Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2008


Lykilorð

  • Landamerki
  • Fölsun
  • Óskipt sameign
  • Tómlæti
  • Málsástæða


                                                             

 

Fimmtudaginn 12. febrúar 2009.

Nr. 297/2008.

Hrafn Jóhannsson

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Pálínu Guðjónsdóttur

Jóni Guðmundssyni

Ernu Árfells

Eiríki Þ. Davíðssyni

Sólveigu Unni Eysteinsdóttur

Sævari Einarssyni

Jóhönnu Elínu Gunnlaugsdóttur og

Björgvini H. Guðmundssyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Landamerki. Fölsun. Óskipt sameign. Tómlæti. Málsástæður.

P o.fl. höfðuðu mál gegn H og kröfðust þess að landamerkjalýsing milli jarðar í eigu H og fjögurra jarða í eigu P o.fl. yrði ógilt. Hafði H undirbúið landamerkjalýsinguna og fengið á hana undirritun eigenda aðliggjandi jarða, allra nema P sem var eigandi að 1/8 hluta einnar þeirra. Byggðu P o.fl. aðallega á því að landamerkjalýsingin væri fölsuð. Var þessi málsástæða eingöngu reist á fullyrðingum í skýrslum fimm aðila fyrir dómi en engin gögn lögð fram henni til stuðnings og taldist hún því ósönnuð. Var því jafnframt haldið fram að um svik hafi verið að ræða og einnig vísað til 32. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en því ekki lýst með hvaða hætti svikin hafi átt sér stað eða lýst málsástæðum sem tengdust nefndum lagaákvæðum. Talið var að áskilnaður um samþykki allra sem land eiga á móts við landeiganda í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. yrði ekki skilinn svo að merkjalýsing sem skorti þann áskilnað væri í heild sinni ógild af þeim sökum, heldur verði hún eingöngu talin geta skuldbundið eigendur þeirra jarða sem hafi samþykkt hana. Þar sem skort hafi undirskrift P, eiganda að 1/8 hluta aðliggjandi jarðar, var landamerkjalýsingin talin ógild að því er varðaði merkin milli þeirrar jarðar og jarðar H. Þá var P ekki talin hafa fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis, þrátt fyrir að hafa ekki haft uppi andmæli fyrr en tæpum átta árum eftir gerð landamerkjalýsingarinnar, með hliðsjón af eðli ráðstöfunarinnar sem hafi falist í henni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2008. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Ágreiningur máls þessa snýst um gildi landamerkjalýsingar frá nóvember 1999 um merki milli jarðarinnar Straums í Rangárþingi eystra, Rangárvallasýslu, sem er í eigu áfrýjanda og jarða stefndu, Berjaness, Stíflu, Vorsabæjar og Kanastaða, sem liggja að Straumi. 

Með kaupsamningi 20. apríl 1994 seldu Diðrik Sigurðsson og Guðmundur Diðriksson Eiríki Þ. Davíðssyni og Sólveigu Unni Eysteinsdóttur jörðina Kanastaði ásamt öllum mannvirkjum á jörðinni og öllu því er henni fylgdi og fylgja bæri, þar með talin hlunnindi. Við söluna var undanskilin landspilda „um 15 ha. (500 m x 300 m) á mörkum Kanastaða og Berjanes að vestan og Vosbæjar að norðan, efsti hlutinn.“ Í kaupsamningnum, sem afhentur var til þinglýsingar 25. sama mánaðar, er tekið fram að seljandi hafi gert uppdrátt sem fylgdi spildunni, sem skuli skoðast sem hluti samningsins. Uppdrátturinn er undirritaður af seljendum og kaupendum og er hann hvorki flatarmálsreiknaður né hnitsettur. Dánarbú Diðriks Sigurðssonar seldi áfrýjanda með kaupsamningi 10. desember 1997 fyrrgreinda landspildu ásamt sumarhúsi sem á henni var. Samningurinn var afhentur til þinglýsingar 10. febrúar sama ár og er tekið fram í honum að spildan sé um það bil 15 hektarar að stærð.

Áfrýjanda var veitt leyfi 2. febrúar 2000 að stofna nýbýli á spildunni til fiskeldis og skógræktar. Til undirbúnings því hafði hann útbúið svohljóðandi landamerkjalýsingu milli Straums og aðliggjandi jarða: „Berjanes: Milli Berjanes og Straums ræður núverandi girðing sem liggur upp miðjan Affallsaur, úr girðingarstaur sem merktur er númer 1 á uppdrætti, að Suðurlandsvegi. Berjanes / Stífla. Óskipt land. Norðan þjóðvegar ræður sama stefnulína frá girðingu við þjóðveg að hornpunkti, merktur númer 2 á uppdrætti sem er skurðarpunktur línu sem dregin er úr girðingarhorni við pípuhlið á Landeyjavegi með stefnu í Flókastaðagil, merkt 3 á uppdrætti. Vorsabær: Milli Straums og Vorsabæjar ræður lína milli punkta 3 og 2, sem sé úr hornstaur girðingar við pípuhlið á A-Landeyjavegi og sjónhendingu í Flókastaðagil. Kanastaðir: Milli Straums og Kanastaða ræður núverandi girðing úr hornstaur í Affallsaur, merktum númer 1 á uppdrætti, að staur númer 5 þaðan að girðingarhorni við A-Landeyjaveg merkt númer 4. Þaðan ræður girðing til norðurs meðfram A-Landeyjavegi að girðingarhorni við pípuhlið merkt númer 3 uppdrætti. Uppdráttur af landinu gerður af verkfræðistofunni Hnit h/f, dagsettur 15. nóvember 1999. Hornpunktar landsins eru mældir inn af Vegagerð Ríkisins Selfossi og reiknaðir í hnitum.“

Bakhlið landamerkjalýsingarinnar ber yfirskriftina: „Samþykkir sem landeigendur:“ Þar fyrir neðan eru handrituð 20. og 21. nóvember 1999 nöfn eigenda jarðanna, Kanastaða, Vorsabæjar og Stíflu auk tveggja eigenda jarðarinnar Berjaness, sem eiga 7/8 hluta jarðarinnar í óskiptri sameign með stefndu Pálínu Guðjónsdóttir, sem á 1/8 hluta hennar. Hún ritaði hins vegar ekki nafn sitt á bakhlið landamerkjalýsingarinnar. Hún var afhent til þinglýsingar 24. sama mánaðar ásamt meðfylgjandi uppdrætti af spildunni 15. nóvember 1999. Uppdrátturinn, sem er gerður af framangreindri verkfræðistofu, er hnitasettur og samkvæmt honum telst spildan vera samtals 30,837 hektarar að stærð. Hann er ekki áritaður af eigendum jarðanna.

Áfrýjandi sendi stefndu, öðrum en Pálínu Guðjónsdóttir, bréf 20. júní 2006 í tilefni af því að hann hugðist ljúka við að setja niður girðingar eftir þeim merkjum sem fram koma á landamerkjalýsingunni og óskaði eftir athugasemdum um lögmæti hennar. Er þess jafnframt getið að risi ágreiningur um merkjalýsinguna myndi hann höfða landamerkjamál til að fá úr honum skorið. Í bréfi hans til eigenda jarðarinnar Kanastaða er þess að auki getið að tilgangur þess sé einnig að „fá í ljós afstöðu ykkar á því hvort þið séuð ósammála því að hlunnindi, svo sem lax- og silungsveiði, fylgi jörðinni/lögbýlinu Straum.“ Í svarbréfi stefndu til áfrýjanda 18. september 2006 er staðhæft að þau kannist hvorki við landamerkjalýsinguna né uppdráttinn sem henni fylgdi. Vísa þau jafnframt til tiltekinna heimilda um landamerki jarða sinna gagnvart Straumi, en af þeim megi ráða að eignarheimild áfrýjanda fyrir jörð hans taki samkvæmt kaupsamningnum 20. júní 2006 aðeins til um það bil 15 hektara spildu úr landi Kanastaða. Með bréfi 6. nóvember sama ár hafnaði áfrýjandi því að hann hafi gert tilkall til stærra lands en hann hefði eignarheimild fyrir og kvaðst mundu halda fast við hin þinglýstu landamerki samkvæmt merkjalýsingunni og lýsti því yfir að hann myndi ljúka við að girða landið. 

Stefndu höfðuðu mál þetta 11. júlí 2007 og kröfðust þess að landamerkjalýsingin yrði ógilt. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á að kröfu þeirra.

II

         Í málatilbúnaði stefndu kemur ekki skýrt fram í hvaða augnamiði krafist er dóms um að ógilda beri umrædda landamerkjalýsingu, en málið er ekki rekið sem landamerkjamál. Hins vegar er ljóst að stefndu hafa lögvarða hagsmuni af að fá dóm um kröfuna meðal annars í ljósi reglna um traustfang.

         Kröfu sína byggja stefndu aðallega á því að landamerkjalýsingin sé fölsuð. Áfrýjandi hafi árið 1999 komið að máli við þau öll nema Pálínu Guðjónsdóttur og rætt lauslega við þau hvert í sínu lagi um landamerki Straums og jarða þeirra. Í þeim samræðum hafi hvorki verið farið yfir tiltekna landamerkjalýsingu né þeim kynntur uppdráttur. Hins vegar hafi þau undirritað skjal sem þau hafi talið vera til staðfestingar á að merkin væru ágreiningslaus. Það hafi því komið þeim í opna skjöldu að fá bréf áfrýjanda 20. júní 2006 ásamt meðfylgjandi landamerkjalýsingu frá nóvember 1999 og hnitasettum uppdrætti, sem þau hafi aldrei fyrr augum litið. Þau stefndu sem árituðu yfirlýsinguna kannast við skjalið sem er bakhlið hennar og nafnritun sína á það, en bera því við að skjalið hafi ekki verið bakhlið landamerkjalýsingar heldur á lausu blaði. Áfrýjandi hljóti því með einhverjum hætti að hafa skeytt framhliðinni við það blað og bætt við uppdrættinum. Áfrýjandi andmælir þessu og kveður þetta af og frá. Stefndu hafa einvörðungu reist þessa málsástæðu á fullyrðingum sem fram koma í skýrslum fimm aðila málsins fyrir dómi, en ekki lagt fram gögn henni til stuðnings og telst hún því ósönnuð. Stefndu hafa jafnframt haldið því fram að áfrýjandi hafi beitt þau svikum og vísa einnig máli sínu til stuðnings til 32. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í málatilbúnaði þeirra er hvorki vikið að því með hvaða hætti svikum hafi verið beitt né lýst málsástæðum sem tengjast áðurnefndum ákvæðum laga nr. 7/1936. Er því ekkert hald í þessum málatilbúnaði stefndu.      

Stefndu reisa kröfu sína einnig á því að landamerkjalýsingin uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl., sem áskilji að aflað sé samþykkis eigenda allra jarða sem liggja að viðkomandi landi, en ekki hafi verið aflað samþykkis Pálínu Guðjónsdóttur, sem sé þinglýstur eigandi að 1/8 hluta óskiptrar jarðarinnar Berjaness. Áfrýjandi andmælir því að þeir sem hafi samþykkt merkjaskrána séu ekki bundnir af  henni. Það sama gildi um Pálínu Guðjónsdóttur þar sem samþykki eiganda 7/8 hluta jarðarinnar sé skuldbindandi fyrir hana.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1919 kemur fram að eigandi lands skuli gera glögga skrá um landamerki, eins og hann veit þau réttust. Merkjalýsinguna skuli hann sýna hverjum þeim, sem land eigi til móts við hann og þeim sem hafi í því ítök og af því hlunnindi. Rita skuli þeir samþykki sitt á merkjaskrá, nema þeir telji hana ranga, enda skuli þess þá getið, ef einhver þeirra vilji eigi samþykkja. Að þessu loknu skuli afhenda hreppstjóra skrána, sem skuli athuga hvort allir hafi ritað á hana samþykki sitt og skuli geta þess í skránni. Hana skuli þegar í stað senda sýslumanni skrána til þinglýsingar.

Þó skýrt komi fram í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1919 að landeigandi skuli sýna öllum sem eiga land á móts við hann landamerkjalýsingu og afla skuli samþykkis þeirra allra verður ákvæðið ekki skilið á þann hátt að merkjalýsing, sem skortir þann áskilnað sé í heild sinni ógild af þeim sökum, heldur verður hún einvörðungu talin geta skuldbundið eigendur þeirra jarða sem hafa samþykkt hana. Óumdeilt er að stefnda Pálína Guðjónsdóttir, sem á sem fyrr segir 1/8 hluta í óskiptri jörðinni Berjanesi á móti stefndu Jóni Guðmundssyni og Ernu Árfells, sem eiga 7/8 hluta hennar, ritaði hvorki undir landamerkjalýsinguna né samþykkti hana á annan hátt. Ráðstöfun sú sem fram kom í merkjalýsingunni milli jarðanna Straums og Berjaness var þess eðlis að afla varð samþykkis allra eigenda hinnar óskiptu jarðar til þess að hún væri skuldbindandi. Áfrýjandi hefur borið því við að stefnda Pálína hafi allt að einu glatað rétti sínum til að vefengja gildi landamerkjalýsingarinnar vegna tómlætis, þar sem hún hafi ekki haft uppi andmæli fyrr en tæpum átta árum eftir gerð hennar. Þegar litið er til eðlis ráðstöfunarinnar sem fólst í merkjalýsingunni er ekki fallist á að tómlæti Pálínu sé slíkt að hún hafi fyrirgert rétti sínum af þeim sökum. Samkvæmt því sem rakið hefur verið er fallist á að landamerkjalýsingin frá nóvember 1999 sé ekki gild að því er varðar merki milli jarðanna Straums og Berjaness, en kröfu stefndu er að öðru leyti hafnað.

         Rétt er að hver málsaðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Landamerkjalýsing frá nóvember 1999 milli jarðarinnar Straums í Rangárvallasýslu og jarðanna Berjaness, Kanastaða, Stíflu og Vorsabæjar, sem liggja að Straumi, er ógild að því er varðar merki milli jarðanna Straums og Berjaness.

 Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. maí 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 11. júlí sl.

Stefnendur eru Pálína Guðjónsdóttir, kt. 291014-3489, Berjanesi, Jón Guðmundsson, kt. 060439-7299, Berjanesi, Erna Árfells, kt. 110242-3609, Berjanesi, Eiríkur Þ. Davíðsson, kt. 160464-6079, Kanastöðum, Sólveig Unnur Eysteinsdóttir, kt. 250964-2939, Kanastöðum, Sævar Einarsson, kt. 150656-4279, Stíflu, Jóhanna Elín Gunnlaugsdóttir, kt. 100660-5639, Stíflu og Björgvin H. Guðmundsson, kt. 270659-2339, Vorsabæ.

Stefndi er Hrafn Jóhannsson, kt. 270738-4519, Öldubakka 1, Hvolsvelli.

Dómkröfur stefnenda eru þær að landamerkjalýsing um landamerki milli Straums, landnr. 172477 og aðliggjandi jarða, sem var móttekin til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Rangárvallasýslu þann 24. nóvember 1999 (skjalnr. 99/880) verði ógilt með dómi. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi þeirra.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi dagsettum 20. apríl 1994 keyptu stefnendur Eiríkur og Sólveig Unnur jörðina Kanastaði í A-Landeyjahreppi, Rangárvallasýslu ásamt öllum mannvirkjum sem á jörðinni voru og fylgifé, þ.m.t. hlunnindi.  Segir í samningnum að landamerki jarðarinnar séu ágreiningslaus og séu samkvæmt landamerkjaskrá dags. 5. maí 1887 sem innfærð hafi verið í landamerkjabók Rangárvallasýslu.  Þá segir í samningnum að undanskilin sé landspilda um 15 ha (500m x 300m) á mörkum Kanastaða og Berjaness að vestan og Vosbæjar (svo) að norðan, efsti hlutinn.  Hafi seljandi gert uppdrátt af spildu þessari og skoðist hann sem hluti samningsins.  Rita seljendur og kaupendur nöfn sín á uppdrátt þennan.

Með kaupsamningi dagsettum 10. desember 1997 keypti stefndi framangreinda 15 ha landspildu ásamt sumarhúsi sem byggt hafi verið á spildunni.  Stefnendur halda því fram að stefndi hafi komið lauslega að máli við þau árið 1999 þar sem landamerki Straums og aðliggjandi jarða hafi verið lauslega rædd. Séu stefnendur sammála um að hvorki hafi verið farið yfir einhverja ákveðna landamerkjalýsingu með þeim né hafi þeim verið kynntur einhver ákveðinn uppdráttur.  Hins vegar hafi þau að sögn undirritað að beiðni stefnda skjal sem þau hafi talið að væri til staðfestingar á því að merkin væru ágreiningslaus eins og þau hefðu verið rædd.  Fyrir liggur í málinu skjal sem hefur að geyma landamerkjalýsingu milli Straums og aðliggjandi jarða og er þar vísað til uppdráttar sem gerður var af verkfræðistofunni Hniti hf. 15. nóvember 1999.  Á bakhlið skjalsins er samþykki landeigenda, stefndu Ernu og Jóns vegna Berjaness dagsett 20. nóvember sama ár, stefndu Eiríks og Sólveigar vegna Kanastaða dagsett 21. nóvember sama ár, stefnda Björgvins vegna Vorsabæjar dagsett 20. nóvember sama ár og ólæsileg undirritun vegna Stíflu dagsett sama dag.  Á skjalinu er hins vegar ekki að finna undirritun stefndu Pálínu, en hún mun vera einn af þinglýstum eigendum Berjaness.  Á framangreindum uppdrætti, sem er hnitasettur, kemur fram að umrædd landspilda sé samtals 30,837 ha, þar af sé land norðan hringvegar 5,524 ha og land sunnan vegarins 25,313 ha.  Við samanburð á þessum uppdrætti og hinum eldri uppdrætti frá 1994, en hann er ekki hnitasettur, kemur fram að ekki virðist muna miklu í málsetningu á spildunni sem er sunnan vegarins en spildan sem er norðan vegar er greinilega stærri á hinum nýrri uppdrætti.  Hinu nýja landamerkjabréfi var þinglýst 25. nóvember 1999.

Stefnendur segjast fyrst hafa orðið vör við það árið 2006 að stefndi teldi sig eiga rúmlega 30 ha af landi, en það sé ríflega helmingi meira land en eignarheimildir hans kveði á um að hann eigi.  Telja þau stefnda hafa beitt svikum og í reynd falsað efni landamerkjalýsingarinnar frá 1999.  Stefndu Erna, Jón, Eiríkur, Sólveig og Björgvin komu öll fyrir dóm og könnuðust við nafnritun sína á bakhlið skjalsins.  Þau kváðust hins vegar ekki hafa séð textann sem skráður er á framhlið þess og ekki hafa séð uppdráttinn frá 15. nóvember 1999 sem þar er vísað til.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur byggja á því í fyrsta lagi að stefndi hafi beitt þau svikum og falsað efni landamerkjalýsingarinnar og hafi stefndi árið 1999 lauslega rætt við þau landamerki Straums og aðliggjandi jarða.  Hafi ekki verið farið yfir ákveðna landamerkjalýsingu og enginn uppdráttur legið fyrir á þeim fundum.  Stefnendur kannast við að hafa undirritað skjal sem stefndi hefði útbúið og hafi átt að staðfesta að merki jarðanna væru ágreiningslaus.  Stefnendur kannast hins vegar ekki við efni skjalsins sem lagt hefur verið fram í málinu og vefengja þau efni landamerkjalýsingarinnar í heild sinni, enda telja þau skorta undirskrift þeirra á hana.  Þá vefengja stefnendur uppdráttinn sem fylgir skjalinu, enda skorti undirskrift þeirra á hann.  Stefnendur halda því fram að stefndi hafi síðar bætt landamerkjalýsingunni og uppdrættinum við það skjal sem þau undirrituðu.  Stefnendur krefjast þess að umrædd landamerkjalýsing verði ógilt með dómi og vísa til jafnt skráðra sem óskráðra meginreglna samningaréttar því til stuðnings.

Í öðru lagi rökstyðja stefnendur kröfu sína  með þeim rökum að landamerkjalýsingin uppfylli ekki áskilnað 2. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki.  Samkvæmt 2. gr. laganna beri eigendum lands að afla samþykkis allra sem eigi land til móts við landeiganda á merkjaskrá.  Umrædd landamerkjaskrá uppfylli ekki þennan áskilnað þar sem vanti undirskrift stefnanda Pálínu, en hún sé einn af þinglýstum eigendum jarðarinnar Berjaness. Sé því ljóst að ekki hafi veri aflað samþykkis allra eigenda aðliggjandi jarða.  Þá byggja stefnendur á því að undirskriftir þeirra séu óvottaðar.

Stefnendur vísa til skráðra og óskráðra meginreglna samningaréttar, laga nr. 7/1936, sérstaklega ákvæða III. kafla, þ.m.t. 32. og 36. gr. og laga nr. 41/1919 um landamerki.

Krafa um málskostnað er studd við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

 Stefndi mótmælir því að skilyrði ógildingar séu fyrir hendi.  Umrædd landamerkjalýsing, sem hafi verið þinglýst, sé fullgild og eigi stefnendur engan rétt á því að fá hana ógilta.

Stefndi mótmælir því að hafa beitt svikum og falsað efni landamerkjalýsingarinnar frá 1999.  Kveður stefndi stefnendur vega alvarlega að æru sinni og sé ekkert fram komið sem styðji þennan málatilbúnað þeirra.  Ótrúverðugt sé að stefnendur kannist við að hafa undirritað skjal sem stefndi hafði útbúið en kannist hins vegar ekki við að efni skjalsins sé með sama hætti og framlagt skjal beri með sér og hafi stefnendur sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni.  Sé fullyrðing þeirra sérstaklega ótrúverðug þegar uppdrættirnir séu bornir saman og megi þá ljóst vera að leitast hafi verið eftir því að fara eftir eldri uppdrættinum eins nákvæmlega og hægt var.  Þá bendir stefndi á að sérstaklega sé vísað til hnitsetta uppdráttarins í landamerkjalýsingunni og skipti þá engu máli að hann hafi ekki verið undirritaður.  Þá hafi hann sérstaklega verið kynntur stefnendum þegar þau undirrituðu landamerkjalýsinguna. Að því er varðar vísun stefnenda til 32. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 telur stefndi að um algerar undantekningarreglur sé að ræða sem beita verði af mikilli varfærni og beri að hafna þeim leiki einhver vafi á um réttmæti þeirra.

Stefndi mótmælir því að landamerkjalýsingin uppfylli ekki áskilnað 2. gr. laga nr. 41/1919.  Stefndi telur að málatilbúnaður stefnenda um að undirskrift stefnanda Pálínu vanti á landamerkjalýsinguna enga þýðingu hafa þar sem þinglýstir eigendur að 7/8 hluta Berjaness hafi ritað undir landamerkjalýsinguna og séu þær undirskriftir skuldbindandi gagnvart stefnanda Pálínu, en hún sé þinglýstur eigandi að 1/8 hluta jarðarinnar. Telur stefndi undirskriftir eigenda að 7/8 hluta jarðarinnar nægja til þess að landamerkjalýsingin haldi gildi sínu með vísan til þess að ekkert hafi verið gert í tæp 8 ár til þess að fá henni hnekkt.

Stefndi bendir á að eins og kröfugerð stefnenda sé háttað geri hún ráð fyrir að landamerkjalýsingin sé núna gild en tilteknar málsástæður leiði til ógildingar hennar.  Málatilbúnaður stefnenda sem lúti að tilvísun til 2. gr. laga nr. 41/1919 sé hins vegar á því reistur að landamerkjalýsingin hafi aldrei öðlast gildi þar sem undirskrift eins sameiganda að jörðinni Berjanesi vanti.  Sé landamerkjalýsingin því marklaus. Að mati stefnda fer kröfugerð stefnenda þannig í bága við málatilbúnað þeirra að þessu leyti og geti krafa þeirra því aldrei verið tekin til greina á þessum grundvelli.

Stefndi byggir á því að engu máli skipti þótt undirskriftir stefnenda séu óvottaðar, enda hafi stefnendur ekki borið því við að ekki sé um þeirra undirskriftir að ræða.

Stefndi byggir á meginreglum samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga, vanefndir og vanefndaúrræði.  Þá er vísað til grundvallarreglna eignarréttarins, m.a. þess að afsalshafi fái við afsalsgjöf þann rétt sem afsalsgjafi átti, en hvorki lakari né ríkari rétt.  Þá er byggt á lögum nr. 41/1919 um landamerki.  Málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Samkvæmt þinglýsingarvottorði, sem lagt hefur verið fram í máli þessu, er stefnandi Pálína Guðjónsdóttir eigandi að 12,50% hluta jarðarinnar Berjaness samkvæmt skiptayfirlýsingu sem móttekin var til þinglýsingar 6. apríl 1977.  Aðrir eigendur eignarinnar eru stefnendur Jón Guðmundsson og Erna Árfells.  Óumdeilt er að stefndi leitaði ekki samþykkis stefnanda Pálínar um landamerki milli þeirrar jarðar og jarðarinnar Straums.  Byggir stefndi á því að undirskriftir meðeigenda stefnanda Pálínar að jörðinni séu skuldbindandi gagnvart stefnanda Pálínu.  Telur stefndi undirskriftir eigenda að 7/8 hluta jarðarinnar nægja til þess að landamerkjalýsingin haldi gildi sínu með vísan til þess að ekkert hafi verið gert í tæp 8 ár til þess að fá henni hnekkt.  Með vísan til þess að ekki er annað í ljós leitt en stefnanda Pálínu hafi fyrst orðið það ljóst árið 2006 hvernig í pottinn var búið ber að hafna þeirri málsástæðu stefnda að þessi stefnda hafi sýnt af sér tómlæti.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919, sbr. 1. gr. laga nr. 77/1978, skal eigandi lands eða fyrirsvarsmaður gera glöggva skrá um landamerki eins og hann veit þau réttust.  Skal hann sýna merkjalýsingu þessa hverjum þeim sem land á til móts við hann, eða fyrirsvarsmanni hans, svo og aðilum ítaka og hlunninda.  Rita skulu þeir samþykki sitt á merkjaskrá, nema þeir telji hana ranga, enda skal þess þá getið ef einhver þeirra vill eigi samþykkja.  Að þessu loknu skal merkjaskrá afhent hreppstjóra ásamt þinglýsingar- og stimpilgjaldi.  Skal hann athuga hvort allir aðilar hafi ritað á hana samþykki sitt og geta þess í skránni.  Hann skal þegar í stað senda sýslumanni skrána til þinglýsingar.

Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að stefnendur Jón og Erna teljist vera fyrirsvarsmenn stefnanda Pálínar í skilningi 1. mgr. 2. gr. landamerkjalaga og því ljóst að ofangreind merkjalýsing hefur hvorki verið sýnd þessum stefnanda né aflað samþykkis hennar eins og áskilið er í lögunum, ber þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfur stefnenda eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnendum 400.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Landamerkjalýsing um landamerki milli jarðarinnar Straums, landnr. 172477 og aðliggjandi jarða, sem var móttekin til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Rangárvallasýslu þann 24. nóvember 1999 (skjalnr. 99/880), er ógilt.

Stefndi, Hrafn Jóhannsson, greiði stefnendum, Pálínu Guðjónsdóttur, Jóni Guðmundssyni, Ernu Árfells, Eiríki Þ. Davíðssyni, Sólveigu Unni Eysteinsdóttur, Sævari Einarssyni, Jóhönnu Elínu Gunnlaugsdóttur og Björgvini H. Guðmundssyni 400.000 krónur í málskostnað.