Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gögn
- Framlagning skjals
|
|
Þriðjudaginn 4. júní 2013. |
|
Nr. 362/2013. |
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Hörður Felix Harðarson hrl.) Y (Gestur Jónsson hrl.) Z (Halldór Jónsson hrl.) Þ (Vífill Harðarson hdl. ) Æ og (Karl Axelsson hrl.) Ö (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Gögn. Framlagning skjals.
Kærður var úrskurður héraðsdóms um að heimila ákæruvaldinu að leggja fram nánar tiltekin gögn í máli þess gegn X, Y, Z, Þ, Æ og Ö. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu í úrskurði héraðsdóms að heimila ákæruvaldinu að leggja fram skýrslur sem unnar höfðu verið samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, skýrslu prófessors við verkfræði- og náttúruvísindadeild Háskóla Íslands um greiningu á kauphallargögnum og kauphallarhermi svo og endurrit af hleruðum símtölum Ö við tvo lögmenn. Aftur á móti var ákæruvaldinu synjað um að leggja fram álitsgerð dansks lagaprófessors, sem þótti lúta að lagatúlkun, og aðra álitsgerð sem sami lagaprófessor og danskur prófessor í fjármálum höfðu unnið í sameiningu en hún þótti lúta að mati á sönnun um atvik málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 24. maí 2013 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2013 þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að tiltekin gögn yrðu ekki lögð fram í máli sóknaraðila á hendur þeim. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar, að frátöldum varnaraðilanum Ö, krefjast þess að sóknaraðila verði synjað um framlagningu lögfræðiálits dansks lagaprófessors og sameiginlegs álits hans og dansks prófessors í fjármálum. Þá krefjast varnaraðilarnir X, Y, Æ og Ö þess að sóknaraðila verði synjað um að leggja fram tilteknar greinargerðir rannsakenda. Af hálfu varnaraðilanna X, Y og Æ er auk þess krafist að sóknaraðila verði synjað um að leggja fram skýrslu um viðskipti og tilboð í hlutabréf Kaupþings banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitnis banka hf., svo og geisladiska sem innihalda svokallaðan kauphallarhermi og skýrslur sem byggðar eru á honum. Loks krefst varnaraðilinn Ö þess að sóknaraðila verði synjað að leggja fram endurrit af tilteknum símtölum.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest að sóknaraðila sé heimilt að leggja fram skýrslur sem unnar voru samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008, skýrslu prófessors við verkfræði- og náttúruvísindadeild Háskóla Íslands um greiningu á kauphallargögnum um viðskipti og tilboð í hlutabréf Kaupþings banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitnis banka hf. og kauphallarhermi, svo og endurrit af hleruðum símtölum eins varnaraðila við tvo lögmenn.
Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 getur lögregla leitað til sérfróðra manna þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál svo sem læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, rithandarrannsókn eða bókhaldsrannsókn. Álitsgerð danska lagaprófessorsins A, sem sóknaraðili óskar eftir að leggja fram og ber yfirskriftina „Lögfræðiálit um hugsanlega markaðsmisnotkun þriggja banka“, lýtur að lagatúlkun en slíkt á undir dómara máls, sbr. 2. mgr. 127. gr. áðurnefndra laga. Í sameiginlegri álitsgerð danska lagaprófessorsins og dansks prófessors í fjármálum, B, sem ber heitið „Svör við álitsbeiðni embættis sérstaks saksóknara um viðskipti og meinta markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi“, er komist að nánar tilteknum niðurstöðum út frá fyrirfram gefnum forsendum sóknaraðila. Skýrslan er því í eðli sínu álitsgerð um atriði er lúta að mati á sönnun um atvik málsins, en það er í verkahring dómara, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna. Verður sóknaraðila því synjað um að leggja þessar álitsgerðir fram.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að sóknaraðila er ekki heimilt að leggja fram lögfræðiálit prófessors A 13. mars 2012 og sameiginlega álitsgerð hans og prófessors B 13. júlí 2012.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2013.
Áður en málið var þingfest barst dómaranum bréf verjenda ákærðu, annarra en verjanda ákærða Ý, þar sem þeir mótmæltu framlagningu tiltekinna rannsóknargagna er ákæruvaldið hafði sent dóminum með ákæruskjalinu, sbr. 154. gr. laga nr. 88/2008. Við þingfestingu voru því engin rannsóknargögn lögð fram heldur var málflytjendum gefinn kostur á að bóka kröfur sínar ásamt rökstuðningi. Að loknum flutningi 10. maí síðastliðinn var tekið til úrskurðar hvort þessi gögn skyldu lögð fram eða ekki.
Rannsóknargögnin eru fimm aðalskjalaskrár ásamt fylgigögnum og þar á meðal skýrslur sem lögreglan hefur samið um rannsókn hvers máls, sbr. 1. mgr. 56. gr. nefndra laga. Krafa verjenda um að þessar skýrslur verði ekki lagðar fram byggist á því að í þeim séu atriði sem ekki eigi heima í skýrslum sem þessum. Vísa þeir til fordæma, máli sínu til stuðnings. Sækjandinn hefur hafnað þessari kröfu og kom fram hjá honum við málflutning að ákæruvaldið hefði tekið tillit til athugasemda dómstóla við þessa skýrslugerð og væru skýrslurnar, sem leggja eigi fram í málinu, í samræmi við áskilnað lagaákvæðisins.
Í lagagreininni segir að lögreglan taki saman skýrslu um rannsókn sína í hverju máli um sig og skuli þar getið einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstaðna þeirra. Þá á þar að koma fram, eftir því sem við á, það sem sakborningur og vitni hafa borið við skýrslutöku. Enn fremur athugun lögreglu og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra mann. Skýrslur þær sem ákæruvaldið hyggst leggja fram í málinu eru samdar eftir fyrirmælum lagagreinarinnar og eru engin efni til að hafna því að þær verði lagðar fram.
Ákærðu krefjast þess að synjað verði um framlagningu lögfræðiálits dansks lagaprófessors og álits hans og dansks prófessors í fjármálum. Byggja verjendur ákærðu á því að þessi gögn séu ekki sönnunargögn og menn þessir geti ekkert um málsatvik borið.
Í 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 segir að lögreglan leiti til sérfróðra manna þegar þörf sé á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál. Í greininni eru síðan í dæmaskyni nefnd nokkur sérfræðisvið. Reyndar er þar ekki minnst á lögfræði eða sérsvið tengd henni, enda er það meginregla sakamálaréttarfarsins að túlkun lagareglna sé í höndum dómara, sbr. 2. mgr. 127. gr. laganna. Þetta girðir þó ekki fyrir að lögregla og ákæruvald geti leitað til sérfróðra manna á sviði lögfræði og fengið álit þeirra á tilteknum álitaefnum við rannsókn mála. Álitsgerðir þær, sem hér um ræðir, eru svör nefndra manna við spurningum ákæruvaldsins um atvik þau sem til rannsóknar voru og verður ekki annað séð en heimilt hafi verið samkvæmt 1. mgr. 86. gr. að hafa þennan hátt á við rannsókn málsins. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu ákærðu um að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja þessi gögn fram.
Þá krefjast ákærðu þess að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram skýrslu prófessors við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Skýrsla þessi ber heitið: Greining á kauphallargögnum um viðskipti og tilboð í hlutabréf Kaupþings banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Glitnis banka hf. Skýrslan er samin af sérfræðingi á grundvelli heimildar í nefndri 86. gr. laganna um meðferð sakamála og eru engin efni til að synja um framlagningu hennar.
Framangreindur prófessor útbjó einnig það sem ákæruvaldið nefnir kauphallarhermi, en hann á að hafa gert rannsakendum kleift að skoða hvern viðskiptadag fyrir sig hjá Kaupþingi banka á tilteknu tímabili. Í gögnum ákæruvaldsins segir að hermirinn sé byggður á yfirliti frá kauphöllinni yfir viðskipti með og tilboð í hlutabréf í Kaupþingi á tilteknu tímabili. Ákærðu hafa mótmælt því að geisladiskar með herminum verði lagðir fram svo og tilteknar blaðsíður úr gögnum sem hafa verið unnin upp úr honum. Þeir telja að úrvinnsla ákæruvaldsins og eigin ályktanir rannsakenda eða manna á þeirra vegum geti ekki verið sönnunargögn sem heimilt sé að leggja fram í sakamáli. Hið sama eigi við um gerð tölvuforrits.
Hér að framan var rakin heimild lögreglu til að leita til sérfróðra manna og verður ekki annað séð en þessi gögn séu unnin með stoð í þeirri heimild. Þá er það ekki andstætt ákvæðum laga um meðferð sakamála að lögregla vinni úr gögnum, sem lagt hefur verið hald á, eða dragi af þeim ályktanir. Samkvæmt þessu er ekki fallist á það með ákærðu að synja skuli um framlagningu þessara gagna.
Loks hefur verjandi ákærða Ö krafist þess að synjað verði um framlagningu tiltekinna blaðsíðna úr rannsóknargögnum. Á þessum blaðsíðum hafa verið endurrituð hleruð símtöl ákærða við tvo lögmenn. Byggir verjandinn á því að framlagning endurrita af hleruðum samtölum lögmanns og skjólstæðings brjóti gegn ákvæðum laga um meðferð sakamála, reglum um þagnarskyldu lögmanna, stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum.
Samkvæmt gögnum málsins voru hleraðir símar með heimild í úrskurði héraðsdóms. Gögn varðandi þessar hleranir eru meðal gagna málsins, þar á meðal endurrit af símtölum sem ákærði átti við tvo nafngreinda lögmenn. Hvorugur þessara lögmanna var verjandi ákærða. Í XI. kafla laga nr. 88/2008 er fjallað um símhleranir og skyld rannsóknarúrræði. Gögnum, sem aflað er með þessum rannsóknarúrræðum, skal eytt jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf, enda hafi þau ekki verið lögð fyrir dóm. Hafi gögnin að geyma upplýsingar um samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn skal þeim eytt þegar í stað. Eins og áður sagði voru umræddir lögmenn ekki verjendur ákærða og þess vegna bar ekki að eyða samtölunum. Hvorki nefnd ákvæði laga nr. 88/2008 né ákvæði annarra réttarheimilda, sem ákærði vísar til, skylda lögreglu til að eyða upptökum af símtölum grunaðra manna nema þar sem þeir ræða við verjendur sína. Umræddir lögmenn voru ekki verjendur ákærða og verður því að hafna kröfu hans um að synja ákæruvaldinu um að leggja þessi gögn fram.
Samkvæmt öllu framanrituðu er öllum kröfum verjenda ákærðu hafnað og skulu rannsóknargögn þau er fylgdu ákærunni til héraðsdóms lögð fram.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Kröfum ákærðu er hafnað og skulu rannsóknargögn þau er fylgdu ákærunni til héraðsdóms lögð fram.