Hæstiréttur íslands
Mál nr. 526/2002
Lykilorð
- Víxill
- Nauðasamningur
|
|
Fimmtudaginn 15. maí 2003. |
|
Nr. 526/2002. |
Kjötumboðið hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Sölufélagi Austur-Húnvetninga svf. (Björn L. Bergsson hrl.) |
Víxilmál. Nauðasamningur.
S svf. höfðaði mál á hendur K hf. til greiðslu á skuld samkvæmt tveimur víxlum. K hf. krafðist sýknu á þeim grundvelli að félagið hefði gert nauðasamning við lánardrottna sína sem hefði verið staðfestur með úrskurði héraðsdóms. Í dómi Hæstaréttar segir að þrátt fyrir að nauðsamningurinn taki til kröfunnar leiði það ekki til þess að S svf. verði ekki dæmd krafan án tillits til nauðasamningsins, enda breytti hann ekki efni kröfunnar heldur efndaaðferðinni og áhrifum hennar. Var því fallist á kröfu S svf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2002. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður að svo stöddu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð „í samræmi við staðfestan nauðasamning áfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, frá 20. febrúar 2002, þannig að 53% heildarkröfunnar verði greiddar, samtals kr. 5.153.905,- er koma til greiðslu þannig, að 57% af þessum 53% greiðast með þremur jöfnum greiðslum, kr. 979.242,- hver greiðsla, þann 20. maí 2002, 20. ágúst 2002 og 20. febrúar 2003, og eftirstöðvarnar kr. 2.216.179,- sem eru 43% af 53% greiðist skv. hinum staðfesta nauðasamningi með greiðslu á hlutum í Norðlenska matborðinu ehf., að nafnverði sama fjárhæð, í formi staðfestingar frá hlutaskrá félagsins um eignarrétt stefnda ...“. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í héraðsdómi er greint frá nauðasamningi, sem áfrýjandi gerði við lánardrottna sína og staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2002. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti kom fram að við nauðasamningsumleitanir áfrýjanda samkvæmt VIII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. lýsti stefndi ekki kröfu sinni samkvæmt tveimur víxlum, sem féllu í gjalddaga í mars 2001 og eru grundvöllur málsóknar hans nú. Ekki verður annað séð en að nauðasamningurinn taki til kröfunnar, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Það leiðir þó ekki til þess að stefnda verði ekki dæmd krafan án tillits til nauðasamningsins, enda breytir samningurinn ekki efni kröfunnar heldur efndaaðferðinni og áhrifum hennar, sbr. síðari málslið 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar. Kemur þá til úrlausnar við efndir kröfunnar hversu mikið áfrýjanda ber að greiða, eftir atvikum við fullnustu dómsins með aðför. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kjötumboðið hf., greiði stefnda, Sölufélagi Austur-Húnvetninga svf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2002.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 21. október 2002, var höfðað 29. apríl 2002. Stefnandi er Sölufélag Austur-Húnvetninga, kt. 640269-7079, Húnabraut 30, Blönduósi, en stefndi er Kjötumboðið hf., kt. 660593-3069, Kirkjusandi við Laugarnesveg í Reykjavík.
Stefnandi gerir kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld samtals að fjárhæð 8.361.597 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.000.000 krónum frá 5. mars 2001 til 21. mars 2001, af 8.361.597 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður að svo stöddu af kröfugerð stefnanda. Til vara gerir stefndi þær kröfur að dómkrafa stefnanda verði lækkuð í samræmi við ákvæði í staðfestum nauðasamningi með greiðslu á 19% af 53% kröfunnar, með þremur gjalddögum, samtals 2.874.633 krónur á gjalddaga: þann 21. maí 2002, 19%, 958.211 krónur, á öðrum gjalddaga, þann 19. ágúst 2002, 19%, 958.211 krónur og á þriðja gjalddaga, þann 20 febrúar 2003, 19%, 958.211 krónur, auk þess að 43% verði greidd með afhendingu hluta í Norðlenska matborðinu ehf., kt. 500599-2789, að nafnverði 2.168.582 krónur, í formi staðfestingar frá hlutaskrá félagsins um eignarétt. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
II
Stefnandi byggir kröfur sínar á tveimur víxlum sem útgefnir voru 15. janúar 2001. Útgefandi víxlanna er stefnandi og greiðandi þeirra er Goði hf., sem hefur fengið nýtt nafn, Kjötumboðið hf., sem er stefndi í málinu. Annar víxillinn er að fjárhæð 4.000.000 krónur með gjalddaga 5. mars 2001 en hinn er að fjárhæð 4.361.597 krónur með gjalddaga 21. mars 2001.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 22. nóvember 2001, var stefnda veitt heimild til að leita nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991 og með úrskurði sama dómstóls 20. febrúar 2002 var staðfestur nauðasamningur stefnda og var frumvarp að nauðasamningi svohljóðandi:
1. Kafli. Samningskröfur:
1.0. Hvað boðið er og hvenær greitt:
1.1. Lánardrottnum sem fara með samningskröfur er boðið valkvætt eftir óskum sínum:
1.1.1. Greiðsla á 53% krafna sinna sem greiðist þannig: A. 19,0% kröfu greiðist í peningum innan 3ja mánaða frá staðfestingu nauðasamningsins. B. 19,0% kröfu greiðist í peningum innan sex mánaða frá staðfestingu nauðasamningsins. C. 19,0% kröfu greiðist í peningum innan 12 mánaða frá staðfestingu nauðasamningsins. D. 43% kröfu greiðist með afhendingu hluta í Norðlenska matborðinu ehf., kt. 500599-2789, Grímseyjargötu, Akureyri, að sama nafnverði og sá hluti kröfu lánardrottins sem greiddur er með þessum hætti, innan 3ja mánaða frá staðfestingu nauðasamningsins, í formi staðfestingar frá hlutaskrá félagsins um eignarrétt lánardrottna.
1.1.2. Lánardrottnar sem eiga kröfur að fjárhæð 75.000 krónur eða lægri, fá þær greiddar að fullu innan 3ja mánaða frá staðfestingu nauðasamnings, sbr. þó gr. 3.0. hér á eftir.
1.1.3. Þeir lánardrottnar sem eiga kröfur að fjárhæð 75.001 krónu, eða hærri, býðst að fá 75.000 krónur upp í sínar kröfur innan 3ja mánaða frá staðfestingu nauðasamnings og telst hún þá að fullu greidd
1.2. Lánardrottinn getur aðeins valið einn kost samkvæmt framansögðu. Taki lánardrottinn ekki afstöðu til framangreindra valkosta er litið svo á að hann velji valkost skv. gr. l.l.l. hér að framan, og verður gert upp við hann á þeirri forsendu.
1.3. Framangreind boð samkvæmt nauðasamningsfrumvarpi þessu byggja á að veðsettar fasteignir félagsins verði seldar út úr því fyrir staðfestingu nauðasamnings, með því að kaupverð þeirra verði að lágmarki áhvílandi veðskuldir þeirra, ásamt tilheyrandi vanskilum þeirra og ógreiddum fasteignagjöldum og öðrum opinberum gjöldum. Aðrar eignir félagsins, að frátöldum rekstrarkostnaði þar til nauðasamningsfrumvarpið hefur að fullu verið efnt, verða seldar. Ef andvirði þeirra, ásamt áætluðu verðmæti útistandandi krafna og vörubirgða Kjötumboðsins hf. verður hærra en forsendur nauðasamningsfrumvarpsins gera ráð fyrir, þá skuldbindur Kjötumboðið hf. sig til þess að greiða uppbót á samningstilboð samkvæmt gr. 1.1.1. Uppbót samkvæmt þessari grein, ef til kemur, skal koma til greiðslu innan 12 mánaða frá staðfestingu nauðasamnings, enda hafi löggiltur endurskoðandi Kjötumboðsins hf. áður staðfest, í samræmi við ákvæði þessarar greinar, að forsendur fyrir greiðslu uppbótar séu fyrir hendi. Lánardrottnum er heimilt að fela löggiltum endurskoðendum á sínum vegum, á eigin kostnað, að staðreyna niðurstöðu löggilts endurskoðanda Kjötumboðsins hf.
1.4. Kjötumboðið hf. mun freista þess að ná fram kauptilboði í væntanlega hluti lánardrottna í Norðlenska matborðinu ehf., ef nauðasamningsfrumvarp þetta verður staðfest, þannig að lánardrottnar geti átt val um hvort þeir vilji selja væntanlega hluti sína í félaginu í samræmi við tilboðið, eða eiga hlutina.
2.0 Trygging fyrir greiðslum:
2.1. Trygging verður ekki veitt fyrir greiðslum samkvæmt framangreindu.
3.0 Samningskröfur miðast við úrskurðardag um heimild til að leita nauðasamnings.
3.1. Eftir að heimild hefur verið veitt til að leita nauðasamnings reiknast hvorki samningsvextir, dráttarvextir né annar kostnaður, t.d. innheimtu- og lögmannskostnaður af skuldbindingum Kjötumboðsins hf. gagnvart þeim aðilum sem samningskröfur eiga á hendur fyrirtækinu.
2. Kafli. Sérstakar ívilnanir með fyrirvara um að nauðasamningsfrumvarp verði samþykkt:
2.1. Sparisjóður Mýrarsýslu fellur frá veðkröfum sínum á síðustu veðréttum í fasteignum Kjötumboðsins hf. í Brákarey, Borgarnesi, Borgarbyggð, að fjárhæð 40.000.000 krónur enda sýnir áætlað markaðsverð fasteignanna að kröfurnar eru ótryggðar, með því skilyrði að nauðasamningsfrumvarp þetta verði samþykkt, og því hækkar fjárhæð samningskrafna um sömu fjárhæð.
2.2. Grísabær sf., eigandi fasteignarinnar að Eirhöfða 12, Reykjavík, sem hefur bindandi húsaleigusamning um fasteignina við Kjötumboðið hf. til 31. desember 2009, sem felur í sér kvöð um greiðslu húsaleigu að fjárhæð tæpar 60 milljón krónur hefur samþykkt að rifta þeim samningi, með því skilyrði að nauðasamningsfrumvarp þetta verði samþykkt, gegn því að fá greiddar 5.000.000 krónur í skaðabætur þremur mánuðum frá staðfestingu nauðasamningssamþykkt, en fellur að öðru leyti frá kröfum vegna húsaleigusamningsins á hendur Kjötumboðinu hf.
Mál þetta er rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 og mótmælir stefnandi því að varnir stefnda komist að í málinu, en stefndi telur að sú staðreynd, að hann hafi fengið staðfestan nauðasamning með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, hafi áhrif á kröfu stefnanda í máli þessu, þannig að málshöfðun sé ótímabær auk þess sem stefnandi standi í skuld við stefnda vegna viðskipta aðila.
III
Eins og að framan greinir byggir stefnandi kröfur sínar á tveim víxlum samtals að fjárhæð 8.361.597 krónur. Þar sem innheimtutilraunir hans hafi ekki borið árangur sé honum nauðsyn að leita réttar síns hjá dómstólum.
Stefnandi mótmælir því að varnir stefnda komist að í málinu sem sé rekið sem víxilmál, enda séu þær þess eðlis að þær falli ekki undir ákvæði 118. gr. laga nr. 91/1991 og skuli því virða þær að vettugi í máli þessu.
Um víxilinn og greiðsluskyldu á honum byggir stefnandi á víxillögum nr. 93/1933. Þá sé málið rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 og kröfu um málskostnað kveðst stefnandi byggja á 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Aðalkröfu sína um sýknu að svo stöddu byggir stefndi á því að hann hafi þann 20. nóvember 2001 fengið staðfesta heimild fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að leita nauðasamninga og hafi nauðasamningur verið staðfestur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 20. febrúar 2002. Samkvæmt staðfestum nauðasamningi hafi stefnda borið að greiða af fyrstu kröfum sínum þann 21. maí 2002, eða viku eftir að stefna hafi verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Sé því málshöfðun stefnanda sýnilega tilgangslaus þar sem tími til efnda kröfunnar af hálfu stefnda gagnvart stefnanda hafi ekki verið kominn þegar málið var höfðað.
Kemur fram hjá stefnda að aðilar máls þessa hafi átt í viðskiptum frá árinu 2000. Samkvæmt viðskiptayfirliti sé skuldastaða stefnanda við stefnda, miðað við 30. júní 2001, 7.322.497 krónur. Vegna verulegra skulda stefnanda við stefnda sé stefndi nauðbeygður til að höfða mál á hendur stefnanda og krefjast fullra efnda á kröfu sinni. Eðlilegt sé að stefnda hefði gefist ráðrúm til að höfða mál vegna skulda stefnanda eða láta reyna á skuldajafnaðarrétt. Á fyrirliggjandi viðskiptayfirliti vegna viðskipta aðila komi fram að stefnandi hafi ítrekað tekið út birgðir hjá stefnda og hafi stefndi greitt til stefnanda á móti vegna úttekta stefnda. Skuldastaða stefnanda við stefnda sé miðuð við að fullt tillit sé tekið til hinna tveggja víxla sem mál þetta fjalli um, sem báðir séu útgefnir 15. janúar 2001 hvor að fjárhæð 4.000.000 eins og glögglega megi greina á viðskiptayfirlitinu.
Til vara geri stefndi þá kröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð í samræmi við staðfestan nauðasamning samtals að fjárhæð 2.874.633 krónur auk hlutabréfagreiðslna í Norðlenska matborðinu ehf., að nafnverði 2.168.582 krónur. Samkvæmt nauðasamningi hafi kröfur lánadrottna fengið nýja gjalddaga og verði stefnandi að hlíta því að vera nú settur við sama borð og aðrir með hina umstefndu skuld. Víxilréttur stefnanda hafi fallið niður eftir að nauðasamningur hafi verið staðfestur. Um sé að ræða þrjá gjalddaga og greiðist á hverjum gjalddaga 19% af 53% kröfunnar. Fyrsti hluti kröfunnar hefði átt að greiðast þremur mánuðum eftir staðfestingu nauðasamnings, 21. maí 2002, að fjárhæð 958.211 krónur, svo og hlutir í Norðlenska matborðinu ehf. til lánadrottna í formi staðfestingar frá hlutaskrá félagsins um eignarétt, þ.e. 43% af 53% kröfunnar, að nafnverði 2.168.582 krónur. Annar hluti hafi átt að greiðast út sex mánuðum eftir staðfestingu nauðasamnings, á gjalddaga þann 19. ágúst 2002, að fjárhæð 958.211 krónur, og þriðji hluti 12 mánuðum eftir staðfestingu nauðasamnings, á gjalddaga þann 20. febrúar 2003, að fjárhæð 958.211 krónur. Þar með séu kröfur stefnanda settar á sama bás og aðrar kröfur samkvæmt nauðasamningi, sbr. 60. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1990.
Stefndi kveðst mótmæla þeirri kröfu stefnanda að honum verði gert að greiða málskostnað, þar sem mál þetta sé höfðað áður en skuld sé komin á gjalddaga og án þess að veitt sé svigrúm til að koma að skuldajafnaðarrétti í venjulegu dómsmáli. Stefndi geri þá kröfu um að stefnanda verði gert að greiða allan málskostnað sem af máli þessu hljótist.
V
Aðalkrafa stefnda er að stefndi verði sýknaður að svo stöddu þar sem staðfestur nauðasamningur hans geri ráð fyrir fyrstu greiðslu af samningskröfum þann 21. maí 2002, síðar en mál þetta var höfðað. Þá verður málatilbúnaður stefnda jafnframt skilinn á þann veg að hann krefjist einnig sýknu að svo stöddu á þeim forsendum að stefnandi standi í skuld við stefnda og sé eðlilegt að stefnda gefist ráðrúm til að höfða mál vegna kröfu sinnar á hendur stefnanda til að reynt geti á rétt hans til skuldajafnaðar, en stefndi gerir ekki gagnkröfu til skuldajafnaðar í málinu.
Stefnandi byggir kröfur sínar á víxlum og er málið rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 118. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldar þær varnir sem komast að í víxilmáli. Þar kemur fram að stefndi geti aðeins haft uppi þær varnir um efni máls að mál sé höfðað af röngum aðila eða því sé ranglega beint að honum, að aðila hafi skort hæfi að lögum til að taka á sig skuldbindinguna, að undirskrift á skjali sé fölsuð eða efni skjals sé falsað. Þá segir að í víxilmáli megi stefndi einnig koma að vörnum sem varði form og efni víxils, aðferðina til að halda víxilkröfu í gildi og önnur atriði sem séu skilyrði til að koma fram víxilrétti eftir víxillögum. Þá má hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms í máli samkvæmt ákvæðum þessa kafla ef gagnkrafan er sams konar og aðalkrafan eða gagnkrafan styðst annars við víxil eða tékka. Þá megi í víxil- eða tékkamáli einnig koma að gagnkröfu sem sprottin er af því að aðili hafi ekki gefið þær tilkynningar til formanna sinna á víxli eða tékka sem eru boðnar í víxillögum eða lögum um tékka. Í 119. gr. laganna segir að ef stefnandi samþykki megi stefndi koma að frekari vörnum en getið sé í 118. gr.
Varnir þær sem settar eru fram af hálfu stefndu eru ekki þess eðlis að þær fái gegn andmælum stefnanda komist að í víxilmáli, samkvæmt framanskráðu og verður því ekkert tillit tekið til þeirra og ekki frekar um þær fjallað.
Varakrafa stefnda er um lækkun kröfunnar í samræmi við staðfestan nauðasamning. Enda þótt útreikningur stefnda á varakröfu sé ekki settur fram á skýran hátt verður af málatilbúnaði hans ráðið, hvað þessa kröfu snertir, að ekki sé ágreiningur um tölulega framsetningu kröfu stefnanda heldur eingöngu hvernig standa skuli að uppgjöri hennar. Í þessu sambandi þykir verða að líta til þess að í máli þessu er eingöngu tekist á um kröfu stefnanda samkvæmt fyrirliggjandi víxlum og verður því ekki tekin afstaða til þess hvernig standa skuli að endanlegu uppgjöri hennar á síðari stigum enda getur ágreiningur sem síðar kann að rísa um greiðslu kröfunnar komið sjálfstætt til kasta dómstóla í máli um lögmæti fullnustugerðar fyrir henni.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður krafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Herdís Hallmarsdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Elísabet Sigurðardóttir hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi Kjötumboðið hf. greiði stefnanda Sölufélagi Austur-Húnvetninga 8.361.597 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.000.000 krónum frá 5. mars 2001 til 21. mars 2001, af 8.361.597 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 í málskostnað.