Hæstiréttur íslands

Mál nr. 61/2017

Ákæruvaldið (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var gert að koma fyrir dóm við aðalmeðferð máls Á gegn X og gefa skýrslu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2017, þar sem brotaþola var gert að koma fyrir dóm við aðalmeðferð máls sóknaraðila gegn varnaraðila og gefa skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþoli krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Hvorki varnaraðili né sóknaraðili hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

                                                 Dómsorð:                  

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur,  27. janúar 2017

Árið 2017, föstudaginn 27. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu  við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í málinu nr. S-716/2016: Ákæruvaldið gegn X en málið var tekið til úrskurðar 23. þ.m.

Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 16. september 2016, á hendur X fyrir kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn stjúpdóttur sinni, A, fæddri [...].

Aðalmeðferð málsins hófst 23. þ.m. en samkvæmt vitnalista málsins stóð ekki til að taka vitnaskýrslu af A undir aðalmeðferðinni.

Ákærði neitar sök í málinu og kveður vitnisburð A rangan. Tvö vitni, móðir A og sálfræðingur Barnahúss, greindu bæði frá því fyrir dómi að A hefði sagt frá því að vitnisburður hennar undir rannsókn málsins þar sem hún bar sakir á ákærða væri rangur. Teknar voru tvær skýrslur af A fyrir dómi undir rannsókn málsins en hún var þá ekki orðin 15 ára gömul. Enginn dómara málsins nú önnuðust þá skýrslutöku. Þá liggur fyrir lögregluskýrsla, dagsett 1.11.2016, þar sem meðal annars segir að A hafi komið fram og greint frá því að hún hefði sagt ósatt um sakargiftir á hendur ákærða. Í skýrslunni segir jafnframt að talið sé að hún breyti vitnisburði sínum vegna þrýstings frá móður sinni og ákærða.

Það er mat dómsins eftir að vitni báru fyrir dómi og höfðu eftir A að fyrri vitnisburður hennar væri rangur að ekki yrði hjá því komist að hún gæfi skýrslu undir aðalmeðferðinni enda orðin 15 ára gömul, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008.

Réttargæslumaður A andmælti því fyrir hennar hönd að henni yrði gert að koma fyrir dóminn og krafðist úrskurðar um þá skyldu. Réttargæslumaðurinn vísaði til þess að A hefði gefið tvær skýrslur fyrir dómi undir rannsókn málsins og var í þessu sambandi vísað til 2. mgr. 111 gr. laga nr. 88/2008 og til þeirrar erfiðu aðstöðu sem réttargæslumaðurinn kvað A vera í. Var í því sambandi vísað í gögn málsins þar sem þetta komi fram.

Ákæruvaldið tók undir sjónarmið dómsins um að nauðsynlegt væri, eins og ástæði, að fá vitnið fyrir dóm.

Verjandi ákærða kvað afstöðu sína óbreytta til þessa en við upphaf aðalmeðferðarinnar féll hann frá kröfunni um að A kæmi fyrir dóminn.

Niðurstaða

A er 15 ára gömul og ekki undanþæg vitnaskyldu vegna ungs aldurs, sbr. 1. mgr. 116 gr. sakamálalaga. Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. sömu laga er dómara heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 59. og 106. gr. laganna. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðila krefst þess eða ef dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.

A hefur náð 15 ára aldri og samkvæmt þessu lagaákvæði hvílir almenn vitnaskylda á henni þótt hún hafi áður gefið skýrslu fyrir dómi undir rannsókn málsins, svo sem rakið hefur verið. Auk þessa eru fram komnar ástæður sem gera það að verkum að nauðsynlegt er að hún komi fyrir dóminn þótt það hafi ekki staðið til í upphafi aðalmeðferðar.

Samkvæmt þessu ber A fæddri [...] að koma fyrir dóm í máli þessu. 

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Vitninu, A, fæddri  [...], er gert að vitna fyrir dómi í máli þessu.