Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 21. maí 2015. |
|
Nr. 343/2015.
|
Kristín Sigurðardóttir (Reimar Pétursson hrl.) gegn Guðfinnu Þorvaldsdóttur (Valgeir Kristinsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem mál K á hendur G var fellt niður og hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2015 þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður og hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Af gögnum málsins verður ráðið að ekki var eingöngu við varnaraðila að sakast að dráttur varð á því að hún efndi skuldbindingar sínar gagnvart sóknaraðila um að leysa hana úr ábyrgðum á veðskuldum við sölu á þeim fasteignum sem greinir í hinum kærða úrskurði. Að því gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2015.
Mál þetta höfðaði Kristín Sigurðardóttir, Grundartanga 6, Mosfellsbæ, með stefnu birtri 24. mars 2014 á hendur Guðfinnu Þorvaldsdóttur, Saurbæ, Hellu, og til réttargæslu Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Í stefnu voru gerðar svohljóðandi kröfur:
A Að stefndu verði gert að greiða stefnanda 33.144.922 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2013 til greiðsludags, með því skilyrði að 31.373.199 krónur renni fyrst til greiðslu á veðskuld við réttargæslustefnda nr. 0351-35-19739 og 1.771.723 krónur renni til greiðslu skuldar að baki fjárnámi merktu þinglýsingarnúmerinu 3126/2012, allt gegn útgáfu afsals á 60% eignarhlut í eigninni að Njarðarholti 7, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-4185.
B Aðallega: Að stefndu verði gert að greiða stefnanda 32.600 krónur, 20.292,81 evru, 1.648,822 japönsk jen og 15.890,93 svissneska franka ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2013 af öllum fjárhæðum til greiðsludags, með því skilyrði að hin umkrafða fjárhæð renni til greiðslu á veðskuld við réttargæslustefnda nr. [...], allt gegn útgáfu á afsali eignarinnar Sunnuhlíð 12, Akureyri, fastanúmer 215-1107.
Til vara: Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 7.247.962 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2013 til greiðsludags, gegn því skilyrði að 7.247.962 krónur renni til greiðslu á veðskuld við Arion banka hf. nr. [...], allt gegn afsali eignarinnar Sunnuhlíð 12, Akureyri, fastanúmer 215-1107.
Í öllum tilvikum krafðist stefnandi málskostnaðar.
Við fyrirtöku málsins 10. febrúar sl. breytti stefnandi kröfum sínum þannig að hún krafðist aðeins greiðslu á 1.771.723 krónum með dráttarvöxtum frá 21. maí 2013 til greiðsludags, sem rynni til greiðslu skuldar að baki fjárnámi merktu þinglýsingarnúmerinu 3126/2012, allt gegn útgáfu afsals á 60% eignarhlut í eigninni að Njarðarholti 7, Mosfellsbæ. Þá var einnig krafist málskostnaðar.
Í greinargerð stefnda var aðallega krafist frávísunar og málskostnaðar úr hendi stefnanda og lögmanns hennar. Til vara var krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hennar hendi.
Engar kröfur voru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann sótti ekki þing.
Stefnda fékk nokkrum sinnum frest til ritunar greinargerðar, en er hún óskaði eftir frekari fresti við fyrirtöku þann 27. maí 2014 mótmælti stefnandi frekari fresti. Var leyst úr ágreiningnum með úrskurði dómsins þann 5. júní og stefndu veittur frestur til 19. júní. Þann dag lagði hún fram greinargerð.
Á sama tíma og stefnda lagði fram greinargerð krafðist hún málskostnaðartryggingar samkvæmt 133. gr. laga nr. 91/1991. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði 19. júní 2014.
Er málinu hafði verið úthlutað til dómara var ákveðinn tími til málflutnings um frávísunarkröfu stefndu þann 3. nóvember 2014. Við þá fyrirtöku féll stefnda frá kröfu sinni um frávísun málsins. Lögmaður stefnanda lýsti því þá yfir að hann krefðist sérstakrar ómaksþóknunar, en hann hefði undirbúið málflutning.
Málið var í kjölfarið tekið fyrir nokkrum sinnum og lögð fram skrifleg sönnunargögn. Var loks í þinghaldi 6. mars 2015 ákveðin aðalmeðferð er fara skyldi fram 15. maí. Skömmu eftir þinghaldið var dómara kynnt utan réttar að aðilar hefðu náð samkomulagi um málefni sín, nema hvað þá greindi enn á um málskostnað. Var málið tekið fyrir og reifuðu aðilar sjónarmið sín munnlega þann 30. mars sl. og var málið tekið til úrskurðar. Voru aðilar sammála um að fella bæri málið niður, en kröfðust hvor málskostnaðar úr hendi hins. Þá krafðist stefnda þess að lögmaður stefnanda yrði dæmdur til að greiða hluta málskostnaðar með umbjóðanda sínum.
Í stefnu segir að málið megi rekja til sambúðarslita stefnanda og sonar stefndu, Þorvaldar Steinþórssonar. Aðilar málsins og Þorvaldur gerðu með sér samkomulag þann 5. febrúar 2013. Þar var samið um að stefnda keypti fjórar fasteignir af stefnanda. Segir í 3. gr. samningsins að greiðsla kaupverðs færi fram með þeim hætti að stefnda yfirtæki áhvílandi veðskuldir og greiddi stefnanda 3.500.000 krónur. Var tekið fram að veðskuldirnar væru í vanskilum. Skyldi stefnda yfirtaka veðskuldir sem hvíldu á eignunum fyrir 25. mars 2013, með skuldskeytingu eða greiðslu, þannig að stefnandi væri laus úr ábyrgð á þeim. Ágreiningur þessa máls varðar í raun aðeins tvær af þessum fasteignum, Njarðarholt 7, Mosfellsbæ og Sunnuhlíð 12, Akureyri.
Þann 26. mars 2013 sendi stefnandi stefndu bréf með stefnuvotti. Þar sagði að frestur til að yfirtaka áhvílandi lán og greiða kaupverðið væri liðinn og greiðsla hafði ekki borist. Umráð eignanna hefðu þegar verið afhent. Var síðan sundurliðuð gjaldfallin skuld stefnanda, en hún var sögð nema 53.111.781 krónu, auk þess sem fyrirvari var gerður um að fjárhæðin kynni að hækka vegna ógreiddra gjalda af fasteignunum. Var stefndu hótað að samkomulagi aðila yrði rift ef greiðsla hefði ekki borist fyrir lok dags 9. apríl 2013.
Stefnda svaraði bréfi stefnanda með tölvupósti 1. apríl 2013. Þar mótmælti hún fullyrðingum um vanefndir og skoraði á stefnanda að undirrita kaupsamninga um eignirnar. Fleiri bréf gengu á milli aðila, en svo fór að þeir undirrituðu kaupsamninga um Narðarholt 7 og Sunnuhlíð 12 þann 21. maí 2013. Í þeim samningum var mælt fyrir um að stefnda skyldi greiða upp eða yfirtaka áhvílandi veðskuldir, auk þess sem í samningnum um Njarðarholt 7 var ákveðið að hún skyldi greiða 3.500.000 krónur. Ekki var tilgreindur sérstakur dagur sem yfirtöku skyldi lokið, en sagt að afsal skyldi gefa út þegar kaupandi hefði greitt umsamda greiðslu og fullnægt öðrum skyldum sínum. Í báðum samningunum segir að þeir séu byggðir á áðurnefndu samkomulag frá 5. febrúar 2013, sem teljist hluti kaupsamninganna. Í því samkomulagi var eins og áður segir ákveðið að yfirtöku skyldi lokið 25. mars 2013. Umræddar 3.500.000 krónur voru inntar af hendi með tveimur greiðslum 22. og 23. maí 2013.
Lögð hafa verið fram gögn sem sýna að stefnda hefur unnið að því að fá samþykki lánveitenda fyrir yfirtöku sinni á áhvílandi veðskuldum. Einhverjir erfiðleikar virðast hafa komið fram í samskiptum við Arion banka, en skuld við þann banka var gengistryggð. Þá hafa verið lögð fram ótal afrit af tölvupóstskeytum lögmanna aðila á löngu tímabili.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða málskostnað til stefnda ef mál er fellt niður. Það á þó ekki við ef málið er fellt niður vegna þess að stefndi hefur efnt þá skyldu sem hann er krafinn um í málinu.
Stefnandi gaf út stefnu í þessu máli þann 19. mars 2014. Þar var annars vegar krafist greiðslu tiltekinna fjárhæða eins og áður greinir og dráttarvaxta af þeim. Var byggt á því að gjalddagi krafnanna hafi verið 21. maí 2013.
Ekki verður séð að efnislegur ágreiningur hafi verið á milli aðila. Þeir hagsmunir sem stefnandi hafði af málinu þegar stefnan var gefin út, voru að losna undan persónulegri ábyrgð á greiðslu veðskuldanna. Verður að fallast á að þetta séu raunverulegir hagsmunir, en fram kemur í skjölum málsins að sumar þær eignir sem um ræðir voru mikið veðsettar. Þá má líta til þess að stefndi féll frá kröfu um frávísun málsins við upphaf þinghalds þar sem málflutningur átti að fara fram um þá kröfu.
Á hinn bóginn skoraði stefnandi ekki á stefndu að efna samninginn innan tiltekins tíma, áður en stefnan var gefin út. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi verið krafin um greiðslur af þeim lánum sem stefnda átti að yfirtaka. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að málið hafi verið höfðað af knýjandi nauðsyn, þótt ekki sé ástæða til að beita hér a-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi hefur lagt fram málskostnaðarreikning að fjárhæð 1.813.755 krónur. Er hér krafist óhæfilegrar fjárhæðar vegna málssóknar þessarar, einnig með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi voru.
Með hliðsjón af öllum atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning hefur dregist úr hófi vegna veikindaforfalla dómara og mikilla anna. Lögmenn og dómari eru sammála um að endurflutningur ágreiningsefnisins sé óþarfur.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Mál þetta er fellt niður.
Málskostnaður fellur niður.