Hæstiréttur íslands
Mál nr. 353/2017
Lykilorð
- Skaðabætur
- Rannsókn
- Friðhelgi einkalífs
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ingimundur Einarsson héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárhæð kröfunnar verði lækkuð og falli þá niður málskostnaður á báðum dómstigum.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hafi verið veitt.
I
Samkvæmt gögnum málsins, sem lágu fyrir í héraði, og nýjum gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, hafði ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2012 til rannsóknar í samstarfi við lögreglu í Danmörku og Noregi ætluð brot nokkurra Íslendinga og útlendinga, sem búsettir voru erlendis. Sneru þau að stórfelldum innflutningi fíkniefna til Íslands og hinna landanna tveggja, en ýmist voru brotin talin þegar hafa verið framin eða ætlað var að þau yrðu drýgð á komandi mánuðum. Meðal þeirra, sem lágu undir grun við þessa rannsókn, var bróðir stefndu, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem talið var að búsettur væri á Spáni en virðist hafa átt skráð heimili í Danmörku. Hann hafði tvívegis hlotið dóm fyrir Hæstarétti vegna brota gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, annars vegar í desember 2000, þegar honum var gert að sæta fangelsi í sjö ár, og hins vegar í nóvember 2002, þegar hann var dæmdur í fangelsi í fimm ár.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu 6. júní 2012 var meðal annars greint frá því að hún hafi á grundvelli dómsúrskurðar hlustað um skeið á símtöl Guðmundar. Hafi komið þannig fram að hann væri væntanlegur til landsins með flugi síðdegis þann dag og reiknaði með að halda aftur utan eftir þrjá daga þótt hann hafi aðeins keypt sér flugfar aðra leið. Stefnda hafi í símtali boðið honum að gista í íbúð sinni að Selvaði 3 í Reykjavík, þar sem hún byggi með maka sínum og þremur börnum, en þau yrðu á ferðalagi innanlands þessa daga. Hafi Guðmundur þegið það boð. Þá hafi Guðmundur átt símtöl 6. júní 2012 við föður sinn og rætt þar um að hann þyrfti að hafa aðgang að tölvu á meðan hann væri hér á landi, en slegið hafi verið föstu að slíkan aðgang gæti hann fengið á heimili stefndu. Þess var getið í skýrslunni að fram hafi komið við rannsóknina að Guðmundur talaði lítið sem ekkert við ætlaða samverkamenn sína um fyrirhuguð fíkniefnaviðskipti í síma, heldur tækju þeir ákvarðanir í símtölum um að ræðast við með notkun tölvubúnaðar. Uppi væri grunur um að Guðmundur myndi þannig nota tölvu á heimili stefndu á meðan hann dveldi þar til að „ræða viðkvæm mál við samstarfsaðila sína, mál sem ekki mega líta dagsins ljós.“ Það væri því mat lögreglu að nauðsynlegt væri að koma fyrir búnaði til hljóðupptöku á heimili stefndu án vitundar hennar í eina viku, enda lægi ekki fyrir staðfesting á því hvenær Guðmundur færi aftur úr landi. Á þessum grunni krafðist lögregla sama dag fyrir héraðsdómi að sér yrði á grundvelli a. liðar 1. mgr. 82. gr., sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála veitt heimild til að koma fyrir hlustunarbúnaði í fyrrnefndri íbúð stefndu og hlusta og hljóðrita samtöl, sem þar færu fram, án vitneskju hlutaðeigenda frá 6. til 13. júní 2012. Krafa þessi var samdægurs tekin til greina með úrskurði dómsins.
Aftur gerði lögregla upplýsingaskýrslu vegna rannsóknar sinnar 13. júní 2012. Þar var greint meðal annars frá því að Guðmundur væri enn á landinu og hafi ekki pantað sér flug til farar héðan, en komið hafi fram að hann hygðist halda til Danmerkur innan fárra daga. Hann hafi gist í íbúð stefndu á meðan hún hafi ásamt fjölskyldu sinni dvalið utanbæjar frá 6. til 10. júní 2012. Hlustunarbúnaði hafi verið komið þar fyrir fyrstnefnda daginn og hafi hann verið í notkun þar til stefnda hafi komið til baka, en hlustun hafi þá verið hætt því að Guðmundur hafi gist á öðrum stað eftir það. Á meðan hlustun hafi verið beitt hafi komið í ljós að Guðmundur hafi notað „talsvert tölvu er systir hans er með á heimilinu til að halda uppi tengslum sínum við samstarfsmenn sína, þá í gegnum Skype-ið, sem staddir eru m.a. í Danmörku.“ Hafi komið þannig fram upplýsingar, sem miklu skiptu fyrir rannsóknina. Fyrir lægi að stefnda væri þennan dag á leið úr landi ásamt fjölskyldu sinni og hygðist Guðmundur þá aftur gista í íbúð hennar þar til hann héldi sjálfur utan. Mætti þannig gera ráð fyrir að hann myndi sem fyrr nýta á þeim tíma tölvu á heimili stefndu til að eiga samskipti við samverkamenn sína og væri það því mat lögreglu að nauðsyn bæri til að afla heimildar til að nýta áfram hlustunarbúnaðinn á meðan Guðmundur dveldi þar. Á þessum grunni krafðist lögregla fyrir héraðsdómi 13. júní 2012 að sér yrði áfram heimilað að hlusta og hljóðrita samtöl, sem fram færu á heimili stefndu frá þeim degi til 18. sama mánaðar. Heimild þessi var veitt með úrskurði sama dag. Samkvæmt minnisblaði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá 6. júlí 2017 var fært í skrár hennar að hlustun á heimili stefndu hafi aftur orðið virk 13. júní 2012 klukkan 17.25 eftir að hafa legið niðri frá 10. sama mánaðar um klukkan 19.00.
Enn krafðist lögregla þess fyrir héraðsdómi 18. júní 2012 að sér yrði heimilað að nýta áfram hlustunarbúnað á heimili stefndu til 22. sama mánaðar, en þar dveldi Guðmundur enn og væru stefnda og fjölskylda hennar erlendis. Heimild þessi var veitt með úrskurði sama dag.
Í upplýsingaskýrslu, sem lögregla gerði 21. júní 2012, kom meðal annars fram að Guðmundur hafi daginn áður farið frá Íslandi til Danmerkur og hafi hann fram að því dvalið í íbúð stefndu að henni og fjölskyldu hennar fjarstaddri. Í skýrslunni var einnig greint frá ýmsu, sem fram hafi komið við rannsóknina, þar á meðal með því að hlusta á samtöl, sem Guðmundur hafi átt með notkun tölvu á heimili stefndu.
Með bréfi til stefndu, sem hún áritaði um móttöku 13. desember 2012, greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá því að vegna rannsóknar á tilgreindu máli hafi sér verið veitt heimild með þremur dómsúrskurðum til „að koma fyrir hlustunarbúnaði og taka upp öll hljóð úr íbúð“ stefndu að Selvaði 3. Hafi þetta verið gert á tímabilinu frá 6. til 22. júní 2012.
Dómur gekk fyrir héraðsdómi í Kaupmannahöfn 3. júní 2013 í máli, sem ákæruvaldið í Danmörku höfðaði á hendur Guðmundi. Þar var hann borinn sökum um að hafa staðið ásamt öðrum nafngreindum mönnum, íslenskum og erlendum, að innflutningi á samtals 60,25 kg af amfetamíni í nóvember 2011, ágúst 2012 og september 2012 frá Hollandi til Danmerkur, svo og að hafa á tímabilinu frá júlí 2011 til apríl 2012 afhent í Noregi nafngreindum manni samtals 1 kg af amfetamíni og 400 g af kókaíni. Guðmundur játaði sök í málinu og var dæmdur til að sæta fangelsi í 12 ár. Af dóminum verður ráðið að fyrrgreind rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi snúið að hluta þessara brota Guðmundar, en samkvæmt áðurnefndu minnisblaði hennar frá 6. júlí 2017 var öllum hljóðupptökum, sem gerðar voru við rannsóknina, eytt 1. september 2014 í tilefni af því að dómsmálinu á hendur Guðmundi hafi verið lokið í Danmörku.
Vegna framangreindra aðgerða lögreglu höfðaði stefnda mál þetta á hendur áfrýjanda 27. júní 2016 til heimtu miskabóta á grundvelli þágildandi 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nú 3. mgr. 246. gr. sömu laga eins og þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 17/2018.
II
Til þeirra rannsóknaraðgerða gagnvart Guðmundi Inga Þóroddssyni, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greip til á tímabilinu 6. til 10. og 13. til 20. júní 2012 og áður er lýst, stóð heimild í a. lið 1. mgr. 82. gr., sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Með fyrrnefndum dómi, sem gekk í héraðsdómi í Kaupmannahöfn 3. júní 2013, var Guðmundur sakfelldur fyrir hluta þeirrar háttsemi, sem til rannsóknar var. Gæti hann því ekki fyrir sitt leyti hafa krafist skaðabóta samkvæmt ákvæðum XXXIX. kafla laga nr. 88/2008 vegna þessara rannsóknaraðgerða, sbr. 1. mgr. 246. gr. laganna. Þó svo að rofin hafi verið friðhelgi heimilis stefndu til að koma þeim aðgerðum við getur hún að þessu virtu ekki notið sjálfstæðs réttar til skaðabóta eftir fyrrnefndum ákvæðum, enda verður hún að þessu leyti að bera áhættu af framferði þeirra, sem hún hefur leyft að hafa not af heimili sínu.
Dagana 10. til 13. júní 2012 dvaldi Guðmundur á hinn bóginn ekki á heimili stefndu og hafðist hún þar við á því tímabili ásamt fjölskyldu sinni. Eftir gögnum málsins lá stefnda á engu stigi undir grun um refsiverða háttsemi, sem staðið hefði getað til þess að lögreglu hefði verið heimilt að beita aðgerðum samkvæmt a. lið 1. mgr. 82. gr. laga nr. 88/2008 gagnvart henni með því að hlusta á það, sem fram fór á heimili hennar, og eftir atvikum taka það upp. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í fyrirliggjandi gögnum staðhæft að búnaður, sem hún kom fyrir á heimili stefndu til hlustunar, hafi ekki verið í notkun þá daga, sem Guðmundur dvaldi ekki þar. Búnaðurinn var þó til reiðu og gild heimild fyrir hendi til að beita honum samkvæmt úrskurði héraðsdóms 6. júní 2012. Var af þessum sökum brýn ástæða til að lögregla tryggði sér ótvíræðar sönnur fyrir því að búnaðurinn hafi að engu leyti verið nýttur á þessu tímabili. Með því að engin slík sönnun liggur fyrir á stefnda samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. og 5. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 rétt til miskabóta úr hendi áfrýjanda. Þær bætur eru hæfilega ákveðnar 300.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Samkvæmt gjafsóknarbréfi innanríkisráðuneytisins 8. september 2013 var gjafsókn, sem stefndu var þar veitt, bundin við rekstur þessa máls fyrir héraðsdómi og hefur hún ekki aflað sér gjafsóknar hér fyrir dómi. Verður henni því ekki dæmdur gjafsóknarkostnaður fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Guðrúnu Snæbjörtu Þóroddsdóttur, 300.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017.
Mál þetta höfðaði Guðrún Snæbjört Þóroddsdóttir, Selvaði 3, Reykjavík, með stefnu birtri 27. júní 2016 á hendur íslenska ríkinu, en fjármálaráðherra er stefnt fyrir þess hönd. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 21. febrúar sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 6. júní 2012 til 4. febrúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 8. september 2013.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara lækkunar stefnukröfu og að málskostnaður verði felldur niður.
Þann 6. júní 2012 var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem lögreglu var heimilað að „koma fyrir hlustunarbúnaði í íbúð 0106 að Selvaði 3 í Reykjavík, þar sem kærði Guðmundur Ingi Þóroddsson ... mun dvelja, í því skyni að hlusta, hljóðrita, nema samtöl og önnur hljóð ...“ Heimildin var veitt frá 6. til 13. júní. Með úrskurði 13. júní var heimildin framlengd til 18. júní og síðan til 22. júní með úrskurði þann 18. Lögreglan krafðist ekki frekari framlengingar.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem nefndur er kærði í þessum úrskurðum, er bróðir stefnanda. Í fyrsta úrskurðinum kemur fram að Guðmundur búi erlendis og að lögreglan telji hann stórtækan í sölu og dreifingu fíkniefna, m.a. til Íslands. Hann komi oft hingað til lands og stoppi stutt við. Hann muni koma hingað á þessum degi og muni dveljast nokkra daga. Við hlustun á síma hafi lögreglan komist að því að hann muni fá íbúð systur sinnar lánaða, en sjálf verði hún ekki í íbúðinni. Þá segir í úrskurðinum að kærðu í málinu eigi samskipti með forritinu Skype og því nauðsynlegt að beita herbergishlustun.
Stefnanda var tilkynnt um hlerunina með bréfi sem var afhent henni 13. desember 2012. Þar segir: „... vegna rannsóknar ofangreinds máls var embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu veitt heimild skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur ... að koma fyrir hlustunarbúnaði og taka upp öll hljóð úr íbúð [stefnanda] að ... Tímabil frá 06.06.2012 til 22.06.2012“.
Í greinargerð stefnda er því haldið fram að fyrir liggi upplýsingaskýrsla lögreglu frá 13. júní 2012, sem hafi verið lögð fram í dómi með kröfu um hlustun. Þar segi að bróðir stefnanda hafi gist í íbúð hennar frá 6. júní til sunnudags 10. júní, en þá hafi stefnandi komið aftur. Hún hafi farið til Spánar með fjölskyldu sinni 13. júní. Fram komi í skýrslunni að lögreglan hafi hvorki hlustað né hljóðritað samtöl þann tíma sem bróðir stefnanda gisti annars staðar en í íbúð stefnanda. Upplýsingaskýrsla þessi var ekki lögð fram í þessu máli.
Í nefndum úrskurðum má sjá að enginn grunur beindist að stefnanda. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dóminum sagði stefnandi að það hafi verið henni áfall að heyra af þessari hlustun. Hún hafi orðið óörugg og upplifað vanlíðan, sér hafi fundist þetta vera innrás í líf sitt. Hún hafi farið úr íbúðinni þegar bróðir hennar kom, en síðan komið aftur á sunnudegi og verið fram á miðvikudag, er hún fór til útlanda. Hún hafi verið í íbúðinni í fjóra daga á meðan hlustað var. Bróðir hennar hafi farið til vinar síns þá daga og ekki verið í íbúðinni.
Stefnandi lagði fram í málinu vottorð Björns Harðarsonar sálfræðings. Þar segir að stefnandi hafi komið í fyrsta viðtal 12. október 2012 og komið í alls 18 tíma fram á vor 2013. Segir síðan að greinilegt hafi verið að hún hafi verið með mörg einkenni af áfallastreitu og kvíða vegna þessara atburða (hlerunar í íbúð hennar).
Björn Harðarson staðfesti vottorð sitt fyrir dómi. Hann sagði að stefnandi hefði orðið fyrir tveimur áföllum sem hafi verið samtvinnuð, annars vegar fangelsun bróður hennar í Danmörku og síðan hafi hún frétt af þessari hlustun lögreglu. Taldi hann erfitt að greina á milli hvort hefði haft meiri áhrif á hana. Sennilega hafi hvort tveggja vegið jafn þungt.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur sig eiga rétt á bótum samkvæmt 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hún hafi ekki verið borin sökum, en beðið tjón af íbúðarhlustun lögreglunnar. Ábyrgðin sé hlutlæg, hér dugi að hún hafi orðið fyrir tjóni af völdum aðgerða samkvæmt IX.-XIV. kafla laganna.
Stefnandi kveðst krefjast miskabóta samkvæmt 5., sbr. 3. mgr. 228. gr. Brotið hafi verið gróflega gegna réttindum hennar, en réttindin séu varin af stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann vísar hér til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans. Engu skipti þótt bróðir stefnanda hafi dvalið í íbúðinni. Brotið hafi verið gegn rétti stefnanda þegar hún dvaldi í íbúðinni með fjölskyldu sinni, sambýlismanni og þremur börnum.
Stefnandi bendir á að henni hafi ekki verið tilkynnt um aðgerðir lögreglu fyrr en rúmum sex mánuðum eftir að þeim lauk. Hafi þetta aukið á miska hennar, en þetta sé í andstöðu við 2. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008.
Stefnandi byggir á því að aðgerðir lögreglu hafi gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið og verið ólögmætar. Þetta auki á miska hennar. Hún tekur fram að hún telji að það sé ekki skilyrði bótaskyldu að aðgerð hafi verið ólögmæt, þótt hún byggi sérstaklega á því að umræddar aðgerðir hafi verið ólögmætar.
Stefnandi byggir á því að hvorugu skilyrða 83. gr. sml. hafi verið fullnægt. Ekki hafi verið líklegt að með hlustun fengjust upplýsingar sem skiptu máli fyrir rannsóknina og rannsóknin hafi ekki beinst að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi. Í það minnsta hafi þessum skilyrðum ekki verið fullnægt þegar stefnandi dvaldi ein með fjölskyldu sinni í íbúðinni.
Enn fremur vísar stefnandi til meðalhófsreglu 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þá byggir stefnandi á því að undantekningarregla 2. mgr. 228. gr. sml. eigi ekki við. Hún hafi ekki valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi bendir á að 228. gr. sml. sé fyrst og fremst ætlað að vernda þá sem bornir hafi verið sökum um refsiverða háttsemi og sætt þvingunarráðstöfunum að ósekju. Aðrir eigi rétt á bótum ef þeir hafa beðið tjón af aðgerðum samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna. Í greinargerð var vísað til þess að stefnandi hefði ekki lagt fram nein gögn um það hvaða áhrif atvik hafi haft á andlega heilsu hennar eða eftir atvikum fjölskyldu- og heimilislíf. Þá var bent á það að erfitt yrði að greina á milli áhrifa annars vegar hlustunarinnar og hins vegar þess að bróðir stefnanda hlaut þungan dóm í Danmörku fyrir innflutning fíkniefna.
Stefndi mótmælir því að úrskurðir héraðsdóms hafi verið ólögmætir. Þá hafi rannsóknarhagsmunir valdið því að ekki hafi verið hægt að tilkynna stefnanda um hlustunina fyrr en rannsókn var lokið.
Stefndi krefst til vara lækkunar. Þá mótmælir hann kröfu um vexti og dráttarvexti sem styðjist ekki við víðhlítandi lagagrundvöll.
Niðurstaða
Stefndi hefur ekki lagt fram nein gögn um aðgerðir lögreglunnar gagnvart stefnanda og bróður hennar. Stefnandi lagði fram endurrit úrskurða héraðsdóms sem heimiluðu hlustun. Bróðir stefnanda var undir grun um aðild að broti gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga. Fallist var á það í þremur úrskurðum héraðsdóms að grunurinn væri rökstuddur. Stefnandi hefur ekki reynt að hnekkja þessu mati.
Lögreglan fékk heimild til hlustunar í íbúð stefnanda frá 6. til 22. júní 2012. Samkvæmt því sem fram kom í máli stefnanda dvaldi hún ekki í íbúðinni á þessum tíma, nema frá sunnudeginum 10. júní til miðvikudags 13. júní, en annars var bróðir hennar í íbúðinni. Í greinargerð stefnda er því haldið fram að ekki hafi verið hlustað eftir að bróðir stefnanda var farinn úr íbúðinni. Um þetta vísar stefndi til upplýsingaskýrslu lögreglu, en skýrsla þessi hefur ekki verið lögð fram í málinu.
Í tilkynningu lögreglu til stefnanda um hlustunina, dags. 13. desember 2012, er ekki sagt annað en að hlustun hafi verið heimiluð frá 6. til 22. júní. Ekki er sagt hvenær hlustað hafi verið. Í úrskurðum héraðsdóms 13. júní og 18. júní kemur ekkert fram um að hlustun hafi verið hætt á einhverju tímabili. Að þessu virtu er ósannað að hlustun hafi verið hætt og verður að byggja niðurstöðu á því að lögreglan hafi hlustað öll hljóð sem heyrðust í íbúðinni allt umrætt tímabil. Þessi hlustun var óheimil þegar bróðir stefnanda var ekki í íbúðinni .
Stefnandi dvaldi í íbúð sinni frá 10. til 13. júní, en annars ekki á meðan hlustun stóð yfir. Hún getur ekki átt rétt á bótum þótt hlustað sé í íbúð hennar þegar hún er fjarstödd. Henni er ekki valdið tjóni með slíkri hlustun.
Ekki er sýnt fram á að lagaskilyrðum til hlustunar hafi ekki verið fullnægt, þegar bróðir stefnanda dvaldi í íbúðinni.
Stefnandi var ekki borin sökum í sakamáli, en aðgerðir lögreglu beindust gegn henni þegar hún dvaldi í íbúð sinni.
Sannað er með vottorði sálfræðings og skýrslu hans fyrir dómi að þessi hlustun hefur haft neikvæð áhrif á stefnanda. Dregur það ekki úr ábyrgð ríkisins þótt aðrar ástæður hafi einnig komið til. Hlustun á heimili fólks er veruleg skerðing á friðhelgi einkalífs. Stefnandi á rétt til bóta samkvæmt 3. mgr. 228. gr. sml. Eru bætur hæfilega ákveðnar 950.000 krónur. Ekki hefur verið sýnt fram á að dregist hafi að tilkynna stefnanda um hlustunina.
Andmæli stefnda við vaxtakröfu eru órökstudd. Vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga verða dæmdir frá 13. júní 2012. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 4. febrúar 2016, en hún skýrir ekki hvaða heimild standi til þess, og afrit kröfubréfs hefur hún ekki lagt fram. Verða dráttarvextir dæmdir frá þingfestingardegi, 30. júní 2016.
Málskostnaður milli aðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda er ákveðinn með virðisaukaskatti 750.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Guðrúnu Snæbjörtu Þóroddsdóttur, 950.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2012 til 30. júní 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 750.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
´