Hæstiréttur íslands
Mál nr. 121/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Virðisaukaskattur
- Kæruheimild
|
|
Miðvikudaginn 16. mars 2011. |
|
Nr. 121/2011. |
Ákæruvaldið (Eyjólfur Ármannsson aðstoðarsaksóknari) gegn X Y og (Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.) Þ (Hólmfríður Kristjánsdóttir hdl.) |
Kærumál. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi felld úr gildi. Virðisaukaskattur. Kæruheimild.
X, Y og Þ, sem sátu í stjórn og framkvæmdastjórn A ehf., sem síðar var tekið til skiptameðferðar, voru meðal annars ákærðir fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með því að hafa á árinu 2008 eigi staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti fyrir félagið. Ákærðu héldu því fram að rannsókn málsins er laut að töpuðum kröfum þrotabúsins hefði ekki verið fullnægjandi. Í héraði var framangreindum ákærulið vísað frá dómi einkum með vísan til þess að ákæruvaldið hefði hvorki fallist á að lækka virðisaukaskattinn sem næmi þeirri fjárhæð sem ákærðu héldu fram að væri töpuð, né aflað gagna undir rekstri málsins sem gerðu dóminum kleift að taka afstöðu til sjónarmiða ákærðu. Hæstiréttur taldi ekki efni til þess að lækka kröfu í ákæru, enda þótt sönnun tækist undir rekstri málsins um að kröfur þb. A ehf. væru glataðar, heldur yrði eftir atvikum að taka tillit til þessara atvika við ákvörðun refsingar. Þá segir í dómi Hæstaréttar að ekki yrði fallist á að rannsókn á umræddum ákærulið væri svo ábótavant að ekki yrði dómur á hann lagður, enda yrði ekki annað séð en að meginástæður þess að vafi léki á um hversu margar kröfur væru tapaðar væri sú staðreynd að ekki væri til réttur og tæmandi listi yfir kröfur þrotabúsins sem hægt væri að leggja til grundvallar við rannsókn á því hverjar þeirra væru tapaðar, auk þess sem fjárhagur skuldara þrotabúsins hefði breyst frá því rannsókn hófst. Þá yrði að hafa í huga ábyrgð stjórnarmanna og framkvæmdastjóra einkahlutafélaga að lögum varðandi reikningsskil. Ákæruliðurinn væri því tækur til efnisúrlausnar eftir atvikum á grundvelli sönnunarreglna um fjárhæð tapaðra krafna, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 10. febrúar 2011 í máli nr. 77/2010. Var lagt fyrir héraðsdómara að taka ákæruliðinn til efnisúrlausnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærð er frávísun í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2010, þar sem vísað var frá dómi fyrsta tölulið ákæru 11. mars 2010, að því er varðar vanskil innheimts virðisaukaskatts, í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að frávísun fyrrgreinds töluliðar þessarar ákæru verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka hann til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess að felld verði úr gildi ákvörðun héraðsdóms um málskostnað í málinu, hvað varðar ákærðu X og Y um að greiða óskipt 2/3 hluta 1.004.000 króna málsvarnarlauna Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði, og hvað varðar ákærða Þ um að greiða helming 1.004.000 króna málsvarnarlauna Hólmfríðar Kristjánsdóttur héraðsdómslögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Varnaraðilar krefjast þess að staðfest verði niðurstaða um frávísun 1. töluliðar ákæru 11. mars 2010. Jafnframt krefjast þeir þess að kröfu sóknaraðila um ákvörðun málsvarnarlauna í frávísunarþætti héraðsdóms 18. febrúar 2010 verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að rannsókn málsins hvað varðar tapaðar kröfur hafi verið fullnægjandi. Leitað hafi verið til skiptastjóra þrotabús A ehf. og aflað upplýsinga frá þeim aðila sem skiptastjóri benti á og fór með kröfur búsins. Rannsókn á töpuðum kröfum hafi lokið með samantekt ríkislögreglustjóra 8. ágúst 2009 sem síðar hafi verið endurskoðuð á rannsóknarstigi mánuði síðar. Loks hafi farið fram á ný rannsókn á töpuðum kröfum meðan málið var til meðferðar fyrir dómi. Séu því uppfyllt skilyrði til þess að leggja efnisdóm á 1. tölulið ákæru 11. mars 2010.
Af hálfu varnaraðila er á það bent að erfitt hafi reynst fyrir þá að afla gagna um tapaðar kröfur þar sem frumrit reikninga hafi ekki fundist og réttur kröfulisti frá þrotabúi A ehf. sé ekki til. Hefðu verjendur því aflað gagna frá öllum þeim bönkum sem tóku við viðskiptakröfum félagsins til að fá heildarsýn yfir kröfur þess. Hefðu varnaraðilar lagt fram í þinghaldi 6. september 2010 skjal sem hafði að geyma yfirlit yfir glataðar viðskiptakröfur. Þá hefðu þeir lagt fram gögn í þinghaldi 21. september 2010 sem gæfu til kynna hvort skuldari væri ógjaldfær eða í greiðsluerfiðleikum. Í því þinghaldi hefði komið fram að erfitt væri fyrir ákæruvaldið að taka afstöðu til gagnanna þar sem ekki væri greint samhengi á milli rannsóknar lögreglu og þeirra gagna sem varnaraðilar hefðu lagt fram. Í þinghaldi 12. október 2010 hefði því verið lagt fram skjal sem hefði að geyma samanburð á ætluðum og töpuðum viðskiptakröfum sem getið væri um í rannsókn lögreglu og þær kröfur sem varnaraðilar töldu að væru tapaðar. Í þinghaldinu hefði verið ákveðið að láta lögreglu rannsaka málið betur að þessu leyti. Hefði ákæruvaldið síðan lagt fram skjal í þinghaldi 28. október 2010 um niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi ekki hirt um að taka afstöðu til gagna varnaraðila og klifað á því að rannsókn lögreglu væri fullnægjandi. Ljóst sé af framlögðum gögnum varnaraðila að rannsókn lögreglu á töpuðum kröfum sé ekki fullnægjandi.
II
Í gögnum málsins kemur fram að af hálfu ríkislögreglustjóra hafi verið óskað eftir því 19. ágúst 2009 við skiptastjóra þrotabús A ehf. að hann upplýsti meðal annars hvort einhverjar þær kröfur sem virðisaukaskattskýrslur félagsins fyrir janúar til og með ágúst 2008 hefðu tapast. Í bréfinu var vísað til þess að fyrrum framkvæmdastjóri félagsins, varnaraðilinn X, hefði tekið fram í skýrslu sinni hjá lögreglu 18. ágúst 2009, að líklega hefðu verið um 300.000.000 krónur útistandandi þegar félagið fór í þrot. Í svari af hálfu skiptastjóra kom fram að SPRON Factoring hf. hefði verið með veð í öllum kröfunum og séð um innheimtu þeirra að langmestu leyti. Því gætu SPRON Factoring hf. eða LM lögmenn sf. gefið upplýsingar um afskrifaðar kröfur. Með bréfi 27. ágúst 2009 var óskað eftir upplýsingum frá SPRON Factoring hf., annars vegar um ætlaðar tapaðar kröfur sem innheimtar hefðu verið í nafni SPRON Factoring hf. og hins vegar í nafni þrotabúsins A ehf. Umbeðnar upplýsingar bárust ríkislögreglustjóra 7. september 2009. Í skýrslu ríkislögreglustjóra 8. september 2009 var komist að þeirri niðurstöðu að fjárhæð tapaðra krafna í skattskyldri veltu næmi 22.349.777 krónum og útskattur af hinum glötuðum kröfum næmi 5.475.690 krónum. Undir rekstri málsins í héraði fól sóknaraðili lögreglu að rannasaka á ný og gera lista yfir tapaðar kröfur þrotabús A ehf. Var af því tilefni aflað upplýsinga frá skiptastjóra um tapaðar kröfur búsins og lagður fram listi yfir þær. Í skýrslu ríkislögreglustjóra 22. október 2010 kemur fram að forsendur hafi verið taldar til þess að telja tapaðar kröfur þrotabúsins nema 41.761.674 króna en virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð hafi verið 8.218.156 krónur.
III
Í forsendum héraðsdóms fyrir frávísun á 1. tölulið ákæru 11. mars 2010 kemur meðal annars fram að ákæruvaldið hafi ekki fallist á að lækka virðisaukaskattinn sem nemi þeirri fjárhæð sem varnaraðilar haldi fram að sé töpuð. Þá hafi ákæruvaldið heldur ekki undir rekstri málsins aflað gagna sem geri dóminum kleift að taka afstöðu til sjónarmiða varnaraðila.
Samkvæmt þágildandi 2. tölulið 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, var seljanda heimilt að draga frá við uppgjör á skattskyldri veltu 80,32% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hefði hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu. Unnt var að neyta þessarar heimildar á því uppgjörstímabili þegar í ljós var leitt að krafa væri töpuð. Heimild til að nýta slíkan frádrátt leysti á hinn bóginn ekki félag undan skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti til samræmis við veltu sína og án tillits til innheimtu útgefinna reikninga, jafnharðan og skatturinn var réttilega kominn á gjalddaga hverju sinni. Ekki verður því fallist á að efni séu til að lækka kröfur í ákæru eins og hér stendur á, enda þótt sönnun takist undir rekstri máls um að kröfur séu glataðar, heldur verði eftir atvikum að taka tillit til þessara atriða við ákvörðun refsingar.
Samkvæmt framansögðu fór fram rannsókn á fjárhæð krafna þrotabús A ehf. sem töldust tapaðar áður en ákæra var gefin út svo og undir rekstri málsins í héraði. Verður ekki fallist á að rannsókn á umræddum ákærulið sé svo ábótavant að dómur verði ekki á hann lagður, enda verður ekki annað séð en að meginástæður þess að vafi leikur á um hversu margar kröfur þrotabúsins séu tapaðar sé sú staðreynd að ekki er til réttur og tæmandi listi yfir kröfur þrotabúsins sem hægt er að leggja til grundvallar við rannsókn á því hverjar þeirra séu tapaðar, auk þess sem fjárhagur skuldara búsins hefur breyst frá því rannsókn hófst. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að stjórnarmenn einkahlutafélaga bera almennt ábyrgð á því að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Þá skal framkvæmdastjóri, sé hann ráðinn, meðal annars annast daglegan rekstur félags og sjá um að bókhald þess sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti, sbr. 2. og 3. mgr. 44. gr. laganna. Umræddur ákæruliður er því tækur til efnisúrlausnar eftir atvikum á grundvelli sönnunarreglna um fjárhæð tapaðra krafna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 77/2010.
Samkvæmt framansögðu verður frávísun 1. töluliðar ákæru 11. mars 2010, í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2010, felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka ákæruliðinn til efnisúrlausnar.
Kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun héraðsdóms um málskostnað í málinu sætir ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt lögum nr. 88/2008 og verður því vísað frá réttinum.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Kröfu sóknaraðila, um að felld verði úr gildi ákvörðun héraðsdóms um málskostnað, er vísað frá Hæstarétti.
Frávísun í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2010, þar sem vísað var frá dómi 1. tölulið ákæru 11. mars 2010, er felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka ákæruliðinn til efnisúrlausnar.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2011.
Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dagsettri 4. september 2009, á hendur,
,,X, kennitala [...],
[...], [...],
Y, kennitala [...],
[...], [...], og
Z, kennitala [...],
[...], [...]
A.
Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins A (áður Ö), kennitala [...], sem ákærði X var stjórnarformaður og prókúruhafi fyrir til 29. maí 2008, ákærði Y framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir og ákærði Z var stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir, með því að hafa:
1. Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna nóvember-desember 2007 til og með mars-apríl 2008, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 12.864.013, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil: |
Vangoldinn VSK: |
|
|
Árið 2007 nóvember-desember
|
kr. 5.937.821
|
kr. 5.937.821 |
|
Árið 2008 janúar-febrúar mars-apríl
|
kr. 259.433 kr. 6.666.759
|
kr. 6.926.192 |
|
|
Samtals:
|
kr. 12.864.013
|
2. Eigi staðið skil á skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilsins febrúar 2008, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna janúar 2007 til og með maí 2008, að undanskildum desember 2008, samtals að fjárhæð kr. 8.384.051, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
Vangoldin staðgreiðsla: |
|
|
Árið 2007 |
|
|
|
ágúst |
kr. 618.752 |
|
|
september |
kr. 1.177.814 |
|
|
október |
kr. 1.584.002 |
|
|
nóvember |
kr. 1.025.883 |
kr. 4.406.451 |
|
|
|
|
|
Árið 2008 |
|
|
|
janúar |
kr. 960.587 |
|
|
febrúar |
kr. 888.964 |
|
|
mars |
kr. 985.135 |
|
|
apríl |
kr. 678.238 |
|
|
maí |
kr. 464.676 |
kr. 3.977.600 |
|
|
Samtals |
kr. 8.384.051 |
Framangreind brot ákærðu samkvæmt ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ríkislögreglustjóri gaf hinn 11. mars 2010 út ákæru á hendur,
,,X, kennitala [...],
[...], [...],
Y, kennitala [...],
[...], [...], og
Þ, kennitala [...],
[...], Reykjavík,
fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins Ö, kennitala [...], sem ákærði X var stjórnarformaður fyrir til 8. ágúst 2008 en frá þeim degi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi, ákærði Y var stjórnarmaður fyrir til 8. ágúst 2008 en frá þeim degi stjórnarformaður og prókúruhafi, og ákærði Þ var framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir til 8. ágúst 2008, með því að hafa:
1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2008 og eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2008, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 50.412.060, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil:
|
Vangoldinn VSK: |
|
|
Árið 2008 janúar-febrúar mars-apríl maí-júní júlí-ágúst
|
kr. 8.054.008 kr. 19.283.337 kr. 14.600.455 kr. 8.474.260 |
|
|
Samtals: |
kr. 50.412.060
|
|
2. Eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna maí, júní og ágúst 2008, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna febrúar til og með ágúst 2008, samtals að fjárhæð kr. 41.400.472 hvað varðar ákærða Y, samtals að fjárhæð kr. 41.622.078 hvað varðar ákærða X og samtals að fjárhæð kr. 34.471.266 hvað varðar ákærða Þ, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
Vangoldin staðgreiðsla hvað varðar Y: |
Vangoldin staðgreiðsla hvað varðar X: |
|
Árið 2008 |
|
|
|
febrúar |
kr. 8.957.293 |
kr. 8.957.293 |
|
mars |
kr. 7.479.764 |
kr. 7.479.764 |
|
apríl |
kr. 6.863.896 |
kr. 6.863.896 |
|
maí |
kr. 6.602.387 |
kr. 6.602.387 |
|
júní |
kr. 5.075.470 |
kr. 5.075.470 |
|
júlí |
kr. 3.639.356 |
kr. 3.750.159 |
|
ágúst |
kr. 2.782.306 |
kr. 2.893.109 |
|
Samtals |
kr. 41.400.472 |
kr. 41.622.078 |
|
Greiðslutímabil: |
Vangoldin staðgreiðsla hvað varðar Þ: |
|
|
Árið 2008 |
|
|
|
febrúar |
kr. 8.738.197 |
|
|
mars |
kr. 7.260.929 |
|
|
apríl |
kr. 6.795.828 |
|
|
maí |
kr. 6.602.387 |
|
|
júní |
kr. 5.073.925 |
|
|
Samtals |
kr. 34.471.266 |
|
Framangreind brot ákærðu samkvæmt ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Verjandi ákærðu X og Y krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, verði greidd úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Þ krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Z krefst sýknu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins
Ákæra dagsett 4. september 2009
A
1. Ákærði X kvað stöðu sinni hjá fyrirtækinu rétt lýst í inngangskafla ákærunnar.
Ákærði gaf tvisvar sinnum skýrslu fyrir dómi um þetta sakarefni. Spurður við síðari skýrslutökuna um vanskil innheimts virðisaukaskatts sem hér er ákært út af kvað ákærði fjárhæðirnar í ákæru vera í samræmi við skilagreinar vegna virðisaukaskatts en hins vegar vanti að taka tillit til tapaðra viðskiptakrafna. Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarformaður félagsins uns það fór í þrot og lýsti hann því að félaginu hefði ekki verið formlega slitið vegna þess að reynt var að koma eignum þess í verð. Ákærði kvaðst hafa búið og starfað í Reykjavík og ekki hafa haft eftirlit með því hvort starfsemi félagsins hafi í raun verið hætt en talið svo vera eins og lýst var og talið að ekki yrði öðrum virðisaukaskattsskýrslum skilað en þeim sem sýndu enga veltu. Ákærði kvaðst ekki vita hver stjórnaði verksmiðjunni og rekstrinum eftir þann tíma sem ákærði kvaðst hafa talið að rekstrinum hefði verið hætt í lok september 2007.
Við fyrri skýrslutöku ákærða X fyrir dómi kvað hann stöðu sinni hjá A rétt lýst í ákærunni. Hann hafi verið stjórnarformaður og prókúruhafi til 29. maí 2009. Fyrirtækið hefði framleitt fullbúin [...] og kvaðst ákærði hafa verið stjórnarformaður auk þess að annast tæknilega ráðgjöf um uppsetningu verksmiðjunnar og framleiðslu. Fyrirtækið hafi verið stofnað utan um verkefni á [...] en meðákærði Z hefði útvegað verkefnið þar. B hafi verið framkvæmdastjóri og bókari að nafni C hafi starfað hjá fyrirtækinu. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með störfum þessa fólks sem stjórnarformaður félagsins. Aðeins hefði verið haldinn einn stjórnarfundur árið 2006 og annar sumarið 2007. Ákærði neitaði sök og kvað virðisaukaskattsskuldina sem í ákæru greinir hafa myndast á þeim tíma er fyrirtækið var ekki í neinni starfsemi eða framleiðslu og kvaðst hann ekki getað svarað því hvers vegna ekki var staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti sem hér um ræðir. Ákærða var gerð grein fyrir því að þessi ákæruliður byggðist á rafrænum virðisaukaskattsskýrslum frá fyrirtækinu. Hann kvað ekki tölulegan ágreining um þennan ákærulið en ákærði heldur því fram að fyrirtækið hafi hætt starfsemi um miðjan september 2007 og starfsemi sem var eftir það hafi ekki verið á vegum Ö heldur hafi starfsemin verið á vegum fyrirtækisins D. Ákærði lýsti því að reksturinn hefði tekið að ganga illa um mitt ár 2007. Af þessum sökum kvaðst ákærði hafa ritað tölvupóst til meðákærða Z, föstudaginn 28. september 2007, þar sem fram hafi komið að ákærði vildi loka verksmiðjunni um þau mánaðamót. Meðákærði Z hefði sagt að það tæki eina til tvær vikur að ljúka verkefnum sem félagið vann þá að og taldi ákærði að eftir það yrði starfseminni hætt. Í tölvupóstinum sem hér um ræðir nefnir meðákærði Z að ef leggja eigi félagið niður þurfi væntanlega að boða til stjórnarfundar eins og segir í tölvupóstinum. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa gert það en fljótlega eftir þetta sett fyrirtækið í sölumeðferð og það hafi verið ástæða þess að félaginu var ekki formlega slitið. Skýrði ákærði þetta nánar. Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarformaður til 29. maí 2008 en það hefðu verið mistök sín að segja sig ekki úr stjórninni. Hann kvað meðákærða Z hafa annast allan rekstur eftir þetta, þ.e. um tvær vikur frá tölvupóstsendingunni 28. september 2008. Ákærði kvað sig hafa grunað að rekstur væri í gangi í verksmiðjunni, en hann hafi ekki vitað eða grunað að framleiðsla hefði verið í gangi á kennitölu A. Hann taldi framleiðslu verksmiðjunnar á þessum tíma vera á vegum D og á kennitölu þess. Spurður hvort hann hafi gert sér grein fyrir því að hann bæri ábyrgð á fyrirtækinu sem stjórnarformaður til 29. maí 2009 kvaðst ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir því að rekstur og starfsemi eftir miðjan ágúst 2007 hefði verið á vegum A. Ákærði taldi að virðisaukaskatturinn sem hér um ræðir hefði aldrei verið innheimtur og neitar sök. Síðar neitaði ákærði sök á grundvelli tapaðra viðskiptakrafna og taldi að skattagrunnurinn sem virðisaukaskatturinn væri reiknaður út frá í ákærunni væri rangur.
Ákærði Z kvað stöðu sinni hjá fyrirtækinu rétt lýst í ákærunni. Hann neitaði sök og kvað neitun sína byggjast á því að hann hefði hvorki annast daglegan rekstur fyrirtækisins né haft neitt með hann að gera og hann gæti engu svarað um fjárhæðir í þessum ákærulið. Ákærði kvað aðkomu sína að fyrirtækinu hafa verið í gegnum félagði D sem átti þriðjungshlut í A, en tilgangur ákærða hefði verið að afla verkefna fyrir teiknistofu sína. Ákærði kvaðst ekkert hafa komið að stjórnun A, en ákærðu X og Y önnuðust stjórnun og rekstur fyrirtækisins. Ákærði kvað kennitölu D aldrei hafa komið að framleiðslu í A og vísaði hann til virðisaukaskattsskýrslna um þetta. Spurður hver hafi annast stjórn félagsins eftir miðjan september 2007 ef meðákærði X gerði það ekki eins og hann bar fyrir dóminum, kvaðst ákærði telja að það hafi að mestu verið E framleiðslustjóri. Þetta hefði E gert í tengslum við ákærða X og Y. Allir hefðu vitað að rekstur væri í gangi og meðákærði X hefði vitað af starfsemi í verksmiðjunni veturinn 2007 til 2008.
Y lýsti starfsemi félagsins við smíði [...] og uppsetningu [...]. Hann kvað ekki hafa verið sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við [...]. Hann kvað ákærða Z hafa komið inn í félagið vegna verkefnastöðu hans fyrir [...]. Hann lýsti því að B hefði verið framkvæmdastjóri fram á mitt ár 2007. Y kvaðst hafa talið rekstri félagsins hætt í lok september 2007 eins og ákærði X lýsti og gat hann ekki borið um reksturinn eftir það.
Niðurstaða ákæruliðar A 1
Ákærði Z var stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Hann neitar sök og kvaðst ekkert hafa komið að rekstrinum eins og rakið var. Gegn eindreginni neitun hans hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi komið að daglegri stjórn félagsins á þann hátt að hann beri refsiábyrgð á vanskilum virðisaukaskatts eins og ákært er fyrir. Gegn eindreginni neitun hans er ósannað að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og ber að sýkna hann af þessum kafla ákærunnar.
Ákærði X var skráður stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins þann tíma sem hér um ræðir og bar sem slíkur ábyrgð á skilum virðisaukaskatts. Getur hann ekki borið fyrir sig að aðrir hafi annast reksturinn meðan hann var skráður stjórnarformaður. Vangoldinn virðisaukaskattur samkvæmt skýrslum fyrir þau greiðslutímabil sem hér um ræðir var sá sem í ákæru greinir. Ákærði X bar ábyrgð á skilum virðisaukaskattsins en skilaði ekki og varðar sú háttsemi hans við lagákvæðin sem í ákæru greinir.
A
2. Ákærði X kvaðst hafa talið að starfsemi félagsins hefði verið hætt eftir 31. ágúst 2007 og vísaði hann þá til tölvupósts sem hann sendi meðákærða Z þar um. Kvaðst ákærði hafa talið að eina til tvær vikur tæki að ljúka verkefnum sem voru í gangi og eftir það ætti ekki að vera nein starfsemi í félaginu að hans sögn. Kvaðst hann neita sök á þeirri forsendu að félagið hefði verið hætt starfsemi á þeim tíma sem í þessum ákærulið greinir. Hann kvaðst hafa verið stjórnarformaður félagsins uns það fór í þrot og lýsti hann því að félaginu hefði ekki verið formlega slitið því að reynt hefði verið að koma eigum þess í verð. Ákærði kvaðst hafa búið og starfað í Reykjavík og ekki haft eftirlit með því hvort starfsemi félagsins væri í raun hætt, en talið svo vera eins og lýst var og því talið að engri afdreginni staðgreiðslu væri til að dreifa. Ákærði neitar þannig sök samkvæmt þessum ákærulið. Hann taldi sig ekki bera ábyrgð á rekstrinum sem í þessum ákærulið greinir og kvað engan rekstur hafa verið á því tímabili sem ákæran tekur til. Hann kvað sömu sjónarmið eiga við og varðandi 1. lið ákæru, hann hefði ekki komið að rekstrinum á þessum tíma og kveðst engu geta svarað um fjárhæðir í þessum ákærulið.
Ákærði Z neitar sök og kvað afstöðu sína og neitun byggjast á sömu forsendum og varðandi ákærulið 1. Hann hefði hvorki komið að né annast daglegan rekstur fyrirtækisins og vísaði til sömu sjónarmiða og í 1. lið ákærunnar. Eins og rakið var var þáttur Y skilinn frá og honum lokið sérstaklega á grundvelli skýlausrar játningar hans fyrir dómi.
Niðurstaða ákæruliðar A 2
Ákærði Z var stjórnarmaður og prókúruhafi. Hann neitar sök eins og rakið var og kvaðst ekkert hafa komið að rekstri félagsins. Gegn neitun hans hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi komið að daglegri stjórn félagsins á þann hátt að hann beri refsiábyrgð vegna vanskila á skilagreinum staðgreiðslu, né á vanskilum afdreginnar staðgreiðslu eins og hér er ákært fyrir. Gegn eindreginni neitun hans er ósannað að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna hann af þessum kafla ákærunnar.
Ákærði X var skráður stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins þann tíma sem hér um ræðir og bar sem slíkur ábyrgð á skilum skilagreina og skilum innheimtrar staðgreiðslu, en sannað er með framburði ákærða og gögnum málsins að vanskilin nema þeim fjárhæðum sem í ákærunni greinir og að skilagrein vegna tímabilsins febrúar 2008 var ekki skilað á lögmæltum tíma. Ákærði getur ekki borið fyrir sig að aðrir hafi annast reksturinn meðan hann var skráður stjórnarformaður. Er sannað með framburði ákærða X, sem kvað stöðu sinni rétt lýst hjá fyrirtækinu á þessum tíma, og með öðrum gögnum málsins, m.a. skilagreinum um afdregna staðgreiðslu, að ákærði X hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæra dagsett 11. mars 2010
1. Ákærði Y kvaðst hafa verið stjórnarformaður Ö til 8. ágúst 2008 en frá þeim degi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi. Hann neitar þeirri sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma, en ákærði kvað það ekki hafa verið gert vegna bilaðs tölvukerfis. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað af þessu, en þetta hefði ekki komið í ljós fyrr en við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann hefði því ekki getað brugðist við þessu þar sem hann vissi ekki af vanskilunum. Ákærði gerir ekki athugasemdir við fjárhæðir virðisaukaskatts samkvæmt þessum ákærulið, utan að fjárhæðin kunni að lækka vegna tapaðra viðskiptakrafna og inneignar á virðisaukaskatti en ákærði lýsti því að undir lok rekstrar fyrirtækisins hefði gengið mjög illa að fá kröfur greiddar. Ö hafi verið stofnuð árið 2004 og hafi fyrirtækið annast framleiðslu [...], auk þess að reisa [...] og hafi þeim verið skilað nánast fullbúnum til viðskiptavina. Ö hafi verið stofnuð árið 2005 og Ö hafi leigt A tækin, en um hafi verið að ræða tvö aðskilin fyrirtæki. Hann kvað fjármálastjóra hafa annast skattskil Ö. Spurður hver annaðist eftirlit með skattskilum vísaði hann á meðákærða Þ. Ákærði kvað fjármálastjórann hafa greint frá því að tölvukerfi hefði valdið því að virðisaukaskattsskýrslum hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma eins og ákært er fyrir en ákærði mundi ekki hvernig brugðist hefði verið við þessu og þá hvernig skýrslum hafi verið skilað.
Ákærði X kvað hlutverki sínu hjá Ö rétt lýst í ákærunni. Ákærði kvaðst fyrst hafa vitað af hinum ætluðu vanskilum á virðisaukaskattsskýrslum við skýrslutöku hjá lögreglunni. Hann kvað fjármálastjóra og framkvæmdastjóra hafa átt að annast skil virðisaukaskattsskýrslna en ákærði kvaðst hafa vitað af bilun tölvukerfis er kom að skilum skýrslu vegna eins uppgjörstímabils. Hann hefði ekki vitað að skýrslum hefði verið skilað of seint. Spurður um vanskil innheimts virðisaukaskatts kvaðst ákærði ekki hafa vitað um fjárhæðirnar sem í ákæru greinir. Hann kvað fjárhæðina þar of háa þar sem eftir væri að taka tillit til tapaðra viðskiptakrafna. Spurður um eftirlit með fjármálastjóra fyrirtækisins varðandi skil á virðisaukaskatti og skýrslum kvað ákærði stjórnina hafa fengið skýrslur frá fjármálastjóra fyrirtækisins sem ekki hefðu staðist, en ákærði var stjórnarformaður til 8. ágúst 2008, en frá þeim degi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi. Hann kvað undirbúning hafa verið hafinn við að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu þeirra sem unnu við framleiðsluna og uppsetningu [...] sem framleidd voru en ekki hafi verið sótt um.
Ákærði Þ kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi til 5. ágúst 2008, en ekki til 8. ágúst eins og í ákæru greinir. Hann vísaði í þessu sambandi um starfslok sín til fundar sem fram fór 5. ágúst 2008 og til bréfs sem dagsett er daginn eftir eða 6. ágúst 2008. Hann lýsti starfi sínu hjá fyrirtækinu. Hann kvað skil virðisaukaskattsskýrslu hafa dregist eitt tímabilið í ákæru vegna bilaðs tölvukerfis hjá skattstjóra en hann mundi ekki hvaða tímabil það var. Hann kvaðst hafa talið að skýrsla hefði borist á réttum tíma, en síðar hafi komið í ljós að svo var ekki. Nánar spurður kvaðst hann hafa talið að bilun tölvukerfisins væri hjá innheimtumanni ríkissjóðs en ekki hjá fyrirtækinu sjálfu. Hann kvaðst hafa talið að skýrslum vegna annarra tímabila hefði verið skilað á lögmæltum tíma. Spurður um vanskil innheimts virðisaukaskatts sem í þessum ákærulið greinir tók ákærði fram að hann teldi að skil vegna síðasta tímabilsins júlí og ágúst hefðu ekki verið á sínu verksviði þar sem hann hefði verið hættur störfum. Hann kvað hið sama eiga við um tímabilið maí-júní þar sem skil virðisaukaskatts fyrir það tímabil félli utan þess tíma sem ákærði var framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann kvaðst ekki gera athugasemdir vegna tveggja fyrstu tímabilanna sem í þessum ákærulið greinir, utan að hann teldi að væri að taka tillit til tapaðra viðskiptakrafna. Ákærði kvaðst hafa þurft að bera allar stærri ákvarðanir um greiðslur og fleira undir meðákærðu X og Y og lýsti ákærði því og kvað vald sitt sem framkvæmdastjóra í raun ekkert hafa verið. Hann kvað sér hafa orðið ljóst í maí-júní 2008 að bókhald fyrirtækisins hefði verið langt á eftir er ákærði kom til starfa hjá fyrirtækinu. Þarna hafi fjárhagsstaða fyrirtækisins komið í ljós en eigendur félagsins hafi reiknað með nýju fjármagni í reksturinn, sem ekki hefði orðið af. Hann kvaðst hafa látið eigendur vita af áhyggjum sínum af stöðunni.
Niðurstaða ákæruliðar 1
Undir dómsmeðferð málsins kröfðust verjendur þess að tekið yrði tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglugerðar nr. 449/1990 með síðari breytingum. Fyrir liggur að ekki hefur verið sótt um endurgreiðslu og þá liggur ekkert fyrir í málinu um það hvort lagaskilyrði til endurgreiðslu séu til staðar. Lög standa ekki til þess að tekin verði afstaða til þessa við úrlausn þessa máls.
Ákærðu hafa borið að virðisaukaskattsskýrslum hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma vegna bilaðs tölvukerfis. Ákærði X var stjórnarformaður til 8. ágúst 2008, en frá þeim degi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi. Ákærði Y var stjórnarmaður í félaginu fyrir 8. ágúst 2008, en frá þeim degi stjórnarformaður og prókúruhafi. Ákærði Þ var framkvæmdastjóri og prókúruhafi til 8. ágúst 2008, en tilkynning um afsögn hans barst Hlutafélagaskrá sama dag. Ákærði Þ bar því ekki ábyrgð á vanskilum virðisaukaskattsskýrslna fyrir tímabilið júlí-ágúst 2008. Bilað tölvukerfi leysir ákærðu ekki undan ábyrgð á að skila virðisaukaskattsskýrslum, eins og lög sem vitnað er til í ákærunni áskilja, og bera ákærðu stöðu sinnar vegna hjá fyrirtækinu ábyrgð á þeim skilum eins og í þessum ákærulið greinir, utan ákærði Þ sem er sýknaður af því að bera ábyrgð á skilum virðisaukaskattsskýrslu fyrir tímabilið júlí-ágúst 2008. Gegn neitun ákærðu eru þeir sakfelldir fyrir vanskil virðisaukaskattsskýrslna eins og í ákæru greinir utan ákærði Þ sem sýknaður er af tímabilinu júlí-ágúst 2008. Brot ákærðu að þessu leyti eru rétt færð til refsiákvæða í þessum ákærulið.
Verjendur hafa aflað gagna frá Arion banka um tapaðar kröfur félagsins. Í þeim gögnum er virðisaukaskattur af töpuðum viðskiptakröfum sagður nema meira en 26.000.000 króna. Ákæruvaldið hefur ekki fallist á að lækka virðisaukaskattinn sem nemur þessari fjárhæð m.a. vegna þess að viðhlítandi gögn vanti til að unnt sé að meta þessa fjárhæð til lækkunar. Verjendur fóru upphaflega fram á frávísun málsins m.a. af þeim sökum að ekki hafi verið tekið tillit til tapaðra viðskiptaskulda vegna gjaldþrots eða árangurslauss fjárnáms hjá skuldurum en samkvæmt gögnum málsins eru fyrirtækin sem hér um ræðir ýmist gjaldþrota eða gert hefur verið hjá þeim árangurslaust fjárnám. Frávísunarkröfunni var hafnað og taldi dómurinn að unnt væri að bæta úr þessum annmarka undir rekstri málsins og dæma efnislega um þessi sjónarmið. Ákæruvaldið hefur ekki undir rekstri málsins aflað gagna sem gera dóminum kleift að taka afstöðu til sjónarmiða verjanda og ákærðu um tapaðar viðskiptakröfur. Er málið því ódómtækt að þessu leyti og verður ekki hjá því komist að vísa þessum hluta þessa ákæruliðar að því er varðar vanskil innheimts virðisaukaskatts frá dómi af sjálfsdáðum.
2. Ákærði Y kvað sömu sjónarmið eiga við um vanskil skilagreinar fyrir tímabilin maí, júní og ágúst 2008 og lýst var í fyrsta lið ákæru og kvaðst ekki hafa vitað af bilun tölvukerfisins og ekki frétt af þessu fyrr en löngu síðar. Spurður um vanskil afdreginnar staðgreiðslu kvaðst hann ekki geta rengt fjárhæðina sem í ákæru greinir þar sem hann hefði ekki annast skilin.
Ákærði X kvaðst hafa vitað að skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda hefði í eitt sinn verið skilað of seint vegna bilaðs tölvukerfis. Um önnur tilvik kvaðst ákærði ekki hafa vitað. Spurður hvort hann hefði sem stjórnarformaður og síðar framkvæmdastjóri haft eftirlit með því að skilagreinum og staðgreiðslu hefði verið skilað kvað ákærði stjórnina hvorki hafa fengið upplýsingar um skilin hjá fjármálastjóranum né hjá framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Ákærði kvaðst ekki hafa verið látinn vita af vanskilunum og ekki hafa leitað eftir upplýsingum um þetta en hann hefði gert ráð fyrir því að hafa vera látinn vita ef eitthvað væri að skilunum. Spurður um vanskil afdreginnar staðgreiðslu kvað ákærði vanta að taka tillit til innágreiðslu að fjárhæð 3.000.000 króna sem voru greiddar 25. mars 2008. Annars væri ákæran að þessu leyti í samræmi við skilagreinar.
Ákærði Þ neitar sök. Hann kvað sömu sjónarmið eiga við og varðandi kaflann hér að framan um virðisaukaskattinn og kvaðst hafa talið að skilagreinum hefði verið skilað á réttum tíma. Spurður um skil afdreginnar staðgreiðslu kvað ákærði skil vegna mánaðanna maí og júní hafa átt sér stað eftir að ákærði hætti störfum hjá fyrirtækinu og hann bæri því ekki ábyrgð á þeim skilum, en hann hefði hætt störfum sem framkvæmdastjóri 5. ágúst 2008 og undirritað skjal þar um daginn eftir, 6. ágúst. Skjalið sem hér um ræðir var móttekið hjá Ríkisskattsstjóra 8. ágúst 2008. Ákærði kvað tímabilin febrúar, mars og apríl hafa fallið til meðan hann gegndi störfum framkvæmdastjóra. Hann kvað hið sama eiga við um þessi skil og um aðrar greiðslur, eigendur hefðu ráðið hvað var greitt og hvað ekki. Bærust peningar inn í fyrirtækið á þessum tíma hefðu þeir verið notaðir til að greiða aðföng.
Niðurstaða ákæruliðar 2
Ákærðu neita sök samkvæmt þessum ákærulið eins og rakið var. Skilagreinum þeim sem í ákæru greinir var ekki skilað á lögmæltum tíma eins og ákærðu báru og gögn málsins bera með sér. Ákærðu bera ábyrgð á skilum skilagreina í samræmi við stöðu sína hjá fyrirtækinu sem lýst er í ákærunni. Er hver hinna ákærðu í samræmi við þetta sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á skilagreinum á lögmæltum tíma eins og ákært er fyrir utan ákærði Þ sem verður ekki sakfelldur fyrir vanskilin fyrir ágúst 2008 þar sem hann hætti störfum eins og rakið var. Bilað tölvukerfi leysir ákærðu ekki undan ábyrgð.
Afdregin staðgreiðsla nemur þeim fjárhæðum sem lýst er í þessum ákærulið varðandi hvern og einn hinna ákærðu. Með vísan til stöðu ákærðu hjá fyrirtækinu sem rakin var í næsta ákærulið að framan bera ákærðu refsiábyrgð í samræmi við þá stöðu. Ekkert er fram komið í málinu sem leysir þá undan ábyrgð. Er þannig sannað með framburði ákærðu að hluta varðandi einstakar fjárhæðir og með öðrum gögnum málsins, meðal annars skýrslum og öðrum gögnum um afdregna staðgreiðslu, að ákærðu hafi, hver um sig, gerst sekir um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og er háttsemi þeirra rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði X hlaut sektardóm fyrir umferðarlagabrot í september 2008 og ber nú að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða eru stórfelld og þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði. Auk refsivistar ber að dæma ákærða X til sektargreiðslu í ríkissjóð. Að teknu tilliti til sjónarmiða sem dómaframkvæmd mælir fyrir um við ákvörðun sektarrefsingar í sambærilegum málun þykir sektarefsing ákærða hæfilega ákvörðuð 41.000.000 og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði Y hlaut hinn 17. september 2009, 4 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár auk 10.500.000 króna sektar fyrir brot sem ákært var fyrir með ákærunni 4. september 2009 og rakin er að framan. Nú ber að dæma skilorðsdóminn upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. auk þess sem dæma ber hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða eru stórfelld og þykir refsing hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði. Auk refsivistar ber að dæma ákærða Y til sektargreiðslu í ríkissjóð. Að teknu tilliti til sjónarmiða sem dómaframkvæmd mælir fyrir um við ákvörðun sektarrefsingar í sambærilegum málum þykir sektarefsing ákærða hæfilega ákvörðuð 30.000.000 og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði Þ hefur ekki áður sætt refsingu og þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði. Auk refsivistar ber að dæma ákærða Þ til sektargreiðslu í ríkissjóð. Að teknu tilliti til sjónarmiða sem dómaframkvæmd mælir fyrir um við ákvörðun sektarrefsingar í sambærilegum málum þykir sektarefsing ákærða hæfilega ákvörðuð 30.000.000 og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærðu X og Y greiði óskipt 2/3 hluta 1.004.000 króna málsvarnarlauna Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Þ greiði helming 1.004.000 króna málsvarnarlauna Hólmfríðar Kristjánsdóttur héraðsdómslögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
627.500 króna málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns greiðast úr ríkissjóði.
Eyjólfur Ármannsson flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
1. tölulið ákæru, dagsettrar 11. mars 2010, er vísað frá dómi að því er varðar vanskil innheimts virðisaukaskatts.
Ákærði, Z, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærðu, X og Y, sæti hvor um sig fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Fresta skal fullnustu refsivistar ákærðu X, Y og Þ skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsivist hvers um sig niður að þeim tíma liðnum haldi hver um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði X greiði 41.000.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærðu Y og Þ greiði hvor um sig 30.000.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærðu X og Y greiði óskipt 2/3 hluta 1.004.000 króna málsvarnarlauna Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Þ greiði helming 1.004.000 króna málsvarnarlauna Hólmfríðar Kristjánsdóttur héraðsdómslögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
627.500 króna málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns greiðast úr ríkissjóði.