Hæstiréttur íslands
Mál nr. 54/2000
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Galli
- Riftun
- Skaðabætur
- Tómlæti
- Verslunarkaup
- Svik
|
|
Fimmtudaginn 22. júní 2000. |
|
Nr. 54/2000. |
Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. (Magnús Thoroddsen hrl.) gegn Pandalusi hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Lausafjárkaup. Galli. Riftun. Skaðabætur. Tómlæti. Verslunarkaup. Svik.
Félögin F, sem síðar var sameinað félaginu H, og P áttu viðskipti á árunum 1992 til 1996, sem fólust í því að P seldi erlendum kaupendum unna rækju í eigin nafni fyrir F og seldi F óunna rækju til vinnslu. Ekki var gerður skriflegur samningur um viðskipti aðilanna. Höfðaði P mál gegn H og krafðist þess að félaginu yrði gert að greiða skuld samkvæmt viðskiptareikningi F. Þá krafðist P greiðslu fyrir óunna rækju, sem félagið seldi F á árinu 1996. H viðurkenndi hluta skuldar á viðskiptareikningi, en neitaði greiðslu á grundvelli þess að hann ætti mun hærri gagnkröfur á hendur P. Krafa P um greiðslu geymslukostnaðar erlendis fyrir óselda rækju var ekki tekin til greina, en talið var ósannað að P hafi fengið samþykki F fyrir því að stofna til umrædds geymslukostnaðar. Þá var H sýknaður af tveimur kröfum P um greiðslu vegna afsláttar, sem P hefði orðið að gefa erlendum kaupendum vegna gallaðrar rækju frá F, en talið var ósannað að P hafi aflað samþykkis F fyrir ráðstöfununum og að um væri að ræða slíkan afslátt að P hefði ekki upp á sitt eindæmi getað bundið F með ákvörðun um hann. H var einnig sýknaður af kröfum P vegna kostnaðar fyrir svonefnda kassamiða. Var talið að það eitt og hálft ár sem leið frá því að stofnað var til útgjaldanna þar til F var gerður reikningur fyrir þau benti ekki til þess að ætlast hefði verið til að félagið bæri þau. Þá var ekki tekin til greina krafa P um greiðslu fyrir óunna rækju, sem félagið seldi F, en talið var að F hefði verið heimilt að rifta kaupum við P á rækjunni, en talið var sannað að rækjan hefði verið skemmd þegar P seldi F hana. Gagnkrafa H á hendur P reis vegna söluandvirðis rækju, sem erlendur kaupandi greiddi ekki. Taldi H að P bæri ábyrgð á tjóninu, þar sem að ekki hefði verið krafist trygginga í viðskiptunum. Var gagnkrafan ekki tekin til greina á grundvelli þess að hvorki væri fram komið að F hefði gefið P sérstök fyrirmæli um að erlendi kaupandinn skyldi setja tryggingu fyrir greiðslu kaupverðsins né að venja væri að krefjast slíkrar tryggingar. Varð niðurstaða málsins að H var dæmdur til að greiða P þann hluta skuldar á viðskiptareikningi sem félagið viðurkenndi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.729.023 krónur með dráttarvöxtum frá 1. janúar 1997 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti kom fram að nafni áfrýjanda var breytt eftir að Gunnvör hf. sameinaðist Hraðfrystihúsinu hf. 8. september 1999 og öll réttindi og skyldur fyrrnefnda félagsins færðust til þess síðarnefnda. Er nafn áfrýjanda eftir það Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. Frosti hf., sem átti þau viðskipti við stefnda, sem ágreiningur málsaðila er sprottinn af, hafði verið sameinaður Hraðfrystihúsinu hf. á árinu 1997. Er einnig fram komið fyrir Hæstarétti að stefndi, sem áður hét Íslenskt marfang hf., heiti nú Pandalus hf.
I.
Ágreiningslaust er að viðskipti Frosta hf. og stefnda hófust 1992 þegar stefndi varð til við samruna tveggja félaga og að þeim lauk á síðari hluta árs 1996. Fólust viðskiptin bæði í því að stefndi seldi erlendum kaupendum unna rækju í eigin nafni fyrir Frosta hf. og seldi félaginu óunna rækju til vinnslu. Ekki var þó gerður skriflegur samningur á milli þeirra um hvernig viðskiptunum yrði nánar fyrir komið eða hvaða heimildir stefndi hefði í samskiptum sínum við erlenda kaupendur til að skuldbinda Frosta hf. með ákvörðunum um útgjöld fyrir reikning hins síðastnefnda. Hafa fyrirsvarsmenn málsaðila gefið skýrslu fyrir dómi, þar sem þessu er nánar lýst. Ber mjög mikið á milli þeirra.
Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Frosta hf. skýrðu báðir svo frá að félagið hafi verið innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem hafi yfirleitt selt allar framleiðslu þess. Nokkuð af þeim hafi þó verið selt fyrir milligöngu annarra, þar á meðal stefnda. Það hafi þá almennt gerst þannig að slíkir smærri seljendur hafi haft samband, gefið upplýsingar um að þeir gætu selt tiltekna vöru og spurst fyrir um hvort Frosti hf. ætti hana til. Hafi orðið af slíkum viðskiptum ef boð um þau hafi leitt til þess að félagið gæti fengið hærra verð fyrir afurðirnar en annars væri unnt. Forsenda viðskiptanna hafi alltaf verið sú að ljóst væri um ákveðinn kaupanda og skilaverð til framleiðandans. Þegar varan var send úr landi hafi hún ætíð verið seld.
Forráðamaður stefnda bar fyrir dómi að félagið hafi tekið að sér að selja rækju fyrir Frosta hf., sem unnin var í Súðavík. Viðskiptin hafi verið mismikil einstök ár, en fyrir allt að 300.000.000 krónur þegar mest var. Stundum hafi varan verið seld cif og kaupandi þá tekið við henni strax á hafnarbakka. Í öðrum tilvikum hafi vara verið flutt út óseld og þá verið komið fyrir í geymslum á ákvörðunarstað. Stór íslensk sölusamtök eigi sínar geymslur erlendis, en smærri útflytjendur leigi geymslurými af þeim, sem selji slíka þjónustu. Geti verið hagkvæmt að geyma vöru nálægt mörkuðum og selja hana í áföngum, einkum sé sala dræm. Þetta sé gert í samráði við framleiðendur á Íslandi. Líði mislangur tími, sem vara þurfi að vera í geymslu, þar til kaupandi fáist. Geti sá tími orðið allt að hálft ár. Þá bar hann að starfsmenn stefnda hefðu haft daglegt samband við starfsmenn Frosta hf. vegna viðskipta félaganna.
II.
Stefndi höfðaði málið með kröfu um að áfrýjandi yrði dæmdur til að greiða skuld samkvæmt viðskiptareikningi Frosta hf. Fólst krafa stefnda annars vegar í því að áfrýjanda bæri að greiða ýmsan kostnað, sem stefndi hafi stofnað til vegna sölustarfa sinna í þágu Frosta hf. og nánar greinir hér á eftir. Hins vegar krafðist hann greiðslu fyrir óunna rækju, sem hann seldi Frosta hf. 9. ágúst 1996 og flutt var til Ísafjarðar fáum dögum síðar. Hafnaði áfrýjandi að greiða þessar kröfur, en viðurkenndi að þrátt fyrir það stæði eftir skuld hans á viðskiptareikningi að fjárhæð 287.135 krónur. Krafðist hann þó sýknu, þar sem hann ætti mun hærri gagnkröfu á hendur stefnda vegna söluandvirðis rækju, sem kaupandi í Svíþjóð hefði ekki greitt. Kenna mætti stefnda um tjón áfrýjanda af vanefndum erlenda kaupandans, þar sem ekki hafi verið krafist trygginga í þeim viðskiptum. Höfðaði áfrýjandi gagnsök til heimtu þeirrar kröfu að frádregnum áðurnefndum mismun, sem hann viðurkennir að skulda. Ekki er tölulegur ágreiningur um einstaka liði, sem deilt er um.
III.
Stefndi krefur áfrýjanda í fyrsta lagi um greiðslu kostnaðar, sem hlotist hafi af því að geyma óselda rækju erlendis. Liggja fyrir sjö reikningar stefnda á hendur Frosta hf., sem hann styður þá kröfu við, samtals að fjárhæð 727.794 krónur. Eru þeir dagsettir á tímabilinu 15. ágúst til 30. desember 1996.
Meðal málsgagna er bréf Frosta hf. til stefnda 19. ágúst 1996, þar sem vísað er til elsta reiknings stefnda fyrir geymslukostnað. Segir í bréfinu að þegar Frosti hf. selji stefnda vöru sé hún afhent cif í höfn erlendis. Hafi stefndi keypt geymslu fyrir hana án samráðs við Frosta hf. komi kostnaður af þeim sökum félaginu ekki við. Stefndi mótmælti synjun Frosta hf. um greiðslu í bréfi 26. sama mánaðar með þeim orðum að varan hafi verið í umboðssölu fyrir félagið. Samkvæmt hefð sé varan á kostnað framleiðandans þar til hún sé seld, sem stundum sé cif í erlendri höfn, í öðrum tilvikum út úr geymslu erlendis „og í enn fleiri tilvikum afgreidd til kaupanda“, eins og þar segir.
Áfrýjandi heldur fram að stefndi hafi ekki krafið Frosta hf. um geymslukostnað fyrr í viðskiptum félaganna, sem staðið hafi frá 1992. Telur hann að stefndi hafi stofnað til þessa kostnaðar í andstöðu við umsamda viðskiptahætti þeirra og án samráðs við Frosta hf. Slíkt hljóti að vera á kostnað stefnda sjálfs.
Stefndi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að hinn fyrrnefndi hafi ekki krafið Frosta hf. um geymslukostnað frá upphafi viðskipta þeirra fyrr en eftir mitt ár 1996. Verður jafnframt lögð til grundvallar sú skýring áfrýjanda að Frosti hf. hafi almennt selt afurðir sínar fyrir milligöngu sölusamtaka, sem félagið átti aðild að, en aðrir hafi því aðeins fengið að selja að betri kjör væru í boði. Í ljósi þess verður ekki fallist á þá skýringu stefnda að hann hafi sjálfur haft í hendi sér að ákveða hvort afurðir Frosta hf. væru fluttar út seldar eða óseldar og að hann hafi í raun átt sjálfdæmi um það til hvaða útgjalda hann stofnaði fyrir reikning félagsins vegna sölustarfsins. Er og ósannað að hann hafi fengið samþykki Frosta hf. fyrir því að stofna til áðurnefnds geymslukostnaðar. Þessi kröfuliður stefnda verður því ekki tekinn til greina.
Í annað stað krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu á 299.763 krónum samkvæmt reikningi 15. ágúst 1996 vegna 50% afsláttar, sem stefndi hafi orðið að gefa erlendum kaupanda af verði gallaðrar rækju frá Frosta hf. Eins og málið liggur fyrir verður ráðið að stefndi hafi gert viðskiptin upp við Frosta hf. með óskertu söluverði að þessu leyti, en krefjist nú endurgreiðslu á helmingi þess. Áfrýjandi mótmælir greiðsluskyldu. Heldur hann fram að aldrei hafi verið kvartað við Frosta hf. vegna vörunnar, en viðskipti um hana hafi verið gerð á fyrri hluta árs 1995. Ekkert sé fram komið, sem renni stoðum undir að rækjan hafi verið gölluð, sem þó hefði verið unnt að sýna fram á með erlendri skoðunargerð. Þá hafi ekkert samráð verið haft við Frosta hf. um að veita afslátt í þessum viðskiptum.
Ósannað er að stefndi hafi aflað samþykkis Frosta hf. til þeirrar ráðstöfunar, sem hér um ræðir, en afsláttur í þessu tilviki var slíkur að stefndi gat ekki upp á sitt eindæmi bundið félagið með ákvörðun um hann. Verður áfrýjandi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af þessum kröfulið.
Þriðji kröfuliður stefnda er um greiðslu samkvæmt reikningi 17. desember 1996 að fjárhæð 42.641 króna fyrir svonefnda kassamiða. Skýrir hann kostnaðinn þannig að hann hafi sem útflytjandi selt rækju undir vörumerkinu „president“, sem sett hafi verið á umbúðirnar. Beri framleiðandinn ábyrgð á greiðslu kostnaðar við það. Áfrýjandi telur þennan kostnað sér óviðkomandi. Hafi Frosti hf. sjálfur framleitt þá merkimiða á umbúðir, sem þörf hafi verið á, og ákvörðun stefnda um eigin merkingar hafi verið tekin á ábyrgð hans sjálfs. Þá hafi ekki verið leitað eftir samþykki Frosta hf. fyrir því að greiða slíkan kostnað.
Með reikningi stefnda fylgdi nóta 18. maí 1995 fyrir 5.000 rækjupoka með merkinu „president“. Reikningur var þó ekki gerður Frosta hf. fyrr en rúmlega einu og hálfu ári síðar eða um þær mundir, sem viðskiptum félagsins við stefnda var að ljúka. Eins og viðskiptasambandi stefnda og Frosta hf. var háttað hefur ekki verið skýrt með hvaða heimild stefndi gat stofnað til þessara útgjalda fyrir reikning félagsins án samþykkis þess. Sá langi tími, sem leið frá því að stofnað var til útgjaldanna þar til Frosta hf. var gerður reikningur fyrir þau, bendir ekki til þess að ætlast hafi verið til að félagið bæri þau. Verður áfrýjanda að þessu virtu ekki gert að greiða stefnda þennan kostnað.
Í fjórða lagi krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu á 503.909 krónum vegna afsláttar, sem hinn fyrrnefndi hafi orðið að veita erlendum kaupendum vegna of mikillar vatnshúðunar á rækju og rangar talningar í nokkrum sendingum frá Frosta hf. Gerði stefndi Frosta hf. fjóra reikninga af þessum sökum, sem eru dagsettir 20. og 21. ágúst 1996. Eru þrír þeirra fyrir 1%, 1,13% og 1,6% afslátt vegna of mikillar vatnshúðunar rækju, en sá fjórði vegna rangrar talningar. Mótmæli áfrýjanda við þessum kröfulið eru í meginatriðum þau sömu og áður eru rakin um aðra kröfuliði stefnda. Bendir hann jafnframt á að reikningarnir hafi ekki borist Frosta hf. fyrr en í mars 1998 og þá strax verið mótmælt. Þá sé galli á vörunni ekki studdur neinum sönnunargögnum, svo sem sýnatöku eða skýrslu erlendrar skoðunarstofu.
Ekki liggur fyrir hvenær þau viðskipti, sem hér um ræðir, voru gerð við erlenda kaupendur. Reikninganna er ekki getið í bréfi stefnda til Frosta hf. 26. ágúst 1996 og eins og málið liggur fyrir verður lagt til grundvallar að þeir hafi ekki borist Frosta hf. fyrr en í mars 1998. Gildir að því leyti hið sama og áður er getið um kröfulið stefnda fyrir kassamiða. Verður áfrýjandi sýknaður af þessum lið þegar af þeirri ástæðu að ósannað er að samþykkis Frosta hf. hafi verið leitað til að gefa umræddan afslátt.
IV.
Samkvæmt reikningi 9. ágúst 1996 keypti Frosti hf. af stefnda óunna rækju í vörugámi, en rækjuna hafði stefndi áður keypt af erlendum seljanda. Var hún flutt til landsins í júlí sama árs og síðan frá Reykjavík til Ísafjarðar þegar í kjölfar kaupa Frosta hf. Gámurinn var þó ekki opnaður fyrr en í lok nóvember 1996 þegar Frosti hf. hugðist taka rækjuna til vinnslu. Kom þá í ljós að hún var skemmd og kvartaði Frosti hf. strax við stefnda. Var Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fengin til að kanna rækjuna. Segir meðal annars í skýrslu stofnunarinnar 2. desember 1996 að vond lykt sé af rækjunni og megi sjá kristalla í holdi hennar, sem bendi til að hún hafi fengið hæga frystingu einhvern tíma frá því hún var veidd til þess dags, er athugun fór fram. Beri rækjan nokkur merki frostþurrkunar þannig að komnir séu hvítir blettir á skelina og sumar rækjurnar orðnar alveg hvítar. Rifti Frosti hf. kaupunum í febrúar 1997 og sendi gáminn aftur til stefnda, sem mótmælti riftuninni og neitaði að taka við gáminum. Er ekki upplýst í málinu hvað um hann varð.
Meðal málskjala er skýrsla Rannsóknarþjónustunnar Sýnis hf. 17. júlí 1996, sem gerð var að ósk stefnda. Er þar að finna ýmsar upplýsingar um rækjuna í gáminum. Eru meðal annars tilgreindar átta dagsetningar frá 8. maí til 21. júní, án þess að ártals sé getið. Hefur stefndi ekki mótmælt þeirri skýringu áfrýjanda að með þessu hafi verið vísað til dagsetninga, er rækjan var veidd. Þar er einnig að finna upplýsingar um stærð hennar. Er óumdeilt að Frosti hf. fékk skýrsluna áður en kaupin voru ráðin. Telur áfrýjandi að kaupin hafi verið gerð á grundvelli þeirra upplýsinga, sem kaupandanum voru þannig veittar. Það hafi ekki verið fyrr en gámurinn var opnaður sem í ljós kom að rækjan var veidd í maí og júní 1995 en ekki 1996, svo sem hann hafi talið víst af þeim upplýsingum, sem fyrir lágu við kaupin. Hafi áðurnefnd skýrsla verið til þess fallin að villa um fyrir honum að þessu leyti. Telur hann óhugsandi að hann hefði keypt svo gamalt hráefni hefði hið sanna legið fyrir, enda hafi rækja takmarkað geymsluþol jafnvel þótt geymslu sé í engu áfátt.
Eftir að skemmdir á rækjunni komu í ljós ritaði Rannsóknarþjónustan Sýni hf. stefnda bréf 20. desember 1996. Er þar tekið fram að 16. júlí sama árs hafi bréfritari og nafngreindur starfsmaður stefnda tekið sýni úr umræddum gámi og öðrum að auki. Að beiðni stefnda hafi hinum erlenda seljanda rækjunnar þá verið sent símbréf og afrit þess til stefnda, en þar hafi meðal annars verið sagt eftirfarandi: „A considerable number of bags were damaged and open ... The shrimp in many bags was frozen into lumps which indicated that the temperature in the containers has been too high for some time“.
Samkvæmt þessu er ljóst að rækjan var skemmd þegar stefndi seldi hana Frosta hf. Ekkert er fram komið, sem bendir til að stefndi hafi gert Frosta hf. kunnugt um símbréfið til erlenda seljandans. Var Frosti hf. því leyndur mikilvægum upplýsingum, sem stefnda mátti vera ljóst að hlutu að skipta miklu um afstöðu félagsins til viðskiptanna. Er ekki heldur fram komið að stefndi hafi vakið athygli kaupandans á því að um væri að ræða meira en árs gamalt hráefni. Þá bendir ekkert til að geymslu rækjunnar hafi verið áfátt eftir að Frosti hf. tók við henni, þannig að hún gæti hafa skemmst fram að því að hún var skoðuð.
Stefndi ber fyrir sig að Frosti hf. hafi ekki kvartað tímanlega vegna gallans, en liðið hafi meira en þrír mánuðir frá því að kaupandinn fékk vöruna í hendur þar til hann skýrði stefnda frá ástandi hennar og enn lengri tími þar til hann rifti kaupunum. Vísar stefndi um það til ákvæða 52. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Vegna ákvæða 53. gr. sömu laga, sem hér eiga við, er þessi viðbára hans haldlaus.
Þegar allt það er virt, sem að framan er rakið, var Frosta hf. heimilt að rifta kaupunum vegna framkomu stefnda. Verður stefndi að bera áhættu af því að vörusendingin hafi farið forgörðum, enda andmælir hann ekki að Frosti hf. hafi endursent hana til Reykjavíkur.
V.
Gagnkrafa áfrýjanda á rætur að rekja til þess að stefndi seldi kaupanda í Svíþjóð rækju frá Frosta hf., sem ekki hefur fengist greidd. Telur áfrýjandi að stefndi hafi brugðist þeirri skyldu sinni að gæta hagsmuna framleiðandans í þessum viðskiptum með því að krefjast bankatryggingar fyrir efndum eða sérstakrar vátryggingar gegn vanskilum kaupanda. Eigi áfrýjandi því rétt á skaðabótum úr hendi stefnda að fjárhæð 4.016.158 krónur.
Ekkert er fram komið um að Frosti hf. hafi gefið stefnda sérstök fyrirmæli um að erlendi kaupandinn skyldi setja tryggingu fyrir greiðslu kaupverðsins. Ekki er heldur í ljós leitt að í viðskiptum sem þessum sé venja að krefjast slíkrar tryggingar. Loks bendir ekkert til að stefnda hafi mátt vera kunnugt um ógjaldfærni þessa kaupanda, en stefndi hafði áður átt viðskipti við hann um rækju frá Frosta hf., sem hann kveður hafa gengið snurðulaust. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að taka gagnkröfuna áfrýjanda til greina.
VI.
Að gættu öllu því, sem að framan greinir, verður niðurstaða málsins sú að áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda 287.135 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum málsins er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., greiði stefnda, Pandalusi hf., 287.135 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1997 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 1999.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi var endurupptekið og flutt að nýju 25. nóvember sl. og dómtekið þann dag. Málið var höfðað af Íslensku marfangi hf., kt. 470492-2959, Þverholti 14, Reykjavík á hendur Hraðfrystihúsinu hf., kt.630169-2249, Hnífsdalsbryggju, Hnífsdal, með stefnu þingfestri 20. október 1998.
Dómkröfur í aðalsök.
Dómkröfur aðalstefnanda eru þær, að aðalstefnda verði gert að greiða aðalstefnanda 3.699.013 krónur með dráttarvöxtum frá 1. janúar 1997 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. janúar 1998. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur aðalstefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum aðalstefnanda og aðalstefnanda gert að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur í gagnsök.
Endanlegar dómkröfur gagnstefnanda eru þær, að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.016.158 kr. með skuldajöfnuði við tildæmdar kröfur aðalstefnanda í aðalsök, en eftirstöðvarnar með sjálfstæðum dómi, auk dráttarvaxta frá 1. janúar 1997 til greiðsludags, þannig að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. janúar 1998. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Endanlegar dómkröfur gagnstefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda. Þá krefst gagnstefndi málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II.
Aðalstefnandi rekur fyrirtæki, sem selur fisk og fiskafurðir í umsýsluviðskiptum, að sögn aðalstefnanda, en í umboðssölu að sögn gagnstefnanda. Felast þau viðskipti annars vegar í innflutningi á óunnu hráefni til landsins og sölu á unnum afurðum til erlendra kaupenda.
Aðalstefnandi átti um nokkurt skeið í viðskiptum við Frosta hf., Súðavík, en þeim viðskiptum lauk á árinu 1996. Viðskipti þessi fólust annars vegar í því að aðalstefnandi seldi Frosta hf. hráefni og hins vegar seldi aðalstefnandi hluta af afurðum Frosta hf.
Frosti hf. var sameinað gagnstefnanda, Hraðfrystihúsinu hf., á árinu 1997 og tók það félag við réttindum og skyldum Frosta hf.
Með innheimtubréfi, dagsettu 21. mars 1997, krafði aðalstefnandi Frosta hf. um greiðslu á 3.699.013 krónum og með bréfi, dagsettu 14. janúar 1998, krafði aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu þeirrar fjárhæðar.
Með bréfi, dagsettu 2. mars 1998, hafnaði gagnstefnandi greiðsluskyldu á þeim forsendum að aðalstefnandi bæri ábyrgð gagnvart gagnstefnanda á greiðslu söluverðs rækju, sem seld hafði verið til Svíþjóðar á árinu 1996 og ekki verið greidd, jafnframt því að óbókaður væri reikningur dagsettur 14. febrúar 1997 vegna gallaðrar rækju. Þá væri geymslukostnaður erlendis gagnstefnanda óviðkomandi, og ekki hefðu borist til hans reikningar nr. 1666-1669.
III.
Málsástæður í aðalsök.
Aðalstefnandi kveðst í upphafi árs 1996 hafa skuldað Frosta hf. 4.849.377 krónur. Í árslok 1996 hafi Frosti hf. hins vegar skuldað sér 3.699.013 krónur.
Aðalstefnandi kveður Frosta hf. hafa stofnað til skuldar við sig á árinu 1996 annars vegar með kaupum á rækju og þorski, geymslu, umbúðum og flutningi afurða Frosta hf., sem aðalstefnandi hafi haft til sölumeðferðar, auk kostnaðar, sem fallið hafi á aðalstefnanda vegna galla og mistalningar á afurðum frá Frosta hf., sem aðalstefnandi hafi selt í umsýslusölu.
Aðalstefnandi kveður viðskiptareikning Frosta hf. hjá aðalstefnanda hafa, á árinu 1996, verið eftirfarandi:
|
Skuld í upphafi árs 1996 |
|
kr. 4.849.377 |
|
Innborgað af aðalstefnanda 15.02.1996 |
kr. 1.000.000 |
|
|
Innborgað af aðalstefnanda 16.02.1996 |
kr. 3.800.689 |
|
|
Skuldfærður kostnaður vegna víxils |
|
kr. 94.852 |
|
Sala á rækju til Frosta hf. 11.03. 1996 |
kr. 6.665.406 |
|
|
Greiðsla frá Frosta hf. 19.03.1996 |
|
kr. 5.846.847 |
|
Leiðrétting á afreikningum v/afurða |
|
kr. 35.809 |
|
Bakfærsla fsk. 5073/95 |
|
kr.515.303 |
|
Rétt fsk. 5073/95 |
kr. 511.837 |
|
|
Sala á rækju til Frosta hf. 10.07.1996 |
kr. 11.032.571 |
|
|
Greiðsla frá Frosta hf. 11.07.1996 |
|
kr. 6.847.425 |
|
Flutningskostnaður skv. reikningi 1615 |
kr. 23.102 |
|
|
Greiðsla 22.07.1996 |
|
kr. 100.000 |
|
Greiðsla 24.07.1996 |
|
kr. 80.000 |
|
Greiðsla 31.07.1996 |
|
kr. 60.000 |
|
Greiðsla 31.07.1996 |
|
kr. 30.000 |
|
Greiðsla 06.08.1996 |
|
kr. 50.000 |
|
Sala á rækju til Frosta hf. 09.08.1996 |
kr. 1.317.530 |
|
|
Greiðsla 09.08.1996 |
|
kr. 1.500.000 |
|
Reikningur nr. 1653, verðlækkun afurða |
kr. 299.763 |
|
|
Reikningur nr. 1657, erlendur kostnaður |
kr. 49.680 |
|
|
Reikningur nr. 1661, erlendur kostnaður |
kr. 39.323 |
|
|
Reikningur nr. 1666, afsláttur vegna of hárrar glasseringar afurða |
kr. 89.428 |
|
|
Reikningur nr. 1667 vegna of hárrar glasseringar afurða |
kr. 116.325 |
|
|
Reikningur nr. 1668 vegna rangrar talningar afurða |
kr. 69.462 |
|
|
Reikningur nr. 1669 vegna undirsuðu og of hárrar glasseringar |
kr. 228.694 |
|
|
Greiðsla 23.08. 1996 |
|
kr. 1.000.000 |
|
Reikningur nr. 1679, erlendur kostnaður |
kr. 96.013 |
|
|
Greiðsla 27.08 1996 |
|
kr. 866.796 |
|
Greiðsla til Frosta hf. 11.09.1996 |
kr. 50.000 |
|
|
Greiðsla 11.09.1996 |
|
kr. 50.000 |
|
Greiðsla til Frosta hf. 18.09.1996 |
kr.100.000 |
|
|
Greiðsla 18.09.1996 |
|
kr. 100.000 |
|
Greiðsla 20.09.1996 |
|
kr. 200.000 |
|
Greiðsla 14.10.1996 |
|
kr. 150.000 |
|
Reikningur nr. 1796, erlendur kostnaður |
kr. 198.325 |
|
|
Reikningur nr. 1832, erlendur kostnaður |
kr. 38.523 |
|
|
Reikningur nr. 1839, erlendur kostnaður |
kr. 304.434 |
|
|
Reikningur nr. 1995, kassamiðar |
kr. 42.641 |
|
|
Reikningur nr. 2021, erlendur kostnaður |
kr. 1.676 |
|
|
Samtals |
kr. 26.075.422 |
kr. 17.527.032 |
|
Mismunur |
|
kr. 3.699.013 |
Engar greiðslur hafi borist frá aðalstefnda eftir 14. október 1996 og sé skuld aðalstefnda því 3.699.013 krónur. Af hálfu aðalstefnanda er á því byggt að ógreidd séu vörukaup og kostnaður, sem aðalstefndi beri ábyrgð á vegna sölu aðalstefnanda á afurðum frá Frosta hf., svo sem fram komi á viðskiptareikningi og fylgiskjölum.
Aðalstefndi kveðst hafa selt rækjur í umsýslusölu fyrir Frosta hf til Baltia AB í Svíþjóð. Vörukaup þessi séu enn ógreidd af hálfu kaupanda en innheimtuaðgerðir séu í gangi. Aðalstefnandi kveðst ekki bera ábyrgð gagnvart aðalstefnda á greiðslu hinnar seldu vöru, þar sem hann hafi selt umræddar rækjur í umsýslusölu og því beri ekki að lækka reikning aðalstefnanda vegna þeirrar sölu.
Aðalstefnandi byggir og á því að ósannað sé að rækja, sem aðalstefnandi hafi selt Frosta hf., sbr. reikning nr. 539, hafi verið gölluð, þegar kaup hafi gerst milli aðila og því beri aðalstefnda að greiða fyrir þau kaup.
Aðalstefnandi kveðst hafa sent Frosta hf. reikninga nr. 1653, 1657, 1661, 1679, 1832, 1666-1669 og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þá reikninga af hálfu Frosta hf., á þeim tíma. Um sé að ræða leiðréttingar vegna galla og kostnaðar vegna afurða frá Frosta hf., sem aðalstefnandi hafi haft til sölumeðferðar á þeim tíma.
Aðalstefnandi krefur aðalstefnda um dráttarvexti frá 1. janúar 1997, enda hafi eftirstöðvar viðskipta ársins 1996 gjaldfallið 31. desember 1996.
Um lagarök vísar aðalstefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga.
Um umsýsluviðskipti vísar aðalstefnandi til laga nr. 103/1992 og almennra reglna samningaréttar um umsýsluviðskipti.
Þá vísar aðalstefnandi til almennu skaðabótareglunnar innan samninga.
Um gjalddaga vísar aðalstefnandi til 12. gr. laga nr. 39/1922 og kröfu um dráttarvexti byggir aðalstefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Um ábyrgð aðalstefnda á fjárskuldbindingum Frosta hf. vísar aðalstefnandi til laga nr. 2/1995, sérstaklega XIV. kafla.
Kröfu um málskostnað byggir aðalstefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Aðalstefndi mótmælir því að hann skuldi aðalstefnanda 3.699.013 krónur. Samkvæmt bókhaldi aðalstefnda eigi aðalstefndi inni hjá aðalstefnanda 287.135 krónur. Stafi þessi mismunur annars vegar af því að aðalstefndi hafi ekki samþykkt reikninga samtals að fjárhæð 1.574.287 krónur og hins vegar af endurkröfu aðalstefnda á hendur aðalstefnanda að fjárhæð 1.837.641 króna, vegna iðnaðarrækju, sem Frosti hf. hafi keypt af aðalstefnanda 9. ágúst 1996, en endursent vegna galla.
Aðalstefndi krefst sýknu þar sem hann eigi endurkröfu á hendur aðalstefnanda, sem sé langtum hærri en nemi 287.135 krónum. Gagnkrafa þessi sé vegna sölu aðalstefnanda á 963 kössum af rækju til Svíþjóðar í umboðssölu fyrir Frosta hf. og hafi ekki enn verið staðið skil á andvirði vörunnar.
Aðalstefndi kveðst ekki viðurkenna eftirfarandi reikninga:
1. Reikninga nr. 1657, 1661, 1679, 1796, 1832, 1839 og 2021, samtals að fjárhæð 727.794 krónur. Allir þessir reikningar séu vegna geymslukostnaðar erlendis. Til þessa kostnaðar hafi verið stofnað án samþykkis aðalstefnda og án samráðs við Frosta hf. Engin skýring hafi verið gefin á því hvers vegna þurft hafi að stofna til þessa kostnaðar, sem sé því alfarið á ábyrgð aðalstefnanda og aðalstefnda óviðkomandi.
2. Reikningur nr. 1653, að fjárhæð 297.763 krónur. Reikningur þessi sé vegna 50% afsláttar af verði rækjusendingar, sem aðalstefnandi hafi ákveðið að veita kaupanda upp á sitt eindæmi, án samþykkis eða samráðs við Frosta hf. Af hálfu aðalstefnanda hafi aldrei verið kvartað vegna vörunnar og sé því kröfu vegna þessa alfarið hafnað.
3. Reikningur nr. 1995, að fjárhæð 42.641 króna. Reikningur þessi sé fyrir „kassamiða”. Ekki sé að finna í gögnum málsins rökstuðning fyrir því hvers vegna aðalstefnda beri þessi kostnaður og sé reikningunum því mótmælt sem aðalstefnda óviðkomandi.
4. Reikningar nr. 1666, 1667, 1668 og 1669, samtals að fjárhæð 503.909 krónur. Reikningar þessir séu vegna svonefndrar of hárrar „glasseringar” og rangrar talningar. Afsláttur þessi hafi verið veittur án samþykkis Frosta hf. eða samráðs við hann. Aðalstefnandi hafi veitt þennan afslátt upp á sitt eindæmi og hafi reikningar ekki verið sendir aðalstefnda í mars 1998 enda þótt þeir séu allir dagsettir í ágúst 1996. Reikningum þessum sé því öllum mótmælt, sem óviðkomandi aðalstefnda.
Til stuðnings gagnkröfu sinni vegna skemmdrar iðnaðarrækju, að fjárhæð 1.837.641 krónur, sem Frosti hf. hafi keypt af aðalstefnanda, vísar aðalstefndi til vottorðs Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins, útibúsins á Ísafirði, dagsettu 6. desember 1996.
Aðalstefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda af tildæmdri fjárhæð frá fyrri tíma en 21. apríl 1997, þar sem innheimtubréf lögmanns aðalstefnanda sé dagsett 21. mars 1997, en dráttarvextir falli ekki á fyrr en mánuði síðar, sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum.
Um lagarök vísar aðalstefndi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar svo og ákvæða laga nr. 103/1992 um umboðssöluviðskipti.
Þá byggir aðalstefndi á ákvæðum almennu skaðabótareglunnar innan samninga.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála með síðari breytingum.
IV.
Málsástæður í gagnsök.
Gagnstefnandi byggir kröfur sínar á því, að gagnstefndi hafi eigi staðið skil á andvirði 963 kassa af rækju, er hann hafi selt í umboðssölu á árinu 1996 fyrir Frosta hf. Gagnstefndi hafi vanrækt þá skyldu, sem umboðssölumaður, að láta hinn erlenda kaupanda setja bankatryggingu eða aðra fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu kaupverðsins. Með þessu athæfi hafi gagnstefndi brotið gegn góðri og viðtekinni viðskiptavenju á sviði erlendra viðskipta og vanrækt þar með að gæta hagsmuna umbjóðanda síns af skyldurækni og heiðarleika. Þessi vanræksla umboðssölumannsins hafi leitt til þess, að andvirði hinnar seldu rækju hafi ekki fengist greitt. Gagnstefnandi hafi því orðið fyrir tjóni, er nemi skilaverðinu og beri gagnstefndi ábyrgð á þessu tjóni gagnstefnanda samkvæmt reglum skaðabótaréttar innan samninga.
Um lagarök vísar gagnstefnandi til grunnreglna kröfu- og skaðabótaréttar og skuldbindingargildis loforða.
Þá vísar gagnstefnandi til 3. gr. laga nr. 103/1992 um umboðssöluviðskipti.
Kröfu um dráttarvexti byggir gagnstefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.
Kröfu um málskostnað byggir gagnstefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með síðari breytingum.
Gagnstefndi kveðst hafa selt rækjuafurðir fyrir Frosta hf. á árunum 1995-1996 í umsýslu. Gagnstefndi kveðst ekki hafa leitað eftir sérstakri tryggingu frá kaupandanum, Baltia AB í Svíþjóð, sem rekið hafi verið af Kjartani Jónssyni. Í upphafi þeirra viðskipta hafi ekki komið upp nein vandamál varðandi greiðslu vörunnar og hafi almennt verið um að ræða 30 daga greiðslufrest frá útgáfudegi reikninga. Gagnstefndi byggir kröfu sína á því að það sé ekki viðskiptavenja á sviði erlendra viðskipta að sala fari einungis fram gegn bankatryggingu eða sambærilegum tryggingum. Af hálfu gagnstefnanda hafi ekki verið gefin nein fyrirmæli um að óheimilt væri að selja afurðir nema með slíkum tryggingum.
Bótaskylda hafi ekki stofnast þrátt fyrir að kaupandi vörunnar hafi vanefnt greiðsluskyldu sína. Enda sé almenna reglan um umsýsluviðskipti sú, að ekki sé unnt að líta svo á að umsýslumaður ábyrgist gagnvart umsýsluveitanda að þriðji maður efni samningsskyldur sínar nema um það sé samið sérstaklega.
Gagnstefndi kveðst hafa hafið innheimtu kröfunnar er vanskil urðu á greiðslu frá kaupanda vörunnar. Með réttarsátt, sem gerð hafi verið í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. september 1997, hafi verið samið um það, að kaupandi greiddi skuldir sínar við gagnstefnda með þeim hætti sem tilgreint sé í sáttinni auk þess sem aðaleigandi fyrirtækisins, Kjartan Jónsson, hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslum. Ekki hafi verið staðið við sátt þessa og hafi verið krafist fjárnáms hjá Kjartani Jónssyni með aðfararbeiðni dagsettri 10. september 1998. Byggir gagnstefndi á því, að þar sem ekki sé fullljóst hvort innheimta kröfunnar á hendur kaupanda verði árangurslaus hafi gagnstefnandi ekki orðið fyrir bótaskyldu tjóni.
Gagnstefndi mótmælir sérstaklega upphafstíma dráttarvaxtakröfu gagnstefnanda.
Gagnstefndi krefst þess að kröfum í aðalsök verði skuldajafnað við þær kröfur gagnstefnanda sem viðurkenndar verði.
Um lagarök vísar gagnstefndi til laga nr. 103/1992 og almennra reglna samningaréttar um umsýsluviðskipti. Þá vísar gagnstefndi til almennra reglna skaðabótaréttar um stofnun skaðabótaskyldu og sönnunar tjóns.
Kröfu um skuldajöfnuð byggir gagnstefndi á 28. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfu um málskostnað byggir gagnstefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
V.
Óumdeilt er í máli þessu að aðalstefnandi, Íslenskt marfang hf., og Frosti hf. Súðavík áttu í viðskiptum um nokkurt skeið. Frosti hf. sameinaðist gagnstefnanda, Hraðfrystihúsinu hf., á árinu 1997 og tók gagnstefnandi við réttindum og skyldum Frosta hf.
Í máli þessu krefur aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu samkvæmt framlögðum viðskiptareikningi. Eins og fram hefur komið mótmælir gagnstefnandi nánar tilgreindum reikningum, sem þar koma fram, m.a. á þeim grundvelli, að geymslukostnaður erlendis sé gagnstefnanda óviðkomandi, þar sem ekki sé nánari grein gerð fyrir þeim kostnaði í sóknargögnum. Þá mótmælir gagnstefnandi reikningi vegna 50% afsláttar er aðalstefnandi veitti kaupanda rækjusendingar, án samráðs við gagnstefnanda, og reikningum vegna afsláttar sem veittur var kaupanda vegna of hárrar glasseringar og rangrar talningar og að gagnstefnandi skuldi aðalstefnanda vegna kassamiða. Þá telur gagnstefnandi aðalstefnanda skulda sér vegna sölu aðalstefnanda á rækju fyrir gagnstefnanda til Svíþjóðar og ekki hefur verið greitt fyrir af kaupanda. Krafa gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda lýtur og að iðnaðarrækju, sem aðalstefnandi seldi gagnstefnanda og reyndist skemmd, er gagnstefnandi ætlaði að fara að vinna rækjuna. Með aðilum er hins vegar ekki tölulegur ágreiningur.
Við úrlausn á ágreiningi aðila ber fyrst að líta til þess hvernig réttarsambandi þeirra var háttað, þ.e.a.s. hvort aðalstefnandi annaðist viðskipti og sölu fyrir gagnstefnanda, sem umboðsmaður gagnstefnanda eða í umsýslu hans. Í gögnum málsins liggur ekki fyrir samningur aðila um þetta efni. Þegar hins vegar litið er til þess hvernig sambandi aðila hefur verið háttað í gegnum tíðina og hvernig viðskipti þeirra hafa verið gerð upp þeirra á milli verður að telja að aðalstefnandi hafi annast söluviðskipti fyrir gagnstefnanda í umsýslu hans. Aðalstefnanda bar því sem umsýslumaður að annast hagsmuni gagnstefnanda með tilhlýðilegum hætti þannig að hagsmunum gagnstefnanda væri sem best borgið. Samkvæmt því verður að telja að kostnaður sem til féll við sölu afurðanna sé á ábyrgð gagnstefnanda og viðskipti þeirra á milli séu gerð upp eftir söluna. Kostnaður sá sem aðalstefnandi krefur gagnstefnanda um vegna sölu á afurðum gagnstefnanda getur ekki talist annað en eðlilegur kostnaður, þ.e.a.s. að alkunna er að lækka beri verð vegna of hárrar glasseringar rækju, undirsuðu og vegna rangrar talningar. Samkvæmt því verður ekki talið að aðalstefnanda hafi borið að fá samþykki gagnstefnanda í hvert sinn sem það átti sér stað. Þá verður að telja það á ábyrgð gagnstefnanda að sýna fram á að umstefndur geymslukostnaður sé ekki á hans ábyrgð, eins og samningi aðila virðist hafa verið háttað. Með því að kostnaður þessi virðist vera innan eðlilegra marka og gagnstefnandi hefur ekki sýnt fram á að kostnaður þessi sé á ábyrgð aðalstefnanda, sem umsýslumanns, telst gagnstefnandi bera ábyrgð á þeim kostnaði gagnvart aðalstefnanda. Með sama hætti telst gagnstefnandi bera ábyrgð gagnvart aðalstefnanda á kassamiðum, sem aðalstefnandi hefur greitt fyrir.
Sala aðalstefnanda á rækju til Svíþjóðar fyrir gagnstefnanda telst með sama hætti og áður greinir hafa verið umsýsluviðskipti. Með því að ekki lá fyrir sérstakur samningur aðila um að aðalstefnanda bæri að óska eftir tryggingu fyrir greiðslu hjá kaupanda afurðanna og þar sem ekkert annað er fram komið í máli þessu en að kaupandi afurðanna hafi áður í viðskiptum sínum við aðalstefnanda reynst traustsins verður og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að venja standi til þess í slíkum viðskiptum að krefjast tryggingar, telst aðalstefnandi ekki hafa annast umsýsluviðskipti þessi með ótilhlýðilegum hætti. Samkvæmt því ber aðalstefnandi ekki ábyrgð á greiðslu vegna sölu á áðurgreindri rækju gagnvart gagnstefnanda.
Hluti af dómkröfu aðalstefnanda er vegna sölu á rækju til gagnstefnanda, sem gagnstefnandi vill meina að hafi verið iðnaðarrækja, hinn 9. ágúst 1996. Gagnstefnandi endursendi umrædda rækju vegna meints galla og hefur neitað greiðsluskyldu. Fyrir liggur í málinu, að söluverð rækjunnar var mjög lágt og lægra en búast hefði mátt við af rækju af þessari stærð.
Samkvæmt framlagðri niðurstöðu á sýni, teknu úr rækjusendingunni áður en rækjan kom að hafnarbakka á Ísafirði, kemur fram að ástand rækjunnar var lélegt, en rækjan þó í lagi. Ef hitastig í gáminum hefði verið rétt, er ekkert það fram komið í málinu, sem bendir til annars en að rækjan hefði einnig átt að vera í lagi er hún kom til gagnstefnanda. Þá liggur fyrir, að gagnstefnandi lét gáminn bíða um lengri tíma á hafnarbakkanum og langur tími leið frá því að rækjan kom til gagnstefnanda þar til gámurinn var opnaður. Með vísan til framanritaðs hefur gagnstefnandi ekki sýnt fram á að rækjusendingunni hafi verið áfátt er kaup gerðust með aðilum eða að aðalstefnanda sé um að kenna bágt ástand rækjunnar, er gagnstefnandi opnaði sendinguna. Ber því að sýkna aðalstefnanda af kröfu gagnstefnanda um að hann eigi gagnkröfu á hendur aðalstefnanda vegna þessara kaupa.
Með vísan til alls framanritaðs ber að fallast á dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök og dæma aðalstefnda til að greiða umstefnda fjárhæð ásamt dráttarvöxtum, eins og krafist er í stefnu, er eðli viðskiptanna eru virt, og sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.
Málskostnaður verður ákveðinn í einu lagi í aðalsök og gagnsök, og samkvæmt niðurstöðu málsins ber gagnstefnanda að greiða aðalstefnanda málskostnað, sem eftir atvikum öllum þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Dóminn kváðu upp, Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Magnúsi Þór Jónssyni vélaverkfræðingi og Kristbergi Kristbergssyni matvælaefnafræðingi. .
Dómsorð:
Aðalstefndi, Hraðfrystihúsið hf., greiði aðalstefnanda, Íslensku marfangi hf., 3.699.013 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1997 til greiðsludags.
Gagnstefndi, Íslenskt marfang hf., er sýkn af kröfum gagnstefnanda, Hraðfrystihússins hf., í gagnsök
Gagnstefnandi, Hraðfrystihúsið hf., greiði aðalstefnanda, Íslensku marfangi hf., 250.000 krónur í málskostnað.