Hæstiréttur íslands
Mál nr. 347/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
- Þinghald
|
|
Þriðjudaginn 12. september 2000. |
|
Nr. 347/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(enginn) gegn X (enginn) |
Kærumál. Vitni. Skýrslugjöf. Þinghald.
Skipaður réttargæslumaður stúlkunnar B, sex ára, kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um að dómþing til að taka skýrslu, sem lögreglan krafðist að B gæfi sem brotaþoli við rannsókn máls, yrði háð í Barnahúsi. Talið var að ekki væru efni til að hnekkja því mati héraðsdómara að húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem sérstaklega væri útbúið til að taka skýrslur af börnum, fullnægði kröfum 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára og markmiðum rannsóknar opinbers máls. Var úrskurður héraðsdómara því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Skipaður réttargæslumaður B skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2000, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að dómþing til að taka skýrslu, sem sóknaraðili hefur krafist að kærandi gefi sem brotaþoli við rannsókn máls, verði háð í Barnahúsi að Sólheimum 17 í Reykjavík. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka skýrslu af kæranda í Barnahúsi.
Sóknaraðili og varnaraðili hafa hvorugur látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms er þess krafist af hálfu kæranda, sem er sex ára að aldri, að sérstaklega útbúin aðstaða í Barnahúsi verði nýtt við þá skýrslutöku, sem um ræðir í málinu, en hún tengist rannsókn á ætluðu broti gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari látið í ljós að hann telji að húsnæði í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafi sérstaklega verið útbúið til að taka skýrslur af börnum, fullnægi í hvívetna kröfum 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára og markmiðum rannsóknar opinbers máls. Eru ekki efni til að hnekkja því mati héraðsdómara. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2000.
Með beiðni Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 6. þ.m., var þess farið á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur, að skýrsla yrði tekin af sjö ára stúlku vegna gruns um brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um lagaheimild er vísað til a-liðar 1. mgr. 74 gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Boðað var til skýrslutökunnar samdægurs og skyldi hún hefjast í dag kl. 14. Í boðun kom fram, að skýrslutakan skyldi fara fram í sérútbúnu húsnæði dómsins til þess að yfirheyra börn. Þá var sérhæfður kunnáttumaður kvaddur til aðstoðar við skýrslutökuna.
Tæpum þremur klukkustundum áður en skýrslutakan skyldi hefjast bárust dómara skrifleg mótmæli tilnefnds réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hrl., við að yfirheyrslan færi fram í sérútbúnu herbergi á reglulegum þingstað dómsins. Krefst réttargæslumaður brotaþola þess, að yfirheyrslan fari fram ,,í sérútbúinni yfirheyrsluaðstöðu í húsinu nr. 17 við Sólheima í Reykjavík, Barnahúsi.”
Um rökstuðning fyrir kröfunni vísar réttargæslumaðurinn til þess, að fram komi í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 36/1999, 7. mgr. 59. gr., að horfa beri til þess sjónarmiðs, að skýrslutakan sé framkvæmd á þann hátt, að sem til minnstra óþæginda verði fyrir vitni. Eigi þetta ekki síst við brotaþola, sérstaklega ef hann er ungur að árum. Þá segi í athugasemdunum um sérútbúna aðstöðu í þessum tilgangi, að hún eigi að vera þannig útbúin, að börnum, sem eiga að gefa skýrslu, líði þar eins vel og kostur er. Með þessi sjónarmið um verndarhagsmuni barns og meginmarkmið nefndra lagabreytinga í huga, telji réttargæslumaður það ekki vera í anda laganna að taka hina fyrirhuguðu skýrslu af barninu í dómhúsi. Sé sérútbúna aðstaðan þar langt frá því að fullnægja þeim þörfum, sem svo ung börn hafa almennt og þá vísað til alls ytri umbúnaðar og móttöku í dómhúsinu, sem sé eingöngu hannað með fullorðið fólk í huga. Í greinargerð með kröfunni segir orðrétt: ,,Biðaðstaða er ekki góð, barnið kemst ekki hjá því að verða vart við allan þann umgang sem fylgir daglegum störfum í dómhúsi og ekki er unnt að tryggja að barnið hitti ekki sakborning ef hann er viðstaddur yfirheyrsluna. Þá er salernisaðstaða afleit. Hins vegar er vísað til þess, að sjálft yfirheyrsluherbergið er stórt og þar eru bæði spegill andspænis sæti vitnisins og sýnileg upptökuvél. Er það almennt til þess fallið að hamla einbeitingu og athygli ungra barna, og kann einnig að verka fráhrindandi og ógnvekjandi fyrir þau. Við slíkar aðstæður, sem eru afar framandi fyrir lítið barn, er rík hætta á að spenna og kvíði leiði til lakari skýrslu og óáreiðanlegri, auk þess að valda barninu vanlíðan og óþarfa óþægindum.” Þá segir í greinargerðinni, að aðstaðan í Barnahúsi fullnægi hins vegar í öllu tilliti þeim skilyrðum, sem sett eru í slíkri sérútbúinni aðstöðu í reglugerð nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára. Er mælst til þess, að dómari gangi á vettvang, áður en hann tekur ákvörðun um kröfu brotaþola, hafi hann ekki þegar gert það.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 19/1991 skulu dómþing haldin á reglulegum þingstöðum og dómsölum, ef kostur er. Hins vegar kemur fram í 4. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára, sem sett var með heimild í 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, að skýrslutaka skuli að jafnaði fara fram annars staðar en í dómsal, þegar um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nema brot sé smávægilegt og dómari telji hagsmunum barnsins borgið þótt skýrslutaka fari fram með venjulegum hætti. Þá segir í 5. gr. reglugerðarinnar, að þegar skýrslur eru teknar annars staðar en í dómsal skuli það gert í í sérútbúnu húsnæði, ef þess er nokkur kostur.
Í Dómhúsinu við Lækjartorg hefur verið útbúið sérstakt hliðarherbergi, þar sem skýrslutökur af börnum fara að jafnaði fram. Er herbergið með húsbúnaði, lýsingu og öðrum búnaði, sem valinn var sérstaklega af arkitekt í samráði við sálfræðing barnaverndarnefndar Reykjavíkur með tilliti til þess, að herbergið gæti sem best þjónað þeim tilgangi, sem því er ætlað. Er aðstaða góð til að fylgjast með skýrslutökunni gegnum gler, án þess að barnið verði fyrir truflunum, þar eð ekki sést gegnum það úr hliðarherberginu. Þá er tækjabúnaður til myndbands- og hljóðupptöku mjög góður. Ákveðið verklag er haft varðandi umferð um dómhúsið, þegar skýrslutaka fer fram. Í því sambandi er meðal annars gert ráð fyrir, að foreldri eða einhver aðstandandi fylgi barni til dómhússins, en réttargæslumaður taki á móti þeim í anddyri, Austurstrætis- eða bakdyramegin, og fylgi þeim upp á fjórðu hæð hússins, þar sem hin sérútbúna aðstaða er. Þegar þangað er komið læsir dómvörður dyrum út að stigagangi. Barn, aðstandandi þess og réttargæslumaður þess hafa aðstöðu í sérstöku herbergi á ganginum. Tekið skal fram af gefnu tilefni, að góð salernisaðstaða er á hæðinni, yfirheyrsluherbergi er lítið og gerðar eru ráðstafanir til að sakborningur hitti ekki brotaþola, ef hinn fyrrnefndi kýs á annað borð að vera viðstaddur skýrslutöku. Þá hefur dómarinn kynnt sér aðstöðuna í Barnahúsi og annast skýrslutökur þar, áður en sérútbúinni aðstöðu til skýrslutöku af börnum var komið upp hér í dómi.
Af 1. mgr. 7. gr. laga nr. 19/1991 leiðir, að dómþing skal halda á reglulegum þingstað, ef þess er kostur. Samkvæmt framansögðu hefur verið komið upp sérútbúnu húsnæði í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem að mati dómara fullnægir í hvívetna kröfum 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 og markmiðum sakamálarannsóknar. Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu réttargæslumanns brotaþola um, að skýrslutakan fari fram utan reglulegs þingstaðar dómsins.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Úrskurðarorð:
Kröfu Sifjar Konráðsdóttur hrl. um, að skýrslutaka í máli þessu fari fram í Barnahúsi, er hafnað.