Hæstiréttur íslands

Mál nr. 552/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Viðurlagaákvörðun
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. janúar 2003.

Nr. 552/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Guðna Elíassyni

(enginn)

 

Kærumál. Viðurlagaákvörðun. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Ríkissaksóknari kærði viðurlagaákvörðun sem G gekkst undir 23. október 2002 til Hæstaréttar. Í rökstuðningi fyrir kærunni vísaði hann til þess að við meðferð málsins hafi sækjanda og héraðsdómara ekki verið kunnugt um að G hafi gengist undir viðurlög 17. október 2002 hjá sýslumanninum á Selfossi, enda hafi vitneskja um það ekki fengist fyrr en með tilkynningu til sakaskrár í nóvember sama árs. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem þriggja sólarhringa kærufrestur var löngu liðinn, en vitneskja ríkissaksóknara um ákvörðun viðurlaga G hafi legið fyrir í beinu framhaldi af tilkynningu um hina kærðu ákvörðun til sakaskrár í lok október 2002.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2002 um viðurlög varnaraðila í máli ákæruvaldsins á hendur honum. Af hálfu ákæruvalds er um kæruheimild vísað til 2. mgr. 124. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og þess krafist að viðurlagaákvörðun héraðsdómara verði ónýtt.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Lögreglustjórinn í Reykjavík höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila með ákæru 7. október 2002, þar sem honum var gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið tiltekinni bifreið 9. september sama árs undir áhrifum áfengis. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 23. október 2002. Varnaraðili mætti á dómþingi og gekkst við broti sínu. Færði héraðsdómari í þingbók að sækjandi hafi þá lagt til að málinu yrði lokið með viðurlagaákvörðun samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 19/1991. Hafi varnaraðili samþykkt þau viðurlög, sem sækjandinn lagði til, og dómari talið þau hæfileg. Málinu var því lokið með þeirri ákvörðun að varnaraðili skyldi greiða 130.000 krónur í sekt en sæta ella fangelsi í 24 daga, hann skyldi sviptur ökurétti í eitt ár og greiða 12.500 krónur í sakarkostnað. Ríkissaksóknari kærði þessa ákvörðun til Hæstaréttar. Í rökstuðningi fyrir kærunni vísaði hann til þess að við meðferð málsins hafi sækjanda og héraðsdómara ekki verið kunnugt um að varnaraðili hafi gengist undir viðurlög 17. október 2002 hjá sýslumanninum á Selfossi, enda hafi vitneskja um það ekki fengist fyrr en með tilkynningu til sakaskrár í nóvember sama árs. Hafi því ekki verið tekið tillit til þessara málaloka frá 17. október 2002 við viðurlagaákvörðunina, sem ekki samrýmist þeim, einkum að því er varði upphaf sviptingartíma ökuréttar. Hafi viðurlög varnaraðila því orðið fjarstæð.

Meðal gagna málsins fyrir Hæstarétti er tilkynning frá héraðsdómaranum, sem tók hina kærðu ákvörðun, til sakaskrár ríkisins 25. október 2002, þar sem koma fram upplýsingar um meðferð málsins og lyktir þess. Vegna þessarar tilkynningar lá í beinu framhaldi af þessu fyrir vitneskja við embætti ríkissaksóknara um ákvörðun viðurlaga varnaraðila. Samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 er kærufrestur þrír sólarhringar frá því að kæranda varð kunnugt um þá úrlausn, sem hann vill kæra. Gildir sá frestur meðal annars um slíka kæru ríkissaksóknara, sem um ræðir í 2. mgr. 124. gr. sömu laga, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 2. september 2002 í máli nr. 311/2002. Kæra í máli þessu barst Héraðsdómi Reykjavíkur 12. desember 2002. Með því að kærufrestur var samkvæmt framansögðu þá löngu liðinn verður að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2002

                   Ár 2002, miðvikudaginn 23. október, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur sett og haldið í Dómhúsinu við Lækjartorg af Jóni Finnbjörnssyni héraðs­dómara.  Fyrir er tekið: Sakamálið nr. 3139/2002: Ákæruvaldið gegn Guðna Elíassyni

   Lagt er fram: [...]

   Af hálfu ákæruvaldsins sækir þing Sturla Þórðarson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

   Kl. 10.00 mætir í dóminn ákærði, Guðni Elíasson, kt. 300161-3919, Sogavegi 123, Reykjavík.

   Sækjandinn gerir grein fyrir ákæru.

   Gætt er ákvæða 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991.

   Ákærði óskar ekki eftir að halda uppi vörnum í málinu og óskar ekki eftir að sér verði skipaður verjandi. Ákærði játar að hafa framið það brot sem hann er ákærður fyrir og kveður atvikalýsingu í ákæru rétta. 

   Brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.            

   Sækjandi leggur til að málinu verði lokið með viðurlagaákvörðun dómara samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 19/1991.  Ákærði samþykkir þau viðurlög sem sækjandi leggur til og telur dómari þau hæfileg.  Málinu er lokið með þessari

Á k v ö r ð u n

   Ákærði, Guðni Elíasson, greiði 130.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, en sæti ella fangelsi í 24 daga.

   Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá deginum í dag að telja. 

   Ákærði greiði 12.500 krónur í sakarkostnað. 

  Ákærði kveðst ekki vera með ökuskírteini meðferðis.