Hæstiréttur íslands

Mál nr. 565/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Óvígð sambúð
  • Opinber skipti


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007.

Nr. 565/2007.

B

(Bjarni Eiríksson hdl.)

gegn

A

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Óvígð sambúð. Opinber skipti.

 

Af hálfu B og A var kærður úrskurður héraðsdóms þar sem kveðið var á um að við opinber skipti til fjárslita milli aðila skyldu 25% af nettó andvirði tilgreinds íbúðarhúss og innbús koma í hlut varnaraðila. B krafðist þess að hafnað yrði að í hlut A kæmi 25% af nettó andvirði íbúðarhússins og innbúsins. A krafðist þess að í hennar hlut kæmi 50% af nettó andvirði íbúðarhússins og innbúsins og 50% allra annarra eigna og verðmæta sem myndast hefði á sambúðartíma hennar og B. Í dómi Hæstaréttar sagði að B væri skráður eigandi alls hlutafjár í Þ ehf. Þá væri óumdeilt að hann væri skráður eigandi bifreiða og fasteignar og að bankainnistæða væri á hans nafni. Staðfest væri sú niðurstaða héraðsdóms að A hefði hvorki sýnt fram á að hún hafi átt þátt í stofnun eða rekstri Þ ehf. né lagt fé til kaupa á íbúðarhúsinu eða bílunum. Þá yrði ekki heldur talið eins og atvikum væri háttað að hún hefði á annan hátt öðlast hlutdeild í þessum eignum. Ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að allt innbúið hefðu orðið til á sambúðartíma málsaðila og var því fallist á að helmingur innbúsins skyldu koma í hlut hvors um sig.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2007, þar sem kveðið var á um að við opinber skipti til fjárslita milli aðila skyldu 25% af nettó andvirði íbúðarhúss að Z og innbús koma í hlut varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að í hlut varnaraðila komi 25% af nettó andvirði íbúðarhúss og innbús og hann verði sýknaður af kröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 23. október 2007. Hún krefst þess að við opinber skipti til fjárslita milli hennar og sóknaraðila komi í hennar hlut 50% af nettó andvirði íbúðarhúss og innbús og 50% allra annarra eigna og verðmæta sem myndast hafi á sambúðartíma hennar og sóknaraðila á árunum 1994 til 2005. Þá krefst hún staðfestingar á málskostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði greinir aðila á um málavexti. Þau eru þó sammála um að hafa kynnst á árinu 1994. Varnaraðili heldur því fram að þau hafi þá tekið upp sambúð sem hafi staðið óslitið í rúm 12 ár. Í héraði hélt sóknaraðili því fram í greinargeð sinni að sambúðin hafi staðið í um 11 ár en fyrir Hæstarétti byggir hann á því að sambúðartíminn hafi aðeins verið rúm 8 ár og vísar í því efni til framlagðra búsetuvottorða frá Hagstofu Íslands um skráð lögheimili aðila. Leggja verður málflutningsyfirlýsingu sóknaraðila í héraði til grundvallar að því er þetta varðar og verður við það miðað að sambúð aðila hafi staðið í 11 til 12 ár. Þau eiga ekki börn saman. Engra gagna nýtur um eignir þeirra í upphafi sambúðar. Varnaraðili telur að þau hafi þá bæði verið eignalaus en sóknaraðili kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi þá hafa átt bíla og tæki. Aðilar voru ekki samsköttuð. Afar takmörkuð gögn eru í málinu um tekjuöflun þeirra á sambúðartímanum, en eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði liggja þó frammi skattframtöl sóknaraðila fyrir fjögur síðustu sambúðarár þeirra, en einungis framtal ársins 2006 að því er varnaraðila snertir. Af skýrslum þeirra fyrir héraðsdómi er ljóst að þau hafa bæði unnið utan heimilis allan sambúðartímann. Þau takmörkuðu gögn sem fyrir liggja benda til þess að sóknaraðili hafi haft allgóðar tekjur en um tekjur varnaraðila nýtur ekki gagna utan ársins 2005, en það ár voru þær 1.064.310 krónur. Varnaraðili kveðst hafa sinnt heimilisstörfum allan sambúðartímann og er því ekki andmælt af hálfu sóknaraðila að það hafi hún gert að einhverju marki.

 Sóknaraðili var skráður eigandi alls hlutafjár í Þ ehf. Þá er óumdeilt að hann var skráður eigandi bifreiða og fasteignar og að bankainnistæða var á hans nafni. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðili hafi hvorki sýnt fram á að hún hafi átt þátt í stofnun eða rekstri einkahlutafélagsins né lagt fé til kaupa á íbúðarhúsinu eða bílunum. Þá verður heldur ekki talið eins og atvikum er háttað að hún hafi á annan hátt öðlast hlutdeild í þessum eignum. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að allt innbúið hafi orðið til á sambúðartíma málsaðila. Eru ekki efni til annars en að ætla hvoru þeirra helmings hlutdeild í því.

 Eftir atvikum verður hvor aðila látinn bera sinn kostað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                         Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, B, og varnaraðila, A, skal helmingur innbús koma í hlut hvors um sig.

 Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

                            Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2007.

                                                              I

          Málið barst dóminum 5. febrúar sl. var þingfest 23. sama mánaðar.  Það var tekið til úr­skurðar að loknum munnlegum flutningi 20. september sl.

          Sóknaraðili A, [heimilisfang].

          Varnaraðili er B, [heimilisfang].

          Sóknaraðili krefst þess að “viðurkenndur verði við opinber skipti á búi hennar og varn­araðila réttur hennar til að fá úthlutað helmingi allra eigna og verðmæta sem mynd­uðust á sambúðartíma hennar og varnaraðila á árunum 1994 – 2005 eða sam­svar­andi hlutdeild í andvirði þeirra.  Að viðurkennt verði að viðmiðunardagur opin­berra skipta til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila verði 29. október 2005.”  Þá er krafist málskostnaðar með álagi.

          Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður máls­kostnaður með álagi.  Þess er krafist að viðmiðunardagur skipta sé 30. september 2005.

                                                          II

          Aðila greinir verulega á um málavexti og verður því gerð grein fyrir lýsingu hvors þeirra um sig.

          Sóknaraðili kveðst hafa kynnst varnaraðila á árinu 1994.  Eftir nokkur kynni hafi þau ákveðið að hefja sambúð og hafi varnaraðili flutt í herbergi hennar á X í júlí þetta sama ár.  Þar með hafi hafist sambúð þeirra er hafi staðið óslitið í rúm­lega 12 ár, án þess þó að þau hafi verið skráð formlega í sambúð.  Fyrstu mánuðina bjuggu þau á X, en fluttu þá í íbúð við Y þar sem þau bjuggu þar til þau keyptu sér einbýlishús að Z á [...] og fluttu þangað á árinu 2001. 

             Í upphafi sambúðar sinnar hafi þau verið algerlega eignalaus, en á árinu 1995 hafi þau stofnað Þ ehf. og kveðst sóknaraðili hafa unnið að upp­byggingu þess ásamt varnaraðila og gert það að því verðmæta fyrirtæki sem það var þegar það var selt í byrjun árs 2006.  Samhliða þessu og húsakaupunum hafi eigna­myndun þeirra aukist að öðru leyti, þau keypt myndarlegt innbú og bifreiðar.  Einnig hafi þau getað ráðstafað 1.750.000 krónum til fjölskyldu sóknaraðila í [...] og hafi það fé verið notað til húsbyggingar.  Varnaraðili hafi alltaf séð um fjármál þeirra og skammtað henni það fé sem hún hafi þurft á hverjum tíma auk þess sem hún hafi verið á launum hjá Þ.   

          Það hafi svo verið fyrir um þremur árum að brestir fóru að koma í sambandið og í september 2005 hafi varnaraðili tilkynnt henni að því væri lokið og í framhaldinu hafi hún flutt af Z.  Varnaraðili hafi aðeins viljað láta hana hafa lítilræði eitt af munum, en boðist til að greiða fyrir hana húsaleigu í þrjá mánuði og ef til vill fengi hún eina bifreið.  Ekki sætti sóknaraðili sig við þetta tilboð og krafðist þess að bú þeirra yrði tekið til opinberra skipta.  Varð héraðsdómur við því með úrskurði 30. júní 2006 sem staðfestur var af Hæstarétti 17. ágúst sama ár.  Í framhaldinu var skipta­stjóri skipaður.  Honum tókst ekki að jafna ágreining aðila og sendi málið því til dóms­ins eins og áður sagði.  Í bréfi hans kemur fram að í hnotskurn snúist ágreiningur aðila um kröfu sóknaraðila til að fá viðurkennda hlutdeild sína í eignum sem hún telji að hafi orðið til að sambúðartímanum.  Þær hafi orðið til fyrir tilverknað beggja en séu skráðar eign varnaraðila.

          Varnaraðili lýsir málavöxtum á þá lund að fyrirkomulag sambúðar aðila hafi ekki verið með sama hætti og venjulegt er með sambúðarfólk.  Aðilar hafi frá upphafi haft aðskilinn fjárhag og komi þar meðal annars til að þeir hafi ekki átt börn saman sem oft valdi því að fjárhagur verði sjálfkrafa sameiginlegur.  Sóknaraðili hafi unnið fyrir launum og haldið þeim og gat ráðstafað þeim að vild.  Varnaraðili hafi hins vegar einn keypt fasteign og alla innanstokksmuni svo og bifreiðar.  Hann hafi greitt af lánum og allan rekstrarkostnað, þar með talinn mat og annað sem þarf til að reka heimili.  Hið sama hafi gilt um utanlandsferðir.  Hann hafi einn séð um kaupin á húsinu að Z og hafi sóknaraðili ekki einu sinni vitað af þeim fyrr en búið var að ganga frá kaupsamningi.

          Varnaraðili kveðst einn hafa komið að stofnun Þ ásamt foreldrum sínum.  Auk framlags þeirra hafi hann selt bifreiðar til að kosta stofnun félagsins.  Sóknar­aðili hafi ekki á nokkurn hátt komið að stofnun félagsins, hvorki með því að leggja fram hlutafé né á annan hátt.  Hún hafi engan þátt tekið í rekstri eða upp­bygg­ingu þess.  Varnaraðili kveðst hafa stýrt uppbyggingu félagsins og tekið allar rekstrar­legar ákvarðanir og einn tekið áhættuna af rekstrinum.  Sóknaraðili hafi unnið hjá Þ sem almennur starfsmaður frá miðjum júní 1997, en fram að þeim tíma hafi hún unnið hjá öðru fiskvinnslufyrirtæki.

                                                             III

             Sóknaraðili byggir á því að hún eigi rétt til helmings eigna þeirra sem urðu til í langri sambúð hennar og varnaraðila með vinnuframlagi þeirra beggja.  Í upphafi hafi þau verið eignalaus og því séu eignirnar allar orðnar til fyrir sameiginlegan tilverknað þeirra.  Engu máli skipti þótt eignirnar séu skráðar á nafn varnaraðila þar sem fjár­hags­leg samstaða hafi myndast milli þeirra á svo löngum sambúðartíma sem í raun jafn­gildi hjúskap.  Á milli þeirra hafi verið ákveðin verka- og ábyrgðarskipting við rekstur heimilisins og eins við rekstur fyrirtækisins sem þau hafi bæði byggt upp.  Sóknar­aðili hafi lagt laun sín til reksturs heimilisins auk þess sem varnaraðili lét af höndum rakna til reksturs þess.  Þá er byggt á því að sóknaraðili sé erlend og ekki vel að sér um íslenskt samfélag og hafi varnaraðili nýtt sér stöðu sína að þessu leyti.

             Varnaraðili byggir á því að fjármál aðila hafi aldrei verið sameiginleg og því hafi ekki sú fjárhagslega samstaða myndast milli þeirra er réttlætt geti helmingaskipti.  Aðilar hafi ekki verið skráðir í sambúð og ekki verið samsköttuð.  Varnaraðili hafi einn myndað eignir með fjárframlagi sínu auk þess að greiða kostnað við rekstur heim­ilisins og leggja sóknaraðila til fé.  Sóknaraðili hafi engan þátt átt í eigna­mynd­un­inni.  Þótt aðilar hafi búið saman hafi aldrei staðið til að fjárhagur þeirra yrði sam­eig­in­legur og það hafi sóknaraðili vitað.  Loks er byggt á því að sóknaraðili hafi verið gift íslenskum manni áður en hún hafi hafið sambúð með varnaraðila og gengið í gegnum skilnað.  Hún hafi því ekki verið óupplýstur útlendingur í samskiptum sínum við varnar­aðila. 

                                                               IV

Aðilar málsins kynntust árið 1994 og hófu sambúð sama ár sem stóð allt til hausts 2005.  Á sambúðartímanum mynduðust þær eignir sem um er deilt í málinu.  Sóknar­aðili byggir á því að aðilar hafi myndað þessar eignir sameiginlega og eigi hún því rétt á helmingi þeirra.  Varnaraðili byggir hins vegar á því að fjárhagur þeirra hafi verið aðskilinn og hann einn hafi aflað eignanna.  Honum einum beri því að fá þær í sinn hlut.

Við fjárskipti við slit á sambúð verður m.a. að byggja á eftirtöldum atriðum, hvað aðilar áttu við upphaf sambúðar og hversu há laun, eða aðrar tekjur, hvor um sig hafði á sambúðartíma.  Þá verður og að líta til lengdar sambúðartíma og hvernig heimilishaldi var háttað.  Aðilar voru ekki skráðir í sambúð og þeir voru ekki sam­skattaðir.  Þeir eiga ekki saman börn og ekki er annað upplýst í málinu en að þeir hafi báðir unnið utan heimilis á sambúðartímanum.  Varnaraðili bar að sóknaraðili hafi unnið við heimilishaldið með því að elda mat, þrífa og þvo þvott, en kvaðst sjálfur hafa lagt fram fé til kaupa á rekstrarvörum heimilisins.  Sóknaraðili kvaðst hafa notað laun sín til kaupa á mat og öðrum rekstrarvörum.

             Engin gögn hafa verið lögð fram um eignir aðila er þau hófu sambúð, en varn­ar­aðili bar að hann hafi þá átt bifreiðar og tæki.  Þá hafa ekki verið lögð fram skatt­fram­töl sóknaraðila nema fyrir árið 2006.  Samkvæmt því hafði hún um ellefu­hundruð­þúsund krónur í tekjur á árinu 2005, en hún telur engar eignir fram, hvorki banka­innstæður, fasteignir né annað.  Hún getur ekki um skuldir í framtalinu.  Skatt­fram­töl varnaraðila fyrir árin 2003 til og með 2006 sýna að hann hefur haft 3 milljónir króna í tekjur hvert ár auk bifreiðastyrks.  Þá telur hann fram bifreiðar og fasteign, síðasta árið tvær fasteignir, enn fremur hlut í einkahlutafélagi og verulegan arð af honum.  Á móti eignum telur hann fram skuldir vegna íbúðakaupa auk annarra skulda. 

             Engin gögn hafa verið lögð fram er sýna fram á að sóknaraðili hafi á nokkurn hátt komið nálægt stofnun eða rekstri einkahlutafélagsins og er óhrakin sú málsástæða varnar­aðila að hún hafi einungis unnið þar sem starfsmaður og þegið samningsbundin laun fyrir.  Á sama hátt hefur ekki verið sýnt fram á að hún hafi lagt fram fé til kaupa á íbúðarhúsinu sem keypt var árið 2000, en varnaraðili undirritar einn þau skjöl er lögð hafa verið fyrir dóminn og varða þau kaup.  Varnaraðili telur einn fram bifreiðar og hafa engin gögn verið lögð fram um að sóknaraðili hafi lagt fram fé til þeirra kaupa.  Hið sama á við um húsbúnað og heimilistæki, en sóknaraðili bar að hafa einungis keypt lítil tæki. 

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að sóknar­aðili hafi hvorki sýnt fram á að hún hafi lagt fram fé til eignakaupa á sam­búð­ar­tím­an­um né átt eignir við upphaf hans.  Þá er og ósannað að hún hafi á nokkurn hátt staðið að stofnun eða rekstri einkahlutafélagsins og er því hafnað að henni beri hlutdeild í því eða andvirði þess við skiptin.  Á sama hátt verður ekki séð að hún hafi lagt fram fé til bif­reiðakaupa og er því einnig hafnað að henni berið hlutdeild í andvirði þeirra.  Hins vegar eru aðilar sammála um að sóknaraðili hafi unnið heimilisstörf eins og rakið var og nýttust aðilum báðum.  Á þann hátt kom hún að eignamynduninni og er því fallist á að henni beri hlutur í íbúðarhúsi og innbúi, en ekki öðrum eignum búsins svo sem banka­innstæðum.  Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið um mismunandi tekjur aðila verður að meta þann hlut að álitum og með hliðsjón af því og hversu langan tíma sam­búðin stóð þykir hæfilegt að í hennar hlut komi 25% af þessum eignum búsins.

Í bréfi skiptastjóra til dómsins segir að samkvæmt framlögðum gögnum hjá honum hafi aðilar slitið samvistir í september 2005.  Í samræmi við 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 ákvað skiptastjóri að miða skipti við 30. september 2005.  Engin gögn hafa verið lögð fram er hnekkja þessu mati skiptastjóra og verður það því staðfest.

Í samræmi við framangreind málsúrslit verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað, en engin efni eru til að úrskurða álag á málskostnaðinn.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                        Úrskurðarorð.

             Við opinber skipti á búi sóknaraðila, A, og varnaraðila, B, skulu 25% af nettó andvirði íbúðarhúss og innbús koma í hlut sóknar­aðila.

             Viðmiðunardagur skiptanna er 30. september 2005.

             Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.