Hæstiréttur íslands
Mál nr. 520/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 2. september 2013. |
|
Nr. 520/2013.
|
Rögnvaldur S. Gíslason Erna Ingibjörg Helgadóttir og Steinvör Edda Einarsdóttir (sjálf) gegn Eyþóri Erni Eyjólfssyni Ingibjörgu Björnsdóttur Gunnlaugi I. Bjarnasyni og Ástu Guðjónsdóttur (Sigurður Helgi Guðjónsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni E o.fl. um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að svara nánar tilgreindum matsspurningum er lutu að því að meta og veita álit á því hvort viðgerðir á tilteknu fjöleignarhúsi væru nauðsynlegar og ef svo væri hverju umfang þeirra og kostnaður næmi, sbr. 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2013, þar sem fallist var á dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að þeir „verði sýknaðir“ en til vara að hafnað verði kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Rögnvaldur S. Gíslason, Erna Ingibjörg Helgadóttir og Steinvör Edda Einarsdóttir, greiði óskipt varnaraðilum, Eyþóri Erni Eyjólfssyni, Ingibjörgu Björnsdóttur, Gunnlaugi I. Bjarnasyni og Ástu Guðjónsdóttur, hverju fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 5. júlí 2013.
Með matsbeiðni, sem barst héraðsdómi 13. febrúar sl., hafa matsbeiðendur, Eyþór Örn Eyjólfsson, Ingibjörg Björnsdóttir, Gunnlaugur I. Bjarnason og Ásta Guðjónsdóttir, öll til heimilis að Álfheimum 23, Reykjavík, óskað þess, með vísan til XII., sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddur verði sérfróður og óvilhallur matsmaður til að svara matsspurningum sem tilgreindar eru í beiðninni. Þá krefjast matsbeiðendur málskostnaðar úr hendi matsþola.
Matsþolar, Steinvör Edda Einarsdóttir og Rögnvaldur S. Gíslason, bæði til heimilis að Sólheimum 43, Reykjavík og Erna Ingibjörg Helgadóttir, Álfheimum 23, Reykjavík, krefjast þess að matsbeiðni verið hafnað og að matsþolar verði sýknaðir af kröfu matsbeiðenda um dómkvaðningu matsmanns. Þá krefjast matsþolar málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda.
Málið var tekið til úrskurðar 28. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Efni matsbeiðni
Í matsbeiðni er rakið að samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu Álfheima 23, Reykjavík, dags. 17. desember 1960, skiptist húsið í fjóra eignarhluta. Eignarhlutföll séu eftirfarandi: Íbúð í kjallara, þ.e. 0001, sem er í eigu matsbeiðendanna Eyþórs Arnar Eyjólfssonar og Ingibjargar Björnsdóttur, telst 19,8%, íbúð á 1. hæð, þ.e. 0101, sem er í eigu matsþolanna Steinvarar Eddu Einarsdóttur og Rögnvaldar S. Gíslasonar telst 28,2%, íbúð á 2. hæð, þ.e. 0201, sem er í eigu matsbeiðendanna Gunnlaugs I. Bjarnasonar og Ástu Guðjónsdóttur, telst 28,2% og íbúð á rishæð, þ.e. 0301, sem er í eigu matsþolans Ernu Ingibjargar Helgadóttur telst 23,8%. Samanlögð hlutfallstala matsbeiðenda sé því 48% en matsþola samtals 52%.
Undanfarin ár hafi rakaskemmdir í íbúð 0201, leki frá þaki, ástand svaladúks efstu hæðar, frágangur sólstofu á efstu hæð, svalaveggur á efstu hæð og fleiri viðhaldsmál verið rædd á húsfundum húsfélagsins, orsaka leitað og viðgerðir í einhverjum tilvikum verið reyndar en án fullnægjandi árangurs að mati matsbeiðenda. Húsfundir hafi verið haldnir og tölvuskeyti gengið á víxl en ekki náðst samþykki einfalds meirihluta eigenda fyrir þeim framkvæmdum sem matsbeiðendur telji nauðsynlegar.
Húsfélagið að Álfheimum 23 hafi fengið Eflu verkfræðistofu til að meta ástand hússins. Í ástandsmati Eflu, dags. í maí 2012, um ástand hússins, viðgerðartillögur og kostnaðaráætlun segi að við skoðun á húsinu sé ljóst að þörf sé á viðgerðum og endurbótum utanhúss. Mikilvægast sé að koma strax í veg fyrir leka og ófullnægjandi frágang tréverks við svalir á efstu hæð sem valdi skemmdum á öðrum hlutum hússins, auk fleiri atriða. Mikil ummerki séu eftir leka í hjónaherbergi á 2. hæð, þ.e. íbúð 0201, við austurhlið og í kverk við suðurhlið. Einnig séu á 1. hæð við loft fyrir neðan ummerki eftir raka á 2. hæð. Töluverður leki hafi verið á samskeytum á þaki húss og sólstofu. Er kostnaður samkvæmt skýrslunni áætlaður 8.650.050 krónur.
Á aðalfundi húsfélagsins 9. ágúst 2012 hafi matsbeiðendurnir Gunnlaugur og Ásta lagt fram tillögu þess efnis að ráðist yrði í framkvæmdir á grundvelli fyrrnefndrar skýrslu Eflu og að verkfræðistofunni yrði falið að útbúa útboðsgögn, leita tilboða og hafa eftirlit með framkvæmdum. Matsbeiðendur hafi greitt atkvæði með tillögunni en hún verið felld með atkvæðum matsþola.
Í lok ágúst 2012 hafi leki í íbúð 0201 aukist til muna. Svo mikið hafi lekið úr lofti svefnherbergis að ekki hafi lengur verið hægt að vera þar. Ástráður Guðmundsson hafi að beiðni matsbeiðenda mælt raka og unnið ástandsskýrslu, dags. 23. október 2009, þar sem m.a. komi fram að endurnýja þyrfti svaladúk ofan á svalagólfi efstu hæðar. Matsbeiðendurnir Gunnlaugur og Ásta hafi haft samband við tryggingarfélag sitt sem sent hafi mann á staðinn. Í ljós hafi komið að lekinn var ekki frá lögnum. Matsþola Rögnvaldi S. Gíslasyni og lögmanni hans hafi verið tilkynnt um málið og þeim sendar myndir og myndbandsupptaka af lekanum. Rögnvaldur hafi skoðað bæði ummerki í íbúðinni og íbúð á efstu hæð og mælt raka. Matsbeiðendurnir Gunnlaugur og Ásta hafi lagt til að leitað yrði tilboða í viðgerðir en ef Rögnvaldur teldi það ekki tímabært var lagt til að húsfélagið fengi Jón Sigurjónsson, yfirverkfræðing Nýsköpunarmiðstöðvar, til að koma og kanna orsök lekans og segja hvaða úrbóta væri þörf því ekki væri hægt að bíða með málið lengur. Í kjölfarið hafi Rögnvaldur og Jón Sigurjónsson skoðað íbúðina á efstu hæð til að kanna orsök lekans niður í íbúð 0201 og Jón hafi í kjölfarið ritað greinargerð, dags. 13. september 2012. Matsbeiðandinn Gunnlaugur hafi skoðað fyrrnefndan svaladúk ásamt öðrum manni og fundið gat á honum. Í kjölfarið hafi Bjarni Axelsson hjá Kíma ehf., sem hafi lagt/selt dúkinn, skoðað dúkinn, fundið á honum átta göt og framkvæmt bráðabirgðaviðgerð.
Lögmaður matsbeiðenda hafi fyrir hönd matsbeiðendanna Gunnlaugs og Ástu ritað öðrum málsaðilum bréf, dags. 17. desember 2012. Í bréfinu hafi verið skorað á eigendur að grípa til nauðsynlegra viðgerða á íbúð 0201 auk viðgerða á orsök leka. Í bréfinu segir m.a. að endurnýja þyrfti svaladúk því eingöngu hafi verið um bráðabirgðaviðgerð að ræða, lagfæra þyrfti sólskála, svalavegg á efstu hæð og þak. Þessu til stuðnings var vísað til fyrrnefnds ástandsmats Eflu. Grípa þurfi til aðgerða nú þegar. Skorað sé á eigendur hússins að sýna samvinnu og samþykkja nauðsynlegar viðgerðir á húsinu. Skorað sé á eigendur hússins að halda húsfund um málið eigi síðar en 10. janúar 2013 þar sem ákvörðun verði tekin um að ráðast í framkvæmdir og ráða verktaka, ella muni matsbeiðendurnir Gunnlaugur og Ásta boða til fundar. Fáist ekki samþykki fyrir framkvæmdum á næsta húsfundi muni þau beita úrræðum 38. gr. laga nr. 26/1994 og fá mat dómkvadds matsmanns á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði og ráðast í framkvæmdir á kostnað allra eigenda í húsinu.
Boðað hafi verið til húsfundar af hálfu matsbeiðendanna Gunnlaugs og Ástu sem hafi verið haldinn 10. janúar 2013. Allir málsaðilar hafi mætt á fundinn en matsþolar hafi lagt fram tillögu í upphafi fundarins um að honum yrði slitið sem meirihlutinn hafi samþykkt.
Þar sem ljóst sé að samkomulag náist ekki um nauðsynlegar viðgerðir í húsinu sé matsbeiðendum nauðsynlegt að fá dómkvaddan matsmann til að meta hvaða viðgerðir séu nauðsynlegar á grundvelli 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Þess sé óskað að matsmaður láti í té skriflegt og rökstutt álit og lýsi leiðum til úrbóta og kostnaði við úrbætur. Skuli matsmaður við öll matsatriðin meta og veita álit á því hvort viðgerðir séu nauðsynlegar, umfang þeirra og kostnað, sbr. 38. gr. laga nr. 26/1994.
- ,,Þess er óskað að matsmaður skoði og meti hvort það sé leki, raki og mygla í íbúð 0201, orsök þess og afleiðingar (s.s. skemmdir í lofti, veggjum og gólfi), leiðir til úrbóta og kostnað við úrbætur.
- Þess er óskað að matsmaður skoði og meti eftirtalin atriði með tilliti til þess hvort viðgerða sé þörf, leiðir til úrbóta og kostnað við úrbætur:
- Svaladúk á efstu hæð og hvort það þurfi að endurnýja hann.
- Sólskála á efstu hæð með tilliti til þess hvort hann leki, s.s. frágang tréverks við svalir á efstu hæð og þéttingar milli húss og sólskála.
- Vegg á svölum efstu hæðar í og við sólskála.
- Þak hússins.
- Útveggi, þ.e. hvort það þurfi að fara í múr- og steypuviðgerðir og málun.
- Útitröppur og palla.
- Skyggni yfir inngangi.
- Járnhandrið.
- Niðurfallsrör og niðurföll í gólfum.
- Bílskúrar þ.e. hvort það þurfti að fara í viðgerð á ytra byrði þeirra.“
Málsástæður matsbeiðenda
Matsbeiðendur byggja á því að þau hafi lögvarða hagsmuni af því að meta hvort skilyrði 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús séu uppfyllt. Við munnlegan flutning málsins kom fram hjá lögmanni matsbeiðenda að fullyrðingum í greinargerð matsþola væri hafnað. Matsþolar eigi meirihluta hússins að Álfheimum 23 og vilji koma í veg fyrir framkvæmdir. Matsþolar hafi ekki gert ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir leka eða tekið mark á skýrslum um ástand hússins.
Fullyrðingum um aðildarskort sé hafnað. Ágreiningur sé milli aðila þessa máls. Húsfélag þurfi ekki að vera aðili að matsmáli. Engin stjórn sé í húsfélaginu og enginn sé í fyrirsvari fyrir það. Húsfélag eigi ekki sameign fjöleignarhúss, heldur eigendur hússins.
Því sé mótmælt að ekki sé tilefni til dómkvaðningar. Tilgangur dómkvaðningar sé að fá dómkvaddan matsmann til að meta hvaða viðgerðir séu nauðsynlegar. Engin samstaða sé meðal málsaðila um viðgerðir.
Málsástæður matsþola
Matsþolar byggja kröfu sína á tveimur málsástæðum. Annars vegar byggja matsþolar á aðildarskorti sínum, hins vegar á því að ekkert tilefni sé til að dómkveðja matsmann til að meta ástand hússins nr. 23 við Álfheima.
Matsþolar vísa til þess að matsbeiðni sýnist byggð á 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ljóst sé að með greininni sé eiganda/eigendum sem telja að húsfélagið sinni ekki nauðsynlegu viðhaldi veitt úrræði til að láta engu að síður ráðast í viðhaldið. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. verði viðkomandi eigandi að afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana og öðrum atriðum sem máli geta skipt. Matsbeiðnin sé því greinilega sett fram til þess að afla matsbeiðendum þessarar sönnunar.
Skýrt sé af ákvæði 38. gr. að hér sé um að ræða nauðsynlegt viðhald af hálfu húsfélagsins og að húsfélagið beri kostnaðinn af því viðhaldi sem eiganda takist að knýja fram með þessum hætti auk þess sem húsfélagið beri kostnaðinn vegna þeirra aðgerða sem eigandi þurfi að grípa til, sbr. 3. mgr. Matsþolar telja því að matsbeiðni eigi að beina að húsfélaginu sjálfu en ekki að eigendum tveggja af fjórum eignarhlutum í þessu fjöleignahúsi. Skipti engu í því sambandi að matsbeiðendur séu eigendur hinna tveggja eignarhlutanna. Matsbeiðninni sé því ranglega beint að matsþolum. Matsþolar krefjist því sýknu með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Fallist dómurinn ekki á að matsbeiðendur þurfi að beina matsbeiðninni að húsfélaginu byggja matsþolar á því að það sé ósannað að húsfélagið hafi ekki gripið til allra þeirra aðgerða sem unnt hafi verið vegna viðhalds hússins.
Matsþolar rekja að aðdragandi matsbeiðni matsbeiðenda
sé rakaútferð í stóra
svefnherberginu á 2. hæð hússins nr. 23 við Álfheima. Rakavandamálið hafi fyrst
verið tekið fyrir á húsfundi árið 2002. Þá strax hafi verið farið að leita
orsaka, þ.e. mögulegra lekastaða, í góðri samvinnu eigenda. Meðal eigenda í húsinu hafi
aldrei verið ágreiningur um að stöðva þurfi þessa rakaútferð, þ.e. leita að og
reyna að þétta þar sem vatn hafi lekið inn og valdið rakaútferð við austurvegg
stóru svefnherbergjanna á 1. og 2. hæð. Matsþolar, ekki síst matsþoli
Rögnvaldur, hafi ávallt lagt sitt af mörkum, þegar aðrir eigendur íbúða hafi
verið tilbúnir að aðhafast í málinu. Að mati matsþola hafi matsbeiðendur,
einkum matsbeiðandinn Ásta, hvað eftir annað tafið fyrir eða stöðvað aðgerðir
gegn rakaútferðinni eða tekið ákvarðanir um framkvæmdir sem einungis hafi gert
illt verra eða lagt fram tillögur um aðgerðir þar sem hvergi hafi komið fram
hvernig ætti að stöðva lekann. Þar beri hæst framkvæmdir Viðreisnar ehf.
haustið 2011. Enginn utanaðkomandi hafi fundið orsök
rakaútferðarinnar. Því sé hafnað að tillögur hafi ekki komið fram frá
matsþolum. Engin viðbrögð hafi komið fram við tillögum matsþola um viðgerðir. Matsþolar telja að enginn sá dráttur hafi orðið á æskilegu og þörfu
viðhaldi að unnt sé að skilgreina hann sem athafnaleysi húsfélagsins.
Matsþolar telja að rakavandamalið í svefnherbergi á 2. hæð hafi verið leyst með aðgerðum í október 2012 sem matsþolar hafi átt frumkvæði að. Þá hafi verið gert við göt á gólfdúki á svölum á 3. hæð. Engar upplýsingar hafa borist frá matsbeiðendunum Ástu og Gunnlaugi um að enn leki í svefnherbergi íbúðar þeirra eftir þessa viðgerð.
Gera megi því ráð fyrir að matsgerð dómkvadds matsmanns leiði ekki til neins fyrir húsfélagið nema kostnaðarins við gerð hennar. Verði fallist á kröfu matsbeiðenda sé sýnt að ýmsar þarfar viðhaldsaðgerðir á ytra byrði hússins muni tefjast. Matsþolar sjái ekki að húseigninni sé best þjónað með því að tefja það að ráðast í þær óverulegu framkvæmdir sem allir húseigendur viti að séu nauðsynlegar.
Við munnlegan flutning málsins kom fram hjá matsþolanum Rögnvaldi að matsbeiðni byggðist á skýrslu Eflu verkfræðistofu. Skýrslan væri kolvitlaus og þar væri hvergi fjallað um þörf á viðgerðum og meintar skemmdir. Viðgerðir sem lagðar séu til í skýrslunni séu óþarfar. Lekaskemmdir séu bundnar við eitt herbergi.
Augljóst sé af athugasemdum við 38. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 26/1994 að til að eiganda sé fært að grípa til aðgerða á grundvelli greinarinnar þurfi mikið athafnaleysi að hafa átt sér stað af hálfu húsfélagsins. Því sé ekki til að dreifa i þessu tilviki. Matsbeiðandinn Ásta hafi stjórnað öllum viðhaldsframkvæmdum síðustu árin fram að aðalfundi 9. ágúst 2012 og allt viðhald verið framkvæmt sem hún hafi kallað eftir.
Málskostnaðarkröfu sína byggja matsþolar á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í matsbeiðni er rökstutt að samkomulag náist ekki um nauðsynlegar viðgerðir á húsinu við Álfheima 23 í Reykjavík. Matsbeiðendum sé því nauðsynlegt að fá dómkvaddan matsmann til að meta hvaða viðgerðir séu nauðsynlegar á grundvelli 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Samkvæmt þessu lagaákvæði er eiganda rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafi ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni. Áður en framkvæmdir hefjist skuli viðkomandi eigandi jafnan afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana og öðrum atriðum sem máli geta skipt. Viðgerðin skuli síðan framkvæmd á þeim grundvelli en óveruleg og óhjákvæmileg frávik skipti þó ekki máli. Kostnaður vegna undirbúnings slíkra viðgerða og framkvæmdar þeirra sé sameiginlegur.
Matsþolar telja í fyrsta lagi að matsbeiðni eigi að beina að húsfélaginu sjálfu. Eins og áður greinir skiptist fjöleignarhúsið við Álfheima 23 í fjóra eignarhluta. Eru matsbeiðendur eigendur tveggja eignarhluta í húsinu en matsþolar eiga hina tvo eignarhlutana. Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 26/1994 getur húsfélag verið aðili að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar, þ. á m. gegn einum eða fleiri félagsmönnum. Í athugasemdum við 71. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús kemur fram að með ákvæðinu sé mælt fyrir um að húsfélag hafi aðildarhæfi, þ.e. geti verið aðili að dómsmáli. Ákvæðið leggur samkvæmt orðanna hljóðan enga skyldu á eiganda eignarhluta í fjöleignarhúsi að beina máli gegn húsfélagi frekar en að eigendum annarra eignarhluta í viðkomandi fjöleignarhúsi. Ýmis dæmi eru um það í réttarframkvæmd að eigandi eignarhluta í fjöleignarhúsi höfði mál gegn eigendum annarra eignarhluta í viðkomandi fjöleignarhúsi, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 4. maí 2005 í máli nr. 505/2004 og 14. júní 2012 í máli nr. 543/2011. Verður því ekki fallist á það með matsþolum að málinu sé ranglega að þeim beint.
Í öðru lagi telja matsþolar að ekkert tilefni sé til að dómkveðja matsmann til að meta ástand hússins. Því hefur margsinnis verið slegið föstu í dómaframkvæmd að aðilar eigi samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Þessi sjónarmið koma skýrt fram t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands 7. apríl 2008 í máli nr. 145/2008 og 2. apríl 2004 í máli nr. 96/2004, sem staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna. Í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 eru rakin skilyrði fyrir því að gagna verði aflað án tengsla við rekstur dómsmáls, en þau eru að matsbeiðandi þarf að hafa lögvarinna hagsmuna að gæta og krefjast dómkvaðningar til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni.
Matsbeiðendur rökstyðja að vegna ágreinings málsaðila sé þeim nauðsynlegt að fá mat dómkvadds matsmanns á því hvaða viðgerðir á húsinu séu nauðsynlegar. Af málatilbúnaði aðila er ljóst að verulegur ágreiningur er þeirra í millum um hvort húsfélagið hafi sinnt nauðsynlegu viðhaldi á sameign hússins og hvort sameignin eða einstakir séreignarhlutar liggi undir skemmdum. Ef skilyrði 1. mgr. 38. gr. laga nr. 26/1994 eru uppfyllt er matsbeiðendum heimilt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra málsaðila. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er matsbeiðendum hins vegar skylt að afla sönnunar um nauðsyn viðgerðarinnar. Beiðni matsbeiðenda lýtur að því að afla slíkrar sönnunar. Að mati dómsins hafa matsbeiðendur sýnt fram á að skilyrði 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. Þá verður ekki séð að þau atriði sem matsbeiðandi vill sanna skipti bersýnilega ekki máli eða séu bersýnilega tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga.
Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu matsbeiðanda.
Eftir þessum úrslitum verður matsþolum gert að greiða matsbeiðendum málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.
Matsþolar, Erna Ingibjörg Helgadóttir, Rögnvaldur S. Gíslason og Steinvör Edda Einarsdóttir, greiði óskipt matsbeiðendum, Eyþóri Erni Eyjólfssyni, Ingibjörgu Björnsdóttur, Gunnlaugi I. Bjarnasyni og Ástu Guðjónsdóttur, 100.000 krónur í málskostnað.