Hæstiréttur íslands

Mál nr. 390/2007


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof


         

Fimmtudaginn 17. janúar 2008.

Nr. 390/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Gunnari Jóhanni Gunnarssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Líkamsárás. Reynslulausn. Skilorðsrof.

G var dæmdur í héraðsdómi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa mörgum sinnum slegið nafngreindan mann með hafnaboltakylfu í höfuð og líkama, og ennfremur slegið hann hnefahögg í höfuð. Við þetta hlaut maðurinn sár og mar á höfði, og mar í andlit, á brjóstkassa, öxl og framhandleggjum. Með broti sínu rauf G skilorð reynslulausnar, en hann átti 330 daga óafplánaða af eldri dómi og var sú refsing dæmd með. Hæfilegt var talið að G sætti 18 mánaða fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærði dæmdur í Hæstarétti 30. janúar 2003 í 22 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann var þá 17 ára gamall og hefur það brot því ekki ítrekunaráhrif. Þann 30. mars 2004 var honum veitt skilorðsbundin reynslulausn í tvö ár á óafplánuðum 330 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar. Með því broti sem ákærði er nú sakfelldur fyrir rauf hann skilyrði reynslulausnar og ber því að ákveða refsingu í einu lagi með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt fyrri dóminum, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga og 60. gr. almennra hegningarlaga. Eins og fram kemur í héraðsdómi var árás ákærða hrottafengin. Hann réðst við annan mann inn á heimili föður brotaþola þar sem sá síðarnefndi dvaldi. Hann á sér engar málsbætur. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð vottorð þar sem fram kemur að frá því að ákærði framdi það brot sem hér um ræðir hafi hann tekið sig á, stundi vinnu og hafi haldið sig frá fíkniefnum um nokkurt skeið, auk þess að hafa stundað forvarnarstörf gegn fíkniefnaneyslu. Með vísan til framangreinds og forsendna héraðsdóms að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjenda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Jóhann Gunnarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 250.777 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar sl., höfðaði lögreglustjórinn í Keflavík með ákæru útgefinni 18. september 2006 á hendur ákærða, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, [kt.], Akurbraut 44, Reykjanesbæ, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að morgni sunnudagsins 27. nóvember 2005, að [...], mörgum sinnum slegið A með hafnaboltakylfu í höfuð og líkama, og ennfremur slegið hann hnefahögg í höfuð. Við þetta hlaut A sár og mar á höfði, og mar í andlit, á brjóstkassa, öxl og framhandleggjum.

Í ákæru er ofangreind háttsemi ákærðu talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A, [kt.], er krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 664.200, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2005 til 6. júlí 2006 en með dráttarvöxtum frá þeim degi, sbr. 9. sbr. 6. gr. sömu laga.

Skipaður réttargæslumaður A, Valgerður Valdimarsdóttir hdl., krefst réttargæslulauna.

Ákærði játar skýlaust að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru. Þá samþykkir ákærði bótakröfu A. Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna.

I.

Sunnudaginn 27. nóvember 2005 kl. 07:27 bárust lögreglu boð frá Neyðarlínu þess efnis að B, [...] væri að tilkynna að eitthvað mikið gengi á inni í herbergi sonar hans A, eins og menn væru þar að slást. Lögreglumenn fóru á vettvang og vísaði B lögreglunni á herbergi sonar síns. Lögreglumennirnir fóru inn í herbergið og voru þar þrír menn, ákærði, A og C. Samkvæmt lögregluskýrslu hafi A setið á stól, blóðugur á höfði og greinilega mjög skelkaður. Bak við hurðina hafi ákærði staðið ber að ofan og mjög æstur. Þar hafi C einnig setið á hækjum sér og virst vera skelkaður. Samkvæmt lögregluskýrslu benti allt til þess að miklið hefði gengið á í herberginu. Lögregla fann hafnaboltakylfu á gólfinu. A var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í sjúkrabifreið og þaðan á sjúkrahús í Reykjavík til frekari skoðunar. Hann var með stóran skurð á höfði, með mikinn höfuðverk og  sviða. Samkvæmt ákæru virtust bæði ákærði og C vera ölvaðir og voru þeir færðir á lögreglustöð. Ákærði var handtekinn og vistaður í fangaklefa. Í skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki hafa notað kylfuna neitt af viti gegn A en mögulega lamið hann einu sinni í löppina með kylfunni. Hann hefði slegið A í höfuðið með lauskrepptum hnefa og við það handarbrotnað.

Vitnið A lagði fram kæru vegna  líkamsárásarinnar hjá lögreglu 6. desember 2005. Kvaðst hann hafa vaknað heima hjá sér umrætt sinn og séð ákærða standa yfir sér með kylfu. Blætt hefði úr höfði hans og hefði hann reynt að standa á fætur og verja sig en ákærði hefði látið höggin dynja á honum með kylfunni. Næst hefði hann munað eftir að lögreglumaður var kominn á staðinn.

Vitnið var flutt á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Í vottorði Theodórs Friðrikssonar læknis, dagsettu 1. apríl 2006, kemur m. a. fram að við skoðun hafi A verið með skurð ofanvert vinstra megin á höfði með mari í kring. Hægra megin á enni upp við hársrætur hafi verið mar ca. 3x3 cm. Mar og bólga hafi verið í kringum hægra auga, heldur meira neðan við augað og þar byrjandi glóðarauga. Væg bólga hafi verið vinstra megin á neðri vör. Þreifieymsli hafi verið aftan á hálsi. Hann hafi verið með 5x5 cm marblett yfir vinstra herðablaði, einnig með mar og hrufl utanvert yfir hægra herðablaði út á öxlinni og einnig hruflrák utar á öxlinni. Þá hafi hann verið marinn og aumur og með hruflsár á báðum framhandleggjum sem gætu verið varnaráverkar. Hann hafi því greinst með sár á höfði, mar á höfði, mar í andliti, mar á brjóstkassa, mar á öxl og mar á framhandleggjum. Í vottorðinu kemur fram að áverkar A samrýmist því að hann hafi verið sleginn endurtekið með einhvers konar barefli og reynt að verja sig.

II.

Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök, en við aðalmeðferð málsins játaði hann brot sitt afdráttarlaust og kvaðst ekki geta réttlætt gerðir sínar. Kvaðst hann hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma og allt verið í móðu og það sem hann sagði hefði verið sagt í móðu. Kvaðst hann hafa farið til A og veitt honum einhver högg. Hann hefði verið undir miklum áfengis- og vímuefnaáhrifum er hann gerði þetta. Aðdragandi þessa hefði verið sá að A hafði brotist inn til D, vinar ákærða, og haft í hótunum við hann. Kvaðst ákærði því hafa farið heim til A í hefndarhug. Hann hefði verið reiður út af framkomu A í garð D. Þeir C hefðu farið inn til A og kvaðst ákærði hafa ráðist á A inni í herbergi hans. Áður hefði hann spurt A hvar peningarnir sem hann stal frá D væru og hefðu þeir þá rifist og síðan hefði þetta gerst. Hann kvaðst hafa haft hafnaboltakylfu með til að ögra A og hefði hann beitt kylfunni á A. A hefði viðurkennt brot sitt gagnvart D. Ákærði kvað C einnig hafa slegið og sparkað í A og hefði hann örugglega frekar verið að veita sér liðsinni heldur en að ganga á milli þeirra A. Ákærði kvað C hafa tekið myndirnar sem sýndu árásina á A. Ákærði kveðst sjá mikið eftir verknaði sínum. Hann kvaðst vera búinn að vera í meðferð frá því í  nóvember 2006. Hann sæki AA fundi og sé ekki í neyslu.

Vitnið A kvaðst hafa verið sofandi heima hjá sér umrædda nótt og verið undir áhrifum áfengis er ákærði og C komu inn til hans. Kvaðst hann hafa orðið fyrir líkamsárás þennan morgun. Hann kvaðst ekki muna mikið. Hann kvaðst muna eftir höggum fyrst frá ákærða og svo hefði C sparkað nokkrum sinnum í hausinn á honum. Því hefði hann sagt lögreglu frá í skýrslutöku. Hann kvaðst aldrei hafa séð nein barefli og ekki kvaðst hann muna hvaða skýringu ákærði og C gáfu á komu sinni til hans. Hann hefði lítið munað eftir sér eftir fyrsta höggið frá ákærða og þangað til lögreglan kom á vettvang. Ölvun hans hefði spilað þar inn í. Hann hefði reynt að verja sig með höndunum en ekki mundi hann hvort hann reyndi að slá frá sér. Þá mundi hann ekki hvað þetta stóð lengi yfir. Hann hefði munað eftir fyrstu höggum ákærða og þegar C sparkaði í hann. Svo mundi hann eftir því er lögreglan kom. A kvaðst hafa verið fjóra  mánuði að ná sér eftir árásina og hefði hann misst fjóra mánuði úr vinnu. Hann væri nú búinn að ná sér Hann kvaðst vera í góðu sambandi við ákærða í dag og væru þeir nú vinir. Ákærði hefði hjálpað honum mikið við að vinna bug á vandamálum hans. Hann hafi fyrirgefið ákærða.

Skúli Jónsson lögregluvarðstjóri kvaðst hafa farið á vettvang. Faðir A hefði vísað lögreglu inn í herbergi A. A hefði setið í stól með blóð á höfði. Bak við hurð hefði ákærði staðið æstur og ber að ofan og í hnipri bak við hurð hefði C verið skelkaður. Þarna hefði greinilega eitthvað mikið verið búið að ganga á. Blóð hefði verið á gólfi og sjónvarp verið brotið. Ákærði hefði sagst hafa verið að hefna aðfarar að D þar sem peningum var stolið. Vitnið kvað A hafa verið sendan í sjúkrabíl á sjúkrahús, en ákærði og C hefðu verið færðir á lögreglustöð. Ákærði hefði virst ölvaður. C hefði sagst hafa gengið á milli og fengið högg frá kylfu.

Guðmundur Sigurðsson lögreglumaður fór í útkallið með vitninu Skúla. Hann bar um atvik á sömu lund og vitnið Skúli í meginatriðum.

Eiríkur Valberg rannsóknarlögreglumaður  kvaðst hafa komið að rannsókn málsins. Hann hefði tekið skýrslu af A. A hefði lítið munað eftir atvikum. Hann hefði verið ölvaður og nývaknaður. Það eina sem hann hefði munað var að ákærði stóð yfir honum með kylfu. A hefði ekki minnst á að einhver annar hefði einnig veitt honum þá áverka sem hann hlaut. Vitnið kvaðst  ekki hafa talið ástæðu til þess að yfirheyra C frekar eftir tilkomu myndanna, enda hefðu hvorki ákærði né A talað um að C hefði tekið þátt í árásinni. C hefði sagst hafa gengið í milli og samkvæmt myndunum gæti hann hafa gert það.  Ekkert í málinu hefði bent til þátttöku C í árásinni.

Vitnið C kom fyrir dóminn og kvaðst hann hafa verið svo heldópaður á þessum tíma að hann muni ekkert. Hann mundi hvorki aðdragandann né hvað gerðist heima hjá A. Allt væri í þoku. Hann kvað rétt eftir sér haft í skýrslu er hann gaf hjá lögreglu. Þá hefði hann munað allt betur.

II.

Með skýlausri játningu ákærða, sem samrýmist framlögðum sakargögnum, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um stórhættulega líkamsárás sem fólst í því að slá A með hafnaboltakylfu í höfuð og líkama og slá hann hnefahögg í höfuð með þeim afleiðingum sem í ákæru er nánar lýst. Með broti sínu hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Ákærði á sér engar málsbætur. Ákærði á nokkurn sakaferil að baki. Þann 30. janúar 2003 var ákærði með dómi Hæstaréttar Íslands dæmdur í 22 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dóminum var staðfest refsiákvörðun sem tekin var með dómi Héraðsdóms Reykjaness 19. júní 2002. Þann 29. september 2005 gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt vegna ölvunaraksturs og fíkniefnabrots. Hlaut hann 98.000 króna sekt og ökuréttarsviptingu í 8 mánuði. Loks gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt vegna sviptingaraksturs þann 6. júní 2006 og hlaut hann 60.000 króna sekt. Þann 30. mars 2004 var ákærða veitt skilorðsbundin reynslulausn í 2 ár á óafplánuðum eftirstöðvum refsingar samkvæmt fyrrnefndum hæstaréttardómi, 330 dögum. Fram er komið að hann hefur ekki afplánað þær eftirstöðvar. Með broti því er ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir rauf ákærði skilorð reynslulausnarinnar. Eftir 2. málslið 60. gr., sbr. 42. gr. almennra hegningarlaga, kemur einkum til álita að láta reynslulausn sem rofin hefur verið haldast þegar nýtt brot hefur ekki verið framið af ásettu ráði eða varðar aðeins sektum. Þegar litið er til brots ákærða kemur ekki til álita að láta reynslulausn haldast. Refsing ákærða verður ákveðin fyrir brot hans sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir og óafplánaða refsingu hans samkvæmt fyrrnefndum hæstaréttardómi í einu lagi eftir 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna, sbr. og 78. gr. laganna að því er varðar sáttina er ákærði gekkst undir 6. júní 2006.  Við ákvörðun refsingar ber að taka mið af því að árás ákærða var og til þess fallin að valda líkamstjóni, sem reyndist þó minna en það hefði getað orðið. Þá ber að taka mið af hreinskilnislegri játningu ákærða og því að hann hefur samþykkt að greiða árásarþola þær bætur sem hann krefst. Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Ekki kemur til álita að skilorðsbinda refsinguna.

Í málinu krefst A, [kt.], skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 664.200, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2005 til 6. júlí 2006 en með dráttarvöxtum frá þeim degi, sbr. 9. sbr. 6. gr. sömu laga. Þá krefst skipaður réttargæslumaður A, Valgerður Valdimarsdóttir hdl., réttargæslulauna. Bótakrafan sundurliðast svo:

Þjáningabætur í 60 daga, 1.070 krónur á dag

 

samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga

  64.200 krónur

Miskabætur samkvæmt 26. gr. sömu laga

600.000 krónur

Samtals           

664.200 krónur.

              

Ákærði samþykkir kröfuna eins og hún er sett fram og er hún tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Eftir úrslitum málsins verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, sem nemur alls  350.700 krónur, sem skiptist í kostnað samkvæmt yfirliti sækjanda, 25.700 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, 125.000 krónur. Er virðisaukaskattur meðtalinn í málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns.

Dómsuppsaga dróst vegna veikinda dómara.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

DÓMSORÐ

Ákærði, Gunnar Jóhann Gunnarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði A 664.200, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2005 til 6. júlí 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 350.700 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, 125.000 krónur.