Hæstiréttur íslands
Mál nr. 321/2013
Lykilorð
- Vitni
- Kærumál
|
|
Mánudaginn 3. júní 2013. |
|
Nr. 321/2013. |
Jakob A.
Traustason (sjálfur) gegn Gísla
Guðfinnssyni (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Kærður
var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa G um að tiltekinn
lögreglufulltrúi yrði leiddur fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir
Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki yrði talið að G hefði sýnt fram
á að framburður lögreglufulltrúans gæti haft þýðingu við úrlausn þess atriðis
sem vitnisburði hans væri ætlað að varpa ljósi á, nema vitninu væri ætlað að
svara spurningum um sérfræðileg atriði. Var kröfu G því hafnað.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2013 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að tiltekið vitni yrði leitt fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málið fellt niður frá og með þinghaldi í héraði 22. apríl 2013. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað, svo og málskostnað úr hendi lögmanns varnaraðila á grundvelli 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er mál þetta til komið vegna beiðni varnaraðila um skýrslutöku af vitnum fyrir héraðsdómi samkvæmt XI. kafla laga nr. 91/1991 í tengslum við rekstur málsins nr. 87/2010 fyrir Hæstarétti milli aðila. Því máli var skotið til Hæstaréttar 16. febrúar 2010 og lýtur að ágreiningi aðila um eignarrétt að landinu „Hróarsholt 2 spilda, Flóahreppur“. Reisir sóknaraðili tilkall sitt til jarðarinnar á yfirlýsingum tveggja systra varnaraðila, sem jafnframt eru hálfsystur sóknaraðila, en yfirlýsingarnar munu hafa verið gefnar 8. febrúar 2008 og 3. maí sama ár. Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að sóknaraðili hafi með skriflegri yfirlýsingu 20. febrúar 2012 lýst því yfir að umræddar yfirlýsingar hafi ekkert lagalegt gildi.
Við munnlegan flutning málsins nr. 87/2010 hér fyrir dómi kom fram að sóknaraðili teldi að yfirlýsingin 20. febrúar 2012 væri fölsuð og að hann hefði kært málið til lögreglunnar. Af þessum sökum var tekin ákvörðun um að fresta meðferð málsins með vísan til 3. mgr. 102. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 uns rannsókn lögreglu væri lokið.
II
Sóknaraðili lagði fram kæru til lögreglu 27. febrúar 2012 vegna þess að undirskrift hans á yfirlýsingunni 20. sama mánaðar væri fölsuð. Varnaraðili og systur aðila kærðu síðan sóknaraðila til lögreglu 28. júní 2012 vegna brota á 142. gr., 147. gr. eða öðrum ákvæðum XV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í kærunni var því haldið fram að áðurnefnd staðhæfing sóknaraðila fyrir Hæstarétti og hjá lögreglu um gildi undirskriftar hans væri röng. Hefði sóknaraðili fengið greitt fyrir að gefa út áðurnefnda yfirlýsingu og gæti afneitun hans á gildi hennar varðað við áðurnefnd ákvæði almennra hegningarlaga. Í kærunni kom fram að það kynni að skipta máli um sönnunargildi yfirlýsingarinnar 20. febrúar 2012 hver hefði samið hana sem og yfirlýsingarnar 8. febrúar 2008 og 3. maí sama ár og skjöl þeim tengd. Bent var á að unnt væri að kanna hvort sóknaraðili hefði gefið rangar yfirlýsingar fyrir dómi og lögreglu um þessi atriði með því meðal annars að rannsaka tölvubúnað sóknaraðila á heimili hans.
Af gögnum málsins verður ráðið að lögregla rannsakaði mál aðila sameiginlega. Taldi lögregla að leiða mætti af rithandarrannsókn, sem gerð var á hennar vegum, að sóknaraðili hafi ekki sjálfur ritað nafn sitt undir yfirlýsinguna 20. febrúar 2012. Aftur á móti hafi uppsetning skjalsins þótt svo lík öðrum skjölum, sem talið var að stöfuðu frá sóknaraðila, að ákveðið hafi verið að afla heimildar til húsleitar hjá honum og leggja hald á tölvu í hans eigu. Í málinu liggur fyrir skýrsla lögreglu 17. janúar 2013 vegna rannsóknar hennar á tölvu sóknaraðila. Kom þar meðal annars fram að tekin hafi verið til rannsóknar „HP borðtölva með 40 GB Western Digital hörðum diski.“ Þess hafi verið óskað að kannað yrði hvort ákveðin skjöl í tölvutæku formi fyndust í tölvunni og hafi sá, sem rannsóknina annaðist, haft ljósrit af skjölunum til hliðsjónar við leitina. Leitað hafi verið að ákveðnum setningum úr skjölunum í lykilorðaleit. Niðurstaðan hafi verið sú að við leitina „fundust 8 skjöl sem afrituð voru út til frekari skoðunar ... Einnig fannst textabútur á ónotuðu svæði sem inniheldur sama eða svipaðan texta og finna má í einu skjalinu. Var textabútur þessi einnig afritaður út.“ Í skýrslunni sagði að þessi skjöl „ásamt skýrslu um tæknileg atriði og staðsetningar skjalanna“ fylgdu henni á geisladiski. Með bréfi 25. janúar 2013 tilkynnti lögregla varnaraðila og systrum hans að ákveðið hafi verið að hætta rannsókn málsins með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Hinn 7. febrúar 2013 óskuðu varnaraðili og systur hans eftir að lögregla tæki málið upp að nýju. Í svarbréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 19. sama mánaðar sagði að þegar tekin hafi verið ákvörðun um að hætta rannsókninni hafi legið fyrir rithandarsýnishorn þar sem niðurstöður hafi bent til að undirritun sóknaraðila á yfirlýsinguna 20. febrúar 2012 væri fölsuð. Þá hafi ekkert fundist við leit í tölvu hans sem benti til að hann hafi útbúið yfirlýsinguna. Væri það mat lögreglu að ekki væru fram komin ný sakargögn sem réttlættu endurupptöku rannsóknarinnar. Varnaraðili og systur hans kærðu þessa ákvörðun lögreglustjóra til ríkissaksóknara 22. febrúar 2013. Í kærunni kom meðal annars fram að þau teldu að verulega hafi skort á að rannsókn á tölvubúnaði sóknaraðila hefði verið faglega unnin. Í því sambandi mætti nefna að í skýrslu um rannsóknina kæmi ekkert fram um hvaða svæði tölvunnar hefðu verið skoðuð og hvort skoðun hefði verið gerð „á eyddum skrám, þar með talið í „Recycle Bin“ og kerfislegum „temp“-svæðum.“ Einnig hvort fram hefði farið „skoðun á tölvupóstmöppu sem geymir skeyti (og viðhengi í skeytum)“ eða hvort „færsluskrár voru skoðaðar til að sjá yfir tiltekið tímabil hvort gögn hafi verið afrituð eða jaðarbúnaður (t.d. minniskubbar og/eða flakkarar) tengdir við vélina.“ Loks hvort „þess væru merki að annar diskur hafi verið í tölvunni, sem hugsanlega hafi verið fjarlægður.“ Vegna þessa væru ummæli lögreglu um að ekkert hafi fundist í tölvu sóknaraðila, sem benti til þess að hann hefði útbúið yfirlýsinguna 20. febrúar 2012, byggð á afar veikum grunni. Þann 22. mars 2013 staðfesti ríkissaksóknari ákvörðun lögreglustjóra um að hafna þeirri kröfu að rannsókn málsins yrði hafin á ný.
III
Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp í kjölfar þess að Héraðsdómi Reykjavíkur barst beiðni varnaraðila 9. nóvember 2012 um að teknar yrðu skýrslur af nánar tilgreindum vitnum um atriði sem lýst var í beiðninni. Beiðnin var lögð fram á grundvelli 76. gr., sbr. 75. gr., laga nr. 91/1991, en fram kom að ætlunin væri að leggja endurrit vitnaskýrslnanna fram í hæstaréttarmálinu nr. 87/2010. Í beiðninni áskildi varnaraðili sér jafnframt rétt til að „fleiri einstaklingar gefi skýrslur, verði tilefni til þess í málinu.“
Samkvæmt þingbók gáfu fjögur af þeim vitnum, sem greind voru í beiðni varnaraðila, skýrslu fyrir héraðsdómi 27. nóvember 2012 og 11. febrúar 2013. Málið var síðan tekið fyrir 15. mars 2013 og lögðu aðilar þá fram tiltekin skjöl. Að því búnu var fært til bókar að málinu væri frestað ótiltekið til munnlegs flutnings. Næst var málið tekið fyrir 27. sama mánaðar. Við það tækifæri ítrekaði varnaraðili „að gefnu tilefni að þess sé óskað að vitnaskýrsla sé tekin af Steinari Kristjáni Ómarssyni lögreglufulltrúa“ sem annast hafi rannsókn á tölvu sóknaraðila. Sóknaraðili mótmælti því hins vegar að sú skýrslutaka færi fram. Í kjölfarið gekk hinn kærði úrskurður 22. apríl 2013 eins og áður segir.
IV
Varnaraðili er aðili hæstaréttarmálsins nr. 87/2010 og var honum því heimilt að óska eftir að leidd yrðu vitni fyrir héraðsdóm samkvæmt XI. kafla laga nr. 91/1991 til sönnunar í því máli. Þótt varnaraðili hafi í upphaflegri beiðni sinni ekki getið um það vitni, sem hinn kærði úrskurður lýtur að, var þar gerður fyrirvari um að fleiri vitni kynnu að verða leidd af hans hálfu fyrir dóm en þar voru greind og síðar fært til bókar í þinghaldinu 27. mars 2013 að hann hygðist leiða áðurnefnt vitni fyrir dóminn sem og hvaða atriði hann hygðist spyrja það um. Að því virtu verður talið að beiðni varnaraðila fullnægi áskilnaði 1. mgr. 73. gr. laga nr. 91/1991.
Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður ályktað að aðili að einkamáli megi færa þar sönnur fyrir umdeildum atvikum með því að leiða fyrir dóm vitni, sem svari munnlega spurningum um slík atvik en ekki sérfræðileg atriði, þar sem lögin gera ráð fyrir að leitað sé svara við þvílíkum spurningum með öðrum hætti, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 21. maí 1996 í máli nr. 190/1996 sem birtur er á bls. 1785 í dómasafni það ár. Þá er kveðið á um það í 3. mgr. 46. gr. laganna að telji dómari bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu.
Eins og að framan greinir hyggst varnaraðili leiða fyrir héraðsdóm sem vitni Steinar Kristján Ómarsson lögreglufulltrúa „í því skyni að upplýsa um ýmis atriði varðandi framkvæmd rannsóknar á tölvubúnaði“ sóknaraðila, eins og bókað var þegar fram fór munnlegur málflutningur í héraði um ágreininginn sem til úrlausnar er. Þar var jafnframt vísað til þess sem fram kom í kæru varnaraðila og systra hans til ríkissaksóknara 25. febrúar 2013 og áður hefur verið gerð grein fyrir. Í greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar segir að gert sé ráð fyrir að framburður vitnisins muni leiða í ljós að rannsókn lögreglu á tölvunni hafi engan veginn verið fullkomin og að ekki sé unnt að draga þá ályktun af rannsókninni að yfirlýsingin 20. febrúar 2012 hafi ekki verið vistuð í tölvu sóknaraðila.
Það atvik, sem aðila greinir á um í fyrrgreindu hæstaréttarmáli og framburði vitnisins er ætlað að varpa á ljósi á, er hvort sóknaraðili hafi ritað undir yfirlýsinguna 20. febrúar 2012 eða hvort undirskrift hans undir hana sé fölsuð. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt fram á að það geti haft þýðingu við úrlausn um það atriði að umrætt vitni komi fyrir dóm og svari spurningum um hvernig staðið var að rannsókn lögreglu á tölvu sóknaraðila, enda liggur fyrir í málinu skýrsla um þá rannsókn, nema vitninu sé ætlað að svara spurningum um sérfræðileg atriði. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður af þeim sökum að hafna þeirri kröfu varnaraðila að vitnið verði leitt fyrir dóm. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Krafa sóknaraðila um að lögmanni varnaraðila verði gert að greiða málskostnað á grundvelli 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 er haldlaus.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, Gísli Guðfinnsson, greiði sóknaraðila, Jakobi A. Traustasyni, samtals 100.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2013.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að
loknum munnlegum málflutningi 27. mars sl.
Vitnastefnandi krefst þess að
heimilað verði að fram fari vitnaleiðsla af Steinarri
Kristjáni Ómarssyni lögreglufulltrúa sem annaðist rannsókn lögreglu á tölvu
vitnastefnda í máli nr. 007-2012-37693. Krafist er málskostnaðar í þessum þætti
málsins.
Vitnastefndi krefst þess að synjað
verði um umbeðna vitnaleiðslu. Krafist er málskostnaðar í þessum þætti málsins
að mati dómsins.
Með beiðni er barst Héraðsdómi
Reykjavíkur 9. nóvember 2012 fór vitnastefnandi fram á að fram færu
skýrslutökur fyrir dómi með vísan til 76., sbr. 75. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála, þar sem ætlunin væri að leggja endurrit skýrslnanna fram í
hæstaréttarmálinu nr. 87/2010: Jakob A. Traustason gegn Gísla Guðfinnssyni og
gagnsök. Tekið er fram að forsaga beiðni þessarar sé sú að á árinu 2012 hafi
vitnastefnandi lagt fram yfirlýsingu í hæstaréttarmálinu. Yfirlýsingin sé
dagsett 20. febrúar 2012 og undirrituð af vitnastefnda en vitnastefnandi byggi
dómkröfur sínar fyrir Hæstarétti að miklum hluta á yfirlýsingu þessari.
Vitnastefndi hafi lýst því yfir að hann hafi ekki undirritað yfirlýsinguna. Þá
hafi vitnastefndi einnig lýst því yfir við munnlegan málflutning í greindu
hæstaréttarmáli 1. júní 2012 að hann hefði ekki samið tiltekin skjöl, afsal,
afsal og yfirlýsingu og umboð, er undirrituð voru af systrum hans á árinu 2008
og einnig liggja frammi í umræddu dómsmáli en sú staðreynd að vitnastefndi hafi
samið umrædd skjöl kunni að varða miklu fyrir sönnunargildi yfirlýsingarinnar
frá 20. febrúar 2012.
Í beiðninni er óskað eftir því að
teknar verði skýrslur af tilgreindum aðilum, en jafnframt er áskilinn réttur
til að fleiri einstaklingar gefi skýrslur, ef tilefni verður til. Vitnaleiðslur
fóru fram 27. nóvember 2012 og 11. febrúar 2013.
Með kæru til lögreglunnar á
höfuðborgarsvæðinu, dags. 28. júní 2012, var vitnastefndi kærður fyrir meint
brot gegn 142. gr. og 147. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærendur
voru vitnastefnandi Gísli Guðfinnsson og systur hans María G. Guðfinnsdóttir og
Gerður B. Guðfinnsdóttir. Kæruefnið varðar fyrrgreindar yfirlýsingar sem lagðar
voru fram í hæstaréttarmálinu nr. 87/2010, eins og rakið er í gögnum málsins.
Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 25. janúar 2013, var
lögmanni vitnastefnanda tilkynnt að rannsókn málsins væri hætt. Með bréfi
lögmanns vitnastefnanda til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. febrúar
2013, var farið fram á endurupptöku rannsóknarinnar, en þeirri beiðni var
synjað með bréfi lögreglustjóra, dags. 19. febrúar 2013. Sú ákvörðun
Lögreglustjórans í Reykjavík var kærð til ríkissaksóknara með bréfi, dags. 22.
febrúar 2013. Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 22. mars 2013, voru fyrrgreindar
ákvarðanir Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 25. janúar 2013 og 19.
febrúar 2013 staðfestar.
Við rannsókn málsins hjá lögreglu var
haldlögð og tekin til rannsóknar borðtölva í eigu vitnastefnda. Tölvurannsókn
annaðist Steinarr Kristján Ómarsson lögreglufulltrúi.
Í þinghaldi í málinu 15. mars sl. var
því mótmælt af hálfu vitnastefnda að skýrslutaka af Steinarri
Kristjáni Ómarssyni lögreglufulltrúa færi fram. Ágreiningur þar um var tekinn
til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 27. mars sl.
Beiðni sína um vitnaleiðslu fyrir
dómi af lögreglufulltrúanum Steinarri Kristjáni
Ómarssyni byggir vitnastefnandi á því að upplýsa þurfi ýmis atriði varðandi
framkvæmd rannsóknar á tölvubúnaði vitnastefnda, þar sem verulega hafi skort á
það að sú rannsókn væri faglega unnin. Í því sambandi er nefnt að í skýrslu um
rannsóknina komi ekkert fram um eftirfarandi:
Hvaða svæði tölvunnar voru skoðuð, þ.
á m. hvort gerð var skoðun á eyddum skrám, þar með talið í „Recycle
Bin“ og kerfislegum „temp“
svæðum.
Hvort gerð var skoðun á
tölvupóstmöppu sem geymir skeyti (og viðhengi í skeytum).
Hvort færsluskrár voru skoðaðar til
að sjá yfir tiltekið tímabil hvort gögn hafi verið afrituð eða jaðarbúnaður
(t.d. minniskubbar og/eða flakkarar) tengdir við vélina.
Hvort þess væru merki að annar diskur
hafi verið í tölvunni, sem hugsanlega hafi verið fjarlægður.
Vitnastefnandi byggir á því að í
beiðni sinni um skýrslutökur fyrir dómi hafi verið áskilinn réttur til að
fleiri einstaklingar en þar eru greindir gefi skýrslur, ef tilefni verði til.
Það hafi fyrst verið tilefni til þess í febrúar 2013 að óska eftir því að
umbeðin vitnaleiðsla færi fram.
Vitnastefndi styður mótmæli sín við
því að vitnaleiðslan fari fram eftirtöldum rökum:
1.
Beiðni um skýrslutökur sé vegna sönnunarfærslu í hæstaréttarmálinu nr.
87/2010: Jakob A. Traustason gegn Gísla Guðmundssyni. Í vitnabeiðni eigi að
greina nafn, kennitölu og heimili vitnis og nákvæmlega þau atriði sem vitnið
varða. Nafn þessa manns sé ekki í beiðni um skýrslutöku. Óheimilt sé að hrúga
vitnum inn í vitnamál því að beiðni verði að beinast að tilteknum vitnum.
2.
Óheimilt sé að leiða lögreglumann fyrir dóm um rannsókn á opinberu máli,
sbr. 3. mgr. 77. gr. eml. fyrir lögjöfnun. Lögmaður
sóknaraðila hafi beðið ríkissaksóknara að endurskoða ákvörðun lögreglunnar um
að fella niður rannsókn á lögreglumálinu sem vitnið eigi að bera um. Þetta hafi
ekkert með hæstaréttarmál sóknaraðila að gera og fráleitt að leiða vitnið á
grundvelli framangreindrar vitnabeiðni.
3.
Lögreglan hafi fengið heimild héraðsdóms til að gera húsleit hjá
varnaraðila en hafi áttað sig síðan á að engin refsiverð háttsemi hafði verið
framin, hvað þá að varnaraðili væri um slíkt grunaður með réttu. Með þessum
hætti „braust“ lögreglan inn í tölvu varnaraðila með dómi en án laga. Hún hafi
afhent gögn úr tölvu varnaraðila til lögmanns sóknaraðila að ófyrirsynju. Sé
þetta nýstárlegt að lögreglan fari í tölvur málsaðila til að afhenda gagnaðila
gögn úr þeim.
4.
Lögreglan sé bundin þagnarskyldu, sbr. 4. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008
um meðferð sakamála og 22. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.
Niðurstaða
Í beiðni vitnastefnanda um
vitnaleiðslur, dags. 9. nóvember 2012, voru talin upp þau vitni, sem óskað var
eftir að kæmu fyrir dóm og tilgreind þau atriði, sem þau áttu að bera um, eins
og kveðið er á um í 1. mgr. 73. gr., sbr. 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála í héraði. Jafnframt var í
beiðninni gerður áskilnaður um að fleiri yrðu leiddir fyrir dóm, ef þörf
krefði.
Í bréfi lögmanns vitnastefnanda til
Hæstaréttar Íslands, dags. 25. febrúar 2013, sem varðar málsmeðferð og
framlagningu gagna í hæstaréttarmálinu nr. 87/2010, er m.a. gerð grein fyrir
þeim gögnum sem aflað hafði verið í tengslum við fyrrgreinda lögreglurannsókn
og óskað er eftir að leggja fram í málinu með vísan til lokamálsliðar 1. mgr.
160. gr. laga nr. 91/1991. Í bréfinu er jafnframt gerð grein fyrir því hvaða
gagna talið væri nauðsynlegt að afla til viðbótar. Um þetta segir svo í
bréfinu:
Í framangreindum gögnum lögreglu kemur fram að lögregla lagði hald á
tölvu í eigu aðaláfrýjanda og gerði rannsókn á henni. Í tölvunni fundust tvö
þeirra skjala er lögð hafa verið fram í málinu og voru undirrituð af annars
vegar Maríu og hins vegar Gerði Guðfinnsdætrum. Af gögnunum verður hins vegar
ekki ráðið með hvaða hætti nákvæmlega var leitað að gögnum á tölvunni en nánari
umfjöllun um þetta atriði kemur fram í kæru minni til ríkissaksóknara, dags.
22., þ.m., sem lögð er fram sem skjal QQ. Til að
varpa nánara ljósi á tölvurannsóknina með það fyrir augum að unnt verði að meta
sönnunargildi rannsóknargagnanna telur umbjóðandi minn nauðsynlegt að taka
skýrslu fyrir dómi af þeim lögreglumanni eða lögreglumönnum sem framkvæmdu
rannsóknina.
Í bréfi lögmanns vitnastefnanda til
ríkissaksóknara, dags. 22. febrúar 2013, vegna kæru á ákvörðun Lögreglustjórans
í Reykjavík um niðurfellingu rannsóknar, er fundið að rannsókn málsins. Einkum
er að því fundið að verulega hafi skort á það að rannsókn á tölvubúnaði
vitnastefnda væri faglega unnin og tilgreind þar um þau atriði sem fyrr eru
rakin. Af hálfu vitnastefnanda er og á því byggt í þessu máli að þá fyrst
hafi verið tilefni til þess að óska
eftir því að umbeðin vitnaleiðsla færi fram.
Að þessu virtu verður talið að beiðni
vitnastefnanda um vitnaleiðslu þessa sé réttilega fram komin.
Öflun sönnunargagna í máli þessu fer
ekki eftir XII. kafla laga nr. 91/1991. Ákvæði 3. mgr. 77. gr. laganna á því
ekki við í málinu, auk þess sem hætt hefur verið við lögreglurannsókn samkvæmt
ákvörðun ríkissaksóknara 22. mars 2013.
Málsástæður varnaraðila er lúta að
húsleit og haldlagningu gagna, svo og ákvæðum um þagnarskyldu samkvæmt lögum um
meðferð sakamála og lögreglulaga, eiga hér ekki við og er þeim hafnað.
Samkvæmt framansögðu, og með vísan
til 1. mgr. 46. gr., 1. mgr. 73. gr., 75. gr., sbr. 76. gr. laga nr. 91/1991,
skal umbeðin vitnaleiðsla fara fram, eins og í úrskurðarorði greinir.
Málskostnaður fellur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður
upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Heimilt er að leiða Steinarr Kristján
Ómarsson lögreglufulltrúa sem vitni í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.