Hæstiréttur íslands

Mál nr. 463/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. ágúst 2006.

Nr. 463/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri)

gegn

X

(Ingimar Ingimarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 1. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2006.

                Ár 2006, þriðjudaginn 22. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dóm­húsinu við Lækjartorg af Sigrúnu Guðmundsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svo­felldur úrskurður.

                Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilsfang], sæti gæslu­varðhaldi til þriðjudagsins 5. september 2006, kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint fíkniefnabrot sem varði innflutning á fíkniefnum til landsins frá Amsterdam.  X og A, [kt.], hafi verið handtekin í gær kl. 16:58 á Keflavíkurflugvelli eftir tollskoðun eftir að fíkniefnin höfðu fundist í fórum þeirra.  Sé nánar vísað til upplýsingaskýrslu Ævars Pálma Pálmasonar, rannsóknarlögreglumanns, dags. 21. þ.m.

                Kærði hafi verið yfirheyrður í dag þar sem hann hafi viðurkennt að hafa flutt inn um 200 g af kókaíni og hafi gefið þá skýringu að það hafi verið til að koma sér úr vandræðum hér á Íslandi.  Kærði hafi greint frá ferðalagi sínu með A, kaupum á kókaíni, en hann kvaðst ekki vita nafn seljandans eða hversu háa fjárhæð hann greiddi fyrir efnið. Sé nánar vísað til framburðarskýrslu kærða dags. 22. þ.m.  Fyrir liggi yfirheyrsluskýrsla af A frá því í dag en nánar sé vísað til skýrslunnar um það sem þar kemur fram.

                Rannsókn málsins sé á frumstigi en nauðsynlegt sé að yfirheyra kærðu frekar og fleiri einstaklinga sem kunna að tengjast málinu eða geta veitt upplýsingar við rannsóknina.  Um sé að ræða talsvert magn fíkniefna sem víst þyki að hafi átt að afhenda vitorðsmönnum hér á landi og efnið hafi átt að fara í sölu- og dreifingu.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.  Meint brot kærða varði fangelsisrefsingu ef sök sannast.

Sakarefnið sé talið geta varðað við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærði hefur viðurkennt innflutning á um 200 g af kókaíni og gefið þá skýringu að hann hafi með innflutningnum verið að koma sér út úr vandræðum hér á landi.  Það og magnið gefa vísbendingu um að nauðsyn beri til að yfirheyra kærða frekar og aðra er geta veitt upplýsingar ásamt því að afla gagna, en rannsókn málsins er á frumsigi. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991verður krafa lögreglu því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð :

                Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 1. september 2006, kl. 16:00.