Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dómstóll
- Gerðardómur
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði snýst ágreiningur aðila um uppgjör varnaraðila á andvirði svokallaðs bílskúrsréttar sóknaraðila í samræmi við samning þeirra frá júlí 1992. Samkvæmt 5. gr. samningsins gat sóknaraðili sagt upp umræddum réttindum með þriggja mánaða fyrirvara og skyldi varnaraðili þá endurgreiða sóknaraðila andvirði þeirra eftir nánar tilgreindum forsendum. Í sömu grein var jafnframt mælt fyrir um að kæmi upp ágreiningur um matsverðið þá „skulu matsmenn, einn tilnefndur af sýslumanninum í Kópavogi, einn af Sunnuhlíð og byggingafulltrúinn í Kópavogi ákvarða endurgreiðslufjárhæð skv. ofangreindum reglum. Niðurstaða matsmanna er endanleg ákvörðun um endurgreiðsluverð til rétthafa eða erfingja þeirra.“
Sóknaraðili sagði upp samningi aðila með bréfi 25. febrúar 2013 og krafði varnaraðila jafnframt um „endurgreiðslu bílskúrsréttar við fyrsta tækifæri“ auk útreikninga sem lægju henni til grundvallar. Í bréfi varnaraðila sama dag var slíkan útreikning að finna og á grundvelli hans bera gögn málsins með sér að varnaraðili hafi endurgreitt sóknaraðila ætlað verðmæti bílskúrsréttarins. Með bréfi 17. maí 2013 staðfesti sóknaraðili móttöku þeirrar greiðslu en mótmælti jafnframt fjárhæð hennar sem of lágri. Þann 12. júlí 2013 var að beiðni sóknaraðila dómkvaddur maður til að meta eftir sex mismunandi leiðum verðmæti umrædds bílskúrsréttar. Varnaraðili mótmælti matsspurningunum með vísan til þess að þær samræmdust ekki þeirri uppgjörsaðferð sem samningur aðila kvæði á um. Matsgerðin lá fyrir 17. maí 2014 og með bréfi 30. júní sama ár krafði sóknaraðili varnaraðila um eftirstöðvar verðmætis bílskúrsréttarins samkvæmt matsgerðinni. Þeirri kröfu hafnaði varnaraðili með bréfi 15. júlí 2014 og vísaði þar til þess að uppgjör hefði þegar farið fram af hans hálfu í samræmi við fyrirmæli samningsins. Höfðaði sóknaraðili síðan mál þetta til heimtu umræddra eftirstöðva 18. nóvember 2014. Krafðist varnaraðili frávísunar málsins frá héraðsdómi, sbr. 24. gr. laga nr. 91/1991, og byggði þá kröfu á því að aðilar hefðu með tilvitnuðu fyrirkomulagi 5. gr. samnings þeirra frá júlí 1992 samið um hvernig fara skyldi með ef ágreiningur risi um fjárhæð endurgreiðslu andvirðis bílskúrsréttar. Var fallist á frávísunarkröfu varnaraðila í hinum kærða úrskurði.
II
Af málatilbúnaði sóknaraðila í héraði verður ráðið að ekki var gerð krafa um að umrætt ákvæði 5. gr. samnings aðila frá júlí 1992 um fyrirkomulag við úrlausn ágreinings um ákvörðun endurgreiðsluverðs bílskúrsréttar yrði ógilt, því vikið til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða að ákvæðið hafi ekki af öðrum ástæðum verið skuldbindandi fyrir hann. Í niðurlagi kæru til Hæstaréttar byggir sóknaraðili fyrst á því að fyrirkomulag 5. gr. samnings aðila brjóti í bága við lög og sé ekki bindandi fyrir sig og er 36. gr. laga nr. 7/1936 meðal annars tilgreind í því sambandi. Þessi málsástæða, sem ekki kom fram undir rekstri málsins í héraði, fær ekki komist að í málinu fyrir Hæstarétti enda standa ekki til þess skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
III
Eins og fram kemur í 5. gr. tilvitnaðs samnings aðila frá júlí 1992 var það fyrst þegar ágreiningur varð staðreyndur með aðilum að reyndi á þá málsmeðferð sem þar er mælt fyrir um. Slíkur ágreiningur kom ekki fram fyrr en ljóst var hvaða fjárhæð varnaraðili var reiðubúinn til þess að inna af hendi, sbr. bréf hans frá 25. febrúar 2013. Í framhaldi af því veitti sóknaraðili viðtöku greiðslu í samræmi við þann útreikning en mótmælti jafnframt fjárhæðinni sem of lágri og hafði uppi kröfu um frekari greiðslu. Á því stigi bar aðilum að beina málinu í þann farveg úrlausnar sem umsaminn var samkvæmt nefndri 5. gr. Þess í stað fékk sóknaraðili dómkvaddan mann til að meta andvirði bílskúrsréttarins og höfðaði síðan mál þetta til heimtu fjárkröfu á grundvelli þess mats. Með hliðsjón af því er ekki unnt að fallast á að varnaraðili hafi með athöfnum sínum fyrirgert rétti til þess að byggja á því að um ákvörðun endurkaupsverðs bílskúrsréttar beri að fara þá leið sem umsamin var í 5. gr. samningsins frá júlí 1992.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að semja svo um að úrlausn ágreiningsefna eigi ekki undir dómstóla heldur verði leyst úr þeim eftir öðrum leiðum. Sætir sú heimild ekki sérstökum takmörkunum samkvæmt nýnefndri lagaheimild. Sú leið að semja um að ágreiningur skuli lagður í gerð, sbr. lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, er ein þeirra sem tæk er í því sambandi. Fyrrgreint ákvæði 5. gr. samnings aðila frá júlí 1992 um fyrirkomulag málsmeðferðar við úrlausn ágreinings um ákvörðun á verðmæti bílskúrsréttar uppfyllir ekki að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru á grundvelli laga nr. 53/1989, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra, þar sem meðal annars er mælt fyrir um að skýrt skuli koma fram í samningi aðila að um gerðarsamning sé að ræða. Þá er sú tilhögun óvenjuleg og ekki í samræmi við það sem almennt viðgengst við gerðardómsmeðferð að annar málsaðila hafi ekki sjálfstæða heimild til þess að tilnefna af sinni hálfu fulltrúa í gerðardóminn. Hvað sem þessu líður verður, sem fyrr greinir, að telja að sú tilhögun sem umsamin var samkvæmt 5. gr. umrædds samnings aðila eigi sér allt að einu næga stoð í fyrrgreindri heimild 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Sé ekki á annan veg samið standa jafnframt rök til þess að við úrlausn ágreinings með þeim hætti og eftir því sem tilefni er til sé stuðst við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í lögum nr. 53/1989. Að öllu framangreindu virtu verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, dánarbú Ingibjargar Sæmundsdóttur, greiði varnaraðila, Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 2015.
Mál þetta var þingfest 3. desember 2014 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 10. mars sl. Stefnandi er dánarbú Ingibjargar Sæmundsdóttur, Hlynsölum 1, Kópavogi, en stefndi er Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.400.405 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. maí 2013 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 954.528 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. maí 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi en til vara krefst stefndi sýknu af dómkröfum stefnanda. Til þrautavara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá er af hálfu stefnda krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
I
Stefndi byggir og rekur íbúðir fyrir aldraða við Kópavogsbraut í Kópavogi. Geta einstaklingar, að uppfylltum nánari skilyrðum, tryggt sé svokallaðan íbúðarrétt þar með því að gera íbúðarréttarsamning við stefnda og greiða umsamið íbúðarréttargjald. Stefndi byggir einnig og rekur bílskúra sem íbúar geta tryggt sé nýtingarrétt á með sambærilegum hætti, svokallaðan bílskúrsrétt.
Mál þetta snýst um slíkan bílskúrsrétt en Ingibjörg Sæmundsdóttir og eiginmaður hennar, Lárus Halldórsson, sem bæði eru látin, gerðu samning við stefnda um bílskúrsrétt í ágúst 1992 varðandi bílskúr að Kópavogsbraut 1b, Kópavogi. Snýst ágreiningur aðila um uppgjör samkvæmt samningnum.
Efni samningsins er nánar þannig að gjald fyrir bílskúrsréttinn var 1.700.000 krónur er samningurinn var gerður árið 1992 en jafnframt skyldi greiða 2.300 krónur á mánuði í hússjóð til rekstrar og viðhalds bílskúrsins með nánar tilgreindum verðbreytingum. Bílskúrsréttarhafi gat sagt samningi upp með þriggja mánaða fyrirvara. Skyldi stefndi þá endurgreiða rétthafa framlag hans sem var verðtryggt með byggingarvísitölu en án vaxta. Taka skyldi einnig tillit til ástands bílskúrsins og til hæfilegrar fyrningar. Síðan segir í 5. gr. samningsins, og um það ákvæði hans er deilt í þessum þætti málsins: „Verði ágreiningur um endurgreiðsluverð skulu matsmenn, einn tilnefndur af Sýslumanni í Kópavogi, einn af Sunnuhlíð og byggingafulltrúinn í Kópavogi ákvarða endurgreiðslufjárhæð samkvæmt ofangreindum reglum. Niðurstaða matsmanna er endanleg ákvörðun um endurgreiðsluverð til rétthafa eða erfingja þeirra“.
Stefnandi sagði upp samningi aðila 25. febrúar 2013 og af því tilefni var endurgreiðsla bílskúrsréttarins reiknuð út af hálfu stefnda. Stefnandi mótmælti þeim útreikningi með bréfi 17. maí 2013 eftir að stefndi hafði greitt stefnanda útreiknaða endurgreiðslufjárhæð ásamt verðbótum. Stefndi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanns með matsbeiðni 18. júní 2013 þar sem óskað var eftir mati á sex mismunandi leiðum til útreiknings á endurgreiðslukröfunni. Stefndi mótmælti matsspurningum með vísan til þess að þær samræmdust ekki þeirri uppgjörsaðferð sem ákvæði samnings aðila kváðu á um og voru mótmæli stefnda bókuð við fyrirtöku málsins 12. júlí 2013. Matsgerð lá fyrir 17. maí 2014 og með bréfi stefnanda 30. júní 2014 var gerð krafa á hendur stefnda á grundvelli matsgerðarinnar. Stefndi hafnaði greiðsluskyldu og taldi að uppgjör hefði farið fram samkvæmt samningi aðila.
II
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að í samningi aðila sé kveðið á um í 5. gr. hvernig með skuli fara ef uppi sé ágreiningur um endurgreiðslufjárhæð við samningslok. Sé þar kveðið á um að þrír aðilar, einn tilnefndur af sýslumanninum í Kópavogi, einn tilnefndur af stefnda og byggingarfulltrúinn í Kópavogi, skuli ákvarða endurgreiðslufjárhæð á grundvelli þeirra reglna sem fram koma í ákvæðinu. Þar sé kveðið á um að niðurstaða þessara úrlausnaraðila sé endanleg um ákvörðun um endurgreiðslufjárhæð. Með vísan til ákvæðis þessa, og þess að um endanlega ákvörðun á endurgreiðslufjárhæð sé að ræða, verði að mati stefnda að líta svo á að um samningsbundinn gerðardóm sé að ræða, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Af 2. gr. laganna leiði að komi fram krafa um frávísun í máli, sem varðar þann ágreining sem undir viðkomandi gerðardóm heyrir, beri að vísa málinu frá dómi, enda bresti dómstóla vald til þess að dæma um það sakarefni sem gerðarsamningur nái til, líkt og komi fram í athugasemdum í greinargerð með því frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 53/1989.
Stefnandi geri ekki kröfu um það í máli þessu að samningur aðila, eða ákvæði hans um endanlega úrlausn ágreinings um endurgreiðslufjárhæð, verði ógiltur eða ákvæðinu vikið til hliðar. Í málatilbúnaði sínum vísi stefnandi til þess að einhvers konar ,,ómöguleiki“ hafi að hans mati staðið í vegi fyrir því að leyst yrði úr ágreiningi aðila með þeim hætti sem samningur þeirra kveður á um. Virðist stefnandi einnig halda því fram að aðferð við skipan matsmanna í samræmi við samning aðila valdi því með einhverjum hætti að niðurstaða þeirra geti ekki orðið réttmæt. Þá vísi stefnandi einnig til þess að stefndi hafi ekki haft frumkvæði að því að leggja ágreining aðila í þann farveg sem samningur aðila kveður á um en að því leyti sé ákveðin þversögn í málatilbúnaði stefnanda. Þrátt fyrir framangreint hafi stefnandi hins vegar ekki gert kröfu um að samningi aðila verði vikið til hliðar hvað þetta varðar. Af því leiði að stefnandi sé bundinn við þá úrlausnaraðferð sem samningur aðila kveði á um og geti ekki einhliða, gegn andmælum stefnda, vikið sér hjá tilvísuðu ákvæði samningsins.
Af hálfu stefnda er því sérstaklega hafnað að skipan gerðardóms samkvæmt samningi aðila geti ekki talist sanngjörn í garð beggja aðila. Ákvæði samningsins um skipun gerðardómsins sé einmitt ætlað að stuðla að því að sanngirni sé gætt, enda sé einn úrlausnaraðili tilnefndur af hlutlausum aðila (sýslumanninum í Kópavogi), einn tilnefndur af stefnda og að auki sé byggingarfulltrúinn í Kópavogi tilnefndur til starfans. Líta beri svo á að þeim síðastnefnda sé einmitt ætlað að gæta hagsmuna rétthafa hverju sinni, stefnanda í þessu tilviki.
Rétt sé að taka fram að umrætt fyrirkomulag hafi verið viðhaft um langt árabil, og raunar allt frá upphafi starfsemi stefnda, án athugasemda af hálfu íbúðarréttarhafa (bílskúrsréttarhafa) og hafi umræddur úrlausnaraðili í fjölmörgum tilvikum leyst úr ágreiningi um endanlega endurgreiðslufjárhæð. Þá sé og rétt að benda á að umrætt samningsákvæði um gerðardóm hafi áður verið með því fyrirkomulagi að í stað byggingarfulltrúans í Kópavogi hafi matsmaður verið tilnefndur af Samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Af hálfu stefnda er á því byggt að sá aðili hafi einnig gætt hagsmuna rétthafa með sama hætti. Telur stefndi þannig í ljós leitt að löng og athugasemdalaus venja sé fyrir framangreindu fyrirkomulagi.
Hafi stefnandi talið að skipan gerðardóms yrði á einhvern hátt óréttmæt, og ekki næðist samkomulag við stefnda um annað, hafi stefnandi alltaf átt kost á því samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 53/1989 að leita til dómstóla varðandi þann ágreining sérstaklega. Að sama skapi hafi stefnandi átt þess einnig kost að leita til dómstóla teldi hann stefnda ekki fullnægja skyldum sínum samkvæmt ákvæðum samnings aðila hvað gerðardóm varðar, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi alltaf átt þess kost að leita til dómstóla telji hann gerðardóm, þegar hann lægi fyrir, á einhvern hátt ógildanlegan með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989. Stefnandi kjósi hins vegar að líta alfarið framhjá ákvæði um gerðardómsúrlausn í samningi aðila.
Með vísan til framangreinds verði að mati stefnda að leggja til grundvallar ákvæði 5. gr. samnings aðila um úrlausn ágreinings um endurgreiðslufjárhæð, enda hafi stefnandi ekki gert formlega kröfu um ógildingu þess ákvæðis eða krafist þess að viðurkennt verði að hann teljist óbundinn af umræddu ákvæði. Í samræmi við 24. gr. laga nr. 91/1991 sé þess því krafist að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi.
Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu stefnda. Hann telur að ágreiningur aðila eigi ekki undir ákvæði laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Þá byggir stefnandi á því í þessum þætti málsins að ákvæði 5. gr. samnings aðila fari í bága við jafnréttisreglu stjórnarskrár og að stefndi hafi sjálfur brotið gegn ákvæði 5. gr. samnings er hann reiknaði einhliða út endurgreiðsluna í stað þess að leita til þeirra aðila sem 5. gr. tiltekur.
III
Eins og framan er rakið snýst ágreiningur aðila um hvort stefnandi sé bundinn af samningi aðila frá því í júlí 1992 sem kveður á um með hvað hætti skuli við samningslok reikna út upphaflegt framlag fyrir bílskúrsréttinn. Samkvæmt samningnum skyldi gjaldið endurgreiðast við samningslok miðað við hækkun byggingarvísitölu en án vaxta. Taka skyldi auk þess tillit til brunabóta- og fasteignamats svo og hæfilegrar fyrningar miðað við nýtt húsnæði. Skilja verður bréf stefnanda 7. desember 2012 þannig að hann hafi verið að óska eftir útreikningi stefnda á endurgreiðsluverði sem stefndi varð við 25. febrúar 2013. Stefnandi undi ekki útreikningi stefnda og fékk dómkvaddan matsmann eins og að framan er rakið.
Í 2. mgr. 5. gr. samnings aðila um bílskúrsrétt segir að verði ágreiningur um endurgreiðsluverð skuli þrír matsmenn, einn tilnefndur af sýslumanni í Kópavogi, einn af Sunnuhlíð svo og byggingafulltrúi í Kópavogi ákveða endurgreiðslufjárhæð samkvæmt ofangreindum reglum. Síðan segir að niðurstaða matsmanna sé endanleg ákvörðun um endurgreiðsluverð til rétthafa eða erfingja þeirra.
Málssókn þessi er reist á framangreindum samningi aðila um bílskúrsrétt. Þessi samningur leggur þá skyldu á aðila að leggja ágreining um útreikning á endurgreiðslu upphaflegs fjárframlags í þriggja manna gerðardóm og samkvæmt samningnum er niðurstaða þessa gerðardóms endanleg ákvörðun um endurgreiðsluverð. Undir þessari skyldu getur stefnandi ekki vikist. Af 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma leiðir að komi fram krafa um frávísun á máli, sem varðar ágreining sem heyrir undir gerðardóm, ber að vísa máli frá dómi, enda brestur dómstóla vald til þess að dæma um það sakarefni sem gerðarsamningur nær til, sbr. athugasemdir við 2. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 53/1989.
Ekki er hald í þeirri málsástæðu stefnanda, sem fram kom í málflutningsræðu, að stefndi hafi ekki veitt atbeina sinn til að gerðardómur gæti tekið til starfa, enda átti stefnandi alltaf þann kost að grípa til þeirra úrræða sem 4. gr. laga nr. 53/1989 heimila.
Samkvæmt framansögðu ber samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 að vísa máli þessu frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, dánarbú Ingibjargar Sæmundsdóttur, greiði stefnda, Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi, 300.000 krónur í málskostnað.