Hæstiréttur íslands
Mál nr. 201/2004
Lykilorð
- Skaðabætur
- Dráttarvextir
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 2004. |
|
Nr. 201/2004. |
Tryggingastofnun ríkisins(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Hilmari Tómasi Guðmundssyni (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) |
Skaðabætur. Dráttarvextir. Málskostnaður.
Ágreiningur aðila varðaði upphafstíma dráttarvaxta og útlagðan kostnað við öflun sönnunargagna um tjón H vegna slyss sem hann varð fyrir í desember 1993, en með dómi Hæstaréttar 18. janúar 2001 var viðurkennd bótaskylda T vegna helmings tjóns hans. Upphafsdagur dráttarvaxta var talinn 1. júní 1997, en litið var svo á að þá hafi legið fyrir nægjanlegar upplýsingar um tjónsatvik. Þá var talið að tekið hefði verið tillit til útgjalda vegna vottorða, sem aflað hefði verið fyrir útgáfu stefnu, við ákvörðun málskostnaðar í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 2001. Þá fjárhæð, auk þess sem T hafði greitt H vegna útlagðs kostnaðar, ætti að draga frá málskostnaði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2004. Krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningur aðila varðar upphafstíma dráttarvaxta og útlagðan kostnað stefnda af öflun sönnunargagna. Í héraðsdómi kemur fram að 70.000 krónur voru útlagður kostnaður vegna vottorða, sem aflað hafði verið áður en stefna var gefin út. Verður lagt til grundvallar að tekið hafi verið tillit til þeirra útgjalda við ákvörðun málskostnaðar í dómi Hæstaréttar 18. janúar 2001, þegar dæmt var um sakarþátt málsins. Samkvæmt gögnum málsins greiddi áfrýjandi 21. september 2004 til stefnda 340.250 krónur sem er sá útlagði kostnaður sem stofnunin viðurkennir að stefndi hafi haft af öflun sönnunargagna.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að framangreindar 410.250 krónur (70.000 krónur og 340.250 krónur) dragast frá dæmdum málskostnaði.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að 410.250 krónur dragast frá dæmdum málskostnaði.
Áfrýjandi, Tryggingarstofnun ríkisins, greiði stefnda, Hilmari Tómasi Guðmundssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2004.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 19. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað af Hilmari Tómasi Guðmundssyni, Hraunbæ 182, Reykjavík, á hendur Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík með stefnu birtri 22. júní 1997.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 636.774 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 566.774 krónum frá 14. desember 1993 til 1. júní 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum af 54.400 krónum frá 7. júní 1996 til 1. júní 1997, en af 636.774 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að vextir og dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, vextir í fyrsta sinn þann 14. desember 1994 og dráttarvextir í fyrsta sinn hinn 7. júní 1997. Allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 1.018.342 krónur, sem greiddar voru, hinn 2. febrúar 2001 196.240 krónur, 7. október 2003 145.582 krónur, og 17. október 2003 676.520 krónur. Einnig krefur stefnandi stefnda um greiðslu útlagðs kostnaðar, samtals að fjárhæð 462.115 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Í þinghaldi hinn 2. september 1999 krafðist stefnandi þess að sakarefninu yrði skipt og fyrst dæmt um bótaskyldu stefnda, en önnur atriði látin bíða. Með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varð dómari við þeirri kröfu. Féll dómur í héraði um bótaskyldu stefnda hinn 3. mars 2000, þar sem stefndi var sýknaður af kröfum stefnanda. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og féll dómur í því máli hinn 18. janúar 2001, þar sem viðurkennt var, að stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, væri skaðabótaskyld fyrir helmingi tjóns stefnanda, Hilmars Tómasar Guðmundssonar, sem hann varð fyrir í slysi hinn 14. desember 1993.
Í þessum þætti málsins er deilt um fjárhæð skaðabóta og er einungis sá þáttur málsins til meðferðar hér.
II
Sigurjón Sigurðsson, læknir, mat örorku stefnanda vegna slyssins 5%, hinn 5. maí 1995. Hinn 1. apríl 1996 mat sami læknir örorku stefnanda hins vegar 10% af völdum slyssins. Örorkumat læknisins í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993 lá fyrir hinn 18. desember 1996. Var örorka samkvæmt 5. gr. laganna metin 10% og varanlegur miski samkvæmt 4. gr. laganna 10%.
Örorkunefnd mat örorku stefnanda og er skýrsla hennar dagsett 11. maí 1999. Í niðurstöðu segir svo: „Örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1995 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins 14. desember 1993. Að öllum gögnum virtum metur nefndin varanlegan miska tjónþola vegna afleiðinga slyssins 7%-sjö af hundraði-.
Tjónþoli var á slysdegi 26 ára gamall. Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins hafi ekki verið þess háttar að þær hafi áhrif á getu tjónþola til öflunar vinnutekna í framtíðinni. Samkvæmt því telst hann ekki hafa hlotið varanlega örorku vegna afleiðinga slyssins.”
Hinn 13. mars 2001 voru dómkvaddir, Stefán Carlsson, bæklunarlæknir, og Stefán M. Stefánsson, prófessor, til þess að meta tjón stefnanda. Er niðurstaða matsgerðar þeirra, sem dagsett er 5. júní 2003, sú: „Varanlegur miski Tómasar, sbr. 4. gr. skaðabótalaga telst hæfilega ákveðinn 7%.
Varanleg örorka Tómasar, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, telst hæfilega ákveðin 7%.
Tímabundið atvinnutjón Tómasar telst 100% frá slysdegi í einn mánið en 50% í tvo næstu mánuði þar á eftir.
Þjáningabætur til Tómasar eru hæfilega ákveðnar í 4 mánuði frá slysdegi án þess að vera rúmliggjandi.”
III
Stefnandi kveðst byggja útreikning á tjóni sínu á skaðabótalögum nr. 50/1993, örorkumati dagsettu 5. júní 2003, skattframtali ársins 1996, sem og yfirlýsingu frá Fönn hf. um tekjur stefnanda næstliðið ár fyrir slys. Tjónsfjárhæðin reiknist þannig: Útlagður kostnaður:
Reikningur frá Torfa Magnússyni lækni, dags 23.11.1995 kr. 20.000
Reikningur frá Sigurjóni Sigurðssyni lækni dags. 10.04.1996 kr. 34.400
Reikningur frá Sigurjóni Sigurðssyni lækni dags. 18.12.1996 kr. 16.000
Samtals kr. 70.000
Miskabætur skv. 4. gr. skbl.
Bætur skv. 4. gr. skbl. kr. 280.000
Verðbætur skv. 15. gr. skbl. kr. 22.680
Samtals kr. 302.680
Örorkubætur skv. 5.-7. gr. skbl.
Tekjugrunnur örorkubóta skv. 1. mgr. 7. gr. skbl.
Tekjur frá Fönn hf. með 6% framlagi
atvinnurekanda í lífeyrissjóð kr. 1.520.585
Tekjur frá Kolaportinu kr. 114.494
Samtals kr. 1.635.079
Útreikningur örorkubóta
Örorkubætur skv. 6. gr. skbl. kr. 858.416
Lækkun skv. 9. gr. skbl. kr. 8.581
Verðbætur skv. 15. gr. skbl. kr. 51.036
Samtals kr. 900.868
Kröfufjárhæðin sundurliðast því svo:
Útlagður kostnaður kr. 70.000
Miskabætur kr. 302.680
Örorkubætur kr. 900.868
Samtals kr. 1.273.548
Samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar beri stefnda að bæta stefnanda 50% af tjóni hans, eða 636.774 krónur.
Stefnandi vísar til 1. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993, um fjárhæð bóta.
Kröfu um vexti og vaxtavexti byggir stefnandi á 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 fram til 1. júní 2001, en frá þeim degi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.
IV
Kröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að hann hafi þegar greitt stefnanda allt það tjón, sem hann beri ábyrgð á samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar.
Með bréfi lögmanns stefnda til stefnanda, dagsett 13. október 2003, sundurliðaði stefnandi fjárhæð þá, sem hann taldi vera óbætt tjón stefnanda. Var það gert með eftirfarandi hætti í bréfinu:
„Þjáningabætur kr. 115.900
Varanleg örorka kr. 1.151.805
Lækkun bóta vegna aldurs kr. 11.518
Vextir kr. 268.843
Samtals kr. 1.525.030
Sakarskipting 50% kr. 762.515
Samtals kr. 762.515
Óuppgerðir vextir v/miska kr. 59.587
Samtals kr. 822.102
Greitt þrotabúi Hilmars skv. samkomulagi kr. 145.582
Mismunur kr. 676.520
Hinn 17. október 2003 greiddi stefndi síðan stefnanda mismuninn, sem hann taldi enn ógreiddan, eða 676.520 krónur.
Stefndi mótmælir og greiðsluskyldu sinni á útlögðum kostnaði stefnanda vegna læknisfræðilegrar myndgreiningar sem og taugasálfræðimats, þar sem engin sýnileg ástæða liggi fyrir um það hvernig þessar læknisrannsóknir tengdust slysi stefnanda. Hafi og komið í ljós, sbr. matsgerð dagsetta í júní 2003, að þessar rannsóknir hefðu ekki haft neina þýðingu.
Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um upphafsdag dráttarvaxta sem og fjárhæð málskostnaðarkröfu hans.
Þá mótmælir stefndi sérstaklega framlögðum málskostnaðarreikningi stefnanda, sem byggi á tímaskýrslu. Stefnanda hafi þegar verið dæmdur málskostnaður í Hæstarétti vegna málskostnaðar hans varðandi ágreining um bótaskylduna, á báðum dómstigum.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V
Eins og áður greinir snýst ágreiningur máls þessa nú um bótafjárhæð. Eins og krafa stefnanda er fram sett byggir hún á sundurliðun kröfunnar eins og hún var fram sett í stefnu. Krafa stefnanda sundurliðast í útlagðan kostnað, miskabætur og örorkubætur. Stefndi hefur fallist á útreikning stefnanda á miskabótakröfu sem og bótakröfu vegna varanlegrar örorku. Ágreiningur er hins vegar um upphafsdag dráttarvaxta og ráðstöfun á innborgunum, sem stefndi hefur innt af hendi til stefnanda.
Samkvæmt skaðabótalögum fer um dráttarvexti eftir vaxtalögum. Samkvæmt 15. gr. laga um vexti nr. 25/1987, sem gilti fram til 1. júlí 2001, skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Dómstólar geta þó ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.
Fyrir liggur að örorka stefnanda var fyrst metin hinn 5. maí 1995 af Sigurjóni Sigurðssyni lækni. Taldi hann þá örorku stefnanda vera 5%. Örorkumat læknisins í samræmi við skaðbótalög nr. 50/1993, lá fyrir hinn 18. desember 1996, þar sem varanleg örorka og varanlegur miski stefnanda var metið 10%. Þó svo endanlegar kröfur stefnanda byggi ekki á þessu mati þykir rétt að fallast á kröfu stefnanda um upphafsdag dráttarvaxta hinn 1. júní 1997, og litið svo á að þá hafi legið fyrir nægjanlegar upplýsingar um tjónsatvik, enda þótt endanlegar dómkröfur byggi á öðru mati, þar sem örorka stefnanda og miski hans var metið 7%.
Stefndi hafnar og kröfu stefnanda um greiðslu á 70.000 krónum, sem er útlagður kostnaður stefnanda vegna læknisvottorða, sem gefin voru áður en stefna var gefin út. Byggir stefndi á því að um málskostnað hafi verið dæmt í Hæstarétti Íslands vegna þessarar kröfu, en þar var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, að fjárhæð 300.000 krónur, bæði í héraði og Hæstarétti. Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar var ekki fjallað um fjárkröfu stefnanda heldur einungis dæmt um sök. Með því að krafa þessi um útlagðan kostnað var þar sett fram sem hluti af tjóni stefnanda, en þar ekki fjallað um fjárkröfu hans, ber að líta svo á að um þá kröfu hafi ekki verið dæmt. Kemur krafan því til skoðunar við úrlausn þessa máls og þá sem hluti af málskostnaði stefnanda með vísan til 129. gr. laga nr. 91/1991.
Þá hefur stefndi samþykkt greiðslu á útlögðum kostnaði stefnanda að fjárhæð 340.250 krónur, en hafnað greiðsluskyldu vegna kostnaðar stefnanda við myndgreining, sálfræðiskoðun og geðlækniskostnað, samtals að fjárhæð 121.845 krónur, þar sem ekki hafi verið tilefni til þessara meðferða. Fyrir liggur að umræddur kostnaður er hluti af þeim kostnaði, sem stefnandi hafði af því að sýna fram á tjón sitt. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að rannsóknir þessar hafi verið bersýnilega þarflausar á þeim tíma sem þær voru gerðar verður fallist á að stefnda beri að greiða stefnanda þann útlagða kostnað hans, sem hluta af málskostnaði hans.
Þegar allt framangreint er virt verður því stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda 565.774 krónur með dráttarvöxtum frá 1. júní 1997 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, en ekki er ágreiningur um fjárhæð þeirra eða greiðsludag.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað vegna þessa þáttar málsins, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, þ.m.t. útlagður kostnaður stefnanda, að fjárhæð 532.115 krónur og að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, greiði stefnanda, Hilmari Tómasi Guðmundssyni, 565.774 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 14. desember 1993 til 1. júní 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 1.018.342 krónur, sem greiddar voru, hinn 2. febrúar 2001 196.240 krónur, 7. október 2003 145.582 krónur, og 17. október 2003 676.520 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.