Hæstiréttur íslands
Mál nr. 59/2007
Lykilorð
- Rán
- Hylming
- Þjófnaður
- Gripdeild
- Fölsun
- Fíkniefnalagabrot
- Fjársvik
- Samverknaður
- Fyrning
- Rannsókn
- Skilorð
- Upptaka
- Svipting ökuréttar
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2007. |
|
Nr. 59/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn Ingþóri Halldórssyni Sigurþóri Arnarssyni og Sævari Má Indriðasyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Rán. Hylming. Þjófnaður. Gripdeild. Fölsun. Varsla fíkniefna. Fjársvik. Samverknaður. Fyrning. Rannsókn. Skilorð. Upptaka. Svipting ökuréttar. Akstur undir áhrifum lyfja.
I var sakfelldur fyrir rán, hylmingu, gripdeild í tvígang, tilraun til þjófnaðar, fjögur fölsunarbrot, vörslu fíkniefna og fjársvik. Með gripdeild og fölsunarbroti 22. og 24. 2006 rauf hann skilorð eldri dóms og var hann tekinn upp og honum ákvörðuð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þá var refsing hans fyrir stóran hluta brotanna ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. laganna. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi auk þess sem honum gert að greiða brotaþolum skaðabætur. SÞ var sakfelldur fyrir þjófnað, þrjú hylmingarbrot, tvær gripdeildir, vörslu fíkniefna í tvígang og tvö umferðarlagabrot. Refsing hans var að hluta ákvörðuð sem hegningarauki og þótti hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi. Þá var hann sviptur ökurétti í 8 mánuði og honum gert að greiða brotaþolum skaðabætur. SM var sakfelldur fyrir rán og þjófnað. Var refsing hans ákvörðuð sem hegningarauki og þótti hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Þá var honum gert að greiða brotaþolum skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með þremur áfrýjunarstefnum 29. desember 2006, 3. janúar 2007 og 17. apríl 2007 vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2006 og með áfrýjunarstefnu 18. apríl 2007 vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2007 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærðu en þyngingar á refsingu þeirra.
Ákærði Ingþór Halldórsson krefst sýknu af I. kafla ákæru 26. apríl 2005. Að öðru leyti krefst hann mildunar refsingar.
Ákærði Sigurþór Arnarsson krefst sýknu af I. kafla ákæru 26. apríl 2005, af II. kafla ákæru 15. nóvember 2005 og ákæruliðum 2.1 og 4 í ákæru 2. maí 2006. Að öðru leyti krefst hann mildunar refsingar.
Ákærði Sævar Már Indriðason krefst sýknu af ákæru 15. nóvember 2005. Að öðru leyti krefst hann mildunar refsingar.
A, sem dæmdur var til refsingar í héraði ásamt ákærðu, unir hinum áfrýjaða dómi og ákæruvaldið einnig að því er hann varðar.
Fyrir Hæstarétti hafa málin verið sameinuð.
I.
Í I. kafla ákæru 26. apríl 2005 er ákærðu Ingþóri og Sigurþóri gefið að sök að hafa keypt um 40 úr af tilgreindum manni 19. janúar 2005 þrátt fyrir að hafa verið ljóst að um þýfi væri að ræða en úrum þessum hafði verið stolið í verslun Carls Bergmann aðfaranótt sama dags. Háttsemi þeirra er í ákæru talin varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærðu neita sök og bera því við að þeim hafi ekki verið ljóst að um þýfi væri að ræða.
Í skýrslu lögreglu 20. janúar 2005 kemur fram að tilkynnt hafi verið að menn væru að bjóða úr til sölu á Laugaveginum í Reykjavík á móts við L.A. Café og hefðu þeir meðferðis litla snyrtitösku sem í væru nokkur úr. Fylgdi lýsing á þremur þessara manna. Af þessu tilefni voru ákærðu handteknir þar sem klæðnaður þeirra svaraði til fyrrnefndrar lýsingar. Höfðu þeir meðferðis litla snyrtitösku sem í var eitt úr með svokallaðri búðarmerkingu á. Báðir voru þeir með armabandsúr á úlnlið sem þeir gátu litla grein gert fyrir. Ákærði Sigurþór kvaðst eiga töskuna og allt sem í henni væri en hann hefði keypt úr fyrr um kvöldið fyrir 50.000 krónur. Aðspurður kvaðst hann hafa verið í íbúð að Þ áður en lögregla handtók hann. Af þessu tilefni var gerð þar húsleit og fundust átta úr í snyrtitösku. Við yfirheyrslu um morguninn sama dag kvaðst ákærði Ingþór hafa keypt úr af „[N]“ kvöldið áður. Ekki gat hann gert nánari grein fyrir seljanda úrsins að öðru leyti en því að hann hefði verið ungur, ljóshærður og í hermannabuxum. Síðdegis sama dag gaf ákærði Ingþór aftur skýrslu hjá lögreglu þar sem hann breytti frásögn sinni. Kvaðst hann þá hafa fengið fulla tösku af úrum hjá nafngreindum manni í X og hefði meðákærði séð um að borga fyrir úrin. Ákærði Sigurþór gaf einnig skýrslu hjá lögreglu sama dag þar sem fram kom að hann hefði fengið um það bil 40 úr hjá fyrrnefndum manni í X og hefði greitt fyrir þau 40.000 til 50.000 krónur. Kvaðst hann hafa grunað að þetta væru úr frá verslun Carls Bergmann á Laugaveginum. Aðspurður um hvort hann hefði reynt að selja úrin gekkst hann við því að hafa sýnt nokkrum mönnum þau á Laugaveginum. Síðar sama dag breytti ákærði Sigurþór framburði sínum á þann veg að hann hefði tekið úrin upp í skuld.
Í framburði ákærða Ingþórs fyrir dómi fullyrti hann að hann hefði ekki vitað að umrædd úr væru þýfi. Þá kom fram að hann minnti að úrin hefðu verið keypt af þeim manni í Grafarvogi sem hann hafði áður nafngreint hjá lögreglu. Að öðru leyti bar hann við minnisleysi um samskipti sín við þennan mann. Þegar hann var beðinn að skýra misræmi í framburði sínum fyrir lögreglu annars vegar og dómi hins vegar svaraði hann: „Ég ætla bara tjá mig þannig að ég man ekki eftir þessu.“
Í framburði ákærða Sigurþórs fyrir dómi kvaðst hann vera úrasafnari. Staðfesti hann sem fyrr að hann hefði fengið úrin hjá sama manni og hann hafði nefnt áður hjá lögreglu. Þá fullyrti hann að hann hefði ekki vitað að úrin væru þýfi heldur hefði hann talið að þeim hefði verið smyglað til landsins. Þegar hann var spurður hvort hann hefði ekki grunað að þetta væri þýfi þar sem úrið, sem hann hafði í vörslum sínum þegar hann var handtekinn, hefði haft búðarmerkingu frá Carli Bergmann, bar hann því við að hann myndi ekki eftir þessu þar sem hann hefði þá „verið í því“ þegar hann var handtekinn. Ákærði Sigurþór bar síðan að hann hefði keypt úrin fyrir 40.000 krónur og ætlað að selja þau.
Þegar allt framangreint er virt í ljósi mats héraðsdómara á sönnunargildi framburðar beggja ákærðu er staðfest sú niðurstaða að sakfella ákærðu fyrir brot á 254. gr. almennra hegningarlaga í samræmi við verknaðarlýsingu í I. kafla ákæru 26. apríl 2005.
II.
Í II. kafla ákæru 15. nóvember 2005 og ákærulið 4 í ákæru 2. maí 2006 er ákærða Sigurþóri gefið að sök að hafa ekið bifreiðum ófær um að stjórna þeim örugglega vegna neyslu örvandi og slævandi efna í þrjú skipti og að hafa í eitt skipti ekið á staur. Er þetta talið varða við 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í ákærulið 2.1 í ákæru 2. maí 2006 er ákærða Sigurþóri gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum „IBM thinkpad“ fartölvu að verðmæti 130.000 krónur enda þótt honum væri ljóst að um þýfi væri að ræða.
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákæruliðum og telur að ekki liggi fyrir af hálfu ákæruvalds lögfull sönnun þess að hann hafi verið ófær um að stjórna bifreiðunum örugglega í umræddum tilvikum. Þá mótmælir hann því að hafa vitað að fartölvunni hefði verið stolið þegar hann keypti hana.
Í ákærulið 1 í II. kafla ákæru 15. nóvember 2005 er ákærða Sigurþóri gefið að sök að hafa 11. febrúar 2004 ekið bifreið um götur í Hafnarfirði án þess að hafa verið fær um að stjórna henni vegna neyslu örvandi og slævandi efna. Hinn 11. febrúar 2004 var málið rannsakað af lögreglu og var tekið af honum blóðsýni. Daginn eftir var hann yfirheyrður. Ekkert var síðan aðhafst í málinu fyrr en óskað var lyfjarannsóknar úr blóðsýninu 14. júlí 2005 og er matsgerðin dagsett 4. ágúst 2005. Ákæra var gefin út 15. nóvember 2005 og málið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 22. febrúar 2006. Fyrirkall ákærða Sigurþórs liggur ekki fyrir í gögnum málsins. Fyrir Hæstarétti gat saksóknari ekki útskýrt hvers vegna rannsókn þessa einfalda máls hefði tafist í rúma 17 mánuði frá því að skýrsla var tekinn af ákærða og blóðsýnis aflað hjá honum og þar til það var sent til rannsóknar. Þá liðu um þrír mánuðir frá því að matsgerð lá fyrir þar til ákæra var gefinn út. Á hinn bóginn upplýsti saksóknari að miðað við sakarferil ákærða Ingþórs í febrúar 2004 hefði honum að öðru jöfnu aðeins verið gerð sekt fyrir brot þetta.
Samkvæmt 5. mgr. 82. gr. laga nr. 19/1940 rýfur rannsókn ekki fyrningarfrest ef hún stöðvast um óákveðin tíma. Ekkert liggur fyrir um að það hlé sem varð á rannsókn málsins stafi af því að ákærði Sigurþór hafi reynt að koma sér undan rannsókn eða að ákæruvaldinu hafi ekki verið unnt að fylgja málinu eftir. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að sök vegna brots sem heimfært er undir 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga, og varðar sektum samkvæmt 100. gr. sömu laga, fyrnist á tveimur árum samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 80. gr. sömu laga. Þar sem ekki hafa komið fram neinar skýringar sem réttlæta að rannsókn í málinu lá niðri svo lengi verður að telja að rannsókn þess hafi ekki rofið fyrningu sakarinnar. Er sökin því fyrnd samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og verður ákærða ekki dæmd refsing samkvæmt ákærulið 1 í II. kafla ákæru 15. nóvember 2005.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða héraðsdóms frá 25. október 2006 verður staðfest niðurstaða hans að öðru leyti um að sakfella ákærða Sigurþór fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt öðrum framangreindum ákæruliðum.
III.
Í ákæru 15. nóvember 2005 er ákærða Sævari Má gefið að sök að vera samverkamaður í ráni sem framið var í Laugarnesapóteki 22. september 2005 og er talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga.
Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að ákærði Sævar Már hafi ekki í héraði krafist sýknu af þessum sakargiftum, en fyrir Hæstarétti fullyrt af hans hálfu að það hafi hann gert. Fyrir Hæstarétti krefst ákærði Sævar Már sýknu þar sem hann hafi hvorki verið aðalmaður né hlutdeildarmaður í ráni því sem Ingþór og A hafi framið. Það eina sem hann hafi gert hafi verið að aka þeim að Laugarnesapóteki.
Í framburði ákærða Sævars Más fyrir dómi kom fram að hann hefði tekið þátt í undirbúningi ránsins frá byrjun og að rætt hefði verið um framkvæmd þess síðast í bifreiðinni rétt áður en Ingþór og A fóru inn í apótekið. Þá hefði átt að skipta þeim lyfjum sem næðust á milli þeirra þriggja. Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 23. september 2005 viðurkenndi hann að hafa séð meðákærða Ingþór með stóran eldhúshníf áður en lagt var af stað. Þessi lögregluskýrsla var borin undir ákærða Sævar Má fyrir dómi við fyrirtöku á gæsluvarðhaldskröfu 23. september 2005 og kvað hann þar rétt eftir sér haft. Framburður hans samræmist einnig framburði meðákærða Ingþórs fyrir dómi auk þess sem lýsing hans á hnífnum samsvarar þeim hnífi sem fannst þar sem meðákærði var handtekinn. Fyrir dómi 9. júní 2006 kannaðist ákærði aftur á móti ekki við að hafa séð meðákærða með hníf. Ekki hafa komið fram neinar skýringar á þessu misræmi í framburði ákærða Sævars Más.
Þegar litið er til þess að ákærði Sævar Már tók þátt í því að skipuleggja ránið og átti að fá hlut í ránsfeng auk þess sem hann ók til og frá brotavettvangi telst ákærði hafa tekið fullan þátt í brotinu sem aðalmaður. Af framansögðu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða Sævars Más og heimfærslu brots hans til refsiákvæða.
IV.
Með hinum áfrýjaða héraðsdómi 25. október 2006 var ákærða Ingþóri gert að sæta fangelsi í 15 mánuði fyrir rán, hylmingu, gripdeild, tilraun til þjófnaðar, þrjú fölsunarbrot og vörslu fíkniefna í fjögur skipti. Með dómi hinum áfrýjaða héraðsdómi 14. mars 2007 var ákærða Ingþóri ennfremur gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði fyrir fjársvik með því að hafa framvísað greiðslukorti annars manns í viðskiptum í 28 skipti og fyrir gripdeild og skjalafals.
Með dóminum 25. október 2006 var ákærða Sigurþóri gert að sæta fangelsi í fimm mánuði fyrir þjófnað, þrjú hylmingarbrot, tvær gripdeildir, vörslu fíkniefna í tvígang og þrjú umferðarlagabrot.
Með sama dómi var ákærða Sævari Má gert að sæta fangelsi í átta mánuði fyrir rán og þjófnað.
Brotaferill ákærðu er rakinn í héraðsdómi 25. október 2006. Þá ber þess að geta að ákærði Sigurþór var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. febrúar 2007 í þriggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás.
Eins og rakið er í héraðsdómi 25. október 2006 framdi ákærði Ingþór þau brot sem þar er fjallað um fyrir uppkvaðningu dóms yfir honum 22. september 2005 og einnig áður en hann gekkst undir lögreglustjórasáttir 29. september 2005 og 23. maí og 18. september 2006. Var refsing ákærða að þessu leyti því réttilega ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga við umræddar refsiákvarðanir í héraðsdómi.
Ránsbrot ákærða Ingþórs var framið rúmum tveimur klukkustundum eftir að skilorðsdómur yfir honum var kveðinn upp 22. september 2005. Af þessum sökum var á því byggt í dómi héraðsdóms 25. október 2006 að ákærði hefði rofið skilorð dómsins 22. september 2005. Var sá dómur því tekinn upp og refsing ákvörðuð honum í einu lagi vegna allra brotanna skv. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.
Í samræmi við ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga var upphaf skilorðstíma ákveðið í framangreindum dómi þannig að miðað skyldi við birtingu hans. Samkvæmt áritun á dóminn var hann ekki birtur ákærða Ingþóri fyrr en 7. október 2005. Gat brot framið 22. september 2005 því ekki haft í för með sér eiginlegt skilorðsrof. Hið sama á við um 28 fjársvikabrot ákærða Ingþórs, sem hann var sakfelldur fyrir í héraðsdómi 14. mars 2007, en þau voru framin á tímabilinu 28. ágúst til 10. september 2005. Í þeim dómi var ákærði einnig sakfelldur fyrir gripdeild og skjalafals en þau brot voru framin 22. og 24. maí 2006. Telst hann því hafa rofið skilorð samkvæmt dómi 22. september 2005. Ber að taka hann upp og ákvarða honum refsingu í einu lagi vegna allra umræddra brota samkvæmt 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga sem og 78. gr. sömu laga, sbr. framanritað.
Ránsbrot ákærða Ingþórs í Laugarnesapóteki 22. febrúar 2005 vegur þyngst við ákvörðun refsingar hans. Brotið var framið í félagi við tvo aðra menn. Ákærði Ingþór var vopnaður 38 cm löngum hnífi og var með háreysti bæði þegar hann ruddist inn í apótekið við annan mann svo og þegar samverkamaður hans lét greipar sópa. Bera vitni að hann hafi þá veifað hnífnum í höfuðhæð. Var þessi háttsemi til þess fallin að vekja mikinn ótta hjá starfsmönnum apóteksins. Verður þetta metið ákærða til refsiþyngingar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn verður það metið ákærða Ingþóri til refsilækkunar að hann játaði brot sín að mestu leyti. Að framangreindu virtu, og að teknu tilliti til annarra þeirra brota sem hann er jafnframt sakfelldur fyrir, sem og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, er refsing ákærða Ingþórs ákveðin fangelsi í 18 mánuði eins og gert var samtals í hinum áfrýjuðu dómum er hann varða. Frá henni ber að draga gæsluvarðhald sem hann sætti 23. - 28. september 2005.
Með vísan til forsendna héraðsdóms 25. október 2006 og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður staðfest niðurstaða hans um refsingar ákærðu Sigurþórs og Sævars Más.
Ákvæði héraðsdóms 25. október 2006 um átta mánaða sviptingu á ökurétti ákærða Sigþórs skal vera óraskað.
Hvorki hefur verið krafist endurskoðunar á ákvæðum hinna áfrýjuðu dóma um skaðabótakröfur né upptöku fíkniefna. Standa þau óröskuð.
Þá verða staðfest ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ingþór Halldórsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá því dregst gæsluvarðhald sem ákærði sætti 23. - 28. september 2005.
Ákærði, Sigurþór Arnarsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.
Ákærði, Sævar Már Indriðason, sæti fangelsi í 8 mánuði. Frá því dregst gæsluvarðhald sem ákærði sætti 23. - 27. september 2005.
Hinir áfrýjuðu dómar skulu vera óraskaðir um skaðabætur, sviptingu ökuréttar, upptöku fíkniefna og sakarkostnað.
Ákærðu greiði hver fyrir sig 124.500 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns. Annan áfrýjunarkostnað málsins, 65.065 krónur, greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2006.
Mál þetta sem dómtekið var 28. september 2006 er höfðað með eftirtöldum 8 ákærum:
1) Ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, útgefinni 26. apríl 2005 á hendur Ingþóri Halldórssyni, óstaðsettum í hús í Hafnarfirði og Sigurþóri Arnarssyni, Nýbýlavegi 52, Kópavogi, fyrir eftirtalin brot í Reykjavík á árinu 2005, nema annað sé tekið fram:
I
Ákærðu báðum fyrir hylmingu, með því að hafa miðvikudaginn 19. janúar í íbúðarhúsnæði að X í Reykjavík í félagi keypt um 40 úr af tilgreindum manni þrátt fyrir að vera ljóst að um þýfi væri að ræða en úrum þessum hafði verið stolið í verslun Carls Bergmann aðfaranótt sama dags.
Þetta er talið varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Ákærða Sigurþóri:
1.
Gripdeild, með því að hafa í eftirgreind skipti á bensínafgreiðslustöð Skeljungs við Vesturlandsveg dælt eldsneyti á bifreiðina [...] og ekið á brott án þess að greiða fyrir það:
1.1
Fimmtudaginn 26. ágúst 2004 fyrir samtals kr. 5.012.
1.2
Laugardaginn 22. maí 2004 fyrir samtals kr. 6.302.
Þetta er talið varða við 245. gr. almennra hegningarlaga.
2.
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa að morgni föstudagsins 28. janúar að [...] í Reykjavík haft í vörslum sínum 2,13 g af marihuana og 0, 76 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða.
Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
III
Ákærða Ingþóri:
1.
Gripdeild, með því að hafa föstudaginn 11. febrúar í söluturninum Esso Veganesti á Bíldshöfða tekið við gosflösku, tóbaki og símkorti, samtals að verðmæti kr. 3.894, úr hendi afgreiðslustúlku í gegnum bílalúgu og ekið burtu án þess að greiða fyrir vörurnar.
Þetta er talið varða við 245. gr. almennra hegningarlaga.
2.
Fíkniefnalagabrot:
2.1
Þriðjudaginn 11. janúar á bifreiðastæði við Laugaveg 61 haft í vörslum sínum í söluskyni 0,93 g af amfetamíni, sem ákærði framvísaði til lögreglu, og 16 skammta af LSD (lysergid) sem lögregla fann við leit í bifreiðinni [...].
2.2
Fimmtudaginn 13. janúar á Flókagötu haft í vörslum sínum 5,77 g af amfetamíni og 8 skammta af LSD sem lögreglan fann við leit á ákærða.
2.3
Fimmtudaginn 24. febrúar í bifreiðinni [...], sem stöðvuð var af lögreglu við söluturninn Jolla við Helluhraun 1 í Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 1,64 g af amfetamíni sem lögreglan fann við leit á ákærða.
Þetta er talið varða við 2. gr., sbr., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
IV
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 7,46 g af amfetamíni, 2,13 g af marihuana og 24 skammtar af LSD, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.
Í málinu gerir Skeljungur hf., kt. 590269-1749, kröfu um að ákærði Sigurþór verði dæmdur til greiðslu skaðabóta, sem hér greinir:
1. Kr. 6.302 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi 22. maí 2004, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
2. Kr. 5.012 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi 26. ágúst 2004, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
2) Ákæru ríkissaksóknara útgefinni 15. nóvember 2005 á hendur Ingþóri Halldórssyni, nú sagðan til heimilis að Hverfisgötu 58, Reykjavík, A, [heimilisfang] og Sævari Má Indriðasyni, Sveighúsum 1, Reykjavík. Í þinghaldi 1. desember 2005, var mál þetta, sem upphaflega var nr. S-1823/2005, sameinað því máli sem rekið var vegna fyrrnefndu ákærunnar undir númeri þess S-647/2005.
Ákært var fyrir rán í Laugarnesapóteki, Kirkjuteig 21, Reykjavík, fimmtudaginn 22. september 2005 sem ákærðu Ingþór, A og Sævar Már sammæltust um og framkvæmdu eins og hér segir:
Ákærði Sævar ók ákærðu Ingþóri og A á bifreiðinni [...] að vettvangi þar sem ákærðu Ingþór og A fóru úr bifreiðinni en ákærði Sævar hugðist bíða meðákærðu. Ákærði Ingþór og A fóru inn í apótekið með hulin andlit og var ákærði Ingþór vopnaður hnífi en ákærði A vopnaður sprautu með nál. Þrír starfsmenn apóteksins hlupu út úr versluninni þegar þeir sáu ákærðu Ingþór og A koma inn þannig búna. Ákærði A fór þá inn í bakherbergi í apótekinu þar sem B aðstoðarlyfjafræðingur var við störf og neyddi hana til að sýna sér geymslustað lyfsins contalgin, sem hún gerði og tók ákærði úr lyfjageymslu þrjá pakka af lyfinu contalgin, fjóra pakka af lyfinu conserta og tíu pakka af lyfinu ritalin, samtals að verðmæti kr. 71.809. Ákærði skildi lyfin eftir á vettvangi þegar hann varð lögreglu var. Ákærði Ingþór neyddi B til að opna sjóðsvél verslunarinnar og tók þaðan kr. 18.500 í reiðufé og hafði á brott með sér. Ákærðu voru allir handteknir þegar þeir reyndu að flýja af vettvangi.
Þetta er talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Af hálfu Laugarnesapóteks ehf., er gerð krafa um að ákærðu verði dæmdir til að greiða félaginu skaðabætur að fjárhæð kr. 116.309 auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001.
3) Ákæru lögreglustjórans í Reykjavík útgefinni 29. nóvember 2005 á hendur Ingþóri Halldórssyni til heimilis að Hverfisgötu 58, Reykjavík. Í þinghaldi 1. desember 2005, var mál þetta, sem upphaflega var nr. S-1979/2005, sameinað því máli sem rekið var vegna fyrstu ákærunnar undir númeri þess S-647/2005.
Ákært var fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2005:
1. Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa sunnudaginn 6. mars í auðgunarskyni farið inn í húsnæði Listasmiðjunnar Klink og Bank að Brautarholti 1 og reynt að stela útvarpsmagnara og DVD-spilara, samtals að óþekktu verðmæti, en hætt við þegar komið var að ákærða á vettvangi.
Er brot þetta talið varða við 244. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 29. ágúst, í bifreiðinni [...] á bifreiðastæði við Ármúla 19, haft í vörslum sínum 0,22 g af amfetamíni, sem lögreglan fann við leit.
Er þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
3. Skjalafals, með því að hafa notað í viðskiptum í Reykjavík 3 falsaða tékka sem ákærði hafði sjálfur falsað á illa fengin eyðublöð úr tékkhefti frá Landsbanka Íslands, útibúi 0130, með nafni C sem útgefanda:
3.1. Laugardaginn 26. febrúar, í verslun 11-11, Skúlagötu, framvísað tékkaeyðublaði nr. 0272673 að fjárhæð kr. 5.000.
3.2. Sunnudaginn 27. febrúar í versluninni Vero Moda í Smáralind í Kópavogi, framvísað tékkaeyðublaði nr. 0272671 að fjárhæð kr. 20.000.
3.3. Mánudaginn 28. febrúar í verslun 11-11, Skúlagötu, framvísað tékkaeyðublaði nr. 0272675 að fjárhæð kr. 3.078.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 0,22 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Í málinu gerir VM ehf., [kt.], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 20.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til greiðsludags.
4) Ákæru lögreglustjórans í Reykjavík útgefinni 24. október 2005 [...]
5) Ákæru lögreglustjórans í Reykjavík útgefinni 15. nóvember 2005 á hendur Sigurþóri Arnarssyni til heimilis að Vesturbergi 74, Reykjavík. Í þinghaldi 22. febrúar 2006, var mál þetta, sem upphaflega var nr. S-1821/2005, sameinað því máli sem rekið var vegna fyrstu ákærunnar undir númeri þess S-647/2005.
Ákært var fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2005, nema annað sé tekið fram:
I
Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 18. janúar á Hótel Atlantis að Grensásvegi 14 spennt upp hurð á afgreiðsluherbergi og stolið flatskjá, tölvu, stimpli og fatnaði, samtals að verðmæti kr. 64.000.
Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðum ófær um að stjórna þeim örugglega vegna neyslu örvandi og slævandi efna svo sem hér er rakið:
1. Bifreiðinni [...], miðvikudaginn 11. febrúar 2004, um götur í Hafnarfirði að söluturninum Á stöðinni og um svæði við söluturninn.
2. Bifreiðinni [...], laugardaginn 3. júlí um Ólafsbraut í Ólafsvík og svo óvarlega að hann ók á staur við bensínstöðina Skelina.
Þetta er talið varða við 2. mgr. 44. gr. og brotið í 2. lið að auki við 1. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.
6) Ákæru lögreglustjórans í Reykjavík útgefinni 2. maí 2006 á hendur Sævari Má Indriðasyni til heimilis að Sveighúsum 1, Reykjavík. Í þinghaldi 9. júní 2006, var mál þetta, sem upphaflega var nr. S-679/2006, sameinað því máli sem rekið var vegna fyrstu ákærunnar undir númeri þess S-647/2005.
Ákært er fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 10. janúar 2006 á bifreiðastæði við Túngötu í Reykjavík brotist inn í bifreiðina [...], með því að brjóta rúðu, og stolið framhlið af bílageislaspilara að verðmæti kr. 10.000 og hleðslutæki að óþekktu verðmæti.
Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir D, [kt.], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 21.828, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
7) Ákæru lögreglustjórans í Reykjavík útgefinni 11. apríl 2006 [...]
8) Ákæru lögreglustjórans í Reykjavík útgefinni 2. maí 2006 á hendur Sigurþóri Arnarssyni til heimilis að Vesturbergi 74, Reykjavík. Í þinghaldi 22. febrúar 2006, var mál þetta, sem upphaflega var nr. S-680/2006, sameinað því máli sem rekið var vegna fyrstu ákærunnar undir númeri þess S-647/2005.
Ákært var fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2006, nema annað sé tekið fram:
1. Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa miðvikudaginn 8. febrúar í félagi við E, í auðgunarskyni brotist inn í íbúðarhúsnæði að Y, með því að spenna upp glugga, og leitað verðmæta en komið var að þeim á vettvangi. Er þetta talið varða við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
2. Hylmingu, með því að hafa haft eftirtalda muni í vörslum sínum, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi var að ræða:
2.1. IBM thinkpad fartölvu að verðmæti 130.000 krónur, að Vesturbergi 74 og þannig haldið fartölvunni ólöglega fyrir eigendunum fram til 25. janúar, en henni hafði verið stolið úr íbúðarhúsnæði [...] 5 í Kópavogi þann 4. janúar.
2.2. Þrjár tölvur samtals að verðmæti 150.000 krónur, í bifreiðinni [...] á bifreiðastæði við veitingastaðinn Aktu-Taktu, Hafnarfjarðarvegi, Garðabæ, og þannig haldið tölvunum ólöglega fyrir eigandanum fram til 4. febrúar, en þeim hafði verið stolið úr húsnæði fyrirtækisins Thor ehf. að Skólavörðustíg 16 í febrúar 2006.
Eru brot þessi talin varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
3. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ofangreint skipti, sbr. lið 2.2, haft í vörslum sínum 2,81 g af amfetamíni og 0,91 g af marihuana sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða.
Er brot þetta talið varða við 2. mgr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
4. Umferðarlagabrot, með því að hafa í sama skipti ekið bifreiðinni [...] að veitingastaðnum Aktu-Taktu, Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ undir svo miklum áhrifum slævandi lyfja að hann var ófær um að stjórna bifreiðinni örugglega.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk 2,81 g af amfetamíni og 0,91 g af marihuana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Verjandi ákærða Sigurþórs krefst þess að ákærði verði sýknaður af I. kafla ákæru, dags. 26. apríl 2005, af II. kafla ákæru, dags. 15. nóvember 2005, svo og ákæruliðum 1, 2.1 og 4 í ákæru dags. 2. maí 2006. Að öðru leyti er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostnaður, að meðtöldum málsvarnarlaunum, verði greiddur úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða A krefst þess að ákærði verði sýknaður af ákæru, dags. 24. október 2005. Að öðru leyti er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og að gæsluvarðhald hans frá 23. til 27. september 2005 komi til frádráttar refsingu hans. Þá krefst hann frávísunar á bótakröfu vegna ákæru, dags. 15. nóvember 2005, og að sakarkostnaður, að meðtöldum málsvarnarlaunum, verði greiddur úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Sævars Más krefst þess að ákærða verði gert að sæta vægustu refsingu er lög leyfa og að gæsluvarðhald hans frá 23. til 27. september 2005 komi til frádráttar refsingu hans. Þá krefst hann frávísunar á bótakröfu vegna ákæru, dags. 15. nóvember 2005, og að sakarkostnaður, að meðtöldum málsvarnarlaunum, verði greiddur úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Ingþórs krefst þess að ákærði verði sýknaður af I. kafla ákæru, dags. 26. apríl 2005, en að öðru leyti krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald hans frá 23. til 28. september 2005 komi til frádráttar refsingu hans. Þá krefst hann frávísunar á bótakröfu vegna ákæru, dags. 15. nóvember 2005, og að allur sakarkostnaður, að meðtöldum málsvarnarlaunum, verði greiddur úr ríkissjóði.
1) Ákæra ,dags. 26. apríl 2005.
I. kafli.
Málavextir.
Miðvikudaginn 19. janúar 2005 var brotist inn í verslun Carls A. Bergmann við Laugaveg 55 með því að brjóta rúðu í glugga að því er virtist með klaufhamri sem skilinn var eftir á vettvangi. Brotinn hafði verið glerskápur og tekin úr honum kven- og karlmannsúr. Eigandi verslunarinnar kom á vettvang og taldi að í skápnum hefðu verið um 60 úr í tveimur litlum plexíglerstöndum. Teknar voru ljósmyndir á vettvangi af tæknideild lögreglunnar og liggja þær frammi í málinu.
Í skýrslu lögreglu frá 20. janúar 2005 segir að upplýsingar hafi borist lögreglu frá ónafngreindum manni. Kvað hann 4-5 menn hafa verið á Laugaveginum við L.A. café að bjóða úr til sölu. Þeir hafi allir verið yfir þrítugt og í annarlegu ástandi. Meðferðis hafi þeir verið með litla snyrtitösku með úrum og hafi búðarmerking verið á einu þeirra. Skömmu seinna voru ákærðu handteknir á Hverfisgötu við Frakkastíg. Höfðu þeir meðferðis brúna tösku með úrum í sem ákærði Sigurþór kvaðst eiga og reyndist eitt þeirra enn vera með búðarmerkingu. Báðir reyndust þeir vera með armbandsúr á hendi sem þeir gátu litla grein gert fyrir. Kvaðst hann hafa verið staddur að Þ fyrr um kvöldið, þar sem hann hefði keypt úr fyrir 50.000 krónur af ónafngreindum aðilum. Ákærði Ingþór kvaðst hafa keypt úr, sem hann bar á úlnlið, á Langabar fyrr um kvöldið.
Farið var að Þ og gerð húsleit kl. 4:20, 20. janúar 2005. Segir í skýrslu lögreglu að í anddyri hússins hafi fundist svört snyrtitaska með 8 armbandsúrum og tölvuvigt.
Í yfirheyrslu hjá lögreglu 20. janúar 2005 greindi ákærði Ingþór svo frá að hann hefði keypt eitt úr af ljóshærðum ungum manni sem héti N. Hann hafi verið í hermannabuxum þegar salan átti sér stað. Kvaðst hann fyrr um kvöldið hafa verið staddur að Þ ásamt ákærða Sigurþóri. Hann kvaðst þó ekki hafa fengið úr þar og kvað það rangt að hann hafi verið að bjóða úr til sölu á L.A. café. Þá kvaðst hann ekki hafa brotist inn í verslun Carls A. Bergmanns. Ákærði var yfirheyrður að nýju þennan dag og kvaðst hann þá hafa verið að X með meðákærða Sigurþóri og hafi „[F]i“ látið Sigurþór fá tösku fulla af úrum gegn greiðslu. Hann hafi sjálfur fengið eitt úr. Sigurþór hafi sýnt fólki úr á L.A. café.
Ákærði Sigurþór var yfirheyrður þennan sama dag og kvaðst ekki hafa brotist inn í verslunina. Hann hafi hins vegar keypt um 40 úr af „[F]“ og greitt fyrir þau 40-50.000 krónur. Kaupin hafi átt sér stað að X og hafi meðákærði Ingþór verið með honum. Kvaðst hann hafa grunað að þetta væru úr frá Carli A. Bergmann. Þá kannaðist ákærði við að hafa verið að sýna úrin á Laugaveginum rétt áður en hann var handtekinn. Hann hafi þó ekki látið frá sér mörg úr en nokkrir aðilar hafi fengið úr hjá honum. Einnig hafi hann verið í gleðskap að Hverfisgötu. Ákærði var yfirheyrður að nýju síðar þennan dag og kvað hann F hafa skuldað sér peninga og hafi hann því tekið úrin upp í skuld.
Framburður fyrir dómi.
Ákærði Ingþór kvaðst ekkert muna eftir umræddu máli og þó hann væri spurður út í framburð sinn hjá lögreglu kvaðst hann ekki geta neitað því né játað sem þar er eftir honum haft því hann væri búinn að gleyma því öllu. Aðspurður kvað hann sig þó minna að hann hefði fengið úrin hjá kunningja sínum, F, þegar hann var staddur í íbúð hans í Grafarvogi.
Ákærði Sigurþór kvaðst ekki hafa vitað að úr þau sem hann hafði í sínum fórum hafi verið þýfi heldur talið að um smyglvarning hefði verið að ræða eða eftirlíkingar. Hann kvaðst hafa fengið úrin, sem hafi verið milli 30 og 40 talsins, hjá „[F]“ og hafi hann ætlað að selja þau. Aðspurður kvaðst ákærði hafa leyft þjóni á L.A. café að skoða úr og hann hafi fengið eitt þeirra. Borið er undir hann það sem haft er eftir honum í skýrslu lögreglu að hann hafi grunað að úrin væru úr verslun Carls A. Bergmann og kvað hann þá þann grun fyrst hafa vaknað eftir að hann fékk vitneskju um innbrotið, eða eftir að hann keypti úrin. Aðspurður kvað hann meðákærða Ingþór hafa verið með honum þegar hann fékk úrin en hann hafi sjálfur greitt fyrir þau um 40.000 krónur í peningum. Ingþór hafi ekki vitað það frekar en hann að um þýfi hafi verið að ræða og hafi lítið velt fyrir sér hvernig úrin hafi verið fengin. Þá kvaðst ákærði aðspurður safna úrum og því hafi fundist mikið af úrum heima hjá honum er húsleit var gerð.
Vitnið Katrín Eva Erlarsdóttir lögreglumaður staðfesti lögregluskýrslu sem hún hafði gert um þetta mál. Kvaðst hún hafa handtekið tvo menn sem grunaðir voru um stuld á úrum og að hafa selt þau. Í kjölfarið hafi verið farið í húsleit að Hverfisgötu. Aðspurð kvaðst vitnið muna eftir því að þeir hafi verið með tösku og úr á hendinni.
Vitnin Guðmundur Ingi Ingason lögreglumaður og Óskar Gunnar Óskarsson lögregluvarðstjóri komu fyrir dóminn og staðfestu efni skýrslna sinna frá 20. janúar 2005. Framburður þeirra varpar ekki ljósi á málavexti.
Niðurstaða.
Af framburði ákærða Sigurþórs hjá lögreglu og fyrir dómi verður ráðið að hann hafi fengið umrædd 40 úr hjá kunningja sínum, F, í þeim tilgangi að selja þau aftur. Kvaðst Sigurþór hafa greitt 40.000 krónur fyrir úrin og að ákærði Ingþór hefði verið með honum. Sigurþór hefur jafnframt kannast við að hafa haft grunsemdir um að úrunum hafi verið stolið í innbroti í verslun Carls A. Bergmann. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kannaðist ákærði Ingþór og við að hafa verið með Sigurþóri í umrætt sinn og að hann hefði fengið hjá honum úr. Þegar Ingþór gaf um þetta skýrslu fyrir dómi kvaðst hann vera búinn að gleyma öllu um þetta mál, enda hafi hann verið í mikilli neyslu fíkniefna, en hann minnti þó að hann hefði fengið úrin hjá kunningja sínum, F, þegar hann var staddur í íbúð hans í Grafarvogi. Að þessu virtu þykir hér mega leggja til grundvallar að ákærðu hafi báðum hlotið að vera ljóst að umrædd úr væru þýfi. Varðar háttsemi þeirra við 254. gr. almennra hegningarlaga.
II. kafli.
Ákærði Sigurþór hefur játað sök samkvæmt öllum ákæruliðum þessa kafla. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða. Hann hefur og samþykkt að greiða þær kröfur sem Skeljungur hf. hefur gert á hendur honum í málinu. Verður hann því dæmdur til að greiða félaginu bætur með eftirgreindum hætti:
1. Kr. 6.302 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. maí 2004 til 29. nóvember 2004 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
2. Kr. 5.012 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi 26. ágúst 2004 til 29. nóvember 2004 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
III. Kafli.
Ákæruliður 1
Ákærði Ingþór hefur játað sök samkvæmt þessum ákærulið. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og er brot hans rétt fært til refsiákvæða.
Ákæruliður 2
Málavextir.
Í frumskýrslu lögreglu, dagsettri 11. janúar 2005, segir að tilkynning hafi borist um hugsanlega sölu fíkniefna á bifreiðastæði við Landsbankann, Laugavegi 61. Þegar á vettvang var komið hafi lögreglan séð bifreiðina [...] kyrrstæða í bifreiðastæði en í henni voru þrír aðilar, G, sem sat í ökumannssæti, H, sem sat í farþegasæti við hlið ökumanns, og ákærði Ingþór, sem sat í aftursæti fyrir aftan ökumann. Veitti einn lögreglumannanna því eftirtekt að ákærði hélt á plastpoka sem hann reyndi að fela á gólfi bifreiðarinnar fyrir aftan farþegasætið þegar lögreglan kom þar að. Þau sem voru í bifreiðinni voru öll handtekin og færð á lögreglustöð. Haft er eftir G og H í skýrslu lögreglu að H hafi hitt ákærða í því skyni að fá hjá honum fíkniefni. Framvísaði ákærði ætluðu amfetamíni sem hann hafði í rassvasanum og kvaðst hafa ætlað að „redda“ H amfetamíni. Við leit í bifreiðinni fannst ætluð pappasýra í plastpoka fyrir aftan farþegasætið sem aðilarnir könnuðust ekki við að eiga.
Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar lögreglunnar reyndust hin haldlögðu efni vera 0,93 g af amfetamíni og 16 stykki af LSD ofskynjunarefni.
Ákærði var yfirheyrður hinn 12. janúar 2005. Hann kannaðist við að eiga amfetamínið, sem hann kvað um 1 g að þyngd, og hafi hann greitt um 4000 krónur fyrir. Hins vegar kvaðst hann ekki vera eigandi pappasýrunnar sem fannst á gólfi bifreiðarinnar. Hann kannaðist þó við að hafa verið með hana í höndunum þegar lögreglan kom að. Hafi hann þá verið nýbúinn að taka við pokanum til að skoða hann og svo hafi hann auðvitað reynt að fela hann þegar lögreglan kom.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði Ingþór kvaðst hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma. Kvað hann sig ráma í að hann sjálfur hafi ekki verið með LSD skammtana á sér heldur hafi þeir fundist í bílnum. Kvaðst hann ekkert muna með hverjum hann var í bílnum eða hvað hann var að gera þar. Kvaðst hann geta útilokað að hann hafi átt umrædd efni þó hann muni mjög óljóst eftir atvikum, og að hann minntist þess ekki að hafa ætlað að selja fólkinu í bílnum amfetamín eða LSD skammta.
Tekin var símaskýrsla af vitninu Hauki Bent Sigmarssyni, rannsóknarlögreglumanni. Kvaðst hann hafa sinnt útkalli vegna ætlaðra fíkniefnaviðskipta sem áttu sér stað í bifreið sem staðsett var á bak við Landsbankann á Laugavegi 61. Þegar á vettvang var komið þekkti lögreglan þar þrjá aðila, þar á meðal ákærða Ingþór, sem sat í aftursætinu. Kvað vitnið þá hafa komið fát á ákærða og kvaðst vitnið hafa séð greinilega þegar ákærði faldi poka, sem hann hefði haft í kjöltu sér, undir fremra farþegasæti bifreiðarinnar. Við leit á ákærða hafi fundist amfetamín og við leit í bifreiðinni hafi pokinn fundist með efnum sem hafi reynst vera pappasýra eða LSD. Kvað hann þau hin sem í bílnum voru, þau G og H, hafa borið við skýrslutöku hjá lögreglu að þau hafi ætlað að kaupa pappasýruna af ákærða. Þau komu ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins enda þótt ítrekað hafi verið reynt að hafa upp á þeim og fá þau fyrir dóminn.
Vitnið Ólafur Stefnir Jónsson lögreglumaður gerði frumskýrslu málsins. Hann staðfesti efni hennar en að öðru leyti varpar framburður hans ekki ljósi á málavexti.
Niðurstaða.
Eins og að framan er rakið viðurkenndi ákærði hjá lögreglu, að hafa verið með í höndunum poka með 16 skömmtum af LSD og að hafa stungið honum undir framsæti bílsins, þegar lögreglan kom að í umrætt sinn. Hefur þetta og verið staðfest með framburði vitnisins, Hauks Bents Sigmarssonar. Ákærði neitaði hins vegar að hafa átt umrætt efni, hvað þá að hafa ætlað að selja það til þeirra hinna sem í bílnum voru. Einnig neitaði hann að hafa ætlað að selja þeim amfetamínið sem hann var með á sér og hafði framvísað til lögreglu. Þegar ákærði kom fyrir dóm bar hann aðallega við minnisleysi vegna mikillar fíkniefnaneyslu á þessum tíma en neitaði þó enn að hafa átt efnið.
Í ljósi þess sem hér var rakið þykir vera komin fram næg sönnun fyrir því að ákærði hafi verið vörslumaður þeirra 16 skammta af LSD sem fundust í bifreiðinni [...] í greint sinn. Hins vegar liggur ekki fyrir sönnun um að varsla þeirra, og amfetamínsins sem á honum fannst, hafi verið í söluskyni. Verður hann því einungis sakfelldur fyrir vörslu þeirra fíkniefna sem greind eru í þessum ákærulið og eru þau jafnframt gerð upptæk. Telst brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliðir 2.2 og 2.3
Ákærði Ingþór hefur játað sök samkvæmt þessum ákæruliðum. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum liðum ákæru og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða. Þau fíkniefni sem greind eru í þessum ákæruliðum eru gerð upptæk.
2) Ákæra ríkissaksóknara, dags. 15. nóvember 2005.
Málavextir.
Í frumskýrslu lögreglunnar, dags. 22. september 2005, kemur fram að tilkynning hafi borist til lögreglu kl. 13.59 um að brjálaður maður væri með hníf inni í Laugarnesapóteki. Fóru lögreglumenn strax á staðinn og kl. 14.04 hafi þar verið handteknir tveir menn, ákærðu Sigurþór og A, er þeir voru á hlaupum austur Kirkjuteig, frá apótekinu. Sá þriðji, ökumaður svartrar fólksbifreiðar, hefði hins vegar sloppið af vettvangi. Hefði lögreglumaður opnað hjá honum dyrnar, í því skyni að færa hann út úr bifreiðinni. Þá hefði ökumaðurinn ekið af stað þannig að lögreglumaðurinn dróst með henni nokkurn spöl og féll síðan í götuna. Skömmu síðar hafi ökumaðurinn, sem reyndist vera ákærði Sævar, verið handtekinn við Hótel Nordica og hefði bifreiðin síðan fundist í Lágmúla.
Við athugun lögreglu á vettvangi í apótekinu hafi komið í ljós að lyf og ýmsar vörur úr versluninni lágu á víð og dreif um gólfið í afgreiðslunni. Hafði gler verið brotið í afgreiðsluborði og tölvuskjár legið á hlið. Þá hafi sjóðsvél verslunarinnar verið opin og smámynt verið þar í. Á gólfinu hafi legið stór hnífur og húfa með tveimur götum fyrir augu. Auk þess hafi lítill bakpoki legið á gólfinu fyrir framan afgreiðsluborðið. Kemur og fram í skýrslunni að fjórar starfsstúlkur hafi verið staddar í apótekinu þegar ákærðu komu þar inn. Hafi þrjár þeirra verið staddar í afgreiðslunni og séð þegar hávaxinn, grímuklæddur maður, með hníf í hendi, hafi komið inn. Hafi hann öskrað á þær og þær þá hlaupið út. Ein stúlkan hafi hins vegar verið stödd í lyfjaskömmtunarherbergi fyrir innan þegar grímuklæddur maður hafi komið þar inn og öskrað á hana að hann vildi fá contalgín úr skúffu fyrir framan hana. Hann hafi svo hrifsað þar ritalín og jafnframt öskrað á félaga sinn að hjálpa sér. Sá hafi ekki komið þar sem hann hafi verið að reyna að opna sjóðsvélina í afgreiðslunni og í því skyni meðal annars hent henni til. Mennirnir hafi loks skipað stúlkunni að opna vélina með lykli sem hún hafi gert. Hafi þeir þá tekið þaðan seðla að fjárhæð á bilinu tíu til fimmtán þúsund krónur. Stúlkunni hafi þá einnig tekist að hlaupa út. Stuttu síðar hafi þær séð mennina hlaupa niður Kirkjuteig. Hafi annar þeirra kastað frá sér húfunni og svo einnig hnífnum á hlaupunum en hinn hefði haldið áfram með húfuna á sér.
Við athugun á og við vettvang fundust í garði hússins nr. 23 við Kirkjuteig notuð sprauta, búrhnífur með svörtu plastskefti ásamt níu 1.000 króna seðlum. Þá fundust tveir 1.000 króna seðlar á götunni Kirkjuteig. Að kvöldi sama dags fundust og grá flíshúfa, sem búið var að klippa út fyrir augu, einn 5.000 króna og þrír 500 króna seðlar. Þá fann lögreglan á gólfinu í apótekinu búrhníf með brotnu tréskefti ásamt blárri húfu sem klippt hafði verið út fyrir augu. Var upplýst að ein starfsstúlkna apóteksins hefði fundið þessa muni úti á götu og talið öruggara að færa þá inn í apótekið. Hluti þeirra lyfja sem starfsmenn apóteksins töldu hafa horfið fundust í bakpoka sem ákærðu skildu eftir á vettvangi. Tæknideild lögreglunnar tók ljósmyndir, meðal annars af vettvangi, og liggja þær fyrir í málinu.
Af hálfu Laugarnesapóteks ehf. var lögð fram bótakrafa í málinu hinn 10. október 2005 vegna þriggja pakka af lyfinu contalgín, fjögurra pakka af conserta og 10 pakka af rítalíni, samtals að fjárhæð 71.809 krónur. Lyfjum þessum hafi orðið að eyða því samkvæmt reglum mætti ekki selja þau eftir að þau færu út úr apótekinu og teldust þau í þeim skilningi ónýt. Þá næmi kostnaður vegna skemmda á gleri og peningakassa samtals 44.500 krónum. Næmi bótakrafan því alls 116.309 krónum.
Framburðir ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærði Ingþór játaði sök í máli þessu er hann kom fyrir dóminn 19. janúar 2006. Er hann var yfirheyrður nánar um málið fyrir dómi 28. september sl. skýrði hann svo frá að ákærðu, A og Sævar Már, hafi komið í heimsókn til hans einhvern tímann að morgni þess dags sem atburður þessi varð. Sagðist ákærði þá ekki hafa neitt verið búinn að sofa í nokkra sólarhringa og að hann hafi þá jafnframt verið búinn að innbyrða mikið af róandi og örvandi lyfjum, ásamt því að drekka áfengi, og algjörlega búinn að tapa áttum. Sama megi segja um hina tvo. Kvaðst hann telja að það hafi verið A sem fyrst hafi komið með þá uppástungu hvort þeir ættu ekki að ræna apótek. Einhvern tímann í framhaldi hafi þeir farið á staðinn og hafi í sjálfu sér ekkert verið undirbúið fyrirfram hver gerði hvað. Sjálfur kvaðst hann eitthvað hafa hikað við þegar þeir voru komnir að apótekinu en þá hafi meðákærði A spurt hann hvort hann ætlaði nokkuð að fara að hætta við. Þegar þeir fóru inn í apótekið kvaðst ákærði hafa haldið á hníf og ef til vill sagt sem svo að þetta væri rán, en hann kvaðst ekki minnast þess að hafa ógnað neinum með hnífnum. Hann kvaðst ekki minnast þess að meðákærði A hefði haft eitthvað í hendi til að ógna starfsfólkinu með. Kvaðst hann muna það eitt að A hefði snarast eitthvað á bak við en sjálfur hafi hann beðið fyrir framan búðarborðið. Örskömmu síðar hafi A svo komið til baka og fleygt einhverjum lyfjum á borið og sagt um leið að lögreglan væri að koma. Kvaðst ákærði þá hafa snúið sér við og séð lögregluna koma á staðinn. Hafi hann þá hlaupið út og skilið öll lyfin eftir. Kvaðst ákærði rekja ástæðu þess að hann tók þátt í þessum gerningi tvímælalaust til mikillar og stöðugrar vímuefnaneyslu dagana og vikurnar á undan.
Ákærði A viðurkenndi að hafa farið inn í apótekið umrætt sinn í þeim tilgangi að ná sér í lyf. Hann kvaðst þó ekki hafa ógnað neinum og að hann hafi ekki verið vopnaður sprautu þótt hann hafi hugsanlega verið með sprautu í vasa sínum. Kvaðst hann muna mjög óljóst eftir atvikum. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa hótað einhverjum þarna á staðnum eða neytt starfsstúlku til að sýna sér geymslustað lyfjanna. Sagðist ákærði hafa rætt um það fyrirfram í bifreiðinni, rétt áður en þeir fóru inn, að ekki yrði um neinar hótanir eða ofbeldi að ræða og að engum vopnum yrði beitt og því hefði komið honum á óvart þegar hann sá meðákærða Ingþór taka upp hníf þegar þeir komu inn í apótekið. Taldi ákærði einnig að hann hefði verið með í huga að beita sprautunni við ránið en að hann hefði hætt við það og sett hana í vasann. Um undirbúning ránsins að öðru leyti sagði ákærði að aðdragandinn hefði verið mjög skammur, þó hann myndi ekki nákvæmlega hvernig hann var. Ekki hefði verið um raunverulegan undirbúning að ræða. Hefði hugsun þeirra nánast verið sú að hlaupa inn í apótekið og hrifsa þar lyf, sem ákærði kvaðst hafa vitað nokkurn veginn hvar væru geymd, og hlaupa síðan út aftur án þess að nokkru ofbeldi yrði beitt eða hótunum. Hefðu þeir ákveðið heima hjá Ingþóri að fá bílasölubíl að láni og nota hann til að fara á staðinn. Meðákærði Sævar hafi verið með í þessum umræðum, þeir hafi allir þrír rætt um þetta saman. Um það hafi verið samið að meðákærði Sævar myndi aka bílnum á staðinn. Kvaðst ákærði mótmæla magni þeirra lyfja sem þeir áttu að hafa tekið.
Ákærði Sævar Már játaði við þingfestingu málsins að hafa ekið bifreiðinni [...] umrætt sinn. Hann kvaðst þó ekki telja sig sekan um rán heldur telji hann sig hafa verið hlutdeildarmann í því. Er hann var yfirheyrður nánar við aðalmeðferð málsins sagði hann alla þrjá ákærðu hafa verið saman nóttina á undan við fíkniefnaneyslu og þá byrjað að ræða um að ræna apótekið. Kvaðst hann lítið muna eftir einstökum atriðum í því sambandi en kvaðst þó muna að rætt hefði verið um að vera ekki með vopn. Viðurkenndi ákærði að hafa vitað hvað stóð til, þannig að ætlunin væri að fara þarna inn og síðan að deila lyfjunum með þeim þremur. Ekki hefði neitt verið rætt um hótanir af neinu tagi og hann hefði ekki vitað að þetta myndi þróast út í vopnað rán. Sagði hann meðákærða Ingþór hafa farið og fengið bílinn lánaðan í bifreiðaumboði.
Vitnið I, starfsmaður í Laugarnesapóteki, kvaðst hafa verið í þann mund að fara út af vinnustaðnum og verið að spjalli við aðra starfsmenn við útgöngudyr á gangi sem sé aðeins bakatil þegar hettuklæddur maður, með bakpoka í hendi, kom öskrandi inn í apótekið með hníf í hendi. Hafi hann öskrað „halló, halló, þetta er rán, þetta er rán“. Jafnframt hafi hann lamið hnífnum í afgreiðsluborðið svo að glerið brotnaði. Kvað hún þær hafa verið skelfingu lostnar. Þegar þetta gerðist hafi þær um leið fært sig að útgöngudyrum sem séu þarna baka til. Hafi hinar tvær hlaupið út en sjálf hafi hún hlaupið upp á efri hæðina, þar sem sé nuddstofa, til að láta þar vita. Þegar þær hafi verið að reyna að komast út kvaðst hún hafa heyrt í öðrum manni sem hafi kallað „ekki hleypa þeim út, ekki hleypa þeim út“. Ein starfsstúlka hafi hins vegar verið eftir inni.
Vitnið B, [...], kvaðst hafa setið í umrætt sinn í herbergi á bak við. Kvaðst hún þá hafa heyrt einhvern hávaða úr afgreiðslunni. Hafi hún þá litið fram og séð að þangað voru komnir inn grímuklæddir menn. Kvaðst hún hafa flýtt sér að fela sig á bak við svo þeir sæju ekki til hennar. Hafi þeir öskrað og hafi annar þeirra sérstaklega öskrað á hinn „láttu þær ekki sleppa“. Skömmu seinna hafi annar þeirra komið inn þar sem hún var. Hafi hann komið til hennar og sagt „láttu mig fá contalgínið“. Hann hafi verið með lítinn beittan hníf, sem líktist bókahníf með skörpu blaði, plasthníf með blaði sem hægt er að ýta lengra og lengra fram, og hafi hann lagt hnífinn á úlnlið hennar. Kvaðst vitnið þá hafa farið að skúffunni þar sem lyfin séu geymd, opnað hana og tekið þar upp contalgín. Hafi verið mikið fát og fum á manninum og hafi hann tekið einhverja lyfjapakka í fangið og hlaupið með þá fram í afgreiðslu. Hann hafi þó misst einhverja á leiðinni og hafi hann komið aftur til að taka þá einnig með sér. Á meðan hafði hinn öskrað „flýttu þér, flýttu þér“. Í framhaldi hafi sá farið að lemja í búðarkassann og velt honum um. Loks hafi hann kallað til vitnisins, og otað í leiðinni að henni stórum búrhnífi sem hann hélt á, og skipað henni að opna kassann. Það hafi gengið eitthvað illa í byrjun en eftir að henni tókst að opna hann hafi sá tekið einhverja peninga úr kassanum og hlaupið út. Aðspurð um hvað maðurinn hefði tekið sagði hún hann hafa þrifið, auk contalgínsins, eitthvað af amfetamíni og rítalíni, en það hafi verið skráð niður og eigi að liggja fyrir í málinu. Kvaðst hún hafa upplifað þetta sem mikla ógnun. Eftir að mennirnir hlupu út kvaðst vitnið hafa hlaupið út á eftir þeim og hafi hún þá fundið búrhnífinn þar liggjandi á götunni, en maðurinn við búðarkassann hefði hent honum þar frá sér. Aðspurð kvaðst hún ekki kannast við að hafa séð annan mannanna vera með sprautu á lofti.
Vitnið J kvaðst hafa verið stödd, ásamt tveimur samstarfskonum sínum, í litlu herbergi baka til í versluninni, en þar hafi verið sérútgöngudyr. Hafi hún þá heyrt að einhver kom inn í verslunina. Kvaðst hún hafa farið til að aðgæta hver væri að koma og þá séð þar mann sem kominn var inn fyrir dyrnar. Hafi hann verið með hníf í hendi og með lambhúshettu á höfði. Hefði hann fyrst kallað „halló, halló“ og síðan „þetta er rán“. Í sömu andrá hafi hún séð út undan sér að annar maður var að koma inn og hafi hann verið að setja á sig lambhúshettu. Vitnið kvaðst strax hafa brugðist við með þeim hætti að hún hafi hörfað aftur á bak og hvíslað um leið til hinna stúlknanna, „út, út með ykkur“. Hafi þær farið að bakdyrunum og heyrt um leið mikinn hávaða eins og ákærði væri að berja í afgreiðsluborðið. Einnig hafi hún heyrt manninn kalla „ekki láta þær sleppa“. Tvær þeirra hafi hins vegar komist út, en I hafi komist upp á efri hæðina. Kvaðst vitnið hafa náð að hringja á lögregluna og beðið um að hún kæmi strax á staðinn. Stuttu síðar hafi lögreglan komið á vettvang og hafi mennirnir tveir þá verið að hlaupa út úr dyrunum. Hafi lögreglan náð að handsama þá skammt frá apótekinu.
Aðspurð um hvað mennirnir hefðu tekið með sér sagði vitnið að slóð lyfja hefði verið eftir þá út á götu. Hafi þeir einnig verið búnir að setja marga pakka af lyfjum í bakpoka sem þeir hafi síðan misst á leiðinni út. Kvaðst hún eingöngu geta vísað til þess lista sem lagður var fram hjá lögreglu vegna þeirra lyfja sem apótekið hafi orðið að eyða samkvæmt gildandi reglum um að eyða beri eftirritunarskyldum lyfjum sé farið með þau út fyrir afgreiðsluborð apóteks. Hún kveðst alla vega hafa séð að meðal þess sem mennirnir hefðu tekið hafi verið mikið af rítalíni.
Niðurstaða.
Ákærði Ingþór hefur játað sök og hafnar bótakröfu á þeim grundvelli að hann telji að umrædd lyf hafi öll skilað sér aftur til apóteksins. Ákærði A hefur og játað sök vegna þessarar ákæru að öðru leyti en því að hann kannast ekki við að hafa verið vopnaður sprautu með nál né hafi hann verið ógnandi. Þá kvaðst hann ekki kannast við að þeir hafi tekið slíkt magn af lyfjum sem lýst er í ákæru og gæti hann því ekki samþykkt bótakröfu apóteksins eins og hún kæmi fyrir. Þá hefur ákærði Sævar Már viðurkennt að hafa beðið eftir meðákærðu í bifreið á vettvangi en kvaðst með því eingöngu hafa gerst sekur um hlutdeild í ráninu.
Samkvæmt fyrirliggjandi játningum ákærða Ingþórs og ákærða A að hluta, sem eru að mestu í samræmi við framburði starfsstúlknanna þriggja sem komu fyrir dóminn, verða þessir ákærðu báðir fundnir sekir um ránið í Laugarnesapóteki eins og því er lýst í ákæru, að því þó undanskildu að ekki verður talið sannað að ákærði A hafi verið vopnaður sprautu eins og þar er lýst. Hefur hann mótmælt þeirri lýsingu og hefur hún ekki fengið stuðning í framburði vitna eða annarra meðákærðu fyrir dómi. Þeirri málsvörn ákærða A að ekki hafi verið um að ræða neitt ofbeldi af hans hálfu við gerninginn, heldur hafi brot hans fremur átt að teljast gripdeild, er hafnað þegar af þeirri ástæðu að fyrir liggur með framburði hans sjálfs, meðákærða Ingþórs og þeirra vitna sem skýrslur gáfu fyrir dómi, að meðákærði Ingþór var vopnaður hnífi við för þeirra inn í apótekið, auk þess sem öllum vitnunum bar saman um ógnandi framgöngu þeirra beggja í apótekinu umrætt sinn. Þá verður heldur ekki fallist á athugasemdir ákærða A vegna þeirra lyfja sem tekin voru úr lyfjageymslu apóteksins. Af gögnum málsins og skýrslum vitna verður skýrlega ráðið að ákærðu, A og Ingþór, voru komnir með í hendur marga kassa af þeim lyfjum sem tilgreind eru í ákæru og að þau hafi síðan fundist í bakpoka í anddyri apóteksins og einnig á víð og dreif á leið þeirra úr og frá apótekinu. Liggur fyrir yfirlit frá Laugarnesapóteki um þau lyf sem orðið hafi að eyða samkvæmt reglum Lyfjastofnunar þar sem þau hafi verið fjarlægð út fyrir afgreiðslu verslunarinnar. Þykja ekki vera efni til að vefengja þá upptalningu sem þar kemur fram.
Þegar horft er til framburðar ákærða Sævars Más og framburðar beggja meðákærðu liggur fyrir að ákærði Sævar Már hefur verið með í undirbúningi ránsins frá byrjun. Viðurkenndi hann að síðast hefði verið rætt um framkvæmd ránsins í bifreiðinni, rétt áður en að meðákærðu fóru inn í apótekið. Viðurkenndi hann að hafa haft fulla vitneskju um hvað stóð til og að ætlunin hafi verið að skipta þeim lyfjum sem næðust í ráninu á milli þeirra þriggja. Telst ákærði Sævar því aðalmaður í ráninu, eins og meðákærðu Ingþór og A, og því sekur um ránið eins og því er lýst í ákæru með ofangreindri athugasemd.
Af hálfu Laugarnesapóteks ehf. hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð samtals 116.309 krónur. Sundurliðast krafan sem hér segir:
Lyf sem þurft hafi að eyða 71.809 krónur
Ný gler í afgreiðsluborð 19.500 krónur
Nýr peningakassi 25.000 krónur
Samtals 116.309 krónur
Með vísan til þeirra raka sem að ofan greinir verður krafan vegna eyddra lyfja að fullu tekin til greina. Þá liggur fyrir að gler var brotið í afgreiðsluborði og peningakassi skemmdur. Þar sem kröfur vegna þessa þykja ekki óhæfilegar og þeim hefur ekki verið mótmælt með rökstuddum hætti verður hér á þær fallist. Verða allir ákærðu dæmdir til að greiða Laugarnesapóteki ehf. óskipt 116.309 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2006 til greiðsludags.
3) Ákæra, dags. 29. nóvember 2005.
Ákærði Ingþór hefur játað sök samkvæmt öllum ákæruliðum þessarar ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði hefur og samþykkt að greiða þá bótakröfu sem gerð er í ákæru. Verður hann því dæmdur til að greiða VM ehf. 20.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. febrúar 2005 til 19. febrúar 2006 en síðan dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
Upptæk eru gerð 0,22 g af amfetamíni.
4) Ákæra, dags. 24. október 2005.
[...]
5) Ákæra lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 15. nóvember 2005.
I. Kafli
Ákærði Sigurþór hefur játað sök samkvæmt þessum kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og er brot hans rétt fært til refsiákvæða.
II. Kafli
Ákæruliður 1.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Hafnarfirði, dags. 11. febrúar 2004, hafði lögreglan, kl. 17.34, afskipti af ákærða Sigurþór á bifreiðaplaninu við söluturninn „Á stöðinni“. Var hann ökumaður bifreiðarinnar [...] og segir í skýrslu lögreglu að ákærði hafi virst undir áhrifum lyfja eða fíkniefna. Kvaðst hann aðspurður „hafa verið að gera eitthvað kvöldið áður“ og að hann hafi tekið inn lyf og nefndi rívotril, díazepam og parkodin forte. Þegar lögreglan bað hann um að stíga út úr bifreiðinni hafi ákærði hins vegar brugðist illa við og spólað af stað, keyrt áfram og bakkað síðan hratt aftur. Tókst lögreglumanni að teygja sig inn um opinn glugga bifreiðarinnar og í kveikjuláslykil hennar. Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöðina í Hafnarfirði þar sem tekið var úr honum blóðsýni og framkvæmt hæfnispróf.
Ákærði var yfirheyrður 12. febrúar 2004 og kvaðst hann hafa ekið bifreiðinni [...] umrætt sinn. Hann hafi þó ekki verið undir áhrifum annarra lyfja en þeirra verkjalyfja sem hann hefði fengið hjá lækni. Kvaðst hann ekki hafa fundið til slævandi áhrifa við aksturinn.
Í málinu liggur frammi umrætt hæfnispróf, sem framkvæmt var af Ólafi Stefánssyni lækni. Þar kemur fram að ákærði kvæðist nota afmetamín, parkodín forte, díazepam, rívotril, rítalín og íbúfen. Hann hafi hins vegar neitað sprautufíkn en engin stunguför hafi fundist á handleggjum hans. Þá segir í matinu að frásögn hans hafi ekki verið örugg og hann hafi verið tvísaga um það hvort hann notaði vímuefni eða lyf að staðaldri. Við skoðun er merkt við að meðvitundarástand hans hafi verið somnolent (í svefnmóki), hann hafi verið að hluta áttaður á tíma og stað, hann myndi tvær tölur af fjórum, andlit og húð hans hafi verið eðlileg, svipbrigði hans hafi ekki verið eðlileg og hann svipbrigðalítill, tíðni púls hafi verið 94 slög/mín (eðlil. 60-90) en taktur reglulegur, augu hans hafi verið rauðsprengd en ljósop eðlilegt svo og viðbrögð við ljósi, ekki hafi verið að finna nystagmus til hliða en merkt var við smávegis varðandi konvergens-vanda. Kemur og fram að ákærði hafi verið aðeins óöruggur við að ganga beint eftir línu, skerptur Romberg (annar fótur, 5 sek., hendur beint fram) óöruggur, fingur-nef próf aðeins óöruggt, hann hafi ekki verið með skjálfta, innri klukka (gefa upp 30 sek. með lokuð augu) hafi verið eðlileg, framkoma/geðslag hafi verið sljótt/svipbrigðalítið, talning afturábak hafi gefið fáar villur (<4), hann hafi verið þvoglumæltur og meining skilist að hluta til. Í niðurstöðu er merkt við það álit læknisins að ákærði hafi verið áberandi undir áhrifum og ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa róandi lyfja.
Samkvæmt því sem fram kemur í matsgerð Jakobs Kristinssonar, dósents á Lyfjafræðistofnun, sem er á meðal gagna málsins, leiddi rannsókn á blóðsýni ákærða í ljós að ekkert alkóhól væri í því að finna. Við lyfjaleit í blóðinu hafi fundist amfetamín, 315 ng/ml og klónazepam (rivotril), 23 ng/ml. Þá segir í matsgerðinni:
„Styrkur amfetamíns í blóðinu er hærri en búast má við eftir töku þess í lækningalegum skömmtum. Styrkur klónazepams er innan marka þess, sem búast má við þegar lyfið er tekið í lækningalegum skömmtum. Þar eð blóðsýnið er merkt árinu 2004 skal tekið fram að klónazepam er óstöðugt í blóði. Styrkur þess kann því að hafa verið töluvert hærri þegar blóðsýnið var tekið. Niðurstöður rannsóknanna sýna að ökumaður hefur verið undir áhrifum amfetamíns þegar blóðsýnið var tekið og má gera ráð fyrir að hann hafi af þeim sökum ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti. Klónazepam kann einnig að hafa dregið úr hæfni hans til aksturs bifreiða.“
Framburður fyrir dómi.
Ákærði Sigurþór kvaðst „í raun og veru ekki“ hafa fundið til áhrifa lyfja við aksturinn. Kvaðst hann hafa „gert eitthvað“ daginn áður. Hann kvaðst aðeins hafa ekið af stað því honum hafi brugðið við þegar hann hafi séð lögregluna. Kvaðst hann kannast við að taka að staðaldri þau lyf sem hann nefndi í lögregluskýrslu.
Vitnið Ólafur Stefánsson læknir var spurður út í niðurstöðu hæfnismats þess sem hann framkvæmdi á ákærða. Kvað hann ákærða að sínu mati hafa verið undir áhrifum róandi eða slævandi lyfja. Hann hafi verið sljór, svefnhöfugur og þvoglumæltur. Taldi vitnið að ákærði Sigurþór hefði augljóslega ekki verið fær um að stjórna ökutæki. Sérstaklega aðspurður af verjanda kvaðst vitnið muna mjög vel eftir þessu máli, meðal annars vegna þess að þegar óskað hafi verið eftir matinu hafi fylgt með upplýsingar um að um ofbeldisfullan mann væri að ræða. Af þeim sökum hafi þrír lögreglumenn verið viðstaddir er matið fór fram, sem væri frekar óvenjulegt.
Vitnið Ellert Geir Ingvarsson lögreglumaður kannaðist við að hafa ritað frumskýrslu málsins og staðfesti hann efni hennar.
Jakob Líndal dósent kvað styrk amfetamíns hafa verið um 300 ng/ml sem væri um þrefalt hærra en gera mætti ráð fyrir ef efnið hefði verið tekið í lækningaskyni. Styrk klónezepams sagði hann hafa verið svipaðan og eftir lækningalega skammta, jafnvel ekki mjög stóra. Styrkur efnisins gæti vel hafa verið hærri þegar sýnið var tekið því efnið sé mjög óstöðugt í blóði og dofni með tímanum. Þegar styrkur amfetamíns í blóði sé um 300 ng/ml þá megi gera ráð fyrir að viðkomandi hafi ekki verið hæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig um áhrif þess þegar þessum tveimur efnum er blandað saman.
Niðurstaða.
Ágreiningslaust er að ákærði ók bifreiðinni [...], eins og nánar er lýst í ákæru, að öðru leyti en því að hann hefur neitað að hafa verið ófær um að stjórna bifreið örugglega vegna neyslu örvandi og slævandi efna.
Í frumskýrslu Ellerts Geirs Ingvarssonar lögreglumanns, sem hann staðfesti fyrir dómi, er þess getið að lögreglumönnunum sem komu á vettvang hafi virst ákærði vera undir áhrifum lyfja eða fíkniefna og að þeim hafi fundist af ástandi hans að dæma að hann væri ekki fær um að aka bifreið. Ákærði hafi upplýst á staðnum að hann hefði tekið rívotryl, díazepam og parkodin forte og þegar lögreglan hafi beðið hann um að stíga út úr bifreiðinni hafi hann brugðist illa við og spólað af stað, keyrt áfram og bakkað síðan hratt aftur. Af vottorði Ólafs Stefánssonar læknis og vætti hans fyrir dómi verður skýrlega ráðið að ákærði hafi verið undir áhrifum róandi eða slævandi lyfja. Hann hafi verið sljór, svefnhöfugur og þvoglumæltur. Taldi vitnið að ákærði Sigurþór hefði augljóslega ekki verið fær um að stjórna ökutæki. Fram kom í matsgerð Jakobs Líndal og í framburði hans fyrir dómi að ákærði hafi verið undir áhrifum amfetamíns og að styrkleiki þess í blóði ákærða hafi verið þrefalt hærri en búast megi við sé efnið tekið inn í lækningalegum skömmtum. Hafi ákærði af þeim sökum ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti. Einnig kunni klónazepam að hafa dregið úr hæfni ákærða til aksturs bifreiða.
Að því virtu sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að fram sé komin sönnun fyrir því að ástand ákærða við aksturinn hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna neyslu þess amfetamíns og klónazepams sem greindist í blóði hans, sbr. 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Er hann því sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.
Ákæruliður 2.
Fram kemur í skýrslu lögreglunnar á Snæfellsnesi að 3. júlí 2005 hafi tilkynning borist frá söluskálanum Skelinni við Ólafsbraut, Ólafsvík, um að ekið hafi verið á staur við bifreiðastæðið þar. Grunur lék á að ökumaður væri ölvaður. Þegar lögreglan kom á vettvang stóð ákærði Sigurþór við skuthlera bifreiðarinnar [...] og segir í skýrslunni að hann hafi greinilega verið í annarlegu ástandi. Gekkst hann undir öndunarpróf með S-D2 mæli og reyndist niðurstaðan vera neikvæð. Aðspurður kvaðst hann þó hafa neytt einhverra lyfja og var hann því fluttur á lögreglustöðina þar sem læknir tók úr honum blóð- og þvagsýni, kl. 13.52, og lagði mat á ástand hans, kl. 14.15.
Í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag kvaðst ákærði hafa neytt róandi lyfs, rívotríl, kl. 06.00 um morguninn. Þá kvaðst hann einnig nota rítalín og remeron við þunglyndi. Hann hafi tekið tvær concerta-töflur deginum áður og einnig þennan morgun. Ákærði kvaðst ekki hafa fundið til áhrifa vegna lyfjanotkunarinnar við aksturinn.
Í málinu liggur frammi hæfnispróf það sem ákærði var látinn gangast undir af Katrínu Þórarinsdóttur lækni. Merkt er við að ákærði kvæðist nota rítalín og remeron að staðaldri. Þann dag sem hann var handtekinn kvaðst hann hafa tekið inn rívotríl, concerta og remeron. Merkt er við að ákærði eigi við athyglisbrest og þunglyndi að stríða auk þess sem hann sé 75% öryrki. Við skoðun er merkt við að meðvitundarástand hafi verið sljótt, hann hafi verið að hluta áttaður á tíma og stað, hann myndi tvær tölur af fjórum, andlit og húð hans hafi verið eðlileg, svipbrigði hans að hluta til eðlileg, tíðni púls sé 80 /mín (eðlil. 60-90), augu hans rauðsprengd en ljósop eðlilegt svo og viðbrögð við ljósi, ekki hafi verið að finna nystagmus til hliða né konvergens, hann hafi þurft stuðning við að ganga beint eftir línu, skerptur Romberg (annar fótur, 5 sek., hendur beint fram) hafi verið öruggur, fingur-nef próf öruggt, hann hafi ekki verið með skjálfta, innri klukka (gefa upp 30 sek. með lokuð augu) hafi verið óeðlileg og hann gefið upp of stuttan tíma, framkoma/geðslag hafi verið sljótt/svipbrigðalítið, talning afturábak gefið fáar villur (<4), framburður hans hafi verið eðlilegur að hluta og meining skilist að hluta til.
Í niðurstöðu er merkt við það álit læknisins að ákærði sé áberandi undir áhrifum og ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega. Jafnvægi og samhæfing sé ekki í lagi í ganglínum. Hann þurfi mikinn stuðning við gang eftir beinni línu og hreyfingar séu hægar. Áhrifin hafi að mati læknisins verið vegna róandi lyfja sem hann hafi tekið inn um morguninn.
Fram kemur í matsgerð Lyfjafræðistofnunar, sem er á meðal gagna málsins, að ekkert alkóhól hafi verið mælanlegt í blóði. Í þvagi hafi fundist amfetamín, kannabínóíðar, benzódíazepín og MDMA (ecstasy). Staðfest hafi verið með gasgreiningu og massagreiningu að í þvaginu væri tetrahýdrókannabínólsýra. Í blóði hafi mælst amfetamín 300 ng/ml, MDMA 290 ng/ml, klónazepam (rivotril) 13 ng/ml og nítrazepam 20 ng/ml. Mirtazapín (remeron), metýlfenídat (concerta) eða tetrahýdrókannabínól hafi ekki verið mælanlegt í blóði. Í matsgerðinni segir jafnframt: „Styrkur amfetamíns í blóði er töluvert hærri en búast má við þegar það er notað til lækninga. Styrkur MDMA er eins og búast mætti við eftir töku einnar töflu (100 mg). Styrkur er eins og búast má við eftir lækningalega skammta hjá hvoru lyfi fyrir sig. Tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi, án þess að tetrahýdrókannabínól finnist í blóði, bendir til þess að hlutaðeigandi hafi neytt kannabis en ekki verið lengur undir áhrifum þess þegar blóðsýnið var tekið. Hlutaðeigandi hefur verið undir vægum slævandi áhrifum klónazepams og nítrazepams og kann það að einhverju leyti að hafa dregið úr aksturshæfni. Hann hefur verið undir töluverðum örvandi áhrifum amfetamíns og MDMA og má gera ráð fyrir að hann hafi af þeim sökum ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti.“
Framburður fyrir dómi.
Ákærði Sigurþór kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum lyfja þegar hann ók á staurinn en hann hefði þó verið „að gera eitthvað þessa helgi“. Taldi hann sig hafa getað stjórnað bifreiðinni örugglega. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir staurnum og því hafi bifreiðin hafnað á honum. Hann kannaðist við að hafa tekið inn conserta-töflur fyrir aksturinn en hann hafi þurft að taka þær inn reglulega.
Vitnið Katrín Þórarinsdóttir læknir kvaðst hafa framkvæmt próf á ákærða með tilliti til aksturshæfni hans vegna lyfjaáhrifa. Kvaðst hún minnast þess að ákærði hefði verið sljór í framan og drafandi í tali. Jafnframt hefði hann átt erfitt með að ganga óstuddur eftir beinni línu. Væri það hennar mat að ákærði hafi algjörlega verið óhæfur til að aka bifreið vegna ástands síns.
Jakob Líndal dósent staðfesti matsgerð sína. Kvað hann styrk amfetamínsins hafa verið allt að þrefalt meiri en í lækningalegum skömmtum. Þá sagði hann styrk MDMA hafa verið svipaðan og eftir að viðkomandi hefði tekið um 100 mg skammt og styrkur klónazepams og nítrazepams hvors fyrir sig hafi verið eins og eftir lækningalega skammta. Áhrif tveggja síðastgreindu lyfjanna megi leggja saman því þau verki með svipuðum hætti á miðtaugakerfið. Áhrif hvors þeirra séu fremur væg en geti þó haft áhrif á getu manna til aksturs. Þá sagði hann að MDMA hefði samverkandi örvandi áhrif við amfetamín en lítið væri vitað um áhrif þess á aksturshæfni manna, enda efnið of hættulegt til að gera tilraunir með það á mönnum. Um áhrif slíks magns amfetamíns í blóði eins og hér um ræðir sagði hann að gera mætti ráð fyrir að viðkomandi hafi ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti.
Niðurstaða.
Ágreiningslaust er að ákærði ók bifreiðinni [...] eins og nánar er lýst í ákæru, að öðru leyti en því að hann hefur neitað að hafa verið ófær um að stjórna bifreið örugglega vegna neyslu örvandi og slævandi efna.
Af vottorði læknisins Katrínar Þórarinsdóttur og vætti hennar fyrir dómi verður skýrlega ráðið að ákærði hafi verið áberandi undir áhrifum lyfja og því ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega. Jafnvægi og samhæfing hafi ekki verið í lagi í ganglínum, hann hafi þurft mikinn stuðning við gang eftir beinni línu og hreyfingar hafi verið hægar. Fram kom í matsgerð Jakobs Líndal og vætti hans fyrir dómi að styrkur amfetamíns í blóði ákærða hafi verið allt að þrefalt meiri en í lækningalegum skömmtum og að gera mætti ráð fyrir af þeim sökum einum að hann hafi ekki verið fær um að stjórna bifreið með öruggum hætti. Auk þess gæti klónazepam, nítrazepam og MDMA í blóði hafa haft áhrif á aksturshæfni hans.
Að því virtu sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að fram sé komin sönnun fyrir því að ástand ákærða við aksturinn hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna neyslu amfetamíns og annarra lyfja, sem greindist í blóði hans, sbr. 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Er hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar telst rétt færð til refsiákvæða.
6) Ákæra, dags. 2. maí 2006, á hendur Sævari Má Indriðasyni.
Ákærði Sævar Már hefur játað sök samkvæmt ákæru þessari. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og er brot hans rétt fært til refsiákvæða.
Ákærði hefur og samþykkt að greiða þá bótakröfu sem gerð er í ákæru. Verður hann því dæmdur til að greiða D 21.828 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. janúar 2006 til 9. júlí 2006 en síðan dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
7) Ákæra, dags. 11. apríl 2006.
[...]
8) Ákæra, dags. 2. maí 2006, á hendur Sigurþór Arnarsyni.
Ákæruliður 1.
Málavextir.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík barst henni tilkynning kl. 11.20, miðvikudaginn 8. febrúar 2006, um yfirstandandi innbrot í íbúð að Y. Er lögreglumenn komu þangað var útidyrahurðin ólæst. Hafi þeir farið inn í íbúðina og hafi ákærði Sigurþór þá verið staddur í geymsluherbergi í íbúðinni og verið að tína þar til einhverja muni en annar maður hafi verið staddur í hjónaherberginu og verið þar að róta í hinu og þessu. Hafi þeir báðir verið handteknir og fluttir á lögreglustöðina. Var haft eftir ákærða í frumskýrslu að hann væri að aðstoða vinkonu sína, K, við að tæma íbúðina en í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu er eftir honum haft að hann hafi ætlað að flytja þaðan dót sem hann ætti í íbúðinni, meðal annars heimabíó, og hafi hann verið búinn að fá leyfi K til að fara þarna inn í því skyni.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst í umrætt sinn hafa farið inn í íbúð sem vinkona hans, K, hafði til umráða í kjallara að Y til að ná í dót sem hann hafi átt þar inni. Hann hafi ekki haft neinn lykil en hann hafi farið inn í íbúðina með því að losa um ólæstan glugga, fjarlægja hann og fara þannig inn. Hann kvaðst hvorki kannast við að hafa rótað þar í einhverju dóti né hafi hann ætlað að stela þar nokkru. Sagðist ákærði hafa verið búinn að ræða um það við Y, að hann þyrfti að komast inn í íbúðina til að ná þar í ýmsa muni sem hann ætti þar. Þegar hann fór þarna inn hafi hún verið í meðferð á sjúkrastofnun og því hafi hann ekki getað náð í hana.
Vitnið Björn Kristinn Broddason lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang og handsamað ákærða Sigurþór ásamt öðrum manni. Hafi þeir verið að róta þar í dóti, og hafi annar þeirra verið í geymslu íbúðarinnar en hinn í svefnherberginu þegar þeir komu þarna að. Hafi annar þeirra gefið þá skýringu að hann væri að tæma íbúðina fyrir leigjandann en hinn hafi sagst vera þarna honum til aðstoðar.
Vitnið K skýrði frá því að þau ákærði hefðu um tíma búið saman og þess vegna hefði nokkuð af hans munum enn verið hjá henni í geymslu. Kannaðist hún við að hafa verið búin að gefa ákærða leyfi til að sækja dót sitt í íbúðina enda þótt það hafi í sjálfu sér ekki átt að ná til þess að hann færi þar inn á meðan hún væri til meðferðar á sjúkrastofnun. Hún hafi heldur ekki reiknað með að hann færi þar inn á meðan hún væri ekki á staðnum.
Vitnið L kom fyrir dóminn en framburður hennar varpaði ekki ljósi á ákæruefnið.
Niðurstaða.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þá hefur vitnið K umráðamaður íbúðarinnar að Y á þeim tíma sem hér um ræðir, borið fyrir dómi að hún hafi verið búin að veita ákærða leyfi til að ná þar í muni í hans eigu sem geymdir höfðu verið í íbúðinni frá því að þau bjuggu saman. Enda þótt hún hafi einnig borið að leyfið hafi ekki náð til þess að hann færi þar inn þegar hún væri fjarverandi, og för hans inn í íbúðina því verið honum óheimil, verður ekki talið að fram sé komin sönnun fyrir því að ákærði hafi farið inn í íbúðina í auðgunartilgangi. Ber því að sýkna hann af ákæru um tilraun til þjófnaðar.
Ákæruliður 2.1.
Málavextir.
Við húsleit sem gerð var á heimili ákærða Sigurþórs 25. janúar 2006 fannst meðal annars fartölva af gerðinni IBM thinkpad sem lögreglan hafði fengið tilkynningu um að stolið hefði verið við innbrot í bílskúr að [...] í Kópavogi hinn 5. janúar 2006. Við yfirheyrslu hjá lögreglu vegna ýmissa muna sem fundust í íbúð ákærða og grunur lék á að gætu verið þýfi kvaðst ákærði eiga umrædda tölvu og að hann hefði keypt hana fyrir 110.000 krónur gegn staðgreiðslu eftir auglýsingu á heimasíðunni kassi.is. Kvaðst hann ekki muna hver hefði selt honum tölvuna og ekki gat hann framvísað kvittun. Þegar ákærði var spurður hvort hann hefði ekki gert sér grein fyrir að umrædd tölva og önnur tölva sem hjá honum fannst gætu verið illa fengnar svaraði ákærði: „Ég er í kring um fullt af fólki og hef oft keypt þýfi til þess að komast hjá því að borga fullt verð, þið vitið hvernig þetta er.“ Síðar í yfirheyrslunni neitaði ákærði því að hann hefði átt að geta séð að um þýfi væri að ræða.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði kvaðst kannast við að hafa verið með umrædda tölvu á heimili sínu umrætt sinn. Aðspurður hvar hann hefði fengið tölvuna kvaðst hann ekki hafa stolið henni og líklega hafi hann keypt hana. Hann kvaðst hins vegar telja að hann hefði keypt tölvuna af manni sem héti M. Hann væri þó ekki alveg viss og hann hefði enga kvittun máli sínu til stuðnings. Spurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hefði keypt tölvuna á kassi.is sagði ákærði að það gæti einnig vel verið rétt. Hann kvaðst þó hvorki hafa vitað né hafi sig grunað að um þýfi hafi verið að ræða. Þegar ákærði var spurður út í framangreind ummæli sín hjá lögreglu „ég er í kring um fullt af fólki og hef oft keypt þýfi til þess að komast hjá því að borga fullt verð, þið vitið hvernig þetta er“ svaraði hann „ég hef ekkert út á þetta að setja“.
Vitnið Ólafur Gunnar Sævarsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti efni skýrslna sem hann tók af ákærða 7. og 8. febrúar sl. Aðspurður hvernig staðið væri almennt að kynningu þess fyrir sakborningi sem skráð hefði verið niður eftir viðkomandi sagði vitnið að sakborningur væri undantekningalaust beðinn um að lesa yfir texta skýrslu sinnar svo hann gæti þá annaðhvort staðfest hann sem réttan eða þá gert athugasemdir við hann eftir atvikum. Kvaðst vitnið telja allar líkur á að eins hafi verið staðið að málum í þessu tilviki þótt hann minntist þess ekki sérstaklega.
Niðurstaða.
Að virtu því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að skýring ákærða á því hvernig umrædd tölva komst í hans vörslu sé ekki trúverðug og verður því lagt til grundvallar, meðal annars með hliðsjón af ummælum hans hjá lögreglu um að hann hefði oft keypt þýfi til þess að komast hjá að borga fullt verð fyrir, að honum hafi hlotið að vera ljóst að langlíklegast hafi verið að tölvan væri þýfi. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar telst rétt færð til refsiákvæðis.
Ákæruliður 2.2 og 3.
Ákærði Sigurþór hefur játað sök samkvæmt þessum ákæruliðum. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða.
Upptæk eru gerð 2,81 g af amfetamíni og 0.91 g af marihuana.
Ákæruliður 4.
Málavextir.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning um hugsanlegan ölvunarakstur manns á bifreiðinni [...] á Hafnarfjarðarvegi á móts við söluskálann Aktu-Taktu í Garðabæ kl. 17.03 hinn 4. febrúar 2006. Þegar lögreglumenn komu á staðinn sat ákærði Sigurþór undir stýri og var vél bifreiðarinnar í gangi. Kemur fram að ákærði hafi greinilega verið í annarlegu ástandi, sljór, þurr í munni, drafandi í tali og með samandregna augasteina. Er hann var látinn blása í S-D2 alkóhólmæli reyndist niðurstaðan 0%. Hann hafi sagst nota lyf daglega og hefði hann tekið 1 stk. remeron, 1 stk. rítalín og 2 stk. rívotríl. Var ákærði færður á lögreglustöðina í Hafnarfirði og tók Gerður Árnadóttir læknir þar blóðsýni úr honum og framkvæmdi hæfnispróf. Ákærði var yfirheyrður hinn 5. febrúar 2006. Viðurkenndi hann að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn og að hann hefði tekið þau lyf sem að framan greinir. Hann neitaði hins vegar að hafa fundið fyrir lyfjaáhrifum er hann ók.
Í hæfnisprófi því sem liggur frammi í málinu koma fram þær athugasemdir varðandi sjúkdóma að ákærði ætti við að stríða langvarandi misnotkun vímuefna. Við skoðun er merkt við að meðvitundarástand sé sljótt, hann áttaður á tíma og stað, hann muni fjórar tölur af fjórum, andlit hans hafi verið rauðleitt, svipbrigði hans eðlileg, tíðni púls hafi verið 108 /mín (eðlil. 60-90) og taktur reglulegur, augu hans rauðsprengd og ljósop lítið, um 1 - 2 mm. Viðbrögð við ljósi hafi engin verið, ekki hafi verið að finna nystagmus til hliða né konvergens, ganga beint eftir línu hafi verið aðeins óörugg, skerptur Romberg (annar fótur, 5 sek., hendur beint fram) öruggur, fingur-nef próf öruggt, hann hafi verið með léttan skjálfta, innri klukka (gefa upp 30 sek. með lokuð augu) hafi verið eðlileg, framkoma/geðslag sljótt/svipbrigðalítið, talning afturábak hafi fáar villur gefið (<4), framburður hans óeðlilegur en meining sé í því sem hann segði. Í niðurstöðu er merkt við það álit læknisins að ákærði hafi verið nokkuð undir áhrifum og ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega og er það rökstutt í athugasemd með því að ákærði væri sljór og ýmis einkenni bendi til vímuefnaneyslu. Jafnframt tekur læknirinn fram undir lokin að sterkur grunur sé um að ákærði hafi tekið meira af róandi lyfjum en hann gefi upp.
Fram kemur í matsgerð Lyfjafræðistofnunar, sem er á meðal gagna málsins, að ekkert etanól hafi verið mælanlegt í blóði. Í blóði hafi mælst amfetamín 70 ng/ml, díazepam 45 ng/ml, nordíazepam 18 ng/ml, flúnítrazepam 7 ng/ml, klónazepam 19 ng/ml mírazapín 90 ng/ml. Í matsgerðinni segir jafnframt: „Styrkur amfetamíns var eins og búast mætti við eftir töku lækningalegra skammta. Styrkur díazepams og klónazepams var eins og eftir töku fremur lítilla lækningalegra skammta. Styrkur flúnítrazepams var eins og eftir fremur háa lækningalega skammta. Styrkur mirtazapíns var eins og eftir fremur háa lækningalega skammta. Niðurstöður rannsóknanna benda til þess að ökumaður hafi verið undir vægum örvandi áhrifum amfetamíns þegar blóðsýnið var tekið. Styrkur þess í blóði er þó lægri en svo að það hafi marktæk áhrif á hæfni hans til aksturs bifreiðar. Hann hefur einnig verið undir slævandi áhrifum díazepams, flúnítrazepams, klónazepams og mirtazapíns. Má gera ráð fyrir að samanlögð áhrif þessara lyfja hafi valdið því að hann hafi ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti þegar blóðsýnið var tekið.“
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa verið undir slíkum áhrifum slævandi lyfja umrætt sinn að hann hafi verið ófær um að stjórna bifreiðinni. Hann taldi mögulegt að hann hefði tekið inn einhver lyf fyrir aksturinn þar sem hann hefði notað lyf mikið á þessum tíma, meðal annars vegna slyss sem hann hefði lent í, en hann kvaðst ekki telja að hann hefði verið undir áhrifum af þeim. Lyf þau sem hann kvaðst hjá lögreglu hafa neytt fyrir aksturinn væru remeron sem væri jafnvægislyf, rítalín vegna ofvirkni og rívotríl, sem væri slakandi lyf vegna baksins. Allt væru þetta lyf sem hann þyrfti að taka samkvæmt læknisráði. Kannaðist hann hins vegar ekki við að hafa neytt amfetamíns eða díazepams sem einnig greindust í blóði hans samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð.
Vitnið Hlynur Gíslason lögreglumaður kvaðst hafa verið kvaddur á vettvang vegna ökumanns í annarlegu ástandi. Þegar hann kom að kvaðst hann hafa haft tal af ökumanni sem greinilega hafi virst í annarlegu ástandi sem hafi lýst sér meðal annars í því að hann virkaði mjög sljór, hægur í hreyfingum og þurr í munni. Við áfengismælingu kom fram að hann væri ekki undir áhrifum áfengis og því verið ákveðið að láta rannsaka hvort hann væri undir áhrifum lyfja.
Vitnið Sverrir Guðfinnsson lögreglumaður kom á vettvang með vitninu Hlyni Gíslasyni. Lýsti hann atvikum á svipaðan veg en mundi þó ekki nákvæmlega hvernig þeir hefðu merkt að hann væri í annarlegu ástandi. Kvað hann ákærða hafa gefið þá skýringu að hann þyrfti samkvæmt læknisráði að taka viss lyf, sem hann tilgreindi, og að áður hefði komið fyrir að menn hefðu talið hann undir áhrifum lyfja við akstur.
Vitnið Gerður Árnadóttir, læknir á Heilsugæslustöðinni í Garðabæ, kvaðst hafa tekið blóðsýni úr ákærða og hafa framkvæmt klínískt mat á hæfni hans. Vitnið kvaðst minnast þess að ákærði hefði verið sljór og drafandi í tali og að niðurstaða sín hafi verið nokkuð afgerandi með að hann hefði ekki verið hæfur til að stjórna bifreið örugglega. Er hún var spurð af verjanda hvort hugsanlegt væri að ákærði hefði neytt lyfja rétt fyrir akstur, sem ekki hefðu haft áhrif á hæfni hans til aksturs fyrr en eftir að akstri lauk eða á svipuðum tíma sem matið var framkvæmt, sagði vitnið að upplýsingar sem hún hefði fengið frá ákærða á staðnum hafi á engan hátt bent til þess að um slíkt geti hafa verið að ræða.
Vitnið Margeir Sveinsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti að lögregluskýrsla sem hann hefði tekið af ákærða væri skráð eftir hans frásögn og að hún hefði verið lesin upp fyrir ákærða áður en hann undirritaði.
Vitnið Jakob Líndal Kristinsson dósent staðfesti þá matsgerð sem liggur fyrir í málinu varðandi þau lyf sem greindust í blóði ákærða í greint sinn. Kvað hann styrk amfetamíns hafa verið fremur lágan, og ekki skipt miklu máli í þessu tilliti. Hins vegar hafi styrkur flúnítrazepams, klónazepams, díazepams og mirtazapíns vegið þyngra. Hafi það fyrstnefnda líklega vegið þar þyngst en það síðastgreinda minnst. Lyf þessi séu hins vegar öll samverkandi þannig að áhrif þeirra leggist saman. Megi því gera ráð fyrir að umrædd lyf sem greindust í ákærða hafi verið að magni til samsvarandi þreföldum lækningalegum skammti af slíkum lyfjum. Samkvæmt þessu telji hann langmestar líkur til þess að maður með slíkt magn lyfja í blóði geti ekki stjórnað bifreið með öruggum hætti. Hins vegar sé þekkt að þol geti myndast gagnvart verkun slíkra lyfja hafi fólk tekið slík lyf í einhvern tíma, og því sé ekkert hægt að fullyrða fortakslaust um slíkt.
Niðurstaða.
Ágreiningslaust er að ákærði ók bifreiðinni [...] eins og nánar er lýst í ákæru, að öðru leyti en því að hann hefur neitað að hafa ekki getað stjórnað henni örugglega vegna neyslu slævandi lyfja. Af vottorði læknisins Gerðar Árnadóttur og vætti hennar fyrir dómi verður skýrlega ráðið það mat hennar að ákærði hafi verið sljór og drafandi í tali og ekki hæfur til að stjórna bifreið örugglega. Þá kom fram í matsgerð Jakobs Líndal og vætti hans fyrir dómi að þau lyf sem greindust í blóði ákærða væru öll samverkandi þannig að áhrif þeirra legðust saman. Mætti því gera ráð fyrir að þau hafi að magni til samsvarað þreföldum lækningalegum skammti af slíkum lyfjum. Var niðurstaða Jakobs því sú að langmestar líkur væru til þess að maður með slíkt magn lyfja í blóði gæti ekki stjórnað bifreið með öruggum hætti. Þegar þetta er virt og jafnframt litið til þess framburðar Hlyns Gíslasonar lögreglumanns að ákærði hafi greinilega virst í annarlegu ástandi, sem hafi lýst sér meðal annars í því að hann virkaði mjög sljór og hægur í hreyfingum, er það niðurstaða dómsins að fram sé komin sönnun fyrir því að ástand ákærða við aksturinn hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna þeirra lyfja sem greindust í blóði hans, sbr. 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Er hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.
Ákvörðun refsingar.
Ákærði Ingþór er fæddur árið 1969. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur hann frá árinu 1998 í alls átta skipti gengist með sátt undir sektargreiðslur fyrir umferðarlaga- og fíkniefnabrot. Þá hefur hann á því tímabili sjö sinnum hlotið dóma fyrir auðgunarbrot og fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot. Var ákærði fyrst dæmdur fyrir auðgunarbrot með dómi 6. mars 2003 er hann var dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi í 2 ár fyrir skjalafals. Þá var ákærði dæmdur 22. september 2005 í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi í 3 ár fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot. Með lögreglustjórasáttum, sem ákærði gekkst undir 29. september 2005, 23. maí 2006 og 18. september 2006, var honum gert að greiða sektir vegna fíkniefnabrota. Ákærði hefur í máli þessu verið fundinn sekur um ránsbrot, hylmingarbrot, gripdeild, tilraun til þjófnaðar, þrjú fölsunarbrot og vörslu fíkniefna í fjögur skipti. Öll brotin, að ránsbrotinu undanskildu, voru framin fyrir uppkvaðningu dómsins frá 22. september 2005 og einnig áður en hann gekkst undir lögreglustjórasáttirnar 29. september 2005 og 23. maí og 18. september 2006. Ber því að ákvarða refsingu ákærða að því leyti sem hegningarauka skv. 78. gr. almennrar hegningarlaga við umræddar refsiákvarðanir. Ránsbrotið var hins vegar framið rétt um kl. 14.00 hinn 22. september 2005, eða rúmum tveimur klukkustundum eftir að framangreindur skilorðsdómur var kveðinn upp. Samkvæmt því telst ákærði með því hafa rofið skilorðið samkvæmt þeim dómi. Ber því að taka hann upp og ákvarða honum refsingu í einu lagi vegna allra umræddra brota, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.
Það brot sem þyngst vegur við ákvörðun refsingar ákærða Ingþórs, ránsbrotið, var framið í félagi við tvo aðra menn og til þess fallið að vekja verulegan ótta hjá starfsstúlkum apóteksins. Var ákærði vopnaður hnífi er hann og meðákærði A ruddust inn í verslunina. Verður þetta metið ákærða til refsiþyngingar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. sömu greinar. Hins vegar játaði ákærði brot sín að langmestu leyti og verður það virt honum til refsilækkunar. Að þessu öllu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Frá henni ber að draga gæsluvarðhald sem hann sætti 23.-28. september 2005.
Ákærði Sigurþór er fæddur árið 1971. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur hann frá árinu 1990 hlotið 11 dóma, aðallega fyrir líkamsárásir og auðgunarbrot en einnig fyrir brot á umferðarlögum og fíkniefnalöggjöf. Ákærði var fyrst dæmdur fyrir þjófnaðarbrot 24. september 1990 í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Aftur var hann dæmdur fyrir þjófnað 16. mars 1992 og þá í 45 daga skilorðsbundið fangelsi. Hinn 10. júní 1993 hlaut hann 45 daga fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 8. september sama ár var hann dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga og 27. janúar 1994 var hann aftur dæmdur fyrir brot gegn 217. gr., nú í 30 daga. Ákærði var svo dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir fjársvik 4. maí 1994 og 30 daga fangelsi fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga 27. nóvember 1996. Þá var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 226. gr. sömu laga og fíkniefnabrot 23. maí 1997. Með dómi Hæstaréttar 22. maí 1998 var staðfestur dómur héraðsdóms um að ákærði skyldi sæta fangelsi í 2 ár og 3 mánuði fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 25. janúar 1999 var ákærði dæmdur í sektargreiðslu vegna umferðarlagabrots og loks var honum gert að sæta fangelsisrefsingu í 2 mánuði fyrir fíkniefnabrot með dómi 9. desember 2004.
Ákærði Sigurþór hefur í máli þessu verið fundinn sekur um þjófnað, þrjú hylmingarbrot, tvær gripdeildir, vörslu fíkniefna í tvígang og þrjú umferðarlagabrot með því að hafa í þremur tilvikum ekið bifreið undir það miklum áhrifum lyfja að hann var óhæfur til að stjórna bifreið örugglega. Gripdeildarbrotin voru bæði framin fyrir uppkvaðningu dómsins frá 9. desember 2004 og sama gildir um eitt ofangreindra umferðarlagabrota. Verður refsing ákærða að því leyti ákvörðuð með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því og með hliðsjón af sakaferli ákærða og jafnframt með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsing hans ákvörðuð fangelsi í 5 mánuði.
Með vísan til 101. gr. umferðarlaga er ákærði Sigurþór sviptur ökurétti í 8 mánuði frá og með birtingu dóms þessa.
[...]
Ákærði Sævar Már er fæddur árið 1969. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur hann frá árinu 1997 tvisvar hlotið sektardóma og í fimm skipti gengist undir sektargreiðslur með sátt eða viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot og vörslu fíkniefna. Ákærði er í máli þessu fundinn sekur um rán og þjófnað. Var ránsbrotið framið áður en hann gekkst undir viðurlagaákvörðun 5. október 2005 þar sem honum var gert að greiða 50.000 króna sekt og sátt 24. júlí 2006 þar sem hann skyldi greiða 35.000 króna sekt. Þjófnaðarbrotið var einnig framið fyrir framangreinda sátt. Verður refsing ákærða því ákveðin með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga. Ránsbrot það sem ákærði Sævar Már er nú sakfelldur fyrir var framið í félagi við tvo aðra menn og til þess fallið að vekja verulegan ótta hjá starfsstúlkum apóteksins. Var hnífi veifað til að vekja ótta hjá starfsstúlkum er meðákærðu, Ingþór og A, ruddust inn í verslunina. Verður þetta metið ákærða til refsiþyngingar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. sömu greinar. Að öllu þessu virtu þykir refsing hans, með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi. Frá henni ber að draga gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 23.-27. september 2005.
Um málsvarnar- og réttargæsluþóknun og útlagðan sakarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist fram yfir lögbundinn frest.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Huldu Maríu Stefánsdóttur, fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ingþór Halldórsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Frá því dregst gæsluvarðhald sem ákærði sætti 23.-28. september 2005.
Ákærði, Sigurþór Arnarsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.
[...]
Ákærði, Sævar Már Indriðason, sæti fangelsi í 8 mánuði. Frá því dregst gæsluvarðhald sem ákærði sætti 23.- 27. september 2005.
Ákærði, Sigurþór, er sviptur ökurétti í 8 mánuði frá birtingu dómsins.
[...]
Ákærðu, Ingþór, A og Sævar Már, greiði Laugarnesapóteki ehf. óskipt 116.309 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2006 til greiðsludags.
Ákærði, Sigurþór, greiði Skeljungi hf. 6.302 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr.
laga nr. 38/2001 frá 22. maí 2004 til 29. nóvember 2004 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Sigurþór, greiði Skeljungi hf. 5.012 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2004 til 29. nóvember 2004 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Ingþór, greiði VM ehf. 20.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um nr. 38/2001 frá 27. febrúar 2005 til 19. febrúar 2006 en síðan dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Sævar Már, greiði D 21.828 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. janúar 2006 til 9. júlí 2006 en síðan dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
Upptæk eru gerð 13,95 g af amfetamíni, 3,94 g af marihuana og 24 skammtar af LSD.
Ákærði, Sigurþór, greiði 586.830 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar.
[...]
Ákærði, Sævar Már, greiði útlagðan kostnað vegna réttargæsluþóknunar Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 123.255 krónur.
Ákærði, Ingþór, greiði málsvarnar- og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur.
Ákærði, Sigurþór, greiði málsvarnar- og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
[...]
Ákærði, Sævar Már, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.