Hæstiréttur íslands
Mál nr. 706/2010
Lykilorð
- Stjórnsýsla
- Friðhelgi einkalífs
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 20. október 2011. |
|
Nr. 706/2010.
|
A (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Stjórnsýsla. Friðhelgi einkalífs. Miskabætur.
A höfðaði mál gegn Í og krafðist miskabóta vegna birtingar á skýrslu R, en þar var fjallað um rannsókn á umferðarslysi þar sem maki A lést. Byggði A á því að birting á tilteknum upplýsingum í skýrslunni hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn friði hans, frelsi, æru eða persónu sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og R þannig brotið gegn friðhelgi einkalífs hans samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í Hæstarétti var ekki fallist á að nefndarmönnum í R hafi mátt vera ljóst að efni skýrslunnar gæti falið í sér upplýsingar, sem leiddu til þess að A hefði svo sérlega ríkra hagsmuna að gæta, eins og áskilið væri í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005 um nefndina, að henni hefði borið að gefa honum kost á að tjá sig um efni skýrslunnar áður en hún var birt opinberlega. Þá yrði í ljósi þeirrar auknu saknæmiskröfu sem gera yrði þegar dæma ætti miskabætur samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga ekki talið að það bakaði Í skyldu til greiðslu miskabóta þótt nefndin hefði ekki orðið við beiðni hans um að taka út eða breyta tilteknum upplýsingum. Þá yrði ekki heldur á það fallist að í því fælist saknæm háttsemi af hálfu nefndarinnar að tilgreina í skýrslunni upplýsingar um að áfengis- og lyfjarannsóknir ökumanns hefðu verið neikvæðar og synja fyrir að fjarlægja þær upplýsingar. Með þessum athugasemdum staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm um sýknu Í með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi reisir áfrýjandi kröfu sína um miskabætur úr hendi stefnda á b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að láta þann, sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, greiða miskabætur til þess, sem misgert er við. Í skýringum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því, sem varð að skaðabótalögum segir, að í skilyrðinu um ,,ólögmæta meingerð“ felist að um saknæma hegðum sé að ræða. ,,Gáleysi myndi þó þurfa að vera verulegt til þess [að] tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð.“ Í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægstu stig gáleysis uppfylli ekki kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur samkvæmt 1. og 2. gr. laga nr. 24/2005 um nefndina það hlutverk að rannsaka umferðarslys í því skyni að leiða í ljós orsakir þeirra til þess að koma í veg fyrir að sams konar slys verði í umferðinni aftur og draga úr afleiðingum sambærilegra slysa og stuðla með því að auknu umferðaröryggi. Í 1. mgr. 12. gr. laganna er mælt fyrir um skyldu nefndarinnar til þess að gefa út og birta skýrslu um störf sín ár hvert. Í 2. mgr. sömu greinar segir að þegar rannsókn einstaks máls sé lokið, geti nefndin samið sérstaka skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar, telji hún tilefni til. Í skýrslunni skuli gerð grein fyrir orsökum eða sennilegum orsökum umferðarslyss auk þess sem þar skuli gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir, sem gera megi, til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Þá segir að skýrsluna skuli gera opinbera svo fljótt sem verða megi.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa birti [...] 2009 sérstaka skýrslu samkvæmt framangreindu vegna umferðarslyss er varð [...] 2008, en í því lést eiginmaður áfrýjanda. Efni skýrslunnar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Verður ekki fallist á að nefndarmönnum hafi mátt vera ljóst að í skýrslunni fælust upplýsingar, sem leiddu til þess að áfrýjandi hefði svo sérlega ríkra hagsmuna að gæta, eins og áskilið er í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005, að nefndinni hafi borið að gefa honum kost á að tjá sig um efni skýrslunnar, áður en hún var birt opinberlega.
Helsta niðurstaða skýrslunnar um orsakir umferðarslyssins var sú, að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekið bifreiðinni mjög langa leið og misst vald á henni sökum svefnleysis og þreytu. Sama dag og skýrslan var birt hafði áfrýjandi símasamband við rannsóknarstjóra nefndarinnar og sendi í framhaldi af því tölvupóst til hans þar sem hann gerði athugasemdir við að skýrslan hefði verið gerð opinber án þess að honum hefði verið gefinn kostur á að lesa hana. Benti hann á að það væri sér erfið raun að lesa nákvæma greinargerð og sjá myndir um svo hörmulegan atburð er varðaði maka hans á sama tíma og skýrslan væri birt almenningi. Síðar sama dag krafðist áfrýjandi þess í tölvupósti að skýrslan yrði tekin af vef Rannsóknarnefndar umferðarslysa þar sem í henni væru upplýsingar, sem væru eðli sínu samkvæmt einkamál og ekki hefði átt að birta án fengins samþykkis hans. Beiðni hans um þetta var hafnað af hálfu nefndarinnar. Í tölvupósti áfrýjanda til formanns nefndarinnar 5. mars 2009 áréttar hann kröfu sína um að skýrslan verði fjarlægð af vefnum, eða henni breytt í tveimur atriðum. Rökstuddi hann kröfu sína fyrst og fremst með því að ekki hefði átt að birta skýrsluna án þess að bera efni hennar áður undir hann. Þau tvö efnisatriði, sem áfrýjandi tilgreindi og taldi að fjarlægja ætti úr skýrslu nefndarinnar um slysið voru, annars vegar að í henni kæmu fram upplýsingar um ,,ónefndan farþega“, og hins vegar um niðurstöður úr áfengis- og lyfjarannsókn á ökumanni bifreiðarinnar, eiginmanni áfrýjanda.
Það eitt að skýrsla Rannsóknarnefndar umferðarslysa um slys það, sem hér um ræðir, var birt án þess að efni hennar hafi áður verið borið undir áfrýjanda getur að lögum ekki leitt til bótaábyrgðar stefnda. Í ljósi þeirrar auknu saknæmiskröfu, sem gera verður þegar dæma á miskabætur samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, verður heldur ekki talið að það baki stefnda skyldu til greiðslu miskabóta, þótt nefndin hafi ekki orðið við beiðni áfrýjanda um að taka út eða breyta upplýsingum um farþega, sem var í bifreiðinni á leið til Reykjavíkur. Verður í því sambandi að taka tillit til ábendingar nefndarinnar í skýrslunni um að allir eigi að ,,vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns.“ Verður að skilja ábendinguna svo að hún eigi ekki síst við þá sem eru eða hafa verið farþegar í bifreið. Loks verður ekki fallist á að í því felist saknæm háttsemi af hálfu nefndarinnar að synja fyrir að fjarlægja úr skýrslunni upplýsingar um að niðurstöður áfengis- og lyfjarannsóknar ökumanns hafi verið neikvæðar.
Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki talið að Rannsóknarnefnd umferðarslysa hafi í störfum sínum vegið með þeim hætti að friðhelgi einkalífs áfrýjanda að það varði miskabótum.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, A, greiði stefnda, íslenska ríkinu, málskostnað fyrir Hæstarétti, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2010.
I.
Mál þetta var höfðað 1. mars 2010 af A, [...] á [...], gegn fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins. Málið var dómtekið 9. september sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 5.000.000 króna í skaðabætur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá 27. september 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
II.
Málsatvik
Hinn [...] 2008 lést maki stefnanda í bílslysi á [...] við [...]. Ók hann bifreið sinni út af veginum og niður í grýtt fjöruborðið með þeim afleiðingum að hann lést samstundis af áverkum sínum. Í stefnu greinir svo frá að stefnandi og hinn látni hafi gengið í hjónaband rúmum átta og hálfum mánuði áður en slysið varð. Þeir höfðu þá lengi búið saman í óvígðri sambúð.
Í málinu hefur verið lögð fram frétt af vefmiðli frá [...] 2008 þar sem tilgreint er nafn hins látna og uppruni, svo og heimilisfang, aldur og fæðingardagur hans auk þess sem þar kemur fram að hann hafi látið eftir sig maka.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa tók tildrög og orsakir slyssins til rannsóknar og lauk athugun sinni með skýrslu [...] 2009. Í skýrslunni er slysinu lýst en síðan vikið að aðdraganda þess. Þar segir orðrétt: „Við rannsókn málsins kom í ljós að ökumaður hafði verið við akstur alla nóttina. Kvöldið áður hafði hann lagt af stað frá sveitabæ skammt frá [...], ásamt öðrum manni, og var ferðinni heitið til Reykjavíkur. Þar varð farþeginn eftir. Farþeginn hefur greint frá því að aksturinn [...] hafi verið samfelldur að undanskilinni hálftíma hvíld á leiðinni. Var ökumaðurinn á leið [...] aftur þegar slysið átti sér stað og hafði hann því alls ekið tæpa 800 km um nóttina. Af þeim tímasetningum sem vitað er um bendir allt til þess að ökumaðurinn hafi haldið strax aftur [...] og ekið án hvíldar þar sem slysið varð.“
Í skýrslunni er því næst vikið að orsökum slyssins og komist að þeirri niðurstöðu að sennilega megi rekja það til þreytu ökumanns og rangra viðbragða hans þegar hann missti bifreiðina út í vegkant. Í niðurlagi skýrslunnar brýnir nefndin fyrir ökumönnum að forðast að aka þreyttir en þreyta sé fjórða helsta orsök banaslysa í umferðinni. Þá segir í skýrslunni að mikilvægt sé að allir séu á verði og geri athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægilegri hvíld ökumanns.
Í málinu hefur verið lögð fram ein frétt úr íslenskum vefmiðli þar sem greint er frá niðurstöðum skýrslunnar en þar var hægt að nálgast skýrsluna í heild sinni. Þá mun skýrslan hafa verið gerð aðgengileg á heimasíðu rannsóknarnefndarinnar.
Stefnanda var aldrei tjáð að rannsóknarnefnd umferðarslysa ætlaði að fjalla um slysið eða að hún myndi birta skýrslu um það á vefnum. Með tölvupósti sem stefnandi sendi nefndinni sama dag og skýrslan var birt fór hann fram á að hún yrði tekin af vef nefndarinnar þar sem í henni væru birtar upplýsingar um einkamál og honum hefði ekki verið veitt tækifæri til að tjá sig um hana. Ekki var orðið við þeirri beiðni. Sama dag lagði hann fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis yfir vinnubrögðum rannsóknarnefndarinnar. Daginn eftir sendi stefnandi Persónuvernd kvörtun af sama tilefni.
Í áliti stjórnar Persónuverndar frá 9. júní 2009 kemur fram að hún telji ekki unnt að fullyrða að skort hafi heimild til birtingar upplýsinga um að hinn látni hefði ekki neytt áfengis eða vímuefna, sbr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eða að með birtingu þessara upplýsinga hefði verið brotið gegn 5. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005, um rannsókn umferðarslysa. Stjórnin taldi enn fremur að það stangaðist ekki á við lög að birta upplýsingar um að annar maður hefði verið í bifreiðinni þann dag sem slysið varð. Þá var talið að vinnsla umræddra persónuupplýsinga hefði átt stoð í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 og ekki yrði séð af gögnum málsins að hún hefði farið í bága við ákvæði laganna. Í niðurlagi álitsins var þó bent á að í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005 kæmi fram að við skýrslugerð skyldi rannsóknarnefnd umferðarslysa gefa þeim sem að mati nefndarinnar hefðu sérlega ríkra hagsmuna að gæta kost á að tjá sig um drög að skýrslu um umferðarslys. Taldi stjórn Persónuverndar að ástvinir einstaklings, sem látist hefði í umferðarslysi, gætu fallið undir þetta. Þá kynni það að teljast til góðra stjórnsýsluhátta að gefa þeim færi á að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar sem og að þeim væri greint frá þeirri fyrirætlan að birta hana. Í álitinu var bent á að túlkun um það hvort farið hefði verið að slíkum kröfum heyrði undir umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtun stefnanda með bréfum til hans og rannsóknarnefndar umferðarslysa 29. júlí 2009. Í bréfunum gerir umboðsmaður grein fyrir því að hann telji sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu rannsóknarnefndarinnar að nauðsynlegt hafi verið að gera grein fyrir atburðarásinni fram að slysinu, þ.á m. því að farþegi hafi verið í bílnum á leiðinni til Reykjavíkur. Sama eigi við um þá niðurstöðu krufningar að hinn látni hafi ekki verið undir áhrifum lyfja eða áfengis við aksturinn. Eins og atvikum var háttað taldi umboðsmaður heldur ekki tilefni til að gera athugasemd við þá málsmeðferð rannsóknarnefndarinnar að gefa stefnanda ekki kost á að tjá sig um drög að skýrslunni, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005. Hins vegar taldi umboðsmaður að í samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti hefði verið rétt að tilkynna honum um að fyrirhugað væri að birta umrædda skýrslu og gefa honum kost á setja fram sjónarmið sín af því tilefni.
Lögmaður stefnanda sendi samgönguráðuneytinu bréf 27. ágúst 2009 þar sem krafist var bóta úr hendi ríkisins í tilefni af birtingu skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Bótakröfunni var hafnað með bréfi ríkislögmanns 22. október 2009.
Í málinu liggur fyrir ódags. yfirlýsing Guðfinnu Eydal sálfræðings en stefnandi mun hafa leitað til hennar í byrjun janúar 2009 að læknisráði þar sem bæði andleg og líkamleg heilsa hans var talin í hættu eftir fráfall maka hans. Í yfirlýsingunni kemur fram að stefnanda hafi liðið aðeins betur í lok febrúar eftir markvissa meðferðarvinnu. Um áhrif birtingar skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa í marsbyrjun segir orðrétt í yfirlýsingu sálfræðingsins: „Það var því ekki einungis skyndilegur dauði maka A, sem hann varð að vinna úr, heldur einnig framhjáhald hans. A var annt um að hinum látna yrði sýnd virðing og kaus því að segja engum frá þessu sambandi. Það breyttist allt með birtingu þessarar skýrslu, þegar öllum sem vita vildu var gert kunnugt um þetta samband. A upplifði þessa framkomu rannsóknarnefndar umferðarslysa sem algjöra óvirðingu við sig og hinn látna. Skyndileg og óboðuð birting þessarar skýrslu, persónulegt efni hennar og afleiðingar birtingar þess færðu A um marga mánuði til baka í sorgarferlinu og hafði mikil áhrif á meðferðina.“
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Samkvæmt stefnu reisir stefnandi bótakröfu sína á því að kringumstæður við banaslysið hafi verið verulega viðkvæmar fyrir stefnanda og ekki átt erindi til almennings. Um þetta atriði er vísað til þess að í för með eiginmanni stefnanda hafi verið annar karlmaður sem hefði átt í rómantísku sambandi við hinn látna. Í stefnu kemur fram að stefnanda hafi hvorki verið kunnugt um farþegann í bifreiðinni né samskipti eiginmanns síns við hann fyrr en eftir slysið. Telur stefnandi að þessar upplýsingar hafi verið þess eðlis að stjórnvaldi hafi borið að leggja sig fram við að þær kæmu ekki fyrir augu almennings, sérstaklega ekki án samráðs við eftirlifandi eiginmann hins látna. Kveðst hann á tímum sorgar og makamissis hafa þurft að svara spurningum fólks um hin viðkvæmu atriði í einkalífi sínu sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar afhjúpaði. Að auki hafi þar birst myndir af vettvangi slyssins sem stefnandi hafði ekki séð áður.
Stefnandi byggir á því í stefnu að birting á hinum viðkvæmu upplýsingum um einkalíf stefnanda og eiginmanns hans hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn friði hans, frelsi, æru eða persónu, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá byggir stefnandi á því að með birtingu þessara viðkvæmu upplýsinga um einkalíf stefnanda og hjónaband hans hafi rannsóknarnefndin brotið gegn mannréttindum hans, þ.á m. friðhelgi einkalífs hans, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, og á því friðhelgisbroti starfsmanna rannsóknarnefndarinnar beri stefndi ábyrgð. Engar þær takmarkanir sem heimilaðar eru í ákvæðinu eigi við í þessu máli.
Stefnandi telur engu skipta þó að hann, eiginmaður hans eða farþeginn í bifreiðinni hafi ekki verið nafngreindir. Fyrir þá sem þekktu til hafi verið augljóst við hverja var átt. Þar að auki hefðu fjölmiðlar áður greint frá nafni og heimilisfangi hins látna, slysstað, aldri, fæðingardegi, uppruna hans og eftirlifandi maka. Því hafi öllum lesendum skýrslunnar mátt vera ljóst um hverja var rætt og hverjar fjölskylduaðstæður hins látna væru. Þá vísar stefnandi til smæðar samfélagsins hér á landi þar sem upplýsingar af þessu tagi séu auðveldlega persónugreinanlegar. Þannig hafi hver sem vildi fengið viðkvæmar persónu- og einkaupplýsingar um einkahagi stefnanda sem starfsmenn rannsóknarnefndarinnar höfðu enga heimild til að greina frá og almenningur enga heimtingu á að vita.
Stefnandi vísar til þess að í skýrslunni hafi farþeginn, sem eiginmaður stefnandi ók að næturlagi þvert yfir landið, verið kyngreindur sem karlmaður. Telur hann að rannsóknarnefndin hefði vel getað náð lögmætu markmiði sínu með skýrslugerðinni með því að fjalla um ókyngreindan farþega eða án þess að fjalla sérstaklega um þennan farþega og láta hjá líða að geta annað hvort um ekna vegalengd eða ökutíma. Það þjóni ekki markmiði nefndarinnar umfram lögvarinn rétt stefnanda til friðhelgi einkalífs að greina á þann hátt frá þessum atriðum. Telur stefnandi að rannsóknarnefndin hafi greint frá upplýsingum sem hafi farið langt út fyrir þau mörk sem 1. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005 tilgreinir.
Af sömu sökum telur stefnandi að ekki hafi verið heimild til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. lög nr. 77/2000, í tengslum við skýrslugerðina og birtingu hennar og því hafi þau lög verið brotin. Þar sem vinnslan hafi farið út fyrir leyfilegan ramma 1. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005 hafi vinnsla hvorki getað talist „heimil til að fullnægja lagaskyldu“, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 né heldur hafi verið fyrir henni „sérstök lagaheimild“ í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Byggir stefnandi á því að þær upplýsingar sem um ræði teljist upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan skv. d-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 og því viðkvæmar persónuupplýsingar. Jafnvel þó að upplýsingarnar teldust ekki viðkvæmar þá álítur stefnandi að vinnslan hafi allt að einu verið óheimil.
Stefnandi byggir enn fremur bótakröfu sína á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að rannsóknarnefndinni hefði ekki komið til hugar að kyngreina kvenkyns farþega gagnkynhneigðs gifts karlmanns sem ekið hefði um miðja nótt yfir landið þvert og endilangt án hvíldar. Við þær aðstæður hefði rannsóknarnefndin borið efni skýrslunnar undir eftirlifandi gagnkynhneigða eiginkonu hins gagnkynhneigða karlmanns. Því telur stefnandi að honum hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis síns og kynhneigðar. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að hann og maki hans höfðu gengið í hjónaband og því auðvelt að finna út hver hafi verið nánasti aðstandandi hins látna. Þá hafi komið fram í fréttum af slysinu að hinn látni lét eftir sig maka.
Stefnandi telur það engu skipta hvort þetta brot á friðhelgi einkalífs hans hafi verið meðvitað eða ekki af hálfu starfsmanna rannsóknarnefndarinnar enda geri b-liður 26. gr. skaðabótalaga ekki greinarmun á því hvort hin ólögmæta meingerð sé framkvæmd af ásetningi eða gáleysi. Reyndar telur stefnandi að a.m.k. sé um lægsta stig ásetnings að ræða þar sem afleiðingar af slíkri upplýsingagjöf sem hér um ræðir hafi verið augljós og engum dottið annað í hug ef gagnkynhneigður karlmaður hefði lent í slysinu á [...].
Þá byggir stefnandi á því að með því að kynna honum ekki efni skýrslunnar fyrir fram hafi rannsóknarnefndin brotið gegn 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005. Telur stefnandi að ef honum hefði verið kynnt efni skýrslunnar fyrir fram hefði hann komið sjónarmiðum sínum á framfæri og allar líkur á því að nefndin hefði breytt orðalagi hennar þannig að nægt hefði til að vernda friðhelgi einkalífs hans. Stefnandi telur augljóst að hann teljist vera aðili sem hafi sérlega ríkra hagsmuna að gæta í skilningi ákvæðisins. Þar vísar hann bæði til þess að hann hafi verið maki hins látna og til eðlis hinna viðkvæmu upplýsinga. Þá hafi í skýrslunni verið að finna beinar eða óbeinar ávirðingar til nákominna aðila um að þeim beri að gera athugasemdir við ferðaáætlanir sem geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns. Því virðist efnisatriðum skýrslunnar beinlínis beint að stefnanda.
Stefnandi vísar enn fremur til 11. gr. laga nr. 24/2005 þar sem kveðið sé um þagnarskyldu starfsmanna rannsóknarnefndarinnar um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Hafi rannsóknarnefndin brotið gegn þessu með skýrslu nefndarinnar þar sem birtar hefðu verið upplýsingar um kringumstæður sem teljist til viðkvæmra persónuupplýsinga stefnanda og látins eiginmanns hans.
Þá telur stefnandi að brotið hafi verið gegn andmælarétti hans samkvæmt IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 13. gr., svo og almennri meginreglu stjórnsýsluréttar um andmælarétt þar sem rannsóknarnefndin hafi ekki gefið stefnanda á neinu stigi málsins kost á því að tjá sig um efni þess áður en ákveðið var að semja og síðar að birta skýrsluna. Með því hafi verið komið í veg fyrir að hann gæti gætt hagsmuna sinna og komið í veg fyrir friðhelgisbrotið sem hann telur að framið hafi verið á sér við birtingu skýrslunnar.
Stefnandi telur enn fremur að rannsóknarnefndin hafi brotið freklega gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Með því að bera ekki efni skýrslunnar undir stefnanda, sem klárlega hafi átt hagsmuna að gæta sem nánasti aðstandandi, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005, hafi verið valin sú leið sem hafi verið mest íþyngjandi og tjónsvaldandi fyrir stefnanda. Hefði nefndin auðveldlega getað náð lögmæltu markmiði sínu þó að nefndin hefði haft samráð við stefnanda um orðalag og birtingu skýrslunnar.
Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni sem einkum hafi falist í andlegu áfalli sem hann kveðst hafa orðið fyrir í kjölfar þess að skýrslan var birt með þeim hætti sem gert var og í andstöðu við lög. Þessu til staðfestingar vísar stefnandi til yfirlýsingar Guðfinnu Eydal sálfræðings þar sem fram komi að birting skýrslunnar hafi haft alvarleg áhrif á andlega líðan stefnanda.
Um lagarök vísar stefnandi að auki til laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 8. gr. og 14. gr. þeirra. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður hann við IV. kafla, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá byggist krafa stefnanda um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum.
Við munnlegan málflutning var á því byggt af hálfu stefnanda að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs hans á þrjá vegu: Í fyrsta lagi með því að láta hann ekki vita af tilvist og birtingu umræddrar skýrslu og að honum hafi ekki verð gefið færi á að andmæla efnislegu innihaldi hennar. Í öðru lagi væri í skýrslunni upplýst um viðkvæm atriði í einkalífi stefnanda og látins maka hans sem fæli í sér brot á friðhelgi einkalífs hans. Í þriðja lagi hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hans með því að neita stefnanda um að skýrslan yrði fjarlægð af vefnum eða henni a.m.k. breytt lítillega til þess að koma í veg fyrir frekari röskun á einkalífi hans. Af hálfu stefnanda var síðan vísað til þeirra málsástæðna, sem teflt er fram í stefnu, um rök fyrir framangreindum brotum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í greinargerð stefnda er því mótmælt að farþegi í bifreið eiginmanns stefnanda hafi verið kyngreindur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í skýrslunni hafi orðið „maður“ verið notað sem vísi jafnt til karla og kvenna. Þá hafi í skýrslunni ekki komið fram neinar upplýsingar um farþegann að öðru leyti sem hafi gefið vísbendingu um kynferði hans.
Stefndi mótmælir því enn fremur sem ósönnuðu að eiginmaður stefnanda og farþeginn hafi verið í rómantísku sambandi eins og haldið sé fram í stefnu. Ekkert í skýrslu rannsóknarnefndarinnar hafi heldur getað rennt stoðum undir það. Þá sé ekkert í gögnum málsins, skýrslu nefndarinnar eða fréttum af henni, sem veiti vísbendingu um kynhneigð farþegans. Telur stefndi ósannað að farþeginn hafi verið samkynhneigður.
Stefndi hafnar því að ákvarðanir rannsóknarnefndarinnar í málinu falli undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Allt að einu telur hann að meðferð málsins hafi samrýmst þeim kröfum sem þar greinir. Ekki hafi verið brotinn andmælaréttur á stefnanda og meðalhófs hafi verið gætt.
Stefndi telur að ýmsu sé lýst í stefnu sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á. Þannig geti stefndi ekki borið ábyrgð á því hvort einhverjir hafi getað lesið það út úr skýrslu rannsóknarnefndar eða fréttum fjölmiðla að um eiginmann stefnanda hafi verið að ræða. Í skýrslunni og í fréttum af henni hafi enginn verið nafngreindur og engar upplýsingar hafi komið þar fram um persónulega hagi hins látna eða stefnanda. Farið hafi verið sérlega varlega með allar persónulegar upplýsingar í skýrslunni. Þá bendir stefndi á að stefnandi og hinn látni hafi ekki verið þjóðþekktir einstaklingar og hafi rannsóknarnefndin ekki mátt gera ráð fyrir því að unnt væri að ráða af skýrslunni hverjir ættu í hlut. Það hafi ekki verið á ábyrgð stefnda hvað hafi mátt ráða af fréttum fjölmiðla um slysið og persónulega hagi stefnanda og eiginmanns hans. Þá hafi í skýrslunni í engu verið vikið að stefnanda sjálfum.
Stefndi tekur fram að rannsóknarnefnd umferðarslysa starfi samkvæmt lögum nr. 24/2005 og beri hún að fara að fyrirmælum þeirra og annarra laga eftir því sem við á. Í 10. gr. laganna sé veitt heimild til vinnslu persónuupplýsinga í þágu rannsóknar umferðarslysa, þ.á m. viðkvæmra persónuupplýsinga. Vinnsla upplýsinganna skuli þó vera í samræmi við lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í 12. gr. laganna komi fram að nefndin skuli gefa út skýrslu um störf sín. Jafnframt segi þar að nefndin geti samið sérstaka skýrslu eftir rannsókn tiltekins máls þar sem gera skuli grein fyrir orsökum eða sennilegum orsökum slyss og gera tillögur að varúðarráðstöfunum sem geti afstýrt hliðstæðum slysum. Samkvæmt lögunum beri að gera skýrslu af þessu tagi opinbera svo fljótt sem verða má.
Tilgangur þessa sé að leiða í ljós orsakir umferðarslysa til að koma í veg fyrir að samskonar umferðarslys verði aftur, sbr. 2. gr. laga nr. 24/2005. Þessum tilgangi verði að áliti stefnda ekki náð nema með því að segja hverja sögu eins og hún er. Óhjákvæmilegt sé að lýsa í hverju tilviki aðstæðum og greina frá því hvað hafi gerst, m.a. með vísun til gagna og upplýsinga þeirra sem hafi orðið vitni að slysum eða geta veitt aðrar upplýsingar.
Stefndi telur að stefnandi falli ekki undir þá sem eigi sérlega ríkra hagsmuna að gæta í skilningi 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005 þannig að rétt hafi verið að gefa honum kost á að tjá sig um drög að skýrslunni. Ekki hafi verið unnt að ráða af skýrslunni neitt um persónulegar aðstæður eiginmanns stefnanda eða stefnanda sjálfan. Telur stefndi almennt leika verulegan vafa á því að ákvæðið eigi við um nána aðstandendur fórnarlamba umferðarslysa eða annarra sem eru beinir þátttakendur í atburðarás slyss.
Stefndi telur að óhjákvæmilegt hafi verið að geta þess í skýrslunni að farþegi hafi verið í bifreiðinni þegar henni var ekið frá [...] til Reykjavíkur. Hafi það skýrt hvernig upplýsingar voru fengnar um ferðatíma og á hverju skýrslan byggðist, t.a.m. um það að ekið hafi verið nánast hvíldarlaust. Jafnframt skipti þetta máli vegna þeirrar ábendingar í niðurlagi skýrslunnar um að allir eigi að vera á varðbergi gagnvart því að fólk aki ekki bifreiðum þegar geta þess er skert sökum þreytu. Telur stefndi óskiljanlegt að stefnandi dragi þá ályktun að með þeirri ábendingu hafi verið vegið að sér.
Stefndi telur að jafnvel þó að unnt hefði verið að greina af skýrslunni að farþeginn hefði verið karlkyns þá hafi rannsóknarnefndin ekki haft ástæðu til að ætla að upplýsingar í skýrslunni væru viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Ekkert hafi bent til þess að farþeginn væri samkynhneigður og enn síður að hann hefði verið í rómantísku sambandi við ökumanninn.
Varðandi þá málsástæðu stefnanda að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu með birtingu skýrslunnar tekur stefndi fram að í skýrslum um alvarleg umferðarslys komi oft fram upplýsingar sem aðstandendur viðkomandi eigi erfitt með að sætta sig við, s.s. um óvarlegan akstur eða áfengis- eða vímuefnaneyslu. Rannsóknarnefndin beri eftir sem áður ábyrgð á því að upplýsa um þessi atriði. Í þessum tilvikum séu drög að skýrslum ekki bornar undir aðstandendur til yfirlestrar. Áhersla sé lögð á að skýrslur rannsóknarnefndarinnar komi sem fyrst fyrir augu almennings en með því verði áhrifamáttur þeirra meiri. Með því að senda drög að skýrslu til umsagnar geti orðið ómældar tafir á útkomu hennar sem þannig nái ekki tilgangi sínum.
Af hálfu stefnda er á það bent að þreyta og syfja séu algengar orsakir umferðarslysa. Því hafi almannahagsmunir staðið til þess að greina frá þeirri vegalengd sem hafði verið ekin áður en slysið varð. Með því hafi verið sýnt fram á mögulega hættu af því að aka langar vegalengdir án hvíldar.
Stefndi telur að í stefnu séu ýmsar ósannaðar getgátur. Ekkert verði t.d. fullyrt um það hvort skýrslan hefði orðið öðruvísi ef drög að henni hefðu verið borin undir stefnanda. Þá sé það getgáta ein að ekki hefði verið sagt með sama hætti frá ef ökumaður hefði verið gagnkynhneigður, kvæntur karlmaður og farþeginn gagnkynhneigð kona. Mótmælir stefndi þessum málsástæðum stefnanda og er öllum fullyrðingum um brot gegn jafnræðisreglu vísað á bug.
Stefndi telur að myndbirting í skýrslunni skipti engu máli en þær myndir hafi hvorki sýnt bílflak, slasað fólk né slíkt. Þetta hafi aðeins verið hlutlausar myndir af umræddum stað.
Stefndi telur jafnframt að ekki hafi verið efni til að breyta skýrslunni eða fjarlægja hana af vef rannsóknarnefndarinnar, enda engin heimild til þess í lögum.
Þá telur stefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði þeirra bótareglna sem stefnandi vísi til. Ekki sé um að ræða meingerð gegn friði, frelsi, æru eða persónu stefnanda, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga. Ólögmætisfyrirvaranum í ákvæðinu sé enn síður fullnægt. Réttur stefnanda til einkalífs hafi ekki verið skertur enda sé hvergi í skýrslunni vikið að honum eða einkalífi hans. Ef talið verður að unnið hafi verið með persónuupplýsingar í skýrslunni telur stefndi að það hafi aðeins verið persónuupplýsingar um aðra en stefnanda sjálfan og það gert af nauðsyn til að fullnægja lagaskyldu rannsóknarnefndarinnar.
Stefndi telur að engar upplýsingar um einkahagi stefnanda eða annarra hafi verið birtar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og því hafi ekki verið brotið gegn þagnarskyldu samkvæmt 11. gr. laga nr. 24/2005.
Stefndi telur fjárhæð hinna umkröfðu bóta fjarri öllu lagi og telur ætlað tjón stefnanda allt ósannað. Stefnandi hafi orðið fyrir miklu áfalli út af fráfalli maka síns og þeirrar fullvissu sinnar að hann hefði átt í rómantísku sambandi við annan karlmann fyrir andlátið. Telur stefndi allar líkur á að orsök áfalls og vanlíðanar stefnanda liggi í þessu en ekki í birtingu skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Stefndi telur bréf sálfræðingsins ekki breyta þessu og er ályktunum sálfræðingsins hafnað. Það að stefnandi hafi kosið að leyna því að hann grunaði eða vissi um framhjáhald maka síns geti að mati stefnda ekki leitt til bótaskyldu hans þó að stefnandi telji að óviðkomandi geti lesið upplýsingar um það út úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda auk þess sem hann vísar til 9. gr. i.f. í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og telur nær að miða við síðara tímamark.
Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um hvort birting á skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa, þar sem fjallað var um rannsókn á umferðarslysi þar sem maki stefnanda lést, og vinnubrögð nefndarinnar að öðru leyti, hafi falið í sér brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda eða farið á annan hátt í bága við lög þannig að stefndi verði að teljast bótaskyldur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga við stefnanda.
Málatilbúnaður stefnanda byggir m.a. á því að hinn látni hafi átt í rómantísku sambandi við farþegann, sem getið er í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, og að með birtingu skýrslunnar hafi þetta atriði verið upplýst fyrir þeim sem þekktu til þeirra auk þess sem aðrir hafi átt auðvelt með að draga þá ályktun og finna út hverjir ættu hlut að máli. Í málinu liggur ekki annað fyrir um samband hins látna við farþegann en framburður stefnanda fyrir dómi. Hann greindi svo frá að eftir slysið hefði hann fengið staðfestingu á því frá umræddum farþega að hann hefði dvalið hjá hinum látna helgina fyrir slysið og þeir ekið saman til Reykjavíkur nóttina áður en slysið varð. Þá kvað stefnandi að ummerki á heimili hans og hins látna hefðu verið með þeim hætti að ekki hefði farið á milli mála hvernig sambandi hins látna og farþegans hefði verið háttað.
Umræddur farþegi gaf ekki skýrslu fyrir dómi en í greinargerð stefnda var því mótmælt að það lægi fyrir að hinn látni og farþeginn hefðu átt í ástarsambandi. Óvarlegt er því að telja fullsannað að sambandi hins látna og farþegans hafi verið með þeim hætti sem stefnandi heldur fram. Í ljósi atvika telur dómurinn þó rétt að leggja til grundvallar að líkindi séu á því að tengsl þeirra hafi rist dýpra en venjuleg vinatengsl gera að jafnaði.
Um störf rannsóknarnefndar umferðarslysa gilda lög nr. 24/2005, um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Tilgangur starfa nefndarinnar er að leiða í ljós orsakir umferðarslysa til að koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og draga úr afleiðingum sambærilegra slysa, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Með því sé stuðlað að auknu öryggi í umferðinni. Nefndinni eru fengnar rúmar heimildir til að afla gagna, s.s. með vettvangsskoðun, skýrslutökum og athugun sérfræðinga. Getur nefndin m.a. leitað eftir upplýsingum um ökutæki, ökumenn, farþega, vitni og annað sem kann að skipta máli varðandi rannsóknina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Sérstaklega er tekið fram að heimild þessi nái til persónugreinanlegra upplýsinga, þ.m.t. viðkvæmra persónuupplýsinga á borð við sjúkra- og krufningaskýrslur. Þó er áréttað að meðferð og vinnsla nefndarinnar á persónuupplýsingum skuli vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Þá er í 11. gr. laganna mælt fyrir um að rannsóknarnefndin, forstöðumaður hennar, starfslið og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skuli virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Taki það til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna.
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 24/2005 ber rannsóknarnefnd umferðarslysa að gefa út og birta árlega skýrslu um störf sín. Þá getur hún samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknar sinnar í einstöku máli telji hún tilefni til þess. Í slíkri skýrslu skal þá gerð grein fyrir orsökum og sennilegum orsökum umferðarslyssins auk þess sem þar skal gera tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skýrslu af þessu tagi ber samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 12. gr. laganna að gera opinbera svo fljótt sem verða má. Ljóst er að birting á skýrslu af þessu tagi hlýtur að teljast mikilvægt úrræði til að ná fram því lögmælta markmiði með starfsemi rannsóknarnefndarinnar að auka umferðaröryggi.
Ákvörðun rannsóknarnefndar umferðarslysa um að semja skýrslu um tiltekið umferðarslys eða að birta hana er ekki ákvörðun um réttindi eða skyldur manns í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda lýtur hún ekki að réttarstöðu tiltekins eða tiltekinna aðila heldur felur í sér lýsingu á orsökum slyss sem er ætlað að hafa almennt forvarnargildi. Fyrirmæli þeirra laga, s.s. 13. gr. laganna um andmælarétt aðila máls, eiga því ekki við.
Í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005, um rannsóknarnefnd umferðarslysa, er sérákvæði um skyldu rannsóknarnefndarinnar til að gefa þeim sem eiga sérlega ríkra hagsmuna að gæta kost á því að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2005 kemur fram að hér sé bæði átt við skýrslur nefndarinnar um einstök slys sem og hina árlegu skýrslu. Í dæmaskyni er bent á að ef gerðar eru athugasemdir í hinni árlegu skýrslu við fyrirkomulag gatnakerfis í tilteknu sveitarfélagi sé eðlilegt að sveitarfélagið eigi kost á að tjá sig um afstöðu nefndarinnar til þess.
Alls ekki er útilokað að nánir aðstandendur þeirra sem láta lífið í umferðarslysum geti talist eiga sérlega ríkra hagsmuna að gæta af umfjöllun nefndarinnar um umferðarslys. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar frá [...] 2009 kom fram ábending til ættingja og vina um að þeir aðvari þreytta ökumenn um að hættulegt sé að aka of þreyttur. Þessi ábending er almenn og verður ekki séð að henni sé beint að stefnanda. Þá er ekki upplýst í málinu að rannsóknarnefnd umferðarmála hafi mátt ætla að maki hins látna hefði hagsmuni af því að fá að tjá sig um það sem fram kemur í skýrslunni um að annar maður hefði verið í bifreiðinni þegar henni var ekið til Reykjavíkur. Í þessu ljósi verður ekki talið að stefnandi hafi átt sérlega ríkra hagsmuna að gæta af umfjöllun nefndarinnar þannig að skylt hafi verið að bera undir hann drög að skýrslu um slysið [...] 2008, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005. Efni hennar að öðru leyti, s.s. myndir af þeim stað þar sem slysið varð, voru heldur ekki þess eðlis að rétt hefði verið að bera drög að skýrslunni undir stefnanda.
Ábendingar komu fram af hálfu umboðsmanns Alþingis 29. júlí 2009 um að rannsóknarnefndinni hefði í samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti verið rétt að tilkynna stefnanda fyrirfram um að fyrirhugað væri að birta skýrsluna og gefa honum kost á að setja fram sjónarmið sín af því tilefni. Upplýst er að rannsóknarnefndin hefur breytt verklagi sínu og tilkynnir nú aðstandendum þeirra sem látast í umferðarslysum um fyrirhugaða birtingu á skýrslum um einstök slys í samræmi við ábendingu umboðsmanns.
Með vönduðum stjórnsýsluháttum er einkum vísað til þess að stjórnvöld verði almennt að sýna kurteisi og lipurð í samskiptum sínum við borgarana og nægilega nærgætni og sanngirni í skiptum við þá, sbr. til hliðsjónar 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og athugsemdir við frumvarp það er varð að lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Þó að út af því sé brugðið í einstaka tilvikum verður ekki talið að það feli í sér réttarbrot gagnvart þeim sem í hlut eiga nema að framkoma, vinnubrögð eða athöfn stjórnvalds brjóti jafnframt gegn lögmæltum réttindum borgarans eða stangist á við fyrirmæli laga eða óskráðar reglur stjórnsýsluréttar.
Eins og fyrr greinir hefur löggjafinn mælt fyrir um að gefa skuli þeim sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta kost á að tjá sig um drög að skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 24/2005. Málsmeðferð rannsóknarnefndarinnar í tengslum við rannsókn á slysinu [...] 2008 stangaðist ekki á við þetta ákvæði. Af þessum sökum verður að hafna því að fallast beri á kröfu stefnanda sökum þess að rannsóknarnefndin tilkynnti honum ekki um gerð skýrslunnar og gaf honum ekki færi á að tjá sig um hana áður en hún var birt.
Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Með þessu er lögð sú skylda á stjórnvöld að forðast íhlutun eða afskipti af einkalífi manna auk þess sem leiða má af ákvæðinu ákveðnar jákvæðar skyldur ríkisvaldsins er miða að því að einstaklingar fái notið friðhelgi í einkalífi sínu. Í 3. mgr. ákvæðisins er veitt heimild til að takmarka með lögum friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Tilfinningalegt samband einstaklinga í eða utan hjúskapar fellur ótvírætt undir einkalíf manna og verður að telja að birting upplýsinga er að því lúta geti falið í sér ólögmæta íhlutun í friðhelgi einkalífs þeirra sem hlut eiga að máli.
Einkalíf manna nýtur enn fremur verndar í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þar segir að sérhver maður eigi rétt á friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í 2. mgr. þessa sama ákvæðis er kveðið á um að opinber stjórnvöld skuli ekki ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi og á grundvelli nánar tilgreindra sjónarmiða. Þá er einkalíf manna enn fremur verndað samkvæmt 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Í lögum um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 24/2005, eru reglur sem miða að því að tryggja friðhelgi einkalífs þeirra sem hlut eiga að máli. Áður er þess getið að öll meðferð og vinnsla persónuupplýsinga skuli vera í samræmi við lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 3. mgr. 10. gr. laganna, og að þagnarskylda hvíli á nefndinni og starfsliði hennar um einkahagi manna og aðrar upplýsingar sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Í 5. mgr. 12. gr. laganna er síðan kveðið sérstaklega á um að nefndinni beri að fella úr skýrslum sínum um einstök mál beina tilvísun til trúnaðargagna sem hún aflar í tengslum við rannsókn máls, svo og til gagna sem aflað hefur verið hjá lögreglu, sé rannsókn sakamáls ekki lokið nema að því leyti sem óhjákvæmilegt er talið vegna greiningar á orsökum umferðarslyss. Þá beri að afmá nöfn aðila er tengjast umferðarslysi úr skýrslu nefndarinnar.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar frá [...] 2009 var ekki greint frá nafni ökumanns eða farþegans eða upplýst um önnur atriði sem ástæða var til að færu leynt á grundvelli lögmætra einka- eða almannahagsmuna. Þar er slysinu og aðdraganda þess lýst með almennum orðum án þess að ráða megi af lestri hennar hverjir hafi átt hlut að máli eða hvers eðlis samband farþegans og ökumannsins var. Í því sambandi skiptir ekki máli þó að leggja megi þann skilning í orðin „ásamt öðrum manni“ að bæði ökumaður og farþegi hafi verið karlkyns enda ekkert í skýrslunni sem gaf til kynna að þeir væru samkynhneigðir. Ekki liggur fyrir að rannsóknarnefndin eða starfsmenn hennar hafi vitað eða mátt vita af kynhneigð þeirra áður en skýrslan var birt. Fyrir almennan lesanda upplýsti skýrslan ekkert um samband stefnanda við maka sinn þannig að telja verði að friðhelgi einkalífs hans hafi verið rofin. Þá verður ekki talið að gengið hafi verið gegn þagnarskyldureglu 11. gr. laga nr. 24/2005.
Stefnandi telur að við mat á því hvort brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs síns verði ekki aðeins að líta til þess hvað hinn almenni lesandi gat ráðið af lestri skýrslunnar heldur verði einnig að taka tillit til þess hvað þeir sem þekktu til stefnanda og maka hans, s.s. nágrannar, gátu ályktað af lestri hennar. Bendir stefnandi á að eftir að skýrslan var birt hafi hann þurft að svara óþægilegum spurningum frá vinum og kunningjum er lúta að sambandi hans við maka sinn.
Varðandi þetta atriði er rétt að hafa í huga að í úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið litið svo á að athöfn af hálfu stjórnvalds, sem beinist að einkalífi manns, þurfi að ná vissum styrk til að um raunverulega íhlutun sé að ræða þannig að friðhelgi einkalífs hans teljist rofin. Rétt er að leggja sömu sjónarmið til grundvallar við túlkun á 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Fallist er á með stefnda að til að ná markmiði með birtingu á skýrslu um einstakt umferðarslys, sbr. 12. gr. laga nr. 24/2005, hafi verið rétt að greina með eins skýrum hætti og unnt var frá aðdraganda slyssins en með því hafi boðskapur nefndarinnar um áhrif þreytu á aksturshæfni ökumanna komist best til skila. Réttmætt hafi verið að greina frá akstursleið og ökutíma svo og að farþegi hafi verið í bifreiðinni á leið til Reykjavíkur til að útskýra hvernig nefndin hafi komist að niðurstöðu. Eins og áður er getið varð ekkert ráðið af lestri skýrslunnar um hverja var að ræða eða hvers eðlis samband farþegans og ökumannsins hefði verið. Þá liggur ekkert fyrir um að rannsóknarnefnd umferðarslysa eða starfsmenn hennar hafi vitað eða mátt vita um kynhneigð þeirra.
Þeir sem vissu að það var maki stefnanda sem lést í umferðarslysinu [...] 2008 gátu án efa gert sér grein fyrir því að í skýrslunni væri verið að fjalla um aðdraganda að slysinu þar sem maki stefnanda lést. Hjá því varð ekki komist. Þá verður að telja að fyrir þá sem vissu um kynhneigð hins látna, svo og að stefnandi var erlendis þegar slysið varð, hafi upplýsingar í skýrslunni kunnað að vekja grunsemdir um að hinn látni hefði verið í nánari tengslum við manninn í bifreiðinni en samrýmdist sambandi hans við stefnanda. Ekki verður hins vegar talið að rannsóknarnefndin geti borið ábyrgð á ályktunum af þessu tagi sem byggjast að verulegu leyti á vitneskju sem ekki voru í skýrslunni um slysið. Þá verður ekki séð hvernig rannsóknarnefndin hefði við framsetningu á skýrslunni getað tekið mið af vitneskju þeirra sem til þekktu um atriði sem nefndin bjó ekki yfir neinni vitneskju um. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að um íhlutun í einkalíf stefnanda hafi verið að ræða þannig að friðhelgi þess hafi verið rofin.
Birting skýrslunnar verður heldur ekki talin hafa falið í sér ólögmæta mismunun á grundvelli kynferðis eða kynhneigðar enda engan veginn hægt að fullyrða hvernig framsetningu skýrslu af þessu tagi hefði verið hagað ef gagnkynhneigður og kvæntur karlmaður og gagnkynhneigð kona hefðu átt í hlut. Þá er ekki fallist á að með birtingu skýrslunnar hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu. Um það atriði vísast til þess sem áður er komið fram að eðlilegt var að greina frá akstursleið og ökutíma í skýrslunni svo og að farþegi hafi verið í bifreiðinni á leiðinni til Reykjavíkur. Þá verður af lestri skýrslunnar ekkert ráðið um ætlað samband ökumanns og farþega þó að draga hafi mátt þá ályktun af henni að farþeginn og ökumaðurinn hafi báðir verið karlmenn. Að lokum verður að telja að sú vinnsla persónuupplýsinga sem fram fór af hálfu nefndarinnar hafi verið heimil til að fullnægja lagaskyldu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.
Hér hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að skýrsla rannsóknarnefndarinnar, eins og hún var birt [ ] 2009 á vef nefndarinnar, hafi ekki skert réttindi stefnanda eða farið í bága við lög. Með hliðsjón af því verður ekki talið að stefnandi hafi átt kröfu um að nefndin fjarlægði skýrsluna eða breytti efni hennar.
Samkvæmt öllu framangreindu er ekki fallist á að háttsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn stefnanda. Því ber að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Af hálfu stefnanda flutti málið Kári Hólmar Ragnarsson hdl. fyrir hönd Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Einar K. Hallvarðsson hrl.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.