Hæstiréttur íslands

Mál nr. 256/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 11

 

Föstudaginn 11. maí 2007.

Nr. 256/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. júní 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að sterkur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi framið það brot sem hann er grunaður um. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2007.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X [kennitala] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. júní nk. kl. 16:00. 

             Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að vísað sé til kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald yfir kærða, dags. 4. apríl sl. og úrskurð Héraðs­dóms Reykjavíkur í máli R-210/2007.

             Kærði hafi játað að hafa umrætt sinn misst stjórn á sér í samskiptum við brota­þola, náð í hníf og lagt til brotaþola.  Framburður vitna af atvikinu sé á þá leið að eftir að sljákkaði í deilum á milli kærða og brotaþola hafi kærði farið fram í eldhús íbúðarinnar sem þeir voru í, sótt hníf og lagt til brotaþola.

             Rannsókn málsins sé á lokastigi, en beðið niðurstöðu rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði um lyfja- og alkóhólleit í blóði kærða. Þá sé beðið læknisvottorðs um ástand og batahorfur brotaþola.

             Sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að kærði hafi framið brot gegn 211., sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, sem geti varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi. Verið sé að rannsaka árás þar sem beitt hafi verið stórhættulegu vopni í tvígang gegn brotaþola, í kvið og brjóst­kassa. Fyrir liggi bráðabirgðavottorð læknis, þar sem fram komi að um lífshættulegan áverka hafi verið að ræða. Telji lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. 

             Lögreglustjóri vísar til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Eins og rakið hefur verið og að öðru leyti með vísan til rann­sóknargagna hefur kærði játað brot sem getur varðað við 211., sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, sem geti varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi.

Verjandi kærða kveður ekki ástæðu til þess að ætla að kærði muni brjóta af sér aftur á þennan hátt enda hafi hann verið undir áhrifum áfengis- og fíkniefna. Þá telur hann ekki réttlætanlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi lengur en orðið er.

Fram kemur í gögnum málsins að beðið sé gagna frá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði svo og læknisvottorðs um ástand og batahorfur brotaþola.

Þegar litið er til alvarleika þess brots sem kærði er grunaður um svo og þess að  lífshættulegur áverki hlaust af, verður að telja nauðsynlegt með tilliti til almanna­hags­muna, að kærði sitji áfram í gæsluvarðhaldi. Þykja með vísan til framangreinds uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuð­borgar­svæðinu eins og hún er fram sett.

Sigríður Hjaltested settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðviku­dagsins 6. júní nk. kl. 16:00.