Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Matsmenn


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2007.

Nr. 209/2007.

C og

dánarbú D

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

A og

B

(Reynir Karlsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning. Matsmenn.

C og dánarbú D kröfðust aðallega ómerkingar úrskurðar héraðsdóms um dómkvaðningu matsmanna, þar sem héraðsdómara hefði borið að hafna framlagningu greinargerðar af hálfu matsbeiðenda en ella gefa C og dánarbúinu færi á að koma að athugasemdum við efni hennar. Til vara kröfðust þau að beiðni um dómkvaðningu yrði hafnað. Ekki var á það fallist að við meðferð beiðninnar hefði verið brotið gegn almennum málsmeðferðarreglum laga nr. 91/1991 þannig að það varðaði ómerkingu hins kærða úrskurðar. Þá var talið að skilyrði væru uppfyllt til að dómkveðja matsmenn til að framkvæma hið umbeðna mat. Úrskurðurinn var því staðfestur um að matsmenn skyldu dómkvaddir í samræmi við matsbeiðnina. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2007 þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu menn til að leggja mat á nánar tilgreind atriði varðandi ágreining aðila. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar en til vara að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og synjað um dómkvaðninguna. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

Ekki liggur fyrir að varnaraðilar hafi haft uppi kröfu í dómsmáli vegna þeirra atriða sem þeir óska mats á. Um heimild til að beiðast dómkvaðningar fer því eftir XII. kafla laga nr. 91/1991, en samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laganna ber að fara eftir IX. kafla þeirra við öflun slíkrar matsgerðar eftir því sem við getur átt.

Aðalkrafa sóknaraðila er á því reist að héraðsdómara hafi borið að hafna framlagningu greinargerðar varnaraðila, sem lögð var fram í þinghaldi þar sem málið var tekið til úrskurðar, en ella gefa sóknaraðilum færi á að koma að athugasemdum við efni greinargerðarinnar. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er ekki í IX. kafla laga nr. 91/1991 kveðið á um framlagningu greinargerða þegar aðila greinir á um hvort verða skuli við beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í XII. kafla laganna er heldur ekki mælt fyrir um að aðilar leggi fram greinargerðir ef ágreiningur rís um matsbeiðni samkvæmt þeim kafla. Ber dómara að meta af sjálfsdáðum hvort skilyrði séu til að fallast á slíka beiðni, sbr. 3. mgr. 78. gr. laganna, en ef hann telur svo ekki vera eða ágreiningur rís um það kveður hann upp úrskurð þar um.

Í þinghaldi 9. mars 2007, þar sem matsbeiðnin var fyrst tekin fyrir, mótmæltu sóknaraðilar að dómkvaðningin færi fram og óskuðu eftir fresti svo þeim gæfist kostur á að tjá sig frekar um mótmælin. Þegar málið var næst tekið fyrir 16. sama mánaðar lögðu sóknaraðilar fram skriflega greinargerð, þar sem athugasemdir þeirra við matsbeiðnina komu fram. Óskuðu varnaraðilar þá eftir fresti til að taka afstöðu til greinargerðarinnar og var sá frestur veittur. Í fyrirtöku 23. sama mánaðar lögðu varnaraðilar fram skriflega greinargerð, þar sem athugasemdir voru gerðar við mótmæli sóknaraðila. Mótmæltu sóknaraðilar framlagningu þessarar greinargerðar. Var málið síðan tekið til úrskurðar og hinn kærði úrskurður kveðinn upp 30. mars 2007.

Athugasemdir varnaraðila í ofngreindri greinargerð lúta einkum að lagaatriðum, sem dómara ber af sjálfsdáðum að gæta að við úrlausn málsins. Sóknaraðilar höfðu áður lagt fram skriflega greinargerð þar sem afstaða þeirra til matsbeiðninnar var skýrð. Ber dómara almennt að verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 nema að skilyrði 77. gr. og 78. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að beiðnin beinist að atriði, sem ekki heyrir undir matsmann að fjalla um, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Verður ekki séð að sérstök þörf hafi verið á framlagningu umræddra greinargerða svo dómari gæti lagt mat á beiðnina. Með hliðsjón af þessu verður ekki fallist á með sóknaraðilum að við meðferð málsins hafi verið gengið gegn almennum málsmeðferðarreglum laga nr. 91/1991 þannig að varði ómerkingu hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar telst matsbeiðnin uppfylla kröfur 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Í henni er tengslum varnaraðila við D heitinn lýst. Í ljósi þeirra upplýsinga verður við það að miða að skilyrði 1. mgr. 77. gr. laganna séu einnig uppfyllt. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans um að matsmenn skuli dómkvaddir í samræmi við matsbeiðnina staðfest. Með hliðsjón af 4. mgr. 79. gr. sömu laga verður úrskurðurinn staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðilar greiði kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað, sem fellur niður í héraði.

Sóknaraðilar, C og dánarbú D greiði sameiginlega varnaraðilum, A og B, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2007.

Málið barst dóminum 12. febrúar sl.  Það var þingfest 9. mars sl. og tekið til úr­skurðar 23. mars sl.

Matsbeiðendur eru A, [...], Reykjavík og B, [...], Reykjavík.

Matsþoli er C, persónulega og f.h. dánarbús D, [...], Reykjavík,

Matsbeiðendur óska, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til þess að meta hvort D, [kt.], sem lést 29. október 2006, hafi verið það heill heilsu andlega og líkamlega, hinn 26. október 2006, þegar hann undirritaði erfðaskrá skömmu fyrir andlát sitt, að hann hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað fólst í þeirri ráðstöfun.

Samkvæmt því sem fram kemur í matsbeiðni lést D hinn 29. október 2006 eftir erfið veikindi. Skömmu fyrir andlátið, eða hinn 26. október 2006, hafi hann undirritað erfðaskrá þar sem hann hafi arfleitt matsþola C að „helstu eignum“ sínum eins og það sé orðað í erfðaskránni. Áður en D hafi látist hafi hann verið alvarlega veikur af krabbameini og gengið í gegnum erfiða sjúk­dómslegu. Hafi hann dvalið á Landspítalanum við Hringbraut þegar hann hafi undir­ritað erfðaskránna og allt til dauðadags. Hafi hann m.a. verið á sterkum lyfjum sem hafi haft það í för með sér að hann hafi „stundum dottið út“  og hafi virst sem hann væri engan veginn með sjálfum sér. Hafi stundum virst sem hann þekkti ekki nána vini sína og ættingja. Matsbeiðendum sé m.a. kunnugt um að skömmu áður en hann hafi undirritað ofangreinda erfðaskrá, hafi hann verið í „annarlegu ástandi“ að þessu leyti. Þá hafi D verið mjög heyrnardaufur sem hafi leitt til misskilnings hans um marga hluti, ekki síst meðan á veikindum hans hafi staðið. Matsbeiðendum sé kunn­ugt um að erfðaskráin sé ekki í samræmi við það sem D heitinn hafi áður látið frá sér fara við suma ættingja sína og vini, um ráðstöfun eigna eftir sinn dag.

Matsbeiðendur kveða ástæðu matsbeiðninnar vera þá að þeir hafi ástæðu til að ætla að D heitinn hafi, við undirritun erfðaskrárinnar, hvorki verið svo heill heilsu and­lega né líkamlega, að hann hafi gert sér grein fyrir hvað hafi falist í ráðstöfun hans samkvæmt erfðaskránni. Telji matsbeiðendur því að nauðsynlegt sé að dómkvaddir verði matsmenn til að láta í ljós álit sitt á því hvort andleg og líkamleg heilsa D heitins hafi verið með þeim hætti, að telja megi víst að hann hafi vitað með fullri vissu, hvað hafi falist í þeirri ráðstöfun sem hann hafi gert þegar hann hafi undirritað erfða­skrána.

Þess er óskað að hinir dómkvöddu matsmenn láti matsbeiðendum í té skriflegt og rök­stutt álit á eftirgreindum atriðum:

1.                     Þeir kanni og upplýsi í hverju veikindi D heitins fólust á þeim tíma sem hann undirritaði erfðaskrána.

2.                     Þeir kanni og upplýsi á hvaða lyfjum D heitinn hafi verið á og í hvaða magni hann hafi tekið þau, skömmu fyrir undirritun erfðaskrárinnar og þegar hann undirritaði hana.

3.                     Þeir lýsi þeim áhrifum sem líklegt sé að lyfjagjöfin hafi haft á D heitinn og/eða hvaða áhrif slík lyfjagjöf hafi almennt á sjúklinga, andlega og líkam­lega.

4.                     Þeir gefi álit sitt á því með tilliti til allra fyrirliggjandi gagna um heilsu D heitins, þ.m.t. sjúkraskráa, hvort líklegt sé að veikindi hans og sú með­ferð sem hann fékk, þ.m.t. í formi lyfjagjafar, hafi dregið úr andlegu og líkamlegu hæfi hans til að gera sér grein fyrir hvað fólst í erfðaskránni sem hann undirritaði. Ef svo er, þá hvers vegna?

 

Matsþoli lagði fram á dómþingi í héraði, þann 16. mars sl., greinargerð vegna  fram­kominnar matsbeiðni. Þar koma fram athugasemdir sem lúta að matsspurningum þeim sem þar koma fram. Í greinargerð segir að ætlast sé til þess að matsmenn sjálfir annist öflun gagna sem síðan sé ætlast til að þeir meti. Engin gögn séu lögð fram um heilsu­far D fyrir andlát hans og ekki heldur um lyf sem hann kynni að hafa tekið, heldur sé matsmönnum sjálfum ætlað að upplýsa um það hvaða lyf það hafi verið sem D heitinn hafi notað. Í 4. tl. sé óskað eftir áliti matsmanna „m.t.t. allra fyrirliggjandi gagna um heilsu [D] heitins“, hvort líklegt sé að veikindi hans og sú meðferð sem hann hafi fengið hafi dregið úr andlegu og líkamlegu hæfi hans til að gera sér grein fyrir því sem hafi falist í erfðaskránni. Telji matsþolar þessa spurningu út í hött en í henni sé m.a. vísað til fyrirliggjandi gagna án þess að nokkur gögn séu lögð fram. Beri allt að sama brunni þar sem matsbeiðendur leitist við að fá dómkvadda mats­menn til að annast gagnaöflun í stað þess að afla sjálfir gagna sem hægt væri að leggja fyrir matsmenn.

Matsþoli telji beiðnina ekki vera í samræmi við IX. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna skuli í matsbeiðni koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta skuli og hvað aðili hyggist sanna með mati sínu. Ljóst sé að matsbeiðnin uppfylli ekki þessi einföldu skilyrði. Í henni sé hins vegar farið fram á að dómkvaddir verði einhvers konar rannsóknarmenn til að afla gagna eftir því sem þeir telji sjálfir nauðsynlegt eða gagnlegt og að þeir eigi síðan sjálfir að meta þessi sömu gögn. Þegar metið sé hvort að efni beiðninnar samrýmist 61. gr. sé, að mati varnar­aðila, líka rétt að líta til efnis 64. gr. laganna sem fjalli um yfirmat. Yfirmat yrði nánast óframkvæmanlegt ef hægt yrði að fá undirmat unnið eftir þeim leiðum sem sóknaraðilar geri ráð fyrir.

Krafist sé málskostnaðar á grundvelli 130. gr. laga nr. 91/1991.

Matsbeiðendur lögðu fram greinargerð sína á dómþingi 23. mars sl. Matsþoli mót­mælti framlagningu hennar. Í IX. kafla laga nr. 91/1991 er ekki kveðið á um  fram­lagningu greinargerða aðila þegar ágreiningur rís um matsbeiðni. Hins vegar þykir rétt að heimila framlagningu hennar til að varpa frekara ljósi á þau atriði sem mót­mælin beinast gegn, enda tjái þeir sig ekki sérstaklega um matsbeiðnina. Telja verður að matsbeiðendum sé því heimilt að leggja fram greinargerð með andsvörum við mótmælum gerðarþola.

Í greinargerð matsbeiðenda kemur fram að sóknaraðilar byggi á því að í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um einkamál í héraði sé beinlínis gert ráð fyrir því að mats­menn geti sjálfir aflað gagna til afnota við matið. Telji matsbeiðendur að það eigi sér­stak­lega við í máli þessu þar sem um sé að ræða flókið úrlausnarefni sem varði læknis- og lyfjafræði, sem matsbeiðendur hafi litla eða enga þekkingu á. Þá sé og á það líta að aðilar geti tjáð sig um þau gögn sem matsmenn afli, skv. 2. mgr. 62. gr. lag­anna. Matsbeiðendur byggi á því að samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, teljist matsgerðir til svokallaðra rannsóknaraðgerða en í því felist að matsmenn hafi nokkurt forræði á því sem rannsakað sé í krafti sérþekkingar þeirra.

Þá byggi gerðarbeiðendur á því að í 3. mgr. 62. gr. laganna sé gert ráð fyrir því að þeim sem hafi umráð þess sem matsgerð lúti að sé skylt að láta matsmann hafa umráð þess. Þannig hafi matsmenn víðtækari heimildir en matsbeiðendur til þess að afla gagna. Það skipti sérstaklega máli í þessu tilviki, þar sem matið lúti að sérhæfðum og við­kvæmum persónulegum upplýsingum. Þá byggi matsbeiðendur á því að hvorki sé venja, né að IX. kafli laga nr. 91/1991 geri ráð fyrir því að gögn fylgi matsbeiðni. Ekkert sé því til fyrirstöðu að leggja fram frekari gögn á matsfundum í málinu.

Þá krefjast matsbeiðendur málskostnaðar, sbr. 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 auk virðisaukaskatts á málskostnað, sbr. lög nr. 50/1988, en sóknaraðilar séu ekki virðis­aukaskattskyldir.

Niðurstaða.

Andmæli matsþola beinast annars vegar að framsetningu matsspurninga og því að hann telur matsmenn ekki geta, eða mega, afla gagna af sjálfsdáðum.

Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 skal koma skýr­lega fram í matsbeiðni hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta eigi og hvað aðili hyggist sanna með mati. Að mati dómsins er beiðnin nægilega skýr að þessu leyti en hafa skal í huga að matsmenn láta aðeins í té skriflegt og rökstutt álit á þeim atriðum sem þeir telja sér fært að meta á grundvelli kunnáttu sinnar. Þá er ekki gert ráð fyrir því í IX. kafla nr. 91/1991 að gerðarbeiðanda sé sérstaklega ætlað að leggja fram gögn sem matsmenn byggi mat sitt á. Geta matsmenn sjálfir aflað gagna og fengið umráð þess sem nauðsynlegt er talið ef svo ber undir, sbr. 2. og 3. mgr.  62. gr. laganna.  Einnig verður að skoða matsbeiðnina með hliðsjón af 3. mgr. 46. gr. laganna en telja verður að ekki sé svo ástatt sem þar greinir.  Loks ber að líta til þess að matsbeiðandi ber áhættu af kostnaði af öflun matsgerðar og áhættu af sönnunargildi hennar en um þetta má m.a. vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 30. ágúst 2000 í máli nr. 292/2000.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið, þykja ekki efni til að hafna beiðni um dóm­kvaðningu matsmanna og skal hún því fara fram.

Matsþoli greiði matsbeiðanda 56.025 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigríður J. Hjaltested, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð.

Kveðja skal til matsmenn í samræmi við beiðni matsbeiðenda, A og B.

Matsþoli greiði matsbeiðanda 56.025 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.