Hæstiréttur íslands

Mál nr. 324/2003


Lykilorð

  • Loftöryggi
  • Tilkynning


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004.

Nr. 324/2003.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Á

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Loftöryggi. Tilkynning.

Á var ákærður fyrir brot gegn 120. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa í nafni samtakanna F dreift í tölvupósti til fjölda viðtakenda „tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél, sem var til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna“. Að virtum framburði Á og orðalagi viðvörunarinnar þótti ekki komin fram lögfull sönnun þess að með Á hafi búið sá ásetningur sem áskilinn er í nefndu refsiákvæði. Þegar af þeirri ástæðu var Á sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2003 af hálfu ákæruvalds. Hann krefst sakfellingar samkvæmt ákæru, refsiákvörðunar og upptöku á fartölvu og netþjóni.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði játað fyrir dómi að hann hafi 22. nóvember 2002 í nafni samtakanna F dreift tölvupósti þeim, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi til rúmlega 1.200 viðtakenda, þar á meðal starfsmanna lögreglu, Flugmálastjórnar, flugfélaganna Atlanta hf. og Flugleiða hf. svo og fjölmiðla. Hann hefur hins vegar neitað því að sú háttsemi hans falli undir ákvæði 120. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Byggir hann þá neitun meðal annars á því að hann hafi skort ásetning til þeirrar háttsemi sem hann er ákærður fyrir.

Ákærði neitaði sakargiftum fyrir dómi og vildi ekki tjá sig nánar um þær. Við yfirheyrslu fyrir dómi 23. nóvember 2002 í tilefni af kröfu um gæsluvarðhald á hendur ákærða kvaðst hann hafa byggt efni viðvörunarinnar sem hann sendi á innsæi og upplýsingum víðsvegar að, til dæmis frá fréttastofum. Sagði hann jafnframt að verið gæti að upphaf textans, þar sem fram fjallað er um „rökstuddan grun“ um að ráðist yrði á íslenska flugvél með flugráni eða sprengjutilræði, væri óheppilegt. Í skýrslu sinni hjá lögreglu sama sagðist hann hafa byggt viðvörunina á innsæi sínu og fréttum utan úr heimi, meðal annars frá breskum fjölmiðlum, sem hafi varað við því að ráðist yrði gegn þeim sem styðja „ólögmæt stríð gegn Írak eða Arabaþjóðum”. Daginn áður hafi honum einnig borist tölvupóstur frá nafngreindum manni, þar sem meðal annars hafi komið fram að íslenskar flugvélar væru orðnar „lögmætt“ skotmark. Einnig hafi komið fram í íslenskum fjölmiðlum, sama dag og honum barst tölvupósturinn, að ríkisstjórnin hafi samþykkt að veita atbeina sinn til að efla NATO vegna aðgerða gegn hryðjuverkum, meðal annar með því að fá íslensk flugfélög til að flytja hergögn og hermenn til stríðsátakasvæða. Hafi hann byggt grun sinn um að ráðist yrði gegn íslenskum flugvélum á innsæi sínu og áðurnefndum fréttaflutningi. Það hafi verið ætlun hans með aðvöruninni að vekja athygli á því að strax þyrfti að gæta sérstaks öryggis íslenskra flugvéla og herða öryggiskröfur í því sambandi. Kvaðst ákærði hafa trúað því að íslenskum flugvélum hafi stafað raunveruleg hætta af flugránum eða sprengjutilræðum og því talið nauðsynlegt að senda tölvupóstinn til að vara við þeirri hættu. Hann hafi engan ásetning haft til að senda vísvitandi ranga aðvörun. Af hans hálfu er einnig bent á að aðvörunin hafi verið almenns efnis og ekki beint gegn tilteknu flugi.

Þegar framangreindur framburður ákærða og orðalag viðvörunarinnar er virt þykir ekki fram komin lögfull sönnun þess að með ákærða hafi búið sá ásetningur sem áskilinn er í 120. gr. a almennra hegningarlaga. Verður þegar af þeirri ástæðu staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna beri ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Eftir málsúrslitum skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

       Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Á, fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2003.

Málið er höfðað með ákæru, útgefinni 2. desember 2002, á hendur: „Á, kennitala […], […], Reykjavík, fyrir hegningarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 22. nóvember 2002, í nafni samtakanna F, […], Reykjavík, dreift í tölvupósti frá starfsstöð samtakanna til fjölda viðtakenda, þeirra á meðal starfsmanna lögreglu, Flugmálastjórnar, flugfélaganna Atlanta hf., Flugleiða hf. og fjölmiðla, tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél, sem var til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna, svohljóðandi:

„Við höfum rökstuddan grun um að ráðist verði gegn Íslenskri flugvél með flugráni og eða sprengjutilræði.  Við vitum ekki hvort þessi árás muni beinast gegn almennu flugi Icelandair eð Atlanta eða hvort bæði félögin verði skotmark.  Tilræðið mun koma sem svar við þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að nota borgaralegar flugvélar íslenska flugflotans til flutninga á hergögnum eða hermönnum fyrir NATO í ólögmætu stríði gegn Írak.

Rétt er að vara almenning til að ferðast með þessum flugfélögum á næstu dögum og vikum.

Okkur finnst rétt að vekja athygli á þessu.

F […]

                Telst háttsemi ákærða varða við 120. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 16/1990 og 2. gr. laga nr. 41/1973.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er þess jafnframt krafist að ákærða og F, kt. […], sem ákærði er forsvarsmaður fyrir, verði gert að þola upptöku á fartölvu af gerðinni Gateway og netþjóni […] sem ákærði notaði við brot sitt.“

Verjandi ákærða krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og  málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 22. nóvember sl. hófst rannsókn máls þessa eftir að öllum starfsmönnum ríkislögreglustjóra hafði borist tölvupóstur sá sem tekinn er upp í ákæruna.  Að kvöldi sama dags hafði lögreglan samband við ákærða, þar sem hann var staddur á skemmtistað í miðborginni, en þar var ákærði handtekinn laust upp úr miðnætti.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa sent tölvupóstinn sem í ákæru greinir. 

Daginn eftir var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald, en samkvæmt kröfu lögreglunnar beindist rannsókn að ætluðum brotum gegn 100. gr. a, 100. gr. c, 168. gr. og 233 gr. almennra hegningarlaga.  Hvorki þá né síðar undir lögreglurannsókninni var vikið að því að rannsóknin beindist að ætluðu broti ákærða gegn 120. gr. a almennra hegningarlaga.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglunni.

Ákærði neitar sök, en viðurkennir að hafa sent tölvupóstinn eins og lýst er í ákærunni.  Hann kvað tölvupóstinn ekki hafa verið tilhæfulausan.  Ákærði óskaði eftir því að leiða sem vitni blaðamann Morgunblaðsins, sem hafði ritað grein í blaðið 22. nóvember sl., þar sem meðal annars var fjallað um samninga stjórnvalda við flugfélögin Atlanta hf. og Flugleiðir hf. um loftflutninga á vegum NATO.  Ákærði kvað blaðagreinina hafa verið hvatann að því að tölvupósturinn var sendur.  Ákærði kvaðst telja að íslenskar flugvélar, sem notaðar væru til að flytja hergögn væru lögmæt skotmörk.  Ákærði hafnaði upptökukröfu ákæruvaldins.

Við fyrirtöku málsins  15. apríl sl. var ákærða gefinn kostur á því að tilnefna lögmann sem skipaður yrði verjandi hans í málinu og þá var ákærða greint frá ástæðum þess að nauðsynlegt þótti að skipa honum verjanda.  Ákærði, sem hafði óskað eftir því að fá að tala sínu máli sjálfur, kaus að tilnefna ekki lögmann.  Honum var þá skipaður verjandi á grundvelli 2. mgr. 34. gr. laga nr. 19/1991.  Ákærði var ósáttur við þetta og lýsti því yfir að hann mætti ekki oftar fyrir dóm í málinu.  Ákærði kom því ekki aftur fyrir dóminn til ítarlegri skýrslugjafar undir aðalmeðferð málsins og var litið svo á að ákærði hafi með þessu kosið að svara ekki spurningum um sakarefnið eins og hann hefur heimild til sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991, en hann hafði áður lýst afstöðu sinni til sakarefnisins fyrir dómi eins og rakið var.  Af þessum sökum er nauðsynlegt að reifa framburð ákærða hjá lögreglunni, en teknar voru af ákærða tvær skýrslur þar.  Þrátt fyrir það að við hvoruga skýrslutökuna hafi ákærða verið kynnt að rannsókn málsins beindist að ætluðu broti hans gegn 120. gr. a almennra hegningarlaga koma þar engu að síður fram atvik sem skýra huglæga afstöðu ákærða.  Verður framburður ákærða hjá lögreglu um þetta rakinn og tekinn upp orðrétt, en skýrslur ákærða hjá lögreglu voru hljóðritaðar að viðstöddum þáverandi verjanda hans.  Framburður ákærða var síðan skrifaður upp og liggur hann fyrir, staðfestur og leiðréttur af ákærða.

Ákærði kvaðst vera stofnandi og talsmaður samtakanna F.  Hann kvaðst hafa sent tölvupóstinn út um kl. 19.00, föstudaginn 22. nóvenber sl.  Hann var spurður um það á hvaða upplýsingum hann hefði byggt þegar hann sendi tölvupóstinn.  Svar ákærða er á þessa leið:  ,,Í nokkkur ár að þá hef ég kannski búið við þau óheillaörlög að fá svona allskonar draumsýnir í sambandi við þessi mál, og það varð til þess að ég stofnaði þessi samtök.  Ég til dæmis, þú getur skoðað það, ef þú vilt sjá bara staðreyndir, ég lýsti því yfir á Stöð 2 nokkru áður en að þessi stóru átök brutust út í Palestínu, að það myndi gerast, það var byggt á svona innsæi og öðrum upplýsingum.  Þetta mál er byggt upp á svipaðan hátt, það er þarna innsæi, sem að ég hef í þetta.  Ég hef átt von á þessu að þetta muni gerast, það kom mér ekki á óvart.  Þetta er eins og að raða saman púsluspili.  Upplýsingarnar sem að ég síðan hef utan frá, það eru fréttir úr almennum fréttamiðlum eins og t.d. í Bretlandi, þar sem að verið er að vara við því, að aðilar sem að styðja ólögmæt stríð gegn Írak eða Arabaþjóðum, verði ráðist á.  Það hafa komið alveg skýrt fram slíkar aðvaranir, það var bara núna fyrir nokkrum mánuðum í breskum fjölmiðlum, eftir, ég man ekki nafnið á manninum, þekktum manni þarna í Bretlandi.  Síðan kom í gær tölvupóstur með rökstuðningi, sem að lýsti því alveg nákvæmelga, hvers vgna íslenskar flugvélar yrðu núna skotmark, þær væru orðnar lögmætt skotmark eins og pósturinn orðaði það. Þessir tveir þættir sem að hafa ráðið þarna miklu.  Svo það að íslenska ríkisstjórnin er að auglýsa það að þeir séu búnir að gera samninga við Flugleiðir og Atlanta um það að nota borgaralegar flugvélar til flutnings á hergögnum.  Borgaralegar flugvélar til flutnings á hergögnum er glæpur.  Að flyta hergögn í borgaralegum flugvélum gerir það að verkum að öll flug viðkomandi flugfélaga geta orðið target. Vegna þess að hryðjuverkamenn geta ekki skilið á milli hvenær þessar flugvélar eru að flytja hergögn og hvenær þær eru að flytja fólk.  Þannig að það er ábyrgðin á þessari truflun á starfsemi þessara flugfélaga, hún liggur í hendi íslensku ríkistjórnarinnar, ekki mín.  Ég er einungis að vara við því sem muni verða.  Ef að þessi samningur mun halda áfram að vera í gildi, þá hef ég grun um það að það muni verða ráðist á íslenska flugvél eða tilraun gerð til slíks og ef það tekst að þá verði hún sprengd í loft upp.“

Ákærði greindi frá því að tölvupóstur frá X  hefði verið ein af  ástæðum fyrir því að hann sendi tölvupóstinn.  Tölvupósturinn er svohljóðandi: 

„Kæru vinir,

Ég legg til að eftirfarandi bréf verði sent forráðamönnum Flugleiða og Flugfélagsins Atlanta með samriti til fjölmiðla. Leita eftir athugasemdum og tillögum. Með kærri kveðju, X

---------

Ágæti forstjóri.  Á öftustu síðu Mbl. í dag er greint frá því að íslenska ríkið hafi gert “rammasamning” við fyrirtæki yðar um flutninga í þágu hernaðaraðgerða á vegum NATÓ, ef til þeirra verður gripið, t.d. gegn Írak.

Við undirrituð bendum vinsamlega yður á, að þeir sem taka þátt í atriði, þ.m.t. með flutningum í þágu hernaðar, verða sjálfkrafa lögmæt skotmörk árása.  Þetta myndi einnig eiga við um flugvélar og áhafnir fyrirtækis yðar.  Þessi staða kæmi upp án tillits til þess hvort stríðið sjálft er lögmætt eða ei.  Þegar stríð er háð í trássi við grundvallarreglur þjóðaréttar, t.d. ef um einhliða stríðsaðgerðir eins ríkis eða sjálfskipaðs hóps ríkja er að ræða, eða stríð sem er háð án ótvíræðra heimildar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, teljast slíkar aðgerðir alþjóðaglæpir og þátttakendur í þeim ótýndir glæpamenn.  Hlutdeild viljugra þátttakenda í slíku stríði samsvarar aðild að hryðjuverkum.

Við viljum benda á, að aðilar víða um heim, sem eru mótfallnir hnattrænum yfirgangi Bandaríkjanna og NATÓ og hvaða borgaralegir aðilar veita stríðsaðilum þjónustu.  Til þess að koma í veg fyrir hugsanlegar árásir á eigur og starfsfólk flugfélags yðar af hálfu aðila sem hafa getu og vilja til að fremja slíkar árásir, hvetjum við yður að hafna hverskyns þjónustu við stríðsaðgerðir gegn fjarlægum þjóðum eða ríkjum.

Erindi okkar er ekki skrifað í hótunarskyni, enda teljum við okkur friðarsinna og andstæðings ofbeldis.  Erindi þetta er skrifað vegna ótta okkar um að íslensk fyrirtæki setji öryggi stafsmanna sinna og annarra Íslendinga í óþarfa hættu með því að gerast aðilar að stríðsaðgerðum stórþjóða.

X.“

Ákærði greindi frá trausti, sem hann bæri til X og þekkingu X á þessum málefnum.  Aðspurður um tilgang með tölvupóstinum svaraði ákærði svo:  ,,Til þess að vara fólk við því, ég ber Íslendinga fyrir brjósti, ég vil ekki sjá 200 manns farast hérna út af einhverjum aulaskap.  Þess vegna er þetta sent á Flugmálastjórn, lögregluna og svona aðila og flugfélögin sjálf.  Það þarf að margfalda öryggið núna fyrir íslenskar flugvélar.  Þetta Mikki Mouse öryggi sem hefur verið í kringum íslenskar flugvélar, það gengur ekki núna lengur.  Nú verður að vera mjög töff öryggi á íslenskum flugvélum og það er sent til þess aðallega.“

Ákærði var spurður hvort hann hafi ekki talið að hann skapaði óþarfa glundroða og hræðslu með því að dreifa tölvupóstinum jafn víða og hann gerði.  Ákærði svaraði þannig:  ,,Ég tel bara skyldu hvers manns sem að býr yfir svona upplýsingum eins og ég geri og svona grun, að upplýsa það.  Ég tel að ég hefði bara verið að svíkjast um ef ég hefði ekki gert það.“

Ákærði greindi frá því að hann hafi talið að um raunverulega hættu fyrir íslenskar flugvélar hafi verið að ræða og þess vegna hafi hann sent tölvupóstinn.  Hann kvað mjög óvenjulegt að flytja hergögn í borgaralegum flugvélum og hann hafi sent lögregluyfirvöldum tölvupóstinn til að reyna að fá þau til að hindra að framið verði hryðjuverk.  Þá bar ákærði að lögreglan oftúlkaði texta tölvusendingarinnar, þar sem einungis væri fjallað um rökstuddan grun, en ekki um vitneskju.

Vitnið Z, upplýsingafulltrúi hjá Air Atlanta, lýsti því hvaða áhrif tölvupósturinnn, sem hér um ræðir, hafði á starfsemi Atlanta og að sendingin hafi skapað ótta og lýsti Z því.  Þá greindi hann frá mikilli vinnu við að hreinsa út „ruslpóst“ frá F og öðrum í kjölfarið.  Z greindi frá því að flugvélar í ,,borgaralegu flugi“ hafi ekki heimild til að fljúga inn á átakasvæði vegna þess að tryggingar vélanna taki ekki til slíks flugs.  Z kvað frétt í Morgunblaðinu frá  22. nóvember 2002, sem ákærði hefur vísað til sem eitt af tilefnum þess að hann sendi tölvupóstinn, vera hreinan misskilning og ekki sé hægt að framkvæma það sem honum var kynnt úr fréttinni.  Samhengisins vegna er rétt að taka hér upp textann, sem Z var spurður um, og birtur var í Morgunblaðinu ofangreindan dag.

Textinn er millifyrirsögn í grein í blaðinu ofangreindan dag: ,,Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja að mörkum flutningagetu vegna aðgerða Nato í formi þess að íslensk flugfélög fljúgi með lyf eða hergögn til átakasvæða.“

Vitnið, Y, lögreglufulltrúi, kom einnig fyrir dóminn. Ekki er þörf á að rekja vitnisburð hans.

Niðurstaða

Ákærða er gefið að sök brot gegn 120. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en greinin hljóðar svo:  ,,Nú veitir maður vísvitandi rangar upplýsingar eða lætur uppi vísvitandi rangar tilkynningar, sem eru fallnar til að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð manna, um atriði sem varðar loftferðaröryggi eða öryggi í flughöfn varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum.  Sömu refsingu varðar að útbreiða þess háttar orðróm gegn betri vitund.“

Ekki verður refsað fyrir brot gegn þessari lagagrein nema um vísvitandi rangar upplýsingar eða vísvitandi rangar tilkynningar hafi verið að ræða, sem voru til þess fallnar að hafa þau áhrif sem lýst er í lagagreininni.  Í tölvupóstinum sem hér um ræðir segir í upphafi: ,,Vörum við sprengjutilræði gegn íslenskri fluvél.“  

Í ákærunni er ákærða er gefið að sök að hafa dreift ,,tilhæfulausri viðvörun”.  Í 120. gr. a almennra hegningarlaga er hvorki fjallað um tilhæfulausar upplýsingar né viðvaranir. Aðeins er fjallað um vísvitandi rangar tilkynningar eða upplýsingar. Í greinargerð með 2. gr. laga nr. 41/1973, sem er grunnur núverandi 120. gr a almennra hegningarlga, segir að ákvæðið sé ekki einskorðað við rangar tilkynningar til flugfélaga, heldur geti greinin átt við endranær og taki bæði til þess, að ótti sé vakinn um líf, heilbrigði eða velferð eins manns eða fleiri. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga verður manni ekki refsað nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem refsing er lögð við í lögum, eða má öldungis jafna til hegðunar, sem þar er talin afbrot. Grundvallarregla þessi er einnig í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 7. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 , en samkvæmt þeirri grein virðist ekki heimilt að beita lögjöfnun sem refsiheimild. 

Til að fella hina meintu háttsemi ákærða undir áður tilvitnaða lagagrein yrði að skýra greinina svo að hún taki til tilhæfulausra viðvarana. Að mati dómsins er of miklill munur á tilhæfulausri viðvörun, eins og lýst er í ákærunni, og vísvitandi rangri tilkynningu eða upplýsingum, eins og lýst er í 120. gr. a almennra hegningarlaga, til að unnt sé að fella fyrra tilvikið undir lagagreinina. Helgast þetta álit dómsins af  grundvallarreglum refsiréttar sem getið var um að ofan. Þá er viðvörunin í tölvupóstinum almenns eðlis og beinist t.a.m. ekki að tilteknu flugi. Yrði það hins vegar niðurstaðan að fella háttsemi ákærða undir 120. gr. a, hvort heldur er með almennri lögskýringu eða með fullkominni lögjöfnun, yrði ákærða ekki refsað fyrir brot gegn greininni nema hann hafi vísvitandi dreift tilhæfulausri viðvörun.  Ásetningur er saknæmisskilyrði en ákærði hefur neitað því að hafa vísvitandi sent tilhæfulausa viðvörun.

Því er lýst hér að framan hvað ákærða gekk til með sendingu tölvupóstsins og við hvaða upplýsingar hann studdist er hann sendi póstinn.  Þótt ákærði hafi nefnt nokkur atriði í þessu sambandi virðist einkum byggt á tölvupóstinum frá X, sem áður var rakinn, og frétt í Morgunblaðinu að morgni sama dags og ákærði sendi tölvupóstinn.  Ráða má af myndbandsupptöku úr fréttatímum sjónvarps á þessum tíma, að í samfélaginu var í gangi umræða um það að til þess gæti komið að íslenskar farþegaflugvélar flyttu hergögn til átakasvæða. Svo virðist sem þessi umræða hafi farið af stað eftir fréttina í Morgunblaðinu, en allt var þetta byggt á misskilningi eins og fram kom hjá vitninu Z og sem einnig má ráða af myndbandinu, þar sem meðal annars er rætt við utanríkisráðherra.

Ekki er við annað að styðjast en huglægt mat, er það er virt hvort tölvupósturinn hafi verið til þess falinn að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna.  Engin regla er einhlít er þetta er virt. Ekki verður hjá því komist að taka mið af því sem er alkunna nú til dags að einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum berst í tölvupósti mikið magn allskyns tölvupósts um hvað eina. Má í þessu sambandi vísa til vitnisburðar Z um ruslpóst sem Air Atlanta hefur borist í kjölfar þessa.  Flestir eru sjóaðir í því að túlka slíkar sendingar, en með vísan til vitnisburðar Z og orðalags sendingarinnar tekur dómurinn undir með ákæruvaldinu að því leyti að tilkynningin kunni gagnvart sumum að hafa verið til þess fallin að hafa þau áhrif, sem lýst er í ákærunni. Vegna orðalags tölvupóstsins, sem að ýmsu leyti er ekki skýrt, var eðlilegt, eins og á stóð, að lögreglan brigðist við eins og gert var. 

Það er hins vegar álit dómsins að undir rannsókn málsins hafi komið í ljós hvað ákærða gekk til.  Ekki verður annað ráðið af framburði hans en það, að hann hafi talið að um raunverulega hættu hafi verið að ræða sem hann taldi sér skylt að vara við eins og hann bar, en því var áður lýst hvers vegna ákærði dró þessa ályktun.

 Þótt í upphafi tölvupóstsins sé fjallað um rökstuddan grun leiðir það ekki sjálfkrafa til sakfellingar, þótt síðar hafi komið í ljós að grunur ákærða reyndist rangur og miðað við það sem rakið hefur verið var hann byggður á misskilningi og ályktanir sem ákærði dró á þessum tíma hafi verið rangar, enda eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar, sbr. 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og sambærilegt ákvæði í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið er það álit dómsins að ósannað sé gegn neitun ákærða og öllu því sem nú hefur verið rakið, að hann hafi vísvitandi sent tilhæfulausa viðvörun eins og lýst er í ákærunni.

Að öllu ofanrituðu virtu er það álit dómsins að efnislýsing ákæru samrýmist ekki 120. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Jafnvel þótt greinin yrði skýrð svo að háttsemi ákærða yrði felld undir hana, er ósannaður ásetningur ákærða og eru því ekki uppfyllt huglæg skilyrði þess að refsingu verði beitt. Leiðir hvor niðurstaðan um sig til sýknu. Ber samkvæmt því sem nú hefur verið rakið að sýkna ákærða af refsikröfu ákæruvaldsins. Eftir þessum úrslitum ber að sýkna ákærða og F, sem ákærði er í forsvari fyrir, af upptökukröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Á, er sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.