Hæstiréttur íslands

Mál nr. 75/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


                                     

Þriðjudaginn 3. febrúar 2015.

Nr. 75/2015.

Ákæruvaldið

(Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

Y

(enginn)

Z

(Kristín Edwald hrl.)

Þ

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

Æ

(enginn)

Ö

A

B og

C

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Kærumál. Frestur

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem frestur X, Y, Z, Þ, Æ, Ö, A, B og C til að skila greinargerðum í máli sem ákæruvaldið hafði höfðað á hendur þeim var ákveðinn til 1. nóvember 2015 kl. 14. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að í málinu vægjust á annars vegar réttur X og Z til að þeim gæfist nægur tími til að undirbúa málsvörn af sinni hálfu og hins vegar hagsmunir Þ, Ö, A, B og C, sem upptökukrafa í ákæru beindist að, af því að rekstri málsins yrði hraðað eins og kostur væri, þar sem fjármunir í þeirra eigu hefðu verið kyrrsettir. Var frestur X, Y, Z, Þ, Æ, Ö, A, B og C til að skila greinargerðum í málinu, ákveðinn til 15. júlí 2015 kl. 14.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðilarnir Þ, Ö, A, B og C skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2015, þar sem frestur til að skila greinargerðum í málinu var ákveðinn til 1. nóvember 2015 klukkan 14. Kæruheimild er í s. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Framangreindir varnaraðilar krefjast þess aðallega að frestur til að skila greinargerðum í málinu verði ákveðinn átta vikur, en til vara að hann verði ákveðinn skemmri en gert var í hinum kærða úrskurði.

Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 23. janúar 2015. Hann krefst þess að frestur til að skila greinargerðum í málinu verði ákveðinn eigi lengur en til 1. júlí 2015.

Varnaraðilarnir X og Z krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar, en varnaraðilarnir Y og Æ hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hafa varnaraðilarnir X og Z fengið frest til að skila greinargerð í tilgreindu máli ákæruvaldsins á hendur þeim til 4. mars 2015, en ráðgert er að aðalmeðferð í því máli hefjist 20. apríl sama ár og standi yfir í allt að fjórar vikur. Þá hafa varnaraðilarnir fengið frest til að skila greinargerð í öðru máli ákæruvaldsins á hendur þeim til 1. október 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óhlutdrægum dómstóli. Þegar afstaða er tekin til ágreinings þess, sem hér er til úrlausnar, vegast á annars vegar réttur varnaraðilanna X og Z til að þeim gefist nægur tími til að undirbúa málsvörn af sinni hálfu og hins vegar hagsmunir þeirra varnaraðila, sem kært hafa úrskurð héraðsdóms og upptökukrafa í ákæru beinist að, af því að rekstri máls þessa verði hraðað eins og kostur er, þar sem fjármunir í eigu þeirra hafa verið kyrrsettir. Í því sambandi er þó til þess að líta að ákæruvaldið hefur samþykkt að heimila tiltekin viðskipti með eignasöfn varnaraðilanna A, Ö, C og Þ í [...] í [...]. Nánar tiltekið var heimilað að selja skuldabréf og að kaupa slík bréf, sem hafi verið metin af einhverju af matsfyrirtækjunum D, E eða F og fengið fullnægjandi mat. Þá var heimilað að keypt yrðu og seld hlutabréf samkvæmt nánar tilteknum lista að því tilskildu að markaðsvirði útgáfunnar væri tveir milljarðar bandaríkjadala að lágmarki þegar viðskiptin væru gerð. Jafnframt var heimilað að laust fé hjá [...] lægi ekki án ávöxtunar, auk þess sem heimiluð voru staðarviðskipti með gjaldeyri og viðskipti með hrávörurnar olíu, gull og silfur. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða er varnaraðilum veittur frestur til að skila greinargerðum í málinu til miðvikudagsins 15. júlí 2015 klukkan 14.

Dómsorð:

Varnaraðilum, X, Y, Z, Þ, Æ, Ö, A, B og C, er veittur frestur til að skila greinargerðum í máli þessu til miðvikudagsins 15. júlí 2015 klukkan 14.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2015.

Með ákæru Embættis sérstaks saksóknara 26. júní 2014 er ákærðu, X og Y í I og II. kafla ákæru gefið að sök aðallega fjárdráttur, en til vara umboðssvik, ákærða Z aðallega hlutdeild í fjárdrætti meðákærðu en til vara umboðssvik, þrautavara hylmingu en þrautaþrautavara peningaþvætti, í tengslum við tvær millifærslur af reikningi [...] inn á reikning [...] og áfram inn á reikning hins ákærða félags, Æ. Ákærða, Þ, er gefið að sök aðallega hylming, en til vara peningaþvætti, í tengslum við ofangreindar millifærslur. Í III. kafla ákæru eru ákærðu, X og Y, gefin að sök umboðssvik og ákærða, Z, aðallega hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu en til vara hylmingu og þrautavara peningaþvætti, í tengslum við kaup [...] á skuldabréfum útgefnum af [...] í tilgreindum sjö skuldabréfaflokkum af hinu ákærða félagi Æ. Ákærða, Þ, er gefið að sök aðallega hylming en til vara peningaþvætti í tengslum við ofangreind viðskipti. Á hendur hinum ákærðu félögum og ákærða, Þ, er gerð krafa um upptöku á tilgreindum innistæðum og eignasöfnum í tilgreindum bönkum í [...].

Verjendur hafa óskað eftir því að leggja fram greinargerðir af sinni hálfu, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008. Verjandi hinna ákærðu félaga, Ö, A, B og C, krafðist þess í þinghaldi 8. janúar sl., þegar fyrir var tekið að ákveða frest verjenda til greinargerðaskila, að frestur til greinargerðaskila yrði ekki lengri en 8 vikur. Verjandi félaganna kom til dómsins, eftir þinghaldið, með/ og bar fram varakröfu um að fresturinn yrði ekki lengri en til 1. mars 2015. Verjandi ákærða, Þ, kveðst gera sömu kröfur varðandi frest til greinargerðaskila.

Verjendur ákærðu, X og Z, gera þær kröfur, að frestur til greinargerðaskila verði veittur til 1. nóvember 2015.

Aðrir verjendur hafa ekki uppi sérstakar kröfur varðandi frest til greinargerðaskila. Þá hefur sækjandi ekki uppi sérstakar kröfur að þessu leyti, en tekur undir sjónarmið um að langir frestir séu hinum ákærðu félögum íþyngjandi í ljósi þess að fjármunir þeirra hafi verið kyrrsettir.

Málið var flutt vegna ágreinings um framangreindar kröfur 8. janúar 2015 og tekið til úrskurðar í framhaldi.

Af hálfu hinna ákærðu félaga, Ö, A, B og C, er vísað til þess að krafist sé í málinu upptöku eigna sem kyrrsettar hafi verið 16. maí 2011, að kröfu sérstaks saksóknara. Heildarvirði eignanna sem kyrrsettar hafi verið nemi um 37.000.000 evra. Fyrst eftir að kyrrsetning hafi átt sér stað hafi félögunum verið bannað að stunda viðskipti með eignir félagsins en síðan verið liðkað fyrir viðskiptum með hina kyrrsettu fjármuni en því ítrekað hafnað að aflétta kyrrsetningunni. Félögunum sé þannig ómögulegt að nýta fjármuni sína nema til takmarkaðra viðskipta sem hafi gríðarleg áhrif á fjárhag félagsins á degi hverjum og valdi því jafnframt að ómögulegt sé að fara í hinar ýmsu fjárfestingar. Þá sé ekki unnt að nota fjármuni félagsins til að greiða skuldbindingar þess eða daglegan rekstur eða nota hinar kyrrsettu eignir sem veð vegna fjárfestinga. Kyrrsetning sé bráðabirgðaráðstöfun sem eigi að standa í eins stuttan tíma og unnt er. Nú sé liðið á fjórða ár síðan að umræddar ráðstafanir hafi verið framkvæmdar. Lögð sé áhersla á að öllum sé tryggður réttur til að fá úrlausn varðandi ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi, með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma, fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Hliðstætt ákvæði sé að finna í 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kyrrsetning eigna sé aðgerð sem ætlað sé að vera til bráðabirgða. Sérstök þörf sé á að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sæti þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarki frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum. Lögð sé áhersla á að sérstaklega sé brýnt þegar beitt sé þvingunarráðstöfunum og bráðabirgðagerðum, líkt og kyrrsetningu, að hraðað sé meðferð mála, til að takmarka eins og unnt sé þá alvarlegu réttarskerðingu sem felist í gerðinni. Þegar hafi orðið verulegur dráttur á rannsókn ætlaðra brota hinna ákærðu félaga með þeim hætti að í bága fari við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og laga auk þess sem verulegar tafir hafi orðið á því að ákæra hafi verið birt fyrir hinum ákærðu félögum. Með vísan til þessa megi augljóst vera að ekki sé unnt að fresta málinu svo mánuðum skipti þar sem skipaðir verjendur annarra sakborninga hafi ekki tíma til að skila greinargerðum í málinu. Meðákærðu í málinu hafi nú þegar haft u.þ.b. hálft ár til að kynna sér gögnin og undirbúa vörn sína. Megi augljóst vera að frestun málsins til margra mánaða sé ekki nauðsynleg og fæli í sér brot gegn fyrrgreindum reglum um hraða málsmeðferð, einkum með tilliti til þess að félögin sæti þvingunarúrræðum sem jafnað verði við gæsluvarðhald. 

                Verjendur ákærðu, X og Z, benda á að ákærðu séu að taka til varna í nokkrum sakamálum frá Embætti sérstaks saksóknara á þessari stundu. Ákærðu séu nú að undirbúa málflutning í hæstaréttarmálinu nr. [...]/2014, sem flutt verði [...] og [...] janúar nk. Um sé að ræða gríðarlega viðamikið mál. Þá sé til meðferðar í héraðsdómi mál nr. S-[...]/2013. Um sé að ræða ákæru fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Frestur til greinargerðaskila sé til 4. mars nk. og fari aðalmeðferð málsins fram [...] apríl nk. og standi líklega í allt að 4 vikur. Sé málið nærri tvöfalt stærra að umfangi en svonefnt [...] mál sem sé hæstaréttarmálið nr. [...]/2014. Loks sé til meðferðar í héraðsdómi mál nr. S-[...]/2014, en ákært sé fyrir umboðssvik. Málið sé mikið að vöxtum. Ákveðinn hafi verið greinargerðafrestur til 1. október 2015. Ekki sé forsvaranlegt að gera verjendum að vinna greinargerðir í þessu máli á sama tíma og framangreind mál séu til meðferðar með greinargerðaskilum og undirbúningi aðalmeðferðar. Með engu móti sé unnt að hefja undirbúning greinargerða í þessu máli sem hér sé til meðferðar fyrr en síðla árs 2015. Það sé liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála að verjendum gefist hæfilegur tími til að undirbúa málsvörn ákærðu.

                Niðurstaða:

                Ákærðu hafa óskað eftir því að skila greinargerðum af sinni hálfu skv. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt téðu ákvæði skal skila greinargerð innan hæfilegs frests. Er fresturinn ekki afmarkaður sérstaklega í lagaákvæðinu.

                Ein af grundvallarreglum sakamálaréttarfars er að mál skuli rekin með hæfilegum hraða fyrir dómstólum. Í máli því sem hér er til meðferðar hafa fjármunir þeirra félaga sem krafist er upptöku gagnvart verið kyrrsettir. Er það íþyngjandi aðgerð gagnvart þessum félögum en þegar slíkum aðgerðum er beitt er mikilvægt að gætt sé sérstaklega að málshraða. Þó liggur fyrir í málinu að félögin hafa ákveðna ráðstöfunarheimild yfir fjármununum og er þeim ekki alfarið bannað að stunda viðskipti með eignir félaganna.

                Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008 er dómara skylt að verða við ósk sakbornings um skipun verjanda, ef mál hefur verið höfðað gegn honum. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laganna skal gefa sakborningi kost á að benda á lögmann til að fara með verjandastarfa fyrir hann. Ríkir hagsmunir eru af því fyrir sakborning að fá tiltekinn lögmann til að annast verjendastörf fyrir sig. Þá á verjandi rétt á því að fá hæfilegan tíma til að halda uppi málsvörn fyrir sakborning.

                Í máli þessu vegast á sjónarmið. Annars vegar réttur þeirra félaga, sem upptöku fjármuna er krafist gagnvart, að mál þeirra séu rakin með hraði. Hins vegar réttur hinna ákærðu um að verjendum þeirra gefist ráðrúm til að undirbúa málsvörn fyrir þá. Ákærðu, X og Z, eru að undirbúa málsvarnir í þrem afar umfangsmiklum sakamálum fyrir dómstólum. Er ekki um það deilt að mikil vinna bíður verjendanna á komandi vikum og mánuðum. Verður það niðurstaða dómsins að hagsmunir ákærðu af málsvörn sinni séu það ríkir og annir verjendanna á næstu mánuðum slíkar, að gættri ráðstöfunarheimild hinna ákærðu félaga yfir hinum kyrrsettu fjármunum, að það réttlæti að verjendunum verði veittir frestir til 1. nóvember nk. kl. 14.00 til að skila greinargerðum í málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ákærðu er veittur frestur til 1. nóvember nk. kl. 14.00 til að skila greinargerðum í málinu.