Hæstiréttur íslands

Mál nr. 430/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann
  • Brottvísun af heimili
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Þriðjudaginn 30. júní 2015.

Nr. 430/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann. Brottvísun af heimili. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011. Málinu var vísað frá Hæstarétti, enda hafði kæra borist héraðsdómi eftir að frestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var liðinn.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 24. júní 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 13. júní 2015 um að varnaraðila yrði gert að sæta í fjórar vikur brottvísun af heimili hans og A að [...] í [...] og nálgunarbanni gagnvart A og syni hennar. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 má kæra eftir almennum reglum til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um hvort lagt verði á nálgunarbann eða brottvísun af heimili. Um kæru gilda sömu reglur og um kæru úrskurðar samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt upphafsmálslið 2. mgr. 193. gr. þeirra laga skal maður sem kæra vill úrskurð lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. 

Verjandi varnaraðila var viðstaddur uppsögu hins kærða úrskurðar og lýsti því þá yfir að tekinn væri lögboðinn frestur til að taka ákvörðun um hvort varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Eins og áður greinir barst kæra héraðsdómi 24. júní 2015, en þá var liðinn kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 19. júní 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 13. júní 2015 þess efnis að X, kt. [...] skuli sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili, skv. a. og b. lið 4. gr. og  a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 4 vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radísu umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B, syni hennar, eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 12. júní sl. hafi lögreglu borist tilkynning þess efnis að A hefði flúið úr bifreið X við Litlu kaffistofuna vegna barsmíða sem hún sætti, en X hefði haldið för sinni áfram áleiðis til Reykjavíkur. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi A sjáanlega verið í miklu uppnámi og kvaðst vera mjög hrædd við X. A kvaðst hafa verið í bústað númer [...] í [...] síðan sl. föstudag og að hún hafi ítrekað orðið fyrir hótunum og barsmíðum á meðan á dvölinni þar hafi staðið. Nánar aðspurð kvað A að föstudaginn 5. júní sl. hafi X ráðist á sig með barsmíðum, haldi henni niðri og slegið hnefahöggum í andlitið. X hafi ráðist á sig aftur þann 11. júní  um kvöldið og kýlt sig í andlitið með krepptum hnefa og haldið henni niðri, hótað henni og svipt hana þannig frelsi sínu. Loks hafi X ráðist á sig í þriðja sinn í bifreiðinni [...] á Suðurlandsvegi og kvaðst A þá hafa forðað sér úr bifreiðinni við Litlu Kaffistofuna. A kvað son sinn hafa verið með þeim í bústaðnum en að hún hafi komið honum til föður síns í [...] á þriðjudeginum og að hann hafi verið sofandi er X hafi ráðist á sig á föstudeginum. Í kjölfar afskipta lögreglu hafi A leitað á slysa- og bráðamóttökuna á [...] og við skoðun hafi sést  greinilegir áverkar víðsvegar um líkama hennar sem samræmist frásögn hennar um ofbeldi X í hennar garð þann tíma sem þau hafi dvalið í sumarhúsinu og í bifreiðinni áleiðis til [...].

A kvaðst hafa átt í sambandi við X í um fjóra mánuði, það hafi gengið vel í fyrstu og hann fljótlega flutt inn til hennar að [...] í [...]. Svo hafi X farið að beita hana ofbeldi og hótunum. A hafi sagt  X mjög skapstóran og að hann tæki æðisköst reglulega. Hafi það verið um einu sinni til tvisvar í mánuði til að byrja með en nú væri það að gerast einu sinni til tvisvar í viku. A hafi sagt X fylgja henni hvert sem hún færi, að hann tæki af henni farsímann og stjórnaði því hvern hún hefði samband við. Sonur A dvelji á heimilinu aðra hverja viku en A kvað X ekki hafa beitt sig ofbeldi í návist barnsins.

A hafi lýst tilvikum þar sem X hafi beitt hana ofbeldi og hugsanlega væru vitni að einhverjum þeirra. Kvað hún ofbeldi X felast í því að hann kýli hana, m.a. í andlit og höku, kreisti hana og haldi henni niðri. Kvað hún ofbeldi hans ekki vera bundið við tiltekinn tíma sólarhringsins eða daga vikunnar, hann ætti það til að umbreytast og æsast á skömmum tíma.

A hafi lýst því m.a. að eitt sinn hefði X komið heim úr göngutúr og þá vænt hana um framhjáhald, hann hafi látið hana blása framan í sig til þess að gá hvort hann fyndi ,,brundlykt“. Jafnframt hefði hann lagt hana niður í gólf og tekið niður um hana nærbuxur til þess að kanna hvort hún hafi haldið framhjá. Kvað hún X líka eiga það til að brjóta hluti og hella niður og gera A að þrífa upp.

Þá hafi A lýst atviki sem átt hafi sér stað þann 8. maí sl. og sé skráð hjá lögreglu undir málsnúmerinu 007-2015-[...], en þar hafi hún verið að aka X til vinar hans og hafi X verið sáttur við það. Hann hafi hins vegar á leiðinni farið að hóta því að klippa af henni putta með töng sem hafi verið í bílnum og hitað „baseballkylfu“ úr áli með kveikjara og hótað að brenna A með henni. Hafi hún flúið inn í verslun [...] við [...] og þar leitað aðstoðar við að komast undan X.

Samkvæmt sakavottorði X eigi hann að baki nokkurn sakarferil vegna ýmissa brota gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum, vopnalögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hafi hann hlotið níu refsidóma og þrisvar sinnum gengist undir sátt hjá lögreglustjóra. Síðast hafi hann hlotið dóm 9. júlí 2013 þar sem honum hafi verið gert að sæta 5 mánaða fangelsi, m.a. fyrir hótanir. Þann 9. desember 2014 hafi X verið ákærður fyrir valdstjórnarbrot með því að beita lögreglumann ofbeldi, sbr. mál héraðsdóms Reykjavíkur númer S-[...]/2014, en dómur hafi ekki gengið í því máli. Auk þess sé til rannsóknar annað valdstjórnarbrot frá febrúar á þessu ári þar sem X hafi beitt lögreglumann ofbeldi.

Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt A líkamlegu og andlegu ofbeldi auk hótana um slíkt og þá sé talin hætta á að hann muni gera slíkt aftur og með því að raska friði A og sonar hennar njóti hann fulls athafnafrelsis.  Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Niðurstaða

                Sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, krefst þess að staðfest verði sú ákvörðun hans, 13. júní 2015, að varnaraðila verði vísað brott af heimili sínu og á hann sett bann við að nálgast það og kæranda.

Svo sem fram kemur í framangreindri greinargerð lögreglu og gögnum málsins var lögregla kvödd að Litlu kaffistofunni 12. júní sl. og bar brotaþoli þá um líkams­meiðingar af hendi varnaraðila. Brotaþoli leitaði á slysa- og bráðamóttöku þar sem í ljós komu greinilegir áverkar víðsvegar um líkama hennar sem samræmist frásögn hennar um ofbeldi varnaraðila gegn henni. Læknisvottorð um áverkana liggja frammi með rannsóknargögnum. Þá liggur fyrir framburður brotaþola um viðvarandi ofbeldi af hálfu varnaraðila. Í málinu hefur verið lagt fram afrit af samskiptum af facebook frá 15. júní sl. þar sem varnaraðili setur sig í samband við brotaþola, í trássi við ákvörðun lögreglu um nálgunarbann sem birt hafði verið fyrir honum. Réttargæslumaður brotaþola upplýsti fyrir réttinum að brotaþoli óttaðist varnaraðila mjög og þyrði ekki að kæra þetta brot gegn nálgunarbanninu en hún vildi halda til streitu kröfu sinni um að nálgunarbann og brottvísun yrði staðfest.

Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 18. júní 2015 hafði ekki tekist að birta fyrirkall fyrir varnaraðila sjálfum og mætti hann ekki til þinghaldsins, en sótt var þing af hálfu lögmanns hans, sem skipaður var verjandi hans. Lögð voru fyrir dóminn rannsóknargögn, m.a. um skýrslutöku af varnaraðila. Lögmaðurinn sem sótti þing fyrir verjanda varnaraðila mótmælti kröfunni og taldi það koma nægilega fram í gögnum málsins að afstaða varnaraðila sé sú að hann mótmæli kröfunni. Í því ljósi og þess sem fram kemur í gögnum málsins gaf dómari út fyrirkall í samræmi við 2. ml. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2011 og birti fyrir lögmanninum sem sótti þing af hans hálfu í þinghaldinu. Boðað var í fyrirkallinu til þinghalds í dag og upplýst um að úrskurður kynni að ganga um málið þótt varnaraðili sæki ekki þing, en fjarvist hans verði metin til jafns við afstöðu hans við meðferð málsins hjá lögreglustjóra.

                Við fyrirtöku málsins í dag komu fram mótmæli af hálfu varnaraðila gegn þeirri málsmeðferð en því var ekki mótmælt að krafan yrði tekin til úrskurðar og lagði lögmaðurinn málið í úrskurð við lok málflutnings. Hafði hann uppi þær varnir af hálfu varnaraðila að krafan væri eingöngu byggð á framburði brotaþola sem ekki væri nægilegur grundvöllur til brottvísunar og nálgunarbanns á hendur varnaraðila. Þrátt fyrir að samband þeirra væri stormasamt væru samskipti þeirra í fyrrnefndum facebook skilaboðum vinsamleg. Þá var því mótmælt að líta mætti til sögu varnaraðila og brotaferils við ákvörðun í málinu.

Ekki er fallist á það með varnaraðila að skilyrði séu ekki fyrir hendi til að leggja úrskurð á málið, enda hefur fyrirkall verið birt fyrir lögmanni hans í samræmi við 4. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2011, þar sem fram kemur að úrskurður kunni að ganga um málið þótt varnaraðili sæki ekki þing, sbr. 2. mgr. 13. gr. laganna.

Fallist er á það með lögreglustjóranum að rannsóknargögn sýni að varn­ar­aðili sé undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola á þann hátt að heimilt sé að banna honum að nálgast hana og vísa honum brott af heimili þeirra. Þegar virt er framkoma varnaraðila í garð brotaþola sem lýst er í gögnum málsins, sem dómurinn telur m.a. geta varðað við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykja skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 til nálgunarbanns og brottvísunar af heim­ili uppfyllt. Þegar litið er til forsögu máls­ins og þeirra atburða sem leiddu til þess að brotaþoli bar fram beiðni um að varnaraðili sætti nálgunarbanni og brottvísun af heimili fellst dómurinn jafnframt á það að frið­helgi brotaþola verði ekki vernduð á annan og vægari hátt, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Dómurinn sér ekki rök til þess að marka banni og brottvísun skemmri tíma en gert er í ákvörðun sóknaraðila. Þykja því uppfyllt skilyrði 4. og 5. gr. nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun lögreglustjórans frá 13. júní sl., eins og nánar greinir í úrskurð­ar­orði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl. sem ákveðst 104.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Einnig greiðist úr ríkissjóði sam­kvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011 þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., 104.000 krónur.  

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra frá 13. júní 2015 þess efnis að X, kt. [...] skuli sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili, skv. a. og b. lið 4. gr. og  a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 4 vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A og B, syni hennar, eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Þóknun verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 104.000  krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., 104.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.