Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-69
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Aðfarargerð
- Innsetningargerð
- Lögskýring
- Skaðabótaábyrgð
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir.
2. Með beiðni 5. júní 2023 leitar Isavia ohf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. maí 2023 í máli nr. 37/2022: ALC A321 7237, LLC og íslenska ríkið gegn Isavia ohf. og gagnsök. Gagnaðilinn ALC A321 7237, LLC leggst gegn beiðninni. Gagnaðilinn íslenska ríkið leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni.
3. Deila aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi gagnaðila vegna innsetningar sem fram fór í loftfarið TF-GPA á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness 17. júlí 2019. Gagnaðilinn ALC A321 7237, LLC höfðaði gagnsök í héraði og byggði á því að leyfisbeiðanda hafi ekki verið heimilt að hefta brottför loftfarsins TF-GPA af Keflavíkurflugvelli og að leyfisbeiðandi hafi með ólögmætum hætti heimilað WOW air hf. söfnun skulda. Krafa leyfisbeiðanda á hendur íslenskra ríkinu er reist á 53. gr. laga um nr. 50/2016 um dómstóla.
4. Með dómi Landsréttar voru gagnaðilar sýknaðir af kröfu leyfisbeiðanda og hann sýknaður af kröfum ALC A321 7237, LLC í gagnsök. Landsréttur taldi niðurstöðu héraðsdóms sem leiddi til þess að gagnaðilinn ALC A321 7237, LLC fékk loftfarið TF-GPA afhent með beinni aðfarargerð hafa byggst á lögskýringu og túlkun 1. málsliðar 1. mgr. 136. gr. loftferðarlaga nr. 60/1998 til að aftra för loftfars af flugvelli vegna ógreiddra gjalda. Við matið hefði héraðsdómur litið til þess að orðalag ákvæðisins væri víðtækt og takmarkaði ekki hvaða starfsemi eða gjöld gætu legið til grundvallar beitingu heimildarinnar, hvenær til gjalda væri stofnað og í hversu langan tíma slík gjöld gætu safnast upp. Ákvæðið væri verulega íþyngjandi og við túlkun þess bæri að líta til eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Taldi Landsréttur að við skýringu ákvæðisins hefði verið rétt að beita þrengjandi lögskýringu eins og í úrskurði héraðsdóms.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt fordæmisgildi um túlkun 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 sem og 198. gr. nýrra loftferðarlaga nr. 80/2022. Það hafi einnig verulegt almennt gildi að fá úrlausn Hæstaréttar um gildi úrskurðar Landsréttar sem ómerktur var með vísan til 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 og áhrif hans á síðari aðfarabeiðni milli sömu aðila um sama andlag. Þá telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulegt almennt gildi um skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og bótareglu 53. gr. laga nr. 50/2016. Að lokum vísar leyfisbeiðandi til þess að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína og að dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til og í andstöðu við áskilnað 114. gr. laga nr. 91/1991.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um ætlaða skaðabótaskyldu ríkisins vegna þeirra atvika sem uppi eru í málinu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.