Hæstiréttur íslands
Mál nr. 296/1998
Lykilorð
- Skuldamál
- Fjárvarsla
|
|
Fimmtudaginn 25. febrúar1999. |
|
Nr. 296/1998. |
Helga Sigríður Hannesdóttir (Tómas Jónsson hrl.) gegn Ingibjörgu Konráðsdóttur (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Skuldamál. Fjárvarsla.
Deilt var um heimild H til ráðstöfunar á fé I, aldraðrar móður hans. Þegar I var lögð inn á ellideild sjúkrahúss fól hún H vörslur sparisjóðsbókar með 500.000 kr. innistæðu. H tók féð til eigin nota og var ekki talið að tekist hefði að sýna fram á heimild hans til þess, en sönnunarbyrði um það var talin hvíla á ekkju H vegna dánarbús hans. Var niðurstaða héraðsdóms um að endurgreiða bæri I féð úr dánarbúi H staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 20. júlí 1998 og krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar úr hennar hendi í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í héraðsdómi lagðist stefnda, sem fædd er árið 1905, í apríl 1987 inn á ellideild sjúkrahúss Skagfirðinga til frambúðarvistunar. Hús hennar var selt og andvirðinu að mestu skipt milli barna hennar, en 500.000 krónur lagður á sparisjóðsbók í hennar nafni í september 1988. Að sögn yfirlæknis sjúkrahússins var stefnda þá með væg elliglöp, sem fóru hægt vaxandi, og í janúar 1990 varð af þessum sökum að flytja hana á deild þar sem meiri umönnun var veitt. Ekki er annað leitt í ljós en að hún hafi sjálf falið syni sínum, Hauki Þorsteinssyni, vörslur nefndrar sparisjóðsbókar.
Áfrýjandi mótmælir því ekki að Haukur Þorsteinsson, sem hún situr í óskiptu búi eftir, hafi nýtt sér umrætt fé stefndu. Hún mótmælir því hins vegar, að það hafi verið gert í heimildarleysi. Öll gögn um ráðstafanir fjárins hafi verið afhent þegar þess hafi verið óskað svo og aðrar upplýsingar. Sönnunarbyrði hljóti að hvíla á stefndu um að Hauki hafi ekki verið þetta fé heimilt eða að hann hafi valdið stefndu tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.
Ágreiningslaust er að Haukur Þorsteinsson hafi tekið til eigin nota fé stefndu, sem hafði verið lagt á umrædda sparisjóðsbók. Af hálfu áfrýjanda hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi haft til þess heimild, en á áfrýjanda hvílir sönnunarbyrðin. Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Eftir atvikum er rétt að áfrýjandi greiði stefndu 160.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Helga Sigríður Hannesdóttir, greiði stefndu, Ingibjörgu Konráðsdóttur, samtals 160.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. f.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Rögnvaldi Þorsteinssyni, kt. 120336-3989, Esjubraut 18, Akranesi, sem lögráðamanni Ingibjargar Konráðsdóttur, kt. 040605-2829, Sjúkrahúsi Sauðárkróks, á hendur Helgu Sigríði Hannesdóttur, kt. 010234-7519, Jöklaseli 23, Reykjavík, vegna dánarbús Hauks Þorsteinssonar, kt. 140132-4039, með stefnu sem birt var 4. apríl 1997.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 526.160,04 kr. með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, af 25.000 kr. frá 4. febrúar 1991 til 6. sama mánaðar, af 40.000 kr. frá þeim degi til 18. sama mánaðar, en af 60.000 kr. frá þeim degi til 15. apríl sama ár, en af 63.500 kr. frá þeim degi til 17. sama mánaðar, en af 83.500 kr. frá þeim degi til 10. maí sama ár, en af 98.500 kr. frá þeim degi til 5. júlí sama ár, en af 128.500 kr. frá þeim degi til 16. sama mánaðar, en af 178.500 kr. frá þeim degi til 12. ágúst sama ár, en af 208.364 kr. frá þeim degi til 18. sama mánaðar, en af 220.796,30 kr. frá þeim degi til 19. sama mánaðar, en af 270.796,30 kr. frá þeim degi til 28. sama mánaðar, en af 300.796,30 kr. frá þeim degi til 2. september sama ár, en af 328.376,60 kr. frá þeim degi til 12. sama mánaðar, en af 378.376,60 frá þeim degi til 17. október sama ár, en af 443.950,60 kr. frá þeim degi til 16. desember sama ár, en af 453.950,60 kr. frá þeim degi til 6. febrúar 1992, en af 483.950,30 kr. frá þeim degi til 6. mars sama ár, en af 513.950,60 kr. frá þeim degi til 13. apríl sama ár, en af 523.950,60 frá þeim degi til 5. nóvember sama ár, en af stefnufjárhæðinni 526.160,04 frá þeim degi til 17. apríl 1997, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins. Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til greiðslu 24,5% virðisaukaskatts af þjónustu lögmanna.
Dómkröfur stefndu eru í fyrst lagi að verða sýknuð af kröfum stefnanda. Í öðru lagi að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins. Þá er þess krafist að dæmdur verði virðisaukaskattur á málflutningsþóknun þar sem stefnda sé ekki virðisaukaskattskyld.
Í greinargerð stefndu var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi. Flutningur um frávísunarkröfuna fór fram 23. október 1997 og féllst héraðsdómur á frávísun 31. sama mánaðar. Með dómi Hæstaréttar Íslands 4. desember 1997 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Aðalmeðferð í málinu fór fram 3. mars sl., en vegna veikinda þess dómara sem fór með málið var það endurflutt 27. s.m. og dómtekið á ný.
I.
Stefnandi rekur málsástæður sínar og önnur atvik málsins með eftirfarandi hætti: Stefnda situr í óskiptu búi eftir mann sinn, Hauk Þorsteinsson, kt. 140132-4039, en Haukur andaðist þann 21. september 1993. Haukur heitinn hafi fram að andláti sínu annast fjárreiður móður sinnar Ingibjargar Konráðsdóttur. Eftir andlát Hauks heitins hafi Rögnvaldur Þorsteinsson tekið að sér að annast fjárreiður móður sinnar. Þann 11. júlí 1996 hafi hann verið skipaður lögráðamaður hennar. Fljótlega eftir að Rögnvaldur hóf umsjón með fjárreiðum móður sinnar hafi hann orðið þess áskynja að móðir hans var verr stödd fjárhagslega en hann hafði ætlað.
Ingibjörg Konráðsdóttir er fædd 4. júní 1905. Á árinu 1987 var hún lögð inn á Sjúkrahús Skagfirðinga, Sauðárkróki, til frambúðarvistunar og hefur hún dvalist þar síðan. Þann 28. september 1988 var fasteign Ingibjargar, að Freyjugötu 46, Sauðárkróki seld og er Rögnvaldi kunnugt um að hluti söluandvirðisins muni hafa verið lagður inn á sparisjóðsbók á nafni Ingibjargar, nr. 13424 í Búnaðarbanka Íslands, Sauðárkróki, en Haukur heitinn hafi verið handhafi bókarinnar. Er Rögnvaldur hafði samband við bankann kom í ljós að búið var að eyða sparisjóðsbók nr. 13424.
Rögnvaldur kveðst hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum frá stefndu um það með hvaða hætti fjármunum þeim, sem voru á sparisjóðsbók nr. 13424 á nafni Ingibjargar Konráðsdóttur, hafi verið ráðstafað en stefnda hafi ekki svarað því. Rögnvaldur kveðst hafa haft upplýsingar um stofnun bókarinnar og tilurð hennar til 3. mars 1989, en til að afla sér frekari upplýsinga um afdrif sparisjóðsbókar nr. 13424 hafi hann snúið sér til útibús Búnaðarbanka Íslands, Sauðárkróki. Bankinn hafi upplýst með bréfum, dagsettum 14. júlí 1995 og 13. nóvember 1996, að sparisjóðsbók nr. 13424 í eigu Ingibjargar hafi verið eyðilögð þann 24. september 1990 og innistæðan, 478.585,24 kr., hafi verið færð yfir á sparisjóðsbók nr. 263473 á nafni Hauks Þorsteinssonar. Upplýsti bankinn að innistæða á sparisjóðsbók nr. 263473 hafi þann 1. janúar 1991 verið 488.874,82 kr. Að ósk Rögnvalds upplýsti bankinn um hreyfingar á sparisjóðsbók nr. 263473 og hvert úttektum hefði verið ráðstafað. Samkvæmt upplýsingum bankans frá 13. nóvember 1996 og ljósritum úttektarmiða, voru úttektir 20 á bók nr. 263473 og námu samtals 526.190,04 kr. Bókin hafi verið tæmd og eyðilögð þann 5. nóvember 1993 og innistæðan, þá 2.209,44 kr., lögð inn á reikning á nafni db. Hauks Þorsteinssonar.
Samkvæmt upplýsingum Búnaðarbankans hafi Haukur Þorsteinsson notað innistæðu á sparisjóðsbók nr. 263473 til að framlengja víxla á sínu nafni, samtals 57.432 kr., til að greiða af skuldabréfi og reikninga samtals 57.444,50 kr., til kaupa á erlendum gjaldeyri 10.000 kr. og tekið út í peningum samtals 80.000 kr. Þá hafi verið lagt inn á tékkareikning nr. 12557, eigandi Haukur Þorsteinsson, samtals 319.074 kr.
Svo sem fyrr sagði hafi Ingibjörg Konráðsdóttir dvalist á Sjúkrahúsi Skagfirðinga, Sauðárkróki, óslitið frá árinu 1987. Á henni hafi ekki hvílt neinar fjárhagslegar skuldbindingar og aðstæður hennar hafi að öðru leyti verið slíkar að hún hefur ekki haft þörf fyrir peninga til að standa straum af daglegum útgjöldum. Í vottorði Ólafs R. Ingimarssonar, yfirlæknis Sjúkrahúsi Skagfirðinga, dags. 13. nóvember 1995, segi svo: „Ingibjörg er gömul kona sem leggst inn á ellideild sjúkrahússins til frambúðarvistunar 10.04 1987. Er þá með væg elliglöp sem fara hægt vaxandi og 03.01.90 verður að flytja hana yfir á deild þar sem meiri umönnun er möguleg, þetta að mestu vegna vaxandi elliglapa. Þau hafa síðan farið vaxandi hægt og bítandi til dagsins í dag og nú er Ingibjörg algjör hjúkrunarsjúklingur og ekki í raunveruleikatengslum við þennan heim.“
Sparisjóðsbók nr. 13424 var á nafni Ingibjargar og innistæða á bókinni hennar eign. Þann 24. september 1990 er sparisjóðsbókin eyðilögð og innistæðan, 478.585,24 kr., eign Ingibjargar, færð á bók nr. 26373 í Búnaðarbanka Íslands, Sauðárkróki, á nafni Hauks heitins Þorsteinssonar. Rögnvaldur heldur því fram að þetta hafi verið gert án vitundar og samþykkis Ingibjargar. Þá heldur hann því fram að upplýsingar Búnaðarbanka Íslands, Sauðárkróki, sýni svo ekki verði umdeilt að Haukur heitinn hafi ekki notað fjármuni móður sinnar í hennar þágu, heldur í eigin þágu.
Rögnvaldur heldur því fram að fyrir liggi óyggjandi sönnur að Haukur heitinn hafi í heimildarleysi og með saknæmum og ólögmætum hætti nýtt sér fjármuni móður sinnar, Ingibjargar Konráðsdóttur og þannig valdið henni tjóni, sem óskipt bú stefndu og Hauks heitins Þorsteinssonar beri að bæta.
Þá heldur Rögnvaldur því ennfremur fram að Haukur heitinn hafi nýtt sér bágt andlegt ástand móður sinnar til að afla sér fjármuna, sbr. 31. gr. samningalaga nr. 7/1936, verði einhver vafi talinn um heimildarleysi Hauks.
Með leyfi sýslumannsins á Sauðárkróki þann 18. október 1993 hafi stefnda fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir Hauk Þorsteinsson, en hann lést þann 21. september 1993. Samkvæmt 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 7. gr. laga nr. 48/1989, hafi stefnda þá jafnframt tekið á sig allar skuldir Hauks heitins sem sínar eigin. Sé því kröfum stefnanda beint að stefndu.
Kröfugerð stefnanda sé byggð á yfirlitum Búnaðarbanka Íslands, Sauðárkróki, frá 14. júlí 1995 og 13. nóvember 1996 og sé við það miðað að Haukur heitinn hafi dregið sér féð þegar hver einstök úttekt fór fram. Vaxta sé krafist samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989, frá úttektardegi til þingfestingardags, en síðan sé krafist dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga, sbr. 15. gr. laganna.
Rögnvaldur Þorsteinsson hafi verið skipaður til að vera lögráðamaður Ingibjargar Konráðsdóttur, með skipunarbréfi sýslumannsins á Sauðárkróki dagsettu þann 11. júlí 1996, en hún hafi verið svipt fjárræði með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands vestra þann 1. apríl 1996. Rögnvaldur fari því með málefni Ingibjargar, sbr. V. kafla lögræðislaga nr. 68/1984 og með því fyrirsvar í dómsmálum, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Rögnvaldur hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum frá stefndu um ráðstafanir á fjármunum Ingibjargar Konráðsdóttur, en því hafi ekki verið svarað. Jafnframt hafi hann reynt að ná samkomulagi, en án árangurs. Stefnanda sé því nauðugur sá kostur að höfða mál þetta. Stefnandi byggi málsókn sína á því að Haukur heitinn hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið henni bótaskyldu tjóni og sé bótakröfum beint að stefndu á grundvelli 12. gr. erfðalaga.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til 247. gr. almennu hegningarlaga nr. 19/1940, til almennra reglna skaðabótaréttar um greiðslu skaðabóta utan samninga og til 31. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1986. Þá vísar stefnandi til 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 7. gr. laga nr. 48/1989, til ákvæða V. kafla lögræðislaga nr. 68/1984 og til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um vexti byggi á 7. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989 og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988. Lögmönnum sé skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
II.
Stefnda gerir eftirfarandi athugasemdir við málsatvikalýsingu stefnanda: Haukur Þorsteinsson hafi verið handhafi bókar númer 13424, en stefnandi sé með vangaveltur um hvort Haukur hafi verið talinn handhafi hennar. Varðandi fullyrðingar stefnanda að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum frá stefndu um með hvaða hætti fjármunum hafi verið ráðstafað án þess að því hafi verið svarað, þá sé það alrangt. Stefnda hafi afhent Rögnvaldi öll gögn, þ.m.t. bókhaldsmöppur sem hún hafi haft undir höndum um fjárreiður Ingibjargar eftir andlát Hauks. Stefnda hafi jafnframt ítrekað að ráðstöfun á fjármunum af sparisjóðsbók á nafni Hauks heitins væri hans einkamál. Þannig hafi öllum fyrirspurnum Rögnvaldar verið svarað. Aðstandendur Hauks heitins Þorsteinssonar hafi frá upphafi hafnað þeim ásökunum sem komið hafi frá Rögnvaldi Þorsteinssyni og Grétu Þorsteinsdóttur í garð Hauks heitins og hafi reynt til hins ítrasta að ná samkomulagi í máli þessu, enda hafi mál þetta fengið mjög á stefndu. Þegar ljóst hafi verið að þessar tilraunir bæru ekki árangur, þá hafi það verið ósk aðstandenda Hauks heitins Þorsteinssonar að mál þetta færi fyrir dómstóla, þannig að hægt væri að hreinsa mannorð hans.
Ekki sé um það deilt að Haukur heitinn hafi tekið við fjármálum Ingibjargar og hann hafi gengið frá öllum fjárhagsskuldbindingum sem á henni hafi hvílt. Það sé einnig ljóst að Ingibjörg hafi verið fullkomlega fær um að taka ákvarðanir um sín persónulegu mál á árinu 1990 og 1991. Því til staðfestu er bent á að Ingibjörg hafi kosið í sveitarstjórnarkosningum árið 1990 og í alþingiskosningum árið 1991.
Stefnda mótmæli því ekki að Haukur heitinn hafi nýtt sér í eigin þágu peninga af bók í hans nafni, enda hafi það verið í fullu samræmi við það að bók nr. 13424 hafi verið eyðilögð og ný bók stofnuð. Hann hafi verið handhafi bókar nr. 13424 og hafi því getað ef hann vildi nýtt sér þá fjármuni í eigin þágu, án þess að eyðileggja þá bók og stofna nýja. Því sé aftur á móti alfarið hafnað að Haukur heitinn hafi nýtt sér þessa fjármuni í heimildarleysi og gegn vilja móður sinnar.
Málsástæður og lagarök stefndu. Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að það sé alls ósannað að Haukur Þorsteinsson hafi nýtt sér fjármuni þá sem voru á bankabók nr. 13424 án heimildar.
Með vilja og vitund allra erfingja Ingibjargar Konráðsdóttur, svo og með fullu samþykki Ingibjargar Konráðsdóttur, hafi Hauki heitnum Þorsteinsyni verið falið að annast fjármál hennar. Stefnandi geti með engu móti sannað að hann hafi nýtt sér fjármuni móður sinnar í heimildarleysi og með saknæmum og ólögmætum hætti. Honum hafi verið falið af móður sinni að annast fjármál hennar, með hennar samþykki og vitund og vilja allra aðstandenda. Því sé öllum getgátum stefnanda um það að hann hafi nýtt sér í heimildarleysi og með saknæmum og ólögmætum hætti fjármuni móður sinnar, harðlega mótmælt.
Með engu móti hafi heldur verið sýnt fram á eða sannað bágt andlegt ástand Ingibjargar Konráðsdóttur á þeim tíma er Haukur heitinn hafi annast fjármál hennar. Þessari málsástæðu stefnanda sé harðlega mótmælt sem rangri og algerlega ósannaðri. Ljóst sé að Ingibjörg hafi kosið a.m.k. tvisvar sinnum eftir að hún lagðist inn á spítala og engar skýrslur séu til um andlegt ástand hennar á þeim tíma sem úttektirnar fóru fram. Einungis sé byggt á getgátum um andlegt ástand Ingibjargar á þessum tíma. Með engu móti sé því hægt að sanna eða afsanna, hvort úttektir þessar hafi ekki verið með samþykki Ingibjargar, vitund hennar og vilja og að um gjöf hafi verið að ræða, en ljóst sé að Haukur heitinn hafi annast móður sína ásamt systur sinni sem búsett sé á Sauðárkróki.
Málskostnaðarkrafan byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnda sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.
III.
Niðurstöður.
Það er óumdeilt að Haukur heitinn Þorsteinsson fór að ósk systkina sinna með fjármál móður þeirra Ingibjargar Konráðsdóttur frá árinu 1988 til dauðadags síns 1993. Sparisjóðsbók nr. 13424 var stofnuð 29. september 1988 við útibú Búnaðarbanka Íslands á Sauðárkróki á nafni Ingibjargar og afhentu systkini Hauks heitins honum bókina til varðveislu. Þá hafði fasteign Ingibjargar verið seld og söluandvirði hennar að mestu skipst milli barna Ingibjargar, en hluti verið lagður inn á fyrrnefnda bók. Bókin var síðan tæmd og eyðilögð 24. september 1990 af Hauki heitnum Þorsteinssyni og innistæðan 478.585,24 kr. flutt yfir á bók á hans nafni. Fjárhæð stefnukröfu hefur ekki verið mótmælt, en hún er byggð á úttektum úr seinni bókinni samtals að fjárhæð 526.160,04 kr.
Ágreiningur aðila lýtur að ráðstöfun á fé úr áðurgreindri bankabók, þ.e. hvort Haukur heitinn hafi haft heimild móður sinnar til þess að yfirfæra peningana yfir á sinn reikning og nýta sér þá í eigin þágu.
Í gögnum málsins er að finna vottorð frá sjúkrahúsi Skagfirðinga, undirritað af Ólafi R. Ingimarssyni, yfirlækni, en þar segir.
„Samantekt:
Ingibjörg er gömul kona sem leggst inn á ellideild sjúkrahússins til frambúðarvistunar 10. apríl 1987. Er þá með væg elliglöp sem fara hægt vaxandi og 03.01.90 verður að flytja hana yfir á deild þar sem meiri umönnun er möguleg, þetta að mestu vegna vaxandi elliglapa...“
Ljóst er að vegna heilsufars Ingibjargar fólu systkini Hauks heitins honum umsjón bókarinnar. Af hálfu stefndu er því haldið fram að Ingibjörg hafi á þessum tíma verið fær um að ráða ráðum sínum, m.a. hafi hún kosið í sveitarstjórnarkosningum árið 1990 og í Alþingiskosningum árið 1991. Því hefur hins vegar verið mótmælt af stefnanda með vísan til framangreinds vottorðs sjúkrahúslæknisins, en af því má ráða að heilsu Ingibjargar fer hrakandi á árinu 1990.
Ekki liggur fyrir í málinu og verður ekki upplýst hvort ráðstöfun Hauks heitins er hann lét eyðileggja bókina og nýtti sér innistæðu hennar í eigin þágu var með samþykki Ingibjargar eða fór í bága við vilja hennar. Það er hins vegar ljóst að þegar Haukur heitinn lét eyðileggja sparisjóðsbókina og færa innistæðuna á bók á sínu nafni þá ræddi hann þá ráðstöfun ekki við systkini sín, sem höfðu falið honum þessa hagsmunagæslu og treyst honum til að geyma bókina með áðurgreindum fjármunum. Það liggur fyrir að þau veittu honum ekki heimild til þess að nýta sér þá fjármuni sem hér um ræðir í eigin þágu. Í málinu kom fram að það voru systkinin en ekki Ingibjörg sem fólu honum vörslu bókarinnar. Þegar litið er til heilsufars Ingibjargar á þessum tíma verður að telja að það hafa verið óvarlegt af Hauki heitnum að hann skyldi ekki bera þessa ákvörðun undir systkini sín, þar sem honum hafði verið trúað fyrir vörslu bókarinnar og fjármunanna sem inn á henni voru af þeim, enda hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að honum einum systkinanna hafi verið ætlað að njóta þeirra fjármuna sem inn á títtnefndri bók voru, heldur hið gagnstæða að fjármunirnir hafi átt að standa straum m.a. af útfararkostnaði Ingibjargar. Þegar framanritað er virt þykir vera sannað að Haukur heitinn hafi ekki leitað eftir samþykki bærra aðila til þess að ónýta áðurgreinda bankabók móður sinnar, færa innistæðu hennar yfir á bók á sínu nafni og nýta sér fjármunina í eigin þágu. Þykir því rétt að stefnda greiði stefnanda 526.160,04 kr. með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Stefnda greiði stefnanda 170.000 kr. í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Halla Bachmann Ólafsdóttir settur héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefnda Helga Hannesdóttir greiði Ingibjörgu Konráðsdóttur 526.160,04 kr. með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989 frá 17. apríl 1997 til 22. apríl 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 170.000 kr. í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.