Hæstiréttur íslands
Mál nr. 82/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
Mánudaginn 7. mars 2011. |
|
|
Nr. 82/2011. |
Strengur fjárfestingar ehf. (Steinn Finnbogason hdl.) gegn Dróma hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
S ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem mál D hf. á hendur S ehf., vegna lánssamnings í erlendri mynt, var fellt niður og D hf. gert að greiða S ehf. 75.000 krónur í málskostnað. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að krafa D hf. um niðurfellingu málsins hefði komið fram eftir að S ehf. skilaði greinargerð og bæri hún með sér að umtalsverð vinna hefði farið í að semja hana. Þegar litið væri til þessa, málið virt í heild sinni, meðferð þess og umfang, væri hæfilegt að D hf. greiddi S ehf. 350.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2011 þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 75.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér hærri málskostnað en ákveðinn var í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun hins kærða úrskurðar um málskostnað sóknaraðila til handa verði staðfest. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili höfðaði mál þetta með stefnu birtri 24. júní 2010 og var málið þingfest 29. sama mánaðar. Hljóðaði dómkrafa varnaraðila um greiðslu á 475.996.297 krónum auk dráttarvaxta, sem þó voru ekki tilgreindir nánar, frá 29. janúar 2010 til greiðsludags. Var krafan sögð byggjast á fjórum lánssamningum í erlendri mynt sem gerðir hefðu verið á árunum 2007 og 2008. Eftir þingfestingu var málið tekið fyrir á reglulegu dómþingi fimm sinnum og frestað að ósk sóknaraðila til greinargerðar. Við fyrirtöku málsins 7. desember 2010 mótmælti varnaraðili frekari fresti sóknaraðila til handa og var málinu þá frestað til 9. sama mánaðar til þess að gefa aðilum kost á að tjá sig um „kröfur sínar“, eins og það er bókað. Þegar málið var tekið fyrir síðast greindan dag lagði sóknaraðili fram greinargerð og fór málið til dómstjóra til úthlutunar.
Í greinargerð sinni krafðist sóknaraðili þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Til vara krafðist hann sýknu en að því frágengnu lækkunar á dómkröfu varnaraðila og frávísunar á dráttarvaxtakröfu hans. Aðalkrafan var á því byggð að krafa varnaraðila væri vanreifuð. Fyrir kröfum sínum um efnishlið málsins hafði sóknaraðili uppi margháttaðar málsástæður, sem byggðust á aðildarskorti, á skorti á sönnun um að sóknaraðili hefði tekið að láni þá fjárhæð sem krafist væri greiðslu á, að greitt hefði verið með skuldajöfnuði, að sóknaraðili ætti skaðabótakröfu á hendur varnaraðila sem þýðingu hefði fyrir kröfugerð hans, að tenging lánsfjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla væri andstæð lögum, að ógilda bæri samningana að hluta eða öllu leyti á grundvelli ákvæða í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og í því sambandi að samningarnir væru andstæðir lögum nr. 121/1994 um neytendalán og tilskipunum Evrópusambandsins um slík lán og loks að brostnar væru forsendur fyrir samningunum. Þá var einstökum atriðum í kröfum varnaraðila mótmælt af ýmsum tilgreindum ástæðum. Krafa um frávísun á dráttarvaxtakröfu varnaraðila var byggð á því að sú krafa væri ekki gerð á þann hátt sem nauðsynlegt væri samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og vísað til fordæma Hæstaréttar um það efni.
Þegar málið var næst tekið fyrir 19. janúar 2011 óskaði varnaraðili eftir að fella það niður án kostnaðar en sóknaraðili krafðist málskostnaðar. Var aðilum gefinn kostur á að tjá sig um þetta og málið síðan tekið til úrskurðar. Sóknaraðili lagði ekki fram málskostnaðarreikning svo sem gert er ráð fyrir í 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður var síðan kveðinn upp 21. janúar 2011.
Í kæru til Hæstaréttar kemur fram af hálfu sóknaraðila að umtalsverður tími hafi farið í vinnu við málsvarnir hans. Þá telur hann rökstuðningi fyrir úrlausn hins kærða úrskurðar um fjárhæð málskostnaðar áfátt.
Varnaraðili segir í greinargerð til Hæstaréttar að málskostnaður hafi verið „ákvarðaður í samráði við viðstadda lögmenn, án athugasemda, og með hliðsjón af úrskurðum um málskostnað í sambærilegum úrskurðum, í málum sem flutt voru af sömu lögmönnum, fyrir hönd félaga sömu fyrirsvarsmanna.“ Staðhæfingin um samráð við ákvörðun um málskostnaðinn er engum gögnum studd og verður því ekki sinnt frekar. Með greinargerð varnaraðila fylgdu fjórir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur. Þar er fyrst úrskurður 13. desember 2010 í málinu Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. gegn Brautarholti 20 ehf., Þórarni Arnari Sævarssyni og Ívari Ómari Atlasyni, þar sem málinu var vísað frá dómi með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og stefnandi úrskurðaður til að greiða hverjum hinna stefndu 75.000 krónur í málskostnað. Kemur fram í úrskurðinum að sami lögmaður hafi farið með málið fyrir stefnanda og fór með þetta mál fyrir varnaraðila í héraði og að lögmaður sóknaraðila í þessu máli hafi farið með málið fyrir tvo af þeim þremur sem stefnt var. Ekki er af hálfu varnaraðila skýrt sérstaklega hvaða þýðingu nefndur dómsúrskurður hafi fyrir það mál sem hér er til úrlausnar. Þá fylgdu greinargerðinni tveir úrskurðir 20. desember 2010, annars vegar í máli varnaraðila gegn Streng Byggingum ehf. og Brautarholti 20 ehf. og hins vegar máli Frjálsa fjárfestingabankans hf. gegn sömu aðilum. Kemur fram að sömu lögmenn hafi farið með bæði málin og fóru með þetta mál í héraði. Í báðum tilvikum voru málin felld niður samkvæmt kröfu stefnenda og hinum stefndu ákveðinn málskostnaður, 75.000 krónur hverjum. Í nefndum úrskurðum kemur það eitt fram um sakarefni málanna að það hafi verið samkynja sakarefni málsins sem vísað hafi verið frá dómi 13. desember 2010 og fyrr var getið. Loks fylgdi greinargerðinni úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2011 í máli varnaraðila gegn Arnarsmára ehf., sem sömu lögmenn fóru með. Var málið þar fellt niður samkvæmt kröfu stefnanda og hann úrskurðaður til að greiða stefnda sömu fjárhæð og fyrr, 75.000 krónur í málskostnað.
Þó að fallast megi á með varnaraðila að máli geti skipt, við ákvörðun málskostnaðar, hagræði af því að reka fleiri en eitt mál saman um sambærilegt sakarefni, einkum ef málsaðilar eru þeir sömu, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 15. júní 2010 í málum nr. 342, 343 og 344/2010, verður ekki ráðið með vissu af þeim gögnum sem varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, að svo hafi staðið á um dómsmál þau sem hann vísar til og nefnd voru að framan. Sóknaraðili var ekki svo séð verði aðili að þeim málum.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma varnaraðila til greiðslu málskostnaðar. Við ákvörðun um fjárhæð hans verður meðal annars litið til þess að krafa varnaraðila um niðurfellingu málsins kom fram eftir að sóknaraðili hafði skilað greinargerð og hún ber með sér að umtalsverð vinna hefur farið í að semja hana. Þegar þetta, og umfang málsins að öðru leyti, er virt verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um niðurfellingu málsins er óraskað.
Varnaraðili, Drómi hf., greiði sóknaraðila, Streng fjárfestingum ehf., 350.000 krónur í málskostnað í héraði og 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2011.
I
Mál þetta, sem tekið var tekið til úrskurðar hinn 19. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, á hendur Streng fjárfestingum ehf., Skútuvogi 11a, Reykjavík, með stefnu birtri 24. júní 2010.
Í þinghaldi hinn 19. janúar sl., krafðist stefnandi þess að málið yrði fellt niður. Lögmaður stefndu krafðist þess að stefndu yrði úrskurðaður málskostnaður.
Mál þetta var þingfest hinn 29. júní 2010 og var því ítrekað frestað til framlagningar greinargerðar stefnda og sáttaumleitana. Greinargerð stefnda var lögð fram í þinghaldi hinn 9. desember 2010 og fór málið þá út af reglulegu dómþingi þann dag. Málið var síðan tekið fyrir í þinghaldi hinn 19. janúar sl., þar sem stefnandi krafðist þess að málið yrði fellt niður.
Með vísan til 2. mgr. 105. gr., sbr. c-liður 1. mgr. 105 gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er málið fellt niður.
Samkvæmt kröfu stefnda skal stefnandi greiði stefnda málskostnað, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með hliðsjón af umfangi málsins og niðurstöðu þess þykir málskostnaður stefnda hæfilega ákveðinn 75.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Mál þetta er fellt niður.
Stefnandi, Drómi hf., greiði stefnda, Streng fjárfestingum ehf. 75.000 krónur í málskostnað.