Hæstiréttur íslands
Mál nr. 361/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Skýrslugjöf
- Vitni
|
|
Miðvikudaginn 27. maí 2015. |
|
Nr. 361/2015.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X og (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) Y (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Skýrslugjöf. Vitni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Á um að X og Y yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitni gæfi skýrslu þar sem talið var að nærvera þeirra við skýrslugjöfina gæti orðið því sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 21. maí 2015, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. maí 2015, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðilum yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan tiltekið vitni gæfi skýrslu við aðalmeðferð máls sóknaraðila á hendur þeim. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti en brotaþoli krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Að virtu fyrirliggjandi vottorði sálfræðings, sem vikið er að í hinum kærða úrskurði, og að teknu tilliti til sakargifta í málinu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. maí 2015.
Brotaþoli hefur krafist þess að ákærðu verði vikið úr dómsal meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins. Telur brotaþoli að nærvera ákærðu við skýrslugjöfina yrði henni mjög íþyngjandi og gæti haft áhrif á framburð hennar. Hefur réttargæslumaður hennar lagt fram greinargerð sálfræðings sem brotaþoli hefur leitað til vegna andlegrar vanlíðunar er rekja megi til ákæruefnisins í lið I í ákæru. Í greinargerðinni kemur fram að brotaþoli hafi lýst því í viðtölum „að eftir árásina sé hún alltaf á tánum, stöðugt hrædd og viðbrigðin s.s. bregði við þegar síminn hringir og einhver kemur í heimsókn. Hún sofi illa og fái reglulega martraðir. Hún lýsti því að endurupplifa þá skelfingu sem fylgdi því að telja að lífi sínu væri lokið og hún fengi aldrei að sjá son sinn aftur. Sagðist stöðugt hrædd. Eftir árásina ætti hún erfitt með að fara út og umgangast aðra og einangraði sig heima fyrir. Hún sagðist óttast um líf sitt og hræddist að gerendur í árásinni standi við hótanir sínar um að drepa sig ef hún kærði. Hún sagði kvíðann aukast eftir því sem liði að því að málið verði tekið fyrir”. Þá segir síðar í greinargerðinni að ljóst sé að umræddur atburður hafi haft mikil áhrif á líðan brotaþola.
Verjendur ákærðu hafa mótmælt þessu og krefjast þess að ákærðu fái að vera viðstaddir alla aðalmeðferð málsins, eins og þeir eigi rétt á.
Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari, að kröfu ákæranda eða vitnis, ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu, telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Samkvæmt ákærunni er ákærðu gefið að sök að hafa svipt brotaþola frelsi, og reynt að neyða hana til greiðslu fjármuna með því að beita hana líkamlegu ofbeldi og hóta henni líkamlegu ofbeldi, þar með talið að beita nána vandamenn hennar líkamlegu ofbeldi. Samkvæmt því, og með hliðsjón af tilvitnaðri greinargerð sálfræðingsins, er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði framangreindrar lagagreinar og verður því orðið við kröfunni eins og í úrskurðarorði greinir. Þykja ekki efni til að gera upp á milli ákærðu í þessu tilliti.
Þess verður gætt við aðalmeðferð að ákærðu geti fylgst með skýrslutökunni af brotaþola um leið og hún fer fram og spurningar verði lagðar fyrir hann eftir því sem þeim þyki tilefni til.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákærðu, X og Y, skal vikið úr dómsal þegar vitnið A gefur skýrslu.