Hæstiréttur íslands
Mál nr. 251/2010
Lykilorð
- Rán
|
|
Fimmtudaginn 7. október 2010. |
|
Nr. 251/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Ólafi Gottskálkssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Rán.
Ó var sakfelldur fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili A í félagi við annan mann og ráðist að A með höggum og spörkum í höfuð og líkama og haft á brott með sér fartölvu. Refsing Ó var ákveðin 12 mánuðir með hliðsjón af 1. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. sömu greinar. Vegna alvarleika brotsins voru ekki talin efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og miskabætur lækkaðar.
Við meðferð málsins í héraði neitaði ákærði sök, en samkvæmt greinargerð hans fyrir Hæstarétti leitar hann einungis endurskoðunar á refsiákvörðun héraðsdóms og dæmdum miskabótum.
Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Er litið svo á að hann krefjist staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um skaðabætur, þar með talinn málskostnað, sér til handa.
Í máli þessu er ákærði uppvís að húsbroti og ráni með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili brotaþola í félagi við annan mann og ráðist að brotaþola með höggum og spörkum í höfuð og líkama og haft á brott með sér fartölvu. Með hinum áfrýjaða dómi var sakfellt fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga og meðákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi en ákærði 10 mánaða. Þá voru ákærðu dæmdir óskipt til að greiða brotaþola 375.300 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í héraðsdómi, þar af námu miskabætur 300.000 krónum.
Samkvæmt sakavottorði á ákærði að baki nokkurn sakaferil allt frá árinu 1985 er hann var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals og þjófnað. Hefur ákærði átta sinnum gengist undir greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot og einu sinni verið dæmdur fyrir slíkt brot. Þá hefur hann tvisvar undirgengist greiðslu sektar fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Loks sætti hann sekt 1999 fyrir líkamsárás.
Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði framdi brotið í félagi við annan mann og að brotið var til þess fallið að vekja ótta hjá brotaþola. Verður ráðið af gögnum málsins að brotavilji ákærða hafi verið einbeittur. Er þetta metið ákærða til refsiþyngingar. Samkvæmt því og með vísan til 1. og 6. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. sömu greinar þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Vegna alvarleika brotsins eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Gottskálksson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 205.886 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2010.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 25. ágúst 2009, gegn Ólafi Gottskálkssyni, kt. 120368-4199, Prestagarden 11, Ulvik, Noregi, og X, kt. [...], [...], Reykjanesbæ, „fyrir húsbrot og rán, með því að hafa sunnudaginn 8. febrúar 2009, ruðst í heimildarleysi inn á heimili A, að [...], Reykjanesbæ, ákærði X slegið A ítrekað hnefahöggum í höfuð og bringu, íklæddur hönskum úr hörðu efni, þannig að A rotaðist, féll í gólfið og réðust ákærðu báðir að honum með höggum og spörkum í höfuð og líkama en höfðu síðan á brott með sér Apple MacBook fartölvu að verðmæti um krónur 120.000. Afleiðingar af árásinni voru að A hlaut sprungu á neðri vör og yfirborðsáverka á andliti, hálsi og bringu.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa á hendur ákærðu:
Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 1.764.420 auk vaxta frá 8. febrúar 2009 í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta skv. IV. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar“.
Ákærði Ólafur Gottskálksson krefst aðallega sýkna en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að ætlað brot hans verði heimfært til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu A verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Loks krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákærði X krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að ætlað brot hans verði heimfært til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu A verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu af bótakröfunni. Til þrautavara krefst ákærði þess að bótakrafan verði lækkuð verulega. Loks krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dagsettri 8. febrúar 2009 kom A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöð þann sama dag ásamt föður sínum og tilkynnti um líkamsárás, húsbrot og þjófnað á heimili sínu að Sólvallagötu 40a um kl. 16:00 þann dag. Hann kvað ákærðu þessa máls hafa ruðst inn á heimili sitt og þar hafi ákærði X tuskað hann til og lamið þannig að brotaþoli skrámaðist í andliti og kenndi til í brjósti. Ákærði Ólafur Gottskálksson hafi síðan tekið á brott með sér Apple MacBook fartölvu ásamt hleðslutæki en munina hefði brotaþoli sagst hafa keypt tveimur árum fyrr og greitt fyrir 122.000 krónur í Apple versluninni. Ákærðu hefðu sagt þetta vera greiðslu upp í 24.000 króna skuld brotaþola við stúlku úti í bæ. Ákærðu hafi síðan haldið á brott með tölvuna. Brotaþoli hafi sagt vin sinn, B, hafa verið í íbúðinni umrætt sinn og orðið vitni að árásinni.
Brotaþoli hafi ætlað að kæra ákærða Ólaf Gottskálksson fyrir stuld á Sony Ericson K660 gsm síma, sem hann kvaðst hafa gleymt ásamt úlpu og húfu í bifreið kunningja síns en ákærði Ólafur Gottskálksson hefði hringt í símann og sagst ætla að láta brotaþola hafa símann en ekki gert það.
Lögreglumaður hefði haft símasamband við ákærða Ólaf Gottskálksson, sem sé frændi brotaþola, og hafi hann svarað en ekkert viljað ræða málið og skellt á. Lögreglumaðurinn hefði haft upplýsingar um að ákærðu hygðust báðir flytja til Noregs og færu þangað með flugi næsta morgunn.
Aðalvarðstjóri lögreglunnar hefði haft símasamband við B og hann hefði lýst atvikum þannig að hann hefði setið í stofunni heima hjá brotaþola og séð þegar ákærðu ruddust inn á heimilið. Ákærði X hefði lamið brotaþola sundur og saman og ákærði Ólafur Gottskálksson hefði síðan tekið tölvu brotaþola og haft hana á brott með sér.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Kristínar Lilju Samande Eyglóardóttur heilsugæslulæknis dagsett 27. febrúar 2009. Þar kemur fram að brotaþoli í máli þessu kom á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þann 8. febrúar 2009 og sagði frá því að brotist hefði verið inn hjá honum og tveir menn ráðist á hann. Annar árásarmannanna hefði verið í hörðum mótorkrosshönskum og hefði hann kýlt ítrekað í andlit og bringu brotaþola. Þá hafi brotaþoli lýst því að hann hefði verið dreginn eftir gólfinu og rotast í örfáar sekúndur en þegar hann hefði rankað við sér, hefðu mennirnir enn verið að lúskra á honum.
Brotaþoli hafi kvartað undan höfuðverk og miklum verk yfir miðri bringu og víðar. Hafi hann fengið mikinn verk við það að anda djúpt. Við skoðun hafi komið í ljós sárfleiður í andliti og á vinstra kinnbeini sé mynstur innprentað í húð sem geti samræmst áverkalýsingu brotaþola. Þá hafi brotaþoli verið með skrámu á hægra kinnbeini. Yfir vinstra kinnbeini hafi verið þreifieymsli, neðri vör hafi verið sprungin, bólga hægra megin og efri vör bólgin hægra megin. Engin önnur áverkamerki hafi sést í munnholi og þá hafi ekki komið blóð úr eyrum. Hljóðhimnur hafi verið eðlilegar beggja vegna. Hafi mátt sjá roða og mar vera að koma út á nokkuð stóru svæði á hálsi vinstra megin sem teygi sig frá hálsi niður á bringu. Þá sé um lófastórt mar yfir bringubeini og hafi brotaþoli verið mjög aumur þar við þreifingu. Stórar skrámur hafi verið víða á brjóstkassa og baki og hafi brotaþoli víða verið aumur viðkomu, sérstaklega yfir neðstu rifjum vinstra megin og við rif beggja vegna við áverka á bringubeini, en lungnahulstur hafi verið eðlileg. Loks staðhæfir læknirinn að áverkarnir geti vel samrýmst lýsingu brotaþola á árás.
III.
Verður nú rakinn framburður ákærðu og vætti brotaþola og annarra vitna fyrir dóminum.
Ákærði Ólafur Gottskálksson kvaðst aldrei hafa komið heim til A á [...] í Reykjanesbæ. Hann kvaðst vera skyldur A en aldrei hafa hitt hann og kannaðist ekki við að hafa verið að innheimta hjá honum skuld. Aðspurður gat ákærði enga skýringu gefið á lýsingu brotaþola og vitna á því sem gerðist umrætt sinn.
Ákærði kvaðst hafa farið til Noregs 9. febrúar 2009 en kannaðist við að hafa verið í Reykjanesbæ daginn áður og hefði sá dagur farið í undirbúning fyrir búferlaflutning fjölskyldunnar. Hann kvaðst kannast við meðákærða X en kvaðst ekki hafa hitt hann þann 8. febrúar 2009. Aðspurður um ástand sitt umræddan dag, kvaðst ákærði hafa verið edrú.
Aðspurður um þá lýsingu brotaþola um að ákærði hefði skömmu áður tekið að sér að fara með farsíma og úlpu í eigu brotaþola sem hann hefði síðan aldrei fengið aftur, kvaðst ákærði hafa verið staddur í Bryggjuhverfinu einhverjum mánuðum áður og verið á leið í burtu þegar einhverjir strákar, sem könnuðust við hann, hefðu spurt hann hvort hann væri að fara til Keflavíkur. Þegar ákærði hefði játað því, hefðu þeir spurt hvort hann væri tilbúinn til að taka með sér úlpuna og farsíma til manns, sem ákærði kannaðist ekki við. Þá hefðu strákarnir spurt ákærða hvort hann kannaðist við C og þegar ákærði hefði svarað því játandi, hefðu þeir beðið hann að fara með munina til C, því hann væri vinur brotaþola sem ætti munina. Kvaðst ákærði hafa orðið við þessu en kvaðst ekki vita hvað síðar varð um munina.
Ákærði kvaðst fyrst hafa heyrt af þessu máli nokkrum mánuðum eftir að það átti að hafa gerst þegar lögreglan hafði samband við hann og birti honum ákæru í málinu. Hann hefði hins vegar frétt af útgáfu ákærunnar eftir að umfjöllun birtist um málið í fjölmiðlum.
Aðspurður kvaðst ákærði vita hver D er en kvaðst hins vegar ekki hafa átt samskipti við hann í mörg ár og neitaði að hafa rukkað D um peninga. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa sagt brotaþola að nefndur D hefði fyrst borgað skuld þegar ákærði tók af honum tölvu.
Aðspurður um það, sem hann sagði við skýrslutöku hjá lögreglu 12. maí 2009 um að hann hefði heyrt orðróm um þetta tölvumál fyrir löngu, kvað ákærði E, bróður meðákærða X, hafa sagt sér að lögreglan hefði framkvæmt húsleit heima hjá þeim bræðrum til þess að leita að tölvu. Hins vegar hefði ákærði ekki vitað til þess að hann væri sjálfur bendlaður við það mál.
Ákærði X kannaðist ekki við að hafa komið heim til brotaþola umrætt sinn og kvaðst ekki hafa verið að innheimta skuld með meðákærða. Hann kvaðst hins vegar ekki muna vel hvar hann var þennan dag en taldi líklegast að hann hefði verið heima hjá sér. Ákærði kvað meðákærða vera mann systur sinnar en kvaðst ekki hafa hitt hann þann 8. febrúar 2009. Þá kvaðst hann hvorki þekkja brotaþola né B og kannaðist ekki við að hafa haft samband þá. Kvað ákærði lýsingar brotaþola og vitna á atvikum umrætt sinn vera rangar og kunni hann engar skýringar á þeim.
Ákærði kvaðst hafa heyrt af málinu áður en hann gaf skýrslu sína hjá lögreglu í maí 2009. Þá kvað hann lögreglu hafa komið heim til hans og E, bróður hans, í febrúar 2009 og krafist þess að fá að leita þar vegna tilkynningar um líkamsárás og þjófnað á tölvu. Lögreglan hefði leitað að tölvunni en ekkert fundið.
Ákærði kvaðst nú vera á sjó og búa hjá móður sinni. Þá kvaðst hann vera í AA-samtökunum.
A, brotaþoli í málinu, kvaðst þekkja ákærða Ólaf Gottskálksson í sjón en þeir séu skyldir. Hann kvaðst þekkja ákærða X sem litla bróður manna, sem heita E og F, en F hafi verið með vitninu í skóla. Kvaðst brotaþoli þekkja þá bræður alla vel í sjón og kvað engan vafa leika á því að annar árásarmannanna hefði verið ákærði X.
Brotaþoli kvaðst hafa setið inni í stofu ásamt G og B þegar dyrabjöllunni var hringt umrætt sinn. Brotaþoli kvaðst búa í fjölbýlishúsi og hefði hann opnað með dyrasímanum og síðan opnað fram á gang. Ákærðu hefðu komið að dyrunum og sagt að brotaþoli skuldaði annarri manneskju 24.000 krónur. Hefðu þeir sagst vera komnir til þess að sækja þessa peninga. Brotaþoli kvaðst hafa staðið við hurðina og sagt ákærðu að þeir væru óvelkomnir og að hann væri ekki með peninga á sér. Hann kvaðst hafa sagt við ákærðu að hann gæti borgað þeim eftir þrjá daga. Ákærðu hefðu þá fleygt brotaþola langt inn á gang og síðan ráðist á hann. Ákærði Ólafur Gottskálksson hefði þrykkt brotaþola inn en ákærði X hefði kýlt brotaþola ítrekað. X hefði verið íklæddur mótorhjólahanska með harðri brynju og hefði hann kýlt brotaþola með hanskaklæddri hendinni bæði í líkama og andlit. Brotaþoli kvaðst hafa rotast í stutta stund en þegar hann rankaði við sér hefði hann verið kominn í gólfið. Ákærði Ólafur Gottskálksson hefði tekið tölvu brotaþola og minnti brotaþola að X hefði tekið hleðslutækið. Brotaþoli kvaðst hafa beðið þá um að láta tölvuna vera en ákærði Ólafur Gottskálksson hefði sagt að þetta væri eina leiðin til að fá brotaþola til að borga og tiltók að það hefði verið eina leiðin til að fá D til að borga að taka tölvuna af honum. Tók hann fram að það væri eins gott að brotaþoli blandaði lögreglunni ekki í þetta. Brotaþoli kvað G hafa beðið ákærðu um að fá að komast út en ákærðu hefðu bannað henni það.
Lýsti brotaþoli ástandi ákærðu þannig að þeir hefðu verið vel lyfjaðir. Hins vegar hefðu hvorki hann sjálfur né G verið undir áhrifum umrætt sinn en kvaðst ekki geta fullyrt um ástand B. Hins vegar kvað brotaþoli enga fíkniefnaneyslu hafa farið fram í íbúðinni þennan dag.
Brotaþoli kvaðst hafa hringt strax í föður sinn sem hefði komið á staðinn og þeir síðan fyrst farið til lögreglunnar en síðan á heilsugæslustöðina. Aðspurður um áverka sína, kvaðst brotaþoli allur hafa verið marinn og aumur eftir högg og spörk ákærðu. Kvaðst hann hafa verið lengi að ná sér eftir árásina og þá sérstaklega andlega. Væri svo komið að hann treysti sér ekki til að búa lengur í Keflavík og væri hann því fluttur í burtu en kvaðst ekki þora að gefa upp nýtt heimilisfang sitt.
Sérstaklega aðspurður kvaðst brotaþoli ekki vera í nokkrum vafa um að mennirnir, sem réðust inn til hans umrætt sinn, væru ákærðu í þessu máli.
Brotaþoli kvaðst ekki hafa nefnt G til sögunnar þegar hann lýsti atvikum hjá lögreglu síðar þennan sama dag vegna hræðslu hennar við að þurfa að bera vitni í málinu. Þegar lögreglan hefði síðar spurt sérstaklega um það, hverjir voru á staðnum umrætt sinn, kvaðst brotaþoli hafa sagt frá G. Aðspurður kvað brotaþoli lögreglu hafa sagt sér að lögreglan hefði leitað að tölvunni hjá ákærða Ólafi Gottskálkssyni en kvaðst ekki vita til þess að leitað hefði verið hjá ákærða X.
Vitnið, G, kvaðst þekkja þá brotaþola og ákærða X. Hins vegar kvaðst hún einungis hafa þekkt ákærða Ólaf Gottskálksson í sjón þegar þetta var. Vitnið kvaðst hafa verið heima hjá brotaþola umrætt sinn ásamt þeim brotaþola og B. Þau B hefðu verið nýkomin til brotaþola þegar vinur brotaþola hringdi í hann og sagði honum að ákærði X væri með símann hans. Brotaþoli hefði þá látið loka símanum og um það bil fimmtán mínútum síðar hefði dyrabjöllunni verið hringt.
Eftir að brotaþoli hafði opnað dyrnar að íbúðinni, kvaðst vitnið hafa séð hann koma fljúgandi inn í íbúðina. Síðan hefðu báðir ákærðu komið inn og farið að rífast við brotaþola. Ákærði X hefði verið með mótorhjólahanska á höndunum og hefði hann kýlt brotaþola í andlitið og sagt að hann skuldaði einhverri stelpu peninga. Brotaþoli hefði rotast við högg ákærða X, dottið í sófa og þaðan runnið í gólfið. Þegar brotaþoli hefði verið kominn í gólfið, hefðu báðir ákærðu ítrekað kýlt hann og sparkað í hann þrátt fyrir að brotaþoli hefði beðið þá um að hætta. Ákærði Ólafur Gottskálksson hefði tekið svo til orða að hann væri bara að kitla hann og síðan hefðu ákærðu haldið áfram að kýla brotaþola og sparka í hann. Þeir hefðu einnig haldið áfram að rífast um skuldina og ákærði Ólafur Gottskálksson hefði sagt að hann myndi hækka skuldina upp í 60 en brotaþoli hefði sagt að hann myndi ekki borga svo mikið. Vitnið kvaðst hafa beðið um að fá að komast út en ákærði Ólafur Gottskálksson hefði sagt henni að bíða aðeins. Þegar brotaþoli hefði beðið vitnið um að hringja á lögregluna, hefðu ákærðu tekið tölvu brotaþola og farið burt. Vitnið kvað B hvorki hafa sagt né aðhafst neitt meðan á þessu stóð.
Vitnið kvaðst hafa verið mjög hrædd við að bera vitni í þessu máli, einkum af ótta við ákærða X. Hins vegar hefði henni ekki verið hótað í tengslum við málið. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið vera fullviss um að mennirnir, sem réðust á brotaþola umrætt sinn, væru ákærðu í máli þessu.
Aðspurð um ástand þeirra B umrætt sinn, kvað hún þau bæði hafa verið edrú.
Vitnið, Kristín Lilja Samande Eyglóardóttir læknir, staðfesti fyrir dómi vottorð sitt sem liggur frammi í málinu. Kvað hún brotaþola hafa lýst því að tveir menn hafi ráðist á hann og barið hann í andlit og líkama og hent honum í gólfið. Brotaþoli hefði einnig talað um hanska og hefði brotaþoli verið með mynstur í skrámu á hægra kinnbeini sem samrýmdist því að það væri eftir hanska. Gætu áverkar á brotaþola samrýmst því að árásarmaðurinn hefði verið með mótorkrosshanska á höndum.
Vitnið, Skúli Björnsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, kvað brotaþola hafa komið á lögreglustöðina ásamt föður sínum þann 8. febrúar 2009 og þá verið lemstraður og bólginn í andliti og í miklu uppnámi. Brotaþoli hefði lýst því að þennan sama dag hefðu ákærðu ruðst inn á heimili hans og lamið hann illilega og síðan hefði ákærði Ólafur Gottskálksson haft tölvu brotaþola á brott með sér. Þá hefði brotaþoli nefnt að B hefði verið á staðnum umrætt sinn. Vitnið kvaðst hafa hringt í B síðar sama dag og hefði lýsing hans á atvikum í megindráttum verið í samræmi við lýsingu brotaþola. Aðspurður kvaðst vitnið ekki vita til þess að fartölva brotaþola hefði komið í leitirnar.
Vitnið, B, kvaðst þekkja brotaþola og vita hverjir ákærðu eru. Hann kvaðst ráma í að hafa verið á heimili brotaþola ásamt G umrætt sinn þegar ákærðu réðust þangað inn. Vitnið kvaðst hafa setið í stofunni þegar dyrabjöllunni var hringt og síðan hefði hann séð brotaþola koma fljúgandi inn í stofuna. Í kjölfarið hefði komið til áfloga milli ákærðu og brotaþola með þeim hætti að ákærðu hefðu ráðist á brotaþola með hnefahöggum. Aðspurður mundi vitnið ekki hvort ákærðu spörkuðu einnig í brotaþola. Vitnið rámaði hins vegar í að annar ákærðu hefði verið með mótorkrosshanska á höndum sér en var ekki viss um hvor ákærðu það var. Vitnið kvað ákærðu síðan hafa tekið tölvu brotaþola með sér. Vitnið kvaðst hafa verið mjög hræddur umrætt sinn og kvaðst ekki geta lýst orðaskiptum milli ákærðu og brotaþola að öðru leyti en því að ákærðu hefðu talað um einhverja skuld.
Borin var undir vitnið frásögn hans, sem eftir honum er höfð í rannsóknarskýrslu Skúla Björnssonar, og staðfesti vitnið að henni væri þar rétt lýst.
Vitnið, H faðir brotaþola, kvað brotaþola hafa hringt í sig 8. febrúar 2009 og sagt ákærðu hafa ruðst inn á heimili sitt, barið sig og tekið muni í sinni eigu. Vitnið kvaðst hafa farið með syni sínum á lögreglustöðina síðar sama dag þar sem sonur hans lagði fram kæru vegna þessa. Vitnið kvaðst hafa hringt í ákærða Ólaf Gottskálksson og hefði hann verið æstur og sagst hafa farið heim til brotaþola til þess að rukka 24.000 króna skuld fyrir einhverja stelpu. Tók vitnið fram að uppeldissyni sínum hefði verið hótað vegna þessa máls.
IV.
Niðurstaða.
Við munnlegan málflutning við aðalmeðferð málsins gerði verjandi ákærða Ólafs Gottskálkssonar verulegar athugasemdir við það, að nákvæmt lýsing á efni ákærunnar skyldi birtast í dagblaði áður en ákæran var birt fyrir skjólstæðingi hans. Óskaði verjandinn eftir því að dómurinn tæki afstöðu til athugasemda ákærða að þessu leyti enda væri um að ræða brot gegn 5. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008. Það er mat dómsins að athugasemdir þessar hafi ekki efnislega þýðingu við úrlausn máls þessa auk þess sem engin sönnun liggur fyrir um ætlaðan ólögmætan leka upplýsinga. Er því ekki unnt að taka afstöðu til framangreindra athugasemda í málinu.
Báðir ákærðu hafa staðfastlega neitað sök, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dóminum, og kannast hvorugur við að hafa nokkurn tíma komið á heimili brotaþola. Brotaþoli hefur hins vegar lýst því að báðir ákærðu hafi ruðst inn á heimili hans, barið hann og sparkað í hann og loks hafi ákærði Ólafur Gottskálksson tekið tölvu brotaþola og haft hana á brott með sér. Lýsing brotaþola fær stuðning í vætti vitnanna G og B, sem bæði hafa borið um að hafa verið stödd á heimili brotaþola umrætt sinn. Hafa bæði brotaþoli og vitnið G borið um að ákærðu hafi bæði lamið brotaþola og sparkað í hann en vitnið B kvaðst hér fyrir dóminum ekki geta fullyrt hvort um spörk hefði verið að ræða. Hefur lýsing brotaþola og vitnanna á atvikum málsins verið í meginatriðum á sama veg hér fyrir dóminum og í lögregluskýrslum auk þess sem lýsingar þeirra eru samhljóða í öllum aðalatriðum. Hafa þau öll tekið fram að þau séu fullviss um að árásarmennirnir séu ákærðu í máli þessu.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð dagsett 8. febrúar 2009 þar sem rakin er atvikalýsing brotaþola að því er varðar umrædda árás, sem er í samræmi við framburð hans hjá lögreglu og hér fyrir dóminum. Þá er áverkum brotaþola lýst í vottorðinu og þeir sagðir vel geta samrýmst lýsingu hans á árásinni. Með framangreindu læknisvottorði telst sannað að brotaþoli fékk umrædda áverka umrætt sinn. Þegar litið er til staðfasts vættis brotaþola og vættis vitnanna B og G, sem eru í öllum aðalatriðum á sama veg, telst sannað að ákærðu ruddust inn á heimili brotaþola umrætt sinn, þrátt fyrir að brotaþoli segði þeim að þeir væru ekki velkomnir á heimili hans, og veittu honum högg í líkama og andlit og þá er með vætti brotaþola og vitnisins G sannað að ákærðu hafi einnig sparkað í brotaþola. Með sama hætti og með vísan til þess, sem segir í framlögðu læknisvottorði um að brotaþoli hafi verið með mynsturfar á vinstra kinnbeini við komu á heilsugæslustöð sama dag, telst sannað að ákærði X var íklæddur mótorhjólahanska við barsmíðarnar. Þá þykir með vætti framangreindra vitna sannað að ákærðu höfðu fartölvu brotaþola á brott með sér umrætt sinn. Ákærðu hafa með þessari háttsemi sinni gerst sekir um húsbrot og rán eins og þeim er gefið að sök í ákæru. Verður að telja að um samverknað ákærðu hafi verið að ræða og er háttsemi þeirra rétt færð til refsiákvæða en ránsbrotið tæmir sök gagnvart húsbroti.
Refsing.
Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu verður að líta til þess að þeir ruddust í sameiningu inn á heimili brotaþola og brutu þannig freklega gegn friðhelgi heimilis hans. Þá beittu þeir brotaþola ofbeldi og er það mat dómsins að ákærðu eigi sér engar málsbætur.
Upplýsingar úr sakavottorði ákærða Ólafs Gottskálkssonar hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans í þessu máli. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi. Engin efni þykja til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði X er fæddur [...] 1988. Samkvæmt sakavottorði hans gekkst hann undir lögreglustjórasátt 6. september 2006 til greiðslu 37.500 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot. Þann 6. mars 2007 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir líkamsárás og þann 22. október 2008 var hann á ný dæmdur fyrir líkamsárás og þá gert að sæta 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár. Með síðarnefnda dóminum var skilorðsdómurinn frá 6. mars 2007 tekinn upp og refsing dæmd í einu lagi. Með dómum uppkveðnum þann 19. nóvember 2008 og 29. júní 2009 var ákærði dæmdur til sektargreiðslna fyrir fíkniefnalagabrot. Loks var ákærði dæmdur til greiðslu 150.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot þann 21. janúar 2010. Brot hans nú eru hegningarauki við dómana frá 29. júní 2009 og 21. janúar 2010 og verður honum því gerð refsing með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hefur ákærði með brotum sínum nú rofið skilorð 2 mánaða fangelsisdóms sem hann hlaut 22. október 2008. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga verður sá dómur nú tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu framanrituðu virtu telst refsing ákærða X hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði en engin efni þykja til að skilorðsbinda refsinguna.
Skaðabætur.
A gerir skaðabótakröfu í málinu. Endanleg kröfugerð hans er á þann veg að ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð 1.764.420 krónur með vöxtum samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. febrúar 2009 og dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla sömu laga frá því að mánuður var liðinn frá birtingu bótakröfunnar auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar. Kröfuna sundurliðar brotaþoli þannig að hann krefjist 1.500.000 króna í miskabætur, 120.000 króna í skaðabætur vegna töku ákærðu á fartölvu hans og 144.420 króna vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu. Er tekið fram í framlagðri skaðabótakröfu að komi til aðalmeðferðar sé krafist þóknunar til handa réttargæslumanni brotaþola eftir síðar framkominni tímaskýrslu lögmanns.
Miskabótakrafan er byggð á ákvæðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir ólögmætri meingerð sem ákærðu beri ábyrgð á. Atlaga ákærðu hafi verið tilefnislaus, ofsafengin og unnin í félagi tveggja manna sem hafi ráðist inn í friðhelgi heimilis brotaþola til þess eins að valda honum sem mestum sársauka. Þá kemur fram í bótakröfunni að krafist sé bóta vegna sjúkrakostnaðar vegna árásarinnar samkvæmt reikningum sem lagðir verði fram við þingfestingu málsins. Brotaþoli krefst einnig skaðabóta úr hendi ákærðu vegna töku þeirra á fartölvu hans umrætt sinn. Krafa brotaþola vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu í máli þessu er byggð á ákvæðum 1. mgr. 172. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og þá hefur lögmaður hans lagt fyrir dóminn vinnuskýrslu sína.
Ekki er fallist á það með ákærðu að miskabótakrafa brotaþola sé svo vanreifuð að það varði frávísun hennar frá dómi. Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir húsbrot og rán á heimili brotaþola og hafa þeir með brotum sínum valdið honum miska og á hann því rétt á bótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Til stuðnings kröfu sinni um skaðabætur vegna hinnar stolnu fartölvu, hefur brotaþoli lagt fram reikninga vegna MacBook tölva. Fram er komið að tölvur af sömu gerð og fartölva brotaþola eru ekki lengur fáanlegar og styðst brotaþoli því við verð tölva, sem hann telur sambærilegar. Það er mat dómsins að ekki verði við framangreind gögn miðað og þar sem öðru verðmati á hinni stolnu tölvu er ekki til að dreifa verður bótakröfu brotaþola að þessu leyti vísað frá dómi vegna vanreifunar.
Leitt hefur verið í ljós að brotaþoli hafði kostnað af því að halda fram kröfu sinni í málinu vegna lögmannsaðstoðar, bæði við gerð bótakröfu og meðferð máls þessa. Telst kostnaður hans vegna gagnaöflunar og við gerð bótakröfu hæfilega ákveðinn 75.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Verður ákærðu gert að greiða brotaþola þennan kostnað óskipt. Ekki verður dæmd þóknun vegna réttargæslu brotaþola enda hefur ekki komið til skipunar réttargæslumanns brotaþola í málinu. Hins vegar verður litið á kröfu brotaþola sem málskostnaðarkröfu, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður ákærðu því gert að greiða brotaþola óskipt 225.900 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, í málskostnað.
Til stuðnings vaxtakröfu sinni vísar brotaþoli til vaxta samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 án frekari skýringa. Verður ekki séð að sú tilvísun eigi hér við og verður vaxtakröfunni því vísað frá dómi sem vanreifaðri að þessu leyti. Ákærða X var birt bótakrafan 12. maí 2009 en ákærða Ólafi Gottskálkssyni 14. maí 2009. Ber að miða upphaf dráttarvaxta við þau tímamörk.
Að öllu framanrituðu virtu ber ákærðu að greiða brotaþola óskipt 375.300 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2009 gagnvart ákærða X en frá 14. júní 2009 gagnvart ákærða Ólafi Gottskálkssyni, til greiðsludags.
Sakarkostnaður.
Ákærði Ólafur Gottskálksson er dæmdur til að greiða skipuðum verjanda sínum, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni hrl., 407.875 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í málsvarnarþóknun. Ákærði X er dæmdur til að greiða skipuðum verjanda sínum, Guðrúnu Sesselju Arnardóttur hrl., 407.875 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í málsvarnarþóknun. Samkvæmt gögnum málsins nemur annar sakarkostnaður málsins 15.000 krónum vegna öflunar læknisvottorðs vegna brotaþola og verður ákærðu gert að greiða þann kostnað óskipt.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Júlíus Kr. Magnússon, ftr. lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Ólafur Gottskálksson, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærðu greiði óskipt A 375.300 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 12. júní 2009 gagnvart ákærða X en frá 14. júní 2009 gagnvart ákærða Ólafi Gottskálkssyni, til greiðsludags.
Ákærðu greiði óskipt A 225.900 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, í málskostnað.
Ákærðu greiði óskipt sakarkostnað að fjárhæð 15.000 krónur.
Ákærði, Ólafur Gottskálksson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 407.875 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 407.875 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.