Hæstiréttur íslands

Mál nr. 126/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. mars 2006.

Nr. 126/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Fallist var á kröfu L  um að X yrði bönnuð för úr landi um nánar tilgreindan tíma á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði áfram bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans væri ólokið, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 12. apríl 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur viðurkennt aðild að innflutningi 13. desember 2005 á umtalsverðu magni fíkniefna. Hann sætti gæsluvarðhaldi frá 16. til 23. desember 2005, en farbanni frá þeim tíma. Varnaraðili er grunaður um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en refsing samkvæmt því ákvæði getur orðið 12 ára fangelsi. Rannsókn málsins er nú lokið og kveðst sóknaraðili vinna að greinargerð um málið og verði það sent til ríkissaksóknara í lok þessarar viku. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði kom fram við rannsókn málsins í desember síðastliðnum að ákærði hefði í hyggju að flytja til Danmerkur og leigja þar hús, en sonur hans væri búsettur þar. Hann hefur nú lýst því yfir að hann sé hættur við þau áform.

Þegar litið er til þess að varnaraðili er grunaður um stórfellt fíkniefnalagabrot er, þrátt fyrir nýja yfirlýsingu hans um breytt áform sín, fallist á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila til að ljúka megi frágangi á rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn verði. Samkvæmt þessu eru fyrir hendi skilyrði til að neyta heimildar 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna varnaraðila för úr landi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og varnaraðili látinn sæta farbanni, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 12. apríl 2006 kl. 16.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til  miðvikudagsins 12. apríl 2006 kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], verði áfram bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 12. apríl 2006, kl. 16:00. 

Kærði er grunaður um aðild að innflutningi á tæplega 1 kg af amfetamíni og liðlega 3,8 kg af hassi.  Efnin bárust til landsins 13. desember sl.  Kærði var handtekinn 15. sama mánaðar.  Hann sætti gæsluvarðhaldi frá 16. til 23. desember, en farbanni frá þeim tíma. 

Kærði hefur játað nokkra aðild að innflutningnum.  Milligöngu um flutning efnanna til landsins fyrir ónafngreindan mann, móttöku efnanna og vörslur þeirra. 

Samkvæmt framansögðu hefur kærði játað háttsemi sem kann að varða hann refsingu samkvæmt lögum nr. 65/1974 eða 173. gr. a almennra hegningarlaga. Fram kom við rannsókn málsins að kærði hafði hug á að flytja til Danmerkur.  Hann hafði tekið húsnæði þar á leigu, en sonur hans sé þar búsettur.  Hann lýsti því fyrir dóminum 20. janúar sl. að hann væri hættur við að flytja utan.  Hann ítrekaði það fyrir dóminum í dag.

Að svo komnu máli er ekki sýnt fram á sérstakt tilefni til að beita kærða farbanni eða öðrum þvingunarúrræðum skv. lögum nr. 19/1991. Verður að hafna kröfu lögreglustjóra.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð :

Kröfu lögreglustjóra um farbann er hafnað.