Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. maí 2002.

Nr. 209/2002.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Það athugast, að gögn málsins bárust ekki Hæstarétti fyrr en einni viku eftir að úrskurður héraðsdómara var kærður. Verður að átelja þann drátt, enda brýnt að hraða meðferð mála um gæsluvarðhald.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl 2002.

Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur í dag í samráði við og í umboði Ríkissaksóknara gert kröfu um að ákærða X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 28 daga eða allt til þriðjudagsins 21. maí 2002, meðan á áfrýjunarfresti stendur í málinu nr. [...]:  Ákæruvaldið gegn X, en dómur í málinu var kveðinn upp í dag og hefur ákærður óskað þess að honum verði áfrýjað til Hæstaréttar, en honum var gert að sæta fangelsi í 9 mánuði vegna ítrekaðra þjófnaðarbrota.

Er á því byggt að ákærður hafi verið í gæsluvarðhaldi frá 18. mars sl. á grundvelli c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 og um framlenginguna er vísað til seinni málsliðar 106. gr. sömu laga.

Ákærður mótmælir kröfunni og vísar til þess, að hann hafi verið búinn að halda sér frá brotum á refsilögum í 2 1/2 ár er hann hafi fallið í óreglu og framið þau brot sem hann hafi verið nú dæmdur fyrir.  Það eigi að horfa til undantekninga að ákvörðun 106. gr. laga nr. 19/1991 sé beitt en almennt eigi sakborningur að halda frelsi sínu þar til úttektar komi að liðnum áfrýjunarfresti og séu ekki skilyrði til að beita þessu ákvæði, en ákærða sé nauðsynlegt að sinna ýmsum brýnum persónulegum málefnum áður en til fullnustu dómsins komi.

Dómi í málinu nr. S-764/2002 hefur verið áfrýjað og því eru lyktir ekki komnar í málinu fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í Hæstarétti.  Ákærða var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. R-28/2002 gert að sæta gæsluvarðhaldi til 18. maí nk. eða þar til dómur gengi í málinu nr. S-764/2002 og má vísa til röksemda þess úrskurðar sem byggði á c-lið 103. gr. laga nr. 19/1991.  Þegar litið er til sakarferils ákærða og hegðunarmynsturs ákærða í sambandi við fyrri brot hans, sem tengjast neyslu fíkniefna og annarra vímuefna þykir líklegt að ákærði haldi áfram brotum fái hann frelsi, þar til dómur gengur í málinu í Hæstarétti, en hann hóf neyslu fíkniefna eftir nokkurt hlé í byrjun mars sl. og er sennilegt að hann fari í sama farið, ef hann yrði látinn laus núna.

Krafa sýslumannsins er því með vísun í 106. gr. laga nr. 19/1991 tekin til greina.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til 21. maí nk.