Hæstiréttur íslands
Mál nr. 233/2007
Lykilorð
- Einkaleyfi
- Framsal
|
|
Fimmtudaginn 21. febrúar 2008. |
|
Nr. 233/2007. |
Skaginn hf. (Árni Vilhjálmsson hrl.) gegn Sigurgeiri Sveinssyni (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Einkaleyfi. Framsal.
Árið 2001 framseldi SS með yfirlýsingu til I réttinn til að sækja um og öðlast einkaleyfi á Íslandi á uppfinningu sinni sem nefnd var aðferð og búnaður til framleiðslu á krapís. Í yfirlýsingunni skuldbatt SS sig til þess að undirrita öll skjöl sem nauðsynleg kynnu að vera til öflunar einkaleyfis hér á landi og erlendis. I framseldi síðan félaginu S þessi réttindi. Í tilefni þess að S lagði inn alþjóðlega einkaleyfisumsókn vegna uppfinningarinnar leitaði S til SS um að hann undirritaði skjöl varðandi umsóknina, en því erindi svaraði SS ekki. Sökum vöntunar á undirskrift SS náðu umsóknir um einkaleyfi fyrir uppfinningunni í Bandaríkjunum og Kanada ekki fram að ganga. Þar sem SS varð ekki við beiðni S um atbeina sinn að þessum umsóknum höfðaði S mál þetta til að fá SS skyldaðan til þess undirrita tiltekið skjal. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að þegar leyst yrði úr því hvort SS yrði gert að undirrita það skjal í skjóli fyrrnefndrar skuldbindingar sinnar yrði að líta til þess að meðal annars væri ætlast til þess að SS lýsti því yfir með undirritun sinni að ákveðnar forsendur tengdar uppfinningunni stæðust. Í málinu hefði SS borið fyrir sig að í nánar tilteknum atriðum hefði lýsing S á uppfinningunni vikið svo að máli skipti frá þeim gögnum sem hann hefði samið á sínum tíma. Hefði þessu ekki verið mótmælt af S. Jafnframt hefði SS með undirritun sinni verið gert að staðfesta að hann hefði skoðað og skilið skilgreiningar á uppfinningunni sem fylgdu einkaleyfaumsókninni erlendis en þær hefðu ekki verið lagðar fram í málinu og S hefði ekki andmælt því að SS hefði ekki fengið þær í hendur. Talið var að þótt SS hefði skuldbundið sig til að veita atbeina til einkaleyfisumsókna með yfirlýsingunni 2001 gæti skylda hans í þeim efnum ekki náð til þess að hann yrði knúinn til að staðfesta annað en það sem rétt væri. Var SS því sýknaður af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2007. Hann krefst þess að stefnda verði gert „að undirrita yfirlýsingu og málflutningsumboð, sem merkt er með númerunum 22.852 og 1190.0007-02, vegna einkaleyfisumsóknar áfrýjanda í Bandaríkjum Norður-Ameríku.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins réðist stefndi, sem er vélaverkfræðingur að mennt, til starfa hjá Landssmiðjunni hf. á árinu 1998 og fékkst þar við hönnun tækja fyrir fiskiðnað. Nokkru eftir það mun IceTech hf. hafa eignast Landssmiðjuna hf. og stefndi gengið í þjónustu fyrrnefnda félagsins. Með yfirlýsingu 6. apríl 2001 framseldi hann því félagi „réttinn til að sækja um og öðlast einkaleyfi á Íslandi á uppfinningu“ sinni, sem nefnd var „aðferð og búnaður til framleiðslu á krapís“, en fyrir henni hefði verið sótt um einkaleyfi 27. mars 2001 og umsóknin fengið númerið 5909. Í yfirlýsingunni var tekið fram að framsalið væri óafturkallanlegt, svo og að stefndi héti því „að undirrita öll skjöl sem nauðsynleg kunna að vera við öflun einkaleyfis hér á landi og erlendis.“ Stefndi mun hafa látið af störfum hjá umræddu félagi fáum dögum eftir að hann undirritaði þessa yfirlýsingu. IceTech á Íslandi hf. framseldi síðan 20. mars 2002 til áfrýjanda réttindi sín „til að sækja um og öðlast einkaleyfi á Íslandi og í öðrum löndum“ á fyrrnefndri uppfinningu og var þar vísað til umsóknar um það, sem bar sama auðkenni og áður var getið.
Áfrýjandi gerði 27. mars 2002 alþjóðlega einkaleyfisumsókn vegna uppfinningar með fyrrnefndu heiti, sem aftur bar númerið 5909, en sú umsókn fékk jafnframt auðkennið PCT/IS02/00007. Áfrýjandi mun hafa leitað eftir því við stefnda 10. maí 2002 að hann undirritaði skjöl varðandi þessa umsókn, en því erindi mun hann ekki hafa svarað. Samkvæmt bréfi Einkaleyfastofunnar 13. ágúst 2002 til umboðsmanns áfrýjanda samþykkti hún að þessi umsókn hlyti frekari meðferð án þess að stefndi hefði undirritað gögn varðandi hana. Á þessum grunni fékk áfrýjandi einkaleyfi 26. janúar 2005 hjá Evrópsku einkaleyfastofnuninni fyrir uppfinningu, sem enn bar sama heiti og sömu auðkenni og áður var getið. Samsvarandi umsókn um einkaleyfi fyrir uppfinningunni í Bandaríkjunum og Kanada mun á hinn bóginn ekki hafa náð fram að ganga sökum þess að hvorki hafi stefndi ritað undir nauðsynleg skjöl varðandi hana né hafi verið fenginn dómur, sem gerði áfrýjanda eins settan og undirskrift stefnda hefði fengist. Af því tilefni beindi áfrýjandi því til stefnda 22. febrúar 2006 að hann veitti atbeina sinn til þessarar umsóknar, en við því varð hann ekki. Áfrýjandi höfðaði loks mál þetta gegn stefnda 23. júní 2006 til að fá hann skyldaðan til að undirrita nánar tiltekið skjal, sem ber fyrirsögnina „yfirlýsing og umboð“ í íslenskri þýðingu sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, en á því er greint að „viðskiptavinanúmer“ sé 22.852 og „málaskrárnúmer lögmanns“ 1190.0007-02. Þar kemur einnig fram að skjalið varði alþjóðlega einkaleyfisumsókn frá 27. mars 2002 með auðkenninu PCT/IS02/00007.
II.
Með áðurgreindri yfirlýsingu frá 6. apríl 2001 framseldi stefndi sem fyrr segir til þáverandi vinnuveitanda síns, IceTech hf., réttindi til að sækja um og öðlast einkaleyfi á uppfinningu með tilteknu heiti, auk þess sem getið var að sótt hafi verið um slíkt leyfi 27. mars sama ár og umsóknin fengið tilgreint númer. Fyrir liggur að umrætt félag hafði gert umsókn, sem lýsing þessi féll að. Í yfirlýsingu stefnda var í engu getið takmarkana á heimild félagsins til að framselja öðrum þessi réttindi. Ekki hefur verið hnekkt að þeirrar heimildar hafi verið neytt svo að gilt sé þegar áfrýjandi fékk réttindin framseld 20. mars 2002. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi öðlast þau réttindi, sem yfirlýsing stefnda 6. apríl 2001 sneri að, þar á meðal rétt samkvæmt skuldbindingu hans um að undirrita öll nauðsynleg skjöl í tengslum við öflun einkaleyfis hér á landi og erlendis.
Þegar leyst er úr því hvort stefnda verði gert að undirrita áðurnefnt skjal í skjóli þessarar skuldbindingar við áfrýjanda verður á hinn bóginn að líta til þess að samkvæmt framlagðri þýðingu er meðal annars ætlast til að stefndi lýsi þar yfir að hann telji sig „vera upphafsmann, fyrsta og eina uppfinningamann, að efnisþætti þeim sem krafa og umsókn um einkaleyfi er gerð um, þ.e. uppfinninguna sem fengið hefur heitið: Aðferð og búnaður til framleiðslu á krapís, en skilgreiningar um hana voru innlagðar í Bandaríkjunum þann 16. júní, 2005“. Þá segir þar jafnframt: „Ég lýsi því hér með yfir að ég hef skoðað og skil efnisinnihald ofangreindrar skilgreiningar, þ.m.t. kröfurnar, með breytingum skv. sérhverri breytingu sem vísað er í hér að ofan. Ég viðurkenni skyldu mína til þess að veita upplýsingar sem eru nauðsynlegar í sambandi við einkaleyfishæfi“. Loks er eftirfarandi tekið þar fram: „Ég lýsi hér með yfir að allar yfirlýsingar í skjali þessu eru réttar skv. vitund minni og að allar yfirlýsingar um upplýsingar og álit teljast sannar, og jafnframt að yfirlýsingar þessar voru gerðar með þeirri vitund að vísvitandi rangar yfirlýsingar ... eru refsiverðar með sektum eða fangelsi ... og ... kunna að tefla í tvísýnu gildi umsóknarinnar eða sérhvers einkaleyfis sem gefið er út á grundvelli hennar.“ Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndi borið fyrir sig að í nánar tilteknum atriðum hafi fyrirliggjandi gögn, sem geymi lýsingu áfrýjanda á aðferð og búnaði við framleiðslu krapíss, vikið svo að máli skipti frá því, sem fram hafi komið í gögnum, sem stefndi hafi samið á starfstíma sínum hjá IceTech hf. og skilið þar eftir við lok starfa. Þessu hefur áfrýjandi ekki andmælt, en allt að einu krefst hann samkvæmt framansögðu dóms um skyldu stefnda til að undirrita skjal með yfirlýsingu um að hann telji sig „upphafsmann, fyrsta og eina uppfinningamann“ þess, sem einkaleyfisumsókn áfrýjanda varðar. Samkvæmt skjalinu er að auki að finna skilgreiningar á uppfinningunni frá 16. júní 2005, sem stefnda er ætlað að staðfesta að hann hafi skoðað og skilið. Þessar skilgreiningar hafa ekki verið lagðar fram í málinu og hefur áfrýjandi ekki andmælt því að stefndi hafi ekki fengið þær í hendur. Þótt stefndi hafi skuldbundið sig til að veita atbeina til einkaleyfisumsókna með yfirlýsingunni 6. apríl 2001 getur skylda hans í þeim efnum ekki náð til þess að hann verði knúinn til að staðfesta annað en það sem rétt er. Vegna þessa er ekki fært að verða við kröfu áfrýjanda um að stefnda verði gert að undirrita skjalið, sem hér um ræðir. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Dæma verður áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Skaginn hf., greiði stefnda, Sigurgeiri Sveinssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2007.
Mál þetta, sem var dómtekið 28. febrúar sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Skaganum ehf., Bakkatúni 26, Akranesi, á hendur Sigurgeiri Sveinssyni, Laufásvegi 60, Reykjavík, með stefnu birtri 23. júní 2006.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði með dómi gert skylt að undirrita yfirlýsingu og málflutningsumboð, sem merkt er með númerunum 22.852 og 1190.0007-02, vegna einkaleyfisumsóknar stefnanda í Bandaríkjunum.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Stefndi gerir þær kröfur að hann verði alfarið sýknaður af kröfu stefnanda. Einnig krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málavextir.
Stefndi, sem er vélaverkfræðingur, réð sig til starfa árið 1998 til Landssmiðjunnar. Ári síðar keypti Frost hf. fyrirtækið og síðan var stofnað nýtt fyrirtæki sem skýrt var IceTech hf. sem átti Landssmiðjuna hf. og Frost hf. Var stefndi þá ráðinn hjá IceTech hf. Stefndi vann við hönnun tækja fyrir fiskiðnaðinn. Hann lét af störfum hjá IceTech í apríl 2001.
Hinn 27. mars 2001 sótti IceTech um einkaleyfi til Einkaleyfastofunnar og fékk umsóknin þar númerið 5909. Hinn 6. apríl 2001 ritaði stefndi undir eftirfarandi framsal ásamt tveimur vottum.
„FRAMSAL
Undirritaður/ir:
Sigurgeir Sveinsson
Látraströnd 54
170 Seltjarnarnes
Lýsi/um hér með yfir að ég/við framsel/jum réttinn til að sækja um og öðlast einkaleyfi á Íslandi á uppfinningu minni/okkar:
Heiti umsóknar: Aðferð og búnaður til framleiðslu á krapís
Númer umsóknar: 5909
Dagsetning umsóknar 27. mars 2001
Til:
IceTech,
Lyngási 1,
210 Garðabær
auk réttar míns/okkar til að krefjast forgangsréttar frá sömu umsókn.
Framsal þetta er óafturkallanlegt og heiti ég/við því að undirrita öll skjöl sem nauðsynleg kunna að vera við öflun einkaleyfis hér á landi og erlendis.“
Sama dag, þ.e. 6. apríl 2001, gaf IceTech A&P Árnasyni ehf. umboð til að skrá nefnt einkaleyfi. Á árinu 2002 mun stefnandi hafa óskað eftir undirritun stefnda á einhver gögn til að öðlast einkaleyfi í Evrópulöndum, sem stefndi hafnaði. Eftir öðrum leiðum, þ.e. án undirritunar stefnda, mun stefnandi hafa fengið einkaleyfi í Danmörku, Stóra-Bretlandi, Írlandi og á Íslandi. Aftur á móti er það skilyrði fyrir einkaleyfi í Bandaríkjunum og Kanada að stefndi undirriti skjölin sem vísað er til í dómkröfu og af því tilefni var honum sent bréf 22. febrúar 2006. Stefndi mun ekki hafa svarað því. Því er mál þetta höfðað.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að skv. 1. gr. laga nr. 17/1991 um einkaleyfi hafi uppfinningamaður, eða sá sem hefur öðlast rétt hans rétt til að fá einkaleyfi fyrir uppfinningu. Af ákvæði þessu megi sjá að lögin gera ráð fyrir að réttur uppfinningamanns sé framseljanlegur. Samkvæmt almennum reglum um framsal kröfuréttinda eignast framsalshafi allan rétt sem framseljandi átti og ber sömuleiðis allar þær skyldur sem hann hafði.
Stefndi framseldi rétt sinn til nefndrar uppfinningar með yfirlýsingu 6. apríl 2001. Móttakandi yfirlýsingarinnar og hinn nýi rétthafi var IceTech, sem síðan framseldi aftur þann rétt til stefnanda. Stefnandi er því löglegur eigandi umræddra réttinda og því til sönnunar vísar stefnandi til framsalsyfirlýsingar dags. 6. apríl 2001, sbr. og 4. mgr. 8. gr. einkaleyfalaga. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi með aðgerðaleysi sínu staðið í vegi fyrir því, að stefnandi gæti aflað lögmætum réttindum sínum verndar og að stefndi hafi haft áskoranir og óskir stefnanda að engu. Stefnanda sé því nauðugur sá kostur að fá stefnda knúinn með dómi til þess að undirrita umboðið. Önnur leið er stefnanda ekki fær í því skyni að vernda óumdeild réttindi sín.
Með fyrrgreindri yfirlýsingu hefur stefndi afsalað sér rétti til uppfinningarinnar, sbr. áðurnefnt ákvæði 1. gr. einkaleyfalaga. Neitun hans á að greiða götu nýs eiganda réttindanna er ekki einungis andstæð yfirlýsingu hans sjálfs, heldur brýtur hún og í bága við lög. Ber af þessum ástæðum að taka kröfu stefnanda til greina.
Stefnandi vekur athygli stefnda á því að taki Héraðsdómur kröfur stefnanda til greina er félaginu samkvæmt 74. gr. laga nr. 90/1989 unnt að fá rétti sínum fullnægt með tilstuðlan sýslumanns. Þá áskilur stefnandi sér rétt til skaðabóta á hendur stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 17/1991 um einkaleyfi, einkum 1. gr. þeirra laga. Einnig er vísað til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir gagnkvæmra skuldbindinga og reglna um réttaráhrif vanefnda á slíkum samningum. Krafan um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann hafi aldrei framselt rétt sinn til nefndrar uppfinningar til annarra en IceTech. IceTech hafi ekki á grundvelli yfirlýsingarinnar sem hann gaf 27. mars 2001 (sic) verið heimilt að skuldbinda hann gagnvart þriðja aðila til að undirrita einkaleyfisumsókn. Stefndi áleit að ekki væri um einkaleyfishæfa hönnun að ræða. Gögnin hafi einungis verið fræðileg útskýring á því sem nauðsynlegt er að sé til staðar svo stýra megi framleiðsluferli fyrir krapís þegar hann er framleiddur úr ís og missterkum saltpæklum. Þrátt fyrir það undirritaði stefndi yfirlýsinguna um framsal á rétti til að sækja um og öðlast einkaleyfi til IceTech, en ætlaði aldrei að framselja rétt sinn til þriðja aðila með yfirlýsingunni. Ef skilja hefði átt framsalið með þeim hætti hefði verið nauðsynlegt að taka slíkt fram með skýrum hætti. Svo var ekki gert.
Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að það skjal sem honum sé ætlað að undirrita sé alls ekki það skjal sem hann gekk frá á sínum tíma. Bæði hafi verið felld úr skjalinu mikilvæg atriði og eins hafi verið bætt inn í skjalið atriðum sem stefndi hefur ekki sannreynt hvaða áhrif kunni að hafa á uppfinninguna. Stefndi nefnir þrjú atriði um breytingar sem gerðar hafi verið.
Í fyrsta lagi, að þegar stjórna skuli hitastigi krapíss með þeirri aðferð sem einkaleyfið greinir frá er nauðsynlegt að nýta sér þau fræði sem segja til um það hvernig salt (NaCl) hefur áhrif á frostmark vatns. Frostmarkið fellur með vaxandi salti niður að ákveðnu lágmaki. Síðan rís það snarlega aftur og verður eins og hjá hreinu vatni þegar vatnið er mettað af salti (fullmettaður pækill). Mjög mikilvægt er að skilgreina rétt fullmettaðan pækil.
Varðandi þetta tekur stefndi fram að sú staðreynd að frostmark saltpækils hækkar aftur er tekin burt í íslenska einkaleyfisbréfinu. En þessi sérkennilega hegðun saltpækilsins skiptir máli þegar mæla skal saltinnihald vökvans, eins og tilgreint er að gera skuli. Að mati stefnda er það hins vegar flókið mál og líklega ekki á færi þeirra Skagamanna.
Í öðru lagi, að í texta þeim sem stefndi samdi er sagt fá því að hræra skuli saman ís og pækli til að búa til krapís. Ísinn er mulinn í smátt og þegar hitastigið er hætt að lækka þá er krapísinn tilbúinn til notkunar, því þá er varmafræðilegu jafnvægi náð. Til þess að fylgjast með breytingum á hitastiginu er notaður hitamælir. Stefndi taldi því upp þennan mæli í texta sínum.
Varðandi þetta tekur stefndi fram að einkaleyfi það sem nú liggur fyrir nefnir ekki þennan mæli, en engu að síður er talað um að hitastigið eigi að vera orðið stöðugt. Það er hins vegar ekki hægt að segja til um það hvenær það gerist þegar mælirinn er ekki til staðar.
Í þriðja lagi, að eftir að stefndi gekk frá sínum texta að ,,uppfinningunni“, var bætt inn upptalningu á ýmsum efnum sem á að blanda saman við krapísinn til viðbótar. Þar er um að ræða ediksýru, sítrónusýru, c-vítamín, BHT, TBHQ, etoxyquinin, bakteríudrepandi efni, ýmis sölt (utan NaCl) eins og fosföt, sölt af kalsíum, magnesíum, kalíum, sykrur, irjuefni, og hlaupefni.
Stefndi tekur fram að í lausn hans sé gert ráð fyrir að notað sé salt (NaCl), til að stýra hitastigi af nákvæmni. Íshlutfalli krapíssins átti einnig að vera hægt að stýra nákvæmlega. En ef bætt væri við aukavökva, öðrum en saltpækli, þá er ekki um neina stýringu á ferlinu að ræða. Stefnda er ekki fullkunnugt um áhrif allra þessara efna á ís, en kalíumklóríð (KCl) hefur rafleiðandi áhrif eins og salt (NaCl) og ætti þar með að brengla alla stjórn á hitastigi krapíssins. En saltmælar skynja rafleiðni til að mæla saltinnihald. Reiknilíkanið sem stefndi lagði fram, og gerð er grein fyrir í einkaleyfinu, ræður ekki við þessi viðbótarefni.
Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. eml. Stefndi er ekki virðisaukasskattskyldur og óskast tillit tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur málsins lýtur að því að stefndi neitar að undirrita yfirlýsingu og málflutningsumboð, sem merkt er númerinu 22.852 og 1190.0007-02 og liggur fyrir í málinu.
Framsalið er stefnandi byggir á til stuðnings kröfu sinni er frá 6. apríl 2001 og hefur stefndi viðurkennt að hafa ritað undir það. Það eru einkum þrjú atriði í framsalinu sem valdið hefur ágreiningi milli málsaðila. Í fyrsta lagi til hvaða réttinda framsalið taki, í öðru lagi hvort stefnandi sé réttur framsalshafi og í þriðja lagi hvort framsalið skuldbindi stefnda til að undirrita hið umkrafða skjal.
Varðandi fyrsta atriðið þá ber framsalið það með sér, að framselt er réttinum til að sækja um og öðlast einkaleyfi á uppfinningu sem heitir Aðferð og búnaður til framleiðslu á krapís. Umsóknin er númer 5909 og dagsetning umsóknarinnar er 27. mars 2001. Stefndi segir að í starfi sínu hjá IceTech hafi hann unnið að þessari uppfinningu. Hann hafi hætt þar störfum um svipað leyti og hann hafi undirritað framsalið, en það hafi hann gert undir þrýstingi af hálfu vinnuveitenda. Er hann hætti störfum hjá IceTech skildi hann öll gögn sín eftir. Varnir stefnda byggjast m.a. á því að í einkaleyfinu séu þrjú tilgreind atriði sem hann telur röng og hann hafi aldrei haft í sínum skjölum. Hann upplýsti fyrir dómi, að áður en hann hætti störfum hafi hann heyrt ávæning af því að setja ætti þessi atriði inn í umsókn um einkaleyfi, en hann hafi alltaf verið á móti því. Við upphaf aðalmeðferðar málsins, 21. febrúar sl., lagði stefndi sjálfur fram gögn frá Einkaleyfastofu sem merkt eru umsókn 5909 frá 27. mars 2001 en þeirra aflaði hann frá Einkaleyfastofu. Fyrir dómi kannast stefndi við hluta þess er þar kemur fram, en ekki allt. Þá upplýsti hann, að hann hafi aldrei séð umsóknina og hún hafi ekki legið fyrir við undirritun framsalsins. Þau tilgreindu þrjú atriði er stefndi byggir á í vörn sinni eru öll í nefndum framlögðum gögnum frá Einkaleyfastofu, þ.e. á bls. 6, 7 og 17. Að mati dómsins verður að leggja það til grundvallar að stefndi hefur staðfastlega neitað því að nefnd þrjú atriði, sem hann telur röng, stafi frá honum. Stefnandi hefur ekki hrakið þessar fullyrðingar stefnda. Í ljósi þessa lítur dómurinn svo á að stefndi geti ekki hafa framselt IceTech meiri réttindi eða hugverk en hann átti. Því verði að túlka framsalið með hliðsjón af þessu.
Í öðru lagi er IceTech tilgreindur framsalshafi. Stefndi hefur vefengt rétt stefnanda til aðildar að málinu og telur að aldrei hafi verið heimilt að framselja réttinn til þriðja manns. Að mati dómsins er ekkert í framsalinu sjálfu frá 6. apríl 2001 sem takmarkar rétt IceTech til að framselja þessi réttindi sín til þriðja aðila eins og hverja aðra eign og fær þessi túlkun stoð í 1. gr. laga nr. 17/1991 um einkaleyfi. Hefði það verið ætlun stefnda að IceTech einu væri heimilt að öðlast einkaleyfið hefði hann þurft að tilgreina það nákvæmlega í framsalinu. Með því að það var ekki gert verður stefndi að bera hallann af því.
Á það er hins vegar að líta að ekki liggur fyrir ótvíræður réttur stefnanda til einkaleyfisins. Samkvæmt stefnu byggir stefnandi rétt sinn á framlögðu skjali sem nefnt er „Verðmat vörulínu Icetech á Íslandi hf.“ og er dagsett í október 2002. Þar segir að stefnandi kaupi af IceTech sem „gagngjald vegna þess að Skaginn yfirtók leiguskuldir Icetech við Þróunarfélag Íslands hf.“ Undir skjal þetta rita Sigurður Guðni Sigurðsson og Þorgeir Jósefsson og eru þeir væntanlega forsvarsmenn stefnanda. Ekki kemur fram í skjali þessu afsal á réttindunum heldur virðist einungis um verðmat að ræða í uppgjöri við Þróunarsjóð. Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi fram framsal frá IceTech til stefnanda, þar sem IceTech framselur stefnanda „réttindi okkar til að sækja um og öðlast einkaleyfi ...“ og er vísað til heitisins Aðferðir og búnaður til framleiðslu á krapís, og umsóknar nr. IS 5909. Skjal þetta er dags. 20. mars 2002 og undirritað af Þorgeiri Jósefssyni og vottað af Sigurði G. Sigurðssyni og Ingólfi Árnasyni. Með því að stefndi hefur mótmælt skjali þessu og einnig að sömu aðilar skrifa undir bæði skjölin, þ.e. annars vegar fyrir hönd stefnanda og hins vegar fyrir hönd IceTech lítur dómurinn svo á að vafi leiki á um eignarrétt stefnanda að nefndum réttindum.
Í þriðja lagi kemur til skoðunar hvaða skyldur framsalið frá 6. apríl 2001 leggi á stefnda. Hér er fyrst til þess að líta að skjal það sem honum er nú ætlað að undirrita er á ensku og hefur ekki verið lagt fram á íslensku, þýtt af löggiltum skjalatúlki. Þetta er í andstöðu við 10. gr. laga um meðferð einkamála. Í skjalinu er einnig vísað í gögn sem ekki liggja frammi eða fylgja skjalinu og lagagreinar sem ekki hafa verið kynnta stefnda. Þótt í skjali þessu sé minnst á aðferð og búnað til framleiðslu, krapís er hvergi tilvísun í umsókn nr. 5909, hvað þá til þeirra réttinda er stefndi framseldi 6. apríl 2001. Sé litið til orðalags skjalsins myndi stefndi meðal annars með undirritun sinni undirgangast þá skyldu að veita upplýsingar um tæknilegan bakgrunn uppfinningarinnar og þá m.a. um þau atriði sem hann telur röng og stafa ekki frá honum. Þá myndi hann með undirritun sinni einnig staðfesta að hann hafi yfirfarið og skilið þau skjöl sem vísað er til í hinu óundirritaða skjali, þótt þau hafi ekki verið kynnt honum eða liggi frammi í málinu. Einnig myndi hann með undirrituninni getað bakað sér refsiábyrgð. Þetta er einungis nefnt í dæmaskyni en það er mat dómsins að skjalið sé mjög víðtækt og leggi óeðlilegar skyldur á stefnda. Dómurinn hafnar þar af leiðandi þeirri túlkun stefnanda, að á grundvelli framsalsins frá 6. apríl 2001 beri stefnda að undirrita hvaða skjöl sem er.
Þegar á allt framangreint er litið er það niðurstaða dómsins að hafna kröfum stefnanda um að gera stefnda að undirrita yfirlýsingu og málflutningsumboð, sem merkt er með númerunum 22.852 og 1190.0007-02, vegna einkaleyfisumsóknar stefnanda í Bandaríkjunum. Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað að fjárhæð 500.000 kr.
Af hálfu stefnanda flutti málið Arnar Þór Jónsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Lára V. Júlíusdóttir hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt Sighvati Elefsen vélaverkfræðingi og Teiti Gunnarssyni efnaverkfræðingi.
DÓMSORÐ
Stefndi, Sigurgeir Sveinsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Skagans ehf. Stefnandi, greiði stefnda 500.000 kr. í málskostnað.