Hæstiréttur íslands
Mál nr. 30/2001
Lykilorð
- Bifreið
- Ávana- og fíkniefni
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2001. |
|
Nr. 30/2001. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Emilíu Rós Hallsteinsdóttur (Örn Clausen hrl.) |
Bifreiðir. Ávana- og fíkniefni.
E var ákærð fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum kannabisefna og við annað tilefni ekið bifreið yfir leyfilegum hámarkshraða. E gekkst við hraðakstrinum en neitaði að hafa verið undir áhrifum kannabisefna við akstur. Af framburði læknis, sem skoðaði E skömmu eftir aksturinn, varð ekki ráðið að hún hefði verið undir áhrifum vímuefna við aksturinn. Í matsgerð Lyfjafræðistofnunar kom hins vegar fram að líklegt væri að E hefði verið í kannabisvímu er blóðsýni var tekið úr henni og að það hefði skert hæfni hennar til að stjórna bifreiðinni örugglega. Gegn staðfastri neitun E þótti þó ósannað að hún hefði ekið undir áhrifum kannabisefna. Var hún því sýknuð af þeim lið ákærunnar en sakfelld fyrir hraðakstur í samræmi við játningu hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2001. Ákæruvaldið krefst þess að ákærða verði sakfelld samkvæmt ákæru og dæmd til refsingar og sviptingar ökuréttar.
Ákærða krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að henni verði dæmd vægustu viðurlög sem lög leyfa.
I.
Svo sem greinir í 1. lið ákæru var ákærðu gefinn að sök akstur undir áhrifum deyfandi efna með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 17. desember 1999 ekið bifreiðinni PD 630 undir áhrifum kannabisefna um tilgreindar götur í Keflavík uns akstri lauk við hús við Hjallaveg.
Samkvæmt skýrslu Arngríms Guðmundssonar lögreglumanns var hann ásamt Hrannari Arasyni lögreglumanni við eftirlitsstörf í Keflavík þessa nótt. Sáu þeir til ferða ákærðu á bifreiðinni um kl. 3.20, þar sem henni var ekið inn á Hafnargötu í suðurátt. Þar misstu þeir sjónar á henni í skamma stund, en sáu bifreiðina á ný við sölulúgu á Aðalstöðinni. Þekktu þeir ökumanninn, ákærðu Emilíu Rós, sem þeir höfðu fengið upplýsingar um að væri fíkniefnaneytandi. Bifreiðinni var þessu næst ekið inn á Hafnargötu og virtist ökumaðurinn vera mjög óöruggur í akstri. Rásaði bifreiðin talsvert þrátt fyrir að henni hafi verið ekið hægt. Akstrinum lauk við hús við Hjallaveg og þar höfðu lögreglumennirnir tal af ákærðu. Segir í skýrslunni að hún hafi virst vera í annarlegu ástandi, sljó, og óstöðug, augasteinar mjög stórir og augu blóðhlaupin. Þá er þar haft eftir ákærðu að hún neiti að hafa neytt fíkniefna eða lyfja en sagst vera þreytt og slöpp. Fyrir dómi sagði vitnið Arngrímur að ísing hafi verið á veginum og bifreiðin rásað. Með því kvaðst vitnið eiga við að ákærða hafi ekið bifreiðinni „hægt og rólega milli punktalínunnar og hliðarlínunnar“. Þeim lögreglumönnunum hafi fundist ákærða vera í annarlegu ástandi. Hún hafi borið merki neyslu fíkniefna. Hún hafi verið mjög sljó, óstöðug, tungan eins og límd við góminn er hún talaði, augasteinar hennar stórir og augun blóðhlaupin. Vitnið Hrannar minntist ekki tilefnis þess að þeir stöðvuðu aksturinn og rak ekki minni til að eitthvað hefði verið athugavert við hann, en sagði að sér hafi fundist ákærða vera „voðalega sljó“.
II.
Gunnlaugur Sigurjónson læknir tók blóðsýni úr ákærðu til rannsóknar kl. 3.56. Hún gaf einnig þvagsýni kl. 4.10. Óskaði lögregla jafnframt eftir að læknirinn legði mat á ástand ákærðu. Er fram komið að hann skoðaði ákærðu af þessu tilefni á tímabilinu frá því er hann tók blóðsýni úr henni uns hún gaf þvagsýni. Í vottorði læknisins 20. desember 1999 kom fram að hún hafi verið róleg, en mjög pirruð og engin áfengislykt hafi verið af henni. Þá sagði þar meðal annars: „Húðlitur er eðl, ekki þvöl, kaldsveitt eða óeðlilega heit á húð. Pupillur eru í víðara lagi en reagera eðl við ljósi. Eðl augnhreyfingar. Blóðþrýstingur er 120/70, púls 90, reglulegur. Eðl hreyfingar, coordinasjon er í lagi ef hún hreyfir sig hægt, við hraðari hreyfingu verður hún óöruggari, gerir fingur-fingur próf og fingur nef próf og hæll á hné og niður legg. Romberg er í lagi með báða fætur niðri, verður strax óörugg og ræður ekki við Romberg á einum fæti. Hún er hvatvís, pirruð, er fulláttuð á stað, stund og sjálfi. Það er erfitt að dæma um lyfhrif, coordinasjonsprufur geta gefið vísbendingu í þá átt, stresseinkenni gætu þó einnig valdið óöryggi.” Í niðurlagi vottorðsins kom fram að við skoðun væri ljóst að engin líkamleg einkenni væru um örvandi efni og væri um lyfhrif að ræða væru það helst róandi lyf eða kannabis. Læknirinn kom fyrir dóm og staðfesti vottorð sitt. Kom fram í vætti hans að miðað við aldur ákærðu hefði hún átt að ráða við hraðari æfingar í samhæfni hreyfinga, en þó hafi „stress“ og svefnleysi getað valdið því að henni gekk illa að gera æfingarnar. Hann kvaðst ekki geta slegið því föstu af skoðun á sjáöldrum augna hennar að hún hafi verið undir árhifum lyfja.
Ákærða var færð fyrir Guðmund Sæmundsson lögregluvarðstjóra kl. 4.28 þessa sömu nótt. Í skýrslu hans, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, segir um ástand ákærðu að sjáöldur hafi verið útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt. Jafnframt er þess getið í beiðni hans um lyfjarannsókn að ökumaðurinn hafi verið mjög slappur og „nánast að sofna er verið var að ræða við hann“. Vitnið minntist þess fyrir dómi að ákærða hafi verið einkennileg til augnanna og sljó.
Í matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents á Lyfjafræðistofnun, 28. febrúar 2000 kom fram að í þvagi ákærðu fundust kannabínóíðar. Staðfest var með gasgreiningu og massagreiningu að í þvaginu var tetrahýdrókannabínólsýra og einnig fundust 4 ng/ml tetrahýdrókannabínól í blóði hennar. Segir í niðurstöðu matsgerðarinnar að þéttni tetrahýdrókannabínóls í blóði bendi til þess „að ökumaður hafi verið í kannabisvímu er blóðsýnið var tekið og er líklegt að það hafi skert hæfni hans til þess að stjórna bifreiðinni með öruggum hætti.“ Með bréfi 16. maí 2000 til Lyfjafræðistofnunar óskaði lögreglustjórinn í Keflavík eftir að veittar yrðu nánari upplýsingar um við hvað væri stuðst þegar komist væri að því að viðkomandi hefði verið í kannabisvímu. Í svarbréfi Jakobs Kristinssonar 9. júní sama árs kemur fram að tetrahýdrókannabínólsýra gæti fundist í þvagi í töluvert langan tíma eftir neyslu, allt upp í 6 til 8 vikur, þó venjulega væri um mun styttri tíma að ræða. Því væri ekki unnt að skera úr um hvort viðkomandi hefði verið undir áhrifum kannabis. Tetrahýdrókannabínól í blóði væri hins vegar örugg vísbending um að kannabis hefði verið neytt „fyrir stuttu síðan“. Ekki væri unnt að segja til um með neinni nákvæmni hvenær neysla hefði farið fram í þessu tilviki, en líklegt væri að það hafi verið innan 10 klukkustunda áður en blóðsýnið var tekið. Þéttni tetrahýdrókannabínóls í blóði gæti ein skorið úr um hvort viðkomandi væri undir áhrifum. Fram kom í bréfinu að í matsgerðinni væri vikið að tveimur þáttum í verkunum kannabis, annars vegar vímuverkun og hins vegar verkun á athygli, einbeitingu, viðbragðsflýti, samhæfingu hreyfinga og fleiri þáttum, sem máli skipti við stjórn bifreiða. Rannsóknir hafi sýnt að kannabisneytendur telji sig vera í kannabisvímu, jafnvel þó þéttni tetrahýdrókannabínóls í blóði sé mjög lág og sambærileg eða lægri en sú sem fannst í umræddu blóðsýni. Væri í þessu efni vísað til tiltekinna erlendra rannsókna. Megi því telja nokkuð öruggt að umræddur ökumaður hafi verið í kannabisvímu þegar blóðsýnið var tekið. Þá er til þess vísað að margar rannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum framangreinds efnis á færni manna til þess að leysa af hendi ýmis próf, sem gæfu til kynna hæfni manna til þess að stjórna ökutæki með öruggum hætti. Meðal annars hafi verið sett upp samanburðarlíkan, sem nota mætti til þess að bera saman blóðþéttni alkóhóls og tetrahýdrókannabínóls. Samkvæmt þessu líkani samsvari 4 ng/ml af efninu að minnsta kosti 0,5 af etanóli í blóði. Þetta samsvaraði mun hærri etanólþéttni ef litið væri eingöngu til áhrifa kannabis á athygli. Segir síðan í niðurlagi bréfsins: „Af þessum rannsóknum og öðrum var dregin sú ályktun að líklegt sé að hæfni ökumanns í umræddu máli hafi verið skert. Hins vegar var ekki tekin afstaða til þess í matsgerðinni hvort þessi áhrif kunni að hafa verið mikil eða lítil.“
Jakob Kristinsson kom fyrir dóm og staðfesti matsgerð sína. Kom fram í framburði hans að hann teldi, út frá erlendum rannsóknum um hæfni manna til að stjórna ökutæki undir áhrifum áfengis annars vegar og kannabis hins vegar, miðað við meðaltalsferli, að það magn kannabis sem mældist í blóði ákærðu „skerti greinilega aksturshæfni“. Væri það borið saman við alkóhól ætti það að samsvara yfir 0,5 þess.
III.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf ríkissaksóknara til Lyfjafræðistofnunar 26. febrúar 2001, þar sem þess var farið á leit að upplýst yrði hvort unnt væri að tilgreina vikmörk við þær mælingar, sem vísað var til í bréfi stofnunarinnar 9. júní 2000 og framburði Jakobs Kristinssonar. Í niðurlagi svarbréfs hans 20. mars sl. kemur fram að engin vikmörk hafi verið sett um þéttni tetrahýdrókannabínóls í blóði ökumanna hér á landi. Í slíkum tilvikum væri stuðst við „réttarefnafræðilegt mat“. Matið væri byggt á niðurstöðum allmargra vísindarannsókna á verkunum kannabis. Verkanir kannabis væru, eins og annarra lyfja, mjög einstaklingsbundnar og háðar aðstæðum og kæmi það fram í miklum breytileika í niðurstöðum rannsókna. Segir svo í niðurlagi bréfsins: „Þessi breytileiki er venjulega miklu meiri en óvissan á mælingu hins virka efnis í blóði. Þess vegna er ekki tekið tillit til mælingaróvissu við réttarefnafræðilegt mat, nema fyrir liggi að hún sé óvenjulega há og það var hún ekki í þessu tilviki.”
IV.
Ágreiningslaust er að ákærða ók bifreiðinni PD 630 eins og nánar er lýst í ákæru, að öðru leyti en því, að ákærða hefur staðfastlega neitað að hún hafi verið undir áhrifum kannabisefna við aksturinn. Hún hefur bæði við rannsókn málsins og meðferð þess neitað að hafa neytt efnanna fyrir aksturinn, en gefið þá skýringu á ástandi sínu að hún hafi verið þreytt og slöpp og ætlað heim að sofa. Fullyrti hún að þrjár til fjórar vikur hafi liðið frá því hún síðast neytti fíkniefna. Annar lögreglumannanna, sem hafði afskipti af ákærðu að akstri hennar loknum, minntist ekki tilefnis þess að ástand hennar var kannað, en hinn kvað bifreiðina hafa rásað á veginum, þó ákærða hafi ekið hægt. Í frumskýrslu þess síðarnefnda er þess getið að þegar þeir sáu fyrst til ákærðu á bifreiðinni hafi þeir þekkt hana, en upplýsingar hefðu borist lögreglu um að hún væri fíkniefnaneytandi. Síðar í skýrslunni er því lýst að aksturinn hafi virst óöruggur og bifreiðin rásað talsvert.
Lýsing lögreglumannanna tveggja, sem höfðu afskipti af ákærðu, bendir til þess að hún hafi verið undir áhrifum einhvers konar vímuefna. Sú lýsing er hins vegar ekki í samræmi við vottorð læknis, sem skoðaði ákærðu rúmum hálftíma eftir að hún var handtekin, en í því kemur fram að engin líkamleg einkenni væru um neyslu örvandi efna. Lýsing varðstjóra á ástandi ákærðu kemur heldur ekki heim og saman við það, sem fram kemur í vottorði og vitnisburði læknisins, en varðstjórinn tók skýrslu af ákærðu tuttugu mínútum eftir að afskiptum læknisins af henni lauk. Af vottorði læknisins og vætti hans fyrir dómi verður ekki ráðið að ástand ákærðu hafi verið með þeim hætti að hún hafi verið undir áhrifum vímuefna. Þegar litið er til matsgerðar og framburðar Jakobs Kristinsssonar, svo og bréfa hans, sem liggja frammi í málinu, er hins vegar ljóst að líklegt er að ákærða hafi verið undir áhrifum kannabis umrætt sinn. Af þessum gögnum og öðru því, sem fram er komið í málinu, verður þó ekki ráðið að fram séu komnar nægilegar líkur á því að ástand ákærðu við aksturinn hafi verið með þeim hætti að hún hafi ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna kannabisneyslu, sbr. 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þegar allt framangreint er virt þykir, gegn staðfastri neitun ákærðu og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, ósannað að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi, sem henni er gefin að sök í 1. lið ákærðu. Verður því fallist á þá niðurstöðu héraðsdómara að sýkna ákærðu af þessum lið ákæru.
Ákærða var í héraðsdómi sakfelld fyrir þann verknað sem henni er gefinn að sök í 2. lið ákæru. Hún unir þeirri niðurstöðu. Kemur hann því ekki til endurskoðunar hér. Ákærða hélt uppi vörnum í héraði vegna sakargifta samkvæmt 1. lið ákæru. Hefði því verið rétt að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð. Samkvæmt því skal greiða úr ríkissjóði allan sakarkostnað í héraði, svo og áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
D ó m s o r ð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, samtals 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. desember 2000.
Málið er með ákæruskjali útgefnu 10. júlí s.l., höfðað gegn Emelíu Rós Hallsteinsdóttur kt. 210182-3499, Hrannargötu 5, Keflavík, nú Hringbraut 128, Keflavík, fyrir eftirgreind umferðarlagabrot:
1.fyrir akstur undir áhrifum deyfandi efna, með því að hafa, aðfararnótt föstudagsins 17. desember 1999, ekið bifreiðinni PD-630, undir áhrifum kannabisefna, suður Hafnargötu í Keflavík, inn á Njarðarbraut í Njarðvík í sömu átt og vestur Hjallaveg þar sem bifreiðin var stöðvuð við hús nr. 5, en ákærða var þannig á sig komin að hún var ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega.
Telst þetta varða við 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
2.fyrir hraðakstur, með því að hafa, fimmtudaginn 8. apríl 1999, ekið bifreiðinni PD-630 vestur Suðurlandsveg í Reykjavík á allt að 114 km. hraða á klst., en þar er hámarkshraði 90 km. á klst..
Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar sbr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 57/1997. Þá er krafist sviptingar ökuréttar sbr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.
Ákærða hefur haldið uppi vörnum í málinu og krefst hún sýknu af I. lið ákæru en vægustu refsingar vegna þess aksturs, sem hún sé sökuð um í II. lið hennar. Ef ekki er fallist á sýknu er krafist vægustu refsingar fyrir bæði brotin. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda hennar hrl. Arnar Clausen, sem yrðu að verulegu leyti greidd af ríkissjóði ef sýknukrafan yrði tekin til greina.
I. Málavextir
1. Meintur akstur undir áhrifum deyfandi efna.
Föstudaginn 17. desember 1999 um kl. 03.22, höfðu tveir lögreglumenn úr Keflavík, afskipti af ákærðu eftir að hafa fylgst með akstri hennar á bifreiðinni PD-630, vestur Vatnsnesveg , Keflavík, suður Hafnargötu en við Aðalstöðina þar við götuna, var bifreiðin stöðvuð og ákærða verslaði þar um sölulúgu. Henni var svo ekið frá Aðalstöðinni suður Hafnargötu og virtist lögreglumönnunum þá ákærða vera mjög óörugg í akstri bifreiðarinnar og hún hafi rásað töluvert en þó var henni ekið mjög hægt. Bifreiðinni var ekið af Hafnargötu, inn á Njarðvíkurbraut og af henni inn á Hjallaveg og vestur frá götu, uns hún var stöðvuð við hús nr. 5, þar sem lögreglumennirnir höfðu tal af ákærðu. Að mati lögreglumannanna var ákærða í annarlegu ástandi, sljó og óstöðug, augu blóðhlaupin og augasteinar hennar voru mjög stórir, þá hafi hún verið mjög þurr í munni. Ákærða var handtekin og var grunuð um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna. Hún neitaði strax að hafa neytt fíkniefna eða lyfja fyrir aksturinn og kvaðst bara hafa verið þreytt og slöpp.
Ákærða var færð á lögreglustöðina í Keflavík en þar tók Gunnlaugur Sigurjónsson læknir henni blóð til rannsóknar og hún var og látin gefa þvagsýni. Þá var Gunnlaugur Sigurjónsson læknir fenginn til að meta ástand hennar og segir m.a. í vottorði hans þar um:
„Það er ekki áfengislykt af henni. Húðlitur er eðl., ekki þvöl, kaldsveitt eða óeðlilega heit á húð. Pupillur eru í víðara lagi en reagera eðl. við ljósi. Eðlilegar augnhreyfingar. Blóðþrýsingur er 120/70, púls 90, reglulegur. Eðl. hreyfingar, coordinasjon er í lagi ef hún hreyfir sig hægt, við hraðari hreyfingu verður hún óöruggari, gerir fingur-fingur próf, nef próf og hæll á hné og niður legg. Romberg er í lagi með báða fætur niðri, verður strax óörugg og ræður ekki við Romberg á einum fæti. Hún er hvatvís, pirruð, er fulláttuð á stað, stund og sjálfi. Það er erfitt að dæma um lyfhrif, coordinasjonsprufur geta gefið vísbendingu í þá átt, stresseinkenni gætu þó einnig valdið óöryggi. Af skoðun er ljóst að það eru engin líkamleg einkenni um örvandi efni, ef um lyfhrif er að ræða væri helst róandi lyf eða cannabisefni sem um gæti verið að ræða.”
Guðmundur Sæmundsson aðstoðarvarðstjóri, tók varðstjóraskýrslu af ákærðu og lýsir ástandi hennar svo, að sjáöldur hennar hafi verið útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt.
Blóðsýni og þvagsýni úr ákærðu var sent Lyfjastofnun Háskóla Íslands til rannsóknar um það, hvort í þeim væri kannabisefni eða róandi lyf.
Í matsgerð lyfjastofnunarinnar, sem Jakob Kristinsson dósent, gerir, kemur fram að etanol var ekki í mælanlegu magni í blóðinu. Benzídíazepínsambönd eða skyld sambönd voru ekki í mælanlegu magni í þvaginu en í því reyndust hins vegar vera kannabínoíðar. Staðfest var með gasgreiningu og massagreiningu að í þvaginu væri tetrahýdrókannabínólsýra. Tetrahýdrókannabínól í blóði var 4 ng./ml..
Niðurstaðan var sú, að þéttni tetrahýdrókannabínóls í blóði bendir til þess, að ökumaður hafi verið í kannabisvímu er blóðsýnið var tekið og líklegt sé, að það hafi skert hæfni hans til að stjórna bifreiðinni með öruggum hætti.
Með bréfi dagsettu 16. maí s.l. óskaði Sýslumaðurinn í Keflavík eftir því, að rannsóknarstofan í lyfja-og eiturefnafræðum veitti embættinu nánari upplýsingar um við hvað væri stuðst í matsgerðinni, þegar komist hafi verið að þeirri niðurstöðu, að ökumaður hafi verið í kannabisvímu og hafi ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti og var þá litið til þess, að ákærða hafði haldið því fram, að hún hafi síðast neytt kannabisefna mánuði fyrir aksturinn.
Í svarbréfi Jakobs Kristinssonar dósents við Lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands dagsettu 1. júní s.l. kemur þetta fram:
„Í matsgerð dags. 28.2. s.l. (Rnr. 99266) kemur fram að í þvagsýni, sem matsgerðin fjallar um hafi verið tetrahýdrókannabínólsýra. Tetrahýdrókannabílnólsýra er umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls, en tetrahýdrókannabínól er hið virka efni í kannabis. Sýran finnst í þvagi í töluvert langan tíma eftir kannabisneyslu. Vitað er um nokkur dæmi þess, að hún hafi fundist í þvagi í allt að 6-8 vikur eftir neyslu þó venjulega sé um miklu styttri tíma að ræða. Tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi getur því ekki skorið úr um hvort sá sem þvagsýnið er úr, sé undir áhrifum kannabis eða ekki. Í matsgerðinni kemur einnig fram að í blóðinu hafi fundist tetrahýdrókannabínól. Tetrahýdrókannabínól í blóði er örugg vísbending um að viðkomandi aðili hefur neytt kannabis fyrir stuttu síðan. Ekki er hægt að segja til um með neinni nákvæmni hvenær neysla fór fram í þessu tilviki, en líklegt er að það hafi verið innan 10 klst. frá því að blóðsýnið var tekið. Þéttni tetrahýdrókannabínóls í blóði getur ein skorið úr um hvort viðkomandi aðili er undir áhrifum eða ekki.
Þegar lagt er mat á niðurstöðutölur mælinga á lyfjum í blóði verður að hafa í huga að eitt og sama lyf getur haft margs konar verkanir, sem þurfa ekki að vera innbyrðis skyldar. Í umræddri matsgerð er vikið að tveimur þáttum í verkunum kannabis, annars vegar vímuverkun og hins vegar verkun á athygli, einbeitingu, viðbragðsflýti, samhæfingu hreyfinga og fleiri þætti, sem skipta máli við stjórn bifreiða. Rannsóknir hafa sýnt, að kannabisneytendur telja sig vera í kannabisvímu, jafnvel þótt þéttni tetrahýdrókannabínóls í blóði sé mjög lág og sambærileg eða lægri en sú sem fannst í umræddu blóðsýni. Hér má vísa til rannsókna Ohlsson og samverkamanna frá 1980 (Ohlsson, A. et af., Clin. Pharmacol. Ther. 1980, 28, 409-416), Chiang og Barnett frá 1984 (Chiang, C. & Barnett, G., Clin. Pharmocol. Ther. 1984, 36, 234-238) og Harder og Rietbrock frá 1997 (Harder, S. & Rietbrock, S., Int. J. Clin. Pharmacol. Ther. 1997, 35, 155-159). Því má telja nokkuð öruggt að umræddur ökumaður hafi verið í kannabisvímu þegar blóðsýnið var tekið.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum tetrahýdrókannabínóls á færni manna til þess að leysa af hendi ýmis próf, sem gætu gefið til kynna hæfni manna til að stjórna ökutæki með öruggum hætti. Krüger og Berghaus (Krüger, H.P. & Berghaus, G. Proceedings of the 13.th. International Conference on Alcohol Drugs and Traffic Safety, Adelaide 1995, 410-415) drógu saman niðurstöður rannsókna á áhrifum etanóls og tetrahýdrókannabínóls á slík próf og settu upp samanburðarlíkan, sem nota má til þess að bera saman blóðþéttni etónóls og tetrahýdrókannabínóls. Samkvæmt þessu líkani samsvara 4 ng./ml. af tetrahýdrókannabínóli, eins og fannst í þessu máli, a.m.k. 0,5 % af etanóli í blóði. Ef litið er til áhrifa kannabis á athygli eingöngu samsvarar þetta mun hærri etanólþéttni. Af þessum rannsóknum og öðrum var dregin sú ályktun að líklegt sé að hæfni ökumanns í umræddu máli hafi verið skert. Hins vegar var ekki tekin afstaða til þess í matsgerðinni hvort þessi áhrif kunni að hafa verið mikil eða lítil.”
Ákærða hefur við skýrslutöku hér fyrir dómi haldið fast við það, að hún hafi ekki neytt fíkniefna fyrir aksturinn. Hún hafi hvorki neytt fíkniefna sama dag né skömmu áður og hafi verið liðnar 3-4 vikur frá því, að hún neytti fíkniefna síðast. Hún sagði að henni hafi liðið illa um nóttina er hún var handtekin, hún hafi verið þreytt og ætlað að fara heim að sofa, en hafði þó ekki sjálf orðið vör við nein einkennileg áhrif, og kvað hún þreytu hafa sótt á sig fyrr um kvöldið, en hún hafði verið í heimsókn í húsi í Keflavík, þar sem hvorki fór fram áfengisneysla né fíkniefnaneysla. Hún neitar því að hafa neytt fíkniefna, innan 10 klukkustunda fyrir akstur og kvaðst ekki hafa verið undir neinni lyfjameðferð að læknisráði.
Hrannar Þór Arnarson lögreglumaður, bar vitni í málinu og kvað ákærðu hafa verið greinilega undir áhrifum einhverra efna, er lögreglan hafði afskipti af henni umrædda nótt, en akstur hennar hafi gefið tilefni til afskipta lögreglu og einnig ferð hennar á þessum tíma nætur. Það kvaðst ásamt Arngrími lögreglumanni hafa farið út úr bifreiðinni sem þeir voru á, til að hafa tal af ákærðu og hafði því fundist hún vera voðalega sljó og staðfesti að lýsing þess á ástandi hennar í lögregluskýrslu væri rétt.
Vitnið Arngrímur Guðmundsson lögreglumaður, kvað bifreið ákærðu hafa verið ekið rólega í greint sinn, en samt rásað á veginum, sem leitt hafi til afskipta lögreglunnar. Vitnið kvað ákærðu hafa verið í annarlegu ástandi, þ.e. verið mjög sljó, óstöðug, augnsteinarnir verið mjög stórir og augun verið blóðhlaupin. Hún hafi og verið þurr í munni, sem komið hafi fram, er rætt var við hana.
Þá bar vitni Guðmundur Sæmundsson lögregluvarðstjóri, sem kannaðist við að hafa tekið varðstjóraskýrslu af ákærðu og kvað þargreinda lýsingu á ákærðu vera rétta.
Gunnlaugur Sigurjónsson læknir, Lindarbergi 92, Hafnarfirði, bar vitni í málinu og staðfesti læknisvottorð sitt. Vitnið kvað ákærðu ekki hafa staðið sig nægilega vel í hröðum samhæfðum hreyfingum og jafnvægisskyn hennar virst skert. Niðurstaðan var samt sú að engin líkamleg merki væru um lyfjaáhrif og þó að ákærða hafi ekki verið eðlileg við skoðun, hafi frávikin ekki verið það mikil, að fullyrt yrði að hún bæri líkamleg einkenni lyfjaneyslu. „Stress” gæti og valdið svona einkennum, pupilla hafi verið í víðara lagi en reagerað eðlilega við ljósi og þar því ekki vísbending um áhrif lyfja. Það kvað hana hafa staðist Rombergs próf þegar hún stóð í báða fætur, en hún hafi ekki ráðið við Rombergsæfingar á einum fæti. Fram kom hjá vitninu að allir gætu ráðið við Rombergsæfingar á báðum fótum, en á einum fæti gæti reynst sumum erfið og taldi það að stress og svefnleysi gæti og haft áhrif um það, að menn stæðust síður þetta próf. Það taldi að miðað við aldur ákærðu hefði hún átt að ráða við hraðar æfingar í samhæfni en þó hafi stress og svefnleysi ákærðu getað valdið því að henni gekk illa við þessar æfingar.
Jakob Kristinsson dósent og deildarstjóri hjá Lyfjastofnun Háskóla Íslands, Hjarðarhaga 24, Reykjavík, bar vitni í málinu og staðfesti matsgerð sína. Það kvað 4 ng./ml. af tetrahýdrókannabínóli í blóði hlutaðeigandi, sé talið að skerði greinilega aksturhæfni hans og ætti að samsvara meir en 0,5 % af alkóhóli og vísar í því sambandi til þeirra rannsókna sem getið er í bréfi þess til sýslumanns merkt dskj. nr. 5. Það kvað niðurstöðu matsgerðar um þetta magn tetrahýdrókannabínóli í blóði ákærðu, bendi til að ekki hafi liðið margar klukkustundir frá neyslu kannabisefna, en efnið skiljist út í sýru, sem fer í þvag en megnið að efninu skilst út með saur hlutaðeigandi. Það taldi líklegt að hæfni ákærðu til aksturs hafi verið skert. Það kvað alkóhól hafa slævandi áhrif á miðtaugakerfið í heild og hafi áhrif á alla starfsemi þess í einu, meðan kannabisáhrif séu sérhæfðari tilfelli og taki til einstakra þátta sem slævast en ekki í sömu röð og þegar um alkóhól sé að ræða, og ekki séu sömu þættir sem séu eins mikið slævðir eftir kannabisneyslu og eftir áfengisneyslu.
Vitnið hafði kynnt sér læknisvottorð Gunnlaugs Sigurjónssonar og var bent á að margt í skoðun Gunnlaugs, segir ekkert um að neitt hafi verið í ólagi með ákærðu. Það taldi að skoðun þessi hefði þurft að vera ítarlegri, þurft hefði að athuga betur með athygli ákærðu og hvernig hún brygðist við skiptri athygli, sjón og annað. Það þyrfti meiri rannsókn og tækjabúnað til að fullvissa sig um lyfjaáhrif. Það kvað fullyrðingu ákærðu, um hvenær hún hafi síðast neytt fíkniefna fyrir handtöku, ekki standast miðað við að kannabisefni hverfi úr líkamanum á nokkrum klukkustundum. Það kvað áhrif kannabisneyslu vera, að athyglis og ályktunarhæfnin bilar, þá komi til dómgreindar-skortur og minni geta til að fylgjast með fleiri hlutum en einum í einu. Það kvað það geta verið, að samhæfingargeta ákærðu hafi minnkað vegna þess magns tetrahýdrókannabínóls sem var í blóði hennar en vildi þó ekki fullyrða það.
Um 1. lið ákæru.
Viðurkennt er að ákærða ók bifreiðinni PD-630 í þargreint sinn þá leið sem í ákæru greinir. Þrátt fyrir neitun ákærðu verður með niðurstöðum lyfjarannsóknar þeirrar, sem fram kemur í matsgerð Lyfjastofnunar Háskóla Íslands sbr. og vætti Jakobs Kristinssonar dósents, að telja ljóst, að ákærða neytti einhverra kannabisefna innan 10 klukkustunda fyrir akstur og bendir það magn kannabisefna sem mældist í blóði hennar til þess að, hún gæti hafa verið í kannabisvímu.
Álitaefnið í máli þessu er, hvort þessi vímuáhrif hafi verið það mikil, að ákærða hafi ekki getað stjórnað bifreið örugglega.
Í framburði vitnisins Jakobs Kristinssonar kemur fram að áhrif áfengisneyslu séu að verulegu leyti önnur en áhrif kannabisneyslu. Alkóhól hafi slævandi áhrif á miðtaugakerfið í heild og alla starfsemi þess í einu, meðan áhrif kannabis séu sérhæfðari tilfelli, það taki til einstakra þátta sem það slævi en ekki í sömu röð og alkóhól. Það séu ekki sömu þættir sem eru eins mikið slævðir eftir kannabisneyslu eins og eftir áfengisneyslu.
Í framburði lögreglumannanna Hrannars Þórs Arnarsonar, Arngríms Guðmundssonar og Guðmundar Sæmundssonar, kemur fram lýsing á ástandi ákærðu, sem er því til styrktar að hún hafi verið undir áhrifum fíkniefna.
Læknisvottorð Gunnlaugs Sigurjónssonar um skoðun hans á ákærðu er samt ekki jafn ákveðið um þessi vímueinkenni.
Í vottorðinu kemur ekki fram að ákærða hafi verið óstöðug né að hún hafi verið mjög sljó. Fram kemur hins vegar að ljósopið sé í víðara lagi en reageri eðlilega við ljósi. Læknirinn merkir stresseinkenni hjá ákærðu, telur að þó að hún hafi ekki staðið sig nægilega vel í hröðum samhæfðum hreyfingum og Rombergsæfingum á einum fæti, þá gæti óöryggi hennar í þessum hreyfingum verið af völdum stresseinkenna. Hann taldi engin líkamleg einkenni um örvandi efni og ef um lyfhrif væri að ræða, kæmi helst til álita róandi lyf og kannabisefni.
Í vætti læknisins hér fyrir dómi kom fram svo sem áður er rakið, að þó að ákærða hafi ekki verið eðlileg við skoðun, hafi frávikin ekki verið það mikil að fullyrt yrði að hún bæri líkamleg einkenni lyfjaneyslu, stress gæti valdið svona einkennum og þó að pupilla hafi verið í víðara lagi, hafi hún reagerað eðlilega við ljósi og það því ekki verið vísbending um áhrif lyfja.
Í matsgerð og vætti Jakobs Kristinssonar, sem og bréfi vitnisins til sýslumannsins í Keflavík kemur fram, að þau 4 ng/ml. af tetrahýdrókannabínóli sem mældist í blóði ákærðu geri það líklegt að hún hafi haft skerta hæfni til að stjórna bifreið sinni með öruggum hætti. Vísar vitnið til rannsókna nokkurra vísindamanna sem hann tilgreinir í bréfinu og samanburðarlíkans sem nota megi til að bera saman blóðþéttni etonóls og tetrahýdrókannabínóls. Samkvæmt líkaninu samsvari 4 ng/ml. af tetrahýdrókannabínóli a.m.k. 0,5 % af etonóli í blóði og ef litið væri til áhrifa kannabis á athygli eingöngu, samsvari þetta mun hærri etanólsþéttni. Ekki eru tilgreind nein vikurmörk. Af þessum rannsóknum og öðru var dregin sú ályktun, að líklegt væri að hæfni ákærðu til aksturs hafi verið skert en ekki tekin afstaða til þess, hvort þessi áhrif voru mikil eða lítil. Skýringin á því, að við læknisskoðun Gunnlaugs Sigurjónssonar hafi ekki fundist nein líkamleg einkenni um örvandi efni, kvað vitnið vera, að skoðunin hafi ekki verið nægilega ítarleg, þurft hefði að athuga betur með athygli ákærðu og hvernig hún brygðist við skiptri athygli, sjón og annað og þyrfti meiri rannsókn og tækjabúnað til að fullvissa sig um lyfjaáhrif.
Það er mat réttarins, að niðurstöðurnar í matsgerð Jakobs Kristinssonar, séu ásamt öðrum rannsóknargögnum því til sönnunar, að ákærða hafi verið undir einhverjum vímuáhrifum eftir neyslu kannabisefna, við aksturinn. Hins vegar kemur ekki fram í matsgerðinni né vætti Jakobs nægilega eindregið álit um, að 4 ng/ml. af tetrahýdrókannabínóli í blóði ákærðu valdi því, að hún geti ekki stjórnað bifreið örugglega. Til þess virðist þurfa meira magn af efninu í blóðinu eða önnur gögn að koma til styrktar ályktuninni.
Læknisvottorð og vætti Gunnlaugs Sigurjónssonar gefur til kynna að ákærða gæti hafa verið undir áhrifum lyfja eða kannabisefna en skoðun vitnisins leiðir samt ekki í ljós það mikil einkenni, að það sé því til styrktar, að aksturshæfni ákærðu hafi skerts svo, að hún gæti ekki stjórnað bifreið örugglega.
Í vætti Jakobs Kristinssonar, kemur fram að til merkja þessi lyfjaáhrif hefði læknirinn orðið að framkvæma ítarlegri rannsókn og þurft sérstakan tækjabúnað.
Í máli þessu verður ákærða að njóta vafans sem af því leiðir að ekki fór fram ítarlegri læknisrannsókn í þessu tilfelli.
Ekkert kom fram að akstur ákærðu hafi verið óeðlilegur fram að því að hún ók bifreið sinni að sölulúgu Aðalstöðvarinnar en hægur akstur hennar þaðan og að bifreiðin hafi rásað eitthvað á veginum, gæti hæglega tengst verlsun hennar þar.
Þegar allt þetta er virt, þykir bresta sönnun um það, að ákærða hafi í greint sinn verið undir það miklum áhrifum eftir neyslu kannabisefna, að hún hafi ekki getað stjórnað bifreið örugglega og er hún sýkn sakar um þetta brot.
2. liður ákæru.
Ákærða hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni PD-630 á ólöglegum hraða eins og hún er sökuð um í 2. lið ákæru og í þargreint sinn. Játning hennar er í samræmi við rannsóknargögn málsins og er sannað að hún framdi þetta brot og gerðist með því brotleg við 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Refsing ákærðu þykir samkvæmt 100. gr. umferðarlaga hæfilega ákveðin 15.000 króna sekt og komi 3ja daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna fá birtingu dóms þessa.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu hrl. Arnar Clausen ákveðast kr. 60.000 og greiðast að 1/4 hluta af ákærðu en að 3/4 hlutum úr ríkissjóði.
Allur annar kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði.
Dráttur á dómsuppsögu er vegna anna dómarans við önnur mál.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Ákærða Emelía Rós Hallsteinsdóttir, er sýkn sakar af 1. lið ákæru.
Ákærða greiði krónur 15.000 í sekt og komi til 3ja daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd inna 4ra vikna frá birtingu dómsins.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu hrl. Arnar Clausen, kr. 60.000 greiðist að 1/4 hluta af ákærðu en að 3/4 hlutum úr ríkissjóði.
Allur annar kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði.