Hæstiréttur íslands
Mál nr. 638/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Matsgerð
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 4. janúar 2007. |
|
Nr. 638/2006. |
Guðmundur Ingi Kristinsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Kærumál. Matsgerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá héraðsdómi.
G krafðist úrskurðar um að tveir matsmenn, sem dómkvaddir höfðu verið til að meta tiltekin atriði um afleiðingar umferðarslyss fyrir heilsufar G, hefðu verið vanhæfir til að framkvæma hið umrædda mat svo og að mat þeirra væri haldið nánar tilgreindum annmörkum. Þar sem matsmennirnir höfðu lokið störfum var ekki talið að G hefði lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þessum kröfum í sérstöku máli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2006, þar sem hafnað var nánar tilgreindum kröfum sóknaraðila varðandi hæfi tveggja manna, sem dómkvaddir voru samkvæmt beiðni varnaraðila til að leggja mat á tiltekin atriði um afleiðingar umferðarslyss 8. desember 1999 fyrir heilsufar sóknaraðila, svo og um framkvæmd matsstarfa þeirra, en sóknaraðili kveðst fyrst hafa fengið vitneskju um úrskurðinn 27. nóvember 2006. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, en til vara að dæmt verði að dómkvöddu matsmennirnir Brynjólfur Y. Jónsson og Stefán Már Stefánsson hafi verið vanhæfir til matsstarfa og að „það hafi verið ólögmætt“ að styðjast í þeim störfum við álitsgerð nafngreinds læknis frá 14. júní 2005, en „að því leyti hafi matsgerð þeirra frá 21. janúar 2006 ekki verið nægilega rökstudd.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og ráðið verður af framansögðu leitar sóknaraðili með máli þessu úrlausnar dómstóla um hæfi tveggja manna, sem dómkvaddir voru til matsstarfa 4. nóvember 2005 og luku þeim með matsgerð 21. janúar 2006, svo og hvort matsmönnunum hafi verið heimilt að byggja þar á nánar tiltekinni álitsgerð. Með vísan til þeirra röksemda, sem héraðsdómari færir fyrir niðurstöðu hins kærða úrskurðar, brestur sóknaraðila lögvarða hagsmuni til að fá leyst í sérstöku máli úr kröfum sínum, sem þetta varða. Verður máli þessu því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Sóknaraðili, Guðmundur Ingi Kristinsson, greiði varnaraðila, Vátryggingafélagi Íslands hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2006.
Hinn 4. nóvember 2005 voru í máli þessu dómkvaddir sem matsmenn þeir Brynjólfur Y. Jónsson bæklunarskurðlæknir og Stefán Már Stefánsson prófessor til að meta afleiðingar slyss sem sóknaraðili, Guðmundur Ingi Kristinsson, varð fyrir 8. desember 1999.Matsgerð í málinu er dagsett 21. janúar 2006.
Í þessum þætti málsins gerir sóknaraðili þær dómkröfur að úrskurðað verði að hinir dómkvöddu matsmenn í matsmálinu nr. 128/2005, Brynjólfur Y. Jónsson, læknir og Stefán Már Stefánsson, lögfræðingur hafi verið vanhæfir samkvæmt lögum nr. 91/1991 til að framkvæma um beðið mat. Þá er þess krafist að úrskurðað verði að það hafi verið ólögmætt af matsmönnunum að styðjast við álit Yngva Ólafssonar, læknis frá 14. júní 2005 og að því leyti hafi matsgerð þeirra frá 21. janúar 2006 ekki verið nægilega rökstudd.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 30. október sl.
I.
Sóknaraðili lenti í alvarlegu umferðarslysi þann 4. nóvember 1993. Matsmennirnir Ríkharður Sigfússon, læknir, Sigurður Thorlacius, læknir og Viðar Már Matthíasson, lögfræðingur mátu þann 9. ágúst 1999 miska sóknaraðila vegna þeirra áverka sem hann fékk í slysinu 45 stig en varanleg örorka 75%. Var tjón hans gert upp á grundvelli matsins.
Þann 8. des. 1999 lenti sóknaraðili aftur í umferðarslysi. Í vottorði Halldórs Jónssonar bæklunarlæknis kemur fram að saga sóknaraðila og einkenni hans bendi til endurtekinnar tognunar á bæði hálshryggjar- og lendhryggjarsvæði. Matsmennirnir Stefán Már Stefánsson, lögfræðingur, Sigurður Thorlacius, læknir og Ríkharður Sigfússon, læknir mátu áverkann eftir slysið með matsgerð 20. mars 2001 og var niðurstaðan að sóknaraðili hefði hlotið 5% miska vegna þeirra áverka sem hann fékk í slysinu. Var tjónið gert upp þann 2. maí 2001 með fyrirvara um örorkumatið.
Sóknaraðili kveðst ekki hafa verið sáttur við þessa niðurstöðu og þann 16. ágúst 2005 fór hann fram á endurákvörðun bótaákvörðunar.
Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa beðið um endurupptöku á grundvelli vottorða Halldórs Jónssonar meðferðarlæknis en í þeim komi fram að læknirinn telji allar líkur á að festingarjárn, sem sett voru í sóknaraðila með aðgerðum á árunum 1995 og 1997 í kjölfar slyssins 1993, hafi losnað við áreksturinn 1999.
Sóknaraðili kveður varnaraðila í framhaldi af endurupptökubeiðninni hafa einhliða þann 2. maí 2005 beðið um álit Yngva Ólafssonar og hafi Yngvi lokið mati sínu þann 14. júní 2005 og afhent varnaraðila.
Varnaraðili kveðst hins vegar hafa leitað til Yngva Ólafssonar í samvinnu við þáverandi lögmann sóknaraðila. Þegar greinargerð hans hafi legið fyrir hafi beiðni um dómkvaðningu matsmanna verið send til Héraðsdóms Reykjavíkur eins og áður hafði verið ákveðið í samvinnu við lögmann sóknaraðila. Dómkvaddir hafi verið til matsstarfans þeir Brynjólfur Y. Jónsson, bæklunarskurðlæknir og Stefán M. Stefánsson, prófessor en þetta hafi verið matsmenn sem lögmaður sóknaraðila ásamt honum og fulltrúi varnaraðila hafi komið sér saman um að yrðu dómkvaddir.
Þær spurningar sem fram koma í matsbeiðni varnaraðila frá 18. ágúst 2005 eru
hvort rekja megi los í festingarjárnum í mjóbaki (spenging 1997) til slyssins þann 8. desember 1999. Verði lagt tilgrundvallar að los spengingarjárnanna megi að hluta eða að öllu leyti rekja til slyssins verði afleiðingar þess metnar skv. skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, þ.e. tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur, varanlegur miski og varanleg örorka.
Í matsgerð matsmannanna frá 21. janúar 2006 kemur fram að þeir telji að los hafi ekki komið á festingarjárnin í slysinu þann 8. desember 1999 og af þeirri ástæðu sé ekki metið tjón skv. skaðabótalögum.
Þann 7. mars 2006 var beðið um sérstakt vitnamál vegna matsgerðarinnar. Sóknaraðili kveður vitnaskýrslu sem tekin hafi verið af Brynjólfi Jónssyni sýna að matsmenn hafi ekki verið allskostar sammála og að Brynjólfur telji að varanleg örorka sóknaraðila sé talsvert meiri en metið sé í ágúst 1999 vegna áverka fyrra slyssins og í mars 2001 vegna áverka síðara slyssins. Sóknaraðili geti því ekki unað matinu og telji það einnig ógilt vegna ýmissa réttarfarsannmarka, efnisannmarka og af þeim sökum að byggt sé á áliti Yngva Ólafssonar læknis sem fengið hafi verið með ólögmætum hætti.
II.
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á að matið byggi á greinargerð Yngva Ólafssonar læknis frá 14. júní 2005 þar sem því sé ranglega lýst hvernig sóknaraðili slasaðist þann 8. desember 1999. Í álitinu sé ranglega tekið fram að um hafi verið að ræða minni háttar árekstur. Hið rétta sé að sóknaraðili fékk á sig mikið högg við áreksturinn og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild LSH. Bifreið sóknaraðila hafi eyðilagst við áreksturinn og staðfesti það einnig að ekki var um að ræða minniháttar árekstur.
Í öðru lagi að Yngvi Ólafsson vinni mikið fyrir varnaraðila sem reyni eins og mögulegt sé að koma því svo fyrir að hann standi að mötum á tjóni, skv. 4. og 5. grein skaðabótalaga, sem beðið er um á grundvelli 10. greinar laganna, og mæli einnig með að Yngvi sé dómkvaddur til slíkra matsgerða, þegar svo ber undir. Þó Yngvi sé þannig ekki trúnaðarlæknir varnaraðila, telji félagið hann æskilegan til slíkra matsstarf, en Yngvi vinni líka mikið, sem verktaki fyrir félagið. Yngvi sé því of tengdur félaginu til að verjandi hafi verið að biðja hann einhliða um þetta mat án þess að sóknaraðila hafi verið um það tilkynnt eða hafi verið gefinn kostur á að gæta réttar síns við það. Því sé svo við að bæta, að trúnaðarlæknir VÍS sé sameigandi Yngva að Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut.
Í þriðja lagi að Yngvi Ólafsson hafi aflað gagna, sem hann studdi álit sitt við, með ólögmætum hætti, sem veiki niðurstöðu álits hans verulega en öruggt sé að matsmenn hafi að verulegu leyti stuðst við álit hans alla vega hinn ólæknislærði matsmaður.
Í fjórða lagi að Stefán Már Stefánsson lögfræðingur hafi verið einn þeirra sem dómkvaddir voru til að meta hvaða áverka sóknaraðili hefði fengið í slysinu þann 8. des. 1999, og hafi því staðið að matsgerðinni frá 20. mars 2001, og hafði þá þegar tekið afstöðu til þess matsefnis sem meta átti. Í matsgerðinni frá 20. mars 2001 komi fram að matsmenn, þar á meðal Stefán, hafi gert kröfu um að sóknaraðili takmarkaði tjón sitt með beinni eða óbeinni atvinnuþátttöku í framtíðinni. Að þessi afstaða Stefáns komi einnig fram í síðara matinu, ef ekki beint þá óbeint, og geti því átt þátt í niðurstöðu þess. Þá vinni Brynjólfur Y. Jónsson á sömu deild og Yngvi Ólafsson hjá LSH og saman reki þeir ásamt fleiri læknum Orkuhúsið við Suðurlandsbraut ásamt Ragnari Jónssyni.
Í fimmta lagi að ranglega hafi verið farið að við matsbeiðnina frá 17. ágúst 2005. Þar sem beðið hafi verið um mat til að ganga úr skugga um hvort endurupptaka fyrri bótaákvörðunar væri tæk hefði samkvæmt 11. grein skaðabótalaga nr. 50/1993 átt að biðja um mat á því hvort um hafi verið að ræða versnun á heilsufari sóknaraðila frá því matið þann 20. mars 2001 fór fram. Ekki hafi einungis átt að óska þess að metið yrði hvort los hafi orðið á festingarjárnum heldur hverja áverka sóknaraðili hafi hlotið í slysinu og hvernig staða þeirri væri nú, hver versnun væri frá fyrra mati á þessum áverkum. Sé þetta byggt á því að líta verði svo á að varnaraðili læði mál á endurupptöku, segði ný matsgerð dómkvaddra matsmanna svo fyrir um.
Í sjötta lagi að í áliti meðferðarlæknis sóknaraðila komi fram að los hafi orðið á festingarjárnum við áreksturinn þann 8. des. 1999. Byggir sóknaraðili einnig á að slysið varð 8. des. 1999, en rannsóknir Yngva Ólafssonar á því hvort los hafi ekki orðið við slysið á festingarjárnum hafi ekki hafist fyrr en árið 2005 eða 5 og hálfu ári seinna. Meðferðarlæknirinn sem sé á annarri skoðun, hafi hins vegar allan tímann verið með eftirlit með sóknaraðila.
Í sjöunda lagi að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af að biðja um þennan úrskurð. Hann hafi tekið við bótum með öllum fyrirvara og eigi ef til vill enn þann kost að biðja um yfirmat á matinu frá 20. mars 2001, því standi hann betur að vígi sé matið frá 21. janúar 2006 fellt úr gildi. Sama sé fari hann fram á nýtt mat á því hvort versnun hafi orðið á heilsufari sóknaraðila frá bótauppgjörinu þann 2. maí 2001, sem byggði á matinu frá 20. mars 2001, og þar með hvort járnin hafi losnað. Ekki sé vogandi í þessu máli að biðja nú um yfirmat á matinu frá 21. janúar 2006, þar sem það yrði þá síðasta orðið í málinu og málið ekki í réttum farvegi. Öruggara sé þar af leiðandi fyrir sóknaraðila að fá þetta mat ógilt og biðja síðan um nýtt mat, sem þá væri hægt að skjóta til yfirmatsmanna.
Í áttunda lagi á 66. gr. einkamálalaga. Það falli alla vega undir ákvæði 1. málsgreinar 66. greinar að kveða á um hæfi hinna dómkvöddu matsmanna og að matsgerðin hafi ekki verið framkvæmd með réttum hætti, að því leyti sem hér að ofan er greinilega rakið.
III.
Sóknaraðili mótmælir fyrstu málsástæðu sóknaraðila með vísan til þess að í skýrslutöku þann 13. mars sl. af Brynjólfi Y. Jónssyni komi skýrt fram að matsmenn mátu mál sóknaraðila algjörlega sjálfstætt og að ekki var byggt á greinargerð Yngva Ólafssonar bæklunarskurðlæknis við matið.
Annarri með því að Yngvi Ólafsson bæklunarskurðlæknir sé einn af mörgum læknum sem meti til miska og örorku skv. skaðabótalögum nr. 50/1993. Yngvi sé ekki á neinn hátt tengdur varnaraðila hvorki með samningi né með öðrum hætti. Yngvi starfi ekki í verktöku varnaraðila og sé ekki með neinum hætti tengdur varnaraðila þannig að það geri hann vanhæfan sem sjálfstætt starfandi bæklunarskurðlækni gagnvart varnaraðila. Þá vísar varnaraðili til þess eins og áður greinir að fyrir liggi að greinargerð Yngva hafi ekki verið lögð til grundvallar hjá dómkvöddum matsmönnum. Loks beri að geta þess að ráðgefandi læknir félagsins, Ragnar Jónsson, sé ekki sameigandi Yngva að Orkuhúsinu.
Þeirri þriðju með því að matsmenn hafi, eins og áður greinir, metið mál sóknaraðila algjörlega sjálfstætt og ekki hafi verið byggt á greinargerð Yngva Ólafssonar. Þá blasi það við að hinn löglærði matsmaður hafi ekki lagt mat á læknisfræðilega þætti matsgerðarinnar enda ekki til þess menntaður.
Þeirri fjórðu með því að lögmaður sóknaraðila og fulltrúi varnaraðila hafi komið sér saman um matsmenn áður en dómkvatt var og sé því fráleitt að halda því fram löngu eftir dómkvaðninguna að Stefán Már Stefánsson, prófessor hafi verið vanhæfur til verksins. Þær ástæður sem leiða eigi til vanhæfni hans, að mati sóknaraðila, hafi legið fyrir áður en hann var dómkvaddur og hefði því átt að mótmæla dómkvaðningu hans strax á upphafsstigum málsins. Þá bendir varnaraðili á að gefnu tilefni að Brynjólfur Y. Jónsson vinnur ekki á sömu deild og Yngvi Ólafsson hjá LSH heldur á sjúkrahúsi í Malmö í Svíþjóð.
Þeirri fimmtu með því að í vottorði meðferðarlæknis sóknaraðila sem og bréfi lögmanns hans til varnaraðila sé verið að óska eftir endurupptöku vegna versnunar einkenna sem sé að rekja til los í kringum festingarskrúfur. Spurningum í matsbeiðni hafi á sínum tíma ekki mótmælt og þær því í samræmi við álit meðferðarlæknis sóknaraðila um ástæður versnunar á heilsu sóknaraðila sem og bréfs lögmanns sóknaraðila.
Þeirri sjöttu með vísan til niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna.
Þeirri sjöundu með vísan til þess sem að framan er rakið. Þá hafi lögmaður sóknaraðila haft mikið um það að segja hverjir yrðu dómkvaddir eins og fram komi á tölvupóstsamskiptum lögmanna aðila. Engin mótmæli hafi verið sett fram þegar matsmenn voru dómkvaddir né síðar. Hvorki mótmæli er vörðuðu matsmennina sjálfa né matsspurningarnar sem slíkar. Það séu engir ágallar á matsgerðinni sem rýri gildi hennar og henni hafi ekki verið hnekkt. Engin haldbær rök hafa verið sett fram sem ættu að leiða til þess að matsgerð dómkvaddra matsmanna verði úrskurðuð ógild.
III
Matsmennirnir Brynjólfur Y. Jónsson bæklunarskuðlæknir og Stefán Már Stefánsson prófessor voru að kröfu varnaraðila dómkvaddir hinn 4. nóvember 2005 til að meta hvort rekja megi los í festingarjárnum í mjóbaki (spenging 1997) sóknaraðila til slyssins þann 8. desember 1999. Matsgerð þeirra er dagsett 21. janúar 2006 en í henni var komist að þeirri niðurstöðu að los í festingarjárnum verði ekki rakin til slyssins. Sóknaraðili unir ekki matinu og telur það ógilt vegna réttarfarsannmarka, efnisannmarka og að það sé byggt á áliti Yngva Ólafssonar.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að matsmennirnir verði úrskurðaðir vanhæfir á 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en þar er kveðið á um að dómari leysi úr ágreiningi sem lýtur að dómkvaðningu og hæfi matsmanns og um greiðslur til hans með úrskurði.
Það er álit dómsins að skýra beri ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, þannig að dómara beri að leysa úr ágreiningi um hæfi matsmanna komi hann upp meðan á máli stendur. Dómara hefði þannig borið á grundvelli ákvæðisins að leysa úr ágreiningi varðandi hæfi matsmannanna ef ágreiningur þar að lútandi hefði komið upp áður en þeir luku matsstarfanum. Í máli þessu liggur hins vegar fyrir að engar athugasemdir voru gerðar við dómkvaðningu matsmannanna á dómþingi 4. nóvember 2005 né á matsfundi og að matsmennirnir hafa lokið matinu. Samkvæmt því verður ekki leyst úr ágreiningi um hæfi matsmanna í máli þessu nú.
Sóknaraðili á þess nú kost að freista þess að hnekkja niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna með nýjum gögnum, t.d. nýju mati þar sem eftir atvikum yrði metið það sem sóknaraðili byggir á að biðja hefði átt um mat á eða með framlagningu yfirmats.
Þá er á það að líta matsgerðir eru meðal sönnunargagna í dómsmálum. Leggur dómari mat á sönnunargildi þeirra á grundvelli framkominna sönnunargagna og málflutnings aðila, en atriði varðandi matsmennina og það á hvaða gögnum matsgerð byggir getur m.a. haft áhrif á það mat. Geta annmarkar á matsgerð þannig dregið úr eða ónýtt sönnunargildi hennar.
Með hliðsjón af framangreindu verður kröfum sóknaraðila hafnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, Guðmundar Inga Kristinssonar, er hafnað.