Hæstiréttur íslands
Mál nr. 802/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Endurupptaka
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Miðvikudaginn 6. janúar 2016. |
|
Nr. 802/2015.
|
A (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn B og C (Hjalti Steinþórsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Endurupptaka. Frávísun frá héraðsdómi.
Héraðsdómari hafnaði kröfu A um að opinber skipti á dánarbúi, sem hefði ekki átt eignir fyrir skuldum, yrðu endurupptekin og skipaður nýr skiptastjóri. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar kom fram að meðferð máls fyrir dómi um kröfur A yrðu hvorki reist á 169. gr. né 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og skorti því heimild til að leggja málið á þennan hátt fyrir dómstóla. Var málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að skipti á „þrotabúi“ D yrðu endurupptekin og skipaður nýr skiptastjóri. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „skipti á dánarbúi (þrotabúi) föður hennar D ... verði endurupptekin og að skipaður verði nýr skiptastjóri í stað Helga Jóhannessonar hrl.“ Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur krafa þeirra um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést fyrrnefndur D [...] 1995 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 28. febrúar 1996, en aðilar þessa máls, sem eru börn hans, munu hafa staðið ein til arfs eftir hann. Af gögnum málsins verður ráðið að eignir dánarbúsins hafi ekki hrokkið til greiðslu lýstra krafna á hendur því og hafi skiptastjóri af þeim sökum farið með búið eftir ákvæðum laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra 8. júní 1997 til úthlutunar úr dánarbúinu voru eignir þess að andvirði 889.619,50 krónur og skyldi greiðast af þeim skiptakostnaður, samtals 395.013 krónur, en eftirstöðvum þeirra, 494.606,50 krónum, varið til að greiða lýstar kröfur að 5,55 hundraðshlutum. Frumvarpið var áritað af skiptastjóra um samþykki þess á skiptafundi 2. júlí 1997 og var opinberu skiptunum þar með lokið.
Sóknaraðili krafðist þess með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2014 að skipaður yrði „nýr skiptastjóri í þb. D“, en tekið var fram að „búið“ hafi verið tekið til opinberra skipta 28. febrúar 1996, Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri og skiptum lokið 2. júlí 1997. Um ástæður fyrir þessari kröfu vísaði sóknaraðili til þess að komið hafi í ljós að D hafi með yfirlýsingu 5. nóvember 1986 látið af hendi sem fyrirfram greiddan arf til varnaraðilans B helmingshlut í fasteigninni [...] í Borgarbyggð, svo og að B hafi með afsali 1. nóvember 2000 gefið varnaraðilanum C helming þess eignarhluta, en aldrei hafi verið staðið skil á erfðafjárskatti af þessari fyrirframgreiðslu og væri hún því ógild að lögum. Sóknaraðili hafi með bréfi 3. júní 2014 leitað eftir því að skiptastjórinn tæki skiptin upp á ný sökum þess að fyrrgreindur helmingshlutur í [...] hefði að réttu lagi átt að koma til skipta, en þessu hafi skiptastjórinn hafnað bréflega 6. júlí sama ár og lýst því um leið yfir að hann myndi ekki taka að sér frekari skiptastjórn í búinu. Vegna þessarar yfirlýsingar skiptastjóra væri óhjákvæmilegt að fella niður skipun hans og skipa annan mann til að gegna starfinu, en um þetta vísaði sóknaraðili til 46. og 47. gr. laga nr. 20/1991.
Héraðsdómur tók framangreinda kröfu sóknaraðila fyrir á dómþingi 27. febrúar 2015 og var mál þetta þá þingfest á þeim grunni, en fært var til bókar að sóknaraðili krefðist þess að opinber skipti á dánarbúi D yrðu tekin upp á ný, skiptastjóri yrði leystur frá störfum og annar skipaður í hans stað, svo og að helmingur fasteignarinnar [...] yrði tekinn „undir skiptin.“ Við munnlegan flutning málsins 19. október 2015 féll sóknaraðili frá kröfum um annað en endurupptöku skipta og skipun nýs skiptastjóra, en með hinum kærða úrskurði var hafnað þessum kröfum sem eftir stóðu.
II
Svo sem áður var getið fór skiptastjóri í dánarbúi D með skipti á því eftir reglum laga nr. 21/1991 eftir að í ljós var leitt að eignir þess nægðu ekki til fullrar greiðslu á lýstum kröfum á hendur því, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Vegna þessa ræðst heimild til endurupptöku skipta á dánarbúinu og lausnar skiptastjóra frá störfum, svo og úrlausn ágreinings um þau efni, af ákvæðum laga nr. 21/1991, sem eiga sér þó samsvörun í lögum nr. 20/1991 um atriði sem mál þetta varðar.
Í XXIII. kafla laga nr. 21/1991 eru fyrirmæli um hvaða ágreiningsefni verði lögð fyrir héraðsdóm eftir reglum V. þáttar laganna og hvernig það verði gert. Þar er meðal annars í 169. gr. kveðið á um heimild þess, sem á kröfu á hendur þrotabúi, til að krefjast úrskurðar héraðsdóms um hvort skiptastjóra verði vikið úr starfi samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laganna. Eftir upphafsorðum 1. mgr. 76. gr. eiga ákvæði þeirrar lagagreinar eingöngu við meðan á gjaldþrotaskiptum stendur, en svo er ekki ástatt hér. Verður meðferð máls fyrir dómi um kröfur sóknaraðila því ekki reist á 169. gr. laga nr. 21/1991, en máli á grundvelli þess ákvæðis verður að auki að beina að skiptastjóra, sem hér hefur ekki verið gert. Í 171. gr. laga nr. 21/1991 er að finna almenna heimild til að vísa ágreiningsefnum við gjaldþrotaskipti til héraðsdóms, en hún er þó háð því að annaðhvort sé mælt fyrir um slíka heimild í öðrum ákvæðum laganna eða skiptastjóri telji þörf á að afla úrlausnar dómsins um ágreiningsatriði. Á hvorn veginn sem er skal skiptastjóri beina kröfu um úrlausn til héraðsdóms. Í 163. og 164. gr. laga nr. 21/1991 eru tæmandi reglur um hvenær gjaldþrotaskipti verða endurupptekin, sbr. 1. mgr. 165. gr. laganna, en hvergi er þar mælt fyrir um heimild lánardrottins eða annarra til að krefjast úrlausnar héraðsdóms um ágreining við skiptastjóra um hvort skipti verði tekin upp á ný. Lögmaður sá, sem gegndi starfi skiptastjóra í dánarbúi D, leitaði ekki úrlausnar héraðsdóms um ágreining um þetta efni við sóknaraðila. Af þessum sökum var ekki að finna stoð í 171. gr. laga nr. 21/1991 fyrir því að leggja mál þetta fyrir héraðsdóm. Hún verður heldur ekki sótt til annarra ákvæða XXIII. kafla laga nr. 21/1991. Þegar af þessum ástæðum verður málinu vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða að standa óröskuð, en sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.
Sóknaraðili greiði hvorum varnaraðila, B og C, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015.
I
Mál þetta var þingfest 27. febrúar 2015 og tekið til úrskurðar 19. október 2015.
Sóknaraðili er A, [...], Reykjavík en varnaraðilar eru B, [...], Garðabæ og C, [...], Hafnarfirði.
Endanlegar kröfur sóknaraðila eru þær að skipti á þrotabúi D, sem lést þann [...] 1995, verði endurupptekin, að skipaður verði nýr skiptastjóri í þrotabúinu í stað Helga Jóhannessonar hrl. og að varnaraðilum verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknaramál.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila.
II
Málvextir
Með yfirlýsingu 5. nóvember 1986 afsalaði D, faðir málsaðila, eignarhluta sínum í jörðinni [...] í Mýrasýslu til varnaraðilans B, sem fyrirframgreiddum arfi. Ekki liggur fyrir hvenær yfirlýsingunni var þinglýst á fasteignina en af fyrirliggjandi bréfi sýslumannsins í Borgarnesi má ráða að það hafi verið sama ár þar sem skjalið fékk númer hjá embættinu með auðkenni þess árs.
D andaðist [...] 1995 og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðnum 28. febrúar 1996 var dánarbú hans tekið til opinberra skipta. Var Helgi Jóhannesson hrl. skipaður skiptastjóri. Með skiptin var farið eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti þar sem andvirði eigna þess nægðu ekki til að efna viðurkenndar kröfur, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Var skiptum á búinu lokið 2. júlí 1997 með úthlutun upp í 5,55% af samþykktum kröfum sem námu samtals tæpum níu milljónum króna. Kom því ekki til greiðslu arfs til erfingja D, sem voru málsaðilar, börn hans. Virðist sem skiptastjóra hafi verið kunnugt um framangreinda ráðstöfun D til varnaraðilans B.
Helmingi eignarhluta síns í fasteigninni [...] afsalaði varnaraðilinn B til varnaraðilans C með yfirlýsingu dagsettri 1. nóvember 2001 sem þinglýst var á fasteignina 6. sama mánaðar. Eru þau því hvort um sig skráð sem fjórðungseigendur fasteignarinnar á móti helmingshlut nafngreinds manns.
Óupplýst er hvenær sóknaraðili varð áskynja um framangreinda gjörninga um fasteignina [...] en það virðist hafa verið löngu eftir að skiptum á búi D lauk. Með bréfi lögmanns sóknaraðila til varnaraðila, dagsettu 30. september 2013, var óskað eftir viðræðum um nýja eignaskiptingu á jörðinni þannig að hver um sig yrði þriðjungseigandi og skiptamálinu yrði þannig lokið milli aðila. Frekari samskipti virðast hafa verið um þetta mál við fyrrum lögmann varnaraðila en sátt ekki náðst.
Lögmaður sóknaraðila krafðist þess með bréfi til sýslumannsins í Borgarnesi, dagsettu 30. september 2013, að yfirlýsingin frá 1986 yrði afmáð úr þinglýsingabók. Af hálfu sýslumanns var því hafnað. Hins vegar var fallist á að þinglýsa bréfi lögmannsins á eignina gegn því að trygging yrði innt af hendi.
Með bréfi til Helga Jóhannessonar, skiptastjóra þrotabús D, dagsettu 3. júní 2014, krafðist lögmaður sóknaraðila þess að skiptin yrðu endurupptekin. Því hafnaði Helgi, með bréfi dagsettu 6. júlí 2014. Vísaði hann m.a. til þess að umrædd fasteign stæði búinu ekki til ráðstöfunar né lægi fyrir að sóknaraðili væri tilbúin að kosta málaferli svo að eignin yrði búinu til ráðstöfunar. Þá kom fram að Helgi væri ekki tilbúinn að gegna áfram starfi skiptastjóra búsins. Í kjölfarið fór sóknaraðili fram á það við dóminn að skiptin yrðu endurupptekin og skipaður yrði nýr skiptastjóri.
III
Málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að umrædd yfirlýsing um afsal D til varnaraðilans B, á fasteigninni [...], sé ólögmæt og ógild, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 83/1984 um erfðafjárskatt. Engin gögn hafi fundist hjá yfirvöldum um að erfðafjárskattur hafi verið greiddur vegna þessa fyrirframgreidda arfs, hvorki erfðafjárskýrsla né kvittanir. Fasteignin hafi ekki runnið til dánarbúsins. Telur sóknaraðili að samningur varnaraðila frá 2000, þar sem varnaraðilinn B afsalaði varnaraðilanum C, systur sinni, helmingshluta af sínum hluta fasteignarinnar hafi falið í sér skipti á eignum sem hafi í raun átt að renna til dánarbúsins. Eins og málið liggi fyrir sóknaraðila hafi varnaraðilar „tekið sér [...] til sín og í sameiningu haldið henni út af fyrir sig, án þess að gefa yngstu systur sinni [sóknaraðila] sama hluta í eigninni og þau tóku sér og að þau yrðu jafnir eigendur að 1/3 hluta hvert um sig.“
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að umrædd fasteign hafi ekki átt að falla undir skipti á dánarbúi D enda hafi hún verið greidd varnaraðilanum B sem fyrirframgreiddur arfur tíu árum áður en D lést. Yfirlýsingu þar að lútandi hafi verið þinglýst á eignina. Tæp 30 ár séu síðan og sé því tómlæti varnaraðila algjört að hafa ekkert gert fyrr í þessum málum. Hún hafi hins vegar haft afnot af fasteigninni að jöfnu við varnaraðila þrátt fyrir eignarhaldið.
Varnaraðilar telja að ekki séu uppfyllt skilyrði 163. til 165. gr. laga nr. 21/1991 til þess að taka skiptin upp að nýju. Sú eign sem sóknaraðili vísi til, þ.e. [...], standi búinu ekki til reiðu. Þá geti sóknaraðili ekki átt aðild að máli til að halda uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta sem skiptastjóri ákveður að halda ekki upp, sbr. 130. gr. sömu laga þar sem að sóknaraðili sé ekki kröfuhafi í skilningi ákvæðisins. Þá eigi kröfuhafar í þrotabú D meiri rétt en sóknaraðili kæmi til úthlutunar til erfingja úr því en einungis hafi greiðst um fimm prósent upp í samþykktar kröfur.
Varnaraðilar mótmæla því að erfðafjárskattur hafi ekki verið greiddur þótt ekki finnist staðfesting þess hjá yfirvöldum. Yfirlýsingu um eignatilfærsluna hafi verið þinglýst án athugsemda af hálfu sýslumanns sem hafi verið innheimtumaður ríkissjóðs á þessum tíma. Því megi leiða líkur að því að skatturinn hafi verið greiddur.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að skipti á búi föður hennar, D, verði endurupptekin og skipaður verði nýr skiptastjóri. Eins og rakið hefur verið var farið með búið sem þrotabú og lauk skiptum á því 2. júlí 1997. Ekki kom til greiðslu arfs en 5,55% greiddust upp í samþykktar kröfur lánardrottna.
Skilyrði fyrir því að taka upp skipti á þrotabúi á ný er að finna í 164. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem m.a. er kveðið á um að komi fram eign eftir lok gjaldþrotaskipta, sem hefði átt að falla til þrotabúsins, skuli skiptastjóri tafarlaust og ótilkvaddur taka skiptin upp á ný. Þótt farið hafi verið með dánarbúið sem þrotabú verður að telja að erfingja sé heimilt að krefjast endurupptöku skipta geti hann sýnt fram á að koma muni til greiðslu arfs til hans ef eignin rennur til búsins.
Skuldbindingargildi þeirrar ráðstöfunar D að afhenda varnaraðilanum B eignarhluta sinn í fasteigninni [...] sem fyrirframgreiddan arf hinn 5. nóvember 1986, stendur enn óhaggað. Sama gildir um þá ráðstöfun varnaraðilans B að ráðstafa helmingi af eignarhluta sínum til meðvarnaraðila með afsali 1. nóvember 2001. Með hliðsjón af andmælum varnaraðila yrði því að höfða dómsmál í því skyni að ógilda þessa gerninga eða fá þeim rift og gilda um þá málshöfðun ákvæði gjaldþrotaskiptalaga.
Sóknaraðili telur að eignarhluti D í fasteigninni [...] hefði átt að renna til dánarbús hans. Byggir hún á því að yfirlýsing D um fyrirframgreiðslu arfs til varnaraðilans B sé ógild á þeim grunni að ósannað sé að greiddur hafi verið erfðafjárskattur af arfinum. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hún telji að með þessari ráðstöfun D á eignarhluta sínum í fasteigninni, og með afsali varnaraðilans B á fjórðungi fasteignarinnar til varnaraðilans C, hafi verið gengið fram hjá sóknaraðila sem lögerfingja D heitins. Við endurupptöku skipta búsins virðist sóknaraðili þannig ætla að leitast við að fá sinn hlut réttan. Í þessu samhengi er því óhjákvæmilegt að líta til þess að ákvæði 84. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. er afdráttarlaust um að krafa erfingja, sem hefði átt rétt til arfs við opinber skipti, en gengið var fram hjá við skiptin á hendur þeim sem hafa fengið arf í hans stað, fyrnist á tíu árum frá lokum opinberra skipta. Verður því ekki annað ráðið en að möguleg arfskrafa sóknaraðila á hendur varnaraðilum hafi verið fyrnd er hún hlutaðist til um fullnægju hennar úr hendi varnaraðila og endurupptöku búsins á haustmánuðum 2013. Jafnframt er óupplýst hvort til greiðslu arfs úr búinu kæmi yfirhöfðuð, rynni eignarhluti sá sem nú er skráður á varnaraðila í fasteigninni [...] inn í það. Þannig liggja engin gögn fyrir um gangverð fasteignarinnar sem er eyðijörð skv. fyrirliggjandi skráningu. Hefur varnaraðili því ekki sýnt fram á að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skiptin endurupptekin.
Samkvæmt framangreindu verður að hafna kröfum sóknaraðila um endurupptöku skipta á búi D. Af því leiðir að jafnframt verður að hafna kröfu hennar um skipan nýs skiptastjóra.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sóknaaðili fékk gjafsóknarleyfi til reksturs máls þessa með bréfi innanríkisráðuneytisins 22. október 2014. Greiðist því gjafsóknarkostnaður sóknaraðila úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar sem þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð en hún tók við rekstri málsins 7. september 2015.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að skipti á D verði endurupptekin og skipaður verði nýr skiptastjóri.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.