Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/1999


Lykilorð

  • Grunnskóli
  • Kennari
  • Starfsréttindi
  • Stjórnsýsla
  • Málsástæða
  • Málskostnaður
  • Fyrirsvar
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2000.

Nr. 360/1999.

Hrefna Markan Harðardóttir

(Einar Gautur Steingrímsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

Biskupstungnahreppi

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Grunnskólar. Kennari. Starfsréttindi. Stjórnsýsla. Málsástæður. Málskostnaður. Fyrirsvar. Sératkvæði.

 

Sex kennarar, þar á meðal H, sóttu um kennarastöðu við skólann R í hreppnum B fyrir skólaárið 1994-1995. Voru fjórir af sex umsækjendum ráðnir, en H var ekki ein af þeim. Mæltu skólastjóri og skólanefnd ekki með umsókn hennar og féllst fræðslustjóri á álit þeirra. Á sama tíma sótti skólastjóri um heimild undanþágunefndar grunnskóla til að ráða M sem leiðbeinanda að skólanum. Í bréfi skólastjóra R til H, frá september 1994, var henni tjáð að ekki hefði verið mælt með umsókn hennar. Einnig kom þar fram að forsendur fyrir ráðningu kennara hefðu breyst frá því sem áætlað hefði verið og hefðu fastráðnir kennarar aukið við sig kennslu. Í trúnaðarbréfi frá sama tíma til undanþágunefndar grunnskóla greindu skólastjóri og formaður skólanefndar R hins vegar frá því að H væri ekki talin heppilegur starfskraftur fyrir skólann og ekki líkleg til að uppfylla kröfur sem gerðar væru til umræddrar kennarastöðu. Áður en undanþágunefndin hafði tekið umsóknina varðandi M til formlegrar afgreiðslu var hún afturkölluð. Var M síðar ráðinn af B, sem stuðningsfulltrúi við R, og tók hann um veturinn einnig við nokkurri forfallakennslu. Höfðaði M mál á hendur ríkinu og hreppnum B til heimtu bóta. Kvaðst H ekki hafa verið kunnugt um efni bréfsins til undanþágunefndarinnar fyrr en á árinu 1996. Í málinu reyndi ekki á hvernig ráðning M í starf leiðbeinanda hefði horft við gagnvart H, þar sem umsókn til undanþágunefndar grunnskóla um heimild til ráðningar M var afturkölluð. Með hliðsjón af því hvernig ráðningarmál við R skipuðust var talið að óvönduð stjórnsýsla við meðferð málsins hjá skólanum gæti ekki ein og sér bakað ríkinu fébótaskyldu. Við úrlausn málsins var jafnframt litið til þess að M var ráðinn í annað starf en H sótti um. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ríkið og B af kröfum H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 1999. Hún krefst þess, að stefndu greiði sér óskipt 3.696.710 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga  nr. 25/1987 frá 1. september 1995 til stefnubirtingardags en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Af hálfu beggja stefndu er krafist staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi íslenska ríkið krefst þess til vara, að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður í því tilviki látinn niður falla.

Ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Fyrir Hæstarétti hélt lögmaður áfrýjanda því fram, að héraðsdómari hefði látið undir höfuð leggjast að taka til efnislegrar meðferðar málsástæður, sem fram hefðu verið bornar í stefnu málsins í héraði. Í fyrsta lagi sé í héraðsdómi í engu vikið að stöðu Sigurðar Guðmundssonar sem leiðbeinanda við Reykholtsskóla í Biskupstungum skólaárið 1994 til 1995, þótt í stefnu sé sagt, að í stað áfrýjanda hafi verið ráðnir „leiðbeinendur, þ.e.a.s menn án kennsluréttinda.“ Í öðru lagi sé ekkert að því vikið, að brotin hafi verið 5. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskóla-kennara og skólastjóra, er „réttindakennarar“ hafi verið ráðnir að skólanum „í trássi við þetta ákvæði.“ Lögmaðurinn kvaðst telja rétt að taka þetta fram, þótt hann vildi ekki krefjast ómerkingar af þessum sökum.

Í héraðsdómsstefnu og málatilbúnaði í héraði er augljóslega við það miðað, að Margeir Ingólfsson hafi verið ráðinn til kennslustarfa við Reykholtsskóla í bága við lögvarinn rétt áfrýjanda. Sigurður Guðmundsson er ekki nefndur á nafn í stefnunni og hvergi er það rökstutt, að kennarar með full kennsluréttindi hafi að ósekju verið teknir fram fyrir áfrýjanda. Þessar athugasemdir lögmannsins eru því með öllu haldlausar og ganga í berhögg við þann grundvöll málsóknarinnar, sem lagður var í héraði og áfrýjandi er bundinn við. Þann málatilbúnað verður í meginatriðum að skilja svo, að brotinn hafi verið á henni lögvarinn réttur sem grunnskólakennara með full kennsluréttindi, er skólastjóri og skólanefnd Reykholtsskóla hafi ekki mælt með umsókn hennar um starf kennara við skólann skólaárið 1994 til 1995 en þess í stað hlutast til um það að fá undanþágu samkvæmt lögum nr. 48/1986 til að ráða Margeir Ingólfsson sem leiðbeinanda. Þegar það hafi ekki tekist hafi hann fyrir tilstuðlan skólastjóra verið ráðinn til kennslustarfa „undir fölsku flaggi“ af stefnda Biskupstungnahreppi undir starfsheitinu stuðningsfulltrúi. Jafnframt hafi skólastjóri sagt henni ósatt um orsakir þess, að hún var ekki ráðin, og hún þannig ekki fengið að neyta andmælaréttar síns.

II.

Atvikum málsins er lýst í héraðsdómi. Þar kemur fram, að fjórir af sex umsækjendum með full kennsluréttindi voru ráðnir til starfa við Reykholtsskóla umrætt skólaár. Hvorki skólastjóri né skólanefnd mæltu með umsókn áfrýjanda og féllst fræðslustjóri á það álit að höfðu samráði við skólastjóra. Því var heimilt að sækja um það til undanþágunefndar grunnskóla samkvæmt 13. gr. laga nr. 48/1986 að fá að ráða Margeir Ingólfsson sem leiðbeinanda, þótt áfrýjandi hefði starfsréttindi grunnskólakennara en hann ekki. Áður en undanþágunefndin hafði tekið þá umsókn til formlegrar afgreiðslu var hún afturkölluð og getur því ekki reynt á, hvernig ráðning Margeirs í slíkt starf hefði horft við gagnvart áfrýjanda.

Í bréfi skólastjóra til áfrýjanda 28. september 1994 kemur fram, að á fundi skólanefndar Reykholtsskóla 12. sama mánaðar hefði meðal annars verið fjallað um ráðningu kennara við skólann, en ekki hefði verið mælt með umsókn áfrýjanda frá       3. mars 1994. Þá er sagt, að forsendur fyrir ráðningu kennara við skólann hafi breyst frá því, sem áætlað hafi verið, þegar auglýst hafi verið um vorið, því að fastráðnir kennarar skólans hafi aukið við sig kennslu. Þetta fær stoð í þeirri fundargerð skólanefndar, sem lögð hefur verið fram. Hins vegar greindu skólastjóri og formaður skólanefndar undanþágunefnd grunnskóla frá því í trúnaðarbréfi daginn eftir, þegar rökstudd var beiðni um undanþágu fyrir Margeir Ingólfsson til að kenna í 11 til 15 kennslustundir, að skólastjóri og skólanefnd væru að vandlega athuguðu máli „sammála um að Hrefna Markan Harðardóttir er ekki heppilegur starfskraftur við Reykholtsskóla og ekki líkleg til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þess kennara sem hefur með höndum íþróttakennslu og umsjón með Laugarvatnsferðum.“ Þeirri staðhæfingu áfrýjanda hefur ekki verið hnekkt, að hún hafi fyrst fengið að vita um efni þessa bréfs á árinu 1996. Vitneskja um það fyrr gat vissulega varðað áfrýjanda miklu og haft áhrif á það, til hverra ráða hún teldi sig þurfa að grípa. Þegar til þess er litið, hvernig ráðningarmál kennara skipuðust við Reykholtsskóla haustið 1994, meðal annars með afturköllun á undanþágubeiðni fyrir Margeir Ingólfsson, verður þessi óvandaða stjórnsýsla við skólann þó ekki talin geta ein og sér bakað stefnda íslenska ríkinu fébótaskyldu.

Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. þágildandi laga nr. 49/1991 um grunnskóla réð sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar þá starfsmenn skóla, er töldust starfsmenn sveitarfélaga, í samráði við skólastjóra. Fyrir liggur, að stefndi Biskupstungnahreppur réð Margeir Ingólfsson sem stuðningsfulltrúa við Reykholtsskóla þetta skólaár, en ágreiningur er um, hvort og að hverju marki hann sinnti kennslu samhliða öðrum störfum við skólann. Gögn málsins veita ekki óyggjandi vísbendingu um þetta. Þó er óumdeilt, að hann tók við nokkurri forfallakennslu, eftir að fastráðinn kennari veiktist í lok nóvember 1994, en það er utan við grundvöll þessa máls. Við úrlausn málsins er að því að gæta, að Margeir var ráðinn í annað starf en áfrýjandi hafði sótt um og við þá ráðningu reyndi ekki á ákvæði laga nr. 48/1986.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Ekki er rétt að ákvarða bæði menntamálaráðuneytinu og ríkissjóði málskostnað úr hendi áfrýjanda, en 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að skýra svo, að íslenska ríkið sé í dómsmálum í fyrirsvari fyrir ríkissjóð og einstök ráðuneyti og verði þeirri aðild ekki skipt. Eftir atvikum þykir hins vegar rétt, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.


Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

Samkvæmt gögnum málsins tóku fyrirsvarsaðilar Reykholtsskóla ákvörðun um að ráða fjóra kennara til skólans skólaárið 1994-1995 og ráða jafnframt Margeir Ingólfsson sem leiðbeinanda til stundakennslu og fleiri starfa, auk þess sem Sigurður Guðmundsson yrði ráðinn sem leiðbeinandi eftir tilteknu starfshlutfalli. Var þetta meðal annars staðfest á fundi skólanefndar 12. september 1994. Gagnvart áfrýjanda hefði þetta ekki komið að sök, ef undanþága hefði fengist fyrir Margeir til leiðbeinandastarfans, en því var ekki að heilsa. Var umsókn til undanþágunefndar grunnskóla afturkölluð, þegar viðvörun barst þess efnis. Í staðinn var brugðið á að ráða Margeir til skólans sem svonefndan stuðningsfulltrúa á kostnað Biskupstungnahrepps, auk þess sem réttindakennarar höfðu tekið á sig aukna kennslu. Einnig virðist starfshlutfall Sigurðar hafa verið aukið, en atvik að því hafa ekki verið skýrð.

Úrslit máls þessa velta einkum á því, hvort sýnt megi telja, að Margeiri Ingólfssyni hafi í raun verið falin kennsla sem leiðbeinanda án undanþágu, í trássi við lögbundin réttindi kennara. Hefur áfrýjandi leitt líkur að því, að þetta hafi gerst, með vísan til síðfenginna stundataflna og fleiri gagna, og er þá ekki átt við störf hans í forföllum fastráðins kennara. Sönnunarstaða stefndu að þessu leyti er og veikari en ella vegna þess, að fram kemur í trúnaðarbréfi með hinni afturkölluðu umsókn, að Margeir hafi starfað sem leiðbeinandi og forfallakennari við skólann næstu fimm ár þar á undan við góðan orðstír. Að öllu athuguðu verður að líta svo á, að stefndu eigi að bera hallann af því, að þetta er ekki fullsannað, enda varðar álitaefnið framgöngu fulltrúa þeirra sjálfra. Verður þá að álykta, að réttur hafi verið brotinn á áfrýjanda, og eigi stefndu þar báðir hlut að máli.

Samkvæmt þessu ber áfrýjanda réttur til bóta úr hendi beggja stefndu óskipt. Eftir úrslitum málsins eru ekki efni til að fjalla um fjárhæð bótanna, en auk þeirra ber stefndu að greiða henni hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 25. júní 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. maí 1999, er höfðað af Hrefnu Markan Harðardóttur, kt. 180342-7619, Einholti 1, Biskupstungum, með stefnu birtri 21. janúar 1998 á hendur menntamálaráðuneytinu, kt. 460269-2969, Sölvhólsgötu 4, Reykjavík, ríkissjóði, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík og  Biskupstungnahreppi, kt. 460169-7479, Aratungu, Biskupstungum.

Af hálfu stefnanda eru gerðar þær dómkröfur að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 3.696.710 auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1995 til stefnubirtingardags, en dráttarvaxta samkvæmt 10. gr. sbr. 12. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, sem reiknist af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og almennra vaxta. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Af hálfu stefndu menntamálaráðuneytisins og ríkissjóðs eru gerðar þær dómkröfur að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður að mati réttarins. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda og að í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

Af hálfu stefnda Biskupstungnahrepps eru gerðar þær dómkröfur að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda lægri fjárhæð. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

I.

Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um bætur fyrir tjón sem hún hafi orðið fyrir vegna þess að hún var ekki ráðinn kennari að Reykholtsskóla í Biskupstungnahreppi, þrátt fyrir að hún hefði full kennsluréttindi, en þess í stað hafi verið ráðnir leiðbeinendur, þ.e.a.s. menn án kennsluréttinda.

Atvik að baki máli eru þau að í marsmánuði 1994 sótti stefnandi um kennarastöðu við Reykholtsskóla í Biskupstungnahreppi, fyrir skólaárið 1994-1995. Sumarið 1994 var auglýst eftir kennurum til starfa við skólann og sóttu fimm kennarar um. Um sumarið voru fjórir kennarar ráðnir að skólanum og var stefnandi ekki einn af þeim. Skólastjóraskipti urðu við skólann í byrjun september er Kristinn M. Bárðarson tók við stjórn skólans. Hann mælti ekki með umsókn stefnanda sbr. áritun hans á umsókn stefnanda þar að lútandi sem dagsett er 12. september 1999. Á fundi skólanefndar sama dag var samþykkt samhljóða að mæla ekki með umsókn stefnanda.

Með bréfi dagsettu 14. september 1994 sótti skólastjóri um heimild undanþágunefndar grunnskóla til að ráða Margeir Ingólfsson sem leiðbeinanda að skólanum fyrir skólaárið 1994-1995. Áætlað var að hann kenndi valgreinar og íþróttir og annaðist stuðningskennslu, alls 11-15 tíma. Fræðslustjóri samþykkti umsóknina 15. s.m.

Með bréfi Kristins M. Bárðarsonar skólastjóra og Guðmundar Ingólfssonar formanns skólanefndar, dagsettu 21. september 1994, var fræðslustjóra Jóni Hjartarsyni tilkynnt um þá ákvörðun  skólastjóra og skólanefndar að mæla ekki með umsókn stefnanda. Hinn 26. s.m. ritar fræðslustjóri svohljóðandi athugasemd á umsóknina: "Að höfðu samráði við skólastjóra tel ég skýringar hans fullnægjandi á afstöðu skólanefndar og því samþykkur áliti hennar."

Með bréfi dagsettu 28. september 1994 tilkynnti skólastjóri stefnanda að ekki hefði verið mælt með umsókn hennar. Í bréfinu er vísað til þess að forsendur fyrir ráðningu kennara við skólann hafi breyst frá því sem áætlað hafi verið þegar auglýst var  um vorið, því fastráðnir kennarar skólans hafi aukið við sig kennslu.  

Næsta dag eða hinn 29. september 1994 rituðu skólastjóri og formaður skólanefndar undanþágunefnd grunnskóla bréf vegna umsóknarinnar um heimild til að ráða Margeir Ingólfsson. Í bréfinu segir m.a.: "Að vandlega athuguðu máli eru skólanefnd og skólastjóri sammála um að Hrefna Markan Harðardóttir er ekki heppilegur starfskraftur við Reykholtsskóla og ekki líkleg til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þess kennara sem hefur með höndum íþróttakennslu og umsjón með Laugarvatnsferðum. Á síðastliðnum vetri komu upp alvarleg vandamál í Laugarvatnsferðum (m.a. einelti), sem verður að bregðast strax við af festu og ábyrgð."

Með bréf til undanþágunefndar dagsettu 14. október 1994 afturkallaði skólastjóri umsóknina um heimild til að ráða Margeir Ingólfsson sem leiðbeinanda. Ástæða fyrir afturkölluninni er tilgreind sú að fjárheimildir þær sem fræðslustjóri hafi úthlutað Reykholtsskóla til kennslu fyrir skólaárið séu fullnýttar.

Margeir Ingólfsson var þannig ekki ráðinn sem leiðbeinandi að Reykholtsskóla skólaárið 1994-1995. Hins vegar liggur fyrir að Sigurður Guðmundsson leiðbeinandi var ráðinn að skólanum umrætt skólaár með samþykki undanþágunefndar grunnskóla.

Margeir var hins vegar ráðinn af Biskupstungnahreppi sem stuðningsfulltrúi við skólann umrætt skólaár og er upplýst er að hann hafi sem slíkur annast forfallakennslu ásamt öðrum kennara og skólastjóra í forföllum Renötu Vilhjálmsdóttur kennara sem veiktist skyndilega í lok nóvember 1994 og að hann hafi fengið sem svaraði 33.19 % launa fyrir hana frá 1. des. 1994 til 31. maí 1995.

 

 II.

Kröfur stefnanda eru byggðar á því að Kristinn M. Bárðarson skólastjóri hafi lagt á ráðin og tekið þátt í að hafna stefnanda sem kennara og fá í hennar stað leiðbeinendur við skólann án samþykkis undanþágunefndar. Slíkt sé brot á lögum nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, sbr. 1. gr., 4. gr., a-lið 2. mgr. 7. gr. og 13. gr. En einnig brot á 5. mgr. 11. gr. sömu laga um að taka skuli tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni.

Þá hafi skólastjórinn tekið þátt í því að segja stefnanda ósatt í bréfi þann 28. september 1994 með því að tjá henni í raun að skólinn þarfnaðist hennar ekki þar sem fastráðnir hefðu aukið við sig kennslu. Ljóst sé hins vegar af bréfinu til undanþágunefndar sem ritað var daginn eftir, þar sem m.a. komi fram að skólastjóri og skólanefnd séu sammála um að stefnandi sé ekki heppilegur starfskraftur við Reykholtsskóla, að allt annað var á ferðinni. Með bréfinu til stefnanda hafi skólastjórinn þannig verið að slá ryki í augu stefnanda til að koma í veg fyrir að hún fylgdi eftir rétti sínum og að hún yrði fyrir réttarspjöllum. Auk þess sem þetta sé brot á ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins og öllum grundvallarreglum hans, sé athæfið tilraun til þess að koma í veg fyrir að stefnandi neyti andmælaréttar síns skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 22. gr. um efni rökstuðnings. En einnig varði þetta við 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Loks hafi skólastjórinn tekið þátt í því ólögmæta athæfi að ráða á vegum sveitarfélagsins Margeir Ingólfsson undir fölsku flaggi (kallaður stuðningsfulltrúi) utan valdmarka sveitarfélagsins.

Allt framangreint sé samfelld tilraun til að koma í veg fyrir að á umsókn stefnanda yrði tekið með lögmætum hætti auk þess sem hvert ofangreindra atriða fyrir sig myndi leiða til skaðabótaábyrgðar.

Íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð á gerðum skólastjórans enda sé hann ráðinn af menntamálaráðuneytinu.

Á því er einnig byggt að formaður skólanefndar Guðmundur Ingólfsson hafi tekið þátt í því með skólastjóra að hindra ráðningu stefnanda og stuðla að því að Margeir Ingólfsson var ráðinn. Sveitarfélagið beri ábyrgð á störfum skólanefndar sem valin er af því sbr. 18. og 19. gr. laga nr. 49/1991.

Þá er byggt á því að Biskupstungnahreppur hafi staðið fyrir því að ráða leiðbeinanda undir fölsku flaggi til þess að sinna kennslustörfum án þess að leita til undanþágunefndar, í trássi við lög og rétt.

Í öðru lagi hafi hrepppurinn farið út fyrir valdmörk sín og lagaheimildir sem stjórnvald. Á þessum tíma hafi það verið verkefni ríkisins að ráða kennara og aðra leiðbeinendur til starfa, sbr. 34. gr. laga nr. 49/1991. Það sé grundvallarregla stjórnsýsluréttar að stjórnvöld geti ekki farið út fyrir valdsvið sitt og alls ekki inn á valdsvið annarrra stjórnvalda skv. 3. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Biskupstungnahreppur hafi brotið lög með þeim afleiðingum að stefnandi varð af starfi sem hún sótti um.

Loks er byggt á því að fræðslustjórinn Jón Hjartarson hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. stjórnsýslulögum eða eftirlitsskyldu skv. lögum nr. 49/1991, m.a. 15. gr. laganna.

Stefnandi byggir á að hinar ólögmætu athafnir stefndu séu saknæmar og valdníðsla og af þeim orsökum hafi stefnandi orðið fyrir verulegu tjóni. Löng dómvenja sé fyrir því að stjórnvöld beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af ólögmætum athöfnum þeirra eða athafnaleysi leiðir.  Þá er á því er byggt að Gísli Einarsson, þáverandi oddviti hafi vanhæfur tekið þátt í afgreiðslu málsins og ákvarðanatöku sbr. 45. gr. sveitastjórnarlaga nr. 8/1986, þar sem Margeir Ingólfsson sé systursonur hans, en það hafi verið meðvirkandi þáttur í valdníðslunni.

 

Annars vegar krefur stefnandi um þau laun sem hún hefði haft skólaárið 1994-1995, samtals kr. 1.401.231, og hins vegar kr. 2.500.000 fyrir annað fjártjón og miska skv. því sem á eftir greinir. 

Tjón vegna missis kennaralauna skólaárið 1997-1998 er sundurliðað svo í stefnu:

Mánaðarlaun

1.217.125

Desemberuppbót

 24.775

Orlofsuppbót

 8.000

Lágmarksupphæð orlofsfjár      

6.809

Árslaun

1.256.709

Töpuð lífeyrisréttindi  

144.522

Samtals

1.401.231

 

Kröfu þessa lækkaði stefnandi í kr. 1.196.710 og kveðst þar taka til frádráttar atvinnuleysisbætur er henni hafa verið greiddar.

Að því er varðar hin töpuðu lífeyrisréttindi þá telur stefnandi rétt að miðað sé  við framlag launagreiðanda í A-deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en framlag stefnanda sjálfrar hefði verið 4%.

Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir verulegum miska sem hún eigi rétt á að fá bættan skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Byggir stefnandi á því að hinar ólögmætu athafnir sveitarfélagsins séu jafnframt meingerð gegn æru og persónu hennar og feli í sér verulegar þjáningar s.s. sársauka, niðurlægingu, skerta sjálfs­mynd, minni lífsgleði, skerta sjálfsvirðingu og kjarkleysi og röskun á stöðu og högum. Telur stefnandi sig því eiga rétt til miskabóta. Telur stefnandi það auka á miskann að brotið er framið af stjórnvöldum.  Gerir stefnandi kröfu um 2.500.000 fyrir fjártjón og miska þar sem erfitt sé að greina miskann frá fjártjóni að því er varðar röskun á stöðu og högum, enda sé brot stefnda til þess fallið að valda stefnanda vandræðum við að sækja um starf í skólum, t.d. í nágrenninu, þar sem orðstír hennar hafi beðið verulegan hnekki og erfitt sé fyrir hana að bera hönd fyrir höfuð sér í þeim efnum.

Telur stefnandi, að því er varðar bætur fyrir tapaðan orðstír, að ljóst sé að gerðir stefndu séu til þess fallnar að valda fjártjóni í framtíðinni og útilokað sé að sanna umfang tjónsins. Við slíkar aðstæður sé ekki brugðið á það ráð í íslenskum rétti að sýkna vegna sönnunarskorts.  Á því er byggt með vísan til 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., 86. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og 77. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, að í íslenskum rétti sé til réttarregla sem er á þá leið að sá sem verður fyrir tjóni eða skaðabótaskyldum verknaði, sem er til þess fallinn að valda tjóni, eigi rétt til bóta sem taki mið af því að tjónið verði örugglega fullbætt. Regla þessi fái stuðning í dómvenju.

Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. og 130. gr.   

 

III.

Af hálfu stefndu menntamálaráðuneytisins og ríkissjóðs er öllum málsástæðum stefnanda vísað á bug og á því byggt að ekki verði betur séð en að þær séu allar byggðar á misskilningi. Í stuttu máli séu atvik málsins þannig að á árinu 1994 hafi fræðsluskrifstofa Suðurlands auglýst kennslustarf við Reykholtsskóla í Biskupstungum, þrátt fyrir að ekki lægi fyrir á þeim tíma hvaða kennarar myndu verða áfram við skólann. Fimm kennarar hafi sótt um stöðuna, auk þess sem að fyrir hafi legið umsókn frá stefnanda. Fjórir af sex umsækjendum hafi verið ráðnir að skólanum um sumarið, en hvorki skólastjóri né skólanefnd  hafi mælt með umsókn stefnanda og hafi fræðslustjóri tekið undir álit þeirra. Skólastjóraskipti hafi orðið að skólanum í byrjun september og hafi verið ákveðið að bíða með að ráða fleiri kennara þar til að þeim loknum. Í upphafi skólaárs hafi komið fram hjá fastráðnum kennurum í hlutastarfi að þeir vildu gjarnan auka við sig kennslu og því hafi ekki fleiri kennarar verið ráðnir að skólanum þetta haust. Hafi stefnanda verið tilkynnt um þetta með bréfum 28. september 1994 og 3. nóvember s.á. Hinn 14. september hafi skólastjóri sótt um heimild til að ráða Margeir Ingólfsson leiðbeinanda skólaárið 1994-1995. Hinn 14. október hafi skólastjóri afturkallað umsóknina og þar með hafi lokið afskiptum menntamálaráðuneytisins að málinu.

Af hálfu stefndu er á því byggt að misskilnings gæti í málshöfðun stefnanda. Ljóst sé að fjórir af sex kennurum er sóttu um kennarastöður hafi verið ráðnir. Enginn leiðbeinandi hafi verið ráðinn í auglýsta kennarastöðu. Úr lausu lofti sé gripið að Margeir Ingólfsson hafi gengt auglýstri kennarastöðu. Því sé ekki um það að ræða að lög nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra hafi verið brotin.

Þá er á því byggt að það sé rétt sem fram komi í bréfi skólastjóra til stefnanda að aðrir kennarar við skólann hafi bætt á sig kennslu þannig að ekki hafi verið þörf á að ráða fleiri kennara. Bréf skólastjóra og formanns skólanefndar til undanþágunefndar frá 29. september skipti hér engu máli enda hafi það verið afturkallað og engin réttaráhrif haft og skapi ekki bótaskyldu.

Sú málsástæða stefnanda að skólastjórinn hafi tekið þátt í því með sveitarfélaginu að ráða Margeir Ingólfsson sé órökstudd og torskilið hvernig hún eigi að geta tengst stefnda ríkissjóði. Skólastjóri hafi einnig skyldum að gegna gagnvart sveitarfélagi. Athafnir hans sem gerðar séu á vegum sveitarfélags skapi ekki bótaskyldu hjá ríkissjóði.

Stefndu vísa á bug þeirri málsástæðu stefnanda að fræðslustjóri hafi ekki rækt skyldur sínar. Málsástæðan byggi enn á þeim misskilningi að Margeir Ingólfsson hafi verið ráðinn sem leiðbeinandi. Áritun fræðslustjóra á umsókn stefnanda þar sem segir "Að höfðu samráði við skólastjóra tel ég skýringar hans fullnægjandi á afstöðu skólanefndar og því samþykkur áliti hennar" beri með sér að sérstök athugun hafi farið fram.

 

Af hálfu stefnda Biskupstungnahrepps er mótmælt þeirri staðhæfingu stefnanda sem fram kemur í stefnu að stefndi hafi staðið fyrir því að ráða leiðbeinanda til Reykholtsskóla. Ráðning starfsmanns til sveitarfélags geti á engan hátt bakað stefnanda bótarétt á hendur stefnda enda ekki samhengi milli hennar og ráðningar kennara til Reykholtsskóla á vegum og ábyrgð ríkisins. Fullyrðingum stefnanda um að forsvarsmenn Biskupstungnahrepps hafi sýnt af sér valdníðslu er mótmælt sem órökstuddum.

Á þeim tíma sem kröfugerð stefnanda beinist að hafi rekstur Reykholtsskóla verið á ábyrgð og kostnað ríkisins og Biskupstungnahreppur enga fjárhagslega ábyrgð borið á rekstrinum, þ.m.t. ráðningum kennara. Ráðning Margeirs Ingólfssonar í starf gæslumanns og það að nemendur ÍKÍ á Laugarvatni stunduðu að einhverju leyti íþróttakennslu geti ekki bakað stefnanda bótarétt á hendur Biskupstungnahreppi.

Eins og stefnandi leggi fram kröfu sína sé gert ráð fyrir að stefnandi hafi ekki getað haft aðrar tekjur en af kennslu. Því sé mótmælt sem órökstuddu í ljósi þess að stefnandi reki ásamt eiginmanni sínum kúabú með yfir 30 kúm og yfir 100.000 lítra mjólkurkvóta. Auk þess sem að við kröfugerðina sé ekki tekið tillit til hinnar almennu skyldu sem stefnanda beri til þess að takamarka hið meinta tjón sitt.

Vísar stefndi einnig til þeirra sjónarmiða sem fram koma hjá meðstefnda ríkinu.

 

IV.

Kristinn M. Bárðarson skólastjóri greindi frá því fyrir dóminum að þar sem fastráðnir kennarar hefðu bætt við sig kennslu hafi ekki verið þörf á að ráða fleiri kennara. Fyrir hafi legið að Margeir Ingólfsson yrði ráðinn af Biskupstungnahreppi sem stuðningsfulltrúa að skólanum, en veturinn áður höfðu komið upp alvarleg vandamál m.a. einelti í Laugarvatnsferðum og hafi Margeir, sem var öllum hnútum kunnugur, verið talinn sérstaklega vel til þess fallinn að takast á við þau mál. Þá hafi verið einhugur um að hann yrði tilsjónarmaður með dreng. Ekki hafi verið um hátt stöðuhlutfall að ræða þannig að vilji hafi staðið til að hann kenndi einnig nokkra tíma á viku. Hafi skólastjóri og skólanefnd verið á einu máli um að mæla með honum sem leiðbeinanda og hafi fræðslustjóri verið því samþykkur. Ætlunin hafi verið að hann yrði annars vegar stuðningsfulltrúi sem sveitarfélagið greiddi allan kostnað af og hins vegar stundakennari í örfáum tímum. Því hafi verið farið fram á heimild undanþágunefndar til að ráða hann. Til hafi staðið að hann kenndi yngstu börnunum íþróttir í 10 tíma og 4.-5. bekk náttúrufræði. En áður en að undanþágunefnd hafi afgreitt umsóknina hafi hins vegar komið í ljós að tímakvóti skólans var búinn, andstætt því sem talið hafði verið og hafi misskilningur valdið því. Því hafi umsóknin verið afturkölluð. Þetta hafi leitt til þess að íþróttakennsla yngstu barnanna hafi fallið niður. Hins vegar hafi Margeir verið ráðinn sem stuðningsfulltrúi að skólanum og hafi hann sem slíkur haft með höndum gæslu með nemendum t.d. í frímínútum, hádegi og ferðum á Laugarvatn. Þá hafi hann verið tilsjónarmaður með einum nemanda og verið honum m.a. til aðstoðar í kennslustundum. Loks hafi hann kennt tilfallandi forfallakennslu. Þannig hafi Margeir ásamt öðrum kennt í forföllum kennarans Renötu sem veikst hafi um veturinn. Staða hennar hafi ekki verið auglýst þar sem ekki hafi verið fyrirséð hversu lengi hún yrði frá vinnu, hins vegar hafi bati hennar orðið mjög hægur og hún verið frá kennslu það sem eftir var skólaársins.

Margeir Ingólfsson kvaðst umræddan vetur hafa verið ráðinn sem stuðningsfulltrúi að skólanum. Í starfi hans hafi fyrst og fremst verið fólgið að sjá um gæslu í skólanum og í Laugarvatnsferðum, sem hann hafði séð um áður, en þangað hafi eldri krakkarnir farið í íþróttir. En einnig hafi hann gripið inn í forfallakennslu, m.a. hafi hann ásamt skólastjóra kennt í forföllum kennarans Renötu.

Guðmundur Ingólfsson þáverandi formaður skólanefndar kvað skólanefnd hafa hlutast til um að hreppurinn réði Margeir sem stuðningsfulltrúa, en í starfi hans hafi falist gangavarsla og önnur slík störf svo sem aðstoð inni í bekkjum. Þá hafi hann séð um gæslu í Laugarvatnsferðum. Skólanefnd hafi ekkert haft með að gera þá forfallakennslu sem hann hafi annaðst, slíkt sé alfarið á verksviði skólastjóra.

Gísli Einarsson þáverandi oddviti Biskupstungnahrepps kvaðst ekki hafa haft önnur afskipti af ráðningu Margeirs Ingólfssonar, en að staðfesta það sem skólanefnd lagði til.

Jón Hjartarson þáverandi fræðslustjóri skýrði frá því fyrir dóminum að hann hefði leitað eftir skýringum skólastjóra á þeirri afstöðu skólanefndar að mæla ekki með umsókn stefnanda og mat hann skýringarnar fullnægjandi. Hann kvað það hafa verið vinnureglu hjá sér að standa ekki í vegi fyrir því að álits undanþágunefndar væri leitað ef skólastjóri og skólanefnd voru sammála um að óska eftir því.

 

V.

Stefnandi sótti um stöðu kennara við Reykholtsskóla í mars mánuði 1994. Um sumarið var auglýst eftir kennurum við skólann og sóttu þá um 5 kennarar og voru fjórir af þeim ráðnir. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, var heimilt að sækja um undanþágu til að ráða leiðbeinanda að skóla ef enginn þeirra sem um umsóknir fjallaði treysti sér til að mæla með ráðningu umsækjanda sem hafði réttindi. Fyrir liggur að hvorki skólastjóri né formaður skólanefndar mæltu með umsókn stefnanda. Aftur á móti voru þeir sammála um að sækja um heimild til undanþágunefndar grunnskóla til að ráða Margeir Ingólfsson sem leiðbeinanda að skólanum til að kenna 11-15 tíma og var fræðslustjóri því samþykkur. Ekki reyndi á afstöðu undanþágunefndar til umsóknarinnar þar sem umsóknin var afturkölluð því í ljós kom að ætlaður tímakvóti skólans var fullnýttur, en það hafði það í för með sér að sögn skólastjóra að fella varð niður íþróttakennslu yngstu barnanna. Hins vegar liggur fyrir að Sigurður Guðmundsson var ráðinn að skólanum sem leiðbeinandi skólaárið 1994-1995 með samþykki undanþágunefndar.

Sú málsástæða stefnanda að fræðslustjóri hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni eða eftirlitsskyldu samkvæmt lögum er órökstudd og verður ekki á henni byggt, en fræðslustjóri hefur borið að hann hafi leitað eftir skýringum á þeirri afstöðu skólastjóra og formanns skólanefndar að mæla ekki með umsókn stefnanda og metið skýringar þeirra fullnægjandi.

Með bréfi Kristins M. Bárðarsonar skólastjóra dagsettu 28. september 1994 var stefnanda tilkynnt að ekki hefði verið mælt með umsókn hennar um kennarastöðu og það jafnframt tekið fram að forsendur fyrir ráðningu kennara við skólann hefðu breyst þar sem fastráðnir kennarar skólans hafi aukið við sig kennslu. Byggir stefnandi á því að skólastjórinn hafi með bréfinu tekið þátt í að segja henni ósatt, með því að tjá henni í raun að skólinn þarfnaðist hennar ekki. Ljóst sé hins vegar af bréfi hans og formanns skólanefndar, sem ritað hafi verið undanþágunefnd daginn eftir, þar sem fram komi m.a. að hún sé ekki heppilegur starfskraftur fyrir Reykholtsskóla, að allt annað var á ferðinni.

Ekkert liggur fyrir í málinu um að staðhæfingar í tilvitnuðu bréfi um að fastráðnir kennarar hafi bætt við sig kennslu séu rangar, en á það er að líta að ekki voru fleiri kennarar ráðnir að skólanum umrætt skólaár en fjórir af þeim sex sem sóttu um. Samkvæmt því og þar sem ráð var fyrir því gert að Margeir yrði ráðinn að skólanum sem leiðbeinandi verður ekki séð að skólinn hafi þarfnast starfskrafta stefnanda á þeim tíma þegar skólastjóri ritaði henni bréfið 28. september 1994. Verður því ekki fallist á að skólastjóri hafi tekið þátt í að segja stefnanda ósatt í bréfi sínu.

Umsóknin um að ráða Margeir var afturkölluð áður en undanþágunefnd tók afstöðu til hennar. Ástæður þær sem tilgreindar eru í bréfinu til undanþágunefndar frá 29. september fyrir því hvers vegna óskað var eftir að ráða Margeir en ekki stefnanda höfðu því engin engin réttaráhrif.

Stefnandi byggir á því að Margeir hafi verið ráðinn sem leiðbeinandi að skólanum án samþykkis undanþágunefndar. Sú málsástæða stefnanda er haldlaus þar sem í málinu er upplýst að Margeir var ráðinn að skólanum af Biskupstungnahreppi sem stuðningsfulltrúi. Í starfi hans sem slíks fólst m.a. að annast gæslu nemenda t.d. í frímínútum, hádegi og ferðum á Laugarvatn.

Ósönnuð er sú staðhæfing stefnanda að skólastjóri hafi tekið þátt í að ráða Margeir á vegum sveitarfélagsins undir fölsku flaggi til að sinna kennslustörfum. Sömuleiðis að formaður skólanefndar hafi tekið þátt í því með skólastjóra að hindra ráðningu stefnanda og stuðla að ráðningu Margeirs.

Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. þágildandi laga nr. 49/1991 um grunnskóla réð sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar þá starfsmenn skóla er töldust starfsmenn sveitarfélaga í samráði við skólastjóra. Var Biskupstungnahreppi þannig heimilt að ráða Margeir sem stuðningsfulltrúa að skólanum og fór ekki út fyrir valdmörk sín við ráðningu hans.

Fyrir liggur að Margeir er systursonur Gísla Einarssonar þáverandi oddvita Biskupstungnahrepps. Ekkert annað liggur fyrir í málinu um afskipti Gísla af ráðningu Margeirs en framburður hans sjálfs um að hann hafi ekki haft önnur afskipti af ráðningu Margeirs en að staðfesta ráðningu hans eins og hún var lögð fyrir hann af skólastjóra og skólanefnd. Verður ekki úr því leyst í máli þessu hvort oddvitanum hafi borið að víkja sæti við afgreiðslu ráðningar Margeirs sem starfsmanns Biskupstungnahrepps, enda verður ekki litið svo á að úrlausn um það atriði hafi áhrif á niðurstöðu máls þessa.

Upplýst er að skólastjóri fól Margeiri ásamt öðrum kennslu í forföllum kennarans Renötu Vilhjálmsdóttur umrætt skólaár. Var honum það heimilt þar sem veikindi Renötu bar fyrirvaralaust að. Veikindi Renötu urðu hins vegar að sögn skólastjóra langvinnari en fyrir varð séð og kom hún ekki aftur til kennslu umrætt skólaár. Í máli þessu verður ekki leyst úr því hvort og eftir atvikum hvenær borið hafi að auglýsa stöðu Renötu þar sem það er utan við grundvöll máls þessa.

Að öllu framangreindu virtu verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefndu menntamálaráðuneytinu, ríkissjóði og Biskupstungnahreppi hverjum fyrir sig málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómara. Dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning málsins óþarfan.

Dómsorð:

Stefndu, menntamálaráðuneytið, ríkissjóður og Biskupstungnahreppur eru sýkn af öllum kröfum stefnanda, Hrefnu Markan Harðardóttur í máli þessu.

Stefnandi, Hrefna Markan Harðardóttir greiði stefndu, menntamálaráðuneytinu, ríkissjóði og Biskupstungnahreppi hverjum fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað.