Hæstiréttur íslands
Mál nr. 38/2009
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Meðlag
- Aðfinnslur
- Gjafsókn
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 17. september 2009. |
|
Nr. 38/2009. |
M(Dögg Pálsdóttir hrl., Katrín Theodórsdóttir hdl.) gegn K(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.,Þórdís Bjarnadóttir hdl.) |
Börn. Forsjá. Meðlag. Aðfinnslur. Gjafsókn. Kröfugerð.
M krafðist þess að honum yrði dæmd forsjá dóttur sinnar og K. Undir rekstri málsins í héraði hafði verið aflað matsgerðar dómkvadds sálfræðings um stöðu og líðan barnsins, tengsl þess við foreldra sína og hæfi þeirra til að fara með forsjá þess. Talið var að þótt fallast mætti á með héraðsdómara að nokkrir hnökrar væru á matsgerðinni stæði óhögguð sú niðurstaða hennar að vegna getu til að eiga tjáskipti á íslensku væri K fremur en M fært að aðstoða barnið í námi og sinna samstarfi við skóla. Þá væri óhögguð niðurstaða matsgerðarinnar að K hefði betra innsæi í þarfir barnsins. Enn fremur var talið að líta yrði til þess að vegna búsetu barnsins hjá K yrði högum þess nokkuð raskað ef M yrði fengin forsjá. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að K færi með forsjá dóttur aðila. Einnig var staðfest niðurstaða héraðsdóms um inntak umgengnisréttar M við barnið og var M gert að greiða einfalt meðlag með barninu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2009. Hann krefst þess að sér verði dæmd forsjá dóttur aðila, A, og að ákveðið verði hvernig umgengni hennar við stefndu verði háttað. Hann krefst þess einnig að stefndu verði gert að greiða sér meðlag til framfærslu stúlkunnar eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni til 18 ára aldurs. Verði stefndu dæmd forsjá dóttur aðila er þess krafist að kveðið verði á um umgengni áfrýjanda við hana og að honum verði aðeins gert að greiða einfalt meðlag með henni. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að ákvörðun héraðsdóms um umgengni áfrýjanda við dóttur aðila verði breytt þannig að regluleg umgengni verði aðra hvora helgi frá föstudegi til mánudagsmorguns. Jafnframt krefst stefnda málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefnda hefur ekki fyrir sitt leyti áfrýjað héraðsdómi til að fá breytt ákvörðun héraðsdóms um inntak umgengnisréttar eða málskostnað. Koma kröfur hennar er að þeim atriðum lúta því ekki til frekari álita hér fyrir dómi.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var undir rekstri málsins í héraði aflað matsgerðar dómkvadds sálfræðings, um stöðu og líðan dóttur aðilanna, tengsl hennar við foreldra sína og hæfi þeirra til að fara með forsjá hennar. Þótt fallast megi á með héraðsdómara að nokkrir hnökrar séu á matsgerðinni stendur óhögguð sú niðurstaða hennar að vegna getu til að eiga tjáskipti á íslensku sé stefndu fremur en áfrýjanda fært að aðstoða barnið í námi og sinna samstarfi við skóla, sem sé mikilvægt í ljósi hegðunarerfiðleika þess, en áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi nægilega kunnáttu í málinu. Það er og óhögguð niðurstaða matsgerðarinnar að stefnda hafi betra innsæi í þarfir barnsins í bráð og lengd. Þá verður að líta til þess að vegna búsetu barnsins hjá stefndu að undanförnu yrði högum þess nokkuð raskað ef áfrýjanda yrði fengin forsjá. Áfrýjandi reisir kröfu sína um forsjá meðal annars á þeirri málsástæðu að stefnda muni, fái hún forsjá barnsins, fara með það til Tyrklands. Í þeim efnum er þess að gæta að sú staða hlýtur einnig að vera uppi að því er áfrýjanda varðar fái hann forsjána og verður ekkert fullyrt í ljósi núverandi aðstæðna hvor aðila sé líklegri til að flytja búferlum. Verður samkvæmt þessu staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að stefnda fari með forsjá dóttur aðila.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn um störf áfrýjanda og tekjur 2008 og það sem af er árinu 2009. Af þeim er ljóst að áfrýjanda hefur verið sagt upp starfi, sem hann gegndi meðan málið var rekið í héraði, tekjur hans hafa lækkað til muna og óvissa ríkir um þær á næstunni. Eru því ekki efni til að gera honum að greiða meira en einfalt meðlag með stúlkunni.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að því er varðar umgengni áfrýjanda við dóttur sína.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefndu fer eins og nánar segir í dómsorði.
Það athugast að héraðsdómara hefði verið rétt að kalla til sérfróða meðdómsmenn eins og málið lá fyrir. Þá gætti dómarinn ekki að því að samkvæmt 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003 bar að tiltaka í dómsorði hvort áfrýjun dómsins frestaði réttaráhrifum hans.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að áfrýjanda, M, ber að greiða einfalt meðlag með dóttur sinni, A, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, frá 1. desember 2007 til fullnaðs 18 ára aldurs hennar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 22. desember 2008
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 10. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, kt. [...], [...], Reykjavík, með stefnu birtri 12. desember 2007, á hendur M, kt. [...], [...], Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Að stefnanda verði dæmd forsjá dóttur aðila, A, kt. [...].
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda tvöfalt meðlag með barninu frá 1. desember 2007 til fullnaðs 18 ára aldurs hennar, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins.
3. Að dómurinn ákveði hvernig umgengni barnsins skuli vera við það foreldri, sem barnið býr ekki hjá.
4. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þessar:
1. Að stefndi verði sýknaður af öllum öðrum kröfum stefnanda.
2. Að stefnda verði með dómi falin forsjá dóttur aðila, A, kt. [...], og ákveðið verði í dóminum, hvernig umgengni barnsins við stefnanda verði háttað.
3. Verði stefnda falin forsjá A, krefst stefndi þess, að stefnanda verði gert að greiða stefnda meðlag til framfærslu barnsins, eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni til 18 ára aldurs þess.
4. Verði stefnanda falin forsjá A með dómi, er þess krafizt, að kveðið verði á um umgengni stefnda við dóttur sína í samræmi við tillögur, sem fram koma í greinargerð stefnda.
5. Að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti.
6. Hafnað verði kröfu stefnanda um greiðslu tvöfalds meðlags.
II
Málavextir
Málsaðilar eru af tyrkneskum uppruna. Þau gengu í hjónaband í Tyrklandi hinn 21. júní 1999 en fluttu til Íslands sumarið 2000 og hafa búið hér síðan. Þau eiga saman dótturina A, f. [...] 2002. Þau hafa öll hlotið íslenskan ríkisborgararétt. Aðilar slitu samvistum hinn 21. nóvember 2007, en hjónaband þeirra hafði gengið illa í langan tíma fyrir skilnaðinn. Umræddan dag, þegar aðilar slitu samvistum, þurfti að kalla til lögreglu, þegar sundurlyndi aðila fór úr böndum, og flutti stefnandi í kjölfarið í Kvennaathvarfið, ásamt dóttur aðila. Kveður stefnandi stefnda hafa beitt sig miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi á sambúðartímanum, og hafi hún ítrekað þurft að leita eftir aðstoð læknis, starfsfólks velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem og lögreglu. Stefndi mótmælir ásökunum um líkamlegt ofbeldi, en kveður á stundum hafa jaðrað við andlegt ofbeldi, sem hafa verið gagnkvæmt.
Stefnandi kveður stefnda hafa boðað sig til fyrirtöku hjá sýslumanni í desember 2007, og hafi hún mætt á tilsettum tíma, ásamt lögmanni sínum, en stefndi hafi ekki látið sjá sig. Hafi stefnandi þar gert kröfu um óskipta forsjá dóttur aðila auk makalífeyris, sem og um skilnað að borði og sæng. Einnig hafi hún ákveðið að óska eftir opinberum skiptum á búi aðila.
Aðilar hafa báðir unnið úti, en greinir á um, hvort þeirra hafi borið hitann og þungann af umönnun barnsins.
Barnið var á leikskóla á árinu 2007, en er nú komið á skólaaldur.
Að ósk stefnanda var dómkvaddur matsmaður, B sálfræðingur, til þess að meta hagi barnsins, A, tengsl þess við foreldra og hæfi foreldra til að fara með forsjá þess. Er matsgerðin dagsett 16. september 2008.
III
Málsástæður stefnanda
Krafa stefnanda um forsjá byggist á því, að það sé barninu fyrir bestu, að hún fari með óskipta forsjá. Hún hafi annast barnið frá fæðingu þess og séð um sameiginlegt heimili aðila. Stefndi hafi verið langan vinnudag utan heimilis svo til alla daga vikunnar og lítið sinnt barninu, þegar hann hafi verið í leyfi. Barnið sé því háð umönnun stefnanda og þarfnist hennar, auk þess sem það tengist móður sinni meira en föður vegna atvika málsins.
Krafa stefnanda um óskipta forsjá byggist á því, að vegna ósamkomulags aðila og skapbresta stefnda geti hún ekki átt eðlileg samskipti við hann, svo sem þörf krefji í sameiginlegri forsjá. Þau hafi ekki getað rætt saman um málefni barnsins og henni hafi ekki tekizt að ná samkomulagi við stefnda um atriði, sem varði hagsmuni barnsins, s.s. forsjárskipan, umgengni og skiptingu framfærslukostnaðar. Það sé því engin leið að láta hagsmuni barnsins ráðast af sameiginlegri forsjá.
Krafa stefnanda um forsjá byggist jafnframt á því, að hún geti boðið barninu upp á traust og öruggt heimili. Hún geti vel annazt framfærslu sína og barnsins með vinnu og standi vel að umönnun barnsins, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Auk þess njóti stefnandi góðs stuðnings samstarfsfólks síns og þeirra fagaðila, sem hafi komið að málum aðila, s.s. hjá velferðarsviði. Stefnandi geti þannig vel tryggt bæði félagslega og fjárhagslega velferð barnsins.
Krafa stefnanda um greiðslu stefnda á meðlagi með barninu byggist á lögbundinni framfærsluskyldu stefnda samkvæmt ákvæðum barnalaga og því, að hann sé með mun hærri tekjur en stefnandi. Heildartekjur stefnda á mánuði séu, eftir því sem stefnandi viti best, yfir kr. 400.000 á mánuði, og sé hann því vel fær um að greiða tvöfalt meðlag. En heildartekjur stefnanda séu aðeins um kr. 150.000 á mánuði, og því þurfi hún á meðlagsgreiðslum frá stefnda að halda til að sinna framfærslu barnsins.
Stefnandi byggi kröfu sína á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003, einkum VI. kafla, svo og á ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993 og sé vísað til 114. gr. þeirra laga um varnarþing og lögsögu dómsins. Krafa um málskostnað sé byggð á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. l. nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir kröfur sínar um forsjá barnsins á því, að tengsl þess við hann séu þess eðlis, að það muni best þjóna hagsmunum þess, verði honum falin forsjáin. Hann hafi ekki komið minna að umönnun telpunnar en stefnandi. Fljótlega eftir fæðingu telpunnar hafi stefnandi farið að vinna úti og hafi það þá komið í hlut stefnda að sjá um daglega umönnun hennar, meðan móðirin vann helgar- og næturvaktir. Það sé ljóst, að aðilar málsins hafi báðir unnið mikið utan heimilis og oft á mismunandi tímum. Því sé haldið fram, að stefndi hafi komið að minnsta kosti jafn mikið að umönnun telpunnar og stefnandi og jafnframt, að inntak umönnunar hans hafi verið innihaldsríkara og meira á forsendum barnsins.
Stefndi byggi kröfu sína um forsjá telpunnar á því, að hann sé mun hæfari til að fara með forsjána, enda sé hann í mun betra jafnvægi en stefnandi. Hann sé almennt rólegur og traustur og sé betur í stakk búinn til að sinna uppeldi hennar. Hann hafi skilning á þörfum hennar og geri sér grein fyrir því sem telpunni sé fyrir bestu. Hann hafi lagt áherzlu á reglusemi með svefntíma, þarfir hennar fyrir samveru með foreldrunum í frístundum og nauðsyn þess, að hún aðlagist íslensku samfélagi, með því að sækja með henni húsdýragarðinn, sundlaugarnar, náttúrugripasafnið, svo eitthvað sé nefnt. Stefnandi hafi þvert á móti talið fjármunum heimilisins betur varið með því að leggja þá til hliðar. Stefndi búi yfir nauðsynlegri rósemi og íhygli til að hlusta á telpuna og þolinmæði til að takast á við þau daglegu vandamál, sem hún glími við. Þannig hafi hann hjálpað henni við að hætta að væta buxurnar, þegar hann var með henni í leyfi sumarið 2007. Stefnandi upplifi telpuna hins vegar oft á tíðum eins og hún væri Þrándur í Götu móður sinnar.
Stefndi byggi kröfu sína um forsjá telpunnar á því, að ytri aðstæður hans séu mun betri en stefnanda. Þannig hafi hann starfað lengi á sama vinnustað, þar sem hann mæti í hvívetna velvild yfirmanna sinna. Þeir taki ríkan þátt í persónulegum áhugamálum stefnda, fjölskyldulífi hans og tengslum hans við dóttur sína. Sveigjanlegur vinnutími, sem stefndi búi við, muni koma sér vel, verði honum falin forsjáin, en hann geti þá sniðið vinnutíma sinn eftir dagskrá hennar. Stefndi sé fjárhagslega vel stæður og geti veitt telpunni það, sem hún þarfnist. Hann sé í alla staði vel í stakk búinn til að mynda þann ramma sem hún þarfnist til að fá að vaxa og dafna. Verði honum falin forsjá telpunnar muni það ekki hafa í för með sér röskun á stöðu og högum hennar. Hún yrði áfram á því heimili, sem hún hafi búið frá fæðingu og þekki. Hún héldi áfram að sofa í herbergi sínu, innan um þá muni, sem hafi verið hluti hennar lífs, allt frá fæðingu. Hún muni halda áfram að vistast á sama leikskóla og síðar skóla hverfisins, þar sem hún muni eflaust hitta fyrir félaga sína frá leikskólanum. Óvissa ríki um framtíðarbúsetu stefnanda. Oft hafi slegið í brýnu með aðilum vegna þess, að stefnandi hafi viljað flytja aftur til Tyrklands. Í máli um opinber skipti til fjárslita milli aðila hafi stefnandi einmitt krafizt þess, að eign þeirra í Tyrklandi verði lögð henni út. Stefndi hafi ríkar ástæður til að ætla, að tilgangur stefnanda með málssókninni sé einkum til þess fallinn að gera henni kleift að flytja heim með telpuna. Forsjá til stefnanda muni hafa í för með sér óásættanlega áhættu fyrir telpuna.
Verði stefnanda falin forsjá telpunnar, sé hætta á tengslarofi dóttur og föður, enda séu líkur til þess, að stefnandi virði ekki rétt telpunnar til umgengni við föður sinn. Allt frá því að stefnandi yfirgaf heimilið þann 21. nóvember 2007 hafi stefndi ekki fengið að hitta dóttur sína. Stefnandi hafi borið ýmsu við, svo sem hræðslu við að hann styngi af til útlanda með barnið. Þegar hún hafi haldið áfram að tálma umgengni eftir að vegabréfið var komið í traustar vörslur lögmanns, hafi verið ljóst að það var ekki ástæðan. Um jólin hafi stefndi, með aðstoð lögmanns stefnanda, gert tillögur að jólaumgengni, en stefnandi hafi ekki séð ástæðu til að leyfa barninu að hitta föður sinn um jólin. Í máli um bráðabirgðaforsjá, sem tekið var fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 10. janúar 2008, hafi verið gengið frá samkomulagi um sameiginlega forsjá aðila og umgengni telpunnar við föður sinn aðra hverja helgi, í fyrsta sinn helgina 25.-27. janúar 2008. Þetta samkomulag hafi stefnandi brotið, þrátt fyrir að lögmaður hennar hafi staðið að því. Líkur séu til þess að telpan hafi þegar orðið fyrir áfalli vegna tengslarofsins, enda hafi stefndi fregnað, að barnið sé hreint ekki með sjálfu sér. Það sé orðið daprara, hljóðlátara og fáskiptara en það hafi átt vanda til.
Verði stefnanda falin forsjá telpunnar sé lagt til, að umgengni hennar við stefnda verði með eftirfarandi hætti: Telpan dvelji með föður sínum aðra hverja viku, frá mánudegi til mánudags. En til vara, að hún dvelji hjá föður sínum frá miðvikudegi til mánudags aðra hverja viku. Þá viku, sem telpan dvelji ekki hjá föður sínum, gisti hún eina nótt hjá honum, þannig að stefndi sæki hana eftir skóla á þriðjudegi og fari með hana aftur í skólann á miðvikudagsmorgni.
Krafan um forsjá sé reist á V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 31. gr., sbr. 34. gr. Í 2. mgr. 34. gr. sé kveðið á um, að dómari skuli ákveða hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni sé fyrir bestu. Þá sé byggt á barnalögum í heild, svo og meginreglum þeirra og undirstöðurökum. Krafan um umgengni sé reist á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, en þar sé mælt fyrir um, að dómari skuli, að kröfu annars foreldris eða beggja, kveða á um inntak umgengnisréttar barns og foreldris, eftir því sem barni sé fyrir bestu, en í 46. gr. s.l. sé kveðið á um rétt barns til á að umgangast með reglubundum hætti það foreldra sinna, sem það búi ekki hjá. Krafan um greiðslu einfalds meðlags sé reist á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 6 . mgr. 57. gr. s.l., en samkvæmt 2. mgr. 57. gr. sé gert ráð fyrir, að meðlag skuli ákveðið með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Krafan um málflutningsþóknun sé byggð á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur, og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.
IV
Forsendur og niðurstaða
Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi, sem og matsmaðurinn, B, og vitnin, C, D og E.
Aðilar í máli þessu eru báðir ættaðir frá Tyrklandi, en fluttust til Íslands fyrir um 8 árum síðan. Er dóttir þeirra fædd hér á landi.
Stefnandi byggir kröfur sínar um forsjá á því, að það sé barninu fyrir bestu, að hún fari með forsjána, m.a. vegna þess að hún hafi annast barnið meira en stefndi frá fæðingu þess og það tengist henni meira en honum.
Stefndi byggir kröfur sínar á því m.a., að hann sé hæfari en stefnandi til að fara með forsjána, og kveður rangt, að hann hafi komið minna að umönnun barnsins en stefnandi. Þá sé hann í betra jafnvægi en stefnandi og ytri aðstæður hans séu betri en stefnanda.
Samkvæmt matsgerð B sálfræðings er barnið í góðum tengslum við báða foreldra sína. Kemur fram, að báðir foreldrar eru hæfir uppalendur, en niðurstaða matsmannsins er sú, að móðirin hafi betra innsæi í þarfir telpunnar en faðirinn. Segir svo í niðurstöðu matsins: „Báðir foreldrar lýsa yfir innilegri væntumþykju í garð barnsins og engar forsendur eru til að efast um jákvæðar tilfinningar þeirra. Þau gera bæði mikið með henni og hafa ánægju af samverustundum þeirra. Móðir talar íslensku og styrkir það stöðu hennar gagnvart skólanámi stúlkunnar. Hún getur betur aðstoðað hana í náminu og sinnt samstarfinu við skólann sem matsmaður telur mikilvægt í ljósi hegðunarörðugleika stúlkunnar. Það veikir stöðu föður að geta ekki talað málið og er því í lakari stöðu til að sinna skólanámi og taka leiðbeiningum varðandi hegðun hennar. Móðir hefur betra innsæi í þarfir stúlkunnar, bæði í dag og framtíðarþarfir hennar. Að mati matsmanns sýnir það skort á innsæi í þarfir stúlkunnar, að faðir láti hana ekki vera í barnabílstól í bílnum og taki hana enn þá með sér í karlaklefann í sundi. Matsmaður telur báða foreldra hæfa til að sinna líkamlegum þörfum barnsins, en móður hæfari til að sinna andlegum þörfum hennar og að aga hana.“
Matsgerðin var byggð á viðtölum við málsaðila, sem fram fóru á sálfræðistofu matsmanns. Í viðtali við föður var túlkur viðstaddur. Þá voru foreldrarnir heimsóttir, þegar telpan var heima, en heimsóknin til föður var án aðstoðar túlks. Þegar matsmaður var inntur eftir því fyrir dómi, á hverju hún dragi þá ályktun, sem fram kemur í matsgerðinni, að faðir ætti ekki eins auðvelt með að setja telpunni mörk og móðirin, svaraði hún því, að þegar hún fór í heimsókn til stefnda, hafi stefndi beðið telpuna um að hætta að sprauta vatni úr slöngu úti við húsið, en barnið hafi ekki sinnt því. Faðirinn hafi þá ekki fylgt banninu eftir en einungis brosað að barninu.
Dómurinn telur hæpið að hrapa að þeirri ályktun, sem matsmaður komst að við þetta tækifæri, ekki síst í ljósi þess, að faðirinn talar ekki íslensku og matsmaðurinn skilur ekki tyrknesku, en enginn túlkur var viðstaddur þessa heimsókn.
Þá kemur fram í matsgerð, að staðhæfingar um, að faðir láti barnið ekki vera í barnabílstól í bílnum, séu hafðar eftir móðurinni, en ekki liggur fyrir staðfesting á því í málinu. Fram kemur reyndar í lögregluskýrslu og er haft eftir barninu, að faðirinn og barnið sjálft gleymi stundum að festa bílbeltið, en ekki liggur fyrir staðfest í málinu, að faðirinn hafi ekið með barnið óbundið. Faðirinn skýrði svo frá fyrir dómi, að telpan færi ekki lengur með honum í karlaklefa í sundi. Verður ekki annað ráðið af matsgerð en að bæði framangreind atriði hafi haft áhrif á niðurstöðu matsmanns um það, að faðirinn væri síður hæfur en móðirin.
Dómari fellst á það með matsmanni, að foreldrar séu báðir hæfir uppalendur. Það er hins vegar mat dómara, að það styrki stöðu móðurinnar, eins og jafnframt kemur fram í mati hins dómkvadda matsmanns, að móðirin hefur ágætt vald á íslensku og virðist skilja hana allvel, en hins vegar hefur faðirinn, á þeim 8 árum, sem hann hefur dvalist á Íslandi, ekki náð tökum á málinu að nokkru marki. Hann virðist hvorki tala né skilja málið. Þannig er móðirin mun betur í stakk búin að sinna daglegum þörfum telpunnar, hvað við kemur umgengni við félaga hennar og foreldra þeirra, sem og í öllu sambandi við kennara telpunnar og skólayfirvöld og eftir atvikum lækna, eða aðra þá aðila, sem koma að málefnum telpunnar. Telur dómurinn, að þetta atriði hafi afgerandi áhrif á niðurstöðu í máli þessu.
Enda þótt faðirinn búi á bernskuheimili telpunnar, þá er nú í rúmt ár síðan hún átti þar fast heimili, og hefur hún nú búið síðastliðna fjóra mánuði með móður sinni að [...]. Er heilt ár langur tími í lífi sex ára barns, og er því ekki fallizt á þau rök stefnda, að tengsl við heimili föður séu sterkari en við það heimili, sem barnið býr á núna, þannig að niðurstaða í forsjárdeilu foreldra geti ráðist af því.
Stefndi hefur vísað til þess, að stefnandi muni hafa í hyggju að flytja með telpuna til Tyrklands, fái hún forræðið. Dómari telur ekki efni til þess að líta til málsástæðu, sem byggist á einhverjum atvikum, sem kunni að gerast í framtíðinni.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómara, að forsjá telpunnar sé betur komið hjá stefnanda.
Stefnandi krefst tvöfalds meðlags með telpunni frá 1. desember 2007 til fullnaðs 18 ára aldurs hennar. Stefndi hefur hafnað kröfu um tvöfalt meðlag og telur einfalt meðlag hæfilegt.
Í málinu hafa engin gögn verið lögð fram um tekjur aðila, en stefndi hefur ekki mótmælt fullyrðingu stefnanda í stefnu um launatekjur hans. Þá hefur hann haldið því fram og teflt því m.a. fram sem rökum fyrir því, að hann sé betur í stakk búinn til að hafa forsjána, að hann sé vel stæður og geti veitt telpunni það, sem hún þarfnist og í samtali við matsmann, sem tekið var í júlímánuði sl. sumar, kemur fram, að tekjur hans þá hafi verið u.þ.b. 300.000 krónur á mánuði eftir skatta. Honum hefði verið í lófa lagið að leggja fram skattframtöl eða launaseðla til að sanna tekjur sínar, telji hann þær ekki bera tvöfalt meðlag. Það hefur hann hins vegar ekki gert. Þykir því rétt að verða við kröfu konunnar um tvöfalt meðlag, eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma, frá 1. desember 2007 til fullnaðs 18 ára aldurs telpunnar.
Stefndi krefst þess, að umgengni hans við telpuna verði ákveðin þannig, að telpan dveljist hjá föður sínum aðra hverja viku, frá mánudegi til mánudags, en til vara frá miðvikudegi til mánudags aðra hverja viku. Þá viku, sem hún dvelji ekki hjá föður sínum, gisti hún eina nótt hjá honum, þannig að hann sæki hana eftir skóla á þriðjudegi og fari með hana aftur í skólann á miðvikudagsmorgni.
Þegar litið er til þeirra forsendna, sem forsjárákvörðunin byggist á, þykir ekki unnt að fallast á aðalkröfu stefnanda um umgengni, en hins vegar má fallast á varakröfuna þannig, að telpan dvelji hjá föður sínum aðra hverja viku frá miðvikudegi eftir skóla og fram að skólatíma á mánudeginum næsta á eftir. Dómari telur hins vegar ekki rétt, að taka til greina kröfu um, að telpan dvelji að auki eina nótt hjá stefnda þá viku, sem hún er ekki í umgengni hjá honum samkvæmt því sem að framan greinir, og telur að slíkt fyrirkomulag geti komið of miklu róti í tilveru telpunnar. Auk hinnar reglulegu umgengni skal telpan dvelja hjá föður í fjórar vikur í sumarleyfi, allt eftir nánara samkomulagi við móður. Umgengni um jól og áramót verði þannig háttað, að annað hvert ár dvelji telpan hjá föður um jól, og dvelji þá hjá móður um áramót það ár, og öfugt. Umgengni um páska fellur inn í hina reglulegu umgengni.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og ákveðst kr. 1.200.000, þar með talinn útlagður kostnaður, kr. 15.545. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn
Dómsorð
Stefnandi, K, skal hafa forsjá dóttur aðila, A.
Stefndi, M, greiði tvöfalt meðlag með telpunni, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, frá 1. desember 2007 til fullnaðs 18 ára aldurs hennar.
Umgengni stefnda við telpuna skal háttað svo: Telpan skal dvelja hjá stefnda aðra hverja viku frá miðvikudegi eftir skóla og fram að skólatíma á mánudeginum næsta á eftir. Þá skal hún dvelja hjá stefnda í fjórar vikur í sumarleyfi, allt eftir nánara samkomulagi við stefnanda. Umgengni um jól og áramót verði þannig háttað, að annað hvert ár skal telpan dvelja hjá stefnda um jól og dvelja þá hjá stefnanda um áramót það ár, og öfugt. Umgengni um páska fellur inn í hina reglulegu umgengni.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 1.200.000, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. útlagður kostnaður, kr. 15.545.