Hæstiréttur íslands

Mál nr. 390/2004


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 390/2004.

Jón Ragnar Stefánsson

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Háskóla Íslands

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

 

Opinberir starfsmenn.

Í tengslum við gerð nýs kjarasamnings í apríl 2001 samþykkti háskólaráð að hverfa frá því að veita háskólakennurum þá lækkun á kennsluskyldu við 55 og 60 ára aldur, sem ráðið hafði ákveðið árið 1987. Kennsluskylda J hafði minnkað í samræmi við eldri ákvörðunina í febrúar 1996 og aftur í febrúar 2001, er hann varð sextugur. Var fallist á með J að orðalag samþykktarinnar frá í apríl 2001 væri ekki svo skýrt sem skyldi að því er varðaði stöðu þeirra, sem þegar höfðu hlotið lækkun kennsluskyldu. Síðari samþykkt háskólaráðs, frá október 2001, hefði þó tekið af öll tvímæli um þetta, þar sem áréttað var að samþykktin frá 1987 væri úr gildi fallin. Var það talið innan valdmarka háskólaráðs að fella úr gildi reglurnar frá 1987 og setja nýjar reglur um skiptingu starfsskyldna háskólakennara. Í málinu hafi ekki verið byggt á því að breytingarnar hefðu haft í för með sér skerðingu á launakjörum J í skilningi 19. gr. starfsmannalaga. Breytingarnar hafi verið málefnalegar og tekið jafnt til allra, sem eins var ástatt um. Var ekki talið að með breytingunum hafi réttindi J verið skert í merkingu fyrrnefnds ákvæðis starfsmannalaga. Var H sýknaður af kröfum J í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. september 2004. Hann krefst þess, að neðangreindar samþykktir háskólaráðs og bókun þess skuli ekki hafa áhrif á kennsluskyldu sína sem dósents við stærðfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands:

A.  Samþykkt, sem gerð var á fundi 30. apríl 2001 og hljóðaði svo: „Horfið verði frá því að veita kennurum í Félagi háskólakennara afslátt frá kennslu við 55 og 60 ára aldur.“

B.  Bókun, sem samþykkt var á fundi 16. október 2001, svohljóðandi: „Árétting varðandi niðurfellingu samþykktar um aldursafslátt vegna kennslu. Háskólaráð áréttar, að fyrri samþykkt ráðsins frá 15. janúar 1987 um lækkaða kennsluskyldu kennara (lektora og dósenta) í Félagi háskólakennara sem náð hafa 55 og 60 ára aldri, er úr gildi fallin, sbr. samþykkt ráðsins dags. 30. apríl 2001. Deildum er falið að hlutast til um nauðsynlegar breytingar, sem samþykktin frá 30. apríl og 24. september kallar á að gerðar verði, en miða skal við að endurskoðuð starfskjör hafi tekið gildi þann 1. maí 2001.“

C.  Samþykkt, sem gerð var á fundi 26. júní 2002 og framhaldsfundi 28. sama mánaðar undir dagskrárliðnum „Tillaga um tilfærslu starfsþátta háskólakennara við 55 og 60 ára aldur.“

D.  Samþykkt, sem gerð var á fundi 7. nóvember 2002 undir dagskrárliðnum „Reglur Háskóla Íslands um aldurs- og árangurstengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur.“

Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og lýst er í héraðsdómi var með samþykkt háskólaráðs 15. janúar 1987 tekin sú ákvörðun að minnka kennsluskyldu háskólakennara við 55 ára aldur þannig, að samanlögð vinna við kennslu og stjórnun næmi 50% af heildarvinnuskyldu í stað 60% áður, og við 60 ára aldur lækkuðu sömu vinnuþættir í 40% af heildarvinnuskyldu. Í samræmi við þetta minnkaði kennsluskylda áfrýjanda þegar hann náði 55 ára aldri í febrúar 1996 og aftur í febrúar 2001, er hann varð sextugur.

Kjarasamningur Félags háskólakennara og ríkisins, sem undirritaður var 30. apríl 2001, hafði það að markmiði að auka möguleika stefnda til að haga starfsmannahaldi sínu á þann veg, sem kæmi sér best á hverjum tíma. Var ætlunin að auka hlut grunnlauna í heildarlaunum, þannig að ýmis aukastörf, sem áður var greitt fyrir sérstaklega, yrðu hluti af starfsskyldum, sem greitt yrði fyrir með grunnlaunum. Ein af forsendum breytinga á launalið samningsins var, að dregið yrði úr fjölda vinnustunda til stjórnunar og kennslutímum í dagvinnu yrði fjölgað. Með samþykkt háskólaráðs 30. apríl 2001 var horfið frá því að veita kennurum í Félagi háskólakennara lækkun á kennsluskyldu við 55 ára og 60 ára aldur eins og gert hafði verið frá 15. janúar 1987.

II.

Áfrýjandi heldur því fram, að túlka verði orðalag framangreindrar samþykktar háskólaráðs frá 30. apríl 2001 á þann veg, að hún taki ekki til þeirra, sem þegar höfðu náð hinum skilgreindu aldursmörkum og fengið lækkun á kennsluskyldu, er samþykktin tók gildi.  Orðalag samþykktarinnar var eftirfarandi: „Horfið verði frá því að veita kennurum í Félagi háskólakennara afslátt frá kennslu við 55 og 60 ára aldur.” Fallist er á með áfrýjanda, að orðalag samþykktarinnar sé ekki svo skýrt sem skyldi að því er varðar stöðu þeirra, sem þegar höfðu hlotið lækkun kennsluskyldu á grundvelli samþykktarinnar frá 15. janúar 1987. Hins vegar verður að telja, að tekin hafi verið af öll tvímæli um gildi samþykktarinnar með samþykkt háskólaráðs 16. október 2001, en með henni var samþykkt einróma bókun þar sem áréttað var, að fyrri samþykkt ráðsins frá 15. janúar 1987 væri úr gildi fallin. Var því fyrra fyrirkomulag um lækkaða kennsluskyldu vegna aldurs ekki lengur í gildi og tók það jafnt til allra kennara. Þegar samþykktin var gerð 16. október 2001 hafði breytingin engin áhrif haft á stöðu áfrýjanda, en fram er komið, að vegna rannsóknarleyfis hans muni vart reyna á það hvernig skiptingu starfsskyldna hjá honum verði háttað fyrr en á árinu 2005.

Áfrýjandi heldur því einnig fram, að með lækkun kennsluskyldu, þegar hann náði 60 ára aldri, hafi hann áunnið sér réttindi, sem ekki verði af honum tekin og vísar í því sambandi til 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands setur háskólaráð almennar reglur meðal annars um starfsheiti og starfsskyldur háskólakennara. Í 32. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 segir, að starfsskylda kennara við háskólann skiptist í þrjá meginþætti, rannsóknir, kennslu og stjórnun, og að háskólaráð setji nánari reglur um hvað felist í þessum starfsþáttum og hvert sé lágmarkshlutfall hvers þeirra. Skipting starfsþátta kemur hvorki fram í skipunarbréfi eða ráðningarsamningi háskólakennara né í kjarasamningi þeirra. Það er því ljóst, að það var innan valdmarka háskólaráðs að fella úr gildi reglurnar frá 15. janúar 1987 og setja nýjar reglur um skiptingu starfsskyldna háskólakennara.

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996 er starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi, en ákvörðun um breytingu á starfi eða verksviði er almennt talin ákvörðun um innra skipulag stjórnsýslunnar. Hafi breytingarnar hins vegar í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi, heldur hann óbreyttum launakjörum og réttindum þann tíma, sem eftir er af skipunartíma hans, eða til loka uppsagnarfrests. Í máli þessu er ekki byggt á því, að framangreindar breytingar hafi haft í för með sér skerðingu á launakjörum áfrýjanda.  Tilfærslur þær, sem gerðar voru á starfssviði áfrýjanda með framangreindum breytingum voru málefnalegar og tóku jafnt til allra, sem eins var ástatt um. Skýrar heimildir til þessara breytinga voru í framangreindum lögum og reglum. Verður ekki talið, að með þessum breytingum hafi réttindi áfrýjanda verið skert í merkingu 19. gr. laga nr. 70/1996.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Eftir atvikum er rétt, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2004.

 

Mál þetta, sem dómtekið var 26. ágúst sl., er höfðað 29. október 2003 af Jóni Ragnari Stefánssyni, kt. 170241-4879, Hrefnugötu 10, Reykjavík, á hendur Háskóla Íslands, kt. 600169-2039, Suðurgötu, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að neðangreindar samþykktir háskóla­ráðs og bókun þess (A-D) skuli ekki hafa áhrif á kennsluskyldu stefnanda sem dósents við stærðfræðiskor raunvísindadeildar stefnda:

A. Samþykkt sem gerð var á fundi 30. apríl 2001 undir dagskrárlið nr. 4 og hljóðaði svo: “Horfið verði frá því að veita kennurum í Félagi háskólakennara afslátt frá kennslu við 55 og 60 ára aldur. “

Bókun sem samþykkt var á fundi 16. október 2001 undir dagskrárlið nr. 1.8 svohljóðandi: “Árétting varðandi niðurfellingu samþykktar um aldursafslátt vegna kennslu. Háskólaráð áréttar, að fyrri samþykkt ráðsins frá 15. janúar 1987 um lækkaða kennsluskyldu kennara (lektora og dósenta) í Félagi háskóla­kennara sem náð hafa 55 og 60 ára aldri, er úr gildi fallin, sbr. samþykkt ráðsins dags. 30. apríl 2001. Deildum er falið að hlutast til um nauðsynlegar breytingar, sem samþykktin frá 30. apríl og 24. september kallar á að gerðar verði, en miða skal við að endurskoðuð starfskjör hafi tekið gildi þann 1. maí 2001.”

Samþykkt sem gerð var á fundi 26. júní og framhaldsfundi 28. júní 2002 undir dagskrárlið nr. 3.3 í fundargerð “Tillaga um tilfærslu starfsþátta háskólakennara við 55 og 60 ára aldur.”

D.         Samþykkt sem gerð var á fundi 7. nóvember 2002 undir dagskrárlið nr. 3.3:       “Reglur Háskóla Íslands um aldurs- og árangurstengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur.”

Stefnandi krefst auk þessa málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins með 24,5% virðisaukaskatti.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins.

 

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi var skipaður dósent við stærðfræðiskor verkfræði- og raunvísinda­deildar stefnda árið 1971. Á fundi háskólaráðs 15. janúar 1987 var samþykkt tillaga launamálanefndar ráðsins um að kennsluskylda kennara, sem náð hefðu 55 ára aldri, yrði lækkuð þannig að samanlögð vinna við kennslu og stjórnun næmi 50% af heildar­vinnuskyldu þeirra. Á sama hátt var ákveðið að vinna við kennslu og stjórnun þeirra er náð hefðu 60 ára aldri næmi 40% af heildarvinnuskyldu þeirra. Kennsluskylda stefnanda varð í samræmi við þetta þannig að kennslustundum hans fækkaði þegar hann varð 55 ára í febrúar 1996, en kennsla og stjórnun varð þá 50% af dósentstarfinu á móti sama hundraðshluta sem var ætlað til rannsóknarstarfa, en áður hafði kennsla verið 48% og stjórnun 12%, samtals 60%, og rannsóknir 40%. Enn fækkaði kennslustundum þegar stefnandi varð sextugur í febrúar 2001, en þá varð kennsla og stjórnun 40% af vinnuskyldu hans og rannsóknir 60%.

Í kjarasamningi Félags háskólakennara og ríkissjóðs frá 30. apríl 2001, sem gildir frá l. apríl það ár til 30. nóvember 2004, segir að forsendur breytinga á launalið samningsins séu meðal annars að stefndi hverfi frá tilfærslu vinnuþátta við 55 og 60 ára aldursmörk. Á fundi háskólaráðs 30. apríl 2001 voru samþykktar tillögur í tilefni af kjara­samningnum, en í fundargerð kemur fram að forsenda kjarasamningsins sé að háskóla­ráð geri tilgreindar breytingar á fyrri samþykktum til þess að ná þeim markmiðum að hækka dagvinnulaun félagsmanna í Félagi háskóla­kennara. Á fundinum var meðal annars samþykkt að horfið yrði frá því að veita kennurum í félaginu afslátt frá kennslu við 55 og 60 ára aldur. Stefnandi krefst þess undir A lið kröfugerðarinnar í málinu að viðurkennt verði að þessi samþykkt hafi ekki áhrif á kennslu­skyldu hans hjá stefnda.

Á fundi háskólaráðs 16. október 2001 var lagt fram bréf forseta raunvísinda­deildar 28. september sama ár, þar sem því var beint til rektors og háskólaráðs að skorið yrði úr því með ótvíræðum hætti hver væri kennsluskylda dósenta og lektora sem hefði verið veitt lækkun á kennsluskyldu við 55 eða 60 ára aldur fyrir 1. apríl 2001. Í fundargerð kemur fram að rektor hafi lagt fram bókun um áréttingu varðandi niðurfellingu samþykktar um aldursafslátt vegna kennslu. Þar segir að háskólaráð árétti að fyrri samþykkt ráðsins frá 15. janúar 1987, um lækkaða kennsluskyldu kennara (lektora og dósenta) í Félagi háskólakennara, sem náð hafi 55 og 60 ára aldri, sé úr gildi fallin, sbr. samþykkt ráðsins 30. apríl 2001. Deildum sé falið að hlutast til um nauðsynlegar breytingar, sem samþykktin frá 30. apríl og 24. september kalli á að gerðar verði, en miða skuli við að endurskoðuð starfskjör hafi tekið gildi 1. maí 2001. Stefnandi krefst þess einnig, eins og fram hefur komið, að þessi bókun hafi ekki áhrif á kennsluskyldu hans hjá stefnda.

Stefnandi heldur því fram að tillaga um tilfærslu starfsþátta háskólakennara við 55 og 60 ára aldur, sem samþykkt var á fundi háskólaráðs 26. júní og framhaldsfundi 28. júní 2002, eigi ekki við um kennsluskyldu hans, en samþykktin kveði á um kennsluskyldu umfram þá sem stefnandi hefði áunnið sér á grundvelli samþykktar ráðsins 15. janúar 1987, að hluta þegar hann hafi náð 55 ára aldri og að fullu við 60 ára aldur 17. febrúar 2001. Sama eigi við um samþykkt á fundi ráðsins 7. nóvember 2002. Stefnandi krefst þess í málinu að umræddar samþykktir hafi ekki áhrif á kennslu­­skyldu hans hjá stefnda. 

Stefndi telur að rétt og löglega hafi verið staðið að samþykktum og bókun, sem hér um ræðir, og að þær gildi ótvírætt um kennsluskyldu stefnanda, sem og annarra kennara stefnda, frá þeim tíma er þær hafi tekið gildi, 1. maí 2001.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að hann hafi um áratugaskeið stundað kennslu við raun­vísindadeild stefnda, en hann hafi hlotið skipun í dósentsstöðu við stærðfræðiskor árið 1971. Skipunin hafi verið ótímabundin og án heimildar til slita með uppsögn. Stefnandi hafi starfað á grundvelli úrskurða kjaradóms og síðar kjarasamninga sem gerðir hafi verið milli fjármála­ráðuneytis og stéttarfélags háskólakennara. Ákvörðun hafi verið tekin í háskólaráði 15. janúar 1987 eftir nokkurn aðdraganda og kröfur há­skóla­kennara um að minnka kennsluskyldu háskólakennara, annars vegar við 55 ára aldur þannig að á aldursbilinu frá 55 ára til 60 ára aldurs yrði kennsla og stjórnun að hámarki 50% af heildarvinnuskyldu og hins vegar þannig að við 60 ára aldur lækkuðu umræddir vinnuþættir í 40% af heildarvinnuskyldu. Háskólaritari hafi tilkynnt menntamálaráðu­neytinu þessa ákvörðun með bréfi 27. janúar 1987. Samþykktin hafi ekki falið í sér breytingu á launakjörum háskólakennara. Á fundi háskólaráðs 8. septem­ber 1988 hafi hins vegar verið samþykkt sú tillaga að færi árleg vinna við kennslu, próf og stjórnun fram yfir hámarksvinnuskyldu kennarans skyldu umfram­stundir greiddar sem yfirvinna að hámarki sem háskólaráð ákvæði.

Samkvæmt framangreindri samþykkt hafi kennsluskylda stefnanda minnkað sjálf­krafa þegar hann hafi náð 55 ári aldri í febrúar árið 1996 og hafi hann fækkað kennslustundum til samræmis við það. Stefnandi hafi orðið sextugur 17. febrúar 2001 og hafi þar með minnkað þáttur kennslu og stjórnunar í 40% af vinnuskyldu frá þeim tíma í samræmi við gildandi reglur. Miðað við þessar reglur hafi kennsluskylda hans verið 449 stundir á ári frá þessu tímamarki, þó þannig að kennsluskylda ársins 2001 hafi reiknast hlutfallslega miðað við þann tíma þegar aldursmarki hafi verið náð. Á yfirlitsblaði, sem lagt hafi verið fram á fundi stærðfræðiskorar 30. janúar 2001, komi fram að hámarkskennsluskylda stefnanda árið 2001 væri 476 stundir sem hafi reiknast út frá 609 stundum á ári í tvo mánuði og 449 stundum í tíu mánuði. Á öðru yfirlitsblaði komi fram að kennsluskylda stefnanda árið 2002 væri 449 stundir.

Veturinn 2000/2001 hafi farið fram viðræður milli fjármálaráðuneytisins og Félags háskólakennara um nýjan kjarasamning, sem hafi lokið með kjarasamningi, undirrituðum 30. apríl 2001, vegna tímabilsins 1. apríl 2001 til 30. nóvember 2004. Meðal forsendna sem tilgreindar væru fyrir breytingum á launalið samningsins segi að stefndi hverfi frá tilfærslu vinnuþátta við 55 og 60 ára aldursmörk. Í tilefni af kjarasamningnum hafi svohljóðandi tillaga verið lögð fyrir og samþykkt í háskólaráði 30. apríl 2001: “Horfið verði frá því að veita kennurum í Félagi háskólakennara afslátt frá kennslu við 55 og 60 ára aldur.” Stefnanda hafi ekki verið tilkynnt um þessa samþykkt.

Í tilefni af upplýsingum, sem fram hafi komið í bréfi framkvæmdastjóra starfsmannasviðs stefnda til stefnanda 22. júní 2001, en slíkt bréf hafi allir dósentar og lektorar fengið, hafi stefnandi sent honum bréf 13. júlí sama ár, þar sem fram komi að hann teldi samþykkt háskólaráðs ekki hreyfa við áunnum réttindum sínum og starfs­kjörum og hafi hann því farið þess á leit að gögn, sem honum voru send, yrðu leiðrétt til samræmis við það. Með rafbréfi 28. júlí sama ár hafi stefnanda verið tilkynnt að vegna sumarleyfa væri ekki unnt að svara honum fyrr en í ágústlok.

Á fundi stærðfræðiskorar 16. ágúst 2001 hafi verið lagt fram yfirlitsblað vegna haustmisseris þar sem fram hafi komið sem fyrr að kennsluskylda stefnanda á árinu 2001 væri 476 stundir. Stefnanda hafi verið boðið til fundar á skrifstofu starfs­mannasviðs 3. september s.á. þar sem málið hafi verið reifað og hafi komið fram að lögfræðingi skrifstofunnar hefði verið falið að vinna að svari við erindi hans frá 13. júlí. Á fundi stærðfræðiskorar 5. september s.á. hafi skorarformaður lagt fram nýtt yfirlitsblað þar sem kennsluskylda einstakra kennara fyrir árin 2001 og 2002 hafi verið tilgreind. Þar hafi verið gert ráð fyrir að kennsluskylda stefnanda næmi 752 stundum árið 2001 í stað 476 stunda og 817 stundum vegna ársins 2002 en ekki 449 eins og áður hefði legið fyrir. Stefnandi hafi átt samskipti við framkvæmdastjóra starfsmanna­sviðs vegna málsins 6. og 14. september 2001.

Í bréfi formanns stærðfræðiskorar 18. september 2001 til forseta raunvísinda­deildar og fulltrúa verkfræði- og raunvísindadeilda í háskólaráði, sem jafnframt hafi verið varaforseti ráðsins, sé því haldið fram að stefnandi hefði ítrekað neitað að taka að sér kennslu námskeiða til viðbótar við kennslu sem hann sinnti og í niðurlagi bréfsins segi að niðurstaðan sé sú að samkvæmt sameiginlegri túlkun allra annarra en stefnanda sjálfs neiti hann að sinna kennsluskyldu sinni við skorina. Afrit hafi verið sent stefnanda. Álitaefnið sem um ræði hafi þá enn verið til skoðunar og afgreiðslu hjá starfsmannaskrifstofu. Hvorki á skorarfundinum 5. september, þegar hin nýja kennslu­skylda var tilgreind, né síðar, hefði verið leitað eftir því við stefnanda að hann tæki að sér aukna kennslu. Stefnandi hafi krafist þess með bréfi 21. september 2001 til for­manns stærðfræðiskorar að hann tæki ummæli sín og ávirðingar á hendur sér til baka en hann hafi ekki orðið við því. Stefnandi hafi átt fund með deildarforseta 24. september 2001 um málið.  

Stefnandi hafi fengið tilkynningu frá deildarforseta 1. október 2001 með svohljóðandi samþykkt deildarráðs frá 26. september s.á.: “Deildarráð raunvísinda­deildar beinir því til rektors og háskólaráðs að skorið verði úr því með ótvíræðum hætti hver sé kennsluskylda þeirra dósenta og lektora sem veitt hafði verið lækkun á kennsluskyldu við 55 og/eða 60 ára aldur fyrir 1. apríl 2001.  Þar til annað er ákveðið og með hliðsjón af áliti lögfræðings starfsmannasviðs lítur deildarráð svo á að frá og með 1. apríl 2001 hafi engir aldursafslættir af kennsluskyldu dósenta og lektora verið í gildi.” Stefnandi hafi óskað eftir því með bréfi 2. október 2001 til forseta raunvísindadeildar að hann fengi afrit af áliti lögfræðings starfsmannsviðs, sem vísað sé til í samþykkt deildarráðs, og hafi hann fengið það 11. október s.á. Stefnandi hafi sent háskólarektor bréf 9. október 2001 þar sem afstaða hans og sjónarmið hafi verið reifuð. Stefnandi hafi svo loks 11. október s.á. fengið boðsent bréf, dagsett 9. október s.á., frá framkvæmdastjóra starfsmannasviðs sem svar við erindinu frá 13. júlí s.á. Í bréfinu sé vísað til yfirlýsingar 12. september s.á. sem undirrituð hafi verið af þeim sem staðið hafi að gerð kjarasamningsins 30. apríl 2001. Yfirlýsingin hafi verið lögð fram á fundi háskólaráðs 24. september s.á. án þess að nokkuð hafi verið um hana frekar fjallað. Í yfirlýsingunni lýsi þeir er hana undirriti þeirri skoðun sinni að með samþykkt háskólaráðs frá 30. apríl 2001 hafi fallið niður samþykkt háskólaráðs frá 15. janúar 1987 um lækkun kennsluskyldu við framangreind aldurs­mörk hvað varði félagsmenn í Félagi háskólakennara.

Á fundi háskólaráðs 16. október 2001 hafi rektor lagt fram svohljóðandi bókun sem samþykkt hafi verið einróma og sé hún tilgreind í B lið kröfugerðar stefnanda: “Árétting varðandi niðurfellingu samþykktar um aldursafslátt vegna kennslu. Háskólaráð áréttar, að fyrri samþykkt ráðsins frá 15. janúar 1987 um lækkaða kennsluskyldu kennara (lektora og dósenta) í Félagi háskólakennara sem náð hafa 55 og 60 ára aldri, er úr gildi fallin, sbr. samþykkt ráðsins dags. 30. apríl 2001. Deildum er falið að hlutast til um nauðsynlegar breytingar, sem samþykktin frá 30. apríl og 24. september kallar á að gerðar verði, en miða skal við að endurskoðuð starfskjör hafi tekið gildi þann 1. maí 2001.” Í þessu felist ekki ný samþykkt heldur virtist þessari bókun ætlað að skýra efnisinnihald fyrri samþykktar.  

Með bréfi 21. desember s.á. hafi stefnandi beint erindi til raunvísindadeildar og krafist þess að starfskjör, sem stefnandi hefði hlotið að hluta við 55 ára aldur og að fullu við 60 ára aldur, yrðu ekki af honum tekin. Í fundargerð deildarráðs 9. janúar 2002 komi fram undir liðnum aldursafsláttur frá kennsluskyldu að háskólaráð hafi samþykkti að fella niður afslátt kennsluskyldu við 55 og 60 ára aldur. Enn fremur segi í fundargerðinni að einn kennari raunvísindadeildar hefði lagt fram kröfu um að kennslu­skylda sín héldist óbreytt, enda næði samþykktin ekki til þeirra sem þegar hefðu hlotið að fullu umrædd starfskjör. Málið hafi verið rætt vítt og breitt, meðal annars hvernig vinnuskyldan skiptist milli rannsókna og kennslu og hvernig best væri að mæla þessa þætti, en afgreiðslu þess hafi verið frestað. Stefnandi haldi því fram að hann hafi verið eini kennari raunvísindadeildar sem mál þetta hafi varðað og hefði náð 60 ára aldri 30. apríl 2001. Á fundi deildarráðs 20. febrúar 2002 hafi erindi stefnanda verið tekið fyrir og hafi verið bókað að deildarráð telji deildina bundna af þeirri almennu stefnu um starfskjör dósenta og lektora sem háskólaráð hafi samþykkt 30. apríl 2001 og áréttuð hafi verið 16. október 2001. Deildin sjái sér ekki fært að verða við beiðninni um lækkaða kennsluskyldu vegna aldurs. Samkvæmt kennsluáætlun á skorarfundi 30. janúar 2001 hafi verið gert ráð fyrir að stefnandi kenndi ekki á haustmisseri 2002, enda myndi hann uppfylla kennslu­skyldu sína það ár með kennslu á vormisseri. Stefnandi hafi fallist á að kenna námskeið á haustmisseri 2002 og hafi hann lagt fram bókun á skorarfundi 13. febrúar 2002 um að vinnustundir vegna þeirrar kennslu skyldu yfirfærðar og hafi skorarformaður tilkynnt deildinni það. Stefnanda hafi verið veitt rannsóknarleyfi á haustmisseri 2003 og 2004. Vegna þessa hafi í raun ekki reynt á ágreining málsaðila og muni naumast gera fyrr en kennsla á árinu 2005 verði skipu­lögð. Vorið 2002 hafi stefnanda verið kynnt álit hæstaréttar­lögmannanna Gests Jónssonar og Harðar F. Harðarsonar, sem stefndi hafi leitað til, þess efnis að þeir teldu að heimilt væri að auka kennsluskyldu með þeim hætti sem haldið sé fram af stefnda að ráðgert hafi verið með samþykktinni frá 30. apríl 2001.

Á fundi háskólaráðs 26. júní 2002 og framhaldsfundi 28. júní s.á. hafi verið dagskrárliður nr. 3.3 sem bæri heitið: “Tillaga um tilfærslu starfs­þátta háskólakennara við 55 og 60 ára aldur.” Á fundinum hafi legið fyrir tillaga millifunda­nefndar háskólaráðs frá 20. júní s.á. um aldurs- og árangurstengda tilfærslu milli starfsþátta. Á framhaldsfundinum 28. júní hafi rektor lagt fram breytingartillögu við tillögu milli­funda­nefndarinnar, en fundurinn hafi samþykkt tillögunina með breytingar­tillögu rektors. Á fundi háskólaráðs 7. nóvember s.á. hafi verið lagðar fram til staðfestingar reglur um aldurs- og árangurstengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur. Framangreindar samþykktir háskólaráðs og reglur kveði á um kennsluskyldu umfram þá sem stefnandi hefði áunnið sér á grundvelli samþykktar háskólaráðs 15. janúar 1987, að hluta þegar hann hafi náð 55 ára aldri og að fullu þegar hann hafi náð 60 ára aldri 17. febrúar 2001.

Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 7. febrúar 2003 séu sjónarmið stefnanda rakin og áréttað að stefnandi héldi fast við að árleg kennsluskylda hans út skipunartíma tæki mið af þeim réttindum sem hann hefði áunnið sér samkvæmt ákvörðun háskólaráðs frá 15. janúar 1987. Með bréfi stefnda 8. október 2003 hafi kröfu stefnanda verið hafnað um að árleg kennslu­skylda hans tæki mið af framan­greindri ákvörðun sem stefnandi haldi fram að hefði verið felld úr gildi. Stefnandi haldi því fram að hvergi finnist samþykkt háskólaráðs sem felli ákvörðunina úr gildi gagnvart dósentum.

Stefnandi byggi kröfur sínar á því að ekki sé unnt að túlka orðalag samþykktar háskólaráðs frá 30. apríl 2001 á annan veg en að hún lúti að því að hætt verði að lækka kennsluskyldu við tiltekin aldursmörk, en ekki væri hreyft við kennslu­skyldu þeirra sem þegar hefðu hlotið lækkun á grundvelli ákvörðunar ráðsins frá 15. janúar 1987. Ekki komi fram í samþykktinni að henni sé ætlað að fella niður fyrri samþykkt eða fella niður með afturvirkum hætti þau réttaráhrif sem hún hefði veitt. Orðalagið sem notað hafi verið um að horfið væri frá að veita “afslátt af kennslu” sé í rauninni rangt, enda hafi samþykktin frá 15. janúar 1987 kveðið á um lækkun kennsluskyldu við ákveðin aldursmörk. Samþykktin frá 30. apríl 2001 sé íþyngjandi, en sú túlkun sem stefndi byggi á feli í sér að henni hafi verið ætlað að afnema réttindi sem stefnandi hefði áunnið sér og rýri þannig starfskjör hans. Ekki verði heldur ráðið af orðalagi í forsendum kjarasamnings, sem legið hafi til grundvallar samþykktinni, að forsenda við gerð samningsins hafi verið að kennsluskylda yrði aukin hjá þeim dósentum og lektorum sem náð hefðu greindum aldursmörkum. Þvert á móti benti orðalag til þess að ekki hafi verið meiningin að hrófla við starfskjörum þeirra sem þegar hefðu náð þeim aldri sem um ræði. Ákvörðun háskólaráðs hafi ekki verið kynnt dósentum og lektorum sem náð hefðu þeim aldursmörkum sem um ræði og nytu starfskjara sem nú sé haldið fram af hálfu stefnda að ætlunin hafi verið að afnema. Stefnandi hafi fengið yfirlit um kennsluskyldu sína á skorarfundi 30. janúar 2001 þar sem kennsluskylda hafi verið tilgreind 476 stundir (tveir mánuðir 609 stundir og tíu mánuðir 449 stundir) á árinu 2001 og 449 stundir á árinu 2002 og á fundi stærðfræðiskorar 16. ágúst 2001 hafi fyrrnefnda talan verið ítrekuð.

Verði talið að túlka megi samþykktina frá 30. apríl 2001 þannig að hún geti eftir orðalagi sínu og efni náð til þess að auka kennsluskyldu einstakra kennara, sé byggt á því að sú lækkun, sem stefnandi hafi fengið á kennsluskyldu sinni, verði að teljast  áunnin starfskjör sem ekki sé einhliða hægt að fella niður. Um sé að ræða áunnin réttindi sem stefnandi skyldi halda óskertum út skipunartíma sinn með þeim hætti sem kveðið sé á um í 19. gr. laga nr. 70/1996. Ljóst sé, þegar horft sé til tilurðar samþykktarinnar frá 15. janúar 1987, að hún hafi verið gerð til að koma til móts við sjónarmið háskólakennara um að draga bæri úr kennsluskyldu með hækkuðum aldri þannig að menn hefðu meiri tíma til frjálsra rannsóknarstarfa. Af hálfu aðila hafi samþykkt þessi verið meðhöndluð þannig að hún fæli í sér bindandi starfskjör fyrir háskólakennara, enda hafi kennsluskylda lækkað sjálfkrafa við tilgreind aldursmörk. Fyrir liggi að starfskjör þessi hafi verið til skoðunar í kjarasamningnum frá 30. apríl 2001 og það að horfið yrði frá því að veita slíka lækkun hafi verið ein af forsendum samningsins sem kæmi þá væntanlega á móti umsömdum hækkunum á grunnlaunum. Af þessu verði ekki annað ráðið en að rétturinn til lækkaðrar kennsluskyldu hafi verið “seldur” gegn hækkun grunnlauna. Slík ráðstöfun kunni að standast og vera eðlileg gagnvart þeim sem ekki hafi hlotið þau réttindi sem um ræði, enda eigi þeir verulegan hluta eftir af sinni starfsævi og njóti því hækkaðra launa um lengri tíma. “Salan” hafi hins vegar farið fram á kostnað manna eins og stefnanda sem hefðu unnið um langan tíma á lægri grunnlaunum gegn því að fá lækkaða kennsluskyldu þegar ákveðnum aldursmörkum væri náð. Ekki hefði heldur komið fram að fjármálaráðuneytið hefði krafist þess að áunninn réttur til lækkaðrar kennsluskyldu yrði felldur niður og ákvörðunin þannig látin virka aftur fyrir sig. Eðli máls og almenn sanngirnisrök styðji þá niðurstöðu að þeir sem hefðu náð þeim aldri að tiltekin lækkun kennsluskyldu næði til þeirra héldu þeim réttindum enda ætti hin umdeilda samþykkt ekki að hafa afturvirk áhrif svo sem verða myndi væri fallist á sjónarmið stefnda. Sama eigi við um samþykktir háskólaráðs 26. og 28. júní 2002 annars vegar og 7. nóvember sama ár hins vegar sem kveði á um aukna kennsluskyldu stefnanda umfram þá sem hann hefði áunnið sér á framangreindum aldursmörkum. Þær samþykktir geti heldur ekki verkað aftur fyrir sig gagnvart stefnanda og hreyft við áunnum réttindum hans. Þau sjónarmið fái ekki staðist að einungis sé um að ræða eðlilegar tilfærslur starfsþátta enda ljóst að bæði stefndi sem vinnuveitandi og háskólakennarar hafi litið á lækkaða kennsluskyldu sem hluta starfskjara sem tekið væri mið af við gerð kjarasamninga. Um sé að ræða lögvarin réttindi stefnanda sem hann hafi að fullu áunnið sér og hlotið í reynd varan­lega þegar hann hafi náð 60 ára aldri 17. febrúar 2001. Stefnda sé ekki einhliða heimilt að auka kennsluskyldu umfram þá sem hún hafi orðið á grundvelli samþykktar háskólaráðs frá 15. janúar 1987 sem óumdeilt sé að hafi verið í gildi þegar stefnandi varð 60 ára. Samkvæmt því geti árleg kennsluskylda stefnanda ekki farið fram yfir 449 klukkustundir á ári út skipunartíma hans.

Stefnandi vísi til almennra reglna vinnuréttar og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. sérstaklega 19. gr., sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráða­birgða. Þá sé vísað til laga nr. 41/1999 um stefnda, sbr. sérstaklega 2., 3. og 11. gr., en einnig byggi stefnandi á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944. Um viðurkenningarkröfu stefnanda sé vitnað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. sömu laga. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur samkvæmt lögum nr. 50/1988 og sé því nauð­synlegt að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af stefnda hálfu er því haldið fram að með samþykkt háskólaráðs frá 30. apríl 2001 hafi fyrri samþykkt ráðsins frá 15. janúar 1987 um tilfærslu á vinnuskyldum kennara verið felld úr gildi. Síðari samþykktin eigi við um vinnuskyldu allra kennara stefnda, hvort sem breytingar hefðu orðið á kennsluskyldu þeirra vegna samþykktar­innar frá 1987 eða ekki þegar samþykktin frá 2001 var gerð. Breytingin á árinu 2001 eigi því jafnt við um stefnanda og aðra þótt kennsluskylda hans hefði þá minnkað samkvæmt samþykktinni frá 1987. Mótmælt er að í orðalagi samþykktarinnar frá 2001 felist að henni hafi aðeins verið ætlað að gilda um þá sem ekki hefðu náð 55 eða 60 ára aldri. Tillagan hafi verið sett fram í tengslum við gerð og undirritun stofnana­samnings milli stefnda og Félags háskóla­kennara og hafi báðir haft sama skilning á efni tillögunnar og þýðingu hennar fyrir samþykktina frá 15. janúar 1987. Enn fremur sé því mótmælt að samþykktin frá 30. apríl 2001 hafi verið íþyngjandi fyrir stefnanda. Tilfærsla vinnuskyldna milli kennslu og rannsókna, hvort sem um aukningu eða lækkun kennsluskyldu sé að ræða, geti ekki talist íþyngjandi ákvörðun, en stefnandi hafi enga tilraun gert til að sýna fram á að slík tilfærsla geti talist íþyngjandi, hvorki almennt fyrir kennara né fyrir stefnanda sérstaklega.

Jafnvel þótt talið yrði að samþykktin frá 30. apríl 2001 væri með einhverjum hætti ekki nægilega skýr þá sé ljóst að tekin hafi verið af öll tvímæli um gildi samþykktar­innar frá 15. janúar 1987 í síðari samþykktum háskólaráðs. Á fundi ráðsins 24. septem­ber 2001 hafi verið lögð fram yfirlýsing fulltrúa stefnda og Félags háskóla­kennara þar sem því hafi verið lýst yfir að með tillögunni, sem lögð hafi verið fyrir háskólaráð 30. apríl 2001, hafi ætlunin verið að fella úr gildi fyrri samþykkt háskóla­ráðs um svokallaðan aldursafslátt. Á fundi háskólaráðs 16. október 2001 hafi verið samþykkt einróma bókun þar sem áréttað hafi verið að fyrri samþykkt ráðsins frá 15. janúar 1987 væri úr gildi fallin. Síðan þá hafi verið samþykktar nýjar reglur um aldurs- og árangurstengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur. Í því sambandi vísi stefndi til þess að á fundi háskólaráðs 26. júní 2002 hafi verið lögð fram tillaga millifundanefndar háskólaráðs að reglum um aldurs- og árangurstengda til­færslu milli starfsþátta. Yfirlýst markmið reglnanna hafi verið að auka virkni í rannsóknum með því að tengja tilfærslu vinnuskyldu frá kennslu til rannsókna við virkni og árangur í rannsóknum, en með því hafi jafnframt verið stefnt að því að auka jafn­ræði milli kennara hjá stefnda. Á framhaldsfundi háskólaráðs 28. júní s.á. hafi rektor lagt fram breytingartillögu þar sem gert hafi verið ráð fyrir enn meiri hvatningu til rannsókna en í fyrri tillögu millifundanefndar. Í skýringum með breytingar­tillögunni sé vísað til þess að ætlunin hafi verið að kennarar gætu aukið kennsluafslátt sinn upp að vissu hámarki með aukinni virkni í rannsóknum.  Breytingar­tillaga rektors hafi verið samþykkt og reglurnar hafi verið samþykktar á fundi háskólaráðs 7. nóvember 2002. Samkvæmt þeim geti kennsluskylda kennara með hæfnisdóm, sem náð hefði 55 ára aldri, lækkað um 100 til 160 stundir gegn samsvarandi aukningu rannsóknarskyldu, hafi hann fengið 10 til 20 rannsóknastig eða meira að meðaltali á ári í þrjú almanaksár. Kennari geti að sama skapi fengið tilfærslu um 200 til 320 stundir við 60 ára aldur hafi hann fengið 15 til 25 stig að meðaltali á ári í þrjú almanaksár. Ljóst sé að samþykktin frá 15. janúar 1987 sé úr gildi fallin. Stefndi mótmæli að yfirlit sem stefnandi hafi fengið afhent á skorarfundum 30. janúar 2001 og 16. ágúst 2001, þar sem kennsluskylda hans fyrir árin 2001 og 2002 hafi verið óbreytt, hafi einhverja þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls. Eftir að umræddir fundir hafi verið haldnir hafi verið teknar ákvarðanir í háskólaráði og í deildarráði raunvísindadeildar sem tekið hafi af skarið um gildi samþykktarinnar frá 15. janúar 1987 og breytingar á starfsskyldum stefnanda.  

Stefndi mótmæli því einnig að stefnandi hafi öðlast einhver slík réttindi að þau njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og verði af þeim sökum ekki af honum tekin með samþykktum háskólaráðs. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands sé stjórn stefnda falin háskólaráði, háskólarektor, deildarfundum og deildar­forsetum. Háskólaráð skuli samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar kveða nánar á um skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu stefnda og stjórnsýslu deilda og stofnana og háskóla­ráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan stefnda, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga.  Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laganna setji háskólaráð almennar reglur um starfsheiti og starfsskyldur háskóla­kennara, en háskóladeild ákveði hvernig starfsskyldur einstakra kennara skuli skiptast. Í umfjöllun um ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 41/1999 hafi m.a. verið tekið fram að með ákvæðinu væru áréttuð völd háskólaráðs sem æðsta ákvörðunaraðila innan stefnda "til að ákveða starfsskyldur starfsmanna" og bæri að leggja ákvarðanir ráðsins til grundvallar við mat á launakjörum starfsmanna stefnda. 

Í reglum fyrir stefnda nr. 458/2000, sem settar hafi verið á grundvelli laga nr. 41/1999, sé m.a. kveðið nánar á um einstök verkefni háskólaráðs og deilda og starfs­skyldur háskólakennara. Í 32. gr. reglnanna sé tekið fram að starfsskyldur kennara við háskólann skiptist í þrjá meginþætti; rannsóknir, kennslu og stjórnun. Háskólaráð setji nánari reglur um hvað felst í þessum starfsþáttum og hvert sé lágmarkshlutfall hvers starfsþáttar. Háskóladeild eða stofnun ákveði hvernig starfsskyldur einstakra kennara skiptist innan marka almennra reglna. Í greinargerð með 32. gr. reglnanna sé vísað til þess að háskólaráð hafi lengi haft heimild til að setja almennar reglur um starfsskyldur kennara og vísinda- og fræðimanna. Það sé hins vegar í samræmi við ákvæði 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999 að fela háskóladeildum og stjórnum háskólastofnana að ákveða hvernig starfsskyldur einstakra starfsmanna skiptist á grundvelli reglna sem háskólaráð setji. Jafnframt sé tekið fram að samþykkt háskólaráðs um afslátt frá kennsluskyldu frá 15. janúar 1987 félli niður. 

Af framangreindum reglum sé ljóst að háskólaráð sé bært til að setja reglur um starfsskyldur háskólakennara og mæla fyrir um hlutfall einstakra þátta í störfum há­skóla­kennara. Þær reglur sem settar hafi verið með samþykkt háskólaráðs frá 15. janúar 1987 um tilfærslu á starfsskyldum við 55 og 60 ára aldur teljist til slíkra reglna sem háskólaráði sé heimilt að setja. Að sama skapi sé ljóst að það sé innan valdsviðs háskólaráðs að breyta slíkum reglum eða fella þær úr gildi líkt og gert hafi verið með samþykkt háskólaráðs 30. apríl 2001 og síðari samþykktum.

Við mat á því hvort stefnandi hafi á grundvelli samþykktarinnar frá 15. janúar 1987 öðlast einhver slík réttindi að þau njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar verði m.a. að líta til 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en samkvæmt því sé starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Sambærilegt ákvæði hafi áður verið í 33. gr. eldri laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954. Tilfærsla starfsskyldna milli kennslu og rannsókna rúmist fyllilega innan ákvæðis 19. gr. núgildandi laga. Þær tilfærslur milli starfsþátta sem hér um ræði séu fyllilega málefnalegar og samboðnar stefnanda.

Stefnandi virtist ekki byggja á því að hann verði fjárhagslega verr settur eftir þær breytingar sem hafi átt sér stað. Stefndi telji verulegan vafa leika á því hvaða áhrif umræddar breytingar kunni að hafa á launakjör stefnanda, eða kennara háskólans almennt. Meginmarkmið kjarasamnings Félags háskólakennara og fjármálaráðuneytis 30. apríl 2001 hafi verið að auka hlut grunnlauna í heildarlaunum þannig að ýmis auka­störf, sem áður hafi verið greitt fyrir sérstaklega, yrðu hluti af starfsskyldum sem greitt yrði fyrir með grunnlaunum. Þá hafi það jafnframt verið helsta markmið samningsins að stefndi fengi aukna möguleika til að haga starfsmannahaldi sínu eins og best hentaði á hverjum tíma.  Meðal forsendna til breytinga á launalið samninganna hafi verið að dregið yrði úr fjölda vinnustunda til stjórnunar um helming og kennslutímum í dagvinnu yrði fjölgað. Hámark yfirvinnu yrði lækkað og laun fyrir kennsluyfirvinnu færu ekki yfir ákveðin mörk. Í tengslum við þetta hafi síðan verið gengið frá margumræddri samþykkt um niðurfellingu samþykktar­innar frá 15. janúar 1987.

Réttur til tiltekinna starfskjara í framtíðinni njóti ekki verndar 72. gr. stjórnar­skrárinnar. Háskólaráð og deildir stefnda hafi rúmar heimildir til að taka ákvarðanir um innra skipulag stefnda og þar með skiptingu starfsskyldna kennara.  Ákvörðun um skiptingu starfsskyldna milli kennslu og rannsókna geti aldrei orðið bindandi með þeim hætti að þeirri skiptingu verði ekki breytt án samþykkis viðkomandi starfsmanns. Með breytingum, sem gerðar hafi verið með samþykktum háskólaráðs, hafi verið kveðið á um skiptingu starfsskyldna samkvæmt skýrum heimildum í lögum nr. 41/1999, reglum nr. 458/2000, ákvæðum laga nr. 70/1996 og almennum reglum vinnuréttar um stjórnunarrétt vinnuveitanda. Verulegir annmarkar hljóti jafnframt að vera á því að leggja á það hlutlægan mælikvarða hvort tiltekin skipting starfsskyldna teljist til réttinda eða verðmæta af því tagi sem jafna megi til eignar í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hvort kennarar hneigjast frekar til rannsókna eða kennslu sé einstaklingsbundið.

Umræddar breytingar hafi verið málefnalegar og taki jafnt til allra sem eins sé ástatt um. Með setningu núgildandi reglna um aldurs- og árangurstengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur hafi verið stefnt að því að ná fram því lögmæta og málefnalega markmiði að auka virkni í rannsóknum við Háskóla Íslands.  Það sé m.a. gert með því að gera virkni og árangur í rannsóknum að skilyrði fyrir tilfærslu starfsskyldna frá kennslu til rannsókna. Með því sé einnig stefnt að því að auka jafnræði milli kennara hjá stefnda. Þótt stefnandi haldi því fram að hann hafi verið eini kennari raunvísindadeildar, sem náð hafði 60 ára aldri 30. apríl 2001 og umræddar breytingar hafi ekki tekið til, hafi 50 kennarar, sem hafi verið í starfi hjá stefnda um áramótin 2001/2002, verið 55 ára eða eldri. Stefnandi vísi um lagarök m.a. til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 án þess að séð verði að kröfur stefnanda séu að einhverju leyti byggðar á tilteknum ákvæðum þeirra laga. Samkvæmt því sé ekki á því byggt af hálfu stefnanda að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi með einhverjum hætti verið brotnar.

 

Niðurstaða

Eins og hér að framan er rakið var með samþykkt háskólaráðs á fundi 15. janúar 1987 tekin ákvörðun um að kennsluskylda kennara, sem náð hefðu 55 ára aldri, yrði lækkuð þannig að samanlögð vinna við kennslu og stjórnun næmi 50% af heildar­vinnuskyldu þeirra og að sömu vinnuþættir kennara, sem náð hefðu 60 ára aldri, næmi 40% af heildarvinnuskyldu, en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. þágildandi laga um stefnda nr. 77/1979 skyldi kennsla og rannsóknir vera aðalstarf prófessora, dósenta og lektora. Samþykktin var gerð í tilefni af tillögu launamála­nefndar ráðsins undir dagskrárlið þar sem launamál kennara voru rædd, en fram kemur í 1. mgr. 24. gr. þágildandi auglýsingar nr. 78/1979 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð fyrir stefnda samkvæmt heimild í þágildandi lögum um stefnda nr. 77/1979 að háskólaráð ákveði að fenginni umsögn háskóladeildar hvernig starfsskylda einstakra háskóla­kennara skiptist milli kennslu og annarra starfsþátta. Þegar samþykktin var gerð á fundi háskólaráðs 30. apríl 2001 um að horfið yrði frá því að veita kennurum í Félagi háskólakennara afslátt frá kennslu við 55 og 60 ára aldur giltu lög um stefnda nr. 41/1999 og reglur um stefnda nr. 458/2000 sem settar voru með heimild í þeim lögum. Samkvæmt 32. gr. reglnanna skiptist starfsskylda kennara hjá stefnda í þrjá megin­þætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun. Þar segir enn fremur að háskólaráð setji nánari reglur um hvað felist í þessum starfs­þáttum og hvert sé lágmarkshlutfall hvers þeirra. Í málinu liggur ekki fyrir að aðrar reglur hafi verið settar um þetta efni en reglur stefnda um aldurs- og árangurstengda tilfærslu starfsþátta kennara við 55 og 60 ára aldur sem settar voru 7. nóvember 2002. 

Stefnandi heldur því fram að í ákvörðun háskólaráðs frá 15. janúar 1987 felist að hann hafi við 55 og 60 ára aldur áunnið sér réttindi sem verði ekki af honum tekin og vísar hann í því sambandi til 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, 72. gr. stjórnarskrárinnar og til sanngirnissjónarmiða. Í 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því hann tók við starfi, en ef breytingarnar hafi í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi skuli hann halda óbreyttum launa­kjörum og réttindum þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í embætti eða jafn langan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er samkvæmt ráðningarsamningi. Þótt fyrir liggi að ákvörðun, um að kennsluskylda kennara lækkaði við ákveðin aldursmörk, hafi verið tekin eftir tillögu launamálanefndar háskólaráðs þegar launamál kennara voru rædd á fundi ráðsins 15. janúar 1987, eins og fram hefur komið, verður ekki fallist á að með því að hverfa frá því síðar hafi falist skerðing á áunnum réttindum stefnanda, enda var þar um ákveðna tilhögun að ræða, sem ekki verður jafnað til ákvæða í ráðninga- eða kjarasamningi, um hlutfallslega skiptingu á milli rannsókna og kennslu sem báðir voru og eru meginþættir í starfi stefnanda sem dósents. Í ákvörðuninni um að lækka kennsluskyldu við framangreind aldursmörk fólst að á kennara var lögð aukin skylda til rannsóknar­starfa og þegar horfið var frá þessu fyrirkomulagi 30. apríl 2001 minnkaði rannsóknar­skyldan, frá því sem verið hafði frá árinu 1987, á móti aukinni kennsluskyldu.

Að þessu virtu verður ekki talið að hér séu fyrir hendi lögvarin réttindi sem 72. gr. stjórnarskrárinnar tekur til eins og stefnandi heldur fram. Orðalag samþykktarinnar frá 30. apríl 2001 verður heldur ekki túlkað þannig að samþykktin eigi ekki við um stefnda, enda þykir hvorki vera tilefni til þess né verður talið að háskólaráði hafi verið óheimilt að breyta fyrra fyrirkomulagi um skiptingu milli kennslu og rannsókna, eins og gert var með samþykktinni framangreindan dag. Þótt reglur hafi ekki verið settar um skiptingu starfsþátta samkvæmt 32. gr. reglna um stefnda nr. 458/2000 fyrr en 7. nóvember 2002, eins og að framan er rakið, verður að telja með vísan til þess sem fyrir liggur og framan­greindra forsendna að háskólaráði hafi verið heimilt samkvæmt 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að falla frá því fyrirkomulagi að kennslu­skylda kennara lækkaði við ákveðin aldursmörk og að slíkar breytingar ættu jafnt við um kennsluskyldu allra, hvort sem þeir höfðu þá náð tilteknum aldri eða ekki. Þótt sanngirnisrök kunni að styðja málstað og kröfur stefnanda í þessu sambandi leiða framan­greindar reglur til gagnstæðrar niðurstöðu. Ekki verður heldur talið að breyt­ingarnar sem um ræðir hafi haft afturvirk áhrif, eins og stefnandi heldur fram, enda liggur fyrir að engin þeirra tók gildi fyrr en eftir 30. apríl 2001. Samkvæmt þessu hljóta því samþykktir og bókun háskólaráðs, sem um ræðir og taldar eru í kröfu­gerð stefnanda, að hafa áhrif á kennsluskyldu stefnanda hjá stefnda. Viður­kenningarkröfur stefnanda í málinu hafa þar með ekki lagastoð og ber með vísan til þess að sýkna stefnda af þeim.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður.     

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Háskóli Íslands, er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóns Ragnars Stefánssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.