Hæstiréttur íslands

Mál nr. 33/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof
  • Játningarmál


         

Miðvikudaginn 30. apríl 2008.

Nr. 33/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Birgi Þór Þrastarsyni

(Árni Pálsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorðsrof. Játningarmál.

B var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa slegið dyravörð á skemmtistað á Akureyri hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut 1 cm langan skurð ofan við efri vör vinstra megin auk þess sem kvarnaðist örlítið upp úr hægri augntönn. Brotið, sem B játaði fyrir dómi, var heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Með því rauf hann skilorð sjö mánaða fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi 3. apríl 2006, og var það mál tekið upp og honum gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans var ákveðin 8 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Athugasemd var gerð við að ekki hefði komið fram í endurriti af fyrirtöku málsins að B hefði verið kynnt gögn málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði skilorðsbundin aðallega að öllu leyti en til vara að hluta.

Eftir að héraðsdómur gekk var ákærði dæmdur til greiðslu 220.000 króna sektar og hann sviptur ökurétti í þrjú ár fyrir umferðarlagabrot framið 8. desember 2007. Ákærði er nú í annað sinn dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ekki er um ítrekun að ræða í skilningi laganna, sbr. 61. gr. þeirra. Í héraði var farið með málið sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem ekki þótti ástæða til að draga í efa játningu ákærða fyrir dómi. Ekki kemur þó fram í endurriti af fyrirtöku málsins að ákærða hafi verið kynnt gögn málsins, eins og rétt hefði verið að bóka um, en hann naut ekki aðstoðar verjanda. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu ákærða að honum hafi verið kynnt gögn málsins. Þykja því ekki efni til að ómerkja meðferð málsins í héraði af þessum sökum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Ákærði, Birgir Þór Þrastarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 152.900 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. desember 2007.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. desember sl., höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri hér fyrir dómi þann 20. nóvember sl., með ákæru á hendur Birgi Þór Þrastarsyni, [...], Grænugötu 12, Akureyri;

„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 9. apríl 2007, á skemmtistaðnum X, Akureyri, slegið dyravörðinn A, [...], þungu hnefahöggi í andlitið, er hann hugðist vísa ákærða út af staðnum, með þeim afleiðingum að hann hlaut 1 cm langan skurð sem staðsettur var 1 cm ofan hliðlægu brúnar efri varar vinstra megin og náði í gegnum húðina og inn í munnhol, auk þess sem kvarnaðist örlítið upp úr hægri augntönn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Ákærði hefur komið fyrir dóm og játað sök.  Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hann hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til laga. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu með heimild í 125. gr. laga nr. 19/1991.

Þann 14. september 2004 var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár og til greiðslu sektar, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.  Þann 3. apríl 2006 var hann dæmdur í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir líkamsárás.  Dómurinn frá 14. september 2004 var þá dæmdur með.  Þann 31. janúar 2007 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og var sviptur ökurétti í þrjá mánuði.

Ákærði hefur nú rofið skilorð dómsins frá 3. apríl 2006 og ber að taka hann upp og dæma honum refsingu í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærði hefur nú gerst sekur um ítrekaða líkamsárás.  Verður hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi.  Með tilliti til þess að ákærði hefur rofið skilorð öðru sinni eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, sem samkvæmt yfirliti nemur 3.500 krónum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Birgir Þór Þrastarson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði greiði 3.500 krónur í sakarkostnað.