Hæstiréttur íslands
Mál nr. 69/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Fullnusta refsingar
- Sératkvæði
|
|
Miðvikudaginn 8. febrúar 2006. |
|
Nr. 69/2006. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. Fullnusta refsingar. Sératkvæði.
Talið var að ekki væri lagaheimild til áframhaldandi gæsluvarðhaldsvistar X á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem fyrir lá að X átti óafplánaða refsingu samkvæmt fullnustuhæfum dómi. Átti því samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga að láta hann þegar hefja afplánun. Var úrskurður héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir X því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. mars 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2005 og hefur þeim dómi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Varnaraðili var þar meðal annars dæmdur fyrir brot framin 2. september 2005, en þann sama dag var hann dæmdur í 16 mánaða fangelsi, þar sem frestað var fullnustu 13 mánaða skilorðsbundið í þrjú ár. Með dóminum 9. desember 2005 var skilorðshluti refsingarinnar dæmdur með. Fyrir liggur að frá þeirri fangelsisrefsingu skyldi draga 47 daga gæsluvarðhaldsvist, sem varnaraðili sætti frá 22. júlí 2005 til dómsuppsögudags á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Eftir stendur að varnaraðili hefur ekki afplánað 43 daga fangelsisrefsingar samkvæmt óskilorðsbundna hluta dómsins 2. september 2005. Í málinu liggur fyrir bréf fangelsismálastofnunar til varnaraðila 21. desember 2005 þar sem hann er boðaður til afplánunar fyrrgreindrar fangelsisrefsingar í kjölfar þess að gæsluvarðhaldsvist hans ljúki, en varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar óslitið frá 3. september 2005. Með hinum kærða úrskurði var honum gert að sæta gæsluvarðhaldinu áfram uns dómur gengi í Hæstarétti, þó eigi lengur en til 17. mars 2006 kl. 16.
Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga er kveðið á um að sé dómþoli í gæsluvarðhaldi skuli hann þegar hefja afplánun refsingar nema rannsóknarhagsmunir bjóði annað. Þar sem ekki er byggt á því í máli þessu að rannsóknarhagsmunir styðji áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist varnaraðila og hann átti óafplánaða 43 daga af refsingu samkvæmt dómi 2. september 2005, sem mun samkvæmt framansögðu hefjast um leið og gæsluvarðhaldsvist hans lýkur, eru ekki lagaskilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist hans á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf ríkissaksóknara til Fangelsismálastofnunar ríkisins 8. desember 2005, þar sem meðal annars kemur fram að dómurinn 2. september 2005 á hendur varnaraðila sé sendur stofnuninni.
Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga segir að óskilorðsbundna fangelsisrefsingu skuli fullnusta þegar eftir að dómur berst fangelsismálastofnun. Í 3. mgr. greinarinnar segir meðal annars svo: „Nú er dómþoli í gæsluvarðhaldi og skal hann þá þegar hefja afplánun refsingarinnar nema rannsóknarhagsmunir bjóði annað.“
Leggja verður til grundvallar í málinu, að fangelsismálastofnun hafi 8. desember 2005 borist hinn óáfrýjaði dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2005, þar sem varnaraðili átti eftir að afplána 43 daga af óskilorðsbundnum hluta refsingarinnar, eins og lýst er í atkvæði meirihluta dómenda. Þá sat varnaraðili í gæsluvarðhaldi sem byggðist á c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og helgaðist því ekki af rannsóknarhagsmunum. Samkvæmt fyrrnefndum lagaákvæðum bar þá þegar að hefja fullnustu dómsins. Verður samkvæmt þessu að miða við nú, að fullnustu dóms þessa sé lokið, þar sem liðinn er lengri tími en tilgreindir 43 dagar frá því skylt var samkvæmt lögum að láta varnaraðila hefja fullnustu hans og allan þann tíma hefur varnaraðili setið í gæsluvarðhaldi sem ekki helgast af rannsóknarhagsmunum.
Með vísan til framanritaðs og með því að fallast ber á forsendur hins kærða úrskurðar um að skilyrði séu til að taka kröfu ríkissaksóknara um framhald gæsluvarðhaldsvistar varnaraðila til greina, ber að mínum dómi að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2006.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], verði með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi en þó ekki lengur en til föstudagsins 17. mars 2006, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að dómþoli hafi verið handtekinn þann 2. september sl. grunaður um að hafa ásamt fleiri aðilum svipt A frelsi sínu þar sem hann var við vinnu sína í versluninni [...] við [...], með því að neyða hann út úr versluninni og í farangursgeymslu bifreiðar. Þaðan hafi dómþoli og félagar hans farið með A út í Skerjafjörð þar sem dómþoli hafi veist að honum með hótunum og barsmíðum og ógnað honum með skotvopni (startbyssu) og krafið hann um peninga. Í framhaldi af því hafi A á ný verið neyddur í farangursgeymslu bifreiðarinnar og farið með hann í Landsbankann við Hagatorg þar sem hann hafi verið þvingaður til að taka fé út af bankareikningi sínum og greiða dómþola og félögum hans. Dómþoli hafi að mestu leyti viðurkennt þessi brot sín.
Ríkissaksóknari hafi þann 21. október sl. gefið út ákæru á hendur dómþola og fleirum vegna ætlaðs brots gegn 226. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómur hafi verið kveðin upp í málinu þann 9. desember sl. og dómþoli þá dæmdur í 2 ára fangelsi. Dómþoli hafi áfrýjað dómnum til Hæstaréttar en ekki liggi fyrir hvenær málið verður flutt fyrir réttinum.
Áður en dómþoli hafi verið handtekinn þann 2. september sl. hafði hann setið í gæsluvarðhaldi frá 22. júlí 2005 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Dómþoli hafi þann 2. september sl. verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 16 mánaða fangelsi en frestað var fullnustu 13 mánaða skilorðsbundið í 3 ár. Dómþoli hafi tekið sér frest til að taka ákvörðun um áfrýjun dómsins og þá látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Örfáum klukkustundum eftir að dómþoli hafi verið látinn laus hafi hann verið handtekinn grunaður um ofangreind brot gegn 226. og 252. gr. almennra hegningarlaga og rofið þar með skilorð dómsins.
Dómþoli sé fíkniefnaneytandi og fjármagni neyslu sína með afbrotum og séu, miðað við hegðun dómþola undanfarið, yfirgnæfandi líkur á því að ef hann yrði látinn laus þá héldi hann áfram afbrotum. Með vísan til þess hafi dómþoli sætt gæsluvarðhaldi frá 3. september 2005, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Dómþoli sé nú að verða 17 ára og sé það örþrifaráð að krefjast gæsluvarðhalds yfir svo ungum einstaklingi en það sé talið nauðsynlegt í þessu tilviki til að koma í veg fyrir frekari brot og gera ákæruvaldi mögulegt að ljúka málum hans.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála og með hliðsjón sakaferli dómþola þyki nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur í máli hans.
Brotaferill dómþola er rakinn hér að framan. Þykir af honum mega ætla að dómþoli muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus meðan máli hans sem hann hefur áfrýjað til Hæstaréttar er ekki lokið. Með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á að skilyrði séu til að taka kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald til greina. Verður dómþola því gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi en þó ekki lengur en til föstudagsins 17. mars 2006, kl. 16.00.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi en þó ekki lengur en til föstudagsins 17. mars 2006, kl. 16.00.