Hæstiréttur íslands

Mál nr. 363/2003


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 4. mars 2004.

Nr. 363/2003.

Magnús Ólafsson og

Tryggingamiðstöðin hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Oddnýju Hróbjartsdóttur

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

Gert var samkomulag um að bætur vegna varanlegrar örorku O yrðu ákveðnar á grundvelli þeirra lágmarks árslauna, sem um ræðir í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Deilt var um hvort reikna ætti verðbætur á fjárhæð þessara árslauna til þess tíma er heilsufar O var orðið stöðugt, svo sem vátryggingafélagið T hélt fram, eða til uppgjörsdagsins, svo sem O taldi rétt. Talið var að við útreikning skaðabóta gæti hverju sinni komið til álita hvort tjónþoli eigi að njóta þess lágmarksréttar, sem felst í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, fremur en að reikna bætur handa honum eftir meðaltali atvinnutekna hans á þriggja ára tímabili, sbr. 1. mgr. 7. gr. Þegar af þessari ástæðu þótti óhjákvæmilegt að líta svo á að verðtrygging þeirra fjárhæða, sem fram koma í 3. mgr. 7. gr. þurfi að hlíta sömu reglum og verðtrygging atvinnutekna samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt þessu voru T og tjónvaldurinn M sýknuð af kröfu O.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. september 2003. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast áfrýjendur þess að dæmd fjárhæð beri 4,5% ársvexti frá 5. febrúar 2000 til dómsuppsögu, en frá þeim tíma dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins lenti stefnda í umferðarslysi á gatnamótum Drekavogar og Efstasunds 5. nóvember 1999, er bifreiðinni YJ 932 var ekið aftan á bifreiðina VZ 654, sem stefnda ók. Áfrýjandinn Magnús Ólafsson var eigandi og ökumaður fyrrnefndrar bifreiðar, sem var vátryggð hjá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf. Er ágreiningslaust að ökumaður YJ 932 átti sök á árekstrinum. Samkvæmt matsgerð tveggja lækna 15. apríl 2002 var varanlegur miski stefndu metinn 10% og varanleg örorka hennar 10%. Talið var að ekki hafi verið frekari bata að vænta hjá stefndu eftir 5. febrúar 2000. Á grundvelli þessa mats gekk áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. til uppgjörs við stefndu 24. apríl 2002, en samkomulag var meðal annars um að bætur vegna varanlegrar örorku hennar yrðu ákveðnar á grundvelli þeirra lágmarks árslauna, sem um ræðir í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og henni var breytt með 6. gr. laga nr. 37/1999. Á hinn bóginn greindi aðilana á um það hvort reikna ætti verðbætur á fjárhæð þessara árslauna til 5. febrúar 2000, er heilsufar stefndu var orðið stöðugt, svo sem áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. hélt fram, eða til uppgjörsdagsins 24. apríl 2002, sem stefnda taldi rétt. Áfrýjandinn innti af hendi við uppgjör þetta skaðabætur, sem reiknaðar voru eftir því, sem hann taldi rétt. Veitti stefnda þeim viðtöku með fyrirvara og höfðaði mál þetta til heimtu því, sem hún taldi skorta á fullar bætur. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur.

Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og greininni var breytt með 6. gr. laga nr. 37/1999, er við það miðað að árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku skuli teljast meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi atvinnurekanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, er tjón varð, og skuli árslaunin leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Eftir 2. mgr. greinarinnar er þó sú undantekning gerð að við óvenjulegar aðstæður skuli meta árslaunin sérstaklega ef ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í 3. mgr. er svo fjallað um lágmarkstekjur við útreikning bóta fyrir varanlegra örorku og skal miða fjárhæð þeirra við nánar tiltekinn aldur tjónþola samkvæmt töflu, sem þar kemur fram. Ákvæði 3. mgr. verður jöfnum höndum beitt um skaðabætur handa þeim, sem engar atvinnutekjur hafa haft þrjú síðustu almanaksárin áður en tjón varð, og þeim, sem höfðu tekjur á því tímabili, en þó lægri en þar er getið. Getur því hverju sinni komið til álita við útreikning skaðabóta hvort tjónþoli eigi að njóta þess lágmarksréttar, sem felst í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, fremur en að reikna bætur handa honum eftir meðaltali atvinnutekna hans á þriggja ára tímabili, sbr. 1. mgr. 7. gr. Þegar af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að líta svo á að verðtrygging þeirra fjárhæða, sem fram koma í 3. mgr. 7. gr., þurfi að hlíta sömu reglum og verðtrygging atvinnutekna samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, en ekkert kemur fram í lögskýringargögnum með lögum nr. 37/1999, sem stendur gegn þeirri niðurstöðu. Ber því að fallast á kröfu áfrýjenda um sýknu.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest. Þegar litið er til ágreiningsefnisins í máli þessu er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af því fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Magnús Ólafsson og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknir af kröfu stefndu, Oddnýjar Hróbjartsdóttur.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2003.

Málið var höfðað 4. desember 2002, þingfest 5. sama mánaðar og dómtekið 14. maí 2003. 

Stefnandi er Oddný Hróbjartsdóttir, kt. 080682-5309, Efstasundi 72, Reykjavík.

Stefndu eru Magnús Ólafsson, kt. 300548-3349, Álfheimum 21, Reykjavík og Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 346.658 krónur, með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 5. febrúar 2000 til 23. apríl 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að henni verði gert að greiða þeim málskostnað. Til vara er þess krafist að tildæmd bótafárhæð beri 4,5% ársvexti frá 5. febrúar 2000 til þess dags, þegar endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp. Fjárhæð tildæmdra bóta beri síðan dráttarvexti frá endanlegum dómsuppsögudegi til greiðsludags, samkvæmt. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi lenti í umferðarslysi 5. nóvember 1999 á gatnamótum Drekavogar og Efstasunds í Reykjavík. Slysið varð með þeim hætti að stefndi, Magnús Ólafsson, ók sendibifreiðinni YJ 932 á bifreiðina VZ 654, sem var þá kyrrstæð. Lögregluskýrsla var gerð um umferðarslysið.

Bifreiðin YJ 932 var á slysdegi vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda félagi, Tryggingamiðstöðinni hf..

Stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar VZ 654 í umrætt sinn og hlut hún áverka við áreksturinn, meðal annars á baki og á hálsi. Afleiðing slyssins er sú að stefnandi hefur verið metin með 10% varanlegan miska og 10% varanlega örorku, samkvæmt matsgerð læknanna Leifs N. Dungal og Júlíusar Valssonar.

Lögmaður stefnanda lagði fram bótakröfu til stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., vegna tjóns hennar. Í svarbréfi tryggingafélagsins, dagsettu 23. apríl 2002, var gerð tillaga um bótauppgjör vegna nefnds tjóns. Var sú tillaga í öllum atriðum efnislega samhljóða framlagðri bótakröfu lögmanns stefnanda, að frátöldum bótum fyrir varanlega örorku. Í tillögu tryggingafélagsins var við útreikning á bótum fyrir varanlega miðað við fjárhæð lágmarkslauna, samkvæmt. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, uppreiknaða fram að stöðuleikapunkti 5. febrúar 2000 og miðuðust árslaun því við 1.411.000 krónur. Tryggingafélagið samþykkti að gerður yrði fyrirvari við þennan útreikning við uppgjör.

Af hálfu stefnanda var sjónarmiðum stefnda svo og útreikningi mótmælt og á því byggt að uppreikna skyldi lágmarkslaun allt fram til uppgjörsdags. Engu að síður var gengið til uppgjörs um þann hluta kröfunnar sem óumdeildur var en gerður fyrirvari við þann hluta uppgjörsins sem sneri að bótum fyrir varanlega örorku.

Ágreiningur aðila einskorðast því við fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku, auk vaxta af þeirri fjárhæð svo og greiðslu dráttarvaxta.

 

Málsástæður og lagarök málsaðila

Af hálfu stefnanda eru dómkröfur á því byggðar að stefndu beri að greiða henni fullar skaðabætur vegna tjóns sem hún varð fyrir í fyrrnefndu umferðarslysi 5. nóvember 1999, á grundvelli I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, samanber einkum 1. gr. þeirra. Þá grundvallast bótakrafan á XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 88. gr., sbr. 90. gr.

Af hálfu stefnanda er dómkrafa um fullar skaðbætur reist á því að samkvæmt ákvæði 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga skuli bætur samkvæmt 1. mgr. greinarinnar ákveðnar á grundvelli leiðréttingar á viðmiðunarfjárhæð lágmarkslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna fram til þess dags þegar bótafjárhæð er ákveðin. Fram komi í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga að markmið þessa ákvæðis sé að tryggja að bætur rýrni ekki frá tjónsatviki og þar til bótafjárhæð sé ákveðin með samningi eða dómi en í sumum tilvikum geti liðið langur tími þar á milli. Þá geti einnig liðið langur tími frá því að stöðugleikatímapunkti sé náð þar til að bótauppgjör fari fram.

Ljóst sé að ótvíræður texti 2. mgr. 15. gr. feli það í sér að gera skuli upp tjón á þann hátt að miðað sé við fjárhæðir sem í gildi séu þegar bótauppgjör fari fram þar sem endanleg bótafjárhæð sé ákveðin á þeim tímapunkti. Stefnandi eigi því rétt á að lágmarkslaun þau sem lögð hafi verið til grundvallar bótauppgjöri séu uppreiknuð til uppgjörsdags en ekki einungis til þess tímamarks sem stöðuleikapunkti hafi verið náð. Markmiði 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga verði ekki ekki náð með annarri niðurstöðu.

Af hálfu stefnanda er bent á að framkvæmd við umræddan útreikning hafi verið mismunandi hjá tryggingafélögum. Vátryggingafélag Íslands hf. hafi gert upp tjón með þeim hætti sem stefnandi heldur fram að eigi að gera. Sjóvá­-Almennar tryggingar hf. hafi einnig gert það í upphafi en síðar breytt framkvæmd sinni. Með vísan til afstöðu stefnda til dómkröfunnar sé ljóst að ákveðin réttaróvissa ríki um framkvæmd á útreikningi á bótafjárhæð sem dómstólar verði að skera úr um.

Verði niðurstaðan sú að fallist verði á túlkun stefndu á verðlagsbreytingum við útreikninga á bótum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. geti það orðið hinu stefnda tryggingafélagi til hagsbóta á kostnað tjónþola, þar sem langur tími geti liðið frá stöðugleikatímapunkti fram að bótauppgjöri. Í reynd sé óhjákvæmilegt að nokkur tími, eða jafnvel verulegur tími, líði frá stöðugleikatímapunkti þar til bótauppgjör fari fram. Margvísleg utanaðkomandi atvik geti leitt til þess, svo sem framkvæmd örorkumats og ákvörðun vátryggingafélaga að skjóta úrlausn til Örorkunefndar og dómstóla. Verði ekki á dómkröfur fallist sé tryggingafélögum í lófa lagið að draga uppgjör skaðabóta um langan tíma, án þess að tjónþolar njóti verðtryggingar á skaðabætur. Á sama tíma verði að ætla að fjárhæðir sem vátryggingafélög hafi lagt til hliðar í bótasjóði, og ætlað sé að mæta tjóni, beri verðtryggingu og vexti í vörslum vátryggingafélags, a.m.k. allt til uppgjörsdags.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að öll sanngirnisrök leiði til þess að miða eigi við þann tímapunkt þegar bótauppgjör fari fram þegar fundin sé út lágmarksfjárhæð samkvæmt 3. mgr. 7. gr. eins og um sé að ræða í máli þessu.

Framreikningur viðmiðunarfjárhæðarinnar frá stöðuleikatímapunkti til uppgjörsdags skipti stefnanda umtalsverðu fjárhagslega þar sem stefndu telji árslaunaviðmið eiga að vera 1.411.000 krónur en stefnandi telji með vísan til framagreinds að árslaunaviðmið eigi að vera 1.601.000 krónur.

Bótakrafan er nánar tiltekið þannig reiknuð að viðmiðunarfjárhæð samkvæmt 3. mgr. 7. gr., 1.200.000 krónur, er leiðrétt miðað við hækkun lánskjaravísitölu frá gildistöku skaðabótalaga í júlí 1993 (3282) og fram í aprílmánuð 2002 (4379). Stefnandi var 17 ára og 242 daga á tjónsdegi 5. febrúar 2000. Margfeldisstuðull stefnanda samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga er því um 242/365 af mismuni margföldunarstuðuls þeirra sem eru 17 og 18 ára. Stuðullinn er því 18,312 (17,990-18,476=0,486 x 242/365=0,322. 17,990+0,322=18,312). Samkvæmt því er bótakrafan 346.658 krónur (1.601.000 x 18,312 x 10% - 2.585.093 = 346.658)

Af hálfu stefnanda er krafa um greiðslu dráttarvaxta miðuð við 23. apríl 2002 en á því tímamarki hafi afstaða stefnda komið fram og samhliða hafi bótauppgjör farið fram með fyrirvara af hálfu stefnanda.

Stefnandi hafi fengið gjafsókn í máli þessu og sé málskostnaðarkrafan við það miðuð.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að reikna eigi bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli 7. gr. skaðabótalaga og að fjárhæðir eigi að verðbæta fram að þeim tíma er heilsufarslegt ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt.

Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, komi fram að meðalatvinnutekjur tjónþola síðustu þrjú almanaksár fyrir slys skuli leiðrétta samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Með lögum nr. 37/1999 hafi verið gerðar breytingar á skaðabótalögum og standi ágreiningur aðila málsins um túlkun á þeim.

Stefndu vísa til 11. gr. laga nr. 37/1999, en þar komi fram að lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi verið felldur brott við gildistöku laganna, þar sem hann hafi ekki lengur verið talinn eiga við. Í umræddum lokamálslið hafi komið fram að bætur fyrir varanlega örorku skyldu umreiknaðar miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá því tjónsdegi og þar til bótafjárhæð væri ákveðin. Þessi sérregla hafi einungis gilt um bætur fyrir varanlega örorku en í öðrum tilvikum hafi verið miðað við vísitölu þegar skaðabótalögin tóku gildi 1. júlí 1993. Stefndu telja að þessari framkvæmd á vísitöluleiðréttingum bótafjárhæða vegna bóta fyrir varanlega örorku hafi verið vikið til hliðar með lögum nr. 37/1999. Þar sem lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi verið felldur brott verði að reikna út bætur, sem taki mið af fjárhæðum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. núgildandi skaðabótalaga, í samræmi við 1. mgr. 7. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999.

Í 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1999, komi fram að fjárhæðir bóta sem greindar séu meðal annars í 3. mgr. 7. gr. laganna skuli breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Í 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga komi síðan fram að ákveða skuli bætur á grundvelli 1. mgr. 15. gr. sömu laga á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð sé ákveðin, en það sé sá tímapunktur sem máli skiptir.

Stefndu telja ótvírætt að með breytingum á fyrrgreindri 15. gr. skaðabótalaga, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. sömu laga, sé svokallaður stöðugleikapunktur það tímamark, þegar bótafjárhæð vegna varanlegrar örorku er ákveðin í skilningi 1. mgr. 15. gr. Afstaða stefndu fái beina stoð í lögskýringargögnum. Þar komi skýrt fram að reikna skuli bætur fyrir varanlega örorku miðað við verðlag á þeim tíma þegar heilsufarslegt ástand tjónþola sé orðið stöðugt. Hvergi komi fram í frumvarpinu að ætlun löggjafans hafi verið að þessi regla ætti einungis við um þá sem hafi tekjur síðustu þrjú almanaksár fyrir slys og falli því undir l. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999. Telja stefndu þessi skýru markmið lagasetningarinnar ekki geta leitt til annars en að reikna eigi upp fjárhæðir 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga á sama hátt, þ.e. að bætur fyrir varanlega örorku skuli reikna út frá sömu forsendum til allra tjónþola, þ.e. að bótafjárhæð sé ákveðin miðað við stöðugleikapunkt.

Stefndu telja þá aðferð sem notuð hafi verið til útreiknings bóta til handa stefnanda ekki með nokkru móti fara gegn markmiði 15. gr. skaðabótalaga. Í lögunum sé skýrt kveðið á um miða beri bótafjárhæð fyrir varanlega örorku við það tímamark þegar heilsufarslegt ástanda tjónþola teljist stöðugt en í máli stefnanda teljist sá tímapunktur vera 5. febrúar 2000.

Af hálfu stefndu er bent á að sömu sjónarmið eigi ekki við um bætur fyrir varanlega örorku þar sem verið sé að bæta tjónþolum fjárhagslegt tjón sitt og bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska þar sem um sé að ræða bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón reiknist út frá stöðluðum bótafjárhæðum, þar sem bótafjárhæð er ekki ákveðin fyrr en við samning eða dóm og þar sé því ekki um að ræða sama tímapunkt og vegna bóta fyrir varanlega örorku. Þá hafi ekki gilt sömu reglur fyrir gildistöku laga nr. 37/1999 um vísitöluleiðréttingu bóta fyrir þjáningar og varanlegan miska annars vegar og bóta fyrir varanlega örorku hins vegar. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón hafi verið verðbættar frá gildistöku skaðabótalaga en bætur fyrir varanlega örorku frá því að tjónsatvik varð. Sömu sjónarmið hafi því ekki gilt um vísitöluleiðréttingu þessara bóta og sérsjónarmið hafi gilt um bætur fyrir varanlega örorku, rétt eins og stefnu halda fram í þessu máli.

Stefndu vísa á bug sjónarmiðum stefnanda um að vátryggingafélögum sé í lófa lagið að draga uppgjör skaðabóta um langan tíma og mótmæla því að það sé einhliða ákvörðun stefndu hvenær afleiðingar tjóns séu metnar. Tjónþoli eða hinn bótaskyldi geti krafist þess að mat fari fram á varanlegri örorku tjónþola á því tímamarki sem heilsufarslegt ástand hans sé orðið stöðugt. Slíkt mat sé venjulega framkvæmt þegar fullnægjandi læknisfræðileg gögn liggi fyrir í málum um að heilsufar tjónþola vegna afleiðinga slysa sé að öllum líkindum stöðugt.

Stefndu vísa til þess að vegna bóta fyrir varanlega örorku séu reiknaðir vextir samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá stöðugleikapunkti, en þeir vextir séu nú 4,5%. Skýrt komi fram í lögskýringargögnum að vextir reiknist af bótum fyrir varanlega örorku frá upphafsdegi metinnar örorku. Því sé miðað við að bætur fyrir varanlega örorku skuli verðbæta fram að stöðugleikapunkti og að bæturnar beri vexti eftir það.

Stefndu vísa til þess að kröfugerð stefnanda feli í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og jafnræðisreglu mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. og l. gr. 4. samningsviðauka við hann, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Ef fallist verði á kröfugerð stefnanda, sé ljóst að mismunur verði á aðstöðu þeirra sem fái greiddar bætur á grundvelli 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og þeirra sem eftir atvikum falli undir 3. eða 4. mgr. 7. gr. sömu laga. Stefndu telja slíkt í andstöðu við fyrrnefnd jafnræðissjónarmið og fjarri lagi að það hafi verið ætlun löggjafans að brjóta gegn þeim grundvallarréttindum með setningu laga nr. 37/1999.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að niðurstaða stefnanda í hag hljóti að byggjast á túlkun og skýringu á skaðabótalögum sem sé engan veginn auðsæ og fjarri lagi að stefndu hafi dregið greiðslur til stefnanda að nauðsynjalausu. Við þessar aðstæður sé óeðlilegt að hin umdeilda krafa beri dráttarvexti fyrr en endanlega hafi verið skorið úr deilunni fyrir dómi. Samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga geti hugsanlegar bætur því einungis borið 4,5% ársvexti frá 5. febrúar 2000 til endanlegs dómsuppsögudags.

 

Niðurstaða

Stefnandi gerði upphaflega kröfu á hendur stefndu um greiðslu á 348.463 krónum en lækkaði fjárhæð kröfunnar í 346.658 krónur við upphaf aðalmeðferðar. Tók stefnandi þar til greina athugasemdir stefndu við útreikning bótafjárhæðarinnar. Stefndu féllu þá frá varakröfu um lækkun stefnufjárhæðar.

Með lögum nr. 37/1999 voru gerðar talsverðar breytingar á skaðabótalögum nr. 50/1993. Áður hafði 6. gr. laganna verið á þá leið að bætur skyldi meta til fjárhæðar sem næmi tíföldum árslaunum tjónþola, sbr. 7. gr.,  margfölduðum með örorkustigi, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Á 6. gr. laganna voru gerðar þær breytingar að bætur fyrir varanlega örorku skal nú meta til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola samkvæmt 5. gr. laganna, árslauna hans samkvæmt 7. gr. og töflu sem fram kemur í 6. gr., þannig að margfalda skyldi saman örorkustig, árslaun og stuðul töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.

Fyrir umrædda lagabreytingu var 7. gr. skaðabótalaga svohljóðandi:

 

„Árslaun teljast vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð.

Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum.

Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr."

 

Með 6. gr. laga nr. 37/1999 var 7. gr. skaðabótalaga breytt í svofellt horf:

 

„Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.

Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
         Þátt fyrir ákvæði 1.–2. mgr. skal ekki miða við lægri árslaun en tilgreint er í þessari töflu:

 

 

 

Aldur                                                     Kr.

66 ára og yngri                                        1.200.000

67 ára                                                    1.100.000

68 ára                                                    1.000.000

69 ára                                                      900.000

70 ára                                                                             800.000

71 árs                                                                             700.000

72 ára                                                                             600.000

73 ára                                                                             500.000

74 ára                                                                             400.000

Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr."

 

Í 15. gr. skaðabótalaga er að finna verðtryggingarákvæði til fyllingar öðrum ákvæðum laganna. Fyrir umræddar breytingar á lögunum hljóðaði 15. gr. þannig:

 

„Fjárhæðir bóta, sem greindar eru í 3. gr., 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 7. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Fjárhæð skal hverju sinni hækka eða lækka þannig að hún standi á heilu eða hálfu þúsundi króna. Bótafjárhæðir þær, sem greinir í 1. málsl. 3. gr. , skulu þó hækka eða lækka svo að fjárhæð standi á heilum tug króna.

Bætur skv. 1. mgr. skal ákveða á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð er ákveðin. Bætur fyrir varanlega örorku skal umreikna miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá því að tjón varð og þar til bótafjárhæð er ákveðin."

 

Með lögum nr. 37/1999 var einungis gerð sú breyting á 15. gr. skaðabótalaga að síðari málsliður 2. mgr. var felldur brott.

Óumdeilt er með aðilum að stefnandi varð fyrir slysi eftir að umræddar breytingar á skaðabótalögum öðluðust gildi og taka því lögin eins og þeim var breytt til bótauppgjörsins. Einnig er óumdeilt að miða eigi bótauppgjör við viðmiðunarfjárhæðir 3. mgr. 7. gr. vegna þess hversu lág laun stefnandi hafði fyrir slysið.

Í máli þessu reynir á hvort útreikningar á fjárhæð skaðabóta samkvæmt 3. mgr. 7. gr. eigi að taka mið af fyrirmælum 1. mgr. 7. gr. laganna um verðtryggingu viðmiðunarlauna eða 1. og  2. mgr. 15. gr. laganna.

Sá munur er á framangreindum ákvæðum að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skal leiðrétta árslaun tjónþola síðustu þrjú almanaksár fyrir þann tíma sem tjón varð samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, eða fram að stöðugleikapunkti, en samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. skal leiðrétta fjárhæðir í hlutfalli við breytingar á lánskjaravísitölu frá gildistöku skaðabótalaga 1. júlí 1993 þar til bótafjárhæð er ákveðin.

Í ljósi ágreinings aðila um verðtryggingu á viðmiðunarfjárhæðum 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þykir nauðsynlegt að skoða aðdraganda þeirra breytinga sem gerðar voru á skaðabótalögum með lögum nr. 37/1999.

Í 6. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1999 var lagt til að 1. mgr. 7. gr. orðaðist svo:

 

„Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma er honum er metin varanleg örorka."

 

Meirihluti allsherjarnefndar Alþingis lagði til þá breytingu á umræddi málsgrein að í stað orðanna "er honum er metin varanleg örorka." kæmi "sem upphaf varanlegrar örorku miðast við". Sams konar orðalagsbreytingar voru gerðar á 1. og 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, sem samsvara 1. og 2. mgr. 6. gr. skaðabótalaga. Í nefndaráliti segir svo um þessar breytingatillögur:

 

„Lagt er til að í stað orðanna „þegar honum er metin varanleg örorka“ í 1. efnismgr. 5. og 6. gr. frumvarpsins komi orðin: sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Þá komi í stað orðanna „þegar honum er metin örorka“ í 2. efnismgr. 5. gr. orðin: á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Með þessari breytingu verður skýrara að bætur vegna varanlegrar örorku reiknast frá þeim degi er tímabundinni örorku lýkur. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða."

 

Umræddar breytingartillögur allsherjarnefndar voru samþykktar og urðu hluti af þeim breytingum sem garðar voru á skaðabótalögum með lögum nr. 37/1999.

Í athugasemdum við 1. mgr. 6. gr. í fyrrnefndu frumvarpi, sem varð að 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sagði að tekjurnar væru færðar upp til verðlags þess dags sem metin varanleg örorka miðaðist við. Af þessu leiddi að vístöluleiðréttingin í lokamálslið 2. mgr. 15. gr. laganna ætti ekki lengur við og félli brott.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. eru umræddar viðmiðunartekjur aðeins verðbættar til þess dags þegar talið er að ekki sé að vænta frekari bata en á þessu tímamarki, sem nefnt er stöðugleikapunktur, lýkur tímabili tímabundinnar örorku og varanleg örorka tekur við. Lagabreytingin hefur það í för með sér að á því tímabili sem líður frá því að stöðugleikapunkti er náð og þar til hægt er að setja fram kröfu um bætur reiknast aðeins 4,5% ársvextir á kröfuna en verðlagsbreytingar fást ekki leiðréttar.

Í athugasemdum með framangreindu frumvarpi eða öðrum lögskýringargögnum er ekki að finna skýringar á því af hverju horfið var frá þeirri reglu 2. mgr. 15. gr. að verðbæta viðmiðunartekjur til útreiknings á varanlegri örorku, allt til þess dags sem bótafjárhæð væri ákveðin.

Í 3. mgr. 7. gr. er ekki að finna samsvarandi ákvæði og í 1. mgr. 7. gr. um leiðréttingu samkvæmt launavísitölu og ekki er vísað milli ákvæðanna. Í framangreindum athugasemdum með frumvarpinu er heldur ekki að finna vísbendingu um að verðtryggingarákvæði 1. gr. 7. gr. eigi að beita um viðmiðunarlaun samkvæmt 3. mgr.  Í athugasemdum við umrætt ákvæði í framangreindu frumvarpi kemur þvert á móti skýrt fram að miðað sé við grunnvísitölu skaðabótalaganna.

Sú ályktun verður dregin af framangreindu að lágmarksárslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. hafi verið ákveðið með umræddum hætti með verðbótaákvæði 1. mgr. 15. gr. laganna í huga. Hvað upphafstíma verðtryggingar og tegund vísitölu varðar eru viðmiðunarfjárhæðir 3. mgr. 7. gr. þannig sambærilegar viðmiðunarfjárhæðum þjáningarbóta samkvæmt 1. mgr. 3. gr. og bóta fyrir varanlegan miska samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.

Svo virðist sem láðst hafi að breyta 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga í umrætt sinn til samræmis við breytingar þær sem urðu á 7. gr. Í 1. mgr. 15. gr. er þannig áfram vísað til 3. mgr. 7. gr. þótt ákvæði um hámarkslaunaviðmið í 3. mgr. hafi orðið að 4. mgr. við umrædda lagabreytingu. Með vísan til framangreinds þykir hins vegar ljóst að ætlun löggjafans hafi verið að 1. mgr. 15. gr. tæki bæði til lágmarkslaunaviðmiðunar samkvæmt 3. og hámarkslaunaviðmiðunar samkvæmt 4. mgr. 7. gr. enda hefði ella verið ástæðulaust að taka fram í greinargerð að viðmiðunarfjárhæðir 3. mgr. 7. gr. miðuðust við grunnvísitölu skaðabótalaga.

Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru á skaðabótalögum í umrætt sinn var að bætt var við nýju ákvæði, 29. gr., en þar er mælt fyrir um að fjárhæðir samkvæmt lögunum séu miðaðar við lánskjaravísitölu eins og hún var 1. júlí 1993, (3282) og taki sömu breytingum og mælt sé fyrir um í 15. gr., sbr. einnig lög um vísitölu neysluverðs. Síðastgreint ákvæði tekur því af skarið um að verðtryggingarákvæði 15. gr., sbr. 29. gr., sé sú meginregla sem beri að beita við verðleiðréttingu á viðmiðunarfjárhæðum sem fram koma í lögunum nema annað sé tekið fram.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem stefnandi hefur fært fram þykir sá túlkunarkostur að fjárhæðir 3. mgr. 7. gr. verðbætist fram að þeim degi þegar bótafjárhæð er ákveðin fela í sér sanngjarnari og eðlilegri niðurstöðu en ef fjárhæðin væri eingöngu verðbætt fram að stöðugleikapunkti. Fyrri túlkunarkosturinn þykir auk þess vera í betra samræmi við texta laganna.

Af hálfu stefndu hefur því verið haldið fram að framangreind túlkun standist ekki jafnræðisreglur 65. gr. stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Þar sem greiðsla bóta á grundvelli lágmarksviðmiðunarlauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. kemur því aðeins til framkvæmda að útreikningur bóta á grundvelli árslauna samkvæmt 1. mgr. 7. gr. leiði til lægri bótagreiðslu fyrir varanlega örorku, tryggir 3. mgr. 7. gr. öllum tjónþolum sem falla undir 7. gr. lágmarksbætur. Það að fjárhæðir samkvæmt 3. mgr. verðtryggjast með öðrum hætti en samkvæmt 1. mgr. felur því ekki í sér að mismunandi reglur gildi um þá sem eins stendur á um að þessu leyti. Umrædd túlkun á skaðabótalögum þykir því ekki fela í sér brot á framangreindum jafnræðisreglum.

Samkvæmt framansögðu þykir rétt að skýra umrædd ákvæði skaðabótalaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999, þannig að verðtryggingarákvæði 1. mgr. 15. gr. taki til verðleiðréttinga á viðmiðunarfjárhæðum lágmarkslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. Samkvæmt skýrum fyrirmælum 2. mgr. 15. gr. skal síðan ákveða bætur samkvæmt 1. mgr. 15. gr. á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð er ákveðin.

Með vísan til framangreinds þykir rétt að fallast á með stefnanda að viðmiðunarfjárhæð lágmarkslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, í þessu tilviki 1.200.000 krónur, beri að leiðrétta miðað við hækkun lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1993 til þess dags þegar bótafjárhæð er ákveðin. Af hálfu stefnanda er miðað við leiðréttingu lágmarkslaunaviðmiðunar fram í apríl 2002 en bótauppgjör aðila fór fram 23. apríl 2002 og eru ekki gerðar sérstakar athugasemdir við þessa dagsetningu af hálfu stefndu. Ekki er lengur ágreiningur með aðilum um tölulegan grundvöll kröfunnar.

Ekki er ágreiningur með aðilum um að reikna beri vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af höfuðstól kröfunnar frá 5. febrúar 2000 til 23. apríl 2002. Stefnandi hefur krafist dráttarvaxta frá 23. apríl 2002 til greiðsludags en af hálfu stefndu er þess krafist að bótafjárhæð beri einungis 4,5% ársvexti fram til þess að endanlegur dómur verði kveðinn upp.

Líta verður svo á að umrædd krafa stefnanda hafi fallið í eindaga við uppgjör á öðrum hlutum bótakröfunnar 23. apríl 2002 en af hálfu stefnanda var þá gerður fyrirvari um aðra útreikninga á bótum fyrir varanlegra örorku. Ber því að taka til greina kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 23. apríl 2002 til greiðsludags.

Mál þetta er sprottið af ágreiningi um túlkun á ákvæðum skaðabótalaga og þýðingu breytinga sem gerð var á þeim með lögum nr. 37/1999. Fallist er á með stefndu að umrædd ákvæði séu ekki eins skýr, hvað þetta ágreiningsefni varðar, og ákjósanlegt hefði verið um löggjöf sem jafn mikið reynir á. Var því ekki óeðlilegt að stefnu létu reyna á skýringu umræddra ákvæða fyrir dómi. Með hliðsjón af því þykir rétt að fella málskostnað niður.

Dómsmálaráðherra veitti stefnanda gjafsókn vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi með gjafsóknarleyfi, útgefnu 14. júní 2002. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist hann úr ríkissjóði, en hann er þóknun lögmanns stefnanda, Óðins Elíssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Þóknun lögmanns stefnanda inniheldur ekki virðisaukaskatt.

Af hálfu stefnanda flutti málið Óðinn Elísson hdl. en af hálfu stefndu Þóra Hallgrímsdóttir hdl.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Stefndu, Magnús Ólafsson og Tryggingamiðstöðin hf., greiði óskipt stefnanda, Oddnýju Hróbjartsdóttur, 346.658 krónur, með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 5. febrúar 2000 til 23. apríl 2002, en með dráttarvöxtum, samkvæmt. l. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 150.000 krónur, sem er þóknun lögmanns hennar, Óðins Elíssonar hdl., greiðist úr ríkissjóði.