum vinstra auga, minna glóðarauga hægra megin, mar og bólgu yfir nefrót, mikið mar beggja vegna á gagnaugasvæði, útbreiddar húðblæðingar á öllum hálsinum auk eymsla yfir vöðvum bæði framan og aftan til á hálsi.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. febrúar 2008 til 4. ágúst 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar við réttargæslu úr hendi ákærða.“

Ákærði neitar sök að hluta til eins og rakið verður. Hann krefst vægustu refsingar og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.

II

    Málavextir eru þeir að lögreglan var kvödd að [...], en þar hafði konan rokið út eftir að eiginmaður hennar hafði lagt á hana hendur, eins og segir í frumskýrslu lögreglu.  Lögreglan hafði tal af ákærða sem skýrði frá því að sonur sinn hefði sagt sér frá því að maður væri að heimsækja móður hans þegar ákærði væri í vinnu og hefði þetta gerst nokkrum sinnum. Ákærði kvaðst hafa krafið konuna um skýringu þennan dag en ekki fengið. Í framhaldinu hefðu þau rifist inni á baðherbergi og hefði hann slegið hana utan undir með flötum lófa og hún bitið hann í fingur. Hún hefði ekki sleppt bitinu fyrr en hann hefði slegið hana nokkrum sinnum með krepptum hnefa í andlitið. Konan hefði rokið út og hefði hann óttast um hana og hringt í Neyðarlínuna. Lögreglumenn fóru á slysadeild og höfðu tal af brotaþola. Hún kvað ákærða hafa komist að því að hún hefði nokkrum sinnum rætt við mann í síma og haldið að um framhjáhald væri að ræða. Fyrr þennan dag hefði ákærði farið út kl. 19.00 eftir að þau höfðu rifist um þetta en hringt svo í sig um kl. 20.00, hótað sér öllu illu og sagt sér að fara að heiman. Hann hefði svo komið heim og þau farið að rífast og í framhaldinu hefði hann ráðist á hana. Brotaþoli kvað ákærða hafa ítrekað slegið sig hnefahögg í andlitið, hrint sér og kastað sér utan í vegg. Þá sagði hún hann hafa reynt að kyrkja sig tvívegis og í seinna skiptið hafi hún verið við það að líða út af.  Ákærði hefði sagt við hana þú ferð ekki héðan út nema dauð.

    Samkvæmt skýrslunni báru ummerki í baðherbergi vott um átök. Hurð á innréttingu var brotin af og sjá mátti blóðbletti á gólfi. Einnig var spegill í gangi brotinn og kvaðst ákærði hafa brotið hann í bræðikasti.

    Brotaþoli fór á slysadeild til skoðunar og segir í vottorði Friðriks Sigurbergssonar læknis að hún hafi skýrt frá því að hún hefði „orðið fyrir árás sambýlismanns sem kýldi hana mjög oft í andlitið með krepptum hnefa. Hún segir að hann hafi tekið hana hálstaki í eitt skipti og síðan kyrkingartak í annað skipti. Þetta átti sér stað um kl. 20:00, eða tæpri 1½ klst. fyrir komu á slysadeild. Hún kveðst hafa orðið fyrir samfelldu ofbeldi í um 45 mínútur þar til hún slapp út. Kemur í beinu framhaldi af því að slysadeild. Skoðun: A kemur vel fyrir, engin merki áfengis eða lyfja, hún er róleg. Kvartar yfir verk í andliti og höfuðverk og auk þess verk í hálsi.  Við skoðun er hún mjög bólgin yfir báðum kinnbeinum og sérstaklega þó vinstra megin þar sem hún er verulega bólgin. Hún er hvellaum viðkomu yfir kinnbeinum og það er verulegt mar í kringum vinstra auga. Það er mar og bólga yfir nefrót, ekki að sjá skekkju á nefi. Það er mikið mar beggja vegna á gagnaugasvæði. Tennur eru heilar og neðri kjálki virðist eðlilegur og tannbit er eðlilegt. Við skoðun á hálsi eru útbreiddar húðblæðingar á öllum hálsinum, þó sérstaklega hægra megin, og hún er hvellaum viðkomu yfir vöðvum bæði framan- og aftan til á hálsi.“ Vegna gruns um brot voru teknar röntgenmyndir en þær sýndu ekki brot. Í lok vottorðsins segir að áverkar brotaþola samrýmist því að hún hafi orðið fyrir endurteknum höggum í andlitið auk þess að vera tekin hálstaki. Áverkarnir séu í raun ekki alvarlegir og hún muni ná sér að fullu af þeim á 2-3 vikum.

    Á slysadeildinni voru teknar margar ljósmyndir af áverkum brotaþola og eru þær meðal gagna málsins.

III

    Ákærði skýrði svo frá við aðalmeðferð að hann hefði fengið að vita hjá sex ára syni sínum og brotaþola að karlmaður hefði verið á heimilinu og fór hann þá að heiman þennan dag, 4. febrúar 2008. Hann hringdi svo heim og bað brotaþola að fara að heiman þar eð hann væri mjög reiður. Hálftíma síðar var hún ekki farin er hann kom heim. Hann kvaðst hafa viljað fá að vita hver maðurinn væri en þegar hún neitaði hófust slagsmál milli þeirra inni á baðherbergi. Hann kvaðst ítrekað hafa beðið um nafn mannsins, en þegar hún neitaði sló hann hana með flötum lófa utan undir hvað eftir annað þar til hún beit hann í fingur og þá kvaðst hann hafa slegið hana hnefahögg á gagnauga. Ákærði kvaðst hafa tekið brotaþola hálstaki og sýndi í dóminum hvernig hann hafði gert það og var það kverkatak sem hann sýndi. Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir hálstaki, en bar við minnisleysi um einstök atriði. Nánar spurður kvaðst hann hafa haldið fyrir munn hennar til að öskrin í henni heyrðust ekki og þá hefði hún bitið hann í fingur. Hann minntist þess ekki að hafa þrengt að öndunarvegi brotaþola og neitaði að hafa rifið í hár hennar og skellt höfðinu utan í vegg. Hins vegar kvaðst hann hafa hrint henni utan í vegg baðherbergisins 3 til 4 sinnum og ekki væri ólíklegt að þá hefði höfuð hennar lent í veggnum. Hann neitaði að hafa varnað henni að yfirgefa baðherbergið en hann kvaðst hafa staðið á milli brotaþola og dyranna, en herbergið væri lítið. Ákærði kvað brotaþola ekki hafa reynt að komast út úr baðherberginu, en hún hefði getað komist út með því að svara spurningum sínum, eins og hann orðaði það. Átökunum lauk með því að sonur hans og brotaþola kallaði, eftir að hafa heyrt lætin í þeim og kvaðst ákærði þá hafa farið fram og brotaþoli þá farið úr íbúðinni. Ákærði var spurður að því hvort þeir áverkar brotaþola, sem lýst er í ákæru gætu verið af hans völdum og kvað hann svo geta verið.  Hann taldi átök þeirra gætu hafa staðið í 20 til 30 mínútur. Ástæðu átakanna kvað hann vera þá að hann hefði grunað brotaþola um framhjáhald, hún hefði viðurkennt samband við annan mann bæði í sín eyru og annarra. Hann hefði reiðst því, en það sem gerðist þennan dag var að sonur þeirra sagði sér að annar maður hefði verið á heimilinu og þá hefði sér fundist of langt gengið. Í símtalinu hefði hann sagt brotaþola að fara af heimilinu með soninn vegna þess að hann væri reiður og vildi ekki að til átaka kæmi milli þeirra.  Hann kvaðst einnig hafa spurt brotaþola um nafn mannsins, en hún vildi ekki segja honum það. Þá hefði hún sagt að þetta væri bara bull í drengnum.

    A, brotaþoli, bar að hún hefði kynnst öðrum manni, en ekki hefði verið um framhjáhald að ræða. Þennan dag, um kvöldmatarleytið, hefðu þau rifist um þetta og það hefði endað með því að ákærði rauk út. Hann hefði svo hringt og sagt henni að fara af heimilinu innan klukkutíma, annars kæmi hann með fólk til að koma henni út.  Hún kvaðst hafa byrjað að pakka, en hann verið kominn eftir tíu mínútur eða klukkan 20.05. Hún kvaðst muna tímann vegna þess að ákærði hefði gefið sér klukkutíma og þegar hann kom snemma heim hefði hún litið á klukkuna og séð hvað tímanum leið.  Brotaþoli kvaðst hafa gengið inn á baðherbergið og ákærði á eftir og lokað hurðinni.  Þar vildi hann fá að vita nafn mannsins og farið að slá hana utan undir með krepptum hnefum báðum megin í andlitið og hrint sér upp að veggnum margoft. Þá sló hann hana einnig með flötum lófa. Hún kvaðst hafa kallað á hjálp margsinnis og hefði hann þá tekið hana hálstaki aftan frá og tekið fyrir munn hennar. Brotaþoli kvaðst þá hafa bitið hann fast í fingur. Hún kvað ákærða alltaf hafa staðið fyrir hurðinni þannig að hún taldi sig ekki geta komist út. Barsmíðarnar héldu áfram og alltaf spurði ákærði um nafn mannsins, margsinnis hefði hann slegið sér utan í vegginn og einnig hefði hann tekið sig kverkataki og lyft sér upp. Brotaþoli kvaðst hafa ýtt ákærða frá sér en hann þá tekið hana svo föstu hálstaki að hún hefði verið við það að líða út af. Við þetta fékk hún blóðnasir og sleppti ákærði henni þá og lét hana hafa blautan klút til að þrífa sig.  Atlögu ákærða lauk með því að sonur þeirra kallaði og fór hann þá fram og henni tókst að komast út úr húsinu og út í bíl og var þá klukkan 20.45. Varðandi manninn, sem ákærði grunaði hana um framhjáhald með, þá kvað brotaþoli þetta hafa verið símasamband, hún hefði hitt manninn tvisvar og þetta hefði ekki verið ástarsamband.  Brotaþoli kvaðst margoft hafa beðið ákærða að hætta og eins reynt að komast út en ekki taldi hún sig hafa beðið hann um að hleypa sér út. Brotaþoli kvaðst fljótt hafa jafnað sig líkamlega en hún gengi til sálfræðings og eins væri sonur þeirra að byrja meðferð hjá sálfræðingi.

B var nágranni ákærða og brotaþola. Þetta kvöld var hún að fara út með manni sínum og þegar hún kom út á eftir honum sagði hann við hana að eitthvað væri að gerast á númer [...]. Skömmu síðar þegar þau voru að setjast inn í bílinn kom konan af  [...] illa útleikin í andliti og með blóðugt hár til þeirra að bað þau að aka sér á sjúkrahús. Konan hefði sagt að maðurinn sinn væri valdur að áverkunum og barnið þeirra hefði horft á. Þá hefði hún sagt að manninn grunaði sig um framhjáhald en það væri rangt. B kvaðst hafa spurt konuna hvort maðurinn hefði verið drukkinn og hún hefði svarað að svo hefði ekki verið í þetta sinn.

C, eiginmaður B, kvaðst hafa verið kominn út þetta kvöld og þá heyrt út um læstan glugga á [...] hávaða og meðal annars orðin haltu kjafti og þú lýgur því. Hann kvaðst hafa velt því fyrir sér hvort hann ætti að fara án þess að athuga þetta nánar, en allt í einu var bankað í bílinn og var brotaþoli þar komin og settist hún inn í bílinn.  Hún var í miklu uppnámi, illa klædd og skólaus. C kvaðst hafa sagt henni að hann hefði heyrt hljóðin í henni og hún þá sagt af hverju komstu mér ekki til hjálpar, hann er búinn að berja mig sundur og saman. C kvað þau hafa ekið henni á Landspítalann.

Guðbrandur Reynisson lögreglumaður staðfesti skýrslu sína sem rakin var hér að framan. Spurður um stærð baðherbergisins kvað hann það vera lítið og þegar tveir menn væru þar inni þá kæmist ef til vill einn til viðbótar þar fyrir. Hann minnti að blóð hefði verið á gólfi í baðherberginu og húsbúnaður þar brotinn, sem benti til átaka.

Friðrik Sigurbergsson læknir staðfesti vottorð sitt sem rakið var hér að framan.  Hann skoðaði ljósmyndir af brotaþola og bar þær saman við vottorðið. Hann kvað brotaþola hafa borið greinileg áverkamerki á hálsi, en engin leið væri að sjá af þessum gögnum hvort um hefði verið að ræða kverka- eða hálstak. Hann kvaðst ekki hafa séð fingraför á brotaþola og því ekki geta slegið því föstu hvers konar taki hún var tekin á hálsinum. Hann kvað ummerki brotaþola bera frekar merki um hnefahögg en högg með flötum lófa. Friðrik benti á að brotaþoli hefði ekki verið með blóðsprengdar hvítur í augum eða húðblæðingar sem hefði átt að vera ef hún hefði lent í andnauð. Blóðnasirnar hefðu ekki þurft að stafa af því að hún hefði lent í andnauð. Þær hefðu getað stafað af höggi. Þetta útilokaði þó ekki að brotaþoli hefði lent í andnauð. 

IV

    Ákærði hefur viðurkennt, eins og rakið var, að hafa ráðist á brotaþola í baðherbergi íbúðarinnar að [...]. Þau eru sammála um orsakir þess að hann réðst á hana. Eins eru þau að mestu sammála um hvernig átökin gengu fyrir sig og hversu langan tíma þau stóðu, brotaþoli telur þau hafa staðið í 40 mínútur, en ákærði í 20-30 mínútur. Áverkar brotaþola samrýmast þeim lýsingum sem hún og ákærði hafa gefið á átökunum og myndir af brotaþola og áverkavottorð staðfesta það. Þá bar ákærði að áverkar brotaþola, sem lýst er í ákæru, gætu verið af hans völdum. 

    Ákærða er gefið að sök að hafa margsinnis slegið brotaþola með flötum lófa í andlitið og er það sannað með játningu hans sem styðst við önnur gögn. Hann hefur játað að hafa slegið hana einu hnefahöggi, en áverkavottorð, myndir og framburður brotaþola benda til þess að þau hafi verið fleiri. Með vísun til þessara gagna er sannað að hann hafi slegið hana margsinnis með krepptum hnefa eins og honum er gefið að sök. Ákærði hefur játað að hafa tekið brotaþola kverkataki og einnig að hafa haldið fyrir munn hennar. Myndir og læknisvottorð styðja framburð brotaþola um að ákærði hafi tekið hana hálstaki og er því sannað að hann tók hana kverkataki og einnig hálstaki. Hins vegar er brotaþoli ein til frásagnar um að hann hafi þá þrengt svo að hálsi hennar að hún náði ekki andanum. Sá framburður hennar fær ekki stuðning í framburði læknisins eins og rakið var.  Það er því ósannað að ákærði hafi valdi brotaþola andnauð og verður hann sýknaður hvað það varðar. Ákærði neitaði að hafa rifið í hár brotaþola eins og hún bar. Önnur gögn málsins styðja ekki þennan framburð brotaþola og verður ákærði því sýknaður af því að hafa rifið í hár hennar. Ákærði neitaði einnig að hafa skellt höfði brotaþola utan í vegg baðherbergisins en viðurkenndi að hafa hrint henni og gæti höfuð hennar þá hafa lent í veggnum. Þetta fær stuðning í framburði brotaþola sem bar að ákærði hefði margsinnis hrint sér utan í vegginn. Samkvæmt þessu, og eins og ákæran er orðuð, er rétt að sýkna ákærða af því að hafa skellt höfði brotaþola utan í baðherbergisvegginn.

Væri aðeins höfð hliðsjón af áverkum brotaþola myndi brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Hins vegar er til þess að líta að hann tók hana kverkataki og það veldur því að brot ákærða er sérstaklega hættulegt og varðar því við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Hér breytir engu um þótt ósannað sé að hann hafi valdi brotaþola andnauð með kverkatakinu.

Ákærði er jafnframt ákærður fyrir brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa varnað því að brotaþoli gæti yfirgefið baðherbergið. Þessu hefur ákærði neitað en hann bar að hann hefði staðið milli brotaþola og dyranna og benti jafnframt á að herbergið væri lítið. Brotaþoli bar að hafa reynt að komast út en ekki taldi hún sig hafa beðið ákærða að hleypa sér út. Í nefndu ákvæði er lögð refsing við því að neyða mann til þess að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta hjá líða að gera eitthvað með því að beita líkamlegu ofbeldi eða hóta honum og svo framvegis. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás sem tæmir sök hans og verður honum því ekki jafnframt gerð refsing fyrir brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga. Á árunum 1983 til 2004 var ákærði 5 sinnum sektaður fyrir umferðarlagabrot. 11. nóvember 2008 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir ölvun við akstur. Refsing hans nú verður hegningarauki við þann dóm og er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot og eru því skilyrði til að skilorðsbinda 6 mánuði af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Bætur til brotaþola eru hæfilega metnar 500.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 11. júlí 2007 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar 30 dagar eru liðnir frá þeim degi.

Loks skal ákærði greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola eins og nánar greinir í dómsorði.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Símon Sigvaldason.

Dómsorð

Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærða, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði A 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. febrúar 2008 til 11. ágúst sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 33.700 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns Sveins Andra Sveinssonar hrl., 209.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur hdl., 167.328 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.