Hæstiréttur íslands
Mál nr. 506/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
- Evrópska efnahagssvæðið
|
|
Fimmtudaginn 21. nóvember 2002. |
|
Nr. 506/2002. |
TGCI Ltd. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Jóni Gunnari Zoëga og Sverri Hermannssyni (enginn) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging. Evrópska efnahagssvæðið.
Hæstiréttur hafnaði kröfu J og S um að T, sem var með heimilisfang á eynni Jersey í Ermasundi, yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli þess gegn J og S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2002, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 2.000.000 krónur í máli sem hann hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu, en til vara að fjárhæð tryggingar verði lækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Athugasemdir hafa ekki borist frá varnaraðilum.
Í héraði krefur sóknaraðili varnaraðila um reikningsskuld vegna veittrar lögfræðiþjónustu í Póllandi að þeirra beiðni. Sóknaraðili er lögfræðifirma með heimilisfang á eynni Jersey í Ermasundi en með útibú í Póllandi. Varnaraðilar sóttu þing við þingfestingu málsins í héraði og kröfðust málskostnaðartryggingar á grundvelli 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála. Úrskurður héraðsdóms er á því reistur að Jersey sé utan Evrópska efnahagssvæðisins. Sóknaraðili telur þetta alrangt og heldur því fram að staða Jersey í breska ríkjasambandinu og aðild Bretlands að Evrópubandalaginu geri það að verkum að skoða beri stöðu eyjarinnar, að því er þetta mál varðar, sem hún sé hluti af Evrópska efnahagssvæðinu.
Sóknaraðili kveður Jersey í breska eyjasambandinu, hún hafi sjálfstjórn og eigið lögþing. Utanríkismál og gerð alþjóðasamninga séu í höndum bresku ríkisstjórnarinnar. Með viðauka nr. 3 við samning Breska konungsdæmisins um aðild Bretlands að Evrópubandalaginu hafi Jersey gerst aðili að því með tilteknum afmörkuðum hætti, sbr. nánari skilgreiningu í þessum viðauka, sbr. og lög ríkisins nr. 18 frá 18. júlí 1983. Með þessum viðauka hafi Jersey meðal annars skuldbundið sig til að veita persónum og lögpersónum innan Evrópubandalagsins jafna stöðu og fólki með ríkisfangi á Jersey. Eyjan sé á grundvelli viðaukans aðili að Evrópubandalaginu að því er varðar frjálsa vöruflutninga og þjónustustarfsemi. Hins vegar sé hún ekki aðili að þeim þáttum bandalagsins sem snúa að frjálsum fjármagnsflutningum eða efnahagsstjórn.
Gögn, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, þykja sýna fram á réttmæti þessarar málsástæðu hans. Ber því að hafna kröfum varnaraðila, þar sem skilyrði a. liðar 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála um málskostnaðartryggingu eru ekki uppfyllt.
Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hafnað er kröfum varnaraðila, Jóns Gunnars Zoëga og Sverris Hermannssonar, um að sóknaraðili, TGCI Ltd., setji tryggingu til greiðslu málskostnaðar í máli hans og þeirra, sem rekið er í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2002.
Stefndi, Jóni Gunnari Zoëga, krefst þess að stefnandi, TGCI Ltd., setji málskostnaðartryggingu sem sé 10% af stefnufjárhæð en stefndi, Sverrir Hermannsson, krefst þess að stefnandi setji málskostnaðartryggingu að fjárhæð tvær milljónir króna. Kröfunum er mótmælt af hálfu stefnanda. Kröfur þessa byggja stefndu á a - lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.
Í stefnu er greint frá því að stefnandi sé lögmannsstofa með höfuðstöðvar á eyjunni Jersey á Ermasundi. Upplýst er að Jersey er utan Evrópska efnahagssvæðisins og menn, sem eru búsettir hér á landi, eru ekki undanþegnir því að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar þar.
Stefnukröfur eru að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu 22.086.444 kr. auk dráttarvaxta og málskostnaðar svo sem þar greinir.
Samkvæmt framangreindu þykir rétt og hæfilegt að stefnandi setji 1.000.000 kr. í tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, í reiðufé eða í formi bankatryggingar, fyrir hvorn stefnda um sig eða samtals 2.000.000 kr., í síðasta lagi 28. október n.k.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Stefnanda, TGCI Ltd., er gert að setja tryggingu, samtals að fjárhæð 2.000.000 kr., fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu nr. E-14351/2002: TGCI Ltd ehf. gegn Jóni Gunnari Zoëga og Sverri Hermannssyni, þ.e. 1.000.000 kr. fyrir hvorn, í reiðufé eða í formi bankatryggingar, fyrir 29. október 2002.