Hæstiréttur íslands
Mál nr. 476/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði snýst efnislegur ágreiningur aðila meðal annars um hvor þeirra njóti réttar til vörumerkisins „Sólstafir“, en um er að ræða auðkenni hljómsveitar sem hefur verið starfrækt frá árinu 1995. Sóknaraðili telur sig njóta réttarins og að varnaraðili hafi valdið sér tjóni með því að taka til sín vörumerki og atvinnurekstur sóknaraðila. Kröfur sóknaraðila gegn varnaraðila eru í meginatriðum tvíþættar, annars vegar kröfur sem tengjast málsástæðum sóknaraðila um að hann njóti einkaréttar á vörumerkinu „Sólstafir“ og hins vegar krafa um skaðabætur á hendur varnaraðila.
Í þessum þætti málsins er einkum deilt um hvort staðið hafi verið réttilega að því að ákveða málshöfðun á hendur varnaraðila. Hluthafar í sóknaraðila eru Guðmundur Óli Pálmason og varnaraðili, en óumdeilt virðist að hvor þeirra um sig eigi 50% hlutafjár. Samkvæmt gögnum málsins er Guðmundur Óli stjórnarformaður sóknaraðila en varnaraðili meðstjórnandi og framkvæmdastjóri félagsins. Varamaður í stjórn sóknaraðila mun vera Sæþór Maríus Sæþórsson.
Með bréfum 4. desember 2015 boðaði Guðmundur Óli sem stjórnarformaður til fundar í stjórn sóknaraðila sem halda skyldi 11. sama mánaðar. Bréfin voru send í ábyrgðarpósti til varnaraðila og varamannsins Sæþórs Maríusar. Í bréfunum var tekið fram að dagskrá fundarins yrði í þremur liðum. Í fyrsta lagi yrði borin undir atkvæði tillaga stjórnarformannsins um tafarlausa afturköllun ráðningar varnaraðila sem framkvæmdastjóra félagsins. Í öðru lagi tillaga hans um tafarlausa afturköllun prókúru varnaraðila og í þriðja lagi tillaga um að fela nafngreindri lögmannsstofu að höfða dómsmál á hendur varnaraðila til viðurkenningar á vörumerkjarétti félagsins, banns við notkun vörumerkis þess, afhendingar á varningi með vörumerkinu og heimtu skaðabóta og hæfilegs endurgjalds vegna ólögmætra ráðstafana varnaraðila í rekstri félagsins. Samkvæmt fundargerð stjórnarfundarins 11. desember 2015 var stjórnarformaðurinn einn mættur. Voru áðurgreindar tillögur teknar fyrir á fundinum og samþykktar af honum.
Samkvæmt símskeyti stjórnarformannsins 16. desember 2015, sem var birt varnaraðila einhvern tíma dags 28. sama mánaðar, kvaðst sá fyrrnefndi boða, fyrir hönd sóknaraðila, til aukafundar í félaginu síðargreindan dag. Á fundinum yrði tekin fyrir tillaga um að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur varnaraðila með vísan til 109. gr., sbr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samkvæmt fundargerð hluthafafundarins, er hófst klukkan 12 hinn 28. desember 2015, var umboðsmaður stjórnarformannsins ein mætt á fundinn og greiddi hún atkvæði um að höfðað skyldi skaðabótamál gegn varnaraðila.
II
Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 138/1994 er fjölskipuð félagsstjórn ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund. Sambærilegt ákvæði er í 16. grein samþykkta sóknaraðila, en þó er þar tekið fram að verði atkvæði jöfn ráði atkvæði formanns úrslitum, sbr. síðari málslið 2. mgr. 47. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt 48. gr. sömu laga má stjórnarmaður ekki taka þátt í meðferð máls um málshöfðun gegn sér.
Eftir 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 er stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum og öðrum trúnaðarmönnum einkahlutafélags skylt að bæta félagi það tjón er þeir hafa valdið því í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Ákvörðun um að einkahlutafélag hafi uppi kröfu sem þessa skal tekin á hluthafafundi, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna. Í 1. mgr. 62. gr. þeirra segir að félagsstjórn annist boðun til hluthafafundar. Sambærilegt ákvæði er í 12. grein samþykkta sóknaraðila. Þá eru í 11. grein samþykktanna ákvæði um að boðun til slíkra funda skuli vera með 14 daga fyrirvara. Ef félagsstjórn lætur hjá líða að boða til hluthafafundar sem halda skal samkvæmt lögum, félagssamþykktum eða ákvörðun hluthafafundar skal ráðherra láta boða til fundarins ef stjórnarmaður, framkvæmdastjóri, endurskoðandi, skoðunarmaður eða hluthafi krefst þess, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 138/1994. Þá segir í 60. gr. laganna að aukafund skuli halda þegar félagsstjórn telji þess þörf.
III
Í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 138/1994 er afdráttarlaust kveðið á um að félagsstjórn sé ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund. Í því efni skiptir ekki máli þótt varnaraðili hefði verið vanhæfur til þess að taka þátt í meðferð tillögunnar um að höfða skyldi mál á hendur honum, sbr. 48. gr. laganna. Þar sem aðeins annar af tveimur mönnum í stjórn sóknaraðila var mættur á stjórnarfundinn 11. desember 2015 gat hún ekki tekið ákvarðanir með bindandi hætti. Sú ákvörðun að höfða dómsmál á hendur varnaraðila og gera kröfur um viðurkenningu á einkarétti sóknaraðila til notkunar vörumerkisins „Sólstafir“, að varnaraðila verði bannað að nota vörumerkið í atvinnustarfsemi og honum gert að afhenda sóknaraðila sölu- og markaðsvarning að viðlögðum dagsektum var því ólögmæt. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 138/1994 fer hluthafafundur með æðsta vald í málefnum einkahlutafélags og getur hann af þeim sökum tekið ákvörðun um málshöfðun sem þessa. Stjórnarformanninum voru því aðrar leiðir færar til að fá tillögu sína tekna fyrir á vettvangi sóknaraðila, sbr. 60. gr. og 2. mgr. 62. gr. laganna.
Hvað varðar skaðabótakröfu sóknaraðila er ljóst að stjórnarformaður sóknaraðila gat ekki boðað sjálfur til hluthafafundarins 28. desember 2015, enda lá ekki fyrir að félagsstjórn hafi tekið ákvörðun um að boða til slíks fundar, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 138/1994. Var ákvörðun um að hafa uppi skaðabótakröfu gegn varnaraðila í nafni sóknaraðila því ekki tekin fyrir á lögmætum hluthafafundi, svo sem skylt var samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Svalbard music group ehf., greiði varnaraðila, Aðalbirni Tryggvasyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2016.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. maí sl., var höfðað 6. janúar sl. af stefnanda, Svalbard music group ehf., Seljabraut 36 í Reykjavík gegn Aðalbirni Tryggvasyni, Grettisgötu 44 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði með dómi einkaréttur hans til notkunar vörumerkisins Sólstafir fyrir tónlistarflutning, tónlistarframleiðslu og skylda starfsemi. Stefnandi krefst þess einnig að stefnda verði bannað að nota vörumerkið Sólstafir í atvinnustarfsemi sinni. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að afhenda honum allan þann sölu- og markaðsvarning sem hann hefur í sínum vörslum með vörumerkinu Sólstafir en greiða ella að liðnum tveimur vikum frá uppsögu dóms dagsektir til stefnanda að fjárhæð 50.000 krónur. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 20.000.000 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. febrúar 2016 til greiðsludags. Að lokum er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað.
Stefndi krefst þess, með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015, að málinu verði vísað frá dómi og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.
Af hálfu stefnanda er þess krafist í þessum þætti málsins að kröfu stefnda um frávísun málsins verði hrundið og að málið verði tekið til efnismeðferðar. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
I
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til viðurkenningar á vörumerkjarétti stefnanda og til banns við notkun vörumerkis, til afhendingar á varningi með vörumerkinu og til heimtu skaðabóta eða hæfilegs endurgjalds. Stefnandi lýsir málsatvikum og málsástæðum svo að hljómsveitin Sólstafir hafi verið stofnuð árið 1995 af stefnda og stjórnarformanni stefnanda, Guðmundi Óla Pálmasyni, sem hafi verið í hljómsveitinni frá upphafi. Aðrir hljómsveitarmeðlimir hafi komið og farið. Allur atvinnurekstur hljómsveitarinnar undir merkjum Sólstafa hafi í upphafi og framan af verið í höndum stofnendanna tveggja sem hafa átt jafnt tilkall til rekstrarins og vörumerkisins. Þeir hafi sameiginlega sótt um skráningu vörumerkisins Sólstafir 13. september 2012. Umsóknin hafi hins vegar fallið niður þar sem umsóknargjald hafi ekki verið greitt.
Stefnandi hafi verið stofnaður í ársbyrjun 2011. Þangað hafi verið fluttur atvinnurekstur Sólstafa. Skráður tilgangur stefnanda sé „tónlistarflutningur, tónlistarframleiðsla og öll önnur skyld starfsemi“. Stefnandi sé alfarið í eigu stofnendanna tveggja, stefnda og stjórnarformanns stefnanda, sem hvor um sig eigi 50% hlut. Stefndi hafi verið skráður meðstjórnandi félagsins í tveggja manna stjórn og framkvæmdastjóri með prókúru og hafi sem slíkur farið með daglegan rekstur stefnanda þar til stjórn félagsins hafi slitið ráðningu hans og afturkallað prókúruumboðið á fundi 11. desember 2015. Samkvæmt samþykktum stefnanda komi stjórnarformaður fram fyrir hönd félagsins í málum sem varði annað en daglegan rekstur og hafi oddaatkvæði í stjórn.
Þann 19. janúar 2015 hafi stefndi sent stjórnarformanni stefnanda tölvuskeyti þar sem honum hafi einhliða verið tilkynnt að aðrir hljómsveitarmeðlimir hefðu tekið ákvörðun um að „skilja við“ hann og myndu „halda áfram Sólstöfum“ án hans frá og með þeim degi. Stefndi hafi framkvæmt þetta án vitneskju stjórnarformanns stefnanda og hafi ætlaði sér, án nokkurrar greiðslu eða annarrar þóknunar, að hola félagið að innan og ráðstafa öllum rekstri þess til sjálfs sín. Stefndi hafi næsta dag farið á Einkaleyfastofuna og freistað þess að fá vörumerkið Sólstafir skráð á sig persónulega. Umsókn stefnda hafi tekið til fatnaðar, skófatnaðar og höfuðfatnaðar í vöruflokki 25 og fræðslu, þjálfunar, skemmtistarfsemi og íþrótta- og menningarstarfsemi í þjónustuflokki 41, sem samsvari atvinnustarfsemi stefnanda. Synjað hafi verið um skráningu vörumerkisins að svo stöddu með vísan til 4. og 5. töluliðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, þar sem kveðið sé á um að vörumerki megi ekki skrá ef í merkinu felst eitthvað það sem gefi tilefni til að ætla að átt sé við heiti á virkri atvinnustarfsemi eða ef gengið er á höfundarétt annars manns á slíku verki eða annan hugverkarétt. Stefnandi hafi þann 25. febrúar 2015 sótt um skráningu auðkennisins, en hann hafi notað það um árabil í atvinnurekstri sínum.
Stefnandi byggi á því að ráðstöfun stefnda sé sérstaklega ósvífin í ljósi þess að daginn eftir að hann hafi ráðstafað atvinnurekstri stefnanda til sjálfs sín hafi hann haldið í tónleikaferð undir merkjum Sólstafa um ýmis lönd Evrópu, en stefnandi hefði skipulagt þessa ferð og lagt út kostnað vegna hennar. Stefndi hafi afbókað flugmiða stjórnarformanns stefnanda í ferðina og útilokað hann frá þátttöku. Stefndi hafi síðan komið fram á a.m.k. 94 tónleikum á ellefu mánaða tímabili víða um lönd. Þá hafi hann selt margvíslegan varning með auðkenni stefnanda á tónleikastöðum og vefverslun á heimasíðu sinni www.solstafir.net. Stefndi hafi ekki skilað neinum tekjum vegna atvinnurekstrarins til stefnanda og ekkert endurgjald greitt fyrir hagnýtingu vörumerkis hans. Hann hafi hins vegar í nokkrum tilvikum notað greiðslukort í eigu stefnanda í eigin þágu, m.a. til greiðslu flugfarmiða og hótelgistingar. Eins hafi stefnandi borið kostnað sem hafi fallið á félagið fyrir hina ólögmætu ráðstöfun atvinnurekstrarins en ekki notið tekna á móti.
Sólstafir sé nú loks að uppskera eftir þrotlausa vinnu undanfarinna ára og áratuga. Hljómsveitin hafi spilað á 40 tónleikum árið 2013 en 68 árið 2014 og a.m.k. 94 árið 2015. Árangurinn sé ekki síst að þakka framlagi stjórnarformanns stefnanda, en hann hafi verið í forystu um að byggja upp vörumerki stefnanda, ímynd Sólstafa og aðdáendahóp. Auk framlags síns til tónlistarsköpunar og tónlistarflutnings undir merkjum Sólstafa hafi hann án sérstakrar þóknunar haft umsjón með samfélagsmiðlum í nafni Sólstafa og unnið, ýmist einn eða í samstarfi við aðra, mest allt kynningarefni Sólstafa, s.s. tónlistarmyndbönd, hannað boli, peysur, plaköt, plötuumslög o.s.frv., og tekið ljósmyndir. Hann hafi átt hugmyndina að hinu stórbrotna myndbandi við lagið Fjara, sem hafi verið skoðað u.þ.b. 3 milljón sinnum á youtube, skrifað einn handritið að myndbandinu og skapað persónur þess, auk þess að velja tökustaði og velja aðalleikstjóra og vinna með honum við undirbúning kvikmyndatöku og á tökustöðum. Þá hafi hann séð um vefverslun stefnanda, pantað inn vörur, tekið ljósmyndir fyrir vefverslunina, flokkað, talið og afgreitt pantanir. Stefndi hafi hins vegar virt að vettugi hagsmuni stefnanda og þar með stjórnarformannsins, sem eiganda 50% hluta í félaginu. Það sé auðkennið Sólstafir og orðspor þess, sem hafi kostað stefnanda umtalsverða fjármuni, blóð, svita og tár að byggja upp, sem dragi áhorfendur á tónleika stefnda og stuðli að sölu á merktum varningi.
Stefnandi byggi á því að einhliða ráðstöfun stefnda til sjálfs sín á öllum atvinnurekstri félagsins, þ.m.t. auðkenninu Sólstöfum, sem sé ein verðmætasta eign stefnanda, brjóti í bága við lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög og samþykktir stefnanda og hún sé þar af leiðandi ógild. Auðkennið Sólstafir sé tengt stefnanda órofa böndum og verði að hans mati ekki notað nema með aðkomu beggja stofnenda hljómsveitarinnar og eigenda félagsins eða samþykki þeirra beggja um ráðstöfun merkisins. Þetta endurspeglist í eignarhaldi, skipulagi og samþykktum stefnanda og áralangri venjuhelgaðri framkvæmd eigenda félagsins.
Einhliða yfirtaka hljómsveitarinnar, nafns hennar og rekstrar, sé hvort tveggja óvenjuleg og mikils háttar. Stefndi hafi með ráðstöfuninni farið langt út fyrir vald- og verksvið sitt sem framkvæmdastjóri félagsins, sem takmarkist af 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 og 2. mgr. 18. gr. samþykkta félagsins við daglegan rekstur þess. Heimildar stjórnar eða hluthafafundar hafi ekki verið aflað til þessarar ráðstöfunar sem hafi kippt grundvellinum undan atvinnurekstri stefnanda og engin greiðsla hafi verið boðin eða skilað sér til stefnanda. Stefnandi hafi ekki haft með höndum neina aðra starfsemi en rekstur hljómsveitarinnar. Stefndi hafi því aflað sjálfum sér ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og helmingshluthafa félagsins í andstöðu við fyrirmæli 1. mgr. 51. gr. laga nr. 138/21994.
Auðkennið Sólstafir uppfylli öll skilyrði vörumerkjalaga um skráningu, m.a. um sérkenni og aðgreiningarhæfi, og vörumerkjaréttur hafi stofnast stefnanda til handa fyrir áralanga notkun hans á merkinu í atvinnurekstri sínum í samræmi við ákvæði 5. gr. og 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997.
Við stofnun stefnanda í ársbyrjun 2011, þegar atvinnustarfsemi hljómsveitarinnar Sólstafa hafi verið framseld félaginu, hafi þegar áunninn sameiginlegur auðkennaréttur eigendanna tveggja alfarið flust til stefnanda í samræmi við þá meginreglu vörumerkjaréttar sem endurspeglist í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1997 að við framsal atvinnustarfsemi eignist framsalshafi vörumerki sem henni tilheyri nema um annað hafi verið samið. Samningum um annað sé ekki til að dreifa. Um áratugalanga venju og hefð sé að ræða, sem hafi verið færð í formlegra horf við stofnun stefnanda árið 2011. Atvinnustarfsemi hljómsveitarinnar hafi verið á þeim vettvangi síðan, án athugasemda annarra hljómsveitarmeðlima sem eigi ekki tilkall til auðkennisins. Það sé augljóslega einnig afstaða stefnda sjálfs að aðrir meðlimir eigi ekki tilkall til merkisins, sbr. tilraun hans til skráningar orðmerkisins Sólstafir á sjálfan sig þann 20. janúar 2015.
Auðkennið Sólstafir sé þekkt fyrir starfsemi stefnanda, sem einskorðist alfarið við rekstur samnefndrar hljómsveitar. Stefnandi hafi lagt áralanga vinnu og fjármagn í að byggja vörumerkið upp, orðspor þess og viðskiptavild. Stefnandi hafi staðið að útgáfu vinsælasta efnis Sólstafa frá upphafi, þ.m.t. tónlistarmyndbanda og hljómplatna sem hafi selst í fjölda eintaka hérlendis og erlendis. Hljómsveitin eigi orðið mikinn aðdáendaskara, sem endurspeglist m.a. í tæplega 96.000 fylgjendum á facebook. Um virka atvinnustarfsemi sé að ræða í skilningi vörumerkjalaga. Stefnandi hafi sannanlega notað vörumerkið Sólstafir í atvinnustarfsemi sinni, samfellt og órofið frá stofnun félagsins, en sú notkun hafi skapað honum einkarétt til notkunar auðkennisins. Einkaréttur hans til notkunar vörumerkisins fyrir tónlistarflutning, tónlistarframleiðslu og skylda starfsemi hafi stofnast áður en stefndi hafi sjálfur persónulega farið að nota vörumerkið. Eldri réttur gangi fyrir yngri, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1997.
Af vörumerkjarétti stefnanda leiði, samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1997, einkum 4. gr., að stefndi geti ekki heimildarlaust notað vörumerkið Sólstafir í atvinnustarfsemi sinni. Stefnandi hafi ekki veitt stefnda slíka heimild.
Stefndi hafi notað nákvæmlega sama vörumerki og stefnandi hafi öðlast vörumerkjarétt til og notað merkið í sömu atvinnustarfsemi og notkun stefnanda hafi átt sér stað. Sjón- og hljóðlíking og vöru- og þjónustulíking sé því alger og ruglingshætta augljós. Stefndi hafi með notkun vörumerkisins hagnýtt sér orðspor stefnanda í því skyni að kynna eigin atvinnustarfsemi, auk þess sem notkun hans á vörumerkinu girði fyrir möguleika stefnanda á að nýta sér auðkennið samhliða. Starfsemi stefnanda og skipulag geri enda ráð fyrir því að hljómsveit með auðkenninu Sólstafir verði ekki rekin nema af eigendum félagsins sameiginlega. Stefnandi reisi kröfu sína, um að banna beri stefnda að nota vörumerkið Sólstafir í atvinnurekstri sínum, á 42. gr. laga nr. 45/1997.
Stefnandi telji ástæðu til að ætla að stefndi hafi í vörslu sinni margvíslegan sölu- og markaðsvarning merktan Sólstöfum, sem hann auglýsi til sölu á vefsíðunni sinni. Hann noti lénið og facebook-síðu undir merkjum Sólstafa, sem stefnandi hafði áður haft umráð yfir, til auglýsingar á starfsemi sinni. Stefnandi byggi kröfu sína, um að stefnda beri að afhenda stefnanda þennan varning, á því að afhendingin sé nauðsynleg til þess að hindra frekari misnotkun stefnda á vörumerkinu. Krafan sé reist á 44. gr. laga nr. 45/1997. Stefnandi telji auk þess að allur merktur varningur sé, með tilliti til forsögu málsins, í eigu félagsins. Til þess að þrýsta á um efndir skyldu um afhendingu varningsins sé gerð krafa um að lagðar verði á stefnda dagsektir að fjárhæð 50.000 krónur í samræmi við heimild í 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að liðnum tveimur vikum frá uppsögu dóms í máli þessu.
Krafa um greiðslu 20.000.000 króna sé aðallega reist á sakarreglunni, bótaákvæðum 108. gr. laga nr. 138/1994 og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 45/1997, en til vara á ákvæðum 1. og 2. mgr. 43. gr. laga nr. 45/1997 um hæfilegt endurgjald. Að auki sé vísað til meginreglna hugverkaréttar.
Byggt sé á því að stefndi hafi með ráðstöfun á atvinnurekstri stefnanda til sjálfs sín, þ.m.t. vörumerki hans, valdið honum verulegu fjártjóni. Stefndi hafi tekið ákvörðunina sem framkvæmdastjóri stefnanda án heimildar stjórnar félagsins eða hluthafafundar. Stefndi sé skaðabótaskyldur vegna tjóns sem ráðstöfun hans hafi valdið félaginu, í samræmi við 108. gr. laga nr. 138/1994, enda hafi tjóninu verið valdið af ásetningi eða í það minnsta gáleysi. Stefnda hafi mátt vera ljóst að sú ráðstöfun hans væri bæði óvenjuleg og mikils háttar og rúmaðist ekki innan verk- og valdsviðs hans sem framkvæmdastjóra stefnanda. Að mati stefnanda renni tilraun stefnda til þess að skrá orðmerkið á sig persónulega, daginn eftir að hann hafi hrifsað það úr atvinnurekstrinum, sérstökum stoðum undir ásetning hans og vonda trú.
Byggt sé á því að stefndi hafi með ásetningi, eða í það minnsta gáleysi, brotið gegn vörumerkjarétti stefnanda þannig að honum sé skylt að greiða honum skaðabætur fyrir það tjón sem af broti hans hafi hlotist, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 45/1997. Eðli máls samkvæmt og í samræmi við dómvenju skuli skaðabótaskylt tjón stefnanda metið að álitum, enda sé ljóst að tjón hans sé ekki að fullu komið fram, auk þess sem stefnandi hafi ekki aðgang að gögnum um raunverulegan hagnað stefnda. Stefnandi geti aðeins slegið lauslega á fjárhæðina út frá eldri fjárhagslegum gögnum félagsins, áður en vörumerkið Sólstafir hafi öðlast núverandi frægð, og mati á markaðsaðstæðum miðað við breyttar aðstæður. Að mati stefnanda sé stefnufjárhæðin 20.000.000 króna síst of há miðað við raunverulegt tjón hans. Fjárhæð skaðabóta skuli nema ætluðum orðnum og fyrirséðum hagnaði stefnda af rekstri Sólstafa og hagnýtingu vörumerkisins. Stefndi hafi hagnast verulega á kostnað stefnanda frá því hann hafi yfirtekið atvinnurekstur hans og hafið hagnýtingu vörumerkis hans þann 19. janúar 2015. Á þeim ellefu mánuðum sem liðnir séu hafi hann komið fram á a.m.k. 94 tónleikum og selt ýmsan varning, m.a. geisladiska, hljómplötur, boli, töskur og húfur, með vörumerki stefnanda. Fyrir starfsemi hljómsveitar sé fátt verðmætara en nafn hennar og vörumerki, en það hafi tekið stefnanda langan tíma, mikið fjármagn og markvissa vinnu að byggja upp orðspor Sólstafa og aðdáendahóp, sem stefndi hafi nú hagnýtt sér persónulega með ólögmætri notkun sinni á merkinu.
Í ársreikningi stefnanda fyrir rekstrarárið 2013 komi fram að tekjur vegna tónleika, vörusölu og tónlistarflutnings hafi numið samtals 8.198.041 krónu. Hagnaður hafi numið 239.939 krónum. Það ár hafi hljómsveitin haldið u.þ.b. 40 tónleika. Vinsældir hljómsveitarinnar hafi ekki verið nærri því eins miklar og vörumerkið langt í frá jafn þekkt og það hafi verið orðið þegar stefndi hafi sjálfur byrjað að hagnýta sér vörumerkið. Tónleikar stefnda undir merkjum Sólstafa séu þegar orðnir ríflega tvöfalt fleiri og tilkynnt hafi verið um fleiri tónleika og tónlistarhátíðir á næstunni. Sólstafir sé talsvert stærra nafn en árið 2013 og megi því ætla að tekjur af hverjum tónleikum hækki til samræmis við það og varningssala aukist, sem skili umtalsverðri tekjuaukningu frá árinu 2013. Samkvæmt upplýsingum frá Erin Lynch hafi hagnaður af sölu varnings á tónleikaferð Sólstafa um Norðurlönd, á tímabilinu 23. janúar til 10. febrúar 2015, numið 1.720 evrum og 4.640 svissneskum frönkum. Á núverandi gengi samsvari þetta 3.028.254 krónum. Þessi fjárhæð hafi ekki skilað sér inn á reikninga stefnanda. Sé miðað við sambærilega varningssölu á öllum síðari tónleikum stefnda undir merkjum Sólstafa megi ætla að hagnaðurinn af varningssölunni einni nemi nú þegar 15.814.215 krónum. Varningssala í netverslun bætist svo við. Þá hafi þóknanir (royalties) útgefanda stefnanda, Seasons of Mist Publishing, ekki skilað sér inn á reikninga félagsins og útgefandinn hafi neitað að veita stefnanda uppgjör eða upplýsingar um fjárhæð þóknunarinnar.
Fallist dómurinn ekki á skaðabótaskyldu stefnda sé á því byggt að stefnda beri á grundvelli fyrri málsliðar 1. mgr. 43. gr. laga nr. 45/1997, en til þrautavara á grundvelli 2. mgr. sömu lagagreinar, að greiða stefnanda 20.000.000 króna sem hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkis hans. Miðað sé við að hæfilegt endurgjald nemi hagnaði stefnda af brotinu og vísast um rökstuðning fyrir fjárhæðinni til þess sem að framan greini. Auk þess byggi stefnandi á því að nafnið Sólstafir sé órofa tengt stefnanda og framsal réttar til hagnýtingar merkisins hefði ekki komið til álita af hans hálfu nema fyrir kæmu verulegar fjárhæðir.
II
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni, í öðru lagi á því að aðild málsins sé vanreifuð bæði sóknar- og varnarmegin, í þriðja lagi á því að sakarefni málsins sé óljóst, í fjórða lagi á því að málsgrundvöllur sé rangur og vanreifaður og í fimmta lagi á því að málið sé vanreifað í heild sinni.
Stefndi leggi áherslu á að hann sé ekki einn í hljómsveitinni Sólstöfum, heldur skipi hana tveir aðrir einstaklingar. Hljómsveitin hafi starfað áfram eftir brottrekstur Guðmundar Óla Pálmasonar, stjórnarformanns stefnanda, og aflað sér tekna með vinnuframlagi sínu sem starfandi hljómsveitarmeðlimir líkt og áður.
Stefndi telji ljóst að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu í máli þessu og því beri að vísa því frá dómi á grundvelli 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vörumerkið Sólstafir hvorki sé, né hafi nokkru sinni verið, í eigu stefnanda og aldrei hafi staðið til að svo yrði. Stefnandi hafi verið stofnaður utan um afmarkaðan hluta af rekstri hljómsveitarinnar Sólstafa, þ.e. um sölu varnings og vegna greiðslu fyrir flugmiða og gistingu á tónleikaferðalögum. Rekstur félagsins hafi verið í samræmi við það hlutverk. Allar kröfur stefnanda byggist á þeirri forsendu að stefnandi sé eigandi vörumerkisins Sólstafa, en sú grundvallarforsenda hans sé röng. Stefnandi eigi ekkert tilkall til þess vörumerkis eða nokkurra annarra réttinda sem hljómsveitin Sólstafir eigi eða hafi öðlast. Stefnandi hafi ekki gert reka að því að sýna fram á hvernig hafi stofnast til þessa vörumerkjaréttar skv. 3. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki eða með hvaða hætti hann hafi öðlast þann rétt. Stefnandi hafi hvorki fengið réttindi yfir vörumerkinu Sólstafir eða atvinnurekstur hljómsveitarinnar Sólstafa framseld til sín. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um slíkt framsal. Þrátt fyrir þetta vísi hann m.a. til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1997 málshöfðun sinni til stuðnings.
Framangreint samræmist því að í hljómsveitinni Sólstafir séu tveir meðlimir auk stefnda. Stefnandi hafi aldrei haft neinn á launaskrá hjá félaginu. Því sé útilokað að hann hafi verið stofnaður um rekstur hljómsveitarinnar, enda ljóst að þá hefðu aðeins tveir aðilar, þ.e. Guðmundur og stefndi, eigendur stefnanda, notið góðs af vinnu meðlima hljómsveitarinnar.
Stefnandi byggi málshöfðun sína að meginstefnu á ákvæði 42. og 43. gr. laga nr. 45/1997. Stefndi telji þessi ákvæði ekki eiga við í málinu þar sem stefnandi eigi ekki þá hagsmuni sem um ræði. Stefnandi geti þannig ekki krafist þess að stefndi, eða hljómsveitin Sólstafir, láti af starfsemi sinni undir merkjum hljómsveitarinnar, þar sem stefnandi eigi ekki, og hafi aldrei átt, nein réttindi yfir því nafni eða auðkenni. Stefnandi hafi ekki með nokkru móti sýnt fram á tilkall sitt til vörumerkis, nafns, auðkennis eða annars er varði hljómsveitina Sólstafi. Af þessu leiði að vísa verði málinu frá dómi á grundvelli skorts á lögvörðum hagsmunum samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi telji að aðild, bæði sóknar- og varnarmegin, sé svo vanreifuð að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi. Sóknarmegin sé aðildinni þannig háttað að stefnandi hafi ekki með nokkru móti sýnt fram á að hann eigi eignarrétt yfir eða nokkurs konar tilkall til réttinda yfir vörumerkinu eða auðkenninu Sólstafir. Allar kröfur hans séu raktar til þessarar röngu grunnforsendu. Af þessu leiði að stefnandi hafi ekki með nokkru móti sýnt fram á á hvaða grundvelli eða á hvaða réttindum aðild hans byggist.
Að auki bendi stefndi á að stefnandi byggi málshöfðun þessa á ákvörðun stjórnarfundar í stefnanda 11. desember 2015. Stefndi og varamaðurinn Sæþór hafi hvorugur mætt á fundinn. Samkvæmt 16. gr. samþykkta stefnanda og 1. mgr. 47. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé stjórnarfundur aðeins lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna sæki fund. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 138/1994 megi þá aðeins taka mikilvæga ákvörðun nái allir stjórnarmenn að fjalla um málið. Fundurinn 11. desember 2015 hafi því verið ólögmætur. Guðmundur hafi því haldið fundinn í vondri trú og tekið þar ákvarðanir um allt framangreint og í kjölfarið sent Fyrirtækjaskrá tilkynningu um breytingar á prókúru og framkvæmdastjórn stefnanda. Stefndi hafi þegar sent Fyrirtækjaskrá tilkynningu um ólögmæti fundarins. Guðmundur höfði því málið í nafni stefnanda á grundvelli þessa ólögmæta fundar. Stefndi telji að málið sé höfðað í algjöru heimildarleysi. Guðmundur hafi einnig boðað til aukahluthafafundar 28. desember 2015 þar sem boðað hafi verið að taka skyldi ákvörðun um að hafa uppi fébótakröfu skv. 109. gr., sbr. 108. gr., laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög á hendur stefnda. Stefndi hafi ekki mætt til fundarins enda hafi verið boðað til hans með ólöglegum hætti samkvæmt 11. gr. samþykkta félagsins og 60. gr. laga nr. 138/1994. Það sé í verkahring félagsstjórnar að boða til slíkra funda. Þar sem ekki hafi komið fram beiðni til stjórnar frá Guðmundi um boðun aukahluthafafundar, og hin lögmæta stjórn félagsins hafi ekki boðað til fundarins, hafi hann jafnframt verið ólögmætur.
Stefndi sé helmingshluthafi í stefnanda. Um sé að ræða persónulega aðför að honum vegna ósættis um brottrekstur Guðmundar úr hljómsveitinni Sólstöfum. Guðmundur höfði málið í nafni stefnanda í því skyni að koma höggi á stefnda. Stefndi mótmæli því að Guðmundi verði gert fært að misnota sér með þessum hætti einkahlutafélagsformið, persónulegt ábyrgðarleysi sitt fyrir greiðslu málskostnaðar og íslenskt réttarkerfi, vegna ósættis á öðrum vettvangi.
Þá virðist aðild stefnda byggjast á þeirri röngu forsendu að stefndi hafi ráðstafað til sín verðmætum frá stefnanda. Stefnandi hafi frá upphafi aðeins haldið utan um sölu á hluta af varningi á vegum hljómsveitarinnar Sólstafa og stundum til greiðslu ferðakostnaðar og gistinga á hljómleikaferðalögum. Stefndi hafi, ásamt öðrum meðlimum hljómsveitarinnar, haldið áfram að leika í hljómsveitinni Sólstöfum. Það hafi ekki á nokkurn hátt áhrif á rekstur stefnanda, þótt rekstur hans hafi lagst af vegna deilna milli hluthafa félagsins.
Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á nokkra þá athöfn stefnda sem hafi valdið honum tjóni. Aðild stefnda eins, þegar litið sé til þess að tveir aðrir meðlimir hljómsveitarinnar hafa starfað áfram í henni eftir brottrekstur Guðmundar, sé alfarið óútskýrð. Yrði fallist á kröfur stefnanda sé ljóst að aðrir hljómsveitarmeðlimir ættu hagsmuna að gæta. Aðild stefnda sé því á huldu og þar með vanreifuð sem leiði til frávísunar málsins.
Stefndi telji sakarefni máls þessa, þ.e. dómkröfur, málsgrundvöll, málsatvik og málsástæður, svo óljós að honum verði ekki gert að grípa til efnislegra varna. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á nokkra þá athöfn stefnda þar sem hann hafi tekið eignir eða fjármagn út úr stefnanda og ráðstafað til sín. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á nokkra athöfn stefnda sem fari gegn skyldum hans sem framkvæmdastjóra eða stjórnarmanns í stefnanda, skv. 42. gr., 51. gr. eða 108. gr. laga nr. 138/1994, líkt og stefnandi byggi á. Engin gögn liggi fyrir í málinu um að stefndi hafi ráðstafaða neinu úr atvinnurekstri stefnanda til sjálfs sín eða með öðrum athöfnum valdið stefnanda tjóni með háttsemi sinni.
Stefnandi hafi að sama skapi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni. Hann hafi ekki sýnt fram á tilkall sitt yfir auðkenni eða vörumerki Sólstafa, og þar með tjón sitt af því að hljómsveitin Sólstafir starfi áfram undir formerkjum sveitarinnar, eða nokkurt annað tjón. Fjárhæð kröfu stefnanda, 20.000.000 króna, sé að sama skapi alfarið vanreifuð og ekki studd nokkrum gögnum. Stefnandi taki raunar sjálfur fram í stefnu að hann geti „aðeins slegið lauslega á fjárhæðina út frá eldri fjárhagslegum gögnum félagsins...“. Ekki sé gerður áskilnaður um dómkvaðningu matsmanna. Stefnandi geri því engan reka að því að skýra um hvaða tjón sé að ræða eða hvert umfang þess sé.
Það sé því ljóst að stefnandi hafi ekki sýnt fram á nokkurs konar saknæma eða ólögmæta háttsemi stefnda eða tjón stefnanda og enn síður hvort, og þá með hvaða hætti, orsakatengsl séu á milli háttsemi stefnda og tjóns stefnanda eða hvernig meint tjón stefnanda geti talist sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Sakarefni málsins sé því svo vanreifað að ekki verði lagður á það efnisdómur. Þetta fari m.a. gegn 25. gr. og d-, e- og g-liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefnda sé ógerlegt að halda uppi vörnum gegn svo óskýrum málatilbúnaði. Af þessu leiði að vísa verði málinu frá dómi.
Stefnandi hafi kosið að höfða málið á hendur stefnda á þeim grundvelli að hann hafi valdið stefnanda tjóni með störfum sínum sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í stefnanda. Málshöfðunin byggist m.a. á sakarreglunni og 108. gr. laga nr. 138/1994. Stefnandi hafi hins vegar ekki sýnt fram á nokkurn atburð eða athöfn stefnda sem talist geti saknæm eða ólögmæt. Við þetta tvinni stefnandi svo einhvers konar viðurkenningarmál um vörumerkjarétt sem hann hafi með engu móti sýnt fram á tilkall sitt til. Þær dómkröfur stefnanda samræmist í engu þeim málsgrundvelli um skaðabótaábyrgð stjórnanda einkahlutafélags sem stefnandi hafi ákveðið að byggja málið á.
Persónulegur ágreiningur Guðmundar Óla við stefnda vegna brottrekstrar Guðmundar Óla úr hljómsveitinni Sólstöfum hafi verið klæddur í búning skaðabótamáls gegn stjórnanda félags sem ekki hafi haft með höndum rekstur eða eignir sem kunni að felast í vörumerkjarétti hljómsveitarinnar Sólstafa. Þetta geri það að verkum að allt samhengi skortir milli dómkrafna, málavaxtalýsingar og málsástæðna.
Dómkröfur stefnanda og málsgrundvöllur samræmist ekki málsatvikalýsingu og málsástæðum. Grundvallarskortur á tilkalli stefnanda til þeirra réttinda sem mál þetta varði gerir það að verkum að engir sjáanlegir lögvarðir hagsmunir séu til staðar. Engin gögn hafi verið lögð fram til að sýna fram á þessi meintu réttindi, hina meintu saknæmu háttsemi stefnda, eða umfang hins meinta tjóns. Aðild málsins bæði sóknar- og varnarmegin sé alfarið óútskýrð og samræmist ekki málavaxtalýsingu. Allt þetta samanlagt geri það að verkum að sakarefni málsins sé með öllu óljóst og málshöfðun stefnanda í heild sinni svo vanreifuð að hún fari gegn d-, e- og g-liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglu íslensks réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Ekki verði bætt úr þessu undir rekstri málsins. Stefnda verði ekki gert að grípa til varna gegn svo óljósum og villandi málatilbúnaði og því verði að vísa máli þessu frá dómi.
III
Stefnandi hafnar því að vísa beri málinu frá dómi. Frávísunarkrafa stefnda lýsi mikilli vanþekkingu á vörumerkjarétti. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 45/1997 geti réttur til vörumerkis stofnast fyrir notkun. Þá víki yngri réttur fyrir eldri. Ekki hafi verið leyst endanlega úr deilu um rétt til vörumerkisins.
Þá telji stefnandi að málsástæður stefnda lúti fyrst og fremst að efni málsins en ekki formi. Stefndi eigi ekki í neinum vandræðum með að grípa til efnisvarna.
Augljóst sé að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af málshöfðun sinni. Ágreiningur um hvort hann hafi öðlast rétt til vörumerkisins sé kjarninn í efnismálflutningi. Stefndi hafi viðurkennt að stefnandi hafi verið stofnaður utan um hluta af rekstri hljómsveitarinnar og það komi jafnframt fram í ársreikningum stefnanda.
Varðandi kröfu um frávísun vegna vanreifunar á aðild telji stefnandi að stefndi sé að fjalla um aðildarskort en hann leiði til sýknu.
Ágreiningur sé milli aðila um lögmæti funda í stefnanda. Málshöfðunin sé ekki einungis reist á ákvörðun stjórnarfundar heldur líka tveggja hluthafafunda. Lögmaður stefnanda þurfi ekki að sýna fram á umboð sitt. Stefndi hafi hunsað fundi og látið hjá líða að sinna skyldum sínum. Nýleg ákvörðun fyrirtækjaskrár hafi nú verið kærð en nokkur bið verði eftir niðurstöðu. Sá ágreiningur hafi þó ekki nein úrslitaáhrif hér. Hluthafafundur hafi tvisvar sinnum tekið ákvörðun um málshöfðun. Í lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé gert ráð fyrir mjög rúmri heimild til málshöfðunar. Hægt sé að gera kröfuna í nafni félags. Aðdróttunum um misnotkun á félagaforminu sé því mótmælt.
Stefndi vísi til þess að gögn um fjárhagstjón séu ekki tæmandi. Farið sé fram á bætur að álitum innan 20.000.000 króna rammans.
Tilvísun til óljóss sakarefnis sé einungis samansafn af málsástæðum. Stefnandi telji dómkröfurnar vera skýrar og í samræmi við lög nr. 91/1991. Ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé.
IV
Stefndi krefst þess að máli þessu verði vísað frá dómi á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni, aðild málsins sé vanreifuð, sakarefni málsins sé óljóst, málsgrundvöllur sé rangur og vanreifaður og málið sé vanreifað í heild sinni. Þá byggir stefndi jafnframt á því að málið eigi ekki undir dómstóla að svo stöddu og því beri að vísa frá á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.
Við upphaf munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu stefnda lögðu báðir aðilar fram, með samþykki gagnaðila síns, ýmis gögn, m.a. staðfestingu á því að stefndi hefði fengið vörumerkið Sólstafir skráð sem sitt og gildir sú skráning til 31. mars 2026. Þá voru lögð fram andmæli stefnanda sem send hafa verið Einkaleyfastofu, á grundvelli 22. gr. laga nr. 45/1997, vegna skráningarinnar. Stefndi byggir á því að þar sem þessi kæruleið hafi ekki verið tæmd beri að vísa málinu frá dómi þar sem sakarefnið eigi ekki undir dómstóla að svo stöddu. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 45/1997 getur Einkaleyfastofa beint þeim tilmælum til hlutaðeigandi að hann höfði mál innan tilskilins frests til staðfestingar á því að hann sé eigandi að skráðu vörumerki eða vörumerki sem sótt hefur verið um skráningu á. Ef mál er höfðað til staðfestingar á rétti til vörumerkis er heimilt að fresta meðferð hjá Einkaleyfastofunni. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 45/1997 segir að yfirleitt sé um flókin mál að ræða þar sem vitnaleiðslur geta verið nauðsynlegar. Því sé tryggast að úr slíkum málum verði leyst fyrir dómstólum. Þá kemur fram að heimild Einkaleyfastofu til að fresta meðferð máls varðandi rétt til vörumerkis gildi ekki einungis við meðferð umsóknar heldur einnig t.d. við andmælamál. Þá gildi þetta hvort sem aðili hefur höfðað mál samkvæmt tilmælum Einkaleyfastofu eða af sjálfsdáðum. Í lögum nr. 45/1997 er því ekki gert ráð fyrir því að kæruleiðir séu tæmdar áður en til málshöfðunar getur komið heldur þvert á móti því að afgreiðsla Einkaleyfastofu bíði niðurstöðu dómstóla. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.
Stjórnendur félaga, stofnana eða samtaka koma fram einir eða fleiri í sameiningu sem fyrirsvarsmenn slíkra aðila eftir því sem leiðir af almennum reglum, sbr. 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991. Í máli þessu fer Guðmundur Óli Pálmason með fyrirsvar fyrir stefnanda og reisir hann heimild sína til málshöfðunar á ákvörðun stjórnarfundar og tveggja hluthafafunda. Stefndi byggir frávísunarkröfu sína m.a. á því að málið sé höfðað í heimildarleysi þar sem ákvörðun um málshöfðun hafi verið tekin á ólögmætum fundi. Ákvörðun um málshöfðun stefnanda var tekin á stjórnarfundi í stefnanda 11. desember 2015. Á þeim fundi var jafnframt tekin ákvörðun um afturköllun ráðningar stefnda sem framkvæmdastjóra stefnanda og afturköllun prókúru til stefnda. Í kjölfar framangreinds fundar sendi Guðmundur Óli tilkynningu um breytingu á framkvæmdastjórn og prókúru hjá stefnanda. Stefndi andmælti skráningunni og með ákvörðun ríkisskattstjóra 26. apríl sl. var skráning tilkynningar um breytingu á framkvæmdastjórn og prókúru hjá stefnanda felld niður í ljósi þess að um ólögmætan stjórnarfund hefði verið að ræða. Stefnandi hefur kært ákvörðunina til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í fundargerð stjórnarfundar í stefnanda 11. desember 2015 kemur fram að Guðmundur Óli Pálmason stjórnarformaður hafi einn sótt fundinn en aðrir hafi ekki verið mættir þrátt fyrir löglega boðun hans. Ákvarðanir voru allar teknar með samþykki oddaatkvæðis stjórnarformannsins. Um ákvörðunarbærni félagsstjórnar er fjallað í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Kemur þar fram að fjölskipuð félagsstjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund svo framarlega sem ekki séu gerðar strangari kröfur í samþykktum félags. Í samþykktum stefnanda segir í 3. mgr. 16. gr. að stjórnarfundir séu lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ráði afgreiðslu mála en verði atkvæði jöfn ráði atkvæði formanns úrslitum. Samkvæmt lögum um einkahlutafélög og samþykktum stefnanda eru stjórnarfundir því lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Þá er samkvæmt 47. gr. laganna ekki heimilt að taka mikilvæga ákvörðun án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið sé þess kostur. Verður að telja að skilyrði um meirihluta stjórnar leiði til þess að ekki dugi til lögmætis fundar að helmingur, eða annar af tveimur stjórnarmönnum, sæki fundinn. Tveir stjórnarmenn stefnanda þurftu því að sækja fundinn til þess að hann væri ákvörðunarbær. Með hliðsjón af því er ljóst að stjórnarfundurinn var ekki lögmætur og ákvarðarnir sem teknar voru á honum eru ógildar.
Hluthafafundur var haldinn í stefnanda 28. desember 2015 og var hann sóttur af lögmanni stefnanda sem hafði umboð stjórnarformannsins. Var þar tekin ákvörðun um að félagið skyldi hafa uppi fébótakröfu á hendur stefnda samkvæmt 109. gr., sbr. 108. gr., laga nr. 138/1994. Þá var haldinn aukahluthafafundur í stefnanda 11. maí sl. Var sá fundur sóttur af stjórnarformanninum og þar samþykkt tillaga um staðfestingu ákvörðunar hluthafafundar 28. desember 2015 um að hafa uppi fébótakröfu á hendur stefnda. Samkvæmt 109. gr. laga nr. 138/1994 skal ákvörðun um að félag skuli hafa uppi skaðabótakröfu á grundvelli 108. gr. laganna tekin á hluthafafundi. Hafi hluthafafundur gert samþykkt um ábyrgðarleysi manns eða fellt tillögur um að beita fébótaábyrgð geta hluthafahópar, sem ráða yfir minnst 1/10 af heildarhlutafé félagsins, gert skaðabótakröfuna vegna félagsins og í nafni þess. Samkvæmt 62. gr. laganna skal félagsstjórn annast boðun til hluthafafunda. Ef félag hefur enga starfandi stjórn, eða félagsstjórn lætur hjá líða að boða til hlutafafundar sem skal halda samkvæmt lögum, félagssamþykktum eða ákvörðun hluthafafundar, skal ráðherra, samkvæmt 2. mgr. 62. gr., láta boða til fundarins ef stjórnarmaður, framkvæmdastjóri, endurskoðandi, skoðunarmaður eða hluthafi krefst þess. Sambærilegan áskilnað er að finna í 11. gr. samþykkta stefnanda þar sem segir að aðalfundi skuli halda fyrir lok júní ár hvert. Aukafundi skuli halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu hlutahafa sem ráði a.m.k. einum tíunda hluta hlutafjár í félaginu. Krafan skuli gerð skriflega og fundarefni tilgreint og fundur þá boðaður innan 14 daga. Skirrist stjórnin við að boða fund eftir móttöku slíkrar kröfu megi leita atbeina stjórnvalda samkvæmt lögum um einkahlutafélög. Þá segir í 12. gr. samþykktanna að félagsstjórn skuli boða til hluthafafunda. Fyrir liggur að félagsstjórn boðaði ekki til hluthafafundanna heldur stjórnarformaður. Gildir einu þótt til seinni fundarins hafi verið boðað með vísan til 60. gr. laga nr. 138/1994, en samkvæmt henni skal halda aukafund þegar félagsstjórn telur þess þörf. Boða skal til aukafundar innan 14 daga að skriflegri kröfu hluthafa yfir minnst 1/20 hlutafjárins. Þrátt fyrir að hluthafa sé þannig veittur réttur til að krefjast hluthafafundar hefur hann ekki boðunina sjálfa með höndum. Sinni félagsstjórnin ekki þeim kröfum þarf því að fara svo sem greinir í 2. mgr. 62. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu var ekki boðað til hluthafafundanna með lögmætum hætti og teljast ákvarðanir teknar á þeim því ekki gildar. Þá er ekki um það að ræða að hluthafafundur hafi gert samþykkt um ábyrgðarleysi eða fellt tillögu um að beita fébótaábyrgð þannig að hluthafi geti gert skaðabótakröfuna vegna félagsins í nafni þess.
Samkvæmt öllu framangreindu, og með vísan til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, getur Guðmundur Óli Pálmason ekki talist fara réttilega með fyrirsvar stefnanda vegna þessa máls. Þegar af þeirri ástæðu bera að vísa málinu frá dómi, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 309/2005 og 216/2011.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu, og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Svalbard Music Group ehf., greiði stefnda, Aðalbirni Tryggvasyni, 400.000 krónur í málskostnað.