Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Útlendingur
|
|
Miðvikudaginn 11. júní 2014. |
|
Nr. 402/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns til framkvæmdar kæmi ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda varnaraðila aftur til Ítalíu, þó eigi lengur en til mánudagsins 16. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að beitt verði vægari úrræðum samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að varnaraðila, X, fæddum 15.08.1983, ríkisborgara Líberíu, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi, uns framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar um að endursenda X, ásamt beiðni sinni um hæli, til Ítalíu fer fram, þó eigi lengur en til mánudagsins 16. júní nk. kl. 16:00 á grundvelli 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að þann 29. nóvember 2013 hafi varnaraðili komið til Íslands og í beinu framhaldi sótt um hæli á Íslandi sem flóttamaður. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, [...], hafi beiðni varnaraðila um að íslensk stjórnvöld taki til meðferðar beiðni hans um hæli á Íslandi sem flóttamanni verið hafnað og jafnframt kveðið á um að senda bæri varnaraðila til Ítalíu, ásamt hælisbeiðninni, með vísan til Dyflinnarreglugerðarinnar.
Í greinargerðinni kemur einnig fram að með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. [...] hafi ofangreind ákvörðun Útlendingastofnunar, um að senda varnaraðila til Ítalíu og að hafna því að íslensk stjórnvöld taki til meðferðar beiðni varnaraðila um hæli á Íslandi, verið staðfest. Við birtingu úrskurðarins [...] hafi verið gerð grein fyrir því að varnaraðili myndi óska eftir frestun réttaráhrifa úrskurðarins á grundvelli 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Með ákvörðun innanríkisráðuneytisins dags [...] hafi beiðni um frestun réttaráhrifa verið hafnað.
Jafnframt kemur fram í greinargerðinni að 8. maí sl., hafi alþjóðadeild ríkislögreglustjóra borist beiðni innanríkisráðuneytisins um birtingu á ákvörðun [...] um höfnun á frestun réttaráhrifa. Jafnframt hafi þess verið óskað af innanríkisráðuneytinu að varnaraðili yrði fluttur til Ítalíu ásamt hælisumsókn sinni. Ákvörðun þessi hafi verið birt varnaraðila þann [...]. Viðbrögð hans við birtinguna hafi verið þau að varnaraðili komst í uppnám og sagði sér ekki vært á Ítalíu, án þess að útskýra það nánar.
Þá kemur fram að þann 3. júní, klukkan 16.30, hafi varnaraðili verið handtekinn til að tryggja framkvæmd ákvörðunarinnar um að senda varnaraðila til Ítalíu, sbr. 5. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Framkvæmdin hafi átt að eiga sér stað klukkan 01.00, 4. júní 2014. Þann 3. júní, klukkan 22.30 hafi varnaraðili verið sóttur af tveimur lögreglufulltrúum alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra og einum lögreglumanni frá sérsveit ríkislögreglustjóra og ekið hafi verið með hann út á Keflavíkurflugvöll. Þegar lögreglumennirnir og varnaraðili hafi stigið af landganginum og um borð í vélina hafi varnaraðili skyndilega hent frá sér töskunni og byrjað að öskra og æpa. Hafi hann náð að særa sjálfan sig á hnakka með einhverju sem hann hafi verið með á sér, trúlega tannstöngli. Hafi hann slegið frá sér og sagst ekki vilja fara til Ítalíu, þangað hefði hann ekkert að gera. Hafi hann slegist við lögreglumenn sem urðu að beita hann tökum og setja á hann plastbönd. Samkvæmt lögreglumönnunum hafi ekki reynst unnt að ná sambandi við varnaraðila sem virtist frá sér af bræði. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar og ekki hafði tekist að róa varnaraðila tók flugstjóri vélarinnar þá ákvörðun að taka hann ekki um borð. Hafi þá verið óskað eftir því við lögreglu á landamærastöð að senda lögreglubifreið að landganginum. Lögreglubifreið frá lögreglunni við Hringbraut í Reykjanesbæ hafi komið og varnaraðili verið fluttur þangað og settur í fangaklefa. Í framhaldinu hafi verið óskað aðstoðar frá sérsveit ríkislögreglustjóra um að senda bíl til Reykjanesbæjar að sækja varnaraðila og flytja hann í fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem lögreglumenn á Suðurnesjum hafi átt erfitt með að veita þá aðstoð sökum anna.
Þá kemur fram í greinargerðinni að til að tryggja nærveru varnaraðila, svo að framkvæmd ákvörðunar útlendingastofnunar geti farið fram, sé nauðsynlegt að varnaraðila verði gjört að sæta gæsluvarðhaldi þar til framkvæmd hafi farið fram, enda megi ætla að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan framkvæmdinni. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og framangreindra lagaákvæða sé þess beðist að krafan nái fram að ganga. Að öðru leyti, með vísan til gagna málsins er fylgja í ljósriti, sé kröfu þessari beint til Héraðsdóms Reykjavíkur.
Niðurstaða
Eins og að framan er rakið hefur Innanríkisráðuneytið með úrskurði staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að beiðni varnaraðila um að honum verði veitt hæli á Íslandi sem flóttamanni verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi heldur skuli hann sendur ásamt beiðni sinni til Ítalíu. Þá hefur ráðuneytið hafnað kröfu varnaraðila um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins.
Varnaraðili mótmælir því að krafan nái fram að ganga og vísar til þess að gæsluvarðhald sé óþarft og feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 7. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002. Engin ástæða sé til að ætla að varnaraðili reyni að koma sér undan framkvæmd ákvörðunarinnar og af honum stafi engin ógn. Til vara gerir varnaraðili kröfu um að honum verði gert að sæta farbanni eða beitt verði vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi með vísan til 3. mgr. 33. gr. útlendingalaga.
Heimild til að handtaka útlending og setja í gæsluvarðhald er að finna í 5. mgr. 33. gr. framangreindra laga um útlendinga. Þar er kveðið á um að heimilt sé að beita því úrræði ef nauðsynlegt er til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið. Fyrir liggur að reynt var að framfylgja þeirri ákvörðun Útlendingastofnunar aðfararnótt 4. júní sl., eftir að fyrir lá úrskurður Innanríkisráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar og jafnframt ákvörðun þar sem hafnað var beiðni um frestun réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar.
Svo sem fram kemur í lögregluskýrslu veitti varnaraðili slíka mótspyrnu þegar kom að því að fara um borð í flugvél frá landinu að hætta varð við að senda hann úr landi. Verður að ætla, miðað við framkomu varnaraðila þegar tilraun var gerð til flytja hann úr landi, að hann sé því mjög mótfallinn. Því er að mati dómsins líklegt að hann muni reyna að torvelda það. Til þess hefur hann ýmis úrræði verði hann ekki hnepptur í gæsluvarðhald sem önnur og vægari úrræði en gæsluvarðhald geta ekki komið í veg fyrir að hann noti. Að mati dómsins er nauðsynlegt að tryggja framkvæmd brottfarar varnaraðila og verður því með heimild í 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 fallist á kröfur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Varnaraðili, [...], fæddur þann [...], ríkisborgari Líberíu, skal sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar um að endursenda varnaraðila, ásamt beiðni sinni um hæli, til Ítalíu fer fram, þó eigi lengur en til mánudagsins 16. júní nk. kl. 16.00.