Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2017

Sjávarströnd hf. (Sigmundur Hannesson hrl.)
gegn
Seltjarnarnesbæ (Árni Ármann Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð
  • Leigusamningur

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S um að S hf. yrði með beinni aðfarargerð borinn út með iðnaðarhúsnæði sitt af lóð S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðili skyldi með beinni aðfarargerð borinn út ,,með iðnaðarhúsnæði sitt, eignarhluta með fastanúmerin 206-7106 og 206-7107 og öllu því sem eignarhlutunum tilheyrir af lóð varnaraðila nr. 5 við Bygggarða á Seltjarnarnesi.“ Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að framgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sjávarströnd hf., greiði varnaraðila, Seltjarnarnesbæ, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2017.

Mál þetta, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með aðfararbeiðni 3. nóvember 2016, var tekið til úrskurðar 26. janúar sl. Sóknaraðili er Seltjarnarnesbær., kt. 560269-2429, Austur­strönd 2, Seltjarnarnesi. Varnaraðili er Sjávarströnd hf., kt. 520805-0360, Suður­landsbraut 8, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að varnaraðili verði borinn út með iðnaðarhúsnæði sitt við Bygggarða 5 á Seltjarnarnesi, eignarhlutar með fastanúmeri 206-7106 og 206-7107, og öllu því sem eignarhlutunum tilheyrir, af lóð sóknaraðila nr. 5 við Bygggarða á Seltjarnarnesi, með beinni aðfarargerð. Þá krefst sóknaraðili máls­kostnaðar úr hendi varnaraðila og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila eða að máls­kostnaður verði látinn niður falla fari svo að ekki verði fallist á kröfu hans.

Málið var flutt samhliða um form og efni samkvæmt ákvörðun dómara.

I

Málavextir

Fram kemur í aðfararbeiðni sóknaraðila að hann sé eigandi að landi sem á standi húsið nr. 5 við Bygggarða á Seltjarnarnesi. Í húsinu séu margir eignarhlutar sem séu í eigu mis­munandi aðila. Með lóðarleigusamningi frá 1. janúar 1965 hafi lóðin verið leigð þáverandi leigutaka í 50 ár eða út árið 2014. Þá hafi samningurinn verið framlengdur til ársloka 2015.

Aðfararbeiðnin lúti að tveimur eignarhlutum með fastanúmer 206-7106 og 206-7107 sem séu þinglýstir eignarhlutar varnaraðila. Í 2. gr. samningsins segi: „Vilji leigu­sali ekki, að leigutíma loknum, leyfa leigutaka, með nýjum samningi, að láta mann­virki, er þá standa þar áfram, skal leigusali greiða leigutaka sannvirði mannvirkja eftir mati dómkvaddra manna.“

Varnaraðila hafi verið tilkynnt með bréfi 17. nóvember 2014 að sóknaraðili hygðist ekki endurnýja lóðaleigusamninginn en myndi veita leigutaka afnot af lóðinni til 31. desember 2015 yrði þess óskað. Mannvirkið sé því lóðarréttindalaust frá þeim tíma. Um sé að ræða eignarhluta í iðnaðarhúsnæði í mjög slæmu ástandi sem þurfi að víkja enda hafi svæðið sem slíkt verið skipulagt sem íbúðarsvæði í nýju deiliskipulagi.

Sóknaraðili aflaði verðmats í mars 2015 á framangreindum eignarhlutum frá lög­giltum fasteignasölum hjá fasteignasölunni Eignamiðlun ehf. Niðurstaða verð­matsins hafi verið sú að áætlað söluverðmæti mannvirkja væri 26.500.000 krónur. Ekki mun hafa náðst samkomulag milli aðila um kaup á grundvelli verðmatsins.

Sóknaraðili óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna með beiðni til dómsins 3. september 2015. Voru tveir matsmenn dómkvaddir í því skyni í þinghaldi 18. desember 2015.

Sóknaraðili áréttaði í bréfi til varnaraðila 21. september 2015 að sveitarfélagið hygðist ekki veita frekari fresti og myndi krefjast afhendingar lóðarinnar 1. janúar 2016.

Hinir dómkvöddu matsmenn skiluðu mati sínu 12. febrúar 2016 og var niðurstaða þeirra sú að matsverðið eignarhlutanna væri 28.000.000 króna. Matsgerðin mun í framhaldinu hafa verið send þáverandi lögmanni varnaraðila með tölvupósti.

Sóknaraðili sendi varnaraðila bréf 3. mars 2016 þar sem fram kom að engin viðbrögð hefðu orðið við bréfinu frá 12. febrúar 2016 og að þáverandi lögmaður varnar­aðila hefði nú sagt sig frá málinu. Ítrekaði sóknaraðili þar fyrirspurn sína um hvort varnaraðili vildi ganga frá kaupum strax á grundvelli matsgerðarinnar og var því jafnframt lýst yfir að sóknaraðili sætti sig við matið og væri reiðubúinn að ganga frá kaupum á því verði. Fyrirsvarsmaður varnaraðila neitaði að ganga frá sölu á eigninni á grundvelli matsgerðarinnar í tölvupósti 16. mars 2016. Með tölvupósti sóknaraðila 19. sama mánaðar var óskað eftir því að varnaraðili upplýsti af hverju hann vildi ekki ganga til samninga á grundvelli hins dómkvadda mats. Mun sóknaraðila ekki hafa borist svar frá varnaraðila vegna þessa.

Nokkur samskipti urðu í framhaldinu milli lögmanns sóknaraðila og nýs lög­manns sem var þá kominn að málinu fyrir hönd varnaraðila. Fór svo að lögmaður sókn­araðila sendi lögmanni varnaraðila kaupsamning ásamt tilheyrandi skjölum 1. júní 2016 og bað hann um að ganga frá formsatriðum varðandi söluna. Nokkur samskipti urðu svo milli aðila í júní og júlí 2016 vegna frágangs á kaupsamningi. Greinir sóknaraðili svo frá að lögmaður varnaraðila muni hafa óskað eftir því að lögmaður sóknaraðila væri í beinu sambandi við Landsbankann hf. í tengslum við útgáfu á veðleyfi þar sem gert væri ráð fyrir að söluandvirðið rynni til bankans. Bankinn hafi í framhaldinu gefið út skilyrt veðleyfi 13. september 2016 þar sem því var lýst yfir að bankinn myndi aflýsa veðum sínum af eigninni gegn því að matsvirðið rynni til bankans enda væri eignin veðsett að fullu.

Sóknaraðili greinir svo frá í beiðni sinni að lögmaður varnaraðila hafi lýst því yfir í símtali við lögmann sóknaraðila að varnaraðili væri hættur við að selja eignina og óskaði eftir því að framvegis yrðu samskiptin beint við fyrirsvarsmann varnaraðila. Í framhaldinu hafi verið haft samband við fyrirsvarsmanninn sem hafi staðfest að varnaraðili „væri ekki að fara að selja eignina til [sóknaraðila]“.

Sóknaraðili kveðst allt frá því að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna lá fyrir stöðugt hafa ýtt á varnaraðila með tölvuskeytum og símtölum að afhenda sér umrædda eignarhluta enda séu nú tæp tvö ár frá því að lóðarleigusamningar runnu út og nauðsynlegt að rífa eignarhlutana vegna breytts deiliskipulags og nýrrar uppbyggingar á svæðinu. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili ekki orðið við því og nú síðast með því að neita að ljúka málinu þannig að sóknaraðili eigi þann eina möguleika að krefjast útburðar varnaraðila af lóðinni samkvæmt beiðni þessari.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína um útburð varnaraðila af lóð hans að Bygggörðum á Seltjarnarnesi á því að hann eigi óumdeilanlegan eignarrétt að lóðinni og varnaraðili sé þar með iðnaðarhúsnæði sitt í óþökk hans. Enginn vafi geti verið á því að sem lóðareigandi eigi hann kröfu til þess að varnaraðili fjarlægi mannvirkin af lóðinni og sveitarfélagið fái umráð hennar þar sem gildistími lóðarleigusamnings sé löngu liðinn og framlenging hans einnig. Eignin hafi verið yfirgefin, sé í niðurníðslu og bíði því eingöngu niðurrifs. Allur dráttur á málinu hamli og tefji framtíðaruppbyggingu á svæðinu samkvæmt nýju og breyttu deiliskipulagi. Óeðlilegt væri að sóknaraðili þyrfti að sæta því að töf yrði á málinu meðan aðfararheimildar væri aflað líkt og varnaraðili virðist halda fram.

Varnaraðila hafi margoft verið tilkynnt að honum beri að víkja af lóðinni með mannvirki sín og í því sambandi verið veittur ársfrestur frá 31. desember 2014 til 31 desember 2015. Varnaraðili hafi ekki orðið við þessum ítrekuðu áskorunum. Þá hafi tilraunir sóknaraðila til að ganga frá kaupsamningi við varnaraðila um mannvirki á lóðinni ekki borið neinn árangur. Sé sóknaraðila því nauðsynlegt að fá dómsúrskurð um útburð varnaraðila af lóðinni þar sem honum sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta þeirra réttinda sem hann skýrlega eigi. Sóknaraðili kveður gerðina fara fram á sína ábyrgð en á kostnað varnaraðila.

Sóknaraðili kveður heimild til útburðar byggja á 12. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 78. gr., sbr. 72. gr. þeirra. Krafa hans sé skýr og ótvíræð og unnt að sýna fram á hana með skjallegum sönnunargögnum, rétt eins og 83. gr. laganna geri kröfu um. Þannig sé enginn vafi um laga- eða sönnunaratriði í málinu. Með sýnilegum sönnunargögnum sé m.a. vísað til lóðarleigusamnings aðila þar sem skýrt komi fram í 2. gr. að honum ljúki þegar liðin séu 50 ár frá 1. janúar 1965 að telja. Sá tími hafi verið útrunninn 31. desember 2014. Sóknaraðili vísar sérstaklega til þess að atvik í máli þessu sé mjög lík og í dómi Hæstaréttar í máli nr. 240/2003 þar sem útburður hafi verið heimilaður á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989. Í því máli hafi einnig verið um það að ræða að eignin þurfti að víkja fyrir nýju og breyttu deiliskipulagi.

Sóknaraðili tekur fram að hann hafi uppfyllt skilyrði 2 gr. lóðarleigusamningsins um að láta dómkvadda matsmenn meta mannvirki á eignarhlutunum og boðið varnaraðila greiðslu á grundvelli þess dómkvadda mats. Varnaraðili hafi hunsað það boð og neitað að ganga til kaupsamnings vegna mannvirkjanna og taka við greiðslunni.

Þá tekur sóknaraðili fram að önnur atriði í lögskiptum aðila hafi enga þýðingu fyrir úrlausn þessa máls sem lúti eingöngu að því hvort skilyrði útburðar séu fyrir hendi. Þannig hafi það engin áhrif á heimild sóknaraðila til að fara í útburðarmál á grundvelli laga nr. 90/1989 þótt greiðsla eða uppgjör á grundvelli 2. gr. lóðarleigusamnings aðila hafi ekki farið fram. Raunar sé það svo að varnaraðili hafi ekki viljað taka við greiðslunni og ganga frá kaupsamningi þar að lútandi. Þá hafi breytt deiliskipulag heldur enga þýðingu fyrir úrlausn þessa máls og sé óviðkomandi kröfu um útburð. Áréttar sóknaraðili að réttindi hans til lóðarinnar séu óumdeild og skýr og að uppfyllt séu öll ákvæði laga nr. 90/1989 til þess að á kröfu hans verði fallist.

Með vísan til alls þessa telur sóknaraðili að fallast beri á kröfu hans í málinu. Um lagarök vísar sóknaraðili til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað.

Hvað frávísunarkröfuna varðar tekur hann fram að ómöguleiki komi í veg fyrir að hægt sé að verða við kröfu sóknaraðila. Krafan beinist að því að varnaraðila verði gert að fjarlægja eignarhluti sína sem séu inni í fasteigninni miðri, m.ö.o. séu eignarhlutar varnaraðila í miðhluta fasteignarinnar varanlega skeyttir við eignarhluta annarra eigenda. Varnaraðili geti því ekki orðið við kröfu sóknaraðila nema að valda sameigendum sínum tjóni.

Í athugasemdum við 12. kafla laga nr. 90/1989 segi m.a. að dómara beri að athuga hvort krafa sé þess efnis að fullnægja megi henni með útburðar- eða innsetningargerð. Krafa sóknaraðila sé svo óskýr og óljós að hún uppfylli ekki grundvallarreglur einkamálaréttarfars um skýran málatilbúnað, sbr. m.a. d- og e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991.

Þá sé á því byggt að kröfu sóknaraðila beri að hafna þar sem hún uppfylli ekki áskilnað laga nr. 90/1989, einkum 78., sbr. 83. gr. laganna.

Þá sé á því byggt að sóknaraðila hefði borið að beina kröfum sínum að öllum skráðum eigendum fasteignarinnar þar sem einungis sé til að dreifa einum lóðarleigusamningi sem sé sameiginlegur fyrir alla skráða eigendur fasteignarinnar.

Eins og málið liggi fyrir sé útilokað annað, með eða án frávísunar málsins, en að sóknaraðila sé ekki fær sú leið að leita útburðar varnaraðila í ljósi óljósrar réttarstöðu aðila. Verði hann að verða sér úti um óyggjandi aðfararheimild með dómi áður en til útburðar geti komið.

Ljóst megi vera að aðila greinir á um hvert sannvirði eignarhluta varnaraðila í fasteigninni sé m.a. í ljósi þess að deiliskipulag fyrir Bygggarða tók gildi áður en lóðarleigusamningurinn rann sitt skeið á enda. Það hafi verulega þýðingu við mat á því hvert sé sannvirði eignarhluta varnaraðila sem í raun sé ekkert tillit tekið til í fyrirliggjandi matsgerðum.

Varnaraðili hafnar því að enginn vafi sé um það að sóknaraðili eigi kröfu til þess að varnaraðili fjarlægi mannvirki af lóðinni. Sóknaraðili hafi í raun fyrirgert þeim rétti sínum samkvæmt 2. gr. samningsins sbr. orðalagið „skal leigusali greiða leigutaka sannvirði mannvirkja“.

Um lagarök vísar varnaraðili m.a. til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða. Þá vísar hann til ákvæða laga nr. 90/1989, einkum 78., 83. og 84. gr. laganna auk laga nr. 91/1991 einkum d- og e-lið 80. gr. Kröfu um málskostnað byggir hann á ákvæðum laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu hefur sóknaraðili krafist útburðar varnaraðila af lóð í eigu sóknaraðila að Bygggörðum 5 á Seltjarnarnesi á grundvelli ákvæða 12. kafla laga nr. 90/1989.

Sóknaraðili byggir á því að réttur hans sé svo skýr og ljós að hann verði ráðinn af framlögðum gögnum og með þeirri sönnunarfærslu sem lög nr. 90/1989 heimila. Óumdeilt sé að sóknaraðili sé eigandi umræddrar lóðar og lóðarleigusamningur aðila sé útrunninn. Varnaraðili hafi ekki orðið við því að rýma lóðina.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila sé ekki fært að fara fram á útburð hans af lóðinni á grundvelli laga nr. 90/1989 heldur þurfi lögskipti þeirra að koma fyrir dómstóla með venjulegum hætti og sóknaraðili að afla sér gildrar aðfararheimildar fyrir kröfu sinni. Réttur sóknaraðila sé ekki svo skýr og óumdeildur og hann vilji vera láta og kröfu hans beri því að hafna þar sem varhugavert sé að hún nái fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Að auki verður málatilbúnaður varnaraðila skilinn svo að þar sem ágreiningur sé milli aðila um hvað sé sannvirði mannvirkja á lóðinni og uppgjör hafi því ekki farið fram á grundvelli loka lóðarleigusamningsins geti sóknaraðili ekki krafist útburðar varnaraðila.

Varnaraðili hefur í málinu einnig gert kröfu um frávísun þess og byggir á því að ómöguleiki valdi því að unnt sé að taka kröfu sóknaraðila til greina. Þá sé hún vanreifuð. Í málum sem rekin eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1989 ber dómara að kveða á um það í úrskurði hvort fallist sé á að umbeðin gerð fari fram eður ei, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna. Máli kann þó að vera vísað frá á fyrri stigum ef beiðni sóknaraðila eða fylgigögnum með henni er áfátt, þannig að varnaraðili eigi af þeirri ástæðu erfitt með að færa fram varnir gegn kröfu sóknaraðila. Ekki verður að mati dómsins séð að neinir gallar séu á málatilbúnaði sóknaraðila sem varðað geta frávísun málsins. Er kröfu varnaraðila um frávísun málsins af þessum sökum því hafnað. Þá byggir varnaraðili til stuðnings frávísunarkröfu sinni að hluta til á sömu röksemdum og fyrir höfnun kröfunnar. Koma þær því til skoðunar í tengslum við efnislega umfjöllun um þá kröfu hans. Bendir dómurinn á að verði talið að ómöguleiki valdi því að ekki sé unnt að verða við kröfu sóknaraðila beri dóminum að hafna henni.

Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er manni, sem með ólögmætum hætti er aftrað að neyta réttinda sinna, heimilað að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis sem getur í 72. eða 73. gr. laganna verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi ekki fyrir. Ákvæði 72. gr. fjallar um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða til að láta gerðarbeiðanda af hendi umráð hennar að einhverju leyti eða öllu, eða til að fjarlægja hluti af henni. Í athugasemdum með 78. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/1989 kemur fram að skilyrði fyrir beiðni um gerð samkvæmt ákvæðinu sé annars vegar að gerðarbeiðandi sé réttur aðili að kröfu um gerðina og hins vegar að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst að öldungis megi jafna til þess að dómur hafi gengið um hana. Sönnunargildi þeirra gagna sem gerðarbeiðandi styður kröfu sína við þurfi því að vera verulegt. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt 1. mgr. sömu greinar.

Í máli þessu háttar svo til að sóknaraðili er eigandi lóðar að Bygggörðum 5 á Seltjarnarnesi og er enginn ágreiningur um það með aðilum. Varnaraðili er þinglýstur eigandi tveggja eignarhluta í byggingunni sem þar stendur en alls munu vera skilgreindir fimm eignarhlutar í húsnæðinu og eru hinir þrír í eigu annars aðila. Fyrir liggur að eigandi þeirra eignarhluta hyggst rýma þá eigi síðar en 1. mars nk. og er gert ráð fyrir að niðurrif fari fram strax í kjölfar rýmingar. Verður því ekki séð að sjónarmið varnaraðila um að rýming hans af lóðinni valdi tjóni fyrir aðra eigendur geti haft þýðingu í málinu.

Samningur um umrædda lóð var gerður á árinu 1965 og skyldi hann gilda til 50 ára. Er gildistíma samningsins lauk í lok ársins 2014 heimilaði sóknaraðili varnaraðila að vera á lóðinni til ársloka 2015. Framlenging samningsins hefur því runnið sitt skeið á enda og verður ekki séð að nokkur ágreiningur sé um það í málinu. Sóknaraðili mun ekki hafa í hyggju að leigja lóðina áfram og í samræmi við 2. gr. lóðarleigusamningsins hefur nú farið fram mat á sannvirði mannvirkja á lóðinni. Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili hafi ítrekað leitað eftir samvinnu varnaraðila við að rýma lóðina og fjarlægja mannvirki á henni en án árangurs. Varnaraðili hefur í samskiptum við sóknaraðila ekki gert skýrlega grein fyrir því af hverju hann telji sig ekki þurfa að verða við kröfu sóknaraðila. Verða viðbrögð hans einna helst skilin svo að hann fallist ekki á uppgjör á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem sóknaraðili aflaði á fyrri stigum um sannvirði mannvirkja á lóðinni, og kostnað af niðurrifi. Ekki verður þó séð að varnaraðili hafi freistað þess að hnekkja áðurnefndu mati eða leita samkomulags um kostnað vegna niðurrifs.

Í málinu liggur fyrir ótvíræð eignarheimild sóknaraðila að umræddri lóð. Sóknaraðili hefur því í samræmi við ákvæði laga nr. 90/1989 sýnt fram á með gögnum málsins að hann eigi tilkall til lóðarinnar og réttmæta kröfu um niðurrif mannvirkja á henni á grundvelli útrunnins lóðarleigusamnings og eftir að framlenging hans til eins árs hefur runnið sitt skeið á enda. Er ljóst að varnaraðili hefst við á lóðinni með mannvirki sín í óþökk sóknaraðila og varnar honum með því að fá umráð lóðarinnar.

Varnaraðili hefur haldið því fram í málinu að sóknaraðila hafi ekki verið rétt að krefjast útburðar í máli sem rekið sé á grundvelli laga nr. 90/1989 þar sem greiðsla á sannvirði mannvirkjanna hafi ekki farið fram og eiginlegt uppgjör á grundvelli loka lóðarleigusamningsins því ekki átt sér stað milli aðila. Dómurinn bendir á að ekki er unnt að líta svo á að heimild lóðareiganda/leigusala til að krefjast umráða yfir eign sinni sé háð því að hann bjóði uppgjör á því sem sá síðarnefndi gæti átt rétt til vegna loka leigusamnings. Þá er ágreiningur aðila um sannvirði mannvirkja á lóðinni ekki til umfjöllunar í málinu eða kostnaður af niðurrifi. Hefur ágreiningur aðila, og lögskipti þeirra hvað varðar endanlegt uppgjör milli þeirra að þessu leyti, engin áhrif á rétt sóknaraðila til að krefjast útburðar varnaraðila af lóðinni. Þá tekur dómurinn einnig fram að áhrif nýs deiliskipulags, sem sóknaraðili mun hafa samþykkt, og áform hans þar að lútandi hafa heldur enga þýðingu við mat á því hvort fallist verði á kröfu sóknaraðila

Af öllu framangreindu leiðir að fullnægt er skilyrðum 78. gr., sbr. 72. gr., laga nr. 90/1989 um að varnaraðili verði borinn út af lóð sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Tekur dómurinn fram að óhjákvæmilegt sé að líta til þeirrar leiðsagnar sem felst í dómi Hæstaréttar í máli nr. 240/2003. Verður enginn slíkur vafi talinn vera fyrir hendi um kröfu sóknaraðila sem leitt geti til þess að varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 er ekki ástæða til þess að mæla fyrir um kostnað af væntanlegri gerð.

Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 16. desember sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu varnaraðila, Sjávarstrandar hf., um frávísun málsins er hafnað.

Sóknaraðila, Seltjarnarnesbæ, er heimilt með beinni aðfarargerð að fá varnaraðila borinn út með iðnaðarhúsnæði sitt við Bygggarða 5 á Seltjarnarnesi, eignarhluta með fastanúmerin 206-7106 og 206-7107, og öllu því sem eignarhlutunum tilheyrir, af lóð sóknaraðila nr. 5 við Bygggarða á Seltjarnarnesi.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.