Hæstiréttur íslands
Mál nr. 478/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. júní 2016, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi til miðvikudagsins 20. júlí 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. júní 2016.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess að X, kt. [...] verði áfram bönnuð brottför frá Íslandi, allt til miðvikudagsins 20. júlí 2016 kl. 16:00.
Krafan var tekin fyrir á dómþingi í dag og mótmælir kærði kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Í kröfu saksóknara kemur fram að þann 20. maí sl. hafi héraðssaksóknara borist til meðferðar mál lögreglunnar á Suðurlandi nr. 318-2016-1231, sbr. i lið 1. mgr. 23. gr., sbr. 24. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Málið varði ætlað mansal og ætluð brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002.
Lögregla hafi gert húsleit á þremur stöðum á [...] 18. febrúar sl., vegna gruns um ætluð brot á vegum fyrirtækisins [...], kt. [...]. Kröfu þessari sé beint að eiganda og framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem hafi verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag og húsleitirnar hafi verið framkvæmdar. Við húsleit á heimili hans hafi komið í ljós að þar hafi verið staddar tvær erlendar konur, báðar frá [...]. Hafi þær á vettvangi sagt að þær hefðu búið og unnið við að prjóna á heimilinu frá því þær hafi komið til landsins 17. janúar sl. og fengju engin laun greidd fyrir vinnu sína. Við rannsókn málsins hafi önnur konan, sem var á heimilinu, borið á þá leið að hún hafi komið til landsins síðast liðið haust, en hafi þurft að fara úr landi eftir þriggja mánaða dvöl vegna dvalarleyfis. Hafi hún komið á ný í janúar sl. og systir hennar hafi komið með henni, sem einnig hafi verið á heimilinu þegar húsleit hafi verið gerð. Hafi konan sagst hafa haldið áfram að starfa við saumaskap, þrif og eldamennsku fyrir hjónin á heimilinu. Hún hafi fengið greiddar 200.000 kr., auk þess sem hún hafi fengið 100.000 kr. en fyrir það hafi hún átt að kaupa varning fyrir sakborning og konu hans á [...]. Hafi konan sagst hafa nýtt 200.000 kr. til að kaupa flugfarseðlana fyrir hana og systur hennar til að koma til baka til Íslands, en sent restina til fjölskyldu sinnar á [...]. Þá hafi hún sagt einhverjar greiðslur hafa verið sendar til fjölskyldu sinnar á [...], en hún hafi engar greiðslur fengið. Sú systranna sem kom síðar hafi sagst hafa dvalið á heimilinu við störf í þrjár vikur þegar lögregla hafi stöðvað starfsemina. Hún hafi ekki fengið laun greidd og hafi aldrei fengið íslenska peninga í hendur frá því að hún hafi komið til landsins. Hafi þær borið um að hafa unnið reglulega við saumaskap inni á heimilinu. Þá hafi önnur þeirra jafnframt annast heimilisstörf. Hafi systurnar sagst eiga enga peninga, enga bankareikninga eða greiðslukort.
Við rannsókn málsins hafi sakborningur borið á þá leið að systurnar frá [...] væru vinkonur hans og eiginkonu hans og dveldu hjá þeim sem ferðamenn. Þær hafi hjálpað lítillega til á heimilinu gegn því að fá mat og húsakjól. Hafi hann í tvígang sent peningagreiðslur til [...] til fjölskyldu annarrar konunnar, en það hafi ekki verið launagreiðslur.
X sé eini eigandi [...]. og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Félagið hafi verið með aðstöðu fyrir starfsemi sína í húsnæði [...] í [...], en félagið hafi annast saumaskap á vörum fyrir [...]. Fjórir starfsmenn hafi unnið á vegum [...] í húsnæði [...], en konurnar tvær hafi aftur á móti verið á heimili sakbornings. Bendi framburðir vitna til að farið hafi verið með hálfunnar flíkur úr vinnuaðstöðunni í húsnæði [...] inn á heimilið og komið til baka með þær fullunnar. Starfsmennirnir fjórir hafi sagst ekki hafa fengið greidd laun reglulega, en eitthvað hafi verið um greiðslur.
Það sem fram hafi komið við rannsókn málsins bendi til þess að konurnar tvær hafi algerlega verið háðar sakborningi um dvöl sína hér á landi. Hafi þær haft litla vitneskju um landið og engan aðgang að peningum. Fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að sakborningur hafi útvegað konurnar, tekið við þeim og hýst þær hér á landi og við það beitt ólögmætri nauðung og hagnýtt sér bága stöðu þeirra, í þeim tilgangi að misnota þær til nauðungarvinnu.
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. R-13/2016 hafi sakborningi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna í fjórar vikur eða allt til 18. mars sl. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 143/2016 hafi tími gæsluvarðhalds verið styttur eða allt til 4. mars sl. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, 4. mars 2016, í máli nr. R-36/2016 hafi gæsluvarðhald verið framlengt allt til 1. apríl 2016 á grundvelli almannahagsmuna. Með dómi Hæstaréttar Íslands, 9. mars 2016, í máli nr. 177/2016 hafi sakborningi verið gert að sæta farbanni í stað áframhaldandi gæsluvarðhalds allt til föstudagsins 1. apríl 2016 kl. 16. Þá hafi farbann verið framlengt með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. R-41/2016, allt til 25. maí 2016. Hæstiréttur hafi staðfest framlengingu farbannsins með dómi í máli nr. 259/2016. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. R-48/2016 hafi farbann verið framlengt allt til dagsins í dag. Hæstiréttur hafi staðfest framlengingu farbannsins með dómi í máli nr. 403/2016.
Málið hafi verið sent héraðssaksóknara að lokinni rannsókn lögreglu og hafi það borist embættinu 20. maí sl. Málið hafi verið yfirfarið með hliðsjón af því hvort ástæða væri til frekari rannsóknar eða ákvörðun um saksókn yrði tekin og niðurstaða þeirrar yfirferðar hafi verið að frekari rannsóknar væri þörf. Hafi málið verið sent til lögreglunnar á Suðurlandi til frekari rannsóknar, sbr. bréf dagsett 8. júní 2016, þar sem útlistað hafi verið í nokkrum liðum hvaða rannsóknaraðgerða væri þörf. Ljóst sé að viðbótarrannsóknin sé nokkuð viðamikil og sé henni ekki lokið en ætla megi að m.a. þurfi að taka frekari skýrslur af sakborningi.
Sakborningur sé með ríkisfang á [...] en hafi verið búsettur hér á landi um nokkurra ára skeið. Hann hafi afar takmörkuð tengsl við Ísland ef frá sé talið að eiginkona hans og barn, sem einnig séu með ríkisfang á [...] séu búsett hér á landi sem stendur. Fyrir liggi að eiginkonan hafi farið fram á skilnað við hann og sæti sakborningur nú fimm mánaða nálgunarbanni gagnvart henni skv. dómi Hæstaréttar Íslands, 18. mars 2016, í máli nr. 219/2016.
Rökstuddur grunur sé um ætlað brot gegn 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Í áðurgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 177/2016 sé staðfest að rökstuddur grunur um brotið sé fyrir hendi. Með hliðsjón af því og framangreindu séu talin uppfyllt skilyrði til áframhaldandi farbanns á meðan á málið er til meðferðar hjá lögreglunni á Suðurlandi og eftir atvikum meðan málið er til meðferðar hjá héraðssaksóknara og/eða dómstólum ef til útgáfu ákæru kemur, enda megi ætla að sakborningur muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Vísað er til b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Forsendur og niðurstaða
Með vísan til ofangreinds og þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu verður fallist á það með saksóknara að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot gegn 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar er meðal annars fjallað um svokallaða nauðungarvinnu, en brot gegn þeirri lagagrein geta varðað fangelsi allt að tólf árum. Rannsókn málsins er langt komin, en ljóst er þó að all nokkur vinna er eftir á grundvelli rannsóknarfyrirmæla héraðssaksóknara til lögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum sækjanda er vinnuáætlun lögreglu sú að framhaldsrannsókninni verði lokið um miðjan júlímánuð nk.
Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að séu uppfyllt skilyrði gæsluvarðhalds skv. 1. eða 2. mgr. 95. gr. laganna þá geti dómari, í stað þess að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, bannað sakborningi brottför af landinu. Í 1. mgr. 95. gr. laganna segir að heimilt sé að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þess verði að vera fyrir hendi eitthvert af nokkrum skilyrðum, þ. á m. skv. b-lið ákvæðisins að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Samkvæmt framansögðu er varnaraðili, sem er eldri en 15 ára, undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem hefur afar takmörkuð tengsl við Ísland. Eru skilyrði laga til þess að varnaraðili sæti farbanni þannig uppfyllt. Ekki verður séð að nokkur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins sem er nokkuð umfangsmikið, en alvarlegar sakir eru bornar á varnaraðila.
Verður því fallist á kröfu um farbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja vera efni til þess að marka farbanni skemmri tíma en krafist er.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi til miðvikudagsins 20. júlí 2016 kl. 16:00.