Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gjafsókn
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 337/2002. |
M(Garðar Briem hrl.) gegn K(enginn) |
Kærumál. Gjafsókn.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem leyst var úr kröfum aðilanna um málskostnað og þeim ákveðinn gjafsóknarkostnaður í máli R á hendur Ó, sem var að öðru leyti lokið með dómsátt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2002, þar sem leyst var úr kröfum aðilanna um málskostnað og þeim ákveðinn gjafsóknarkostnaður í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem var að öðru leyti lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt að því er varðar gjafsóknarkostnað hans þannig að þóknun annars af tveimur lögmönnum, sem komið hafa að málinu af hans hálfu, verði hækkuð úr 114.384 krónum í 368.831 krónu.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. þ.m., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 18. ágúst 2000.
Stefnandi er K [ ].
Stefndi er M [...].
Málið höfðaði stefnandi til þess að fá fellt úr gildi samkomulag hennar og stefnda um að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá barnanna, A, B, og C, og að henni verði dæmd forsjá þeirra til 18 ára aldurs.
Að kröfu stefnda var vísað frá dómi kröfu stefnanda um forsjá drengsins, A, sem hefur búið hjá föður sínum [...], með úrskurði uppkveðnum 19. janúar 2001.
Stefndi krafðist þess að fá forræði barnanna B og C.
Leitað var án árangurs eftir umsögn félagsmálayfirvalda [...] um hagi stefnda og forsjárhæfni hans. Jafnframt var óskað umsagnar barnaverndaryfirvalda hér á landi varðandi hagi stefnanda og forsjárhæfni hennar. Hinn 14. september 2001 skiluðu þau María Þorgeirsdóttir félagsráðgjafi og Áskell Örn Kárason sálfræðingur greinargerð varðandi forsjárhæfni stefnanda. Eftir ítrekaða frestun málsins þar sem reynt var að ná sátt í því var hinn 30. janúar sl. ákveðið að kveðja Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðing til þess að meta forsjárhæfni aðila og tengsl þeirra við börnin. Hinn 27. maí sl. var lögð fram álitsgerð Gunnars Hrafns varðandi forsjárhæfni aðila og heimilisaðstæður þeirra. Vegna álitsgerðar þessara fór Gunnar Hrafn m.a. á heimili stefnda [...].
Við fyrirtöku málsins 18. þ.m. varð sátt með aðilum á þann veg að stefnandi fer með forsjá barnanna, B og C. Jafnframt gerðu aðilar með sér samkomulag um umgengni stefnda við börnin og skiptingu kostnaðar vegna ferða barnanna til [...]og svo ferða barnsins, A, til [...].
Aðilar kröfðust hvor um sig málskostnaðar úr hendi hins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 9. okt. 2000 og stefndi með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 6. sept. 2001.
Þegar litið er til atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Við fyrirtöku málsins 18. þ.m. lagði lögmaður stefnanda, Dögg Pálsdóttir hrl., fram vinnulista vegna málsins þar sem fram kemur að lögmaðurinn telur sig hafa eytt 50 klst. vinnu í málið. Lögmaðurinn áskilur sér 8.500 kr. á tímann fyrir utan vsk. og gerir kröfu um málskostnað að fjárhæð 529.125 kr.
Lögmaður stefnda, Hildur Sólveig Pétursdóttir hdl., lagði fram málskostnaðarreikning að fjárhæð 437.929 kr. þar sem fram kemur að lögmaðurinn telur sig hafa eytt 46,9 klst vinnu í málið. Lögmaðurinn áskilur sér 7.500 kr. á tímann fyrir utan vsk. Jafnframt lagði lögmaður stefnda fram vinnulista og símbréf frá Einari Gaut Steingrímssyni hrl. þar sem hann gerir kröfu um greiðslu á 368.831 kr., þ.e. vegna 39,50 klst. vinnu fyrir stefnda. á tímabilinu ágúst 2000 til 26. mars 2001. Samkvæmt vinnulistanum virðist þarna vera m.a. um að ræða vinnu vegna farbannsmáls og máls vegna bráðabirgðaforsjár.
Í greinargerð stefnda sem lögð var fram 27. mars 2001 kemur fram að greinargerðin sé skrifuð af stefnda sjálfum "af vanefnum og engri lögfræðilegri kunnáttu---" eins og segir í greinargerðinni. Í sama þinghaldi var lögð fram bókun hæstaréttarlögmannsins Einars Gauts Steingrímssonar þar sem fram kemur að lögmaðurinn hefur að ósk stefnda sagt sig frá málinu. Jafnframt er tekið fram að stefndi muni sjálfur annast um mætingar í málinu. Eftir þetta hefur Einar Gautur Steingrímsson hrl. ekki mætt við fyrirtökur í málinu.
Gjafsókn beggja aðila er bundin við rekstur þessa máls en nær ekki til annarra mála málsaðila. Þegar af þeirri ástæðu verða kröfum vegna vinnu Einars Gauts Steingrímssonar hrl. við farbannsmál og mál vegna bráðabirgðaforsjár ekki teknar til greina. Þegar vinnulisti Einars Gauts Steingrímssonar hrl. er skoðaður virðist lögmaðurinn hafa unnið í 12,25 klt. við mál þetta eftir að stefndi greiddi honum 250.000 kr. hinn 4. okt. 2000 inn á reikning vegna allrar vinnu fram til 27. sept. 2000. Lögmaðurinn áskilur sér 7.500 kr. á tímann fyrir utan virðisaukaskatt. Eftir atvikum sýnist ógreidd þóknun til handa Einari Gauti Steingrímssyni hrl. vegna vinnu hans í sambandi við þetta mál vera 114.384 kr.
Þóknun lögmanns stefnanda, Daggar Pálsdóttur hrl., telst hæfilega ákveðin 529.125 kr. og greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun lögmanns stefnda, Hildar Sólveigar Pétursdóttur hdl., telst hæfilega ákveðin 437.929 kr. og greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun Einars Gauts Steingrímssonar hrl. ákveðst 114.384 kr.
Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.
Dr. Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur skilaði sálfræðiathugun þar sem hann mat forsjárhæfni aðila og tengsl þeirra við börn sín. Vegna þessa starfs fór dr. Gunnar Hrafn m.a. til [...] til þess m.a. að skoða heimilisaðstæður stefnda. Með vísan til 3. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992 ákveðst að kostnaður af þessari vinnu dr. Gunnars Hrafns Birgissonar, 618.511 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Málskostnaður stefnanda, K, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Daggar Pálsdóttur hrl., 529.125 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Málskostnaður stefnda, M, þar með talin þóknun lögmanns stefnda, Hildar S. Pétursdóttur hdl., 437.929 kr., og þóknun Einars Gauts Steingrímssonar hrl. 114.384 kr. greiðist úr ríkissjóði.
Kostnaður vegna vinnu dr. Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, 618.511 kr., greiðist úr ríkissjóði.